Að ljúga með þögninni

Mörður Árnason reynir að réttlæta svör Gylfa Magnússonar vegna fyrirspurnar Ragnheiðar Ríkharðsdóttur á Alþingi um myntkörfulánin, sem hún sagði að væru með íslenskan höfuðstól, en gengisviðmiðun og spurði ráðherrann hvort hann teldi slík lán lögleg.

Gylfi sagði að það væri samdóma álit lögfræðinga innan ráðuneytis og utan að lán í erlendri mynt væru lögleg, en svaraði ekki spurningu Ragnheiðar sem slíkri.  Þetta heitir víst ekki að ljúga, en er a.m.k. hálfsannleikur, sem nú heitir að afvegaleiða Alþingi.  Gylfi segist ekki hafa séð önnur lögfræðiálit um "gengislánin" en álit lögfræðings ráðuneytisins, en hann virðist ekki einu sinni hafa lesið það álit, því þar kemur skýrt fram, að lögmæti gengislánanna orki tvímælis, en dómstóla þurfi til að skera úr um þau.  Þetta álit má sjá á vef Viðskiptaráðuneytisins.

Lokaniðurstaða lögfræðiálits Viðskiptaráðuneytisins er þessi:

4. Niðurstaða

4.1. Heimild til lánveitinga í erlendri mynt, tengdum gengi erlendra gjaldmiðla

Hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki fæst séð að önnur löggjöf komi til álita í þessu samhengi og er það því niðurstaða undirritaðrar að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmætar.

Lög nr. 38/2001 taka af skarið um það að verðtrygging á lánum í íslenskum krónum er aðeins heimil ef grundvöllur verðtryggingarinnar er vísitala neysluverðs. SRP Page 6

Hins vegar kann það að vera álitaefni hvort lánssamningur er raunverulega í íslenskum krónum eða í erlendum gjaldmiðli. Niðurstaða veltur á atvikum hverju sinni, efni samnings og atvikum við samningsgerð og eiga dómstólar lokaorðið um hana.

4.2. Ógilding staðlaðra samningsákvæða um mynt lánsfjár og tengingu við erlent gengi

Um ógildingu staðlaðra samningsskilmála gilda ákvæði 36. gr. a.-d. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Samkvæmt þeim skulu stöðluð samningsákvæði m.a. vera á skýru og skiljanlegu máli og allan vafa varðandi túlkun slíkra samningsákvæða skal skýra neytanda í hag.

Tekið er sérstaklega fram í 2. mgr. 36. gr. c. að ef skilmála sem telst ósanngjarn er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skuli samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans. Ef dómstóll kemst að þeirri niðurstöðu að ógilda beri ákvæði lánssamnings í íslenskum krónum (eða lánssamnings sem túlka má þannig að sé í raun og veru í íslenskum krónum) er ljóst að samningurinn verður efndur án þess (lægri afborganir en ella) – og væntanlega myndu a.m.k. margir neytendur gera kröfu til þess (í stað uppgreiðslu). Af hefðbundnum kröfuréttarreglum leiðir að sannanleg skuld lántaka við lánveitanda hverfur ekki, hins vegar kunna samningskjör endurgreiðslu að koma til endurskoðunar.

Ef á reyndi myndi dómstóll væntanlega kveða á um það við hvað sanngjarnt væri að miða í staðinn fyrir ógilda gengistryggingu láns í íslenskum krónum (t.d. verðtryggingu, þ.e. þróun vísitölu neysluverðs á lánstímanum). Fordæmisgildi slíkrar dómsniðurstöðu takmarkast við sambærilega staðlaða lánssamningsskilmála (og atvik við samningsgerð)."

Hafi Gylfi lesið álit síns eigin lögfræðings, þá var hann að minnsta kosti ekki að segja allan sannleikann um málið og það hefur hann í raun viðurkennt núna, eftir fjaðrafokið sem orðið hefur um svar hans í þinginu.

Það er nefninlega líka hægt að ljúga með þögninni.


mbl.is Fráleitt að Gylfi hafi logið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Nákvæmlega.  Merkilegt að hann las bara hluta niðurstaðna 4. kafla minnisblaðsins, en sleppti því sem spurning Ragnheiðar var um.  Eins og ég hef bent á er minnisblað Sigríðar Rafnar mjög vandað og ítarlegt, þegar kemur að álitamálinu varðandi gengistrygginguna.

Marinó G. Njálsson, 15.8.2010 kl. 14:22

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg rétt, Marinó, að minnisblað Sigríðar Rafnar var vandað og þar var farið yfir þessi álitaefni.  Gylfi fól henni sjálfur að skrifa þessa skýrslu, til undirbúnings svars hans til Alþingis og með því að skauta fram hjá spurningu Ragnheiðar Ríkharðsdóttur var hann að minnsta kosti að leyna mikilvægum upplýsingum og þar að auki er hægt að ljúga með þögninni.

Hvað sem veldur því hvernig Gylfi svaraði, þá er málið grafalvarlegt fyrir ríkisstjórnina alla.

Axel Jóhann Axelsson, 15.8.2010 kl. 17:52

3 identicon

Lögfræðingur viðskiptaráðuneytisins: 

Hvorki lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 né lög um neytendalán nr. 121/1994 banna lánveitingar í erlendri mynt, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla. Ekki fæst séð að önnur löggjöf komi til álita í þessu samhengi og er það því niðurstaða undirritaðrar að lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum, tengdar gengi erlendra gjaldmiðla, séu ekki ólögmætar.

Umsögn. 

Lánveitingar í erlendum gjaldmiðlum og lánveitingar í íslenzkum krónum eru hliðstæðar að því leyti að gengi krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum hefur ekkert með slík lán að gera.

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 16.8.2010 kl. 20:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband