Færsluflokkur: Bloggar

Of mikið gert úr vanda ungra fasteignakaupenda?

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands voru 22% fasteignakaupenda í Reykjavík á þriðja ársfjórðungi 2015 að kaupa sína fyrstu fasteign og er það hlutfall meðaltal í fasteignaviðskiptum á landinu.

Vekur þetta nokkra undrun miðað við þær umræður sem fram hafa farið undanfarið í þjóðfélaginu um að ungt fólk geti ekki með nokkru móti keypt fasteingir um þessar mundir vegna verðs og vandræða við fjármögnun.

Getur verið að sú háværa umræða sem fram hefur farið um erfiðleikana á fasteignamarkaði sé orðum aukin, eins og á svo oft við um ýmis umræðuefni í fjölmiðlum og á samskiptamiðlum internetsins?

 


mbl.is 22% að kaupa fyrstu eign
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þingmenn sýni þjóðinni þá virðingu að hætta fíflagangi í þingsal

Það er ótrúlegt að fylgjast með því hvernig þingmenn á Alþingi óvirða þjóðina sem kaus þá til þingsetunnar og þingið sjálft með fíflagangi og þvargi þingfund eftir þingfund, undir liðnum "Störf þingsins".

Oftast virðast þetta vera sömu þingmennirnir sem stunda þennan ljóta og ómerkilega leik til að tefja og trufla eðlileg þingstörf og getur varla nokkuð annað en athyglissýki ráðið för, nema um sé að ræða hreina skemmdarfýsn og tilraun til að skaða sjálft lýðræðið í landinu.

Málþóf er hægt að fyrirgefa í einstaka undantekningartilfellum þegar stór deilumál eru til umfjöllunar í þinginu, en að stunda svona vinnubrögð dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð, er algerlega siðlaust og þeim sem þau ástunda til skammar sama hvaða stjórnmálaflokki viðkomandi tilheyrir.

Eina vörn þeirra þingmanna sem skömm hafa á þessum vinnubrögðum er að yfirgefa þingsalinn á meðan á vitleysunni stendur og sýna smámennunum í þingmannahópnum með því fyrirlitningu og koma þeim á þann hátt í skilning um að slíkt háttarlag verði ekki þolað lengur.

Þjóðin á skilið að þingmenn sýni henni lágmarksvirðingu í þakkarskyni fyrir atkvæðin.


mbl.is „Er hann að éta köku“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óseðjandi gróðafíkn alþjóðarisafyrirtækja

Rio Tinto Alcan er dæmigert fyrir þau alþjóðafyrirtæki (og önnur) sem stjórnað er af siðblindingjum sem skammta sjálfum sér þvílík ofurlaun að þeim sjálum og ætt þeirra allri tækist ekki að eyða árslaunum þeirra á æviskeiði a.m.k. þriggja ættliða.

Siðblindingjar þessir sjá hins vegar ofsjónum yfir þeim launum sem óbreyttir starfsmenn þeirra fyrirtækja sem þeir stjórna strita fyrir og þurfa yfirleitt að horfa í hvern eyri til að sjá sér og fjölskyldum sínum farborða frá degi til dags.

Alltaf þykjast þetta siðblinda lið vera að "hagræða" í rekstrinum þrátt fyrir óheyrilegan hagnað fyrirtækjanna flest árin, þó inn á milli komi eitt og eitt ár þar sem gróðinn er minni en venjulega vegna einhverra markaðsaðstæðna.  Þær aðstæður hafa hins vegar aldrei náð yfir nema skamman tíma og jafnvel á þeim árum komast fyrirtækin ágætlega af vegna þeirra digru sjóða sem safnað er upp með svívirðilegri græðginni flest ár.

Rio Tinto Alcan er nú í alheimsbaráttu gegn starfsfólki sínu með það að markmiði að brjóta niður samstöðu þess og eins og venjulega til að auka gróða sinn, sem þó er ævintýralegur fyrir. Starfsfólk álversins í Straumsvík þurfa að standa í þessu stríði, eins og aðrir starfsmenn Rio Tinto annarsstaðar í heiminum, og beitir fyrirtækið því lúalagi að neita að gagna frá kjarasamningi nema verkalýðsfélögin samþykki að heimila verksmiðjunni að ráða stóran hóp fólks á smánarlaunum í svokallaðri undirverktöku.  Enginn er svo skyni skroppinn að skilja ekki til hvers siðleysingjarnir setja fram þessa úrslitakosti við kjarasamningagerðina.

Vonandi standa verkalýðsfélögin í lappirnar gegn þessum yfirgangi, en því miður hefur verkalýðshreyfingin ekki staðið sig sem skyldi í varðstöðunni um réttindi félaga sinna fram að þessu.


mbl.is Mótmæltu í Straumsvík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Matvælastofnun hefur vald til að leyfa dýraníð í allt að tíu ár

Matvælastofnun hefur virðist hafa vald, samkvæmt lögum, til að hylma yfir glæpi dýraníðinga og ætlar meira að segja að gefa sumum þeirra frest til að hætta níðinu í allt að tíu ár.

Aum er sú afsökun svínaníðinganna að í lögum hafi verið heimild til að hafa búr og stíur dýranna svo lítil að skepnurnar gætu ekki hreyft sig, hvorki snúið sér né staðið upp og hvað þá gengið um.

Hafi dýrahaldari ekki ekki meiri innsýn í líðan býstofns síns en raunin sýnir, sérstaklega varðandi stóru svínaverksmiðjubúin, eiga slíkir níðingar hvergi nærri dýrum að koma og ættu að snúa sér að einhverjum öðrum störfum þar sem mannlegar tilfinningar koma ekki við sögu.

Það er ótrúlegt að menn skuli fela sig á bak við lög frá Alþingi sem kveða á um að ekki megi kvelja dýr nema að takmörkuðu leyti og níðingar sem jafnvel vilja kalla sig bændur sjái ekki sóma sinn í að búa betur að bústofni sínum en slíkar lágmarkskröfur gera og að það skuli ekki snerta tilfinningar þeirra á nokkurn hátt að skepnurnar líði helvítiskvalir alla sína ævidaga.

Í raun er skelfilegt til þess að hugsa að Matvælastofnun skuli ekki eingöngu hylma yfir með níðingunum, heldur ætli að heimila viðbjóðinn í allt að tíu ár ennþá.

 


mbl.is Aðlögunarfrestur svínabænda liðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Glæpir matvælaframleiðenda verði ekki liðnir og viðurlögum beitt af hörku

Óhugnanlegar fréttir og myndir hafa að undanförnu birst í fjölmiðlum af glæpastarfsemi sem stunduð er á flestum, eða öllum, svínabúum landsins sem slátra 200 grísum eða fleiri árlega.  Í einhverjum tilfellum virðist álíka glæpastarfsemi stunduð í einhverjum kjúklingabúum.  Glæpaverkin felast í ógeðlegri meðferð á skepnunum, sem flokkast ekki undir neitt annað en illmennsku og níðingsskap af verstu tegund.

Matvælastofnun á að hafa eftirlit með svína- og kjúklingabúunum en virðist taka af hreinni léttúð á glæpunum og gefa brotamönnunum endalausa fresti til að minnka níðingsskapinn í stað þess að kæra þá umsvifalaust fyrir lögbrotin, sem framin eru af greinilegum og staðföstum brotavilja.

Furðuleg afstaða stofnunarinnar speglast vel í eftirfarandi setningu í viðhangandi frétt: "Litið er á dýra­vel­ferðar­mál sem viðkvæm per­sónu­leg mál rækt­enda og því hef­ur stofn­un­in ekki greint frá því á hvaða búum ástandið sé slæmt."  Líklega eru þetta einu glæpirnir sem flokkast undir að vera viðkvæm persónuleg mál glæpamannanna sjálfra.

Vanti eitthvað upp á að lög landsins nái fullkomlega yfir þessa glæpi, verður að bæta úr því nú þegar og ef ekki er hægt að reka þessa tegund matvælaframleiðslu á heiðarlegan hátt og án dýraníðs verður einfaldlega að loka þeim og flytja svína- og kjúklingakjöt inn erlendis frá.

Strangar kröfur verður einnig að gera til þeirra búa erlendis sem afurðir yrðu fluttar frá til landsins og ekki leyfður innflutningur frá neinu búi sem ekki væri fyrirfram búið að fá vottun frá Íslenskum eftirlitsaðilum um að dýraníð og aðrir álíka glæpir væru ekki stundaðir á viðkomandi búum.


mbl.is Orðspor greinarinnar í hættu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúlega illa undirbúin tillaga þrátt fyrir langan aðdraganda

Dagur B., borgarstjóri, segir að klúður meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur hafi skaðað meirihlutann og vonandi náist að vinna traustið aftur með leiðbeiningum og hjálp frá borgarstjóranum í Kaupmannahöfn.

Rétt er það hjá Degi B. að meirihlutinn í borgarstjórn hefur orðið fyrir miklum álitshnekki vegna óvandaðra vinnubragða og almennt lélegrar stjórnunar borgarinnar, en það eru þó smámunir miðað við þann skaða sem ruglið með viðskiptabann á Ísrael hefur haft á land og þjóð.  

Bæði hefur kjánagangurinn orðið til að stórskaða viðskiptahagsmuni landsins um allan heim og orðið ýmsum grínistanum góður efniviður til að hæðast að þjóðinni og er þá ekki gerður greinarmunur á lánlausum borgarstjórnarmeirihluta og almenningi sem algerlega hefur þó misboðið þessi dæmalausa framganga Dags B. og félaga.

Nú er reynt að láta líta svo út að tillagan að viðskiptabanninu hefði þurft lengri umræðu og skoðun áður en hún var samþykkt, en hins vegar sagði flutningsmaðurinn, Björk Vilhelmsdóttir, í fréttum RÚV þann 11/09 að hún hefði verið lengi til umfjöllunar í meirihlutanum og um hana væri mikil og góð samstaða með öllum meirihlutaflokkunum.  Sjá má þá frétt hérna:  http://www.ruv.is/node/941679

Borgarstjórnarmeirihlutinn er með allt niður um sig í þessu máli og væri nær að girða sig í brók og reyna að sinna þeim málum sem hann var kosin til.


mbl.is Hefur skaðað meirihlutann í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Borgarstjóri hugsi áður en hann gerir nokkuð annað

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, hefur smátt og smátt verið að draga í land með stóryrðin sem hann notaði til að byrja með vegna þeirrar fáránlegu samþykkt sína og meirihlutans um viðskiptabann á Ísrael.  

Til að byrja með var Dagur hinn drýldnasti með yfirlýsingar sínar um að allt væri þetta lögum samkvæmt og eingöngu gert vegna mannréttindabrota á hernumdum svæðum í Ísrael. Samþykktin var þó algerlega skýrt og vel orðuð að því leyti að um allar vörur frá Ísraelsríki væri að ræða svo lengi sem gyðingar stjórnuðu herteknum svæðum í Palestínu.

Eftir því sem dagarnir hafa liðið frá þessari ótrúlega vanhugsuðu samþykkt hefur tónninn smám saman verið að breytast og er nú svo komið að Dagur segist ætla að ógilda samþykktina fljótlega og taka sér tíma til að hugsa hana betur og láta þýða álíka heimskulega samþykkt frá Kaupmannahöfn og hafa til hliðsjónar um framhaldið.

Borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík eru nógu mislagðar hendur við stjórn borgarinnar þó hann fari ekki að flytja inn ruglsamþykktir frá Danmörku og ljúga því upp að þær séu einungis hugsaðar í mannúðarskyni.  

Ef manngæska og umhyggja fyrir mannréttindum réðu för í þessu efni hlytu samþykktir þar um að snúa að fleiri ríkjum en Ísrael, t.d. Rússlandi, Kína, fjölda einræðisríkja í Arabalöndum, í Asíu, Afríku og margra landa í Suður-Ameríku.  Hvert sem litið er í heiminum er verið að brjóta mannréttindi á þegnunum og virðist Ísrael ekkert skera sig úr að því leyti.

Dagur og félagar, sem eru með allt niður um sig í borgarmálunum, ættu að snúa sér að því að reyna að fást við þau málefni sem þeir voru kosnir til að sinna og láta aðra um stóru málin í veröldinni. 


mbl.is Ætlar að draga tillöguna til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Björk og borgarstjórnin eru ekki haturseldfjall, heldur bara leirhver sem bullar í

Eins lygilega og það hljómar samþykkti meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur tillögu frá Björku Vilhelmsdóttur, sem var að láta af störfum sem borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, en það mun vera venja að samþykkja "kveðjutillögur" sem fulltrúarnir flytja þegar þeir hætta í borgarstjórn.

Kurteisi kostar ekkert og er sjálfsögð í mannlegum samskiptum, en takmörk eru fyrir öllu og algerlega forkastanlegt að samþykkja aðra eins tillögu og þessa, enda engin greining á bak við tillöguna um hvaða vörur þetta séu sem borgin á að hætta að kaupa, né hvort ekki megi vera snefill af ísraelskum uppruna í þeim vörum, eða þjónustu, sem borgin ætlar að sniðganga.

Ótrúlega margar vörur eiga ættir að rekja til Ísrael og t.d. er mjög líklegt að íhlutir tölvunnar sem Björk samdi tillöguna sína á séu einmitt framleiddir þar í landi ásamt hinum og þessum vörum sem fólk notar og neytir daglega án þess að hafa nokkra hugmynd um upprunann, né leiðir hugann nokkurn tíma að honum.  Ekki datt borgarstjórn, eða Björku, í hug að leggja til viðskiptabann á þjóðir þar sem barnaþrælkun tíðkast, eða einræði og kúgun af alls kyns togaer við lýði og almenningur á sér ekkert eða lítið frelsi.

Lýðræði og lög eru svosem ekkert uppáhald hjá Björk Vilhelmsdóttur, eins og lesa mátti í viðtali við hana í Fréttablaðinu um síðustu helgi.  Eftirfarandi er eitt af brotunum sem sýna óvirðingu hennar við lög, jafnrétti og lýðræðið:  „Svo finnst mér embættismenn ráða mjög miklu í kerfinu, það er alltaf lögfræðin sem ræður. Okkur langar oft að gera eitt og annað en lögfræðin segir: nei, það má ekki. Þið verðið að gæta meðalhófs, jafnræðisreglu, sveitarstjórnarlaga,“ útskýrir Björk. „Það er margt sem mann langar að gera en þá kemur borgarlögmaður, og ég hef ekkert á móti henni persónulega, og segir: heyrðu, jafnræðisregla stjórnsýslulaganna kemur í veg fyrir að þú getir veitt fjármagn til þessa verkefnis.“ 

Þegar allt málið er skoðað í heild sinni er ekki hægt að láta sér detta í hug að nokkuð annað en hreint hatur á Ísraelsríki stjórni þessum tillöguflutningi og Björk hafi verið að vinna sig í meira álit stjórnenda Hamas, enda er hún á leiðinni þangað og þar munu lög og reglugerðir ekkert flækjast fyrir henni.

 


mbl.is Eldfjall sem spúir hatri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eins og innviðir landsins þola"

Ráðherrafundur Evrópuþjóða komst ekki að neinni niðurstöðu í dag um hve mörgum flóttamönnum yrði veitt hæli í Evrópu, né hvernig þeim yrði deilt niður á löndin.

Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, sat fundinn og gerði grein fyrir afstöðu íslensku ríkisstjórnarinnar og er m.a. þetta eftir henni haft í meðfylgjandi frétt: "Enn­frem­ur að hún hafi greint frá því að Ísland hafi vilja til þess að taka við eins mörg­um flótta­mönn­um og innviðir lands­ins þoli og að mik­ill skiln­ing­ur hafi verið fyr­ir þeirri af­stöðu."

Það er einmitt mikilvægt að taka vel á móti þeim fjölda flóttamanna sem mögulegt verður að taka við og leggja frekar áherslu á að gera vel við þá sem koma en að keppast við að taka við sem mestum fjölda og geta svo ekki sinnt þörfum hans almennilega.

Framlag Íslendinga til þessa vandamáls mun ekki skipta neinum sköpum til lausnar þess, en getur hins vegar skipt höfuðmáli fyrir þær fjölskyldur sem hingað koma ef vel er að móttöku þeirra staðið og þeim sköpuð góð og friðsöm framtíð.

 


mbl.is Ekki náðist samstaða á neyðarfundi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dauðateygjur Shengen eða jafnvel ESB?

Undanfarin ár hafa milljónir manna lent á vergangi vegna borgarastyrjalarinnar í Sýrlandi og ótrúlegrar ómennsku ISIS-hyskisins og lengst af lá flóttamannastraumurinn til nágrannalandanna og einnig er gríðarlegur mannfjöldi á flótta innan landsmæra Sýrlands sjálfs.

Öllum að óvörum tók mikill fjöldi flóttafólks, aðallega Sýrlendinga, að streyma yfir Miðjarðarhafið til Evrópu á hverri lekabyttunni á eftir annarri og er nú svo komið að nokkur hundruð þúsund manns eru á faraldsfæti um Evrópu, en þúsundir drukknuðu á leiðinni yfir hafið þar sem "frelsissölumennirnir" seldu þeim falskar vonir á okurverði.

Mikil samúðarbylgja hefur gripið Evrópubúa, eins og skiljanlegt er, vegna þessara flóttamanna sem komnir eru á dyraþrepið heima hjá þeim og flestir eru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til hjálpar með gjöfum á nauðsynjavörum og öðru sem til þarf að gera fólkinu lífið bærilegra.

Ýmsar efasemdarraddir eru þó farnar að heyrast vegna þess að þessi hópur flóttamanna virðir engin landamæri og sættir sig ekki við neinar reglur sem Evrópulöndin reyna að setja um komu fólksins og reyni lögregla eða landamæraverðir að hafa hemil á fólksstraumnum rís hann oft upp og berst við löggæslufólkið og segist ekki láta neinn segja sér hvert skuli haldið.  Sem dæmi um þá neikvæðu umræðu sem farið er að bera á vegna þessa má t.d. sjá hérna:  http://www.infowars.com/muslim-refugees-chant-allahu-akbar-fk-you-attack-citizens-throw-feces/

Stór hluti þessa hóps eru ungir og hraustir karlmenn og þeir virðast flestir vel menntaðir og koma úr góðum störfum og verið í a.m.k. sæmilegum efnum heima fyrir og eiga ættingja í Evrópu sem þeir eru í góðu sambandi við í gegnum internetið. Þessi óvænta "innrás" í Evrópu hefur valdið því að Shengen-landamærasambandið mun líklega líða undir lok og reyndar er farið að hrikta í innviðum ESB sjálfs og ekki líklegt að það eigi sér óbreytt framhaldslíf.

Það þarf ekki frekari vitnanna við um hvernig ástandið er orðið innan ESB þegar Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, ræðir þessar áhyggjur opinberlega og lætur m.a. hafa þetta eftir sér: "„Evr­ópu­sam­bandið okk­ar er ekki í góðri stöðu. Það er skort­ur á Evr­ópu inn­an sam­bands­ins og það er skort­ur á sam­stöðu inn­an þess.“ Evr­ópu­sam­bandið glímdi þannig við tvö­falda krísu, flótta­manna­vand­ann og fjár­mála­erfiðleika evru­svæðis­ins. Óbreytt fyr­ir­komu­lag inn­an sam­bands­ins væri fyr­ir vikið ekki val­kost­ur."


mbl.is Danir stöðva lestarsamgöngur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband