Bloggfærslur mánaðarins, maí 2010
21.5.2010 | 09:40
Heimilin komin í kreppu fyrir kreppu?
Áhrif bankahrunsins og kreppunnar gætir því meir, sem lengra líður frá og fleiri og fleiri missa atvinnuna, verða að sætta sig við atvinnuminnkun og aðarar kjaraskerðingar. Samkvæmt nýlegum tölum frá Vinnumálastofnun hafa tapast 38 þúsund heilsdagsstörf í landinu frá því í október 2008, þrátt fyrir að "aðeins" 17.000 séu á atvinnuleysisskrá, sem skýrist af samdrætti í vinnu hjá miklum fjölda og brottflutningi fólks frá landinu.
Nú birtast tölur frá Hagstofunni, sem sýna að 39% heimila áttu erfitt með að ná saman endum í heimilisbókhaldinu á árinu 2009 og í upphafi þess árs voru höfðu 7,1% heimila lent í vanskilum með húsnæðislán/leigu á undanförnum 12 mánuðum og 10,3% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili. Þetta sýnir að talsvert stór hópur fólks hefur verið kominn í vandræði með fjármál sín fyrir hrun og ekki hefur ástandið lagast hjá heimilunum eftir því sem lengra líður á kreppuna.
Vandamál hinna skuldugu vefur sífellt upp á sig og sífellt fleiri gefast upp fyrir óviðráðanlegum skuldum sínum, enda komst "skjaldborg heimilanna" aldrei úr hugmyndabankanum, frekar en flestar aðrar boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og fjölskyldumálum.
Mesta vandamál þjóðarinnar nú um stundir er ríkisstjórn Samfylkingar og VG, sem sífellt lofar úrbótum, en berst í raun með kjafti og klóm gegn allri atvinnuuppbyggingu og þar með vonum fólks um bætt kjör og uppbyggingu í landinu.
Fróðlegt, en jafnframt ógnvænlegt verður að sjá niðurstöðu lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2010, 2011 og 2012.
Með óbreyttri ríkisstjórn verða þær tölur hreint skelfilegar.
Erfið staða hjá 40% heimila | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2010 | 08:30
Ætlar ESB að lítilvirða þjóðina á 17. júní?
Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands í viðræðum um inngöngu landsins í ESB, vonast til að leiðtogaráð sambandsins samþykki formlega þann 17. júní að hefja formlegar viðræður um uppgjafaskilmála Íslendinga vegna yfirtöku ESB á Íslandi sem hrepps í stórríki Evrópu.
Með yfirtöku ESB á öllum helstu málefnum landsins, yfirráðum yfir auðlindum og lagasetningarvaldi verður Íslendingar á sviðuðu róli með sjálfstæði sitt og þegar þeir lutu erlendu konungsvaldi og munu eftir það verða jafnvel ósjálfstæðari en þeir voru í hernámi stríðsáranna.
Að velja þjóðhátíðardag landsins til að samþykkja viðræður um hreppaflutninginn er hrein móðgun við þjóðina, sögu hennar og baráttu fyrir sjálfstæði. ESB hefur sýnt þjóðinni hreinan yfirgang og lítilsvirðingu vegna Icesave og nú á að snúa hnífnum í sárinu á þessum helga degi í sögu þóðarinnar.
Þó illa sé komið fyrir Íslendingum efnahagslega um þessar mundir, geta þeir ekki látið þessa svívirðu yfir sig ganga baráttulaust.
Aðför Samfylkingarinnar gegn eigin þjóð verður að stöðva tafarlaust, svo Íslendingar geti horfst í augu með stolti á þjóðhátíðardögum framtíðarinnar með íslenskan fána í hávegum, en ekki flagg stórríkis ESB.
Grænt ljós gefið 17. júní? | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.5.2010 | 21:17
Á að efla atvinnu með því að loka öllum fyrirtækjum?
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, hefur lög að mæla þegar hann segir að ríkisstjórnin sé að gera minna en ekkert til að koma einhverri hreyfingu á atvinnulífið með þeim ráðum, sem hún hefur þó yfir að ráða, svo sem að greiða fyrir virkjana- og stóriðjuframkvæmdum, þ.e. byggingu álvera, kísilverksmiðju, gagnavera o.fl. fyrirtækja, sem erlendir aðilar hafa áhuga á að fjárfesta í hér á landi.
Einnig er alveg rétt hjá Gylfa að þjóðin er orðin uppgefin á ríkisstjórninni, sem er dauðþreytt af því að gera ekki neitt annað en þvælast fyrir þeim málum, sem gætu orðið til að stytta kreppuna og minnka atvinnuleysið, sem Gylfi spáir að muni aukast svo um munar, fari stjórnin ekki að reka af sér slyðruorðið. Ekki hefur verið staðið við eitt einasta atriði, sem ríkisstjórnin lofaði að greiða fyrir með undirritun sinni og samþykki á stöðugleikasáttmálanum fyrir tæpu ári síðan.
Hins vega er ráð Gylfa við þessum doða ríkisstjórnarinnar meira en lítið einkennilegt, því hann telur vænsta kostinn til að sparka stjórnarflokkunum af stað vera þann, að boða til verkfalla og loka þar með öllum vinnustöðum landsins.
Hvernig það á að vera til að auka atvinnu, verður forseti ASÍ að útskýra nánar, því algerlega er öruggt, að mörg fyrirtæki myndu ekki þola svo mikið sem tveggja daga verkfall í því fjárhagsumhverfi sem þau starfa í nú til dags.
Það er margt skrýtið í kýrhausnum.
Íhuga verkföll í haust | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2010 | 15:55
Listi töframanna reynir að slá út spaugaraframboðið
Reykjavíkurframboðið, er nýr listi fólks sem ætlar að útrýma atvinnuleysinu í borginni og taka til baka allar skerðingar í félagsmálum með einföldu töfrabragði, þ.e. að selja Vatnsmýrina fyrir a.m.k. 70 milljarða króna. Skárra nafn á þennan lista hefði verið Töfralistinn, enda greinilega skipaður miklu galdra- og særingarfólki.
Meira að segja frambjóðendum "Besta" brandarans hefur ekki dottið svona grín í hug og hafa skrítlur þeirra þó flestar verið eintómir fimmaurabrandarar, eins og lélegt grín er jafnan kallað. Líklega gera jafnvel þeir sér grein fyrir hversu fáránleg della þetta útspil Töfralistans er.
Ef Töfralistinn gerir ekki ráð fyrir að selja Vatnsmýrina til "erlendra fjárfesta" er vandséð hvaðan milljarðarnir 70 eiga að koma, því byggingariðnaðurinn er í algerri rúst um þessar mundir og liggur ekki með þetta fé á lausu, enginn fjármálastofnun myndi lána í ævintýrið enda árið 2007 löngu liðið og ógrynni óseldra fasteigna frá þeim tíma ólokið og fullbúnar byggingar bíða kaupenda, sem hvergi finnast um þessar mundir.
"Besti" brandarinn er löngu orðinn leiðigjarn og því verður að teljast bráðskemmtilegt í annars daufri kosningabaráttu að fá þennan nýja Töfralista til að skemmta Reykvíkingum fram að kosningum.
En að láta sér detta í hug að nokkur kjósi spaugara og galdramenn í borgarstjórn Reykjavíkur er auðvitað sprenghlægilegt, út af fyrir sig.
Vatnsmýrin í gíslingu" fjórflokksins í Reykjavík | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
20.5.2010 | 11:32
Hvort segir satt um evruna?
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, ætlar að beita sér fyrir hertu eftirliti með fjármálamörkuðum, því víðar en hérlendis hafa banka- og fjármálafyrirtæki valdið miklu tjóni með framferði sínu undanfarin ár, þó ekki sé útlit fyrir að þar hafi verið stunduð skipulögð glæpastarfsemi eins og allt bendir til að hafi verið raunin hér á landi. Einnig skorar hún á önnur ríki að styðja sérstaka skattlagningu á fjármálamarkaði heimsins, til þess að forða ríkissjóðum frá því að þurfa að taka á sig töp þessara fyrirtækja í framtíðinni.
Annað atriði og stórmerkilegt kom fram í ræðu sem Merkel hélt á þýska þinginu í gær þegar hún varði þá ákvörðun sína að taka þátt í aðstoð ESB við Grikkland, en hún sagði að evran væri í hættu og ESB stæði frammi fyrir mestu eldraun sinni í áratugi. Efnahagsráðherra Frakklands, Christine Lagarde, sagði hins vegar í útvarpsviðtali: Evran er sterkur og trúverðugur gjaldmiðill. Ég tel alls ekki að evran sé í hættu.
Hvort skyldi nú vera meira að marka það sem kanslari Þýskalands segir um evruna og ESB, eða efnahagsráðherra Frakklands, en Þýskaland er ótvírætt forysturíki sambandsins og ber aðalábyrgðina og þungann af kostnaðinum vegna evrunnar?
Svarið við þeirri spurningu liggur alveg í augum uppi.
Vill skatt á fjármálamarkaði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.5.2010 | 09:55
Skattahækkanabrjálæði VG enn á dagskrá
VG sker sig frá öðrum framboðum í Reykjavík að því leyti, að það er eina framboðið sem hótar kjósendum stórhækkun skatta ofan á allt skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem hækkað hefur alla skatta, beina og óbeina á heimili og atvinnulíf.
Janfnvel öðrum brandaraframboðum eins og "Besta"flokknum hefur ekki dottið í hug að hafa skattamálin í flimtingum og eru þær þó ófáar og ábyrgðarlausar, vitleysurnar sem frá því fólki kemur. VG aflar sér lítils fylgis með svona ógáfulegum tillögum, en það stórmerkilega er, að "Besti" brandarinn fær mikinn stuðning við nánast engar tillögur og þær fáu sem til tals koma, eru svo vitlausar að ekki er einu sinni hægt að hlæja lengur að þeim fimmaurabröndurum.
Það eina raunhæfa í þeirri þröngu stöðu sem þjóðfélagið er í nú um stundir, er niðurskurður og sparnaður í borgarkerfinu, alveg eins og í ríkisrekstrinum, og neyta allra ráða annarra en auka skattahækkanabrjálæðið, sem nú þegar er að sliga allan almenning í þessu landi.
VG segja í tilkynningu sem þeir hafa sent frá sér vegna hótana sinna um skattahækkanir: "Hér kristallast vel hugmyndafræðilegur munur milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks.
Þetta eru algerlega orð að sönnu og ekki vandi að hafna skattahækkunarbrjálæðinu.
VG vill fullnýta útsvarið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
20.5.2010 | 02:30
Bjölluatarar gómaðir á dyraþrepinu
Samfylkingin hefur að undanförnu staðið að dýrasta bjölluati sögunnar með því að plata VG til að taka þátt í að prakkarast í ESB með umsóknaraðild að stórríkinu. Frá upphafi hefur verið ljóst að þjóðin er algerlega andvíg því að taka þátt í svona stráksskap í útlöndum og andstaðan sífellt verið að aukast.
Þrátt fyrir að flestir innan VG hafi gengið óviljugir til þessa leiks, hafa þeir þó ekki haft manndóm í sér til þess að hætta þátttöku í þessum dónaskap gangvart ESB og krefjast þess að leiknum verði hætt og afsökunabeiðni send vegna hrekksins.
Nú hefur ESB hins vegar uppgötvað að um hreinan barnaleik er ræða og hvaða krakkaskammir standa fyrir þessum hrekk og mun því ekki hlaupa til dyranna aftur á næstunni, þó atinu verði haldið áfram.
Samfylkingin hefði betur tekið mark á sínum eigin löndum og hætt hrekkjunum áður en sá sem hrekkurinn beindist að gómaði hana og rasskellti fyrir skammarstrikin.
ESB efast um umsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 02:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2010 | 20:16
Sérstakur saksóknari stendur fyrir sínu
Embætti sérstaks saksóknara hefur sýnt og sannað að það stendur fyrir sínu, því Hæstiréttur hefur staðfest allar ákvarðanir embættisins fram að þessu, er snúa að aðgerðum gegn sakborningum í meintum glæpaverkum innan bankanna í aðdraganda hrunsins.
Talsvert hefur verið reynt til þess að gera embættisfærslur saksóknarans tortryggilegar, sérstaklega af verjendum sakborninganna, en allar helstu lögfræðistofur landsins munu raka saman fé á næstu árum við varnir hinna ásökuðu og munu hártoga allar ákærur saksóknara og öllu verður áfrýjað til Hæstaréttar, bæði til að fá ákvörðunum hvekkt og ekki síður til að tefja málin eins og kostur verður.
Sérstakur saksóknari hefur sýnt og sannað, að mál sem frá honum koma, eru vel rannsökuð, undirbúin og skýrt fram sett og hafa fyllilega staðist fyrir Hæstarétti. Allt þetta ætti að útrýma þeim umræðum, sem reynt hefur verið að halda á lofti af leigupennum og fjölmiðlum sakborninga, um vanhæfi Ólafs Þórs og embættis hans.
Allan tímann sem Rannsóknarnefnd Alþingis var að störfum var því haldið á lofti, að nefndin væri einungis að setja saman hvítþfott á kerfinu og banka- og útrásarruglurunum. Um leið og skýrslan kom út þögnuðu allar efasemdarraddir, enda skýrslan ýtarleg og vönduð.
Vonandi verða þessar jákvæðu fréttir jafnframt til þess að kveða niður vantraust á stjórnmálamönnunum, sem kynt hefur verið undir af einstaklingum og hópum, sem nýtt hafa sér ástandið til að sá hatursáróðri gegn stjórnmálamönnum vegna ótrúlegrar rangtúlkunar á hlutverki þeirra.
Eftir að kerfið hefur sannað sig, er mál að linni eyðileggingarstarfsemi geng löggjafar- og framkvæmdavaldinu.
Máli Sigurðar vísað frá | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.5.2010 | 19:31
Ófriðarseggirnir óvirða stjórnskipunina
Óeirðaseggir sem réðust inn í Alþingi og slösuðu þar starfsfólk í desember 2008 og slógust við þingverði og lögreglu, mættu fyrir rétt í dag, þar sem einn hinna ákærðu átti eftir að tjá sig um ákæruna á hendur sér.
Eins og í fyrra réttarhaldi yfir óeirðaseggjunum mætti stór hópur ólátabelgja í dómshúsið og lét þar öllum illum látum til að trufla framgang réttvísinnar með öskrum og öðrum óhljóðum ásamt því að stympast við lögregluna, en það eru ær og kýr þessa liðs og svo ásakar það lögregluna ávallt fyrir ofbeldi, þó allt sé gert til að óhlýðnast fyrirmælum hennar.
Þetta lið þykist vera að mótmæla einhverju óskilgreindu, en vanvirðið stjórnskipun landsins algerlega, fyrst með því að ráðast inn í aðsetur löggjafarvaldsins og síðan er dómsvaldið vanvirt, með svívirðilegum hætti.
Framferði svona ófriðarseggja verður að stöðva með öllum ráðum, áður en virkilega illa fer.
Átök í héraðsdómi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
12.5.2010 | 16:59
Foringi samsærismanna hlaupinn í felur
Ekki hefur verið hægt að hafa uppi á Jóni Ásgeiri, foringja samsærismannanna sem rændu Glitni innanfrá, eins og skilanefnd Glitnis nefnir gerðir þeirra, fer nú huldu höfði einhversstaðar erlendis og reynir þannig að komast undan réttvísinni, en fróðlegt verður að fylgjast með því hvort hrokagikkurinn mætir fyrir dóm í Bretlandi þann 28. maí, eins og dómari þari í landi hefur boðað hann til.
Jón Ásgeir var í viðtali við Bloomberg fréttaveituna og hélt sér við þann gamla frasa sinn að allt væri þetta mál af pólitískum toga og stjórnað af Davíð Oddssyni og öðrum pólitískum óvildarmönnum. Væri ekki um þennan siðblinda samsærisforingja að ræða, liggur við að hægt væri að vorkenna manninum fyrir svona barnalegar yfirlýsingar, sem orðnar eru að athlægi hér á landi fyrir mörgum árum.
Aðspurður af Bloomberg, neitaði kappinn að gefa upp hvar í heiminum hann sé nú niðurkominn og einungis er hægt að geta sér til um það, hvernig hann mun nýta tímann fram að kyrrsetningu eignanna, en ekki kæmi á óvart að nú sé unnið hörðum höndum við að koma öllu undan, sem mögulegt er að fela, á stöðum sem erfitt er að finna fjármunina.
Varla getur þessi fyrrum ástmögur þjóðarinnar falið sig endalaust, því Interpol hlýtur að lýsa eftir honum á heimsvísu, skili hann sér ekki í réttarsalinn í Bretlandi í endaðan maí.
Eftirfarandi, sem kemur fram í frásögninni af viðtali hans við Bloomberg lýsir nokkuð vel inn í hans sjúka hugarheim:
"Jón Ásgeir segir í viðtalinu, að ásakanir slitastjórnar Glitnis um að klíka kaupsýslumanna undir hans stjórn hafi rænt bankann innanfrá til að styrkja stöðu eigin fyrirtækja séu bara pólitík."
Ég hef sannanir fyrir því, að við vorum að endurgreiða lán sem áttu að falla í gjalddtaga 20-40 dögum síðar. Þetta snérist aðeins um að endurfjármagna eldri lán.""
Þarna kemur fram að hann heldur því fram, eins og hann hefur alltaf gert, að hann sé blásaklaust fórnarlamb óvinveittra pólitíkusa og í seinni málsgreininni sést hvernig hann leit á skuldir. Honum datt aldrei á sínum ferli í hug að endurgreiða lán og lækka þannig skuldir. Allt snerist um að taka ný og hærri lán, til að endurfjármagna eldri lán. Á venjulegu mannamáli heitir það að framlengja lán og það var það sem þessir kappar kölluðu að greiða lán. Þegar venjulegt fólk og venjuleg fyrirtæki greiða lán, þá er greitt með peningum til að lækka höfuðstól lánsins. Ef lánið er framlengt, kallast það ekki endurgreiðsla, þetta skilja allir nema siðblindir samsærismenn sem soga fjármagn út úr bönkum til eigin þarfa og setja með því bankann á hausinn.
Sigurður Einarsson og "starfsbróðir" hans, Jón Ásgeir, geta varla falið sig endalaust fyrir réttvísinni.
Kannski sitja þeir saman einhvrsstaðar og skoða lista yfir góða lýtalækna.
Ætlar ekki að taka til varna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)