Óhugnanlegt morð

Nítján morð voru framin á Íslandi á níu ára tímabili á árunum 2000 til 2009 og í nánast öllum tilfellum var um tengsl milli geranda og fórnarlambs og oftast tengdust þessir atburðir ofneyslu áfengis eða fíkniefna.  Í aðeins tveim tilfellum var ekki um nein tengsl að ræða milli aðila, en ef rétt er munað, tengdust þau morð einnig ofneyslu vímuefna.

Í mjög langan tíma hefur ekki verið framið morð hér á landi, þar sem glæpurinn hefur verið fyrirfram skipulagður og framinn á algerlega kaldrifjaðan hátt og slóðin svo vandlega falin, að morðinginn hafi ekki fundist nánast strax.

Þessi staðreynd gerir morðið í Hafnarfirði enn óhugnanlegra en ella, þar sem um virðist að ræða skipulagt morð að yfirlögðu ráði, án þess að  nokkur skýring virðist finnast á tildrögum verknaðarins, morðvopnið hefur verið vandlega falið og morðinginn ekki fundist, þrátt fyrir mikla rannsókn fjölmenns lögregluliðs.

Glæpir hafa verið að harðna hérlendis á undanförnum árum, bæði af hálfu íslendinga og ekki síður innfluttra glæpagengja og er svo komið að öll fangelsi eru yfirfull og langir biðlistar eftir afplánum.  Þessu hefur líka fylgt gengjamyndun innan fangelsanna, sérstaklega á Litla Hrauni og samskipti milli þeirra einkennast af sífellt meiri hörku og hafa fangaverðir orðið að birgja sig upp af öflugri varnarbúnaði, en þurft hefur fram að þessu.

Allt er þetta óhugnanleg þróun, sem æpir á nýbyggingu fangelsis og það líklega helmingi stærra og öruggara en Hraunið, sem þá gæti nýst fyrir gömlu gerðina að íslenskum krimmum, sem flestir voru meinlausir, en leiddust út á glapstigu vegna bágra aðstæðna eða fíknar.

Nú þarf að glíma við miklu hrottalegri glæpalýð og ekki hægt að bíða neitt með varnarviðbúnað gegn honum.


mbl.is 19 morð á 9 árum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Frikkinn

Manni dettur helst í hug að morðið í Hafnarfirði tengist inngönguathöfn í einhver samtök , en máske er ungi maðurinn sem var handtekinn sekur. En saklaus uns sekt er sönnuð

Frikkinn, 18.8.2010 kl. 11:00

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Óhugnanlegt er rétta orðið yfir þetta morð.

En mér dettur ekki í hug neitt orð sem er nógu sterkt yfir brotleg og óvönduð vinnu-brögð yfirstjórn lögreglunnar að láta frá sér upplýsingar til fjölmiðla á  saklausum ungum manni! Og fremja þar með sjálfir alvarlegra morð að yfirlögðu ráði sem er mannorðsmorð!

Svona lagað kallar á endurnýjun í "yfirlögreglu-dómskerfinu" á Íslandi og ekki seinna en strax! M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.8.2010 kl. 17:01

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Maður trúir því nú ekki að upplýsingarnar hafi komið frá yfirstjórn lögreglunnar.  Blöðin hafa öll sín sambönd út um allt og þar á meðal innan lögreglunnar, enda birti enginn fjölmiðill nema DV nafnið og myndina af manninum og svo var það reyndar étið upp eftir DV á netmiðlunum Pressunni og Eyjunni. 

Ég vil því frekar skella ábyrgðinni af þessu mannorðsmorði á DV og hinir miðlarnir tveir eru svo samsekir.  Ábyrgð fjölmiðla í svona málum er gríðalega mikil og þessir miðlar brugðust illilega, eins og oft áður, og geta aldrei bætt fyrir þennan óþokkaskap.

Axel Jóhann Axelsson, 18.8.2010 kl. 20:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband