Færsluflokkur: Bloggar

Loka álverinu í Straumsvík, ef með þarf

Lengi hefur verið eftirsóknarvert að vinna í álverunum sem starfrækt hafa verið á landinu undanfarna áratugi og er ekki annað að sjá en svo sé ennþá með tvö þeirra, þ.e. álverin á Grundartanga og á Reyðarfirði.

Sömu sögu er því miður ekki lengur að segja um álverið í Straumsvík og virðast núverandi eigendur þess halda að hérlendis sé hægt að fara með starfsfólkið eins og þeim sjálfum sýnist og komast líklega upp með í einhvejum fyrirtækja sinna í þróunarlöndunum.

Kjarasamningar hafa verið lausir í Straumsvík í rúmlega eitt ár og enginn vilji verið til að semja við starfsfólkið og til að bíta höfuðið af skömminni hefur aðalforstjóri auðhringsins látið þau boð út ganga að fyrri tilboð til starfsmanna séu ekki lengur í gildi og ekki verði um neinar launabreytingar að ræða allt þetta ár.

Aðilar vinnumarkaðarins, hvorki félög atvinnurekenda né verkalýðshreyfingin, getur látið erlendan auðhring færa samband verkafólks og vinnuveitenda áratugi aftur í tímann átölulaust og verða að sameinast í aðgerðum gegn auðhringnum og til stuðnings starfsfólkinu.

Dugi ekki annað en allsherjarverkfall í Straumsvík til, verður að grípa til þess og verði það til þess að hótunin um lokun álversins verði að veruleika verður einfaldlega svo að verða, þó ekki sé mjög líklegt að af þeirri hótun verði.

Verði álverksmiðjunni lokað er líklegt að innan tiltölulega skamms tíma muni nýjir aðilar kaupa verksmiðjuna og gangsetja hana að nýju, enda líklegt að álverð muni hækka á ný innan fárra ára.

Verði hinsvegar um endanlega lokun verksmiðjunnar að ræða eru aðstæður þannig á vinnumarkaði núna að starfsfólkið mun líklega fá ágæta vinnu annarsstaðar og Landsvirkjun mun að sjálfsögðu sækja það fast að auðhringurinn borgi það sem honum ber í samræmi við samninga, þangað til annar aðili kaupir sig inn í þá samninga.

Þjóðin tekur þátt í refsiaðgerðum gegn Rússum sem kosta þjóðarbúið stórfé og ekki nokkur ástæða til annars en að sýna sömu hörku gegn auðhringnum sem heldur að hann sé að reka einhverskonar þrælabúðir í Straumsvík. 


mbl.is Fyrirtækið að étast upp innan frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Euroshopper-bjór, Bónus-brennivín og Krónu-koníak?

Eins og allir geta sagt sér sjálfir munu verslunarkeðjurnar bjóða upp á eigin innflutning á áfengi, léttvíni og bjór verði heimilað að selja slíkan varning í matvörubúðum.

Þetta verður nánast örugglega til þess að vöruúrval minnkar, því keðjurnar munu allar fara í sjálfstæðan innflutning og keppast um að bjóða ódýrt vín, bjór og sterk vín, en úrvalið af slíku er nánast óendanlegt í heiminum.

Fylgjendur frelsis til að selja áfenga drykki í matvörubúðum segja að verði þetta þróunin í áfengissölumálum muni spretta upp sérverslanir með almennilegan bjór, gæðaléttvín og brennda drykki af eðalgæðum.

Allt slíkt er hægt að fá í verslunum ÁTVR, sem hefur staðið sig ótrúlega vel á sínu sviði af ríkisfyrirtæki að vera, því í versluninni Ásrúnu hefur sérþörfunum verið sinnt ágætlega ásamt því að bjóða upp á venjulega vöruúrvalið.

Verði þróunin í þessa veru ef áfengissölufrumvarpið yrði samþykkt, væri betur heima setið en af stað farið með breytingarnar.


mbl.is Hagar bjóða upp á Euroshopper-bjór
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flóttamenn eyðileggja fyrir flóttafólki með ofbeldisverkum

Fréttir af fólskuverkum múslimskra flóttamanna frá Norður-Afríku og ýmsum arabalöndum gegn konum um áramótin í ýmsum borgum Evrópu vekja mikinn ótta almennings og gætu gjörbreytt viðhorfi Evrópubúa til flóttamannastraumsins sem undanfarið hefur streymt til álfunnar.

Að illvirki af svipuðu tagi, sem beinast að konum, skuli framin í mörgum borgum í ýmsum Evrópulöndum á sama tíma getur ekki eingöngu verið tilviljun, heldur hlýtur menningarmunur og viðhorf til kvenna að spila stóra rullu í þessum atburðum.

Konur njóta ekki sama réttar og karlar innan Islam og feðraveldið er þar allsráðandi, en gera verður þá kröfu til flóttamanna, hvort sem um múslima eða aðra er að ræða, að um leið og þeir sækjast eftir hæli í Evrópu að þá undirgangist þeir þá siði, venjur og lög sem þar gilda og samlagist tuttugustuogfyrstu öldinni strax eftir komu sína þangað.

Flóttamennirnir gera sjálfum sér, málstað sínum og þeim sem vilja taka þeim opnum örmum stórskaða með svona óhæfuverkum, sem auðvitað eru aðeins framin af miklum minnihluta flóttamannanna, en þó var í þessum tilfellum um hundruð eða þúsundir að ræða.

Líklega eiga nýliðin áramót eftir að draga verulega úr því jákvæða viðhorfi sem ríkt hefur í Evrópu til móttöku flóttafólks hjá almenningi.  Stjórvöld í Evrópulöndum eru reyndar þegar byrjuð að berjast gegn áframhaldandi för flóttafólks inn í lönd sín með landamæravörslu og vegabréfaskyldu sem áður hafði verið aflögð að mestu.

 

 


mbl.is 31 handtekinn í Köln
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa "hákarlarnir" sloppið vegna glæpa innan lögreglunnar?

Þegar tilraunir til innflutnings fíkniefna komast upp eru það venjulega einungis burðardýrin sem lenda í klóm lögreglunnar, en skipuleggjendur innflutningsins og þeir sem leggja til fjármagnið finnast yfirleitt aldrei. Ekki virðast burðardýrin vita um hverja er að ræða eða þora ekki að segja frá því af ótta við hefndir gegn sjálfum sér eða fjölskyldum sínum.

Furðulegt þótti í stóru smyglmáli nýlega þegar hollensk kona, sem var burðardýr í því tilfelli, sýndi óvenju mikinn samstarfsvilja við lögregluyfirvöld. Hún tók meira að segja þátt í því að koma á stefnumóti við Íslending sem tók við sendingunni og átti að skila henni til einhvers "hákarls" sem stóð fyrir smyglinu. Af óskiljanlegum ástæðum hætti fíkniefnalögreglan við að elta þann millilið þrátt fyrir að senditækjum hefði verið komið fyrir í töskunum með gerfiefninu sem þar hafði verið sett í stað dópsins sem sendillinn kom til að sækja.

Nú virðist vera komin fram skýring á því hvers vegna "hákarlarnir" sleppa nánast alltaf í stærstu dópsmygltiraununum og minnir þetta allt saman á amerískar glæpamyndir, þar sem löggan er á góðum launum hjá glæpagengjunum.  Íslenskir dópglæponar virðast sem sagt hafa haft a.m.k. eina löggu úr innsta hring Fíknó á launaskrá við að upplýsa skúrkana um allar aðgerðir löggunnar og vara þá við nógu tímanlega til að þeir gætu falið slóð sína til að komast hjá handtöku og refsingum.

Séu það rétt að uppljóstrari innan fíkniefnalögreglunnar hafi komist upp með þá iðju í mörg ár, eins og fréttir herma, er það gríðarlegt kjaftshögg fyrir löggæsluna í landinu og hlýtur að kalla á algera endurskipulagningu hennar til að koma í veg fyrir álíka skandal í framtíðinni.


mbl.is Brugðist við sögusögnum um leka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú verður að gefa Shengen frí

Landamærasamvinnan sem kennd hefur verið við Shengen og var til þess að auðvelda Evrópubúum ferðir á milli landa innan samstarfsins án framvísun vegabréfa er nú að syngja sitt síðasta, án þess að andlátinu hafi verið lýst formlega.

Endalaus flóttamannastraumur frá Sýrlandi, Afganistan, Írak og fleiri stríðshrjáðum ríkjum hefur verið algerlega stjórnlaus fram til þessa og fjöldi flóttamannanna orðinn slíkur að ekkert Evrópuríki treystir sér til þess að taka við nema örlitlum hluta þessa fólksfjölda.

Ekki hefur bætt úr skák að ótrúlegur fjöldi Austur-Evrópubúa hefur blandað sér í hóp þeirra flóttamanna sem raunverulega eru í mikilli neyð og hafa þurft nauðugir að yfirgefa heimili sín og ættjörð í örvæntingu til þess að bjarga lífi sínu og fjölskyldna sinna.  

Albanir og aðrir Austur-Evrópubúar eru af öllum Evrópuríkjum sendir nánast umsvifalaust aftur til heimkynna sinna, enda ekki að flýja stríðsátök og hryðjuverk heldur einungis í atvinnuleit og sumir jafnvel til þess að komast á bætur í velferðarkerfum, sérstaklega Norðurlandanna eins og nýleg umfjöllun um Sígaunafjölskyldu í Kaupmannahöfn hefur sýnt og sannað.

Íslendingar verða að bregðast við á sama hátt og önnur Shengen-lönd og harðloka landamærunum sínum og snúa öllum frá landinu sem ekki geta sýnt fram á að verið sé að flýja raunverulega lífshættu og stríðsógnir.  Til að minnka útúrsnúning og aulafyndni er rétt að taka fram að alls ekki er með þessu verið að vísa til ferða- og viðskiptafólks sem áfram er meira en velkomið til landsins.


mbl.is Íslendingar þurfa að sýna skilríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðvaningar í bankaránum

Bankaránið í útibúi Landsbankans í Borgartúninu í gær minnir meira á atriði úr Áramótaspauginu eða bíómynd í léttari kantinum, svo kjánalega var að því staðið.

Hugmyndin hlýtur að hafa kviknað snögglega og síðan verið rokið í framkvæmdina án mikillar hugsunar eða skipulags.

Ungmennin mættu í bankann með treflana sína fyrir andlitinu og veifuðu knallettubyssu og hníf framan í viðskiptavini og starfsfólk, en þar sem þeir voru berhentir skildu þeir eftir fingraför á öllu sem þeir snertu, jafnt á "vopnabúrinu", sem afgreiðsluborðum og flóttabílnum stolna.

Frá bankaútibúinu stormuðu þeir síðan nánast beint á bensínstöð við Öskjuhlíðina þar sem þeir létu taka af sér hinar ágætustu andlitsmyndir sem lögreglan átti auðvelt með að þekkja þá af og þurfti því ekkert að bíða eftir fingrafaragreiningu eða úrvinnslu annarra sönnunargagna.

Vegna andlitsmyndanna góðu tók ekki nema örfáa klukkutíma að upplýsa málið og handtaka bófana sem orðnir eru að aðhlátursefni vegna þessa stórkostlega mislukkaða bankaráns.

Þetta bankarán hlýtur að komast á spjöld sögunnar með öðrum álíka heimskulegum glæpaverkum í sögu undirheima veraldarinnar.

Þó ekki sé í raun hlæjandi að svona alvarlegum málum er annað ekki hægt og vonandi verður Skaupið í kvöld ekki síðra.

GLEÐILEGT NÝÁR OG KÆRAR ÞAKKIR FYRIR ÞAÐ SEM ER AÐ LÍÐA


mbl.is Játar aðild að bankaráninu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjölmiðlar í hlutverki "lobbyista"

Erlendis tíðkast víða að þinghús séu nánast umsetin af svokölluðum "lobbyistum" sem sitja um þingmenn og reyna með því móti að hafa áhrif á lagasetningu og fjárframlög í þágu viðskipavina sinna.  

Sumsstaðar, t.d. í Bandaríkjunum, reka þessir "lobbyistar" stórar skrifstofur með fjölda starfsmanna sem taka að sér að reka áróður fyrir fyrirtæki og stofnanir ásamt því að pressa á þingmenn í þágu þessara viðskiptavina sinna, sem oft á tíðum þurfa að greiða stórfé fyrir þjónustuna.  Allt fer það eftir því fyrir hve miklum hagsmunum er unnið.

Hér á landi þrífast "lobbyistar" ekki enda hafa fjölmiðlarnir tekið að sér hlutverk þeirra og þurfa stjórnendur stofana, fyrirtækja og samtaka ekki annað en skrifa tölvupóst til starfsamanna sinna, færslu á fésbókarsíðu eða skrifa innanhúsfréttabréf með "vælum og skælum" um lélega fjárhagsstöðu til þess að fjölmiðlarnir rjúki upp til þjónustu við viðkomandi og kröfurnar sem fram eru settar.

Seinni helmingur hvers einasta árs fer meira og minna í þennan "lobbyisma" fjölmiðlanna og þarf engan að undra þó þingmönnum finnist þessi stöðuga áníðsla líkust andlegu ofbeldi, enda skilja allir og  sjá að svona endalaus átroðningur hlýtur að vera óskaplega þreytandi fyrir utan leiðindin sem hann skapar.

Leiðindin og þreytan vegna þessara margra mánaða árlegu "frétta" af fjárhagsstöðu og þörfum þeirra sem herja á ríkissjóð um framlög bitna ekki eingöngu á þinmönnunum, heldur og ekki síður notendum fjölmiðlanna, sem löngu eru búnir að fá sig fullsadda af þessum "ekkifréttum".


mbl.is Líkir gagnrýni við andlegt ofbeldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bandóðir bandamenn Íslendinga

Allt bendir til þess að Tyrkir hafi vísvitandi skotið niður sprengjuþotu Rússa til að "mótmæla" loftárásum þeirra á Túrkmena í Sýrlandi, en þeir virðast vera litlu minni glæpalýður en Daesh-morðhundarnir.

Tyrkir halda því fram að sendar hafi verið tíu aðvaranir til rússnesku þotuflugmannanna á fimm mínútum, hvernig sem það gengur upp miðað við að Tyrkir sjálfir segja að þotan hafi verið allt að sautján sekúndur innan lofthelgi Tyrklands.  

Tyrknesku árásarvélarnar hafa því þurft að elta þá rússnesku góðan spöl inn í Sýrland til þess að ná að skjóta hana niður.  Túrkmenarnir, sem Tyrkir þykjast vera að vernda, gortuðu síðan af því að hafa drepið báða rússnesku flugmennina með því að skjóta þá svífandi til jarðar í fallhlífum sínum eftir að hafa "bjargast" úr hrapandi flugvélinni.

Þrátt fyrir að Túrkmenarnir hafi verið að mikla sig af morðum beggja flugmannanna hefur nú komið í ljós að Rússum tókst að bjarga öðrum þeirra í frækilegum björgunarleiðangri inn á svæði glæpahyskisins og getur hann því vitnað um glæpi Tyrkja og hundingja þeirra.

Í framhaldi þessara atburða er skömm NATO mikil, en ráðamenn þess hafa lýst stuðningi við gerðir Tyrkjanna og hefur ekki dottið í hug að biðjast afsökunar fyrir hönd þessa lítilsiglda aðildarríkis.   Ekki hafa þessir herrar heldur fordæmt níðingsverk Túrkmenanna sem myrtu varnarlausan flugmanninn í tilrauninni til að bjarga lífi sínu eftir ruddaverk Tyrkjanna. 

Íslendingar hljóta að senda samúðarkveðjur til rússnesku þjóðarinnar vegna þessa óþurftarverks ásamt fordæmingu á framgöngu samherja síns í NATO.


mbl.is Loftárásir við landamæri Tyrklands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kunna forsprakkarnir að skammast sín?

Ótrúleg múgæsing greip um sig í þjóðfélaginu í gær eftir að auglýsingasnepillinn, sem kallar sig "Fréttablaðið", spann upp æsingafrétt um meinta nauðgun og hreinlega laug því að annar hinna ákærðu í málinu byggi í íbúð sem "útbúin væri til nauðgana".

Það er ekki nýtt að þessi umræddi snepill og fleiri óvandaðir fjölmiðlar birti fréttir af þessum toga til að vekja á sér athygli, en það furðulega gerðist að ótrúlegasta fólk gekk af göflunum vegna málsins og hreinlega tók hina ákærðu og alla þeirra aðstandendur nánast af lífi án dóms og laga, eins og raunar er vani dómstóls götunnar.  

Viðbjóðurinn sem gekk um samfélagsmiðlana, jafnvel með myndbirtingum og hótunum allskonar, er ótrúlegur og gekk óþverrahátturinn svo langt að boðað var til útifundar við lögreglustöðina við Hlemm þar sem krafist var gæsluvarðhalds yfir hinum grunuðu, án þess að mannsöfnuðurinn hefði nokkrar sannanir eða annað en slúður og kjaftasögur til réttlætingar gerðum sínum.  

Fréttastofur sjónvarpsstöðvanna, sem vilja láta taka sig alvarlega, tóku fullan þátt í uppþotinu með því að birta viðtöl við forsprakka uppþotsins án þess að sýna nokkurn skilning á þeim óhæfuverkum sem þetta lið átti upptök að og æsti til.

Svokallað "Fréttablað" hefur ekki séð sóma sinn í að biðjast afsökunar á sínum þætti þessa hneykslis og varla er að vænta að flestir þeirra sem verst létu geri það heldur. 

Svona óþverraháttur er öllum sem að komu á einhvern hátt til ævarandi skammar og vonandi læra þeir að hugsa áður en þeir framkvæma næst þegar reynt verður að kalla saman dómstól götunnar.


mbl.is „þu munt missa útlimi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfstæðisflokkurinn og unga fólkið eiga samleið

Á yfirstandandi landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefur unga fólkið verið afar áberandi, enda mætti það vel undirbúið og hafði greinilega lagt mikla vinnu í málefnavinnu og yfirferð tillagna málefnanefnda flokksins sem lagðar höfðu verið fram.

Tilllögur ungra sjálfstæðismanna voru vel rökstuddar og var þeim almennt vel tekið af eldri hluta landsfundarfulltrúa og voru samþykktar í flestum tilfellum inn í endanlegar ályktanir landsfundarins.

Þetta er enn eitt dæmi þess hve Sjálfstæðisflokkurinn er lýðræðislegur flokkur þar sem fólk á öllum aldri tekur höndum saman í vinnu fyrir umbótum í landinu með allra hag í forgrunni, enda gamla góða kjörorðið ennþá í fullu gildi, þ.e. "Stétt með stétt".

Vinstri grænir hafa haldið sinn landsfund á sama tíma á Selfossi, en þaðan berast afar litlar fréttir af nýju fólki í forystu, eða merkilegum málefnaályktunum.  

Það vekur líka athygli að fjöldi fundarmanna samtals hjá VG er nokkurn veginn á pari við þann fjölda fólks sem bauð sig fram til starfa í málefnanefndum Sjálfstæðisflokksins milli landsfunda.


mbl.is „Ég er bara orðlaus“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband