Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
18.3.2009 | 14:24
Baugur í upphæðum
Ef 2,35% hlutur í Baugi hefur verið metinn á 1,9 milljarða króna er auðvelt að reikna út að heildarverðmæti Baugs hefur verið áttahundruðogáttamilljarðarfimmhundruðogtíumilljónirsexhundruðþrjátíuogáttaþúsundtvöhundruðnítíuogsjö krónur (808.510.638.297). Þetta er stór tala og verður ekki skrifuð nema með löngu orði. Til þess að setja þessa upphæð í eitthvert samhengi eru skuldir íslenskra útgerðarfyrirtækja taldar vera um 450 milljarðar og á útgerðin í basli með að standa undir þeirri skuldabyrði.
Ekki er vitað til þess að Baugur hafi skapað nokkur einustu raunveruleg verðmæti, eins og sjávarútvegurinn gerir, heldur byggðist veldi Baugs aðallega á viðskiptavild, sem búin var til með kaupum og sölum á eigin fyrirtækjum til eigin fyrirtækja, með lánum á milli fyrirtækjanna og til eigendanna og alltsaman fjármagnað að lokum með lánum frá bankakerfinu. Nafnið á þessum braskhring hefur verið sannkallað réttnefni, þ.e. Baugur.
Braskfléttan og upphæðirnar eru öllu venjulegu fólki óskiljanlegar. Sennilega er snilldin á bak við þetta sú, að gera þetta svo óskiljanlegt að ómögulegt verði að fá nokkurn botn í þetta.
Sérstakur saksóknari kemur allavega til með að hafa nóga vinnu næsta áratuginn.
2,35% hlutur í Baugi metinn á 1,9 milljarða króna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.3.2009 | 15:05
Útþenslustopp ESB
Angela Merkel, kanslari Þýskalands, vill að stækkun Evrópusambandsins verði ekki meiri en svo, að Króatía verði tekin í klúbbinn og svo verði skellt í lás. Þjóðverjar, eins og aðrir, eru farnir að sjá að ESB stendur á brauðfótum og myntbandalagið við það að springa. Efnahagskreppan kemur misjafnlega niður á ESBríkjunum og eru sum þeirra að hruni komin fjárhagslega og Þjóðverjar og Frakkar hafa engan áhuga á að koma þeim til bjargar. Þýskir og Franskir skattgreiðendum finnst þeir eiga nóg með sjálfa sig, þó þeir fari ekki að taka vandamál annarra ESB þjóða á sitt bak.
Flokkur kanslarans telur að nú "eigi að einbeita sér að því að þétta ríkin saman, styrkja stofnanir sambandsins og gildi á sama tíma og hægt verði á stækkunarferlinu". Eina undantekningin frá þeirri reglu getur verið fyrir Króatíu og standa vonir til þess að hún verði aðili að ESB fyrir árslok.
Vonandi verður þessi nýja stefna Angelu Merkel og flokks hennar til þess að þagga niður í ESB sinnum á Íslandi og bjarga Íslendingum frá þessu hnignandi "stórríki".
Vilja hægja á stækkun ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
17.3.2009 | 12:55
Fráleit leynd
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, ræddi bæði í fjölmiðlum og á útifundi á Austurvelli að birta ætti opinberlega frumskýrslur endurskoðenda um bankahrunið, en svo skipti hann um skoðun eftir að hann varð ráðherra. Þá sagði hann að upplýsingar í skýrslunum bentu á ýmis vafasöm viðskipti sem ekki mætti upplýsa um.
Nú telur Gylfi að fráleitt sé að bankaleynd eigi ekki að koma í veg fyrir að upplýst sé um þessi vægast sagt vafasömu viðskipti. Verður þá ekki að aflétta þessari leynd með hraði, áður en Gylfi fer annan hring í málinu? Ekki dugar að fá sérfræðingasveit Evu Joly hingað, ef þeir eiga ekki að fá fullan aðgang að öllum "trúnaðarupplýsingum". Gylfi segir að ekki muni nást að afgreiða lög um afléttingu bankaleyndar fyrir kosningar og það þýðir að ekkert verður gert í málinu fyrr en í haust. Það er óásættanlegur dráttur.
Lágmarkskrafa er að auknar heimildir sérstaks saksóknara til að sækja sér gögn, hvar sem hann telur að þau geti legið, verði afgreitt áður en þingið fer í "kosningafrí".
Fráleit bankaleynd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.3.2009 | 16:32
Tekjutengd hjúkrun
Allir Íslendingar sitja við sama borð varðandi heilsugæslu og sjúkrahúsvist, þ.e. allir greiða sama gjald fyrir komu á heilsugæslustöðvar (að vísu eru börn gjaldfrí og ellilífeyrisþegar fá afslátt) og enginn borgar neitt fyrir sjúkrahúslegu. Sama kerfi er á greiðslum fyrir lyf, með þeirri undantekningu að ellilífeyrisþegar fá meiri niðurgreiðslu en aðrir. Alveg er sama hvort ríkið rekur stofnanirnar sjálft eða kaupir þjónustuna af einkaaðilum og nánast verið samstaða um það meðal almennings, að þeir efnameiri ættu ekki að geta keypt sig fram fyrir aðra, t.d. á biðlistum.
Því skýtur skökku við, að á hjúkrunarheimilum fyrir aldraða skulu dvalargjöld vera tekjutengd og fólk greiði þar allt að 240 þúsund krónum á mánuði fyrir dvöl og þjónustu á meðan aðrir greiða lítið sem ekki neitt. Þar fyir utan er ekkert tillit tekið til þess hvort viðkomandi er að reka sitt gamla heimili fyrir makann eða fatlaða afkomendur. Þetta er mismunun sem hvergi er annarsstaðar í kerfinu og verður að breyta strax.
Að níðast á gamalmennum, jafnvel þau þau hafi önglað einhverju saman um ævina, með þessum hætti er til háborinnar skammar.
Eiginkonurnar settar út á götu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.3.2009 | 13:25
Dýrt stjórnlagaþing
Halli ríkissjóðs á þessu ári er áætlaður að verði 150 milljarðar króna, en miðað við fyrri reynslu má reikna með að hann fari í a.m.k. 170 milljarða. Í samningi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn skuldbundu stjórnvöld sig til þess að skila hallalausum fjárlögum í síðasta lagi árið 2013, þannig að árlegur niðurskurður á árunum 2010-2012 þarf að vera a.m.k. 60-70 milljarðar til að ná því marki. Á þessu ári var skorið niður um 40 milljarða frá upphaflegu fjárlagafrumvarpi og þótti mörgum nóg um og kölluðu þann niðurskurð blóðugan.
Miðað við niðurskurð ársins 2009 verður ekki hægt að skera niður um þær upphæðir sem nauðsynlegar eru nema með algerri uppstokkun á ríkiskerfinu, sem mun verða bæði erfitt og sársaukafullt og væntanlega fækka starfsmönnum á öllum sviðum opinberrar þjónustu. Á sama tíma dettur ríkisstjórninni í hug að boða til stjórnlagaþings sem mun kosta rúmlega tvo milljarða króna. Ætla má að fyrirséður niðurskurður ríkisútgjalda verði nógu erfiður, þó ekki þurfi að skera niður til viðbótar til að mæta kostnaði við verkefni, sem vel geta beðið þar til betur árar.
Jafnvel skattahækkunarflokkunum, sem vona að þeir fái áframhaldandi umboð eftir kosningar, geta ekki hækkað skatta svo mikið að viðbótartekjurnar dugi fyrir nema broti af þeirri fjárvöntun sem verður á næstu árum.
Samfylkingin og sérstaklega VG verða að fara að vakna upp af skattadraumum sínum. Annars verða þeir að martröð þjóðarinnar.
Stjórnlagaþing kostar 1,7 til 2,1 milljarða | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2009 | 13:30
Byr og arðurinn
Nú berast fregnir af því að Byr sparisjóður ætli að sækja um ríkisframlag að upphæð 10 milljarða króna til að styrkja eiginfjárstöðuna. Sparisjóðurinn mun hafa skilað tapi að upphæð 29 milljarða króna á árinu 2008.
Undir lok árs árið 2007 var stofnfé sparisjóðsins aukið um 30 milljarða króna og strax við aukninguna var gefið fyrirheit um að stofnfjáraukningin yrði endurgreidd í gegnum arð á tveimur árum, enda var greiddur út arður í apríl 2008 að upphæð kr. 16,5 milljarðar og fyrirheit um að annað eins yrði greitt út á árinu 2009. Það undarlega er að þessi mikla arðgreiðsla byggðist á sex milljarða króna bókfærðum hagnaði ársins 2007. Væntanlega hefur sá hagnaðu myndast með verðbréfabraski, sem í ljós er komið að minna en ekkert var á bak við. Hins vegar átti Byr digra varasjóði, sem átti að ganga í til þess að endurgreiða stofnfjáraukninguna á þessum tveim árum. Að vísu voru varasjóðirnir bundnir í verðbréfavöndlum sem ekkert stóð á bak við og er væntalega að mynda þetta gríðarlega tap á árinu 2008.
Á bak við þetta ævintýri, eins og svo mörg önnur, standa sömu snillingarnir og koma við sögu í ótrúlega mörgum öðrum nútímahryllingssögum, þ.e. aðstandendur köngulóarvefsins sem spunninn var út frá FL Group (síðar Stoðir), Baugur Group, Gaumur, Hagar o.s.frv. Í þann vef og nokkra aðra slíka festist nánast allt fjármagn íslenskra banka og það erlenda fé, sem tókst að soga að þessum vefjum frá erlendum lánastofnunum.
Áður en ríkið hleypur undir bagga með Byr sparisjóði, ætti að setja það skylyrði að arður síðasta árs yrði afturkallaður og honum skilað til baka. Með þeirri endurgreiðslu og framlagi ríkisins næðist nánast að fjármagna tap ársins 2008.
Ef "eigendurnir" eru ekki tilbúnir til þessa, á ríkið ekki að koma nálægt málinu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2009 | 16:11
Álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins
Mark Flanagans, fulltrúi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, segir að koma verði bankakerfinu á réttan kjöl og létta verði á peningastefnu seðlabankans sem fyrst. Þetta geti annað hvort komið fram í afléttingu gjaldeyrishafta eða lækkun stýrivaxta. Fyrir nokkrum dögum var gefið út að ekki yrði unnt að aflétta gjaldeyrishöftum fyrr en í haust, þannig að þetta hlýtur að þýða að stýrivextir verði lækkaðir á næsta vaxtaákvörðunardegi seðlabankans, sem er 19. mars n.k. Nú er verðbólguhraðinn kominn niður í ca. 6%, en stýrivextir eru 18% sem er í raun fáránlegt vaxtaokur. Nýreknir seðlabankastjórar vildu lækka stýrivextina í febrúar, en þá lagðist AGS gegn því. Verður því að reikna með því að stýrivextirnir verði lækkaðir niður í 10% í þessum áfanga og áfram í samræmi við lækkun verðbólgu.
Flanagan segir líka að ríkið verði að hagræða í rekstri sínum árið 2010 og verði ákvarðanir um hvernig það verði gert teknar síðar á árinu. Á mannamáli þýðir þetta meiriháttar niðurskurð á þjónustu ríkisins og mun það koma hart niður á ýmsum þáttum, enda þarf niðurskurðurinn að nema a.m.k. 70 milljörðum króna á árinu 2010 og annað eins til viðbótar á árinu 2011. Til samanburðar á að skera niður um 40 milljarða á þessu ári og hafa ýmsir kveinkað sér illa undan því, en sá sparnaður er barnaleikur hjá því sem koma skal.
Að endingu blés Flanagan á tillögur framsóknarmanna um flatan 20% niðurskurð allra skulda og taldi þær slæma og dýra leið til aðstoðar heimilunum. Þessu hefur áður verið haldið fram á þessu bloggi og þetta virðast allir skilja nema framsóknarmenn.
Flanagan lætur í það skína að seðlabankinn og ríkisstjórnin ráði ferðinni í fjármálum þjóðarinnar, en annað skín allsstaðar í gegn um það sem frá AGS kemur.
Svigrúm til stýrivaxtalækkana | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2009 | 15:09
Vanir menn
Jón Ásgeir Jóhannesson lýsti því yfir fyrir skömmu að hann væri farinn úr landi og myndi einbeita sér að rekstri erlendis, enda Ísland allt of lítið land fyrir stórhuga menn. Nú hefur hann, ásamt fleiri toppum frá Baug Group stofnað nýtt félag í Bretlandi, sem eins og þeir segja: "Við munum fylgjast með markaðnum og bíða. Þetta snýst um að hafa rétta reynda fólkið á staðnum til að grípa tækifærið". Í frétt Retail Week liggur ekki fyrir hvernig á að fjármagna fyrirtækjakaup, eða hvort þeir ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna. Það er ekki von að nú sé vitað hvernig á að fjármagna ný fyrirtækjakaup, því enginn virðist skilja hvernig öll gömlu fyrirtækjakaupin voru fjármögnuð. Eru þó skilanefndir, rannsóknarnefnd, fjármálaeftirlit og sérstakur saksóknari með fjölda manna á launum (og Evu Joly) við að reyna að fá botn í málið.
Vitað er að tugir eða hundruð hlutafélaga tengjast eigendum Baug Group og nánast óskiljanlegt að ekkert þeirra sé í stakk búið til að "grípa tækifærið". Einnig er athyglisvert að ekki er vitað hvort þeir "ætli sér að yfirtaka eitthvað af eignum Baugs sem nú eru í höndum bankanna". Einhver hefði getað látið sér detta í hug að bankarnir myndu sjálfir hafa eitthvað um það að segja hverjir yfirtækju þær eignir sem eru í þeirra höndum, að ekki sé talað um lánadrottna Baug Group.
Hitt er annað mál að þetta eru þaulvanir menn, enda hafa þeir verið verðlaunaðir af sjálfum konungi (afsakið forseta) Íslands fyrir snilld sína í útflutningi á hugviti. Baugur Group fékk í hendur sérhannaðan verðlaunagrip og skjal, auk þess sem verðlaunahafi fékk leyfi til að nota merki verðlaunanna á kynningarefni sitt í fimm ár frá afhendingu. Frá afhendingu verðlaunanna eru nú liðnir rúmir ellefu mánuðir og verðlaunahafinn orðinn gjaldþrota. Skyldi vera heimilt að yfirfæra merkið á nýtt félag úr því að aðstandendurnir eru þeir sömu?
Sennilegt er að engum þyki lengur akkur í því að hampa Útflutningsverðlaunum forseta Íslands.
Stjórnendur Baugs í nýjum rekstri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2009 | 15:48
Arðsmóðgun
Eftir það sem á undan er gengið í efnahagslífi þjóðarinnar er vel hægt að taka undir það að útgreiðsla á arði til hluthafa ekki heppileg og allra síst þar sem launahækkunum var frestað til 1. júlí. Fyrirtæki skilar ekki arði af sjálfu sér, heldur vegna samspils stjórnunar fyrirtækisins og góðs starfsfólks. Ef ekki eru til peningar til að umbuna starfsfólkinu, er afar erfitt að réttlæta arðsgreiðslu til hluthafanna.
Það sem er þó ánægulegt við hagnað HB Granda er að hann byggist á framleiðslu raunverulegra verðmæta, en ekki eintómu matadorspili með verðbréfavafninga, sem ekkert er á bak við.
Góður hagnaður framleiðslufyrirtækjanna er grundvöllur launahækkana til starfsmanna.
Eigendur og starfsmenn eiga hvorir tveggja að njóta ávaxtanna.
Arðgreiðsla móðgun við fiskvinnslufólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2009 | 14:29
Þingstörf
Nú eru fáeinir fundardagar eftir þar til þingið fer í "kosningafrí" og enn er ekki búið að leggja fram öll frumvörp sem ríkisverkstjórinn Jóhanna, og vinnuflokkurinn segja að verði að ná í gegnum þingið fyrir kosningar. Í morgun sagði hún að frumvarp til bjargar heimilunum yrði vonandi lagt fram í dag. Mörg önnur frumvörp eru ennþá í meðförum þingnefnda og enginn skilur hvers vegna svona erfiðlega gengur að koma öllum málum fram, nema hefndarlögunum gegn Davíð Oddssyni.
Á sama tíma og allir flokkar raða listum sínum upp í gegnum prófkjör eða forvöl, eyðir þingið tímanum í að ræða frumvarp um breytingar á kosningalögunum, sem breyta myndi kosningunum í eitt allsherjar prófkjör. Einnig er tíma eytt fram á nætur við umræður um breytingar á stjórnarskránni og í það frumvarp er skeytt ákvæði um að stofnað skuli stjórnlagaþing, sem á að hafa það eina hlutverk að breyta stjórnarskránni. Á meðan að á þessari vitleysu stendur bíður almenningur eftir boðaðri aðstoð við atvinnulífið og heimilin.
Greinilega næst ekki nein sátt um þinglokin fyrr en rifjast upp fyrir ríkisverkstjóranum til hvers þessi ríkisstjórn var mynduð, a.m.k. miðað við yfirlýsingarnar við upphaf hennar.
Það tók mánuð að ná fram hefndum á Davíð Oddssyni og ríkisstjórnin hafði aldrei nema tvo mánuði til þeirra lagasetninga sem hún boðaði.
Er ekki kominn tími til að fara að forgangsraða?
Ekki enn samkomulag um þingstörf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)