Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2010
19.8.2010 | 13:29
Ofstækisöflum vex sífellt fiskur um hrygg
Það er hárrétt hjá Brynjari Níelssyni, sem hann heldur fram um að ofstækisöfl hafi ráðist ómaklega að Björgvini Björgvinssyni, lögreglumanni, fyrir ummæli sem hann lét falla í viðtali, þess efnis að tímabært væri að fólk færi í meira mæli að líta inn á við og taka frekari ábyrgð á gerðum sínum, með því að forðast að verða hálfrænulaust vegna ofdrykkju eða dópneyslu.
Ofstækið braust út í því, að snúa út úr orðum Björgvins og láta líta svo út, að hann hefði verið að kenna fórnarlömbum nauðgana um verknaðinn og að sama skapi verið að verja þann sem glæpinn framdi. Þetta var auðvitað algjör rangtúlkun á orðum Björgvins, sem einfaldlega var að benda á, að þeir sem ekki væru með fullri rænu, ættu frekar á hættu en aðrir, að lenda í klóm óprúttinna glæpamanna og því skyldi fólk forðast ofneyslu vímuefna, af hvaða tagi sem er.
Skömm Ríkislögreglustjóra er mikil fyrir að biðjast afsökunar á varnaðarorðum Björgvins og ekki síður fyrir að flytja hann til í starfi, en Björgvin er annálaður sómamaður og hefur sinnt starfi sínu af stakri trúmennsku, bæði við fórnarlömb nauðgana og yfirboðara sína.
Um þetta var áður búið að fjalla um þetta mál í bloggi og ef einhver hefur áhuga á að kynna sér umræðurnar, sem af því spruttu, má sjá þær HÉRNA
Segir ofstæki ráða ferðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.8.2010 | 10:53
Tilgangslaus yfirheyrsla yfir Sigurði Einarssyni?
Sigurður Einarsson er kominn heim í heiðardalinn og mun heiðra Sérstakan saksóknara með nærveru sinni á skrifstofu hans í dag og spjalla þar um daginn og veginn og þó aðallega veðrið. Sigurður telur þetta vera heppilegan tíma til þessa spjalls, enda búinn að hafa þrjá mánuði til að semja handritið, sem hann mun styðjast við í samræðum sínum við saksóknarann.
Félagar Sigurðar, sem sátu í varðhaldi og sættu yfirheyrslum fyrir þrem mánuðum síðan, eru auðvitað löngu búnir að gefa foringja sínum nákvæma skýrslu um allar þær spurningar sem fyrir þá voru lagðar í yfirheyrslunum, þannig að Sigurður er vel undirbúinn eftir þriggja mánaða yfirlegu yfir því, sem kom fram um vitneskju embættisins um gerðir þeirra félaga. Ekki er heldur að efa, að Sigurður sé búinn að vera í þriggja mánaða þjálfunarbúðum með lögmönnum sínum, til þess að æfa svör við öllum hugsanlegum spurningum sem hugsast getur að fyrir hann verði lagðar og því ekki nokkur hætta á að hann tali af sér, eða bæti nokkru við það sem þegar liggur fyrir um þátttöku hans í stærsta bankaráni sögunnar, sem framið hefur verið innanfrá, eins og gerðir þeirra félaga hafa verið kallaðar.
Sigurður neitaði að mæta til viðræðna við saksóknarann vegna ótta síns við að verða hnepptur í gæsluvarðhald, en stórhöfðingjar láta nú ekki bjóða sér slíkar trakteringar, enda ekki leyfilegt að hafa með sér silkisængurfötin í svoleiðis gistingu, þannig að hann lét ekki sjá sig á landinu, fyrr en hann hafði fengið tryggingu fyrir því, að móttökunefndin í Keflavík væri ekki skipuð lögreglumönnum.
Á Keflavíkurflugvelli tók yfirþjálfari Sigurðar á móti honum, þ.e. Gestur Jónsson, lögmaður, og fór með hann rakleiðis í lokarennsli handritsæfinganna og því er Sigurður nú meira en klár í slaginn við þann sérstaka og mun auðveldlega renna í gegnum rulluna um að allt hafi þetta nú verið Davíð Oddsyni og öðrum álíka illmennum að kenna og hann sjálfur sé einungis fórnarlamb í málinu og eigi í raun rétt á stórkostlegum skaðabótum vegna meðferðarinnar, sem hann hefur mátt þola.
Varðhald í viku mun engu breyta um framburð Sigurðar, til þess er handritið of vel samið og einnig búið að fara í gegnum andlegan undirbúning undir nokkurra daga innilokun án silkináttfata og -rúmfata.
Úr því sem komið var, mátti spara Sigurði farseðilinn til landsins a.m.k. þangað til dómur fellur og langtímagistingin fyrir austan tekur við.
Sigurður mættur í yfirheyrslu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.8.2010 | 08:38
Á elli- og örorkulífeyrir að fjármagna innlimunina í ESB?
Bretar og Hollendingar náðu því í gegn í stjórn Fjárfestingarbanka Evrópu að loka fyrir lánveitingar til Landsvirkjunar vegna þess að þeir hafa ekki enn náð að kúga fram niðurstöðu í Icesave fjárkúguninni gegn íslenskum skattgreiðendum.
Þetta er enn eitt dæmið, sem sýnir að fjárkúgararnir bresku og hollensku svífast einskis í tilraunum sínum til að gera Íslendinga að skattaþrælum sínum til næstu áratuga og hafa til þess stuðning félaga sinna í ESB, þó ekki muni hafa verið alger einhugur innan stjórnar fjárfestingabankans um þátttöku í þessari atlögu að atvinnuuppbyggingu og endurreisn atvinnulífsins hér á landi.
Á sama tíma og ESB tekur þátt í hvers kyns ofbeldi gegn íslenskum hagsmunum, lætur VG Samfylkinguna þvinga sig til þátttöku í innlimunarferli landsins í evrópska stórríkið væntanlega, með undirbúningi upptöku laga og reglna stórríkisins, sem með blekkingum er kallað samningaviðræður, en er ekkert annað en innlimun, sem framkvæmd verður á lymskulegan hátt á næstu misserum.
Hvað ætlar VG að láta svipuhöggin dynja á sér lengi, áður en þeir rífa sig á lappir og segja innlimunarferlinu stríð á hendur og hætta að láta draga sig á asnaeyrunum innfyrir dyrnar á ESB?
Ætlar VG að samþykkja milljarða framlög á fjárlögum næsta árs í kosnað við innlimunarferlið og draga þá peninga af fjárveitingum til heilbrigðismála, skólamála og lífeyri fatlaðra og aldraðra?
Lokað á lán vegna Icesave | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
18.8.2010 | 14:36
Orðalagið "ný verkstjórn" vekur hroll
Hjörleifur Kvaran segir að ekki hafi verið um neinn trúnaðarbrest að ræða milli sín og Haraldar Flosa Tryggvasonar, stjórnarformanns OR og Gnarrvin, enda hafi aldrei myndast neinn trúnaður þeirra á milli. Hjörleifur hafði áður starfað með sex stjórnarformönnum og gengið vel að starfa með þeim, en frá því að trúðarnir tóku völdin í Reykjavík breyttust öll viðhorf og samskipti manna í milli. Nýji stjórnarformaðurinn var ekki ánægður með tillögur til hagræðingar í rekstri fyrirtækisins, en þar var lagt til að tiltölulega hægt yrði farið í uppsagnir starfsfólks og röskun í rekstri yrði sem minnst.
Haraldur Flosi segir að það hafi verið samdóma álit trúðanna í borgarstjórnarmeirihlutanum, að reka þyrfti Hjörleif og "fá nýja verkstjórn" í fyrirtækið vegna ýmissa aðsteðjandi vandamála í rekstrinum og því hafi verið ráðinn nýr bráðabirgðaforstjóri til að taka á langtímavandanum, en þó með því skilyrði að hann yrði ekki ráðinn til framtíðar og var reyndar látinn skrifa undir loforð um að sækja alls ekki um forstjórastólinn, þegar hann yrði auglýstur laus til umsóknar.
Þessi "nýja verkstjórn" setur hroll að fólki, sem minnist þess að núverandi ríkisstjórn sagði einmitt, þegar hún tók við völdum, að nú þyrfti "nýja verkstjórn" í landsmálin og allir vita hvernig sú "nýja verkstjórn" hefur bitnað á þjóðinni og áfram er hótað, að þessari "nýju verkstjórn" verði beitt áfram í ríkisstjórninni.
Hjörleifur Kvaran segir aftur á móti að annar stjórnunarstíll hefði hentað betur í núverandi ástandi, eða eins og hann orðaði það: Það sem þarf núna er styrk stjórn og öflugur forstjóri, en ekki bráðabirgðalausnir."
Maður, með eigin skoðanir hentar ekki í starfslið trúðanna. Hann verður að víkja fyrir "nýrri verkstjórn".
Trúnaður myndaðist aldrei | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
18.8.2010 | 10:50
Óhugnanlegt morð
Nítján morð voru framin á Íslandi á níu ára tímabili á árunum 2000 til 2009 og í nánast öllum tilfellum var um tengsl milli geranda og fórnarlambs og oftast tengdust þessir atburðir ofneyslu áfengis eða fíkniefna. Í aðeins tveim tilfellum var ekki um nein tengsl að ræða milli aðila, en ef rétt er munað, tengdust þau morð einnig ofneyslu vímuefna.
Í mjög langan tíma hefur ekki verið framið morð hér á landi, þar sem glæpurinn hefur verið fyrirfram skipulagður og framinn á algerlega kaldrifjaðan hátt og slóðin svo vandlega falin, að morðinginn hafi ekki fundist nánast strax.
Þessi staðreynd gerir morðið í Hafnarfirði enn óhugnanlegra en ella, þar sem um virðist að ræða skipulagt morð að yfirlögðu ráði, án þess að nokkur skýring virðist finnast á tildrögum verknaðarins, morðvopnið hefur verið vandlega falið og morðinginn ekki fundist, þrátt fyrir mikla rannsókn fjölmenns lögregluliðs.
Glæpir hafa verið að harðna hérlendis á undanförnum árum, bæði af hálfu íslendinga og ekki síður innfluttra glæpagengja og er svo komið að öll fangelsi eru yfirfull og langir biðlistar eftir afplánum. Þessu hefur líka fylgt gengjamyndun innan fangelsanna, sérstaklega á Litla Hrauni og samskipti milli þeirra einkennast af sífellt meiri hörku og hafa fangaverðir orðið að birgja sig upp af öflugri varnarbúnaði, en þurft hefur fram að þessu.
Allt er þetta óhugnanleg þróun, sem æpir á nýbyggingu fangelsis og það líklega helmingi stærra og öruggara en Hraunið, sem þá gæti nýst fyrir gömlu gerðina að íslenskum krimmum, sem flestir voru meinlausir, en leiddust út á glapstigu vegna bágra aðstæðna eða fíknar.
Nú þarf að glíma við miklu hrottalegri glæpalýð og ekki hægt að bíða neitt með varnarviðbúnað gegn honum.
19 morð á 9 árum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.8.2010 | 01:54
Kostir sem forstjóri OR má alls ekki vera búinn
Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur rak Hjörleif Kvaran úr forstjórastóli fyrirtækisins og samþykkti um leið að ráða mann í starfið tímabundið, þangað til nýr forstjóri yrði fastráðinn. Helgi Þór Ingason, véla- og iðnaðarverkfræðingur var ráðinn til að gegna starfinu tímabundið, en stjórnin setti það algera skilyrði fyrir ráðningu hans, að hann yrði ekki ráðinn í starfið til frambúðar.
Þetta kemur fram í fréttinni um menntun og starfsferil Helga Þórs:
"Helgi Þór Ingason er 45 ára, dósent í véla- og iðnaðarverkfræði og forstöðumaður meistaranáms í verkefnastjórnum í Háskóla Íslands.
Hann lauk M.Sc. prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 1991, doktorsprófi í framleiðsluferlum í stóriðju frá tækniháskólanum í Þrándheimi 1994 og SCPM prófi í verkefnastjórnun frá Stanfordháskóla 2009. Hann hefur hlotið alþjóðlega vottun sem verkefnisstjóri.
Helgi Þór hefur starfað sem verkefnisstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Íslenska járnblendifélagsins og gæðastjóri verkfræðistofunnar Línuhönnunar, nú Eflu verkfræðistofu. Hann er annar tveggja frumkvöðla Als álvinnslu hf. og hefur verið stjórnarformaður félagsins og áður framkvæmdastjóri."
Við fyrstu sýn virðist þetta vera bæði menntun og reynsla, sem vel gæti nýst í starfi forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, þar sem maðurinn er bæði hámenntaður og hefur mikla stjórnunarreynslu.
Það er hins vegar greinilega ekki skoðun fulltrúa Besta flokksins í Reykjavík, enda setja þeir það sem algert forgangsmál, að maður með svona reynslu verði alls ekki forstjóri OR.
Hvaða kostum ætli sá maður þurfi að vera búinn til að gegna starfinu, svo Besti flokkurinn geti ráðið hann til framtíðarstarfa? Það verður fróðlegt að sjá, þegar þar að kemur.
Helgi Þór forstjóri OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 01:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
17.8.2010 | 20:51
Hjörleifur víki, ef hann ber ábyrgð á skuldastöðunni
Orkuveita Reykjavíkur, sem hefur mest af sínum tekjum í íslenskum krónum, skuldbreytti nánast öllum sínum lánum í erlend lán og mun stór hluti þeirra vera í jenum og svissneskum frönkum. Við hrun krónunnar margfaldaðist skuldastaðan í krónum talið og það svo, að tekjur fyrirtækisins duga ekki fyrir vöxtum og afborgunum lengur.
Ekki er óeðlilegt, að sá sem ábyrgð ber á svo gjörsamlega glórulausri fjármálastjórn axli ábyrgð á þeim gerðum og þá beinast sjónir fyrst að forstjóra fyrirtækisins og öðrum stjórnendum fjármála og reksturs. Spurning er um hver ber höfuðábyrgð á þessari stöðu og hvenær þessar skuldbreytingar voru gerðar, en Hjörleifur Kvaran hefur gegnt stöðu forstjóra frá 1. september 2007 og líklegast er að þessar fjármálalegu æfingar hafi verið gerðar fyrir þann tíma, því um sama leyti og hann tók við forstjórastólnum lokuðaðist fyrir allar erlendar lántökur og gengið byrjaði að hrynja í mars 2008.
Í einkafyrirtæki hefði forstjórinn og aðrir sem ábyrgð bera á rekstri félagsins, verið látnir víkja eftir önnur eins fjármálaleg mistök og þetta og jafnvel þó minni hefðu verið. Hins vegar væri ekki réttlátt. að víkja forstjóra sem hefði verið ráðinn til starfa eftir að mistökin hefðu verið gerð og væntanlega haft þann aðalstarfa að klóra fyrirtækið út úr þeim aftur.
Hvort það er raunin með Hjörleif, skal ósagt látið, en vonandi er ekki verið að víkja honum úr starfi, eingöngu til að koma öðrum að, sem þóknanlegri er nýjum valdhöfum Besta flokksins og dragdrottningunni, sem nú er titluð borgarstjóri, algerlega óverðskuldað.
Allt kemur þetta betur í ljós á næstu dögum.
Tillaga um að Hjörleifur víki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.8.2010 | 15:33
Enginn beri ábyrgð - allra síst á sjálfum sér
Þó ótrúlegt sé, lét Ragna, dómsmálaráðherra, starfskonur Stígamóta hræra svo í sér, að hún lét hafa sig út í að heimta nánari skýringar á ummælum Björgins Björgvinssonar, yfirmanns kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar, sem hann lét falla, á þá leið að ýmislegt gæti gerst þegar fólk væri hálf rænulaust vegna áfengis- eða dópneyslu og líklega væri tímabært að fólk liti oftar inn á við og tæki ábyrgð á eigin gerðum, því útúrruglað fólk væri útsettara fyrir því að lenda í ýmsum ógöngum við slíkar aðstæður. Ummælin voru raunar afar skýr og auðskiljanleg og þurftu engra frekari skýringa, sérstaklega ekki fyrir þá sem skilja íslensku sæmilega.
Í framhaldinu var síðan Björgvin neyddur til að segja af sér yfirmannsstarfinu og Ríkislögreglustjóri lagðist svo lágt að biðjast afsökunar á ummælum Björgvins, með þeim orðum að þau endurspegluðu ekki skoðun embættisins og því að engu hafandi.
Þetta er nokkuð lýsandi fyrir þann hugsunarhátt, sem virðist vera að grafa um sig í þjóðfélaginu, þ.e. að enginn þurfi að bera ábyrgð á einu eða neinu, allra síst sjálfum sér og eigin gerðum. Á þessu hefur ekki síst borðið undanfarna mánuði vegna skuldamála einstaklinga, en sá skuldari er varla til, sem telur sig bera ábyrgð á eigin lántökum, heldur hafi hann verið plataður til þeirra og nánast neyddur af ótýndum glæpalýð í lánastofnunum landsins til að taka alls kyns lán, sem viðkomandi skuldari hefði aldrei tekið sjálfviljugur.
Á ýmsum öðrum sviðum hefur þetta viðhorf komið fram, t.d. að óeirðaseggir eigi ekki að þurfa að standa reikningsskil gerða sinna vegna líkamsmeiðinga og skemmdarverka á húsum og bílum og allra síst ef það eru opinberar byggingar eða bílar og hús útrásargengisins.
Það er alveg óhætt að taka undir orð Björgvins um að tími sé kominn til að fólk líti meira innávið og fari að bera ábyrgð á eigin gerðum.
Jafnvel bara hugsi aðeins um málið.
Björgvin hættir sem yfirmaður kynferðisbrotadeildar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
17.8.2010 | 14:55
Útþynnt dagskrá RÚV - áfram jafnmargir starfsmenn
Páll Magnússon, útvarpsstjóri, hefur gert gríðarmikið úr þeim 9% sparnaði, sem RÚV er gert að skila á næsta rekstrarári og hefur hann tilkynnt að hætt verði við vinsælustu þættina sem hafa verið í sjónvarpinu, t.d. Spaugstofuna, og á Rás 1, t.d. þáttinn Orð skulu standa, sem mikilla vinsælda hefur notið. RÚV hafði ekki heldur efni á að bjóða í heimsmeistaramótið í handknattleik, sem fram fer í janúar og íslendingar taka þátt í og hafa slíkar útsendingar verið með vinsælasta efni sem RÚV hefur boðið upp á.
Jafnfram þessu er boðaður niðurskurður hér og þar í dagskrá RÚV, jafnt í sjónvarpi sem útvarpi, en áður hafði verið tekin ákvörðun um að hætta nánast að kaupa íslenskt efni af sjálfstæðum framleiðendum, þannig að afar lítið, eða nánast ekkert, verður af leiknu íslensku efni í sjónvarpinu á næstunni.
Þrátt fyrir þennan gríðarlega niðurskurð á íslenskri dagskrá, sem þó ætti að vera aðalhlutverk RÚV, huggar Páll starfsmenn fyrirtækisins með því, að ekki þurfi að fækka um einn einasta starfsmann, heldur verði bara rólegra í vinnunni hjá hverjum og einum, enda lítið annað að gera, a.m.k. hjá sjónvarpinu, en að stinga vídeóspólum í útsendingartækin.
Þetta er dæmigert hjá opinberu fyrirtæki, að skera niður alla framleiðsluna, en halda öllu starfsfólkinu, eins og ekkert hafi í skorist.
Í hvaða einkafyrirtæki myndu svona vinnubrögð vera viðhöfð.
Engar uppsagnir á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
17.8.2010 | 11:04
Ófriðarseggir beita aðferðum útrásargengisins
Enn og aftur þurfti að fresta dómshaldi í Héraðsdómi vegna máls ófriðarseggjanna, sem gerðu innrás í Alþingishúsið og ollu þar meiðslum starfsmanns og nú vegna ásakana verjenda hópsins á hendur dómaranum um hlutdrægni. Hlutdrægnin á að hafa falist í því, að óska eftir lögregluvernd vegna óróaseggja, sem sátu um dómshúsið þegar taka átti málið fyrir og gerðu síðan tilraun til að ráðast inn í húsið og trufla dóminn við störf sín.
Þetta er haft eftir Ragnari Aðalsteinssyni, verjenda hinna ákærðu, í fréttinni af málinu: "Niðurstaða dómsins í mati sínu á hlutdrægni dómara má vænta á næstu dögum. Ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að dómarinn sé hæfur kveður Ragnar það vilja skjólstæðinga sinna að skjóta því mati til Hæstaréttar."
Þetta eru sömu vinnubrögð og viðhöfð voru í Baugsmálinu fyrsta og vænta má að beitt verði í væntanlegum málaferlum gegn útrásargenginu, þ.e. að draga hæfi allra dómara í efa, vísa öllum smáatriðum til Hæstaréttar og tefja þannig málsmeðferðina í mörg ár. Þessari aðferð er beitt, þegar sakborningar óttast niðurstöðu í máli sínu, vegna slæmrar samvisku og gera því allt sem mögulegt er, til að tefja og draga á langinn, að niðurstaða fáist í málin.
Saklaust fólk myndi fagna dómsniðurstöðu sem allra fyrst og væri það ekki ánægt með héraðsdóminn, myndi það áfrýja honum sjálfum til Hæstaréttar til endanlegrar afgreiðslu í stað þess að draga allt málið á langinn árum saman, ef samviskan væri alveg hrein og viðkomandi vissi sig saklausan af öllum ákærum.
Útrásargengið hefur greinilega sett nýtt viðmið í rekstri mála fyrir dómstólunum.
Efast um óhlutdrægni dómara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)