Bloggfærslur mánaðarins, mars 2009
24.3.2009 | 13:43
Engar viðræður um bankasamruna
Það eru engar viðræður um bankasamruna segir Gylfi viðskiptaráðherra. Það væri nú gott og blessað ef tíminn væri notaður í umræður um önnur aðkallandi mál sem brenna á þjóðinni.
Nú eru sárafáir fundardagar eftir hjá Alþingi fyrir kosningar og ætla mætti að ekkert kæmist að í umræðum þar annað en brýnustu hagsmunamál atvinnulífs og fjölskyldna í landinu. Nú er að hefjast þingfundur og hér má sjá dagskrána. Þar eru til umræðu 26 mál , en á síðustu stundu var skipt út liðnum "störf þingsins" fyrir umræður um aðild að ESB og álverið í Helguvík. Fróðlegt verður að fylgjast með hvað mikill tími fer í umræður um t.d. liði nr. 7, 11, 12, 13, 14, 17, 23, 24, 25 og 26.
Að tíma þingsins skuli sóað í slík mál, rétt fyrir þinglok í mestu kreppu sem yfir landið hefur dunið, getur ekki kallast annað en hneyksli.
Óvíst um sameiningu banka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.3.2009 | 09:58
Verðhjöðnun?
Í fréttinni kemur fram að: "Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,5% sem jafngildir 1,9% verðbólgu á ári (7,6% fyrir vísitöluna án húsnæðis), að því er fram kemur á vef Hagstofu Íslands". ´Greiningardeild Glitnis hafði spáð að vísitalna myndi hækka um 0,3% frá fyrra mánuði, en reyndin varð ekki nema 0,16%. Verðbætur húsnæðislána munu því hækka lítið um næstu mánaðarmót, en vextir af skammtímaskuldum eru nánast glæpsamlegir.
Við vaxtaákvörðun seðlabankans var sagt að varlega þyrfti að fara í vaxtalækkanir því óvissan væri svo mikil í efnahagsmálunum. Að halda uppi svo háum raunvöxtum er hrein aðför að atvinnulífinu og heimilunum í landinu. Engin eftirspurnarþrýstingur er fyrir hendi og hraustleg vaxtalækkun væri besta innspýtingin til að auka verðmætasköpun og fjölga störfum í landinu.
Á næsta vaxtaákvörðunardegi verður að gera þá kröfu að stýrivextir verði lækkaði niður í 8-10% og svo áfram út árið, þar til þeir verði komnir niður í 4-5%.
Verðhjöðnun, með hruni fyrirtækja og auknu atvinnuleysi, er mun verri en smávægileg verðbólga.
Talsvert dregur úr verðbólgu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.3.2009 | 14:39
VG og skattarnir
Í stjórnmálaályktun landsfundar VG er samþykkt um "að skattbyrðinni verði dreift með réttlátum hætti og að skattkerfið verði notað markvisst til tekjuföfnunar með þrepaskiptum tekjuskatti eða álagi á há laun". Aðspurður um þetta fer Steingrímur J. í kringum málið, eins og köttur í kringum heitan graut, með því að vitna í gamalt frumvarp sitt um 3% aukaskatt á laun yfir 500 þús. og 5% þar til viðbótar á laun hærri en 700 þús. Þetta gæti skilað ríkissjóði 3,5-4 milljörðum króna.
Annarsstaðar kom fram hjá Steingrími að fjárvöntun ríkissjóðs á næsta ári yrði 50 - 60 milljarðar króna og það yrði að jafna út með blöndu af niðurskurði ríkisútgjalda og hækkun skatta. Þessi "hálaunaskattur" skilar sem sagt ekki nema litlum hluta af fjárvöntuninni og ekkert er sagt hvernig á að mæta afganginum. Ef á að auka skattheimtu á næsta ári um a.m.k. 25-30 milljarða króna, þá segir sig sjálft að það verða almennir launamenn sem munu þurfa að taka á sig þá hækkun. Um þetta forðast Steingrímur J. að tala, en það fer alltaf vel í fólk að tala um að láta breiðu bökin borga meira.
Hér hefur áður verið sett fram tafla, sem sýnir hvernig skattbreyting gæti litið út með því að hækka skatthlutfallið í 41,1% og persónuafsláttur hækkaður í fimmtíu þúsund krónur á mánuði. Hér er taflan birt aftur með öðrum launatölum en síðast:
Staðgreiðsla, 37,2% | Staðgreiðsla, 41,1% | Hækkun | Hækkun | |||
(Persónuafsláttur | Hlutfall af | (Persónuafsláttur | Hlutfall af | skatta | skatta | |
Laun á mánuði: | kr. 42.205) | tekjum í % | kr. 50.000) | tekjum í % | í krónum | í % |
200.000 | 32.195 | 16,10 | 32.200 | 16,10 | 5 | 0,02 |
300.000 | 69.395 | 23,13 | 73.300 | 24,43 | 3.905 | 5,63 |
400.000 | 106.595 | 26,65 | 114.400 | 28,60 | 7.805 | 7,32 |
500.000 | 143.795 | 28,76 | 155.500 | 31,10 | 11.705 | 8,14 |
600.000 | 180.995 | 30,17 | 196.600 | 32,77 | 15.605 | 8,62 |
700.000 | 218.195 | 31,17 | 237.700 | 33,96 | 19.505 | 8,94 |
800.000 | 255.395 | 31,92 | 278.800 | 34,85 | 23.405 | 9,16 |
900.000 | 292.595 | 32,51 | 319.900 | 35,54 | 27.305 | 9,33 |
1.000.000 | 329.795 | 32,98 | 361.000 | 36,10 | 31.205 | 9,46 |
2.000.000 | 701.795 | 35,09 | 772.000 | 38,60 | 70.205 | 10,00 |
Ef á að hækka skatta á annað borð er miklu betra að gera það einhvern veginn í þessum anda, því með því vinnst að skattkerfið helst gagnsætt og auðskilið. Núverandi kerfi er þrepaskipt skattkerfi, þó VG nái ekki að skilja það, en taflan sýnir þetta vel.
Þeir sem hafa hæstu tekjurnar, hafa líka mestu möguleikana á að "hagræða" tekjum sínum til þess að komast hjá sköttum. Köngulóarvefurinn í gegnum Lux til Tortola sýnir það svart á hvítu.
3% skattur á 500 þúsund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.3.2009 | 15:15
VG fellir skattagrímuna
Steingrímur J. stendur enn í formennsku VG og getur ekki annað, þar sem enginn annar bauð sig fram í embættið, frekar en önnur embætti á vegum flokksins. Embættismenn VG voru allir endurkjörnir með 100% greiddra atkvæða og slógu þar með út félaga sína í Norður Kóreu, sem fengu aðeins 99,98% atkvæða í síðustu "kosningum" sem þar fóru fram.
"Helstu kosningaáherslur vinstri grænna snúast um hagi heimila og fjölskyldna, atvinnusköpun í hefðbundnum framleiðslugreinum og ferðaþjónustu og um sanngirni í skattamálum" segir í fréttinni, en ekkert er minnst á að samþykktin (samkvæmt fréttum í útvarpi) snerist um að lagður skyldi á hátekjuskattur. Það hlýtur að vera krafa allra þeirra meðaltekjumanna, sem greiddu "hátekjuskatt" um árabil, að fá að vita við hvaða tekjumörk VG ætlar að miða við endurupptöku "hátekjuskattsins"
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir sagði við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2009 að hátekjuskattur, sem væri miðaður við raunverulegar hátekjur, væri aðeins táknrænn, þar sem hann skilaði svo litlum tekjum til ríkissjóðs. Þess vegna verður að krefjast þess að boðberar skattahækkana segi skýrt og skorinort hvað þeir meina með hátekjum.
Ekki kemur fram í þessari frétt, né í útvarpsfréttum, hvort VG ætli að hækka persónuafsláttinn, en ef hækka á skatta á annað borð skal á ný bent á þetta blogg.
Hér og nú skal sú spá sett fram að verði vinstri stjórn áfram í landinu eftir kosningar, þá verði það aðrir en "hátekjumenn" sem taki á sig mestu skattahækkanirnar.
Steingrímur J.: Hér stend ég enn" | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.3.2009 | 11:41
Hindrun umbóta
Ferenc Gyurccsany, forsætisráðherra og sósíalisti, skýrði frá því á flokksfundi með félögum sínum að hann hyggðist víkja úr embætti þar sem "hann áliti sig hindrun í vegi ferkari umbóta í félags- og efnahagsmálum".
Ungverjar, sem eru í Evrópusambandinu, hafa fengið 25,1 milljarð Bandaríkjadala frá AGS og öðrum til viðreisnar efnahagslífsins. Veran í ESB og tenging við Evru hefur ekki komið Ungverjalandi til neinnar bjargar í þeirri kreppu, sem nú ríður yfir heimsbyggðina.
Sumir Íslendingar virðast halda að innganga í ESB og upptaka Evru muni koma Íslandi til bjargar. Engar skýringar fylgja með þeirri bjargráðakenningu, aðrar en þær að þá muni vextir lækka af skuldum landans. Í lok þessa árs mun verðbólgan hérlendis verða farin að nálgast núllið og vextir væntanlega komnir niður í svipað horf og í nágrannalöndunum og þá hverfa þessar ástæður til að réttlæta umsókn um ESB aðild.
Þegar ekki tókst að sannfæra þjóðina með venjulegum áróðri fyrir ESB, var tekið upp á því að níða niður krónuna og segja hana dauðan gjaldmiðil og þess vegna yrði að ganga í ESB, svo Evran myndi bjarga þjóðinni. Það er nú að koma í ljós að það eru líka falsrök, því svo gæti farið að myntsamstarfið gæti sprungið fyrr en varir vegna erfiðleika í efnahag margra ESB landa. Fróðlegt verður að fylgjast með því hvaða rök verða þá fundin upp til að réttlæta umsókn um ESB aðild.
Mikil hætta er á að Íslenska sósílistaríkisstjórnin verði, eins og sú Ungverska, hindrun í vegi umbóta í félags- og efnahagsmálum.
Gyurcsany segir af sér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2009 | 17:22
Frumkvæði borgarinnar
Ennþá gerist lítið í málefnum atvinnulífs og heimila, þrátt fyrir boðaðan forgang þeirra mála hjá ríkisstjórninni. Því ber að fagna frumkvæði Reykjavíkurborgar í þessum málum eins og fram kemur í fréttinni.
Vonandi leiða viðræður borgarinnar, lífeyrissjóðanna og Evrópska þróunarbankans til niðurstöðu sem fyrst um myndun framkvæmdasjóðs til eflingar atvinnulífsins, ekki síst byggingariðnaðarins.
Líklega er mesta atvinnuleysið nú innan byggingageirans og því brýnast að skapa honum verkefni.
Hækkun lána myndi virka sem blóðgjöf | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2009 | 11:29
Verðbólgusamdráttur
Norski bankastjóri Íslenska seðlabankans segir nauðsynlegt að beita áfram aðhaldi í peningamálastefnunni og því sé ekki hægt að lækka stýrivexti um meira en 1% núna. Hann segir að verðbólgan hafi náð hámarki, en spáð hafi verið 18,6% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi. Þessi útreikningur miðast við verðbólgu síðustu tólf mánaða, en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,57% í janúar, 0,51% í febrúar og spáð er að hún muni hækka um 0,3% í mars. Það þýðir að verðbólguhraði reiknaður til næstu tólf mánaða sé 5,52%. Stýrivextir upp á 17% þýða því í raun 11,48% raunvexti og undir slíkum vöxtum stendur enginn, hvorki heimili né fyrirtæki.
Einnig er það notað sem rök fyrir háum vöxtum, að þeir séu til þess að sporna gegn lánsfjáreftirspurn. Jafnvel þó eftirspurn eftir lánum sé fyrir hendi, þá er hvergi hægt að fá neina lánafyrirgreiðslu, sem heitið getur, þannig að þessi rök halda ekki. Erlend lán er alls ekki hægt að taka vegna gjaldeyrishafta, þannig að þessi vaxtastefna er algerlega gengin sér til húðar.
Seðlabankinn hefur ákveðið að bæta við nýjum vaxtaákvörðunardegi þann 8. apríl, væntanlega til þess að tilkynna meiri lækkun stýrivaxta. Annar tilgangur með þessum viðbótardegi getur ekki verið fyrir hendi, því varla ætlar bankinn að hækka vextina aftur.
Þá vaknar sú spurning: Hvað heldur bankinn að breytist svona mikið á næstu þrem vikum?
Varla ætlar bankinn að taka þátt í kosningaslagnum með því að tilkynna hraustlega lækkun vaxtanna í miðri kosningabaráttunni.
Verulegur verðbólgusamdráttur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.3.2009 | 09:15
Óvissa í stjórnmálum
Peningastefnunefndin nýja hefur ákveðið að lækka stýrivexti um 1%, a.m.k. er látið líta svo út að hún hafi tekið ákvörðunina, en í raun er það Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sem ræður þessu. Athyglisvert er að sjóðurinn tók undir rök gömlu bankastjórnar Seðlabankans í síðasta mánuði um 3% lækkun stýrivaxta, en vildi samt bíða með lækkun vegna óvissu í stjórnmálum hér á landi, eða eins og segir í fréttinni:
"Fram kom í Morgunblaðinu í gær að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefði hafnað beiðni Seðlabankans í síðasta mánuði um lækkun stýrivaxta um þrjú prósentustig, eða niður í 15%. Forstjóri sjóðsins, Dominique Strauss-Kahn, mun hafa lagst gegn þeim áformum og talið rétt að bíða með vaxtalækkanir á meðan óvissa ríkti í stjórnmálum hér á landi. Tekið var undir rök bankastjórnar fyrir vaxtalækkun að öðru leyti."
Líklega þykir Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að stjórnmálaóvissan sé nú minni og hættan á áframhaldandi vinstri stjórn hafi aukist.
Stýrivextir lækkaðir í 17% | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.3.2009 | 17:39
Nú ríður á
Gylfi, viðskiptaráðherra, sagði í gær að ekki ynnist tími fyrir þinglok til að samþykkja afnám bankaleyndar, svo flýta mætti rannsókn þeirra spillingarmála sem hafa tafist vegna leyndarhjúps bankanna. Gylfi vildi meina að það gerði í sjálfu sér ekkert til að mál tefðust, bara ef menn gætu verið vissir um að þau yrðu rannsökuð einhvern tíma seinna. Þetta sagði ráðherrann vegna þess að það eru svo fáir þingdagar eftir og svo mörg brýn mál sem þyrfti að afgreiða til bjargar heimilunum og atvinnulífinu.
Nú er komið fram eitt allra nauðsynlegasta frumvarpið til bjargar heimilunum, sem Atli Gíslason telur að muni fá flýtimeðferð í þinginu vegna þess að það geti alls ekki beðið fram yfir kosningar. Það hefur heyrst að sumar eiginkonur hafi verið óánægðar með að kallarnir þeirra hafi farið á súlustað og frumvarp Atla og félaga verður að sjálfsögðu til bjargar við slíkar aðstæður.
Ekki hefur komið upp eitt einasta mál um vændi, sem hægt hefur verið að tengja við súlustaðina, en hins vegar voru nýlega rekin tvö vændishús við aðal lögreglustöð Reykjavíkur, án þess að nokkur hafi heimtað að lögreglustöðinni yrði lokað. Ekki er verið að mæla vændi bót hér, en það hefur viðgengist á Íslandi lengur en elstu menn muna og miklu lengur en súlustaðirnir. Vændi mun ekki hverfa þó súlustöðum verði lokað, enda eins og áður sagði þrífst það um allar jarðir, annarsstaðar en þar.
Samkvæmt fréttum eru salir Alþingis nánast tómir þessa dagana, eins og þinmenn hafi ekki heyrt minnst á kreppuna í landinu og þeir fáu sem mæta virðast hafa hugann við allt annað en það sem raunverulega skiptir máli.
Ísland ríður á vaðið | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.3.2009 | 16:25
Skuld í dag, skattur á morgun
Frambjóðendur til Alþingis keppast nú við að koma með hljómfargrar tillögur til að létta skuldabyrði heimilanna í landinu. Margar fjalla um að gefa eftir mismikið af húsnæðisskuldum landsmanna, allt frá fjórum milljónum á haus og upp í 20% af öllum skuldum heimila og fyrirtækja. Nýjasta tillagan er frá Lilju Mósesdóttur, frambjóðanda VG, og hljóðar hennar tillaga um að fella niður fjórar milljónir af hverju húsnæðisláni.
Þetta gengur allt saman vel í fólk, en gengur ekki betur upp en það, að einhver þarf að borga. Í sumum tillögunum felst að erlendir lánadrottnar bankanna borgi, en í tillögu Lilju felst að íslendingar borgi þetta sjálfir, eins og fram kemur í lokaorðum fréttarinnar:
"Ég legg til að ríkið fjármagni 4 milljóna króna niðurfærslu á höfuðstól allra húsnæðislána landsmanna. Almenn aðgerð sem þessi er í anda norræna velferðarkerfisins, þar sem leitast er við að koma sem flestum til aðstoðar og síðan er skattkerfið notað til að ná fram jöfnuði," skrifar Lilja og bætir við að tillagan um 4 milljón króna niðurfærslu á skuldum heimilanna muni kosta ríkið um 300 milljarða sem fjármagna verður með m.a. aukinni skattheimtu þeirra sem meira hafa á milli handanna."
Alltaf hljómar það svo ósköp fallega að láta þá borga "sem meira hafa á milli handanna", en reynslan er sú að "breiðu bökin" sem greiða skattana eru sá sami almenningur og skuldar að meðaltali 30 milljónir í húsnæðislán. Það á að aðstoða þá sem eru í vandræðum með að halda heimilum sínum, en ekki hinum sem geta greitt af lánum sínum.
Auðvitað hljómar það vel í eyrum að fá gefnar fjórar milljónir, en svona tillögur eru hreint lýðskrum, enda verða þær ekki uppi á borðum eftir kosningar.
Vill fella niður 4 milljónir af höfuðstól húsnæðislána | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)