Bloggfærslur mánaðarins, júní 2009

Fyrirséð bankakrísa í ESB

Margir virðast halda að hrun íslenskra banka sé einsdæmi í heiminum.  Svo er alls ekki og margir bankar í heiminum hafa farið á hausinn og mjög mörgum stórbönkum hefur verið bjargað fyrir horn, tímabundið, með gífurlegum framlögum viðkomandi ríkissjóða.

Í ESB hefur ýmsum bönkum verið fleytt áfram með ríkisframlögum og neyðarlánum frá Evrópska seðlabankanum, en ekki er ennþá útséð um hvernig fer með þá áður en yfir lýkur.  ESB aðdáandinn mbl.is flaggar ekki mikið fréttum af erfiðleikum innan ESB, en á viðskiptadálki mbl.is slæðast einstaka sinnum klausur tengdar þeim málum, nú síðast þeirri um óttann við bankakrísu í ESB árið 2010.

Í fréttinni segir:  "Seðlabanki Evrópu fylgist grannt með erfiðleikum 25 banka sem taldir eru skipta sköpum fyrir fjármálaheilsu evrusvæðisins, og hann óttast aðra bylgju af vandamálum hjá bönkum á næsta ári, þjarmi heimskreppan enn að þeim og öðrum, að því er fram kemur í frétt breska blaðsins Telegraph."  Á Íslandi voru það þrír bankar sem skiptu öllu um fjármálaheilsu landsins, en í ESB eru það aðeins 25 bankar sem skipta sköpum fyrir fjármálaheilsu Evrusvæðisins.  Dejan Krusec, sérfræðingur hjá Seðlabanka Evrópu, hefur áhyggjur af lengd kreppunnar og segir að vandamálið sé ekki árið 2009, heldur árið 2010.

Á þessu, ásamt mörgum öðrum viðvörunarbjöllum, sést hvílíkt glapræði væri fyrir Íslendinga að sækja um aðild að ESB á þessum óvissutímum.


mbl.is Óttast bankakrísu 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margt er skrýtið í kýrhausnum

Sjálfstæðismenn hafa lagt fram vandaðar tillögur til endurreisnar efnahagslífsins, en ríkisvinnuflokkurinn hefur ekki getað komið sér saman um neinar aðgerðir til lausnar á vandanum.  Fréttir berast af því, að mikil kergja sé meðal VG vegna þess niðurskurðar, sem nauðsynlegur og óhjákvæmilegur er, í ríkisrekstrinum.

Í því ljósi ber líklega að skoða það sem fram kemur í fréttinni, þar sem segir:  "Þingmenn Samfylkingarinnar lýstu mikilli ánægju með að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ráðist í að semja umræddar tillögur. Magnús Orri Schram Samfylkingunni lofaði frumkvæði Sjálfstæðisflokksins og sagði sjálfstæðismenn hafa farið í ítarlega og góða vinnu. Mikilvæg áhersla væri lögð á víðtækt samráð. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra tók í sama streng og þakkaði sjálfstæðismönnum fyrir tillögurnar. „Þetta er mjög jákvæð nálgun sem hér er lögð fram og ég er mjög sáttur við bæði tóninn í tillögunum og sömuleiðis í málflutningi háttvirts þingmanns. Hann er ekkert að skafa utan af stöðunni eins og hún er, en hann segir jafnframt að það þarf að skapa víðtæka sátt um margar erfiðar aðgerðir,“ sagði Össur."

Í þeirri pólitísku refskák, sem nú er tefld innan ríkisvinnuflokksins, eru þessi viðbrögð Smáflokkafylkingarinnar vafalaust til að setja pressu á þingmenn og ráðherra VG, enda verður ekki hægt að bíða öllu lengur eftir niðurstöðu þeirra.  Allt þjóðfélagið er í biðstöðu vegna ráðaleysis stjórnarflokkanna.

Ef til vill er Össur, grínari, að leggja drög að nýrri ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.


mbl.is Fyrirtækin nálgast hengiflugið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrsta uppgötvun Evu Joly

Fyrsta dularfulla málið, sem virtist þurfa Evu Joly til að leysa, er hvarf Jóhönnu, ríkisverkstjóra, en ekkert hefur til hennar spurst undanfarnar vikur.  Eftir harðort viðtal við Evu Joly í Kastljósinu í gærkvöldi, kom Jóhanna skyndilega í leitirnar og er nú farin að gefa yfirlýsingar á Alþingi.

Þó að Jóhanna hafi fundist og taki undir hvert einast orð, sem Joly sagði í þættinum, gefur hún hins vegar engar skýringar á því, hvers vegna ekkert hafi verið gert með tillögur hennar síðustu tvo og hálfan mánuð.  Í svona rannsóknarvinnu getur hver vika skipt máli og því áríðandi að leggja allt það fé og mannskap, sem þarf, til að vinna við þessi mál geti unnist eins hratt og nokkur möguleiki er.  Öll heimsbyggðin býður í raun og veru eftir því að þessi mál verði upplýst.  Íslendingar bíða eftir því, að peningar endurheimtist og skúrkarnir verði settir bak við lás og slá.

Engin þjóð getur látið það um sig spyrjast, að hún hafi ekki efni á að upplýsa eina mestu fjárhagslegu svikamyllu, sem sögur fara af í nokkru landi.

Það er fagnaðarefni, að ríkisverkstjórinn skuli vera kominn úr felum og lofi að fara að vinna.


mbl.is Ríkisstjórn styður Joly
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svifaseint Fjármálaeftirlit og verðlaun forsetans

Fjármálaeftirlitið hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að vísa skuli viðskiptum Stím, eignarhaldsfélags, til ákæruvaldsins vegna gruns um refsiverð brot í tengslum við "kaup" á hlutabréfum í Glitni, sem áttu sér stað fyrir tveim árum síðan.  Sennilega má það ekki mikið seinna vera, til að málið fyrntist ekki, en FME hafði áður rannsakað málið í nóvember árið 2007, án þess að grípa til nokkurra aðgerða þá.

Það verður að teljast með ólíkindum að nánast allt bankakerfið á Íslandi (og útrásin einnig) skuli, að því er virðist, hafa verið rekið af ótíndum skúrkum og ævintýramönnum, að ekki sé sagt glæpamönnum, eða eins og fréttin endar:  "Rannsóknir opinberra aðila á meintri markaðsmisnotkun Glitnis – og reyndar Landsbankans og Kaupþings líka í ótengdum málum – snýst um að þeir eru taldir hafa haft áhrif á verð hlutabréfa í sjálfum sér eða eigendum sínum. Oftar en ekki lágu upplýsingar um slíkt ekki fyrir þegar viðskiptin fóru fram."

Baugur var aðaleigandi Glitnis og flestra stærstu útrásarfyrirtækjanna.  Í bók, sem nú er að koma út, segir af neyðarfundi í bönkunum í mars 2008, þar sem var verið að fjalla um að Baugur væri ekki lengur gjaldfær og myndi því ekki geta greitt af lánum sínum til banka og lífeyrissjóða.  Mánuði síðar, eða í apríl 2008, veitti forseti lýðveldisins vini sínum Jóni Ásgeiri Jóhannessyni útflutningsverðlaun forseta Íslands og sagði forsetinn af því tilefni, "að Baugur fengi þau fyrir forystuhlutverk sitt í íslensku útrásinni og þann einstaka árangur sem fyrirtækið hafi náð í sölu- og markaðsmálum í verslunarrekstri á heimsvísu. Á örfáum árum hafi fyrirtækið náð þeim árangri að verða þriðja stærsta smásölufyrirtæki á Norðurlöndum og á liðnum fimm árum vaxið hraðar en nokkuð annað fyrirtæki á þessum markaði."

Svo láta þessir menn, eins og veldi þeirra hafi fallið í október 2008, vegna inngripa seðlabankans.

 


mbl.is FME mun vísa Stím-málinu til ákæruvalds
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steinum kastað úr glerhúsi

Margrét Kristmannsdóttir, tiltölulega nýkjörinn formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir Alþingi til syndanna, vegna lýðræðislegrar umræðu um aðildarumsókn að ESB.  Meðal annars segir hún:  „Alþingismenn þurfa að taka sig saman í andlitinu og snúa bökum saman, eins og við sem erum í fyrirtækjarekstri höfum gert, við setjumst niður og ræðum málin.  Okkur blöskrar að hafa horft upp á stjórnvöld vikum og mánuðum saman haga sér eins og þau hafa gert þar sem hver höndin er upp á móti annarri.“

Nokkuð er það öfugsnúið, að skammast út í Alþingi, fyrir að rökræða kosti og galla þeirra mála, sem ríkisvinnuflokknum dettur í hug að leggja fyrir þingið hverju sinni.  Í öðru orðinu krefjast menn meira sjálfstæðis Alþingis og í hinu gagnrýna þeir að mál renni þar ekki í gegn, eins og á færibandi.

Það hefði verið alveg stórkostlegt ef Samtök verslunar og þjónustu hefðu ályktað af svona mikilli röggsemi á undanförnum árum um starfsemi félaga sinna í verslunar- og þjónustugreinunum, sérstaklega skuldsetningargleði þeirra og útrásartilburði.  Hefðu samtökin verið jafn vel vakandi þá og ef félagarnir hefðu verið jafn samtaka og einbeittir í sjálfsgagnrýninni, þá hefði jafnvel ekki farið eins illa fyrir íslensku efnahagslífi og raunin varð.

Samþykkt SVÞ er eins og grjótkast úr glerhúsi.

Grjótkastið gerir svosem ekki mikinn usla núna, því húsið er hvort sem er mölbrotið.


mbl.is Blöskrar vinnubrögð Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn vill skynsamlega leið

Samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup, sem gerð var 28/05-04/06, segja 76,3% svarenda að það skipti miklu, eða mjög miklu máli, að fram fari skoðanakönnun um það, hvort sækja eigi um ESB aðild, eða ekki.  Aðeins 17,8% töldu það skipta litlu, eða mjög litlu máli.

Þetta er svo afgerandi niðurstaða, að það væri glapræði af Alþingi að samþykkja aðildarumsókn að ESB, án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.  Svona mikill meirihluti í þessari könnum gefur talsverðar vísbendingar um, að samningur um inngögnu í ESB yrði felldur í atkvæðagreiðslu þjóðarinnar, eftir undirritun.

Þessi úrslit eru mikið og þungt kjaftshögg fyrir Smáflokkafylkinguna og aðra ESB aðdáendur.

Þessi könnun bergmálar rödd skynseminnar. 

Á þá rödd ætti Smáflokkafylkingin að hlusta, þó ekki væri nema í þessu máli.


mbl.is Meirihluti vill þjóðaratkvæði um aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly að hætta?

Eva Joly, fyrrum rannsóknardómari, var ráðin, fyrir nokkrum vikum, til aðstoðar sérstökum saksóknara vegna rannsókna á meintum efnahagsbrotum banka- og útrásarmógúla.  Nú kemur hins vegar frétt um að hún hyggist hætta, vegna þess að ekkert tillit er tekið til ráðgjafar hennar, né eftir nokkru farið, sem hún hefur lagt til.  Henni hefur ekki verið sköpuð nokkur aðstaða á Íslandi og engir erlendir sérfræðingar ráðnir, eins og lofað hafði verið.

Hvaða sýndarmennska var þessi ráðning?  Í augun á hverjum var verið að ganga með því að þykjast vera að stórauka rannsóknirnar, með aðstoð erlendra sérfræðinga?  Hvern var verið að blekkja?  Héldu ráðamenn að með ráðningu hennar, yrðu mógúlarnir svo hræddir, að þeir færu að "syngja" hver í kapp við annan, án frekari þrýstings?

Þessum spurningum verða Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig. að svara.  Við skipan sérstaks saksóknara og ráðningu Evu Joly honum til aðstoðar, ásamt með loforðum um alla þá erlendu sérfræðinga, sem þörf væri á, efldist tiltrú almennings á því, að einhver botn fengist í öll þessi spillingarmál.

Nú verða ráðamenn að taka af sér vettlingana, draga hendurnar upp úr vösunum og bretta ermarnar upp fyrir fingurgóma og standa við stóru orðin.

Almenningur sættir sig ekki við neitt minna.


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpíning framundan

Því hefur lengi verið spáð á þessu bloggi, að vinstri flokkarnir í ríkisstjórn myndu nýta allt sitt skattlagningahugmyndaflug, sem er nánast óendanlegt, til að reyna að skattleggja þjóðina út úr kerppunni.  Það er að segja þeir myndu halda að hægt væri að komast út úr kreppunni með skattpíningu, frekar en sparnaði í ríkiskerfinu.

Þessi spádómur er að rætast, smá saman, og byrjaði sakleysislega með hækkun skatta á eldsneyti, áfengi og tóbak.  Nú boðar Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, að erfitt sé að breyta nokkru sem heitið geti í ríkisrekstrinum á miðju fjárlagaárinu, en viðbótargatið, sem stoppa þarf í á þessu ári nemur 20 milljörðum króna.  Fjármálajarðfræðingurinn segir ekki ólíklegt að ná þurfi a.m.k. helmingi þessa með aukinni tekjuöflun.

Sú neysluskattahækkun, sem þegar er komin til framkvæmda, á að skila ríkissjóði 2,7 milljörðum króna á þessu ári, þannig að nú á að hækka skattlagningu til viðbótar um a.m.k. 7,3 milljarða.  Á því sést að gríðarlegar skattaálögur eru framundan á næstu dögum, til að ná skattahækkun um a.m.k. 10 milljarða króna á þeim sex mánuðum, sem eftir lifa árs.

Ekki má gleyma því, að þessir skattar munu halda sér næstu ár og þýða 20 milljarða króna aukaskattlagningu árlega í nánustu framtíð.  Til viðbótar þurfa heimilin og fyrirtækin í landinu að greiða hærra álag á lán sín vegna þess að neysluskattarnir fara beinustu leið inn í vísitöluna.

Hugmyndaauðgi vinstri flokkanna mun búa þessa nýju skatta í ýmsa búninga, svo sem sykurskatt, sælgætisskatt, gosdrykkjaskatt, lúxusvöruskatt o.s.frv., o.sfrv.

Stjórnarflokkana skortir kjark til að taka á útgjaldavandanum, en þeir hafa endalaust þrek og þor til skattahækkana.


mbl.is Ná helmingi með tekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ósannsöglir ráðherrar

Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, hafa marg sagt að undirritun samningsins um Icesave sé forsenda þess að hægt væri að ganga frá lánssamningum við AGS, norðurlandaþjóðirnar, Pólverja og Rússa og hefur utanríkisráðherra Noregs staðfest það, sem og utanríkisráðherra Finnlands og fulltrúi AGS.

Nú koma hinsvegar utanríkisráðherrar Svíþjóðar og Danmerkur og segja lausn Icesave deilunnar enga forsendu fyrir lánum norðulandaþjóðanna.  Ef þessir tveir eru að segja satt, þá hljóta hinir að vera að segja ósatt, eða öfugt.  Ef sá danski og sá norski eru að segja satt, hvers vegna er þá ekki löngu búið að ganga frá málunum?  Ef hinir eru að segja satt, þá er það stóralvarlegt mál að erlendir ráðherrar fari með staðlausa stafi í fjölmiðlum hér á landi og hlýtur það að kalla á mótmæli og leiðréttingu af hendi íslenska utanríkisráðherrans.

Ef til vill eru aðrir utanríkisráðherrar norðurlandanna jafn miklir grínarar og sá íslenski og allt sem þeir láta út úr sér, sé sagt af sama alvöruleysinu og einkennir það, sem frá okkar manni kemur.

Svona ósannsögli ráðamanna er afar hvimleitt til lengdar.


mbl.is Lausn Icesave ekki forsenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Pottaglamur í þingsalnum?

Fjármálaeftirlitið setti upp gamanleikrit, eða farsa, fyrir tvær þingnefndir Alþingis í morgun, að sögn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, þingmanns Smáflokkafylkingarinnar.  Fjalla átti um verðmat á eignum við uppgjör gömlu og nýju bankanna og hefði mátt ætla að ekki væri um nein sérstök gamanmál að eiga.

Fleiri þingmenn voru ekkert ánægðir með farsann, eða eins og segir í fréttinni:  "Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það hefði verið mikil þrautaganga að fá upplýsingar um málið en fulltrúi Fjármálaeftirlitsins hefði komið á fundinn í morgun og sagt, að þeir hefði gert þannig samninga sl. haust, að engin leið væri að upplýsa þingmenn um þá."

Þær spurningar vakna hverjir "þeir" séu og við hvern gerðu "þeir" þannig samninga, að engin leið væri að upplýsa þingmenn um þá.  Stundum fá þingmenn upplýsingar, sem þeir eru bundnir trúnaði yfir, en í þessu tifelli er þeim ekki einu sinni treyst til að halda þessum upplýsingum fyrir sig, á meðan þeir væru að taka ákvarðanir í málinu.

Álfheiður Ingadóttir, einn af stjórnendum búsáhaldabyltingarinnar, kann ráð við þessu, eins og sönnum byltingarforingja sæmir, þ.e. að þingmenn fari að berja búsáhöld í þingsalnum, til að kalla fram upplýsingar.

Það væru hæg heimatökin, að sækja byltingardótið upp á skrifstofu VG.

 


mbl.is Tveimur þingnefndum meinað um upplýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband