Færsluflokkur: Bloggar

Ósvífni græðgismógúlanna verður sífellt ógeðslegri

Á árunum fyrir hrun virtust banka- og útrásarvíngar njóta mykillar hylli meðal þjóðarinnar og engu líkara en að útþurrkun eigin fjár hinna ýmsu stórfyrirtækja sem þá átti sér stað þætti ekki tiltökumál.

Þetta kom fram í því að ýmsir hópar viðskiptagarka, t.d. bankastjórnenda og Bónussklíkunnar svo örfá dæmi séu nefnd, skiptu upp fyrirtækjum, skuldsettu þau upp í rjáfur og greiddu svo sjálfum sér uppsafnað eigið fé út sem arð og bónusa.  Kannski var þessi meðvirkni almennings vegna þess að fólk skildi hreinlega ekki þær upphæðir sem skiptu um hendur í þessum gjörningum, því þær voru svo stjarnfræðilegar að almenningur hafði hreinlega ekki heyrt slíkar tölur nefndar í sambandi við peninga áður.

Bankarnir og fyrirtækin ofurskuldsettu fóru síðan unnvörpum á hausinn í bankakreppunni og afleiðingum hennar, en ofurlaunin, risabónusarnir og tröllvöxnu arðgreiðslurnar liggja einhversstaðar á leynireikningum í hinum ýmsu skattaskjólum veraldarinnar.

Núna er aftur farið að bera á svipaðri græðgi í atvinnulífinu og átti sér stað fyrir bankahrun og enn eru stjórnendur farnir að borga sjálfum sér ótrúleg ofurlaun, feitu bónusarnir aftur farnir að líta dagsins ljós og arðgreiðslurnar sjaldan eða aldrei verið ríflegri en einmitt núna.

Munurinn er þó sá að í þjóðfélaginu er ekki lengur nokkur einasta þolinmæði gagnvart þessari græðgi tiltölulega lítils hóps manna sem greinilega er gripinn svo brjálæðislegri gróðafíkn í eigin þágu að nánast ótrúlegt er.

Þessir tiltölulega fáu ofurgræðgisbarónar ættu að reyna að sjá og skilja andrúmsloftið í kringum sig áður en það verður of seint fyrir þá.


mbl.is Vilja skoðun á tryggingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Græðgi og gróðavon að ganga frá ferðaþjóunstunni?

Ferðaþjónustusalar auglýsa landið með fallegum góðviðrismyndum, flestar teknar á sólríkum sumardögum og sem sýna allar fegurstu náttúruperlurnar eins og þær eru við bestu skylyrði.

Allt kapp er síðan lagt á að lengja ferðatímabilið og fá sem flesta ferðamenn til að koma að vetrarlagi og hefur það tekist ótrúlega vel og er nú svo komið að landið er að yfirfyllast af ferðamönnum sem leita eftir því sem þeir sjá í auglýsingunum, en enginn virðist bera ábyrgð á því að sumarmyndirnar skuli í raun vera fölsun á raunveruleika vetrarferðanna.

Við þessar aðstæður, sem ferðamönnunum eru algerlega framandi og þeir kunna ekkert að bregðast við, fjölgar slysum og eru þau misalvarleg.  Minniháttar meiðsli og beinbrot komast sjaldan í fréttir en sífjölgandi dauðaslys gera það hinsvegar.

Ferðaþjónustuaðilarnir sem selja þessar ferðir dýrum dómum og hagnast vel á þeim vilja hins vegar ekki leggja fram neina fjármuni til þess að efla slysavarnir á þeim stöðum sem þeir fara á með hópa sína, en gera hins vegar háværar kröfur á opinbera aðila um að sjá um slysavarnirnar.

Ættu það ekki að vera þeir sem selja vöruna sem sæju sjálfir um að hún stæðist öryggiskröfur?


mbl.is Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega lítið fjallað um píratastríðið

Svokallaðir Píratar, sem fengu þrjá menn kosna til Alþingis í síðustu kosningum, segjast ekki vera raunverulegur stjórnmálaflokkur og þar að auki alfarið á móti yfirvaldi, enda stjórnleysingjar.  

Þessi sundurleyti hópur fékk þrjá menn kjörna til Alþignis í síðustu kosningum, en nýtur nú fylgis nánast fjörutíu prósenta kjósenda sem segist orðinn leiður á að láta stjórna landinu og virðist frekar vilja stjórnleysi og rugl í þjóðmálunum í framtíðinni.

Pírataflokkurinn virðist hvorki geta stjórnað þriggja manna þingflokki né komið sér saman um hvað þeir vilja til framtíðar og láta eins og það eina sem þurfi að gera í stjórn landsins sé að samþykkja nýja stjórnarskrá, þó enginn hafi getað sýnt fram á að sú sem í gildi er skapi nokkur sérstök vandamál meðal þjóðarinnar.

Eftir því sem yfirlýsingar og gerðir "Besta flokksins" í borgarstjórn Reykjavíkur urðu kjánalegri, því meira fylgi fékk flokkurinn.  Það sama er nú að gerast með "Píratana" og líklega verður það bara til að hækka fylgistölurnar.

Sagt hefur verið að margt skrýtið sé í kýrhausnum og það virðist vera að koma í ljós enn einu sinni.


mbl.is Sakar Helga um rangfærslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um íslensku þrælahaldarana?

Undanfarið hefur mikið verið fjallað í fjölmiðlum um "þrælahaldara" og aðra svindlara í ferðaþjónustu og byggingariðnaði.  Samkvæmt þessum fréttum hafa fulltrúar verkalýðsfélagannna og skattayfirvalda ekki undan að við að setja slíkum aðilum úrslitakosti um úrbætur og lokun vinnustaða.

Fulltrúi stéttarfélags á Suðurlandi sagði í viðtali í útvarpi að á þeim landshluta virtist það vera regla en ekki undantekning að ferðaþjónustufyrirtæki svindluðu á starsfólki sínu og létu það jafnvel vinna tuga yfirvinnutíma án þess að greiða fyrir þá. Ekki síður væri svindlað á dagvinnulaununum og vaktaálagi iðulega stolið af starfsfólkinu.

Nefndi þessi fulltrúi sem dæmi að stórt ferðaþjónustufyrirtæki á Suðulandi væri búið að svíkja og svindla á starfsfólki árum saman og þegar búið væri að rekast í einni leiðréttingu á launum kæmi næsta mál varðandi fyrirtækið fljótlega til úrlausnar.  

Nýlega var þrælahaldari frá Sri-Lanka hnepptur í varðhald fyrir að halda þrem samlöndum sínum í ánauð og er það mál nú í höndum lögregluyfirvalda.  Hins vegar vekur athygli hvers vegna hann er sá eini sem handtekinn hefur verið, fyrst vitað er að fjöldi mála af sama, eða svipuðum toga, eru viðvarandi innan ferða- og byggingariðnaðarins.

Varla getur það verið að skýringin sé sú að um útlending sé að ræða, sem nota eigi til þess að hræða aðra sem sömu glæpi stunda, en Íslendingum og öðrum Evrópubúum sé leyft að iðka glæpi sína óáreittir.


mbl.is Þrjár konur þolendur mansals
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítil þátttaka í rafrænni kosningu

Þátttaka í rafrænum kosningum er yfirleitt, jafnvel alltaf, ótrúlega lítil og sýnir þáttakan í allsherjaratkvæðagreiðslunni um nýjan kjarasamning á vinnumarkaði þetta glögglega.

Á kjörskrá voru 75.635, 10.653 greiddu atkvæði en 64.982 létu sér málið í léttu rúmi liggja og tóku enga afstöðu til launagreiðslna sinna og annarra kjaramála til næstu ára.

Af þeim sem atkvæði greiddu samþykktu 9.274, eða 91,28%, kjarasamninginn en einungis 7,81% voru á móti og 0,91% tóku ekki afstöðu.

Greinilega er mikil ánægja í þjóðfélaginu með þessa samninga eins og niðurstaðan sýnir glögglega, þrátt fyrir lélega þátttöku.

Þessi litla þátttaka í kjörinu er athyglisverð í því ljósi að nánast allir hafa aðgang að tölvu og eru stilltir á Internetið mislangan tíma dag hvern og sumt unga fólkið er nánast tengt við netið meiri part sólarhringsins.

Svona mikið áhugaleysi um að taka þátt í rafrænum kosningum ýtir væntanlega ekki undir þær hugmyndir sem verið hafa á lofti um aukna þátttöku almennings í ákvarðanatöku um stóru málin í þjóðfélaginu og enn síður um að pólitískar kosningar verði rafrænar í nánustu framtíð.

 


mbl.is Samþykktur með 91% greiddra atkvæða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfboðaliðar og þrælar

Í Vík í Mýrdal handtók lögreglan erlendan mann sem rak sauma- eða prjónastofu og er honum gefið að sök að hafa haldið tvær konur, samlanda sína, í þrældómi um einhvern tíma.  Ef marka má fréttir hafði ólöglegu starfsfólki þessa sama manns verið vísað úr landi stuttu fyrir síðustu jól, þannig að varla hefur þetta síðasta þrælahald staðið mjög lengi, hafi yfirvöld staðið sig sem skyldi í fyrra skiptið.

Við þessar fréttir vakna upp spurningar um mismuninn á svona þrælahöldurum og þeim fyrirtækjastjórnendum sem auglýsa eftir og hafa í vinnu hjá sér svokallaða "sjálfboðaliða" sem engin laun fá, en er þó lagt til húsnæði og líklega fæði að auki.  Ekki kemur fram hver borgar ferðakostnað "sjálfboðaliðanna" sem flestir eru erlendir eins og þrælarnir sem frelsaðir voru í Vík og grunur leikur á að haldnir hafi verið víðar, án þesss að hægt hafi verið að fylgja þeim málum eftir.

Er munurinn á "þrælahöldurunum" og hinum sem halda sjálfboðaliðana nokkuð svo mikill þegar allt kemur til alls.  Báðir aðilarnir eru að reyna að hagnast persónulega sjálfir á vinnu ólaunaðs starfsfólks, annar nýtir sér líklega neyð þess sem plataður hefur verið, eða neyddur, til starfans en hinn spilar á ævintýragirni ungs fólks sem lætur sig hafa það að vinna undir því yfirskini að með því móti fái það tilbreytingu í líf sitt.  Enginn veit þó hvort eitthvað annað en unggæðingsháttur og ævintýraþrá búi að baki eftirsókninni eftir vinnunni launalausu.

Hvað sem er að baki "mansalinu" og "sjálfboðaliðavinnunni" í atvinnufyrirtækjum á hvorugt að líðast og þeir fyritækjarekendur sem hagnast á slíku ættu ekki að komast upp með slíka háttsemi og raunar ættu hörð viðurlög að liggja við hvoru tveggja.

 

 


mbl.is Rökstuddur grunur um 10 mansalsmál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig er heimsmarkaðsverð búvara reiknað?

Ásgeir Friðrik Heimissonk, hagfræðingur við Hagfræðistofnun HÍ, segir að samkvæmt skýrslum OECD "sé afurðaverð frá bænd­um hér á landi mun hærra en heims­markaðsverð, sé miðað við stuðul sem sýn­ir afurðaverð til bænda sem hlut­fall af inn­flutn­ings­verði. Með bú­vör­um er átt við mjólk­ur­vör­ur, naut­gripi, svína­kjöt, fugla­kjöt, kinda­kjöt og egg".

Ekki kemur neitt fram um það hvernig "heimsmarkaðsverð" sé fundið út né hvort inni í þeim útreikningum séu matvörur sem framleiddar séu í Afríku og Asíu jafnt sem á norðurlöndunum og Bandaríkjunum.  Ekki er heldur minnst á hvort "heimsmarkaðsverðið" sé afurðaverð til erlendu bændanna með þeim gríðarlegu niðurgreiðslum sem víðast tíðkast og hvort álagning afurðastöðva og heildsala sé innifalin.

Engu máli skiptir hvort fólk sé samþykkt innflutningshömlum eða ekki, krafan hlýtur alltaf að vera sú að allar upplýsingar um viðkomandi mál komi fram svo hægt sé að ræða um efnisatriðin af einhverju viti og mynda sér skoðun á viðfangsefninu.

Eitt sem þarf t.d. að upplýsa er hvort sá sparnaður niðurgreiðslna sem Íslendingar myndu spara sér á innlendum landbúnaðarvörum með auknum innflutningi sé einfaldlega á kostnað erlendra skattgreiðenda sem standi undir niðurgreiðslum á "heimsmarkaðsverðinu".  

Það er auðvitað alltaf ánægjulegt að vera boðinn í mat og þurfa ekki að borga fyrir hann sjálfur. Það er hins vegar alltaf skemmtilegra að vita hver borgar.


mbl.is Innlendar búvörur kosta 68% meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kostnaður sjúklinga á hjúkrunarheimilum

Hjúkrunarheimili eru hluti af heilbrigðiskerfi landsins og þangað fer enginn nema eftir færnis- og heilsumat.  Jafnvel þeir eldriborgarar sem eru orðnir verulega veikir og hafa farið í gegnum slíkt mat þurfa oft að bíða langtímum saman eftir plássi á hjúkrunarheimili.

Kvartað hefur verið yfir því að allt að 20% rúma á Landspítalanum séu upptekin vegna aldraðra sjúklinga sem bíða eftir innlögn á hjúkrunarheimili, en rekstrarkostnaður á dag á Landspítalanum er margfaldur á við rekstrarkostnað hvers sjúklings sem kemst þaðan og inn á hjúkrunarheimili.

Enginn eldri borgari fær inni á hjúkrunarheimili nema vera orðinn verulega mikill sjúklingur og þá bregður svo við að þessir sjúklingar eru látnir borga stórfé fyrir sjúkraþjónustuna, eða eins og segir á vef Tryggingastofnunar ríkisins:  

                          Þátttaka í dvalarkostnaði:

Íbúar geta þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum vegna varanlegrar búsetu á dvalar- eða hjúkrunarheimili. Þátttakan er tekjutengd og er reiknuð út á grundvelli tekjuáætlunar. Á árinu 2016 gildir:

Ef mánaðartekjur íbúa eru yfir 81.942 kr. á mánuði, eftir skatta, þá tekur hann þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem umfram eru. Greiðsluþátttaka verður þó aldrei hærri en 384.740 kr. á mánuði.

Íbúi sem greiðir hámarks þátttökugjald er með tekjur að fjárhæð 466.682 kr. eftir skatt á mánuði. Aðeins íbúar 67 ára og eldri taka þátt í dvalarkostnaði.

Ef íbúi tekur þátt í dvalarkostnaði byrjar hann að greiða frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að búseta hefst. Heimilið sér um að innheimta hlut íbúa í dvalargjaldi.

Nú er rætt um að breyta þessum reglum þannig að sjúklingarnir haldi lífeyri sínum en greiði svo sjálfir, eða ættingjar þeirra, fyrir hjúkrunarþjónustuna.  Það væri algerlega óásættanlegtr kerfi og byði upp á að einungis þeir efnameiri gætu í framtíðinni nýtt sér hjúkrunarheimilin, en hinir sem minni tekjurnar hafa yrðu að láta sér nægja að liggja í kör heima hjá sér, jafnvel einir og án allrar aðstoðar því ekki búa allir aldraðir við mikla umhyggju ættingja sinna.

Það er ótækt að veikustu og elstu sjúklingarnir skuli látnir borga allt að 385 þús. krónum á mánuði fyrir nauðsynlega hjúkrunarþjónustu.  Eingöngu ætti að rukka sanngjarna upphæð fyrir húsaleigu og mat, en læknis- og hjúkrunarþjónusta ætti að greiðast úr ríkissjóði eins og annar sjúkrahússkostnaður.

 


Borgunarmálið verði rannsakað af Héraðssaksóknara

Héraðssaksóknari hefur tekið yfir alla starfsemi Embættis sérstaks saksóknara ásamt einhverju fleiru sem sameinað var inn í embættið.  Sérstakur saksóknari hefur rannsakað alls kyns fjármálamisferli sem fram fóru á árunum fyrir hrun og í aðdraganda þess og hafa margir gerendanna í þeim málum verið dæmdir í þungar refsingar.

Í mörgum málanna hafa hinir dæmdu ekki hagnast persónulega á lögbrotum sínum en eftir sem áður hafa þeir talist bera ábyrgð á gífurlegum töpum sem af athöfnum þeirra hafa hlotist. Þyngstu dómana hafa bankastjórar föllnu bankanna fengið og ekki sér fyrir endann á þeim málum öllum ennþá.

Landsbankinn seldi hlut sinn í Borgun seint á árinu 2014 án auglýsingar eða útboðs og hefur bæði söluaðferðin sjálf og söluverðið verið harkalega gagnrýnt alla tíð síðan og viðunandi svör ekki fengist frá bankanum við þeim spurningum sem fram hafa verið bornar.

Nú hefur KPMG skilað mati á Borgun og metur verðmæti fyrirtækisins vera 26 milljarða króna.  Í frétt mbl.is segir m.a: "Í lok nóv­em­ber 2014 til­kynnti Lands­bank­inn sölu á 31,2% hlut sín­um í Borg­un til hóps fjár­festa og stjórn­enda Borg­un­ar. Sölu­verð hlut­ar­ins var sagt tæp­ir 2,2 millj­arðar króna. Sé virði hlut­ar­ins metið út frá virðismati KPMG er hann nú um 6 til 8 millj­arðar króna eða nærri 4 til 6 millj­örðum hærri en þegar Lands­bank­inn seldi."

Í framhaldi af þessu mati hlýtur Héraðssaksóknari að hafa frumkvæði að því að taka söluna á hlut Landsbankans til rannsóknar, bæði aðferðina við söluna og söluverðið. Ekkert nema slík rannsókn getur leitt í ljós hvort þarna hafi verið eðlilega að hlutum staðið, eða hvort þarna hafi verið um að ræða eitthvað svipað og dæmt hefur verið saknæmt í starfsemi bankanna á dögunum, vikunum, mánuðunum og árunum fyrir hrun.

Vonandi verður niðurstaðan sú að ekkert athugavert hafi verið við söluferlið, en ekkert nema óháð rannsókn getur skorið úr því héðan af.


mbl.is Borgun metin á 26 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlegt rugl útrásarvíkings og Glitnis rétt fyrir hrun

Enn eru að falla dómar vegna ýmissa einkennilegra og ótrúlegra gerninga sem framkvæmdir voru á bóluárunum fyrir hrun.  Sum þessara mála eru svo ótrúlega vitlaus að erfitt er að trúa því að menn sem þóttust vera einhverjir mestu viðskiptasnillingar veraldarinnar hafi í rauninni ekki haft meira viðskiptavit en fram hefur komið í hverju málinu á eftir öðru.

Hæstiréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms um að slitabúi Glitnis beri að taka á sig tveggja milljarða ábyrgð á kappakstursævintýri Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, en hann var í forsvari fyrir ýmis útrásarfyrirtæki og fyrirtækjafléttur utanlands og innan og réð þar á meðal yfir meirihluta hlutafjár í Glitni.

Í fréttinni af málinu segir m.a:  "Þann 26. ág­úst 2008 gerði Glitn­ir samn­ing við Sport In­vest­ment (SI), Baug Group og Jón Ásgeir um að Glitn­ir myndi veita ábyrgð ann­ars veg­ar í tengsl­um við samn­ing um kaup SI á 10 % hluta­fjár í Williams Grand Prix Eng­ineer­ing, sem rek­ur kapp­akst­urslið í tengsl­um við kapp­akst­ur­skeppn­ina Formúlu 1, og hins veg­ar vegna styrkt­ar­samn­ings milli Williams og SI og Jóns Ásgeirs. Sam­dæg­urs gaf Glitn­ir út yf­ir­lýs­ingu um um­rædda ábyrgð til Williams."

Þetta rugl er framkvæmt tæpum einum og hálfum mánuði áður fyrir bankahrunið og Glitnir hrundi fyrstur íslensku bankanna og með ólíkindum að bankinn og helstu stjórnendur hans skuli hafa staðið í öðru eins fjármálasukki og þarna ræðir um á sama tíma og undirbúningur Neyðarlaganna var kominn á fullt skrið.

Þetta er aðeins eitt dæmið enn um hversu gjörsamlega svokallaðir útrásarvíkingar og stjórnendur bankanna, sem reyndar voru í mörgum tilfellum sömu mennirnir, hafa verið gjörsneyddir allri tilfinningu fyrir vitrænum viðskiptum.


mbl.is Viðurkennir tveggja milljarða kröfu á Glitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband