Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
12.3.2009 | 09:51
Skárra en von var á
Samkvæmt skýrslu seðlabankans um skuldastöðu heimilanna er staðan, sem betur fer, skárri en margur hefur haldið. Um helmingur heimilanna hefur eiginfjárstöðu sem er jákvæð um 10 milljónir króna eða meira og 80% heimila greiða minna en 150 þúnund krónur af húsnæðislánum á mánuði.
Þessi samantekt bankans sýnir hve arfavitlaus tillaga framsóknarmanna um flata 20% niðurfellingu allra lána er, því flestir eru í góðum málum með sín lán, en hinsvegar þarf að koma þeim verst stöddu til aðstoðar með sértækum ráðum. "Það kom á óvart að þrátt fyrir allt er mjög stór hluti heimila sem virðist ekki vara í neinum vandræðum, hvorki með eigið fé né að standa í skilum. Það er auðvitað ánægjulegt þótt það dragi ekkert úr vanda þeirra sem eru í hinum hópunum," segir Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.
Aðeins 3% heimila eru með húsnæðislánin í erlendri mynt og 8% með blönduð lán, innlend og erlend. Þetta er miklu minni hluti en af hefur verið látið og sýnir að menn ættu ekki alltaf að hlaupa eftir þeim sem hæst gala hverju sinni.
Líklega eru það ekki húsnæðislánin sem verst er við að eiga hjá fólki, heldur bílalánin, húsvagnalánin, sumarbústaðalánin o.s.frv. Mikið af þeim lánum eru í erlendum myntum og markaðurinn hruninn, þannig að ekki er hægt að selja dýru og fínu leikföngin.
Það á auðvitað að hjálpa þeim sem eru í raunverulegum vandræðum með sín heimili, en ekki þeim sem skuldsettu sig upp fyrir haus í kapphlaupi við nágrannann um flottustu leikföngin.
Fjölmargir standa vel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.3.2009 | 16:28
Stórtíðindi frá VR
Það eru stórtíðindi að sitjandi formaður í verkalýðsfélagi, að ekki sé talað um stærsta verkalýðsfélagi landsins, sé felldur í kosningum. Kristninn Örn Jóhannesson fékk 2.651 atkvæði (41,9%) en Gunnar Páll Pálsson, fráfarandi formaður, aðeins 1.774 atkvæði (28%). Frómar árnaðaróskir eru hér með færðar Kristni Erni og honum óskað velfarnaðar í starfi sem formaður VR.
Athyglisvert er hve dræm þátttaka er í kosningunni, en aðeins 6.738 greiddu atkvæði af 25.095 sem voru á kjörskrá. Mjög stór hluti félaga í VR vinnur við tölvur (eða a.m.k. í nágrenni við þær) og flestir eru með tölvur heima, en samt sem áður tók ekki stærri hluti félagsmanna afstöðu í kosningunni. Nýr formaður er því kjörinn af 10,6% atkvæðisbærra félaga í VR og hlýtur þetta áhugaleysi í verkalýðsfélögunum að vera áhyggjuefni, en það speglast einnig í lélegri fundasókn og lítilli þátttöku í atkvæðagreiðslum um kjarasamninga.
Eins og Kristinn Örn segir, má telja víst að stjórnarsetan hjá Kaupþingi hafi átt stóran þátt í að fella Gunnar Pál og því má reikna með að aðrir verkalýðsforingjar, sem hafa átt sæti í bankaráðum eða í stjórnum lífeyrissjóða verði andvaka í nótt.
Þetta fordæmi gæti orðið til þess að skerpa skilin á milli verkalýðsfélaganna og fyrirtækjanna. Það fer ekki vel á því að sitja beggja megin borðsins.
Kaupþingsmálið vó þungt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2009 | 11:35
Baugur í gjaldþrot
Skilanefndarmenn Glitnis og Kaupþings segja að Baugsmenn leggi fram villandi og ófullnægjandi upplýsingar varðandi skuldamál Baugs við meðferð gjaldþrotamálsins fyrir héraðsdómi. Það væri þá ekki í fyrsta sinn sem fulltrúar Baugs nota lögfræðilegar brellur til að þvæla mál fyrir dómsstólum.
Í svokölluðu Baugsmáli var fjölmiðlum einnig beitt miskunnarlaust í þágu félagsins og til að magna upp hatur á "andstæðingum" þess og þá helst Davíð Oddssyni. Þetta tókst fullkomlega því stór hluti almennings trúði áróðrinum og bloggheimar loguðu til stuðnings góðmennunum sem björguðu heimilunum með lágu vöruverði, eins og söngurinn gekk oftast útá.
Í þessu ljósi er athyglisvert að lesa þessi ummæli Evu Joly, fyrrum rannsóknardómara:
"Ég á alltaf erfitt með að skilja af hverju fjármálarefir sem brjóta lögin njóta oft svona mikillar samúðar en venjulegir þjófar og ræningjar miklu minni samúðar. En margir svíkja undan skatti, margir hafa eitthvað að fela og finna því til samkenndar með spilltum og ósvífnum fjármálamönnum. En það er ekki mikið sameiginlegt með þeim sem fela þúsundkall og þeim sem fela milljarð."
Enn eru þeir til sem reyna að réttlæta gerðir banka- og útrásarvíkinganna. Vonandi læra menn þó eitthvað af öllu þessu.
Gjaldþrot Baugs breytir engu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.3.2009 | 14:08
Ekkert lært og engu gleymt
Baugsmenn halda því fram að lögmenn bankanna skilji ekki hvernig útrásarvíkingar möndla með fjárfestingar. Það eru reyndar fleiri sem skilja það ekki alveg til hlítar, enda Alþingi búið að skipa rannsóknarnefnd og sérstakan saksóknara til þess að reyna að komast til botns í fjárfestingaflækju víkinganna.
Baugsforstjórar lýsa fjálglega í yfirlýsingu sinni hve auðvelt er að greiða uppp skuldirnar með ofsagróða Project Sunrice, þar sem Baugur átti að eiga 28% eignarhlut. Greiðsla skuldanna átti ekki að vera flóknari en þetta: "Áttu arðgreiðslur úr sjóðnum að standa undir endurgreiðslu lána Baugs til allra kröfuhafa á fjögurra ára tímabili". Fyrirhugað var að stærsta eign sjóðsins yrði eignarhlutur Baugs í Iceland Foods, en Baugur á nú 13,7% hlut í keðjunni.
Þessi 13,7% hlutur í Iceland Foods átti sem sagt að skila þúsundum milljarða í arð á næstu fjórum til fimm árum, þrátt fyrir heimskreppu og minnkandi verslunarveltu. Reyndar er þetta ekki í fyrsta skipti sem Iceland Foods hefur verið rúið eigin fé sínu eins og sjá má hérna
Samkæmt fréttinni sem er ekki eldri en frá 15. ágúst 2008 leist lánadrottnum samt sem áður ekki sérstaklega vel á að allir sjóðir keðjunnar yrðu tæmdir á þeim tíma vegna fjármálaóvissunnar.
Á þessum sama tíma var kynntur mesti hagnaður íslandssögunnar og þar var Iceland Foods í aðalhlutverki, eins og sjá má hér
Auðséð er á öllu að þessir garpar hafa engu gleymt og ekkert lært.
Baugur: Segja fullyrðingar rangar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.3.2009 | 16:52
Fyrirmyndarríkið
Kosningar fóru fram í gær í einu af fáum ríkjum, sem ennþá kenna sig við kommúnisma, þ.e. fyrirmyndarríkinu Norður-Kóreu. Kjörsókn var að vísu ekki nema 99,98%, þar sem 0,02% landsmanna voru of lasnir eða svangir til þess að komast á kjörstað. Kannski var það bara af því að bíll einhvers sem átti að aka kjósendum á kjörstað hefur bilað.
Það ánægjulega við kosningarnar er hvað þjóðin stendur þétt saman sem einn maður, því ekki skilaði nokkur einasti maður auðum atkvæðaseðli né ógildum, enda ekki verið að flækja kosningarnar með mörgum frambjóðendum í hverju kjördæmi.
Hinn mikli leiðtogi, Kim Jong Il, sem er ekki nema 67 ára og við hestaheilsu, hefur ekki séð neina ástæðu til þess að láta sjá sig opinberlega meðal alþýðunnar síðan í ágústmánuði, enda verið upptekinn við að gera almúganum lífið léttara. Illar tungur kapítalistanna á vesturlöndum halda því hins vegar fram að leiðtoginn mikli hafi fengið heilablóðfall, en jafnvel þó svo væri, myndi það ekki aftra honum frá því að vinna þjóð sinni allt það gagn sem hún á skilið.
Ó, Sovét Ísland, hvenær kemur þú?
99,98% kjörsókn í Norður-Kóreu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
9.3.2009 | 10:02
Bankadóminó
Með yfirtöku FME á Straumi-Burðarási er síðasti kubburinn í íslenska bankadóminóinu fallinn. Þá eru allir stæstu bankarnir komnir í vörslu FME, sem ætti að verða til þess að auðvelda uppröðun kubbanna á ný og fá heildarmynd á hvernig spilið var uppbyggt.
Að ná utanum allan þennan flókna spillingarvef íslenska bankakerfisins virðist vera ofvaxið íslenskum rannsóknarstofnunum og því hlýtur að verða leitað til allra þeirra erlendu aðila sem reynslu hafa af að rekja upp slíka vefi.
Þar að auki þarf almenningur að fá að fylgjast með þessum rannsóknum. Ekki er ásættanlegt að hann fái eingöngu að fylgjast með því sem Morgunblaðinu tekst að grafa upp.
Fall Straums gæti haft miklar afleiðingar í Danmörku | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 14:20
Sérþjálfaðir rannsóknarmenn
Hér hefur nokkrum sinnum verið fjallað um banka- og útrásarvíkingana og þá ekki eingöngu um hvernig bönkunum var pukrunarlaust beitt í eigin þágu "eigendanna", heldur ekki síður hvernig þeir tæmdu allt eigið fé út út úr þeim fyrirtækjum sem þeir "keyptu", t.d. Icelandair, Eimskip, tryggingafélögin o.fl. Þetta á einnig við erlendu félögin, þau eru öll eiginfjárlaus (fyrir utan viðskiptavildina), en skuldsett upp fyrir rjáfur.
Íslenskar eftirlitsstofnanir eru afar vanbúnar að takast á við þessar flóknu rannsóknir og því ber að taka fullt mark á eftirfarandi orðum fyrrum rannsókanardómarans Evu Joly:
"Joly segir ekki nóg að yfirheyra meinta glæpamenn heldur þurfi að beita húsleitarheimildum. Því menn eigi auðvelt með að segja nei í yfirheyrslum. Skoða þurfi ársreikninga ofl. ofan í kjölinn til þess að finna út hvort brot hafi verið framin. Hún telur að ekki dugi minna en 20-30 sérfræðinga til þess að koma að rannsókninni og að ekki sé orðið of seint að rannsaka málið þrátt fyrir að sex mánuðir séu liðnir frá hruninu.
Hún segir mikilvægt að fjölmiðlar búi við frelsi og segir að það verði að gæta þess að upplýsa þjóðina um rannsóknina. Fólk verði að fá upplýsingar. Hún segir það áfall að þrátt fyrir að íslensku bankarnir hafi vitað hver staðan var þá hafi þeir hvatt fólk til þess að leggja fjármuni sína inn í bankana. Joly segir að það megi ekki láta þá, ef þeir eru sekir, komast upp með glæpi sína."
Rannsóknarnefndin um bankahrunið og embætti sérstaks saksóknara verða að fá allar þær fjárveitingar sem nauðsynlegar eru og alla þá erlendu sérfræðinga sem völ er á til þess að allir þræðir hins flókna spillingarvefs verði raktir að fullu.
Joly: Leita þarf til erlendra sérfræðinga | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2009 | 13:16
Búsáhaldagrænir
Svandís Svavarsdóttir er sigurvegari forvals VG í Reykjavík og er henni óskað til hamingju með það. Hún er mikill skörungur og verðugur andstæðingur í pólitíkinni, virðist ekki alveg jafn mikill öfgasinni og t.d. Kolbrún Halldórsdóttir, sem beið afhroð í forvalinu. Ef til vill er þessi niðurstaða merki um að VG sé að færast nær nútímanum, en ef það er svo, eru það mikil tíðindi.
Afar athyglisvert er að fram kemur hjá Svandísi að VG hafi staðið fyrir "búsáhaldabyltingunni" og er það í fyrsta sinn sem forystumaður í VG viðurkennir það, þótt það hafi svo sem verið á allra vitorði, enda lauk þeirri "byltingu" um leið og Vinstri grænir komust í ríkisstjórn. Svandís talar um að listinn sé sterk blanda reyndra þingmanna og fulltrúa sem voru áberandi í "búsáhaldabyltingunni".
Þar með er það opinberlega viðurkennt hvaða meðulum VG eru tilbúnir að beita til að komast til valda.
Vinstristjórn lífsnauðsyn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2009 | 15:30
Skrilljarðar
Þær upphæðir sem bankarnir hafa lánað útrásarvíkingunum (sem í flestum tilfellum réðu bönkunum) eru gjörsamlega óskiljanlegar venjulegu fólki, sem baslar með sín íbúða- og bílalán og önnur venjuleg heimilisútgjöld.
Því meira sem kemur upp á yfirborðið af þessum ótrúlega köngulóarvef eignarhaldsfélaga garkanna, því ótrúlegra verður að þetta sé allt saman löglegir gerningar, eins og banka- og útrásarliðið heldur fram. Ennþá heyrist ekkert frá skilanefndum, fjármálaeftirliti eða saksóknurum um þessi mál og hefur því þó verið heitið að allt skuli vera "uppi á borðinu" og upplýsingagjöfin skilvirk. Ekkert fréttist, nema það sem fjölmiðlar grafa upp eftir leynilegum leiðum innan úr kerfinu. Við svo búið verður ekki unað lengur.
Það hlýtur að vera deginum ljósara að fjöldinn allur af ákærum verður gefinn út á hendur þessum mönnum áður en langt um líður. Jafn víst er að allt helsta lögfræðingalið landsins mun verja þessa menn með kjafti og klóm og jafnvel takast að þvæla málum þannig að ekkert komi út úr ákærunum.
Baugsmálið svokallaða hefur líklega lamandi áhrif á rannsóknara, þar sem að í því máli voru menn sýknaðir af ákærum sem allir, sem koma nálægt fyrirtækjarekstri, töldu víst að teldust til alvarlegra lögbrota. Saksóknaraembættið hefur c.a. 130 milljónum úr að spila árlega (fékk reyndar 50-60 milljónir í aukafjárveitingu vegna Baugsmálsins), en Bónusfélagar sögðust hafa eytt einum til tveim milljörðum króna í vörnina. Hvernig á ákæruvaldið að ráða við slíkan fjáraustur í þessi mál? Ekki má heldur gleyma andrúmsloftinu í þjóðfélaginu á þessum tíma, en þá var almenningur algerlega á bandi Baugsmanna og taldi allar ákærur á hendur þeim eingöngu lýsa illmennsku yfirvalda.
J. O. Simpson var sýknaður af morðákæru, sem allir "vissu" að hann væri sekur um, vegna þess að hann beitti fyrir sig fremstu lögmönnum Bandaríkjanna, sem tókst að snúa útúr öllum sönnunargögnum og gera þau tortryggileg.
Vonandi tekst íslenskum sökudólgum ekki að leika þann leik aftur.
Lánuðu sjálfum sér milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.3.2009 | 15:15
Gamansamir vinstri grænir
Vinstri grænir ætla ekki að samþykkja byggingu álvers í Helguvík, sem áætlað er að skapi tvöþúsund ársstörf á byggingartíma. Þeir ætla reyndar ekki að styðja byggingu neinna fyrirtækja sem "menga", en slík fyrirtæki eru reyndar fá, ef þau eru í einhverjum framleiðslugreinum.
Sérstaklega er tekið fram í samþykkt ríkisstjórnarinnar um fjölgun starfa að það skuli verða "fjölgun í hópi þeirra sem njóta listamannalauna og við inn- og útflutning á óunnum fiski". Þetta þarf að lesa a.m.k. tvisvar til að treina brandarann svolítið. Ekki verður séð í fljótu bragði séð að það sé sérstaklega þjóðhagslega hagkvæmt að bæta við 33 listamönnum á ríkislaun, væntanlega við að mála málverk, semja sinfóníu eða skrifa jólabók. Hvað skyldu margir geta fengið vinnu við innflutning á óunnum fiski? Væri ekki meira atvinnuskapandi að stuðla að minni útflutningi á óunnum fiski og stuðla að meiri fullvinnslu innanlands?
Nú eru liðnar fimm vikur frá því að Jóhanna, ríkisverkstjóri, og vinnuflokkur hennar tók til óspilltra málanna við björgun atvinnulífsins og heimilanna og svo eru lagðar fram svona tillögur.
Þetta er ágætis föstudagsbrandari.
Ætla að skapa 4000 ársverk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)