Allt á sömu bókina lært

Sérstakur saksóknari hefur gert húsleit hjá Byr sparisjóði og MP banka og yfirheyrslur standa yfir vegna viðskipta með stofnbréf sparisjóðsins eftti bankahrunið í fyrra, en þá var öllum brögðum beitt, af hálfu stjórnenda sjóðsins, til þess að halda völdum í stjórn Byrs.  Væntanlega til þess að halda öðrum frá því, að komast í upplýsingar um viðskipti Byrs á liðinni tíð, m.a. vegna stofnfjáraukningar og arðgreiðslna til ýmissa fjármálaberserkja, m.a. Jóns Ásgeirs og felufélaga hans.

Þessi viðskipti, á þessum tíma, voru ótrúleg flétta, eins og vel kemur fram í fréttinni: 

"Málið snýst um 1,1 milljarðs króna lán sem Byr veitti Exeter Holding í tveimur hlutum, í október og desember 2008, eftir bankahrunið, til þess að kaupa 1,8 prósenta stofnfjárhlut í Byr á yfirverði, en ekkert hefur verið greitt af láninu.

Á þessum tíma var markaður með stofnfjárbréf lokaður og verð bréfanna hafði lækkað mikið. Seljendur bréfanna voru meðal annarra MP banki og tveir stjórnarmenn í Byr, Jón Þorsteinn Jónsson, þáverandi stjórnarformaður Byrs, og Birgir Ómar Haraldsson stjórnarmaður. MP banki hafði eignast sín bréf m.a. eftir veðkall á eignarhaldsfélag í eigu Ragnars Z. Guðjónssonar, sparisjóðsstjóra Byrs, og annarra stjórnenda sparisjóðsins."

Þetta er dæmigerð frásögn af því, hvernig kaupin gerðust á eyrinni á tímum banka- og útrásarruglsins og stjórnendur Byrs héldu leiknum áfram eftir hrun og virðast hafa haldið að hægt væri að komast upp með svínaríið endalaust.

Útrásarrugludallarnir léku þennan sama leik í öllum sínum viðskiptum, þ.e. að taka hundruðmilljarða lán og hafa aldrei endurgreitt eina einustu krónu til baka.  Endurgreiðslur lána heita á þeirra tungumáli endurfjármögnun, sem þýðir auðvitað, að ný lán eru einfaldlega tekin til að greiða þau gömlu.

Nú er verið að leika þennan leik í Arion banka vegna Haga og 1998 ehf.

Baugsfeðgar og bankaelítan hafa engu gleymt og ekkert lært.


mbl.is Yfirheyrslur standa yfir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þessi frétt ekki frekar jákvæð , í sjálfu sér?

Agla (IP-tala skráð) 24.11.2009 kl. 17:44

2 Smámynd: Stefán Lárus Pálsson

Axel minn: Hvaða fyrirbæri stýrðu efnahagsmálum þjóðarinnar meðan þessi ósköp áttu sér stað við nefbroddinn á þeim, og í aðdraganda þessa dæmalausa sukks, meðan útvaldir og líka sjálfskipaðir "lukkuriddarar fóru ránshendi um rústir frjálshyggjukastalans sem menn höfðu horft á fullir aðdáunar? Erum við nokkuð búin að gleyma fortíðinni??

Stefán Lárus Pálsson, 24.11.2009 kl. 21:40

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Stefán minn:  Sjálfstæðirflokkur og Framsóknarflokkur stjórnuðu efnahagsmálum þjóðarinnar með ágætum á þessum tíma og síðasta eina og hálfa árið leysti Samfylkingin Framsóknarflokkinn af.

Stjórnmálamenn stjórnuðu ekki bana- og útrásarruglfyrirtækjum, enda var ekkert sovétkerfi við líði hér á landi þá, en það er nú að breytast hratt þessa dagana.

Þú veist vel, að glæpamenn eru alltaf skrefi á undan löggæslunni og í tilfelli banka- og útrásarfurstanna voru allir helstu lögfræðingar og endurskoðendur landsins í fullri vinnu við að láta gerðir þeirra líta eðlilega og löglega út.

Fjármálaeftirlitið, sem átti að fylgjast með bönkunum, hafði ekki roð við þessum her og þegar brotaviljinn er einbeittur, þá er alltaf hægt að fara kringum lögin, en þau lög, sem hér giltu komu beint frá ESB og giltu um alla Evrópu.  Þar fór allt bankakerfið á hliðina líka, þó ríkissjóðir Evrópulanda hafi bjargað þeim flestum, þó ekki öllum.  Bankaruglið var ekki séríslenskt, en íslensku rugludallarnir gengu þó lengra, en flestir kollegar þeirra og nú súpum við seyðið af því.

Þeir sem muna fortíðina vel, muna líka andrúmsloftið í þjóðfélaginu, sem speglaðist í mikilli aðdáun á banka- og útrásarmógúlunum og kröfunni um að stjórnmálamenn ættu að skipta sér sem minnst af atvinnulífinu.

Hafi menn gott minni á þessa tíma, er afar lítilmannlegt af þeim, að reyna að kenna stjórnmálamönnunum um hvernig fór.  Þeir voru ekki í neinni aðstöðu til að hafa yfirsýn yfir þessa starfsemi.

Þeirra verk er að setja lögin, hinna að fara eftir þeim.  Þeir sem kjósa að sniðganga öll lög, verða að taka afleiðingunum af því sjálfir.  Í þessu tilfelli líður öll þjóðin fyrir gerðir þessara glæframanna.  Því er nú ver og miður.

Axel Jóhann Axelsson, 24.11.2009 kl. 22:07

4 Smámynd: Stefán Lárus Pálsson

Það er hvorki lítilmannlegt eða ósanngjarnt á lýsa ábyrgð á hendur þeirra sem buðu sig fram og voru kjörnir til að stjórna þjóðfélaginu. Þeir voru ekki settir þarna eins og jólaskraut, bara til að horfa á. Nei Axel, þetta lið sem við kusum til að STJÓRNA,  var svo niðursokkið í hagsmunapot fyrir einkavini og samherja í valdatafli innbyrðis, að yfirsýn yfir framvindu mála var á þann veg að grá flokksgleraugun, leyfðu aðeins mjög þröngan sjóndeildarhring, og utan hans var mikið að ske, og ekki allt sem skyldi, þar utan sjónmáls pólitískt sjónskertra og siðblindra stjórnenda á æðstu valdastólum, voru menn á fullu óáreittir, innvígðir og innmúraðir, jafnt sem aðrir helteknir af græðgi við að ræna þjóðarauðnum óáreittir!! Þetta þjóðfélag gegnsýrt af spillingu, með stjórnendur í æðstu stöðum á sama plani, og þátttakendur og meðvirkir í þessu öllu. Ekki var á stjórnendum landsins að heyra að þá skorti visku eða yfirsýn þegar þeir töluðu til lýðsins, alvísir að eigin mati. En þessir æðstu stjórnendur okkar voru handbendi samherja í lykilstöðum viðskiptalífsins, þeir sem borguðu prófkjörin þeirra sem fleyttu mönnum á þing og uppí stjórnarráð og Seðlabanka, þeir höfðu líka mokað fúlgum fjár í flokkssjóði, og vildu í fyllingu tímans fá eitthvað fyrir útlagða peninga! A.m.k. starfsfrið, frið til að athafna sig óáreittir á gráum svæðum án of náinna afskipta eftirlitsstofnana eins og fjármálaeftirlits og Seðlabanka, sem þeir og fengu!!! "Æ sér gjöf til gjalda" segir máltækið. Það læðist líka að, grunur um að það hafi valist til forystu menn sem einfaldlega hafi hvorki haft til að bera þekkingu eða færni til að ráða við þau verkefni sem þeir sóttust eftir og tóku að sér. Mælistika flokkshollustu viðist kafa verið viðmiðið á flestum sviðum, auk þess sem persónudýrkun, einkavinavæðing og tilhneiging til að líta undan og setja kíkinn fyrir blinda augað á réttum augnablikum þegar málin voru skoðuð. Niðurstaða: Of mikið í umferð af óhæfum sjórnendum í kerfinu, því brotlentum við þjóðarfleyinu, því miður Axel minn!

Stefán Lárus Pálsson, 25.11.2009 kl. 10:48

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Við getum vel verið sammála um, að þeir sem ábyrgð bera á þessu öllu saman, eiga að taka afleiðingum gjörða sinna, hvort sem þeir voru banka- og útrásarmógúlar, stjórnmálamenn, eftirlitsmenn eða hvað annað.

Vonandi kemur ábyrgð hvers og eins í ljós, þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verður birt.

Axel Jóhann Axelsson, 25.11.2009 kl. 11:32

6 Smámynd: Stefán Lárus Pálsson

Hörmulegast er að þetta skyldi þurfa að fara svona, og verst af öllu er þó að við skulum sitja uppi með þann myllustein um hálsinn, " að þurfa að borga skuldir óreiðumanna í útlöndum" og heima við. þar er eg sammála Davíð frænda. Að almenningur skuli þurfa að borga skuldbindingar sem ehf. holdings, og hvað menn skýldu sér á bakvið, er svo fáránleg uppákoma að það er óásættanlegt með öllu. Þvílík handvömm og andvaraleysi. Leikreglurnar voru svo rúmar að þær buðu beinlínis upp á stórkostleg tækifæri fyrir fjárglæframenn, og menn notfærðu sér þetta ótæpilega. En að lokum: Ég verð nú að gefa vinnubrögðum Alþingis frekar dapra einkunn. Að horfa uppá þetta eilífðar ströggl, dag eftir dag, þar sem fólk talar endalaust, þó án þess að hafa nokkuð að segja. Tilgangurinn virðist vera að standa fyrir framan TV-cameruna sem lengst og oftast, og tönglast á sama hlutnum, í stað þess að setja kraft í málin, taka höndum saman og ná lendingu. Þá þurfa kjörnir fulltrúar okkar að sýna félagslegan þroska, og sýna vilja til að leysa vandamálin. Þau hverfa nefnilega ekki þó menn og konur fari þar í pontu, kenni hvert öðru um, hvernig komið er. Þarna eru allair sekir hvar í flokki sem þau standa. Með svona skipshöfn hefði verið vitavonlaust að ná viðunandi afla úr sjó! Amen.

Stefán Lárus Pálsson, 25.11.2009 kl. 16:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband