Verðbólgusamdráttur

Norski bankastjóri Íslenska seðlabankans segir nauðsynlegt að beita áfram aðhaldi í peningamálastefnunni og því sé ekki hægt að lækka stýrivexti um meira en 1% núna.  Hann segir að verðbólgan hafi náð hámarki, en spáð hafi verið 18,6% verðbólgu á fyrsta ársfjórðungi.  Þessi útreikningur miðast við verðbólgu síðustu tólf mánaða, en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,57% í janúar, 0,51% í febrúar og spáð er að hún muni hækka um 0,3% í mars.  Það þýðir að verðbólguhraði reiknaður til næstu tólf mánaða sé 5,52%.  Stýrivextir upp á 17% þýða því í raun 11,48% raunvexti og undir slíkum vöxtum stendur enginn, hvorki heimili né fyrirtæki.

Einnig er það notað sem rök fyrir háum vöxtum, að þeir séu til þess að sporna gegn lánsfjáreftirspurn.  Jafnvel þó eftirspurn eftir lánum sé fyrir hendi, þá er hvergi hægt að fá neina lánafyrirgreiðslu, sem heitið getur, þannig að þessi rök halda ekki.  Erlend lán er alls ekki hægt að taka vegna gjaldeyrishafta, þannig að þessi vaxtastefna er algerlega gengin sér til húðar.

Seðlabankinn hefur ákveðið að bæta við nýjum vaxtaákvörðunardegi þann 8. apríl, væntanlega til þess að tilkynna meiri lækkun stýrivaxta.  Annar tilgangur með þessum viðbótardegi getur ekki verið fyrir hendi, því varla ætlar bankinn að hækka vextina aftur.

Þá vaknar sú spurning:  Hvað heldur bankinn að breytist svona mikið á næstu þrem vikum? 

Varla ætlar bankinn að taka þátt í kosningaslagnum með því að tilkynna hraustlega lækkun vaxtanna í miðri kosningabaráttunni.


mbl.is Verulegur verðbólgusamdráttur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Á virkilega að vera að lækka vexti yfir höfuð á meðan krónan er ekki að ná sér á strik?

Er ekki málið frekar einfalt? Á meðan að krónan nær ekki að styrkjast þá getur varla verið grundvöllur fyrir drastískum vaxtalækkunum.

Það hlýtur að hafa áhrif á verðlag og vera verðbólguhvetjandi þegar innflutningur heldur áfram að vera svona dýr. Endilega leiðréttu mig ef það stemmir ekki.

Þar að auki, þá ýta lægri vextir að einhverju leyti undir fjármagnsflótta (þrátt fyrir gjaldeyrishöft því það finnast jú hinar ýmsu krókaleiðir) sem þá leiðir af sér enn meira gengisfall.

Nýjustu fréttir af krónunni eru þær að styrking síðustu vikna er nánast öll gengin til baka og er hún komin aftur í sama farið og í lok janúar, evran í 150 krónur og gengisvísitalan að detta í 200 stig!

Maður getur því spurt sig; eru áætlanir stjórnvalda og IMF í gjaldeyrismálum að skila árangri? Það hélt maður fyrir 3 vikum síðan en efast nú stórlega.

Mun krónan ná sér á fætur aftur? Af hverju ætti maður að halda það þegar hún hríðfellur eins og við höfum séð undanfarna viku?

Og ef krónan mun ekki ná sér, af hverju ætti maður þá að búast við vaxtalækkunum?

Er ekki stefnan skýr?

  1. Koma á jafnvægi í gjaldeyrismálum...
  2. svo hægt sé að ná niður verðbólgu almennilega...
  3. svo hægt sé að lækka vexti almennilega

Hinn Jón (IP-tala skráð) 19.3.2009 kl. 11:35

2 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Þetta er rétt hjá þér Axel, það er reyndar spurning hvort verðbólgan er ekki enn lægri, ef við miðum við 0,3% hækkun á mánuði næstu 12 mánuði er verðbólgan 3,66% . Svo er annað sem kemur ekki inn í verðbólgumælinguna sem er magn innkaupa. Ef heildar magn keyptra vara minnkar þá er verðbólgan í raun lægri en hækkun á verðlagi. Það er spurning hvort það ætti ekki að breyta verðbólgumælingum í heiminum þannig að tekið sé mið af heildar viðskiptum. Þá kæmu í ljós miklu stærri sveiflur á markaði og lánabólur mundu vera miklu sýnilegri.

Varðandi styrkleika krónunnar og vexti er rétt að skoða hlutina til lengri tíma, ef það er gert þá hljóta háir vextir alltaf að leiða til falls krónunar. Ef krónan mundi ekki falla með tilheyrandi verðbólgu, þá væru einfaldlega ekki til krónur til að borga vextina. 

Sigurjón Jónsson, 19.3.2009 kl. 12:09

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Háir stýrivextir eru til þess að hamla á móti lánsfjáreftirspurn og þenslu í þjóðfélaginu.  Nú er enginn þensla, heldur þvert á móti samdráttur, og lánaframboð er ekkert.  Á meðan frjáls aðgangur var að ódýru erlendu lánsfé, fóru bankar, fyrirtæki og almenningur fram hjá þessu vopni Seðlabankans, þannig að það beit ekki.  Þá virkuðu stýrivextirnir eingöngu til þess að halda uppi fölsku gengi krónunnar, sem nú er að koma í bakið á þeim sem þóttust svo klárir að sjá við Seðlabankanum.

Nú er ekki sama þörf á að verja krónuna með háum stýrivöxtum, þar sem ekkert framboð er af erlendum gjaldeyri og sá litli gjaldeyrir sem útflutningsgreinarnar skapa fer allur í gegn um Seðlabankann, sem aftur skammtar hann á verði sem hann getur ráðið sjálfur.

Hraustleg lækkun stýrivaxta nú gæti auðveldað fólki og fyrirtækjum að glíma við þá skuldabyrði sem þau steyptu sér í á "góðæristímanum".

Á Íslandi er ekki frjálst og opið hagkerfi.  Því er nánast öllu handstýrt og ekkert útlit fyrir annað en svo verði um talsvert langan tíma.

Axel Jóhann Axelsson, 19.3.2009 kl. 13:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband