Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009

Skattahækkanir

Indriði H. Þorláksson, ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, og Stefán Ólafsson, prófessor, boðuðu skattahækkanir á fundi hjá Smáflokkafylkingunni.  Báðir eru þeir talsmenn þrepaskipts skattkerfis, en slíkt kerfi er flókið í framkvæmd og í raun tvöfalt kerfi, því bæði er greidd staðgreiðsla (eins og nú er) og síðan er endanleg álagning eftirá og þá þarf að greiða viðbótarskatt (þ.e. staðgreiðsu og skatt sem lagður er á eftirá).  Þetta kerfi var við lýði til skamms tíma og var kallað "hátekjuskattur", en lagðist á meðaltekjur og hærri, þannig að flestir landsmenn lentu í þessum "hátekjuskatti". 

Enginn þarf að efast um að verði slíkt kerfi tekið upp aftur mun það með tímanum færast neðar og neðar í skattstigann, þar til meðaltekjufólkið verður allt komið í "hátekjuskatt".  Mikið betra væri að hækka almenna skattþrepið og hækka persónuafsláttinn um leið, því núverandi kerfi er í raun þrepaskiptur skattur og því hærri sem tekjurnar eru, því hærri skattprósenta er greidd.

Hér er sett upp dæmi um útreikning á núverandi sköttum og hvernig skattar breyttust, ef skattprósenta yrði hækkuð í 41,1% og persónuafsláttur yrði hækkaður í 50.000 krónur:

 Staðgreiðsla, 37,2% Staðgreiðsla, 41,1% HækkunHækkun
 (PersónuafslátturHlutfall af(PersónuafslátturHlutfall afskattaskatta
Laun á mánuði:kr. 42.205)tekjum í %kr. 50.000)tekjum í %í krónumí %
200.00032.19516,1032.20016,1050,02
400.000106.59526,65114.40028,607.8057,32
600.000180.99530,17196.60032,7715.6058,62
800.000255.39531,92278.80034,8523.4059,16
1.000.000329.79532,98361.00036,1031.2059,46
1.200.000404.19533,68443.20036,9339.0059,65
1.400.000478.59534,19525.40037,5346.8059,78
1.600.000552.99534,56607.60037,9854.6059,87
1.800.000627.39534,86689.80038,3262.4059,95
2.000.000701.79535,09772.00038,6070.20510,00

Venjulega hljóðar áróðurinn á þá leið, að ósanngjarnt sé að hátekjumenn greiði sömu prósentu af launum sínum í skatt og lágtekjumaðurinn, en þannig er það alls ekki í raun með núverandi kerfi.  Eins og sést af töflunni myndu skattar lækka á lægri launum en 200.000 kr. á mánuði, en hækka hratt eftir því sem ofar drægi í launastigaum.  Hér er ekki tekið tillit til neinna bóta, en þær eru allar tekjutengdar og kæmu því lágtekjuhópunum til góða til viðbótar við lægri skattgreiðslu.

Krafa um "þrepaskiptan" tekjuskatt er krafa um að flækja skattkerfið svo mikið að það yrði fljótt óskiljanlegt fyrir alla nema endurskoðendur og aðra skattasérfræðinga.  Það yrði mikil afturför.

 


mbl.is Hækki skatta og tvöfaldi vaxtabætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankaleyndin og FME

Samfylkingin, með Björgvin viðskiptaráðherra í broddi fylkingar, þvældist fyrir frumvarpi Björns Bjarnasonar, dómsmálaráðherra, um sérstakan saksóknara um efnahagshrunið í tvo mánuði og setti sig algerlega upp á móti því að saksóknarinn gæti rannsakað mál að eigin frumkvæði.  Skilyrði Björgvins voru þau að öll mál yrðu að koma frá FME.  Fjármálaeftirlitið hefur verið einhver lokaðasta stofnun sem hugsast getur og hefur nánast aldrei gefið nokkrar upplýsingar um störf sín.  FME hefur einmitt alltaf borið fyrir sig bankaleyndina.

Eftir það hrun sem orðið er og er á ábyrgð bankanna, eigenda þeirra og útrásarvíkinganna (sem voru "eigendur" bankanna og allra helstu fyrirtækja landsins) er ekki með nokkru móti réttlætanlegt að skýla sér á bak við bankaleyndina og sérstaki saksóknarinn verður að hafa óheftan aðgang að öllum gögnum.

Þá má ekki yfirfæra leyndina yfir á saksóknarann, þannig að hann gefi engar upplýsingar um þau mál sem hann tekur til rannsóknar.  Kröfu verður að gera til þess að hann skýri frá öllum málum, sem hann tekur til skoðunar, hvort sem skoðunin leiðir til ákæru eða ekki.

Tortryggninni í þjóðfélaginu verður aðeins eytt með öflugu upplýsingaflæði. 


mbl.is Bankaleynd verður afnumin með öllu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyðilegging

Ótrúlegt er að sjá hvernig útrásarvíkingarnir hafa eyðilagt hvert félagið af öðru, sem áður stóðu traustum fótum og með sterka eiginfjárstöðu.  Icelandair var eyðilagt þegar Baugsliðar yfirtóku FL Group (sem síðar varð Stoðir) á sínum tíma, skiptu félaginu upp og seldu síðan í pörtum.  Upphaflega félaginu, með mikið eigið fé, var svo beitt í allskonar brask sem endar væntanlega í einu stæsta gjaldþroti Íslandssögunnar.

Sama sagan gerðist með Eimskip, sem líka var gamalgróið og stöndugt félag.  Það var eyðilagt undir stjórn Magnúsar Þorsteinssonar, viðskiptafélaga Björgólfanna, og er nú eitt skuldugasta félagið í landinu og er þá langt til jafnað.

Bankarnir og tryggingafélögin lentu í höndum þessara sömu manna og nú eru tryggingafélögin hálf ónýt og allir tjónasjóðir virðast gufaðir upp.  Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvernig farið var með bankana.  Sömu menn stærðu sig árum saman af viðskiptasnilli sinni og töldu öllum trú um að þeir væru að hagnast um hundruð milljóna á hverju ári, en nú eru öll þeirra fyrirtæki, innanlands sem utan, að verða gjaldþrota hvert af öðru.  Íslenska krónan var varla að þvælast fyrir þessum köppum við rekstur erlendra fyrirtækja, en sú afsökun hefur löngum verið notuð varðandi innlendu fyrirtækin.

Allur arður og eldri sjóðir voru hreinsaðir út úr fyrirtækjunum og því hlýtur sú spurning að vakna hvort allir þeir peningar séu bundnir í einkaþotum, snekkjum, lúxusíbúðum og bílum, eða hvort einhverjir varasjóðir séu í ávöxtun á Tortola og öðrum skattaparadísum.

Vonandi kemur þetta allt upp á yfirborðið við rannsóknina á bankahruninu.


mbl.is Lánastofnanir ráða Icelandair
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dulið atvinnuleysi

Atvinnuleysistölur eru orðnar skuggalega háar og samkvæmt spá Vinnumálastofnunar munu þær hækka á næstu misserum.  Þetta eru tölur sem Íslendingar eru ekki vanir og geta ekki sætt sig við til lengdar.  Því er nánast grátlegt að sjá að ekki ein einustu lög hafa verið samþykkt í tíð núverandi ríkisstjórnar til hjálpar atvinnulífinu og heimilinum í landinu, jafnvel þó boðað hefði verið að sum þeirra ættu að taka gildi frá og með 1. mars s.l.  Ef fram fer sem horfir verður handagangur í öskjunni á Alþingi síðustu dagana fyrir þinglok, sem verða innan mjög skamms tíma.  Þingið hefur verið að eyða tíma sínum í tiltölulega fánýt mál, því ekkert gengur undan ríkisstjórninni.

Athyglisvert er við atvinnuleysistölurnar er að enginn opinber starfsmaður hefur ennþá orðið atvinnulaus, þó engin skynsamleg skýring geti verið á því að umsvif hafi ekkert minnkað hjá ríkisfyrirtækjum að undanförnu.  Ögmundur, heilbrigði, sagði reyndar að ekki mætti segja upp opinberum starfsmönnum, því þá yki það kostnað ríkissjóðs af atvinnuleysisbótum.  Af því má skilja að einhver hópur opinberra starfsmanna sé í nokkurskonar atvinnubótavinnu.  Ögmundur þyrfti að gefa upp hve margir þeir eru til þess að hægt sé að gera sér grein fyrir raunverulegu atvinnuleysi.

Verði þetta ekki skýrt um atvinnubótavinnuna, er ekki hægt að gefa upp raunverulegar atvinnuleysistölur, heldur eingöngu atvinnuleysi á hinum almenna vinnumarkaði.  Það gefur ekki rétta mynd af ástandinu.

 


mbl.is 16.685 skráðir á atvinnuleysisskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri sveifla

Eftir skoðanakannanir undanfarið treysta sumir stjórnmálafræðingar sér til þess að "spá" því að hér geti orðið vinstri sveifla í kosningunum í vor.  Vonandi rætist sú "spá" ekki, enda koma Vinstri grænir alltaf betur út í skoðanakönnunum en í kosningum.  Þjóðvaki, undir forystu Jóhönnu ríkisverkstjóra, hlaut miklar undirtektir í skoðanakönnunum alveg fram að kosningum, en hrundi svo þegar á hólminn var komið.

Miðað við ráðaleysi og klaufagang vinnuflokks ríkisverkstjórans fram að þessu, er ekki von á góðu, ef þessir flokkar ná meirihluta í kosningunum 25. apríl.  Reyndar hafa þeir Framsóknarflokkinn til þess að grípa til í neyð, en sá flokkur myndi feginn stökkva um borð ef honum byðist það, enda geymdir ráðherrastólar handa þeim.

Þegar kemur að þvi að taka á ríkisfjármálunum af þeirri festu sem nauðsynleg er, þá munu þessir flokkar gugna og hlaupa frá stjórnartaumunum.  VG mun ekki geta staðið fyrir fjöldauppsögnum opinberra starfsmanna, en það mun reynast nauðsynlegt strax á þessu ári og ekki síður því næsta.

Verði vinstir stjórn mynduð á annað borð mun hún ekki lifa nema í rúmlega ár eða svo.


mbl.is Gæti orðið mesta vinstri sveifla sem sést hefur hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sáttahönd?

Steingrímur J. Bjarnfreðarson segir að aðgerðarleysisstjórnin hafi óskað eftir fundi með formanni Framsóknarflokksins til þess að sannfæra hann um að ráðherrarnir séu að vinna og veitir ekki af, því ekkert bólar á "bjargráðunum" sem talað hefur verið um í heilan mánuð.  Á þessum mánuði sem þeir hafa haft til að koma málunum sínum fram, hafa aðeins hefndarlögin verið samþykkt og nú eru aðeins fáeinir dagar eftir í þinginu.  Á þeim fáu dögum á væntanlega að bjarga heiminum.

Á sama tíma gerir Össur, grínráðherra, lítið úr framsóknarmönnum  og segir þá bara vera að syngja aríur til þess að vekja athygli á sjálfum sér.  Um leið hefur hann í heitingum við þá, ef þeir dirfist að flækjast fyrir bráðum kannski væntanlegum málum sem ráðherraræðinu kynni að detta í hug að bera fram á næstunni.

Ef þetta er að rétta út sáttarhönd þá væri betra að ráðherrarnir héldu áfram að hafa hendurnar í vösunum.


mbl.is Sigmundi Davíð boðin sáttahönd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðurlandsvegur

Sunnlenskir sveitastjórar krefjast þess að Suðurlandsvegur verði allur tvöfaldur í stað 2+1, eins og vegagerðin hefur boðað.  Umferðin um Suðurlandsveg er ekki meiri en svo, að 2+1 vegur er vel fullnægjandi og kostar langt innan við helming þess sem tvöfaldur vegur kostar.  Menn voru með alls kyns draumóra um framkvæmdir í "góðærinu" og voru ekkert að láta útreikninga á kostnaði vekja sig upp af draumunum.

Nú árar hins vegar þannig að liggja þarf yfir öllum kostnaðartölum og eins og komið hefur fram þjónar 2+1 vegur umferðarþunganum um Suðurlandsveg fullkomlega.  Hugmyndir um að fresta mislægum gatnamótum á veginum um tíma er ekki heldur góð hugmynd.  Betra hefði verið að stinga upp á að mislægum gatnamótum verði algerlega sópað út af borðinu, því þau eru allt of dýr og vel hægt að haga gatnamótum á einni hæð þannig að fullnægjandi sé.

Sveitarstjórar og aðrir sveitarstjórnarmenn verða að fara að láta sér skiljast að nú ríkir kreppa og velta verður hverri krónu margoft, áður en henni er eytt.


mbl.is Tvöföldun Suðurlandsvegar er forgangsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaður vegna mótmæla

Kostnaður lögregluembætta vegna mótmæla er talinn vera um 70 millj. króna og síðan bætist við kostnaður vegna viðgerða á opinberum byggingum sem skemmdar voru í skrílslátum.  Sú upphæð nemur einhverjum tugum milljóna.

Þeir sem stóðu að þessum aðgerðum hljóta nú að axla ábyrgðina af þessum aðgerðum og greiða kostnaðinn.  Hörður Torfason hlýtur að axla sinn hluta ábyrgðarinnar og sjá til þess að félagar hans í öskurapahópnum "Byltingarfélag stúdenta" taki á sig sinn hluta.  Ekki væri heldur úr vegi að ungliðahreyfing VG lýsti sig taka á sig hluta ábyrgðarinnar.  Þessir aðilar hljóta að skjóta saman fyrir áföllnum kostnaði af gerðum sínum.  Ekki geta þeir verið þekktir fyrir að láta þetta falla á samborgara sína.

Ekki er hægt að krefjast ábyrgðar af öðrum, en neita sjálfur sínum hluta. 


mbl.is Bera kostnað vegna mótmæla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ráðaleysi

Jóhanna, ríkisverkstjóri, segir að Alþingi verði að starfa áfram þó þing verði rofið 12. mars.  Nú er mánuður síðan vinnuflokkur ríkisverkstjórans tók til starfa og ekki hafa nema ein einustu lög verið samþykkt á Alþingi allan þennan tíma, en það voru hefndarlögin.

Það var gefið út strax við stjórnarmyndunina að kosið skyldi þann 25. apríl, þannig að skipulag þingstarfa hefði átt að geta tekið mið af því frá byrjun, en vandræðagangur vinnuflokksins er slíkur, að jafnvel Framsóknarflokknum er farið að þykja nóg um.  Flokkarnir eru farnir að auglýsa prófkjör, en kjörnefndir geta ekki hafið neinn undirbúning kosninganna vegna þessa seinagangs og upphaf utankjörfundaratkvæðagreiðslu dregst von úr viti.

Starfsdagar á Alþingi verða héðan af varla fleiri en tuttugu og vinnuflokkurinn hefur boðað að afgreiða þurfi hátt í þrjátíu frumvörp, sem mislangt eru komin í undirbúningi.  Dettur nokkrum í hug að svona vinnubrögð gangi upp?  Ef stjórnarandstaðan svo mikið sem tekur til máls það sem eftir er þingsins, mun hún verða ásökuð um skemmdarverk og tafir, jafnvel þó ekki verði um annað en stuttar fyrirspurnir að ræða.

Þingmenn þurfa væntanlega að fara að taka fram vökustaurana.


mbl.is Hægt að halda áfram þingstörfum eftir þingrof
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesavebréf í ágúst

Percy Westerlund, sendiherra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins segir að með bréfum frá ágúst og október 2008 hafi íslenska ríkisstjórnin heitið að styðja við bakið á tryggingarsjóði bankainnistæða, ef hann væri ekki megnugur að greiða út lágmarkstryggingu Icesave innlána hjá Landsbankanum í Bretlandi. 

Ekki hefur áður komið fram að ráðuneytin íslensku og bresku hafi verið farin að skrifast á um málið í ágústmánuði, þ.e. tveim mánuðum fyrir bankahrunið.  Sé þetta rétt er enn óskiljanlegra hvernig Darling og Brown datt í hug að beita hryðjuverkalögum gegn íslendingum og ýtir undir þær skoðanir að það hafi verið gert í áróðursskyni til heimabrúks.

Bretum var greinilega fullljóst að staðið yrði við skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum í Bretlandi og því er beiting hryðjuverkalaganna gegn "vinaþjóð" ennþá alvarlegri fyrir bragðið.

Tímabært er orðið að birta opinberlega öll bréfaskipti og önnur samskipti milli íslenskra og breskra ráðamanna fyrir og eftir bankahrunið.

 


mbl.is Aldrei vafi um skyldu vegna Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband