Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009
9.6.2009 | 13:54
Óþolandi afskipti af málefnum Íslands
Utanríkisráðherra Finnlands blandar sér í ESB umræðuna á Íslandi á freklegan hátt, með því að lýsa því yfir að hann vilji sjá Ísland í ESB "eins fljótt og auðið er en legg á það áherslu að þið skylduð ekki gera ykkur of miklar væntingar. Þetta er erfitt ferli."
Ekki er hann heldur meiri vinur Íslendinga en svo, að hann segist ekki styðja málstað Íslands í Icesave deilunni vegna þess að Finnar styðji sérhverja þá ákvörðun sem greiði götu Íslands að Evrópusambandsaðild. Þetta er enn ein staðfestingin á því að ESB, ásamt Bretum, stóð fast að baki kúgunaraðgerðunum í þessu máli.
Utanríkisráðherrann hikar ekki við að beita blekkingum varðandi Evruna, þegar hann segir: "Án evrunnar væri efnahagsástandið í ríkjum Evrópusambandsins, þar með talið í ríkjum sem standa utan evrunnar, skelfilegt. Ég vil ekki einu sinni hugsa til þess í hvaða stöðu Evrópa væri án gjaldmiðilsins. Fréttir undanfarna daga benda til alls annars, t.d. þessi frétt um vandræði Evrusvæðisins og ekki síður þessi frétt um erfiðleika Letta, sem ekki eru á Evrusvæðinu.
Það er nóg fyrir Íslendinga að þurfa sýnkt og heilagt að hlutsta á Smáfylkingarkórinn syngja sálminn sinn um ESB, þó erlendir trúboðar séu ekki að hjálpa til við boðun fagnaðarerindisins.
Ein lygi Smáflokkafylkingarinnar gengur út á að ESB og Evran sé nánast eitt og hið sama, en Finninn slær þá staðhæfingu út af borðinu, sjálfsagt óvart og í óþökk SMF, þegar hann segir, aðspurður um hvenær, eftir inngöngu í ESB, Íslendingar gætu tekið upp Evru: Aðild að Evrópusambandinu og evruupptaka er sitt hvor hluturinn. Aðild að sambandinu þýðir ekki sjálfkrafa upptöku evrunnar.
Þjóð, sem á Evrópusambandslönd að vinum, þarfnast engra óvina.
Varar við of mikilli bjartsýni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
9.6.2009 | 11:13
Stóralvarlegar fréttir frá Þýskalandi
Afar alvarlegar fréttir berast nú af kreppunni í forysturíki ESB, Þýskalandi. Samdráttur í út- og innflutningi hefur aukist miklu meira að undanförnu, en sérfræðingar höfðu spáð fyrir um. Þannig segir í fréttinni að: "Útflutningur frá Þýskalandi í aprílmánuði síðastliðnum dróst meira saman en spár höfðu almennt gert ráð fyrir. Samdrátturinn frá fyrra mánuði var 4,8%, að því er fram kemur í nýjum tölum frá hagstofu Þýskalands. Samdrátturinn frá apríl í fyrra var tæplega 29%."
Þetta er mesti samdráttur í útflutningi Þýskalands síðan í seinni heimsstyrjöldinni og vegna stærðar hagkerfis landsins og þýðingar þess fyrir ESB í heild, eru þetta ekki góðar vísbendingar um það sem framundan er á ESB svæðinu.
Í fréttinni segir einnig að: "Innflutningur til Þýskalands dróst einnig mikið saman á milli mars og apríl, eða um 5,8%. Samdrátturinn í innflutningi á milli ára var tæplega 23%." Samdráttur í útflutningi hefur dregist talsvert meira saman á milli ára, en innflutningurinn, sem bendir til að áður en jöfnuður næst á nýjan leik og hagvöxtur verði að nýju í Þýskalandi, séu afar erfiðir tímar framundan.
Ísland fór landa fyrst inn í kreppuna og hefur möguleika á að verða landa fyrst upp úr henni aftur.
Leiðin til þess er ekki að sækja um aðild að ESB, heldur þvert á móti.
Samdráttur í útflutningi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.6.2009 | 09:58
Ríkisfjármálin í höndum vinnumarkaðarins
Athyglisvert er að nú eru ekki lengur teknar ákvarðanir um ríkisfjármálin í stjórnarráðinu, heldur hefur ríkisvinnuflokkurinn vísað þeim til aðila vinnumarkaðarins til afgreiðslu, eða eins og kemur fram í fréttinni: "Vinnu viðsemjenda á vinnumarkaði og stjórnvalda að tillögugerð í efnahags- og atvinnumálum er nú lokið og verða þær kynntar innan skamms."
Einnig kemur fram að aðilar vinnumarkaðrins hafa nánast ákveðið hvernig lífeyrissjóðirnir eigi að koma að fjármögnun vinnuaflsfrekra framkvæmda og er undirbúningur hafinn að því að koma ríkisvinnuflokknum að málinu.
Enn athyglisverðara er, að stjórnarandstaðan var boðuð í stjórnarráðið í fyrradag og þar var henni boðið að eiga áheyrnarfulltrúa, sem gætu fylgst með vinnunni í KARPHÚSINU. Það hlýtur að vera algert einsdæmi, að stjórnendur ríkisins gefi fulltrúum stjórnarandstöðunnar kost á að eiga áheyrnarfulltrúa að samningaviðræðum aðila vinnumarkaðarins.
Gætu Jóhanna og Steingrímur Jong opinberað vandræðagang sinn betur og skýrar?
Púslað á öllum vígstöðvum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2009 | 15:49
Mótmæli án aðkomu Vinstri grænna
Mesta furða er að nást skuli saman nokkur hundruð manns til mótmæla á virkum degi við Alþingi. Mótmælin nún snúast um að sýna andstöðu við samkomulag við Breta og Hollendinga um útgreiðslu innistæðna á Icesave-reikningum Landsbankans í löndunum tveim.
Eini skipulagði hópurinn í landinu, sem hefur áratuga reynslu af mótmælum, eru Vinstri grænir, sem hafa á að skipa þrautþjálfuðu liði, sem hægt er að kalla út með stuttum fyrirvara, þegar forysta VG gefur merki þar um.
Ólíklegt er að um veruleg fjöldamótmæli verði að ræða á næstunni, án aðkomu "hers" VG.
Berja í búsháhöld | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.6.2009 | 13:56
"Lítillátur" þáttastjórnandi
Ráðstefna á vegum International Press Institute um norræna módelið var handin í Helsinki í gær og stýrðu ýmsir mætir menn pallborðsumræðum á ráðstefnunni.
Egill Helgason, þáttastjórnandi, var á meðal þeirra sem stýrðu pallborðsumræðunum og að hans sögn voru þarna ýmis stórmenni úr fjölmiðlaheiminum, eða eins og hann segir sjálfur í fréttinni: "Fyrir utan Jim Clancy, sem hefur tekið viðtöl við alla sem máli skipta í heiminum, er þarna einnig maður að nafni Nicolay Muratov sem er ritstjóri Novaya Gazeta sem er eina stjórnarandstöðublaðið í Rússlandi, maður sem er í stöðugri lífshættu. Þá er þarna Hamid Mirr frá Pakistan, eini blaðamaðurinn sem hefur tekið viðtal við Osama bin Laden eftir árásina á tvíburaturnana í New York."
Jim Clancy sem er heimsþekktur fréttamaður og hefur starfað í áratugi á CNN fréttastöðinni, stýrði næstu umræðum á eftir Agli.
Af alkunnu lítillæti sínu og hógværð segir Egill um sjálfan sig og sína frammistöðu: "Ég held að ég hafi alveg staðist samanburðinn."
Einhverjir aðrir en Egill, hefðu látið aðra dæma um frammistöðuna.
Norræna velferðarkerfið stenst kreppur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.6.2009 | 11:15
Ótrúleg fréttamennska um kosningar til ESB
Kosnignar til Evrópuþingsins fóru fram um helgina og var kosningaþátttaka sú minnsta frá upphafi, eða aðeins rúm 43% að meðaltali í ESB löndunum. Áhuginn á Evrópuþinginu er sáralítill, enda Evrópuþingið máttlaus stofnun í regluverki ESB.
Það ótrúlega gerist hér á mbl.is, sem er einlægur aðdáandi ESB, að litlar sem engar fréttir eru fluttar af þessari eindæma lélegu kosningaþátttöku, hvað þá að fjallað sé um ástæðurnar fyrir henni. Þess í stað er slegið upp frétt af því að lítil þátttaka hafi verið í atkvæðagreiðslu um breytingar á ríkiserfðum í Danmörku.
Kosningarnar um ríkiserfðirnar í Danmörku fóru fram samhliða kosningum til ESB þingsins og var þáttakan í Danmörku 58,7%, sem er miklu betri þátttaka en að meðaltali í ESB ríkjunum. Þetta verður auðvitað ekki skilið öðruvísi en að mikill áhugi á konungsfjölskyldunni hafi laðað að miklu fleiri kjósendur en ella hefði orðið.
ESB aðdáandi getur varla lagst lægra í fréttaflutningi.
Lítil þátttaka í atkvæðagreiðslu um ríkiserfðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.6.2009 | 09:37
Kreppan í ESB og samanburðurinn við Ísland
Á Íslandi hrundi 95% af bankakerfinu í október s.l. og í kjölfarið eru Íslendingar að upplifa eina af dýpri kreppum, sem yfir efnahagslífið hafa dunið. Landsframleiðsla hefur dregist saman um 3,6 að raungildi frá fjórða ársfjórðungi 2008 og er talið að hún gæti dregist saman um allt að 10% á árinu öllu.
Það stórmerkilega er, að í fréttinni segir: "Samdrátturinn í íslenska hagkerfinu er ívið meiri eða svipaður og mældist á Norðurlöndunum, í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum. Í Þýskalandi mældist samdráttur 3,8% og 4% í Japan á fyrsta ársfjórðungi miðað við ársfjórðunginn á undan."
Smáflokkafylkingin er haldin þeirri þráhyggju, að með aðildarumsókn að ESB einni saman, muni efnahagsvandræði Íslands lagast nánast að sjálfu sér. Þar sem efnahagskreppan á Íslandi er ein sú mesta í manna minnum vegna bankahrunsins, hvernig skyldi þá standa á því að samdrátturinn er jafn mikill að meðaltali innan ESB? Í forysturíkinu, Þýskalandi, er hann janfvel heldur meiri en hér á landi.
Er ekki kominn tími til, að snúa sér að því að leysa efnahagsvandann innanlands og hætta að ljúga því að þjóðinni, að ástandið batni við inngögnu í ESB.
Enn brýnna er að hætta þeirri haugalygi, að eitthvað breytist við að senda umsóknina til Brussel.
3,6% samdráttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
5.6.2009 | 15:59
Veruleikafirrtur ríkisverkstjóri
Jóhanna, ríkisverkstjóri, er orðin eins og Cato gamli, sem endaði allar sínar ræður með því að leggja til að Karþago yrði lögð í rúst. Ríkisverkstjórinn endar allar ræður og viðtöl á sama frasanum, um að þegar Íslendingar verði búnir að legga inn umsókn að ESB, þá muni öll efnahagsvandræði Íslands leysast eins og dögg fyrir sólu.
Þetta viðtal við mbl.is endar hún svona: "Ef það náist að sækja um aðild að Evrópusambandinu fyrir lok sumarþings sé búið að stíga afar stórt skref í því að ná utan um endurreisnarferlið." Yfirleitt kemst hún upp með þessar yfirlýsingar sínar án þess að fréttamenn biðji hana að útskýra málið nánar.
Almenningur er orðinn þreyttur á því, að athyglinni skuli alltaf vera beint frá bráðnauðsynlegum aðgerðum í ríkisfjármálum, Icesave málum, skuldamálum heimilanna, vanda atvinnulífsins o.s.frv. með þessu endalausa stagli um að allt leysist og Ísland afli sér svo mikils trausts á alþjóðavettvangi með umsókninni einni saman.
Þessi veruleikafirrti ríkisverkstjóri þyrfti að fara að komast í samband við raunveruleikann.
Steingrímur fær fullt umboð | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.6.2009 | 14:51
Icesave breytt í kúlulán
Jóhanna, ríkisverkstjóri, sagði í hádeginu, að loksins væri búið að leysa Icesave deiluna á farsælan hátt og Íslendingar myndu aldrei þurfa að borga nema í mesta lagi frá 0 kr. og í versta falli 65 milljarða. Það er að vísu himinn og haf á milli 0 og 65 milljarða, en eins og venjulega er ekki verið að segja satt.
Kúlulánið, sem á að taka fyrir Icesave, er upp á 650 milljarða króna og það byrjar ekki að greiðast niður fyrr en eftir sjö ár. Á hverju ári þangað til verða greiddir 37,5 milljarðar í vexti, eða samtals á þessum sjö árum alls 262,5 milljarða króna.
Ofan á þessa 262,5 milljarða króna leggst síðan það, sem ekki tekst að fá út úr búi Landsbankans í Englandi, því eins og segir í fréttinni: "Á þessum sjö árum mun verða reynt að selja eignir Landsbankans upp í skuldina." Það sem ekki selst á þessum sjö árum, lendir þá á ríkissjóði, samkvæmt þessu.
Hefur Jóhanna, ríkisverkstjóri, ekki skilning á fjármálum, eða er hún að blekkja vísvitandi?
Engin Icesave-greiðsla í 7 ár | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
5.6.2009 | 13:39
Aldrei sagður allur sannleikurinn
Því hefur alltaf verið haldið fram, að Icesave deilan sé sérstakt viðfangsefni og komi samningum við AGS ekkert við og þrátt fyrir yfirlýsingar Gordons Brown, um að Bretar væru í viðræðum við AGS vegna málsins, hefur íslenski ríkisvinnuflokkurinn ætíð borið slíkt til baka og sagt þessi mál algerlega ótengd.
Nú hefur mbl.is eftir Steingrími Jong Sig., fjármálajarðfræðingi, að: "Hann vísar því á bug að verið sé að hraða málinu til að greiða fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Málið tengdist frekar öðrum lánum, til að mynda norrænu lánunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum."
Hér með er hann að viðurkenna það loksins, að allar "vinaþjóðir" okkar á norðulöndunum og AGS setja þetta allt saman í einn pakka. Íslendingar fá engin lán frá AGS, eða Evrópuþjóðum, nema ganga fyrst frá Icesave.
Því oftar sem ráðamenn neita því, að samningar vegna Icesave, sé skilyrði af hendi Evrópuþjóða og ekki verði einu sinni tekið við aðildarumsókn að ESB, án þessa frágangs, því ótrúverðugri verður sú neitun.
Tími er til kominn að gera þetta mál "opið og gegnsætt" og að hætt verði að ljúga að þjóðinni.
Niðurstaða eða ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)