Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

Kratarósin orðin að frostrós

Jóhanna Sigurðardóttir, hrokagikkur, hefur lýst því yfir að hún taki ekki til máls á Alþingi fyrr en hennar tími komi.  Í dag taldi hún sinn tíma kominn, til að tjá sig um samning ríkisstjórnar sinnar við Breta og Hollendinga um sölu íslensku þjóðarinnar í þrælaánauð fyrir þá, til næstu áratuga.

Eins og áður, þegar hrokagikkurinn og þrælasalinn hefur tjáð sig um þetta mál, heldur hún málstað Breta og Hollendinga á lofti og hótar þjóðinni hinum hörmulegustu örlögum, verði ekki af þrælasölunni.  Ekki dettur henni í hug að nefna einu orði, hvernig eigi að afla erlends gjaldeyris til að greiða þrælatollinn, en á vef Seðlabankans, sem nálgast má hérna er yfirlit yfir viðskipti við útlönd á fyrstu þrem ársfjórðungum þessa árs og þar kemur m.a. þetta fram:  "Þáttatekjujöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var því neikvæður um 46,5 ma.kr. og viðskiptajöfnuður neikvæður um 9,5 ma.kr."

Þrátt fyrir að innflutningur sé í algeru lágmarki og útflutningur hafi verið nokkuð mikill, þá er viðskiptahalli upp á 9,5 milljarða króna og er þá ekki tekið neitt tillit til skulda og vaxtagreiðslna gömlu gjaldþrota bankanna.  Síðasti ársfjórðungurinn kemur venjulega ekki vel út, þar sem þá eykst innflutningur mikið vegna jólanna.

Hvort sem Jóhönnu, hrokagikk, líkar betur eða verr, þá geta Íslendingar ekki borgað þennan þrælatoll Breta og Hollendinga, enda hefur jafnvel hún sagt, að íslenskum skattgreiðendum beri ekki að greiða skuldir einkabanka.

ESB sendi í dag frá sér loforð um að Ísland fengi ekki inngöngu í stórríkið, ef Alþingi samþykkti ekki ánauðarskilmálana.

Það loforð til Íslendinga er án vafa það besta sem frá ESB hefur komið.


mbl.is Frostavetur falli Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn hirðir Toyotaumboðið

Landsbankinn hefur nú hirt Toyotaumboðið af Magnúsi Kristinssyni, útgerðar- og fjármálarugludalli, sem "keypti" fyrirtækið í árslok 2005 og eins og aðrir fjármálaruglarar fékk hann kaupverðið lánað hjá Landsbankanum og eins og kollegar hans, getur hann ekki staðið undir lántökunum.

Magnús komst þó aldrei hærra í mannvirðingarstiganum, en að fljúga á milli lands og eyja á þyrlu, á meðan þeir, sem litu á sjálfa sig sem alvöru peningakalla, flugu landa á milli á einkaþotum, sem bankarnir voru svo almennilegir að lána þeim fyrir.

Það, sem er hins vegar athyglisvert í tilkynningu Landsbankans um málið, er þetta:  "Þar kemur fram að fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans muni sjá um söluna og er unnið að undirbúningi hennar. Áhersla verði lögð á jafnræði fjárfesta."

Hvernig skyldi standa á því, að Kaupþing/Arion skuli ekki beita sömu vinnubrögðum við söluna á Högum?

Sannast ef til vill enn á ný, að það er ekki sama Jón og Jón Ásgeir?


mbl.is Toyota á Íslandi sett í sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarliðar yrðu ekki vel liðnir til sjós

Stærsta og alvarlegasta mál, sem hefur komið til kasta Alþingis frá lýðveldisstofnun, er nú til meðferðar í þinginu, þ.e. umræða og afgreiðsla á ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans.

Ömurlegt er að fylgjast með því, að hvorki ráðherrar né aðrir þingmenn stjórnarliðsins, skuli nenna að sitja þingfundi og taka þátt í umræðum um þetta örlagaríka mál.  Hafi þessir ráðherrar og þingmenn enga skoðun á málinu, ættu þeir að minnsta kosti að sjá sóma sinn í því, að hlýða á málflutning þeirra þingmanna, sem nenna bæði að setja sig inn í málið og fjalla um það í þingsalnum.

Þingmönnum ber skylda til að sitja alla þingfundi, nema brýnar ástæður séu fyrir fjarveru þeirra, svo sem veikindi, eða ferðlög og fundir á vegum þingsins.  Þeir eru því að brjóta vinnuskyldur sínar með þessu skrópi frá þingfundum og ættu að fá áminningu þingforseta fyrir vanræksluna.

Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvaða stjórnarliðar, sem samþykkja næturfund, muni verða í þingsalnum í kvöld og nótt.

Steingrímur J. segist ekki myndu vilja vera með þeim þingmönnum til sjós, eða við sauðburð, sem ekki treysti sér til að vinna fram á nótt.

Ekkert er ver liðið til sjós, en leti og ómennska og þeir sjómenn, sem lægju í koju og létu aðra standa vaktirnar, yrðu reknir í land, strax í næstu inniveru. 


mbl.is Icesave-málið rætt fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skiptastjóri ætti að rifta sölunni á Högum til 1998 ehf.

Skiptastjóri Baugs hefur krafist riftunar á kaupum Baugs á eigin hlutabréfum, sem eignarhaldsfélög í eigu Jóns Ásgeirs, Ingibjargar, konu hans og samverkamanns þeirra, Hreins Lofstssonar, seldu á yfirverði í júlí 2008.  Var þetta gert í tengslum við sölu á Högum út úr Baug til nýstofnaðs félags þeirra Baugsfeðga, þ.e. félagsins 1998 ehf.

Á þeim tíma var vitað að Baugur væri gjaldþrota og því var þessi gjörningur allur gerður til þess eins, að koma eignum undan þrotabúinu og koma í veg fyrir persónulegt tap framangreindra einstaklinga.  Þetta var gert í fullri samvinnu við Kaupþing/Arion og því er bæði bankinn og þessir einstaklingar samsekir um að hafa skotið eignum undan þrotabúinu, en slíkt væri látið varða við lög, ef einhverjir aðrir ættu í hlut.

Það eina, sem réttlátt væri að gera, væri að rifta öllum þessum gjörningum, setja Haga aftur inn í þrotabú Baugs og kæra síðan bankann og skötuhjúin fyrir glæpsamlegt undanskot eigna.

Til þess að kóróna þennan gjörning, er Kaupþing/Arion núna að afskrifa þrjátíumilljarðana, sem bankinn lánaði Baugsfjölskyldunni til þess að setja þetta leikrit á svið.

Það hefur verið sagt, að Jón sé ekki það sama og séra Jón.

Nú til dags má segja, að hvorki Jón né séra Jón, sé það sama og Jón Ásgeir og Jóhannes.


mbl.is Vill rifta kaupum Baugs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna niðurlægð af Bretum og Hollendingum

Víða um heim er borin virðing fyrir forsætisráðherraembættum annarra landa og þeim sem gegna þeim stöðum er nánast undantekningalaust sýnd fyllsta kurteysi af kollegumnum.  Nú er hins vegar komið í ljós að forsætisráðherrar Bretlands og Hollands bera ekki nokkra virðingu fyrir forsætisráðherra Íslands, heldur þvert á móti niðurlægja þeir hana og lítilvirða á allan mögulegan hátt.

Jóhannna sendi þeim félögum bréf í Ágústmánuði síðastliðnum og fór fram á að fá að hitta þá til viðræðna um skuldir Landsbankans, sem hún var þó búina að samþykkja fyrir sitt leyti að yfirfæra á íslenska skattgreiðendur, að þeim forspurðum.

Forsætisráðherra Hollands lét nægja í svarbréfi, að útskýra fyrir Jóhönnu hvernig viðræður um skuldina hefðu farið fram og gaf þar með í skyn, það sem margan grunar, að honum fyndist sem hún væri alls ekki með á nótunum í þessu stóralvarlega máli.

Næst kom bréf frá forsætisráðherra Bretlands, þar sem hann lýsir yfir sérstakri ánægju sinni með, að íslenska samninganefndin hefði fallist á allar kröfur Breta í seinni umferð samninganna og þar með væru þeir orðnir öryggir gagnvart allri lögsókn af hendi Íslendinga.  Hvorugur forsætisráðherrann kærði sig ekkert um að hitta Jóhönnu, hvað þá að þeir vildu nokkuð við hana ræða.

Svo aum er sú persóna, sem á að heita að vera forystumaður íslensku þjóðarinnar, að hún sendir svarbréf, þar sem hún bendir vinsamlega á, að verið gæti, að Íslendingum bæri alls ekki að greiða þennan reikning, ef dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu.

Endir svarbréfsins var svona samkvæmt fréttinni:  "Í lok bréfs síns segir Jóhanna að ef staða Íslands í málinu myndi skána á einhverjum tímapunkti í framtíðinni, vegna úrskurðar þar til bærs aðila, verði búist við því að Bretar og Hollendingar taki málið þá upp í anda sanngirni og góðvilja."

Er hægt að leggjast lægra í aumingjaskapnum, eftir að hafa orðið fyrir annarri eins niðurlægingu og forsætisráðherrar Breta og Hollendinga sýndu með svarbréfum sínum, ef svör skyldi kalla?


mbl.is Brown álítur Icesave bindandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir ættu að hafa hærri laun en Jóhanna

Flugmenn Landhelgisgæslunnar eru einu ríkisstarfsmennirnir, sem hafa hærri dagvinnulaun en forsætisráðherra, en eins og kunnugt er, er mikilmennskubrjálæði núverandi forsætisráðherra á svo háu stigi, að hún álítur að enginn ætti að komast með tærnar þar sem hún hefur hælana í launum.

Flugmenn gæslunnar leggja mikið á sig við æfingar og ýmis önnur störf, sem búa þá undir að taka þátt í erfiðum björgunaraðgerðum, enda hafa þeir bjargað mörgum mannslífum í áranna rás og oft unnið ofurmannlegar þrekraunir í slíkum björgunarleiðöngrum.

Helsta afrek núverandi forsætisráðherra er að selja þjóð sína í skuldaánauð til áratuga fyrir breska og hollenska þrælahöfðingja, til viðbótar þvílíkum skattaklafa innanlands, að heimilin munu varla standa undir þessu tvöfalda oki, án mikilla fórna og almennra erfiðleika.

Það er ansi hart að viðmiðið skuli vera það, að lélegasti opinberi starfsmaðurinn skuli vera sá, sem eigi að hafa hæstu launin. 


mbl.is Flugmenn Gæslunnar með hærri laun en forsætisráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endalaust hugmyndaflug í skattamálum

Á þessu bloggi var því spáð fyrir kosningar, að ef vinstri stjórnin héldi völdum, myndu allir skattar, sem nöfnum tjáir að nefna verða hækkaðir upp úr öllu valdi og nýjir skattar af ýmsu tagi fundnir upp.

Ríkisstjórnarnefnan hefur algerlega staðið undir þessum væntingum og miklu meira en það, því fundvísi hennar á alla mögulega hluti, sem hægt er að skattleggja, eða hækka skatta á, er með þvílíkum ólíkindum, að allt venjulegt fólk verður gjörsamlega agndofa.

Hækkanirnar eru svo miklar á öllum sviðum skattheimtunnar, að það mun ýta undir hvers kyns ólöglega starfsemi, svo sem svarta vinnu, undanskot frá sköttum og smygl.

Þessi ótrúlega brjálæðislega skattheimta mun ekki skila ríkissjóði nema hluta af því, sem vinstri stjórnin vonast eftir, því til viðbótar við undanskotin, mun landflótti aukast og skattgreiðendum fækka.

Ef til vill er landauðn lokatakmark Jóhönnu og Steingríms J.


mbl.is Áfengisgjaldið hækkar um 42% á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri stjórnin að brjóta niður velferðarkerfið

Á stjórnarárum Sjálfstæðisflokksins var stöðugt unnið að því að efla og styrkja velferðakerfið, en á stuttum valdatíma Samfylkingar og Vinstri grænna hefur skipulega verið unnið að því að skera kerfið niður við trog.

Fyrst voru skertar allar bætur aldraðra og öryrkja og nú er ráðist á fæðingarorlofsgreiðslurnar.  Ekki var þar um sérstaklega háar greiðslur að ræða, en verða nú skertar verulega, eins og fram kemur í fréttinni:

"Samkvæmt frumvarpi  félagsmálaráðherra lækka hámarksgreiðslur úr 350 þúsund krónum í 300 þúsund krónur, að sögn Ríkisútvarpsins. Foreldrar, sem hafa meira en 200 þúsund krónur í mánaðarlaun, fá 75% af tekjum sínum frá ríkinu  meðan á fæðingarorlofi stendur í stað 80%. Fæðingarorlof verður áfram níu mánuðir og skiptist á milli foreldra."

Ef vinstri mönnum þykir svona mikil nauðsyn að ráðast á fæðingarorlofskerfið, hefði verið nær að skerða eingöngu greiðslur til feðranna, því nýburarnir hafa meiri þörf fyrir móðurina fyrstu mánuðina, heldur en feðurna.

Búið var að boða skerðingu á barna- og vaxtabótum, en á síðustu stundu fundu stjórnarflokkarnir upp nýjan eigarskatt, sem réttlættur var með því að hann yrði látinn renna óskertur til að halda þessum bótum óskertum.

Viljann vantar hinsvegar greinilega ekki til að brjóta niður það velferðarkerfi, sem búið var að byggja upp á meðan þjóðin bjó við almennilega ríkisstjórn.


mbl.is Ætla að skerða greiðslur í fæðingarorlofi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt á sömu bókina lært

Sérstakur saksóknari hefur gert húsleit hjá Byr sparisjóði og MP banka og yfirheyrslur standa yfir vegna viðskipta með stofnbréf sparisjóðsins eftti bankahrunið í fyrra, en þá var öllum brögðum beitt, af hálfu stjórnenda sjóðsins, til þess að halda völdum í stjórn Byrs.  Væntanlega til þess að halda öðrum frá því, að komast í upplýsingar um viðskipti Byrs á liðinni tíð, m.a. vegna stofnfjáraukningar og arðgreiðslna til ýmissa fjármálaberserkja, m.a. Jóns Ásgeirs og felufélaga hans.

Þessi viðskipti, á þessum tíma, voru ótrúleg flétta, eins og vel kemur fram í fréttinni: 

"Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding í tveimur hlutum, í október og desember 2008, eftir bankahrunið, til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði, en ekkert hefur verið greitt af láninu.

Á þessum tíma var markaður með stofnfjárbréf lokaður og verð bréfanna hafði lækkað mikið. Seljendur bréfanna voru meðal annarra MP banki og tveir stjórnarmenn í Byr, Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Byrs, og Birgir Ómar Haraldsson stjórnarmaður. MP banki hafði eignast sín bréf m.a. eftir veðkall á eignarhaldsfélag í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, og annarra stjórnenda sparisjóðsins."

Þetta er dæmigerð frásögn af því, hvernig kaupin gerðust á eyrinni á tímum banka- og útrásarruglsins og stjórnendur Byrs héldu leiknum áfram eftir hrun og virðast hafa haldið að hægt væri að komast upp með svínaríið endalaust.

Útrásarrugludallarnir léku þennan sama leik í öllum sínum viðskiptum, þ.e. að taka hundruðmilljarða lán og hafa aldrei endurgreitt eina einustu krónu til baka.  Endurgreiðslur lána heita á þeirra tungumáli endurfjármögnun, sem þýðir auðvitað, að ný lán eru einfaldlega tekin til að greiða þau gömlu.

Nú er verið að leika þennan leik í Arion banka vegna Haga og 1998 ehf.

Baugsfeðgar og bankaelítan hafa engu gleymt og ekkert lært.


mbl.is Yfirheyrslur standa yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin hefur engar áætlanir

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherralíki, segist ekkert vera að hugsa um til hvaða ráða eigi að grípa, ef svo færi, að dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu, að neyðarlögin stæðust ekki stjórnarskrána.

Mat flestra lögfræðinga er, að lögin standist fullkomlega, en reynslan sýnir, að ekkert er öruggt um lagatúlkanir, fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp endanlegan úrskurð.

Þrátt fyrir, að Gylfi geri ráð fyrir að lögin haldi, væri öruggara af honum, að hafa einhverja áætlun tilbúna um framhaldið, ef svo ólíklega færi, að lagasetningin yrði dæmd ógild.  Því myndi fylgja mikil flækja og kostnaður, segir hann, en samt ætlar hann ekki að búa sig neitt undir að svo gæti farið.

Gylfi mætti hafa í huga, að gott er að vona það besta, en vera ávallt viðbúinn því versta.

Það ættu menn að minnsta kosti hafa lært af hruninu, að betra er að vera búinn undir það, að allt fari á versta veg.

Ef til þess kæmi, að þessi flækja og kostnaður kæmi upp, er óvíst að Vinstri grænir gætu fundið nógu margar skattahækkunarleiðir til að greiða þann viðbótarkostnað.

Enda yrði þá enginn eftir til að borga þá viðbótarskatta, sem kæmu ofan á alla aðra viðbótarskatta, sem þegar er búið, eða fyrirhugað, að skattpína almenning með.


mbl.is Miðað við að neyðarlögin haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband