Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
12.5.2010 | 15:41
Stærstur, mestur og hrokafyllstur
Krafist hefur verið kyrrsetningar á eigum Jóns Ásgeirs í Bónusi um allan heim og hefur dómur þar um verið kveðinn upp í Bretlandi og hefur hann einungis tvo sólarhringa til að leggja tæmandi skrá yfir allar eigur sínar, hvar sem þær er að finna, fyrir bresk yfirvöld innan tveggja sólarhringa.
Í frétt af blaðamannafundi skilanefndar Glitnis segir m.a:
"Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður skilastjórnar Glitnis, segir að þetta mál eigi sér enga hliðstæðu á Íslandi og sé það stærsta sem komið hafi upp. Þetta kom fram á blaðamannafundi í dag.
Samkvæmt kyrrsetningarúrskurðinum í Bretlandi er Jóni Ásgeiri óheimilt að eiga viðskipti með eignir hvar sem er í heiminum að fjárhæð allt að sex milljörðum króna. Ef hann brýtur gegn því á hann á hættu að verða fangelsaður af breskum yfirvöldum. Samkvæmt úrskurðinum ber honum að leggja fram lista um eignir sínar innan tveggja sólarhringa. Ef hann gerir það ekki gætu bresk yfirvöld fangelsað hann."
Jón Ásgeir bregst við þessari stærstu skaðabótastefnu í Íslandssögunni með því að hóta Steinunni Guðbjartsdóttur allt að tíu ára fangelsi fyrir að "misnota réttarkerfið vestanhafs", eins og hann orðaði það á sinn hrokafulla hátt í viðtali við Pressuna.
Þessi meinti forystusauður klíku viðskiptamanna og samsærismanna, sem skilanefndin hefur krafið skaðabóta fyrir að svíkja fé út úr bankanum, að upphæð um 260 milljarðar króna, virðist halda að hann geti skipað öllum að sitja og standa, eins og hann gerði sem stjórnarformaður Glitnis og meira að segja Lárus Welding kvartaði undan og sagði Jón koma fram við sig eins og útibússtjóra en ekki forstjóra.
Þrátt fyrir að greinilegt sé, að maðurinn þjáist af siðblindu af alvarlegustu gerð, verður að leyfa sér að vona að hann snúi nú við blaðinu, iðrist og hjálpi til við að gera upp skuld sína við þjóðfélagið.
Óskað eftir kyrrsetningu hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.5.2010 | 13:34
Jón Ásgeir í Bónusi er hrokinn uppmálaður
Siðblinda Jóns Ásgeirs í Bónusi ríður ekki við einteyming og hroki mannsis svo endalaus, að hann svarar öllum ásökunum á sig með því að um tilefnislausar ofsóknir á hendur sér sé að ræða og hótar málssóknum og stefnum hverjum þeim, sem dirfist að halla orði í hans garð.
Nýlega skrifaði hann pistil á Pressuna, þar sem hópur leigupenna hans eru fastamenn, og svaraði skrifum Agnesar Bragadóttur í Moggann um hans mál, með því að segja að hún væri fyllibytta, sem ekkert mark væri á takandi, ásamt með því að gefa ýmislegt í skyn, með því að "þakka henni fyrir síðast" og svo fylgdu ýmsar dylgjur um annað fólk, sem ekki féll lengur í hans náð, um að vera ótíndir þorparar og skattsvikarar. Enga sök fann hann hins vegar í eigin ranni, frekar en aðrir siðblindingjar.
Nú lætur hann hafa við sig viðtal á Pressunni og segir þar að stefna skilanefndar Glitnis sé slúðurstefna og til þess eins gerð að ófrægja sig, störf sín og samsærismanna sinna, ekki síst ásökunina um að hafa rænt Glitni innanfrá. Þá hótar hann Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis með tíu ára fangelsi fyrir "misnotkun dómstóla vestanhafs".
Kroll, sem er eitt virtasta rannsóknarfyrirtæki heims á sviði fjármálabrota, segir Jón Ásgeir að hafi tekið yfir íslenskt réttarfar í félagi við slitastjórn Glitnis, þó erfitt sé að skilja þá fullyrðingu hans, því slitastjórnin er að stefna honum og samsærismönnum hans til endurgreiðslu á fjármunum sem hafðir voru á ólöglegan hátt út úr Glitni. Það er venjuleg leið fyrir dómstólum, að sá sem telur sig hafa orðið fyrir svikum, stefnir þeim sem sveik, til endurheimtu á því sem tekið var á óréttmætan hátt.
Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings, og Jón Ásgeir í Bónusi eru að opinbera endanlega sitt innra eðli og siðblindu á síðustu dögum. Pálmi í Iceland Express tekur fullan þátt í þeirri sýningu, enda einn úr samsærishópnum, sem kærður hefur verið.
Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, er þegar kominn fram á ritvöllinn til stuðnings sínum manni og varla verður langt að bíða næstu varnarskrifa þjóðartrúðsins, Bubba Mortens.
Jón Ásgeir segir Steinunni misnota dómstóla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
12.5.2010 | 11:12
Náðu lögbrotin inn í skilanefnd, eftir fall Kaupþings?
Kaupþingsmenn eru sakaðir um kerfisbundin, skipulögð og mög umsvifamikil lögbrot nánast allan tímann sem bankinn var í rekstri og urðu brotin því meiri og upphæðirnar sem þau snerust um náðu sífellt stærri upphæðum og urðu víðtækari.
Eitt sem verkur sérstaka athygli af því sem kemur fram í beiðni Sérstaks saksóknara um gæsluvarðahaldsúrskurð yfir Magnúsi Guðmundssyn, fyrrverandi forstjóra Kaupþings í Luxemborg, er eftirfarandi:
"Um var að ræða framvirka samninga og talið að tilgangur viðskiptanna hafi verið að flytja áhættuna af fallandi verðgildi skuldabréfa af Marple Holdings SA og lykilstarfsmönnum Kaupþings í Lúxemborg yfir á Kaupþing banka á Íslandi.
Gögn bendi sterklega til þess að skjöl vegna viðskiptanna hafi verið útbúin og undirrituð eftir fall bankans og Guðný Arna Sveinsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kaupþings og þá skilanefndarmaður Kaupþings, hafi haft milligöngu um frágang skjalanna, en þau virðast fölsuð bæði hvað varðar efni og dagsetningar."
Sé einhver minnsti fótur fyrir því, að starfsmaður skilanefndarinnar hafi í raun unnið að fölsun skjala fyrir fyrrum eigendur og stjórnendur Kaupþings, krefst það rannsóknar á öllum störfum skilanefndarinnar á fyrstu mánuðunum eftir hrun, í það minnsta þessa viðkomandi starfsmanns.
Alltaf eru að koma fram nýjar og nýjar hliðar á þessum ótrúlegu og víðtæku meintu svikamálum.
Kerfisbundið og skipulagt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
12.5.2010 | 08:36
Skipulagt samsæri gegn íslensku þjóðarbúi
Nú er hart sótt að Jóni Ásgeiri í Bónusi og samstarfsfólki hans á öllum vígstöðvum vegna, að því er virðist, ótrúlega stórtækri og vel skipulagðri aðför að Glitni til þess að sölsa undir sig fjármuni bankans til eigin nota og í fyrirtæki eigenda og stjórnenda bankans.
Þegar hefur verið krafist kyrrsetningar eigna Jóns Ásgeirs hvar sem þær er að finna í veröldinni fyrir dómstóli í London og slitastjórn bankans hefur einnig höfðað mál í New York vegna meintra fjársvika að upphæð tæplega 260 milljarða króna. Þetta er talið hafa verið gert með skipulögðum hætti og í glæpsamlegum tilgangi til þess að sölsa eignir bankans undir "viðskiptaveldi" Jóns Ásgeirs, sem samkvæmt stefnunum virðist hreinlega hafa verið byggt á skipulagðri glæpastarfsemi, sem teygt hefur anga sína víða um lönd.
Samkvæmt tilkynningu frá slitastjórn Glitnis, er málið byggt m.a. á eftirfarandi málsástæðum:
"Hvernig klíka fésýslumanna, undir forystu Jóns Ásgeirs, tók sig saman um að hafa með skipulegum hætti fé af Glitni til að styðja við sín eigin fyrirtæki þegar þau riðuðu til falls. Hvernig Jón Ásgeir og samsærismenn hans brutust til valda í Glitni, losuðu sig við reynda starfsmenn bankans eða settu þá til hliðar og misnotuðu þessa valdastöðu til að tefla fjárhag bankans í bráðan voða.
Hvernig Jón Ásgeir, Lárus Welding og aðrir, sem stefnt er í málinu, sköpuðu sér aðstöðu til að ná fé út úr bankanum og halda gerðum sínum leyndum með því að taka völdin af fjárhagslegri áhættustýringu Glitnis, brjóta gegn íslenskum lögum um bankarekstur og setja á svið aragrúa flókinna viðskipta.
Hvernig hin stefndu höfðu, með hlutdeild PricewaterhouseCoopers, aflað milljarðs dala frá fjárfestum í New York án þess að láta hið sanna koma í ljós um hvílíkar áhættu bankinn hafði tekið á sig gagnvart Jóni Ásgeiri og samsærismönnum hans. Hvernig viðskipti hinna stefndu ollu Glitni meira en tveggja milljarða dala tjóni og áttu drjúgan þátt í falli bankans."
Þetta eru gífurlega alvarlegar ásakanir og athygli vekur að PricewaterhouseCoopers skuli ásakað um fulla þátttöku í þessum svikum og er gífurlegur álitshnekkir fyrir endurskoðunarfyrirtækið.
Meint svik Jóns Ásgeirs og félaga eru talin hafa valdið gjaldþroti Glitnis, sem síðan dró allt íslenska bankakerfið með sér í fallinu, enda hinir bankarnir ekki reknir á eðlilegan eða löglegan hátt, eftir því sem æ betur er að koma í ljós þessa dagana.
Óska kyrrsetningar eigna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2010 | 19:44
Er lítilmennið á flótta undan réttvísinni?
Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnaformaður Kaupþings, hefur sýnt ótrúlegt yfirlæti undanfarið með því að láta sér detta í hug, að setja þau skilyrði fyrir því að mæta í yfirheyrslu hjá Sérstökum saksóknara, að hann yrði ekki handtekinn á flugvellinum og ekki settur í gæsluvarðhald. Það þarf talsverða siðblindu sakamanns að halda að hann geti sjálfur stjórnað rannsóknum á eigin meintum glæpum.
Nú hefur hann endanlega sýnt hverskonar lítilmenni hann er, með því að neita að mæta í yfirheyrslurnar og neyða saksóknarann til að láta Interpol lýsa eftir honum og óska þess að hann verði handtekinn hvar sem til hann næst. Að þora ekki að standa fyrir máli sínu og taka afleiðingum gerða sinna, en ætla að láta undirmenn sína eina um það, bendir ekki eingöngu til siðblindu á háu stigi, heldur lýsir það ótrúlegri dusilmennsku.
Vonandi er þessi alþjóðlega handtökuskipun ekki komin til af því, að smámennið sé á flótta undan réttvísinni og kominn í felur, annað hvort hjá vinum sínum í Katar eða í Líbíu.
Frá slíkum löndum yrði erfitt að fá hann framseldan.
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2010 | 15:39
Grímuklæddir ofbeldismenn réðust inn í Alþingishúsið
Fyrir Héraðsdómi er um þessar mundir til umfjöllunar kærur á grímuklædda dólga, sem gerðu innrás í Alþingishúsið þann 8. desember 2008 og ollu þar spjöllum og slösuðu starfsfólk þingsins. Að sumu leyti er einkennilegt hve málið hefur tekið langan tíma í réttarkerfinu, en nú er að verða liðið eitt og hálft ár frá meintum brotum.
Það sem er einkennilegast við þetta mál, sem er venjulegt sakamál, er að ofbeldisseggirnir njóta fulls stuðnings nokkurra Alþingismanna, sérstaklega þingmanna Hreyfingarinnar og virðist hún helst sækja fylgi sitt til fólks, sem tilbúið er að ná sínu fram með ofbeldi og skrílslátum.
Í bréfi forseta Alþingis til Birgittu Jónsdóttur, þingmanns Hreyfingarinnar og stuðnigsmanns óbótafólksins, kemur þetta m.a. fram: "Þegar fyrstu pallagestir voru komnir í húsið kom hópur manna í kjölfarið og ruddi sér leið fram hjá þingvörðum, sumir með klúta fyrir andliti, og komst upp í stigagang Alþingishússins."
Þarf frekari vitna við um tilgang innrásarinnar. Fólk ræðst ekki inn í opinberar byggingar, né aðrar, grímuklætt, nema tilgangurinn sé vægast sagt vafasamur, ef ekki hreinlega glæpsamlegur.
Í þessu tilfelli urðu eignaspjöll og líkamsmeiðingar, þannig að tilgangur innrásarinnar fer ekkert á milli mála.
Skylda að standa vörð um öryggi starfsmanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (17)
11.5.2010 | 13:34
Ákærur um ótrúlega viðamikla brotastarfsemi
Ef marka má frétt mbl.is um ástæður gæsluvarðhaldsúrkurðanna yfir Heiðari Má og Magnúsi Guðmundssyni stangast framburður þeirra verulega á í yfirheyrslunum og því sé nauðsynlegt að afstýra samhæfingu framburðar þeirra. Alvarleiki ákæranna sjást einnig á því að nú er búið að handtaka tvo yfirmenn Kaupþings til viðbótar, samkvæmt féttum RÚV, þá Ingólf Helgason, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi og Steingrím Kárason, fyrrverandi framkvæmdastjóra áhættustýringar bankans.
Ákærurnar snúast um brot á ýmsum ákvæðum auðgunarbrotakafla almennra hegningarlaga, aðallega umboðssvik og skjalafals. Athyglisvert er að þessi brot eru talin hafa valdið bankanum verulegu fjárhagstjóni, þannig að ekki er hægt að skilja þetta öðruvísi, en að hinir ákærðu, eða vitorðsmenn þeirra, hafi auðgast gífurlega sjálfir á þessum viðskiptum.
Fréttin endar svo: Jafnframt liggi fyrir grunur um stórfellda markaðsmisnotkun en þau brot ásamt innherjasvikum, séu talin ein alvarlegustu brot gegn verðbréfaviðskitpalöggjöfinni. [...] Mál af þessari stærðargráðu eigi sér ekki hliðstæðu í rannsóknum sakamála hér á landi og þótt víðar væri leitað.
Fjármálaheimurinn er engin smáveröld og þar eru framin afbrot reglulega, en af framangreindri málgrein sést, að hér eru engin smámál á ferðinni og rannsóknir á gerðum allra íslensku bankanna líklega rétt að byrja, þó Kaupþing hafi verið, ekki bara stærsti bankinn, heldur stærsta fyrirtæki landsins.
Bankamennirnir lifðu hátt í "gróðærinu" og nú er fallið úr lúxusturnunum himinhátt.
Framburður stangaðist verulega á | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
11.5.2010 | 10:41
Er ætlunin að drepa Hval hf?
Hvalur hf. hefur haft leyfi til hvalveiða frá árinum 1947 og stundað þær síðan, að undanskildum "bannárunum", sem hér voru, vegna duttlunga ríkja í Alþjóða hvalveiðiráðinu, sem fæst liggja að sjó, né hafa nokkra hagsmuni af sjávarútvegi.
Fyrrverandi sjávarútvegsráðherra gaf út kvóta til hvalveiða til ársins 2013, en nú um það bil sem hvalavertíðin er að byrja, leggur ríkisstjónin fram lagafrumvarp sem setur allan undirbúning veiðanna í uppnám og gæti lagt allar áætlanir um veiðar í sumar í rúst.
Venjulega hafa a.m.k. 150 manns atvinnu af þessari atvinnustarfsemi yfir sumarið og einhver fjöldi árið um kring vegna vinnslu úr afurðunum og útflutnings þeirra til Japan. Af þessu hafa skapast talsverðar gjaldeyristekjur, sem er einmitt það sem þjóðarbúið vantar sárast um þessar mundir.
Núverandi ríkisstjórn virðið vera sérstaklega uppsigað við alla atvinnuuppbyggingu í landinu og jafnvel atvinnustarfsemi yfirleitt, því henni virðist sérstaklega umhugað um að tefja allt, sem atvinnuskapandi gæti orðið, eða jafnvel koma algerlega í veg fyrir að ný störf skapist og atvinnuleysi minnki í landinu.
Ekki hefur spurst af annarri ríkisstjórn, a.m.k. ekki í vestrænum löndum, sem berst gegn aukinni atvinnu í sínu eigin landi.
Óvissa um hvalveiðar vegna lagafrumvarps | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.5.2010 | 09:10
Hver laug að fréttamanninum?
Þegar fréttastofur birta ásakanir á nafngreinda menn um milljarða króna undanskot eigna á síðustu dögunumm fyrir bankahrunið, reikna áheyrendur með því, að heimildir fyrir slíkum stórfréttum séu traustar og fréttastofan fái þær staðfestar úr fleiri en einni átt.
Í þessu sambandi skiptir engu um hvaða persónur slíkar fréttir fjalla, þegar ásakanirnar snúast um alvarleg lögbrot verða slíkar fréttir að vera algerlega skotheldar, enda treysta áhorfendur því að hægt sé að treysta fréttastofunum til þess að birta ekki algerlega tilhæfulausar lygafréttir um svo stór og alvarleg mál.
Þeir menn, sem nafngreindir voru í frétt Stöðvar 2, hafa væntanlega nóg á sinni könnu og samvisku, þó fréttastofa Stöðvar 2, skáldi ekki æsifréttir um þá og beri fyrir sig heimildarmann, sem hafði ekkert í höndunum um málið, þegar til kom.
Svona fréttalygara á að afhjúpa og birta nafn hans öðrum fréttamönnum til viðvörunar og vilji stöðin endurheimta traust sitt, verður hún að skýra frá því undanbragðalaust, hvernig á þessum fréttaflutningi stóð á sínum tíma.
Í gær var fjallað um þetta mál hérna
Starfsmannafundur á Stöð 2 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.5.2010 | 22:35
Útrásargarkar með litlar eignir - hér á landi
Hortugustu bullustrokkar útrásarruglsins, Jón Ásgeir í Bónusi og Pálmi í Iceland Express hafa nú mátt sæta því að eignir þeirra hérlendis hafa verið kyrrsettar vegna gruns um skattsvik FL-Group á meðan þeir gegndu þar stjórnarstörfum.
Þeir félagar hafa ekki sýnt nokkra einustu iðrun vegna gerða sinna á "bankaránsárunum" og hvað þá sýnt auðmýkt gagnvart þeim, sem illa hafa orðið úti vegna "viðskiptasnilli" þeirra. Þvert á móti hefur Jón Ásgeir verið sérstaklega hortugur og óforskammaður í viðtölum og ekki síður í pistlum sem hann skrifar reglulega á Pressunni, en þar eys hann dylgjum og svívirðingum á báða bóga, en lýsir sjálfan sig alsaklausan af öllu því sem gerðist og olli hruninu, en bendir á alla aðra en sjálfan sig, sem sökudólg.
Nýlega sendi hann frá sér yfirlýsingu, þar sem hann lýsti því yfir að vegna einhvers misskilnings hefði skattstjóri kyrrsett eignir í sinni eigu vegna einhverrar undarlegrar sjö milljóna skattkröfu, sem hann auðvitað kannaðist ekkert við. Nú er komið í ljós að þetta var ekki alveg nákvæm tala hjá honum, því eignir hans hafa verið kyrrsettar fyrir tvö hundruð milljóna króna skattakröfu og svipuð er krafan á hendur Pálma vini hans og félaga.
Við þessa kyrrsetningu kemur hins vegar í ljós, að þeir félagar eru tiltölulega eignalitlir hér á landi, a.m.k. miðað við umsvif þeirra og lifnaðarhátt á undanförnum árum.
Þar sem þeir segjast báðir vera undrabörn á viðskiptasviði, verður að reikna með að þeim hafi tekist að öngla saman einhverjum aurum inn á bankabækur í öruggu skjóli fyrir illa þenkjandi og ofstækisfullum skattayfirvöldum.
Eignir Jóns Ásgeirs og Hannesar kyrrsettar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)