Færsluflokkur: Bloggar
15.12.2013 | 17:40
Betlistafur ráðherra eða gildur stafur jólasveina?
Því verður illa trúað að íslensk stjórnvöld ætli að senda utanríkisráðherrann til Brussel með betlistaf í hendi til að væla það út úr stórríkinu, væntanlega, að það standi við samninga sem það sjálft hefur gert og undirritað við einstaka aðila, félög eða stofnanir hérlendis undir merkjum IPA.
IPA-styrkir, eða mútufé eins og margir vilja skilgreina fyrirbærið, eru til þess ætlaðir að styrkja ímynd ESB í þvi landi sem reynt er að innlima í stórríkið, væntanlega, og aðlaga lög og stjórnkerfi viðkomandi að ESB áður en formleg innlimun fer fram.
Eftir að Íslendingar tilkynntu ESB að innlimunarferlinu yrði ekki haldið áfram er bæði sjálfsagt og eðlilegt að hætta allri móttöku innlimunarstyrkja, eða mútufjár, þó reikna hefði mátt með að ESB stæði við þegar gerða samninga vegna verkefna sem þegar hefðu hafist á grundvelli þeirra. Hins vegar sýnir ESB enn einu sinni að undirritaðir samningar þess eru ekki pappírsins virði, sem þeir eru ritaðir á, ef stórríkinu, væntanlega, sýnist sínum eigin hag betur borgið með svikum þeirra.
Í tilefni árstímans væri nær að senda jólasveinana til Brussel með gildan staf í hendi en að senda þangað ráðherra með betlistaf. Hvað jólasveinarnir ættu síðan að gera með stafinn gilda þegar þangað væri komið skal ósagt latið.
![]() |
Skoða réttarstöðu vegna IPA-styrkja |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
12.12.2013 | 18:56
Þungur en sanngjarn dómur í Al Thani-málinu
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur loksins kveðið upp dóm í fjár- og umboðssvikamálinu, sem kennt er við Al Thani sheik frá Qatar, en það snerist um að blekkja fjármálamarkaðinn, stjórnvöld og almenning um stöðu Kaupþings þegar bankarnir voru í dauðateygjunum á haustdögum árið 2008.
Blekkingarleikurinn heppnaðist vel um skamman tíma, sem varð til þess að fjöldi fólks flutti sparifé sitt yfir í hlutafé í Kaupþingi, enda treysti fólk því að fjárfestir af þessari stærðargráðu færi ekki að festa fé sitt í íslenskum banka, nema að vel athuguðu máli og í von um góðan arð af fjárfestingunni.
Allt var þetta mál ein stór svikamylla, sem orðin er að þriggja til fimm og hálfs árs fangelsindóms til handa skipuleggjendum og gerendum og reyndar eru enn fleiri mál fyrir dómstólum vegna gerða þessara sömu aðila og einnig gegn eigendum og stjórnendum annarra banka, sem grunaðir eru um svipaða glæpi í aðdraganda hrunsins.
Líklega finnur almenningur fyrir létti við þessa dómsuppkvaðningu þar sem margir töldu að dómar í þessa veru yrðu aldrei að veruleika vegna þess hers lögfræðinga sem gerendurnir höfðu á sínum snærum til að tefja og flækja málin fyrir dómstólnum.
Vonandi verða dómarnir staðfestir í Hæstarétti þannig að þjóðin geti litið bjartari augum fram á veginn og öðlast nýja trú á framtíðina.
![]() |
Dæmdur í fimm og hálfs árs fangelsi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.12.2013 | 21:36
ESB kastar grímunni
Á sínum tíma, þegar ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar var að réttlæta og troða IPAstyrkjum inná þjóðina, hélt Össur Skarphéðinsson því statt og stöðugt fram að styrkirnir kæmu innlimunarferlinu í raun ekkert við og væru einungis skýrt dæmi um frábært samstarf og einlægan vilja ESB til að styrkja alls kyns verkefni og rannsóknir á Íslandi.
Jón Bjarnason, þáverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, neitaði að taka við slíku fé til sinna málaflokka og hélt því fram að nánast væri um mútufé ESB að ræða til að "liðka til" við innlimunina og kaupa hinu væntanlega stórríki velvild Íslendinga í sinn garð. Össur mótmælti þeim málflutningi Jóns harkalega og að lokum var Jóni sparkað úr ráðherrastóli vegna andstöðunnar við ESB og IPAmúturnar.
Nú hefur ESB loksins kastað grímunni og hætt feluleiknum um mútféð, eða eins og segir í fréttinni: "Í erindi sínu til íslenskra stjórnvalda vísar framkvæmdastjórnin til þess að IPA aðstoð við Ísland hafi verið ætlað að styðja við verkefni sem ráðast þyrfti í vegna áforma um aðild að ESB. Í ljósi breyttrar stefnu stjórnvalda, telji hún ekki vera forsendur fyrir frekari styrkveitingum."
Þar sem íslensk stjórnvöld hafa gefið skýrt til kynna að ekki verði unnið frekar að innlimun landsins í stórríkið væntanlega, þá er í sjálfu sér ekkert við því að segja að mútugreiðslum verði hætt af hálfu ESB, enda óhæfuverk frá upphafi að þiggja slíkar greiðslur.
Eftir stendur ESB grímulaust og Össur og félagar raunar berrassaðir, eins og kóngurinn í ævintýrinu sem lét skraddarana plata sig til að ganga um í "nýju fötunum".
![]() |
Hættir við einhliða og án fyrirvara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
1.12.2013 | 19:57
Stórkostleg hagfræðiuppgötvun RÚV
Tillögur ríkisstjórnarinnar varðandi lækkun húsnæðisskulda, sem hækkuðu mikið vegna verðbólgu áranna eftir bankahrunið, þ.e. á árunum 2007-2010, voru birtar í gær og hafa valdið mikilli ánægju allra sem húsnæðislán skulduðu á þessum tilteknu árum.
Viðbrögð stjórnarandstæðinga hafa verið nokkuð vandræðaleg, enda tillögurnar trúverðugar og í sjálfu sér ótrúlega einfaldar í framkvæmd og því hreint undrunarefni að eina hreina og tæra vinstri stjórnin sem komist hefur til valda á Íslandi skuli ekki hafa gripið til neinna slíkra aðgerða, þrátt fyrir loforðið um að slá skjaldborg um heimilin í landinu.
Ríkisútvarpið telur sig eiga harma að hefna vegna niðurskurðar fjárframlaga til stofnunarinnar og því dró fréttastofa útvarpsins fram hagfræðiprófessor í Háskóla Reykjavíkur og fékk hann til að vitna um það í fréttatímanum að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til hagsbóta fyrir skuldara íbúðalána kæmu þeim alls ekki til góða sem aldrei hefðu keypt sér íbúð og skulduðu því ekkert húsnæðislán.
Vonandi hefur fréttastofa RÚV náð botninum í leðjupyttinum og leiðin geti því ekki legið annað en upp á bakkann aftur héðan af. Háskóli Reykjavíkur þyrfti ekki síður að endurskoða þá hagfræði sem þar er kennd.
![]() |
Greiðslubyrði lána lækkar strax |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
25.11.2013 | 23:22
Þekkir Jón Gnarr ekki sitt eigið nafn?
Jón Gnarr segist vera að íhuga að flytja úr landi til þess að geta fengið að heita Jón Gnarr, en það fái hann ekki samkvæmt íslenskum lögum.
Samkvæmt Þjóðskrá eru tveir Íslendingar sem heita þessu nafni, en skráningin er þessi:
Niðurstaða leitar:
Kennitala Nafn Heimili Póstfang
020167-3439 Jón Gnarr Kristinsson Marargötu 4 101
310505-2850 Jón Gnarr Jónsson Marargötu 4 101
Illa verður því trúað að maðurinn þekki hvorki sitt eigið nafn né sonar síns.
Kannski átti þetta að vera sniðugt hjá honum, en fyndið er það ekki.
![]() |
Jón Gnarr leitar nýs ríkisfangs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
22.11.2013 | 20:15
Hræsni vegna upplýsingaleka
Trúnaðarupplýsingar um menn og málefni eiga skiljanlega ekki að liggja á glámbekk og vera á almannavitorði, hvorki upplýsingar um hælisleitendur, fórnarlömb mansals né annað sem trúnaður á að ríkja um.
Vegna þeirra upplýsinga sem "lekið" hafa um hælisleitanda sem segist eiga von á barni með konu, sem "lekinn" gefur í skyn að sé fórnarlamb mansals sem hælisleitandinn hafi verið viðriðinn, hafa margir ruðst fram á ritvöllinn og hneykslast á því að slíkar upplýsingar skuli yfirleitt komast fyrir almenningssjónir.
Stundum er gerð krafa um opið þjóðfélag, þar sem allar upplýingar skuli vera uppi á borðum og öllum aðgengilegar til þess að almenningur geti myndað sér upplýsta skoðun á öllum málum til þess að geta tekið afstöðu til þeirra á málefnalegan og öfgalausan hátt. Þegar upplýsingar "leka" til almennings verður hins vegar oftar en ekki uppi fótur og fit á samfélagsmiðlunum og skammast ógurlega vegna slíks upplýsingaleka.
Hallærislegast af öllu er að sjá og heyra Birgittu Jónsdóttur, þingmann Sjóræningja og fyrrverandi starfsmann Wikileaks, hneykslast upp úr skónum vegna upplýsingaleka frá opinberum aðilum, en eins og allir vita snýst starfsemi Wikileaks einmitt um að brjótast inn í opinber upplýsingakerfi og leka öllum þeim upplýsingum sem þar er unnt að komast yfir.
Allar gerðir Birgittu á vegum Wikileaks snerust um að réttlæta upplýsingaleka til almennings og engar upplýsingar væru svo viðkvæmar að réttlætanlegt væri að leyna þeim.
![]() |
Ekki frá embættismönnum ráðuneytisins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.11.2013 | 08:56
Morð sem hafði áhrif á alla heimsbyggðina
John F. Kennedy, Bandaríkjaforseti, er öllum ógleymanlegur sem með honum fylgdist á sínum tíma, enda fylgdu honum nýjir og ferskir vindar í heimspólitíkinni og auðvitað ekki síður í stjórnmálum Bandaríkjanna.
Nánast hver einasti maður, sem kominn var til vits og ára þegar Kennedy var myrtur man nákvæmlega hvar hann var staddur þegar hann heyrði fréttirnar af atburðunum og eru ekki margar fréttirnar sem í þann flokk hafa komist, hvorki fyrr eða síðar.
Vegna þess hvernig morðið var framið og síðan eftirmálar þess, þ.e. örlög meints morðingja, þeirra gríðarlegu þjóðfélagsbreytinga innanlands sem Kennedy stóð fyrir, Kúbudeilunni og fleiri stórræðna sem þessi ungi forseti stóð fyrir, hafa verið á lofti endalausar samsæriskenningar um aðdragandann og atburðinn sjálfan.
Líklega mun málið aldrei upplýsast á svo afgerandi hátt að samsæriskenningarnar þagni. Minningin um John F. Kennedy munu hins vegar lifa lengi og hans minnst sem mikils og merks forseta, þrátt fyrir ýmsa breyskleika sem í ljós voru leiddir eftir dauða hans.
John F. Kennedy var stórmenni og einn merkasti forseti Bandaríkjanna, þrátt fyrir skamma forsetatíð.
![]() |
Margir trúa enn samsæriskenningum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.11.2013 | 20:10
Prófkjör í skugga skipulagsslysa
Dræm þátttaka, á mælikvarða Sjálfstæðisflokksins, í prófkjörinu fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík endurspeglar óænægju kjósenda flokksins með linkulega stjórnarandstöðu síðastliðin fjögur ár og að mörgum finnst hreina þjónkun við skipulagsrugl meirihluta Besta flokksins og Samfylkingarinnar, sem sífellt tekur á sig skelfilegri mynd í hugum borgarbúa.
Hvert ruglið hefur rekið annað í skipulagsmálum borgarinnar og nægir að benda á Hofsvallagötu og Borgartún sem dæmi um fáránleikann sem ríkir í hugsun umferðarmálanna, flugvallarmálið, bílastæðalausa þéttingu byggðar í miðborginni og nágrenni og fyirhugað hótel gegnt Alþingishúsinu með tilheyrandi viðbótarumferð og öryggisleysi fyrir þinghúsið og þingmenn sjálfa.
Borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna tókst ekki að koma sjónarmiðum sínum nægilega vel á framfæri við borgarbúa í þeim málaflokkum sem hann var á öndverðum meiði við meirihlutann, enda hefur fólki fundist að flokkurinn hafi nánast verið teymdur á foraðið af snældurugluðum viðhorfum meirihlutans.
Með kjöri Halldórs Halldórssonar sem leiðtoga borgarstjórnarflokksins í komandi kosningum tekst vonandi að móta skarpa stefnu flokksins í borgarmálunum og sýna fram á sérstöðu hans og yfirburði yfir þann leikara- og kjánaskap sem ríkt hefur í stjórnun Reykjavíkurborgar á yfirstandandi kjörtímabili.
![]() |
Niðurstaðan ekki bindandi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.11.2013 | 22:20
Tíu ára hetja
Mörgum bregður við að horfa upp á útigangsfólk leita að mat í ruslatunnum og oft hugsar fólk sér að gera eitthvað til hjálpar en oftast verður ekkert úr framkvæmdum.
Hafdís Ýr Birkisdóttir, tíu ára gömul stúlka, lét hins vegar hendur standa fram úr ermum þegar hún sá heimilslaust fólk leita sér matar í sorpi vestur á Granda og hóf söfnun til styrktar fólkinu og gaf m.a. út matreiðslubók með uppáhaldsréttunum sínum sem styrktaraðilar fengu afhenta gegn frjálsum framlögum.
Þessi tíu ára gamla hetja afhenti mat, fatnað og hreinlætisvörur fyrir um þrjúhundruðþúsund krónur sem henni hafði tekist að safna til handa útigangsfólkinu og segist hvergi nærri hætt, því jólin nálgast og fyrir þann tíma ætlar hún sér að ná að safna meira í sama tilgangi.
Hafdís Ýr er sannkölluð hetja og mætti verða öðru og eldra fólki hvatning til að koma góðum áætlunum í verk, en láta ekki duga að hugsa um það.
![]() |
Sá menn leita að mat í ruslinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
6.11.2013 | 22:14
Er hátæknisetur gullkista eða skýjaborgir
Í dag tók fjöldi fólks skóflustungu að nýju hátæknisetri Alvogens og mun uppbygging þess taka mörg ár og kosta tugi milljarða króna, sem þegar hafa verið tryggðar samkvæmt fréttinni. Bygging hússins mun taka tvö ár og kosta átta milljarða króna.
Gjaldeyristekjur hátæknisetursins eru sagðar munu verða 65 milljarðar á ári þegar fullum afköstum í lyfjaframleiðslunni verður náð árið 2020, þó í fréttinni sé sagt að framlög Alvogen til uppbyggingar félagsins verði sautján milljarðar króna til ársins 2023. Ekki kemur fram hvers vegna Alvogen þarf að leggja fram fjármagn löngu eftir að fyrirtækið á að vera farið að skila fullum afköstum og 65 milljarða árstekjum í beinhörðum gjaldeyri.
Þó dæmið líti óneitanlega meira en lítið út fyrir að vera "heilmikið svona 2007" mun það vonandi ganga upp og verði svo mun þetta fyrirtæki verða eitt það stærsta og mikilvægasta í landinu þar sem þetta eina fyrirtæki myndi þá skila tæplega einum fjórða af þeim gjaldeyristekjum sem allur sjávarútvegur landsins gerir árlega, en á árinu 2012 voru útflutningstekjur sjávarútvegsins tæplega 277 milljarðar króna.
Full ástæða er til þess að senda Alvogen heillaóskir af þessu tilefni og óska verkefninu farsældar og að það verði aðstandendum og þjóðinni allri til heilla og hagsældar.
![]() |
Búast við 65 milljörðum í gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)