Færsluflokkur: Bloggar
25.3.2011 | 14:20
Losun gjaldeyrishafta ef.........
Í dag klukkan fjögur verður haldinn blaðamannafundur til að kynna áætlun um losun gjaldeyrishaftanna, en það hefur dregist í tvær vikur að birta hana miðað við fyrri áætlanir.
Engum þarf að koma á óvart þó áætlunin verði kynnt með ýmsum fyrirvörum og sá allra líklegasti er að allt muni þetta byggjast á því að þjóðin hunskist til að samþykkja Icesaveþrælalögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. Apríl n.k.
Ríkisstjórnin, seðlabankinn og nú síðast forystumenn ýmissa stórfyrirtækja hafa klifað á þeim boðskap undanfarna daga, að allt muni fara á versta veg hér á landi samykki kjósendur ekki að selja sig sjálfviljugir í skattaþrældóm í þágu Breta og Hollendinga til næstu ára eða jafnvel áratuga. Jafnvel ASÍ og einstaka verkalýðsforingum finnst sjálfsagt að launþegar taki á sig þungan skattaklafa, en þykjast geta lofað örlitlum launahækkunum á næstu þrem árum til að létta fólkinu að greiða útlendingaskattinn.
Öllu er tjaldað til í áróðrinum fyrir samþykkt þrælalaganna og svo mun áfram verða alveg fram á kjördag. Bæði Evrópska og Norræna fjárfestingabankanum hefur verið beitt í þessum tilgangi á síðustu dögum og lánafyrirgreiðsla þessara lánastofnana, sem Íslendingar eru meira að segja eignaraðilar að, til Búðarhálsvirkjunar verið skilyrt við samþykki fjárkúgunarkröfunnar.
Allir vita hins vegar að þetta er nákvæmlega það sem það lítur út fyrir að vera, þ.e. lygaáróður, því öll stærstu fyrirtæki landsins hafa verið að taka ný rekstrarlán og framlengja önnur hjá erlendum lánastofnunum á undanförnum mánuðum, þar á meðal Breskum og Hollenskum bönkum og það sem meira er, á ágætum vaxtakjörum.
Fróðlegt verður að sjá hvort spáin um Icesavefyrirvarann rætist ekki í dag, þegar áætlunin um losun gjaldeyrishaftanna verður kynnt. Seðlabankinn hefur látið teyma sig út í annað eins á undanförnum mánuðum.
Samfylkingin leggur ofuráherslu á að þrælalöggin verði samþykkt, enda á að leiða þjóðina með öllum ráðum inn í ESB og það helst nánast ófjárráða.
Eina leiðin til að koma í veg fyrir fjárhagslegar hörmungar er að segja nógu stórt NEI í kosningunum sem framundan eru.
![]() |
Kynna áætlun um losun gjaldeyrishafta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.3.2011 | 08:57
Rýnihópur rannsaki kærunefnd sem úrskurðaði um hlutlausa ráðningu
Vitleysan í stjórnsýslunni ríður ekki við einteyming þessa dagana, frekar en flesta aðra. Nú liggur Jóhanna Sigurðardóttir undir miklum ámælum vegna brota á jafnréttislögum, sem hún samdi sjálf og fékk samþykkt á Alþingi fyrir nokkrum árum, en meðan hún var í stjórnarandstöðu var hún manna hörðust í gagnrýni sinni á þá sem taldir voru brjóta eldri jafnréttislög.
Það eru því nöturleg örlög Jóhönnu, að verða fyrsta manneskjan í ráðherraembætti til að brjóta nýju og skeleggari lög um jafnréttismál og mun verða henni til háðungar, þegar stjórnmálaferill hennar verður rifjaður upp, en það mun þó verða sár upprifjun fyrir alla, því verri ríkisstjórn hefur ekki setið í landinu frá lýðveldisstofnun.
Til að kóróna alla vitleysuna í kringum þetta mál, lætur Jóhanna frá sér fara þá endemis dellu að skipa nýja nefnd til að rannsaka niðurstöðu Kærunefndar jafnréttismála, sem fór ofan í og úrskurðaði um afgreiðslu Jóhönnu og "óháðrar" nefndar á ráðningu í hið umdeilda skrifstofustjórastarf.
Fréttin af þessu máli endar svona: "Jóhanna segist ekki hafa viljað ganga gegn niðurstöðu ráðgjafa sem hafi lagt faglegt mat á umsóknir. Vill ráðherra að "hlutlaus rýnihópur" fari yfir störf kærunefndarinnar."
Verður hægt að slá vitleysuna í stjórnsýslunni út, eftir að skipaður hefur verið "hlutlaus rýnihópur" til að rannsaka hlutlausa kærunefnd sem hefur úrskurðað um afgreiðslu hlutlausrar ráðninganefndar?
Þetta slær jafnvel út klúðrið um stjórnsýsluráðið, sem nýtur stuðnings minnihluta Alþingis og þjóðar og mun því aldrei verða marktækt, eða niðurstöður þess til nokkurs nýtar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
24.3.2011 | 21:50
Icesaveþrældómur til að niðurgreiða vexti?
Fulltrúar ýmissa atvinnufyritækja hafa myndað áróðurshóp til að berjast fyrir samþykkt þrælasamningsins um Icesave þann 9. apríl n.k. Helsta röksemd þessa hóps er sú, að með því verði hægt að kaupa aðgang að ódýrara lánsfé frá erlendum lánastofnunum.
Það verður að teljast mikil bíræfni að ætlast til þess að íslenskir skattgreiðendur selji sjálfa sig í þrældóm til að greiða erlendar skuldir óreiðumanna, til þess að íslensk fyrirtæki geti tryggt sér eitthvað ódýrari lán í útlöndum en ella væri. Með því væru íslenskir skattaþrælar að niðurgreiða vaxtakostnað fyrirtækja, sem síðan halda því fram að lægri vaxtakostnaður verði nýttur til að greiða þrælunum örlítið hærri laun.
Icesavemálið er í rauninni ekkert flókið, heldur þvert á móti sáraeinfalt. Engin lög eða reglur, hvorki í Evrópu eða hér á landi gera ráð fyrir ríkisábyrgð á slíkum reikningum og því algerlega út í hött að samþykkja slíkt núna. Þar að auki er þetta prinsippmál sem hafa mun verða víðtæk fyrirmynd um alla Evrópu, þegar bankar fara að falla þar eins og útlit er nú fyrir að verði innan skamms.
Skatta Íslendinga á ekki að nota til að niðurgreiða vexti fyrirtækja, sem segja slíkan þrældóm grundvöll launahækkana á næstu árum.
Þá er betra að halda haus, vera á lágu laununum eitthvað áfram og fyrirtækin greiði þá vexti sem þeim stendur til boða, án þrælasölunnar.
![]() |
Fjörugar umræður um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2011 | 07:21
Baráttan um ráðherrastól Jóns Bjarnasonar
Sífellt koma upp nýjir fletir á stórstyrjöldinni sem geisar innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra, sem aftur speglast í algerlega óstarfhæfri ríkisstjórn. Stjórnin hefur ekki komið nokkru frumvarpi, sem máli skiptir, fyrir þingið í langan tíma og til að breiða yfir vanmáttinn hefur allur tími þingsins undanfarið farið í að ræða um stjórnlagaráð, sem enginn hefur í raun áhuga á, en nýtist ágætlega til að leiða athyglina frá stærri og merkari málum.
Eit helsta stefnumál ríkisstjórnarinnar, samkvæmt tveggja ára gömlum stjórnarsáttmála, átti að vera breyting á fiskveiðistjórnarlögum, en nú virðist vera útlit fyrir að það mál komist ekki frá ríkisstjórn og til þingsins áður en frestir til að leggja fram ný mál rennur út um mánaðarmótin.
Samfylkingin hefur lagt ofuráherslu á að losna við Jón Bjarnason úr Sjávarútvegsráðuneytinu og til þess átti að sameina ráðuneytið Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytunum, en Jón Bjarnason og félagar hans í órólegu deild VG hafa barist gegn því með kjafti og klóm, ekki síst vegna einarðar andstöðu við aðlögunarferlið að ESB, sem Samfylkingin er að svindla bakdyramegin inn á þjóðina.
Brotthvarf Atla Gíslasonar og Lilju Mósesdóttur úr þingflokki VG var líklega ekki síst til þess að koma í veg fyrir að Jón Bjarnason yrði hrakinn af ráðherrastóli, því yrði það gert myndi hann og Ásmundur Daði umsvifalaust taka stöðu með Atla og Lilju utan þingflokksins og þar með væri ríkisstjórnin fallin.
Eins og útlitið er núna mun Jón Bjarnason áfram gegna ráðherrastarfi, breytingartillaga verður ekki lögð fram um kvótamálin og verulega draga úr kappinu á að lauma landinu inn í væntanlegt stórríki Evrópu.
Brotthvarf Atla og Lilju úr þingflokki VG akkúrat núna er því engin tilviljun, heldur þaulskipulögð hernaðaraðgerð í þágu Jóns Bjarnasonar og órólegu deildarinnar innan VG sem nýtir tímann sem gefst til undirbúnings stofnunar nýs stjórnmálaflokks, eða samruna við Hreyfinguna.
![]() |
Fiskveiðifrumvarp frestast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2011 | 20:02
ESB í stríð við Íslendinga
ESB hefur staðið þétt að baki Bretum og Hollendingum, ásamt AGS, í efnahagsþvingunum þeirra gegn Íslendingum vegna Icesave og einnig hafa Evrópuþjóðirnar beitt fyrir sig Norræna fjárfestingabankanum og Evrópska fjárfestingabankanum, sem síðast í dag ítrekaði hótanir sínar um að standa gegn atvinnuuppbyggingu landsins, verði þrælalögin felld þann 9. apríl n.k.
Sjávarútvegsráðherra Skota skýrði frá því opinberlega í dag, að hann hefði loforð um að Evrópusambandið muni fljótlega tilkynna um aðgerðir gagnvart Íslandi og Færeyjum vegna makríldeilunnar. Ofbeldi við úrlausn deilumála eru ær og kýr ESB, a.m.k. þegar smáríki eiga í hlut og er þá ekki hikað við að leggja jafnvel efnahag þeirra í rúst, detti þeim í hug að mögla vegna yfirgangs sambandins og einstakra ríkja þess.
Íslendingar geta ekki og mega ekki láta kúga sig til uppgjafar, hvorki vegna þrælasamningsins um Icesave né makrílveiðanna, en í báðum málum er allur réttur Íslendinga megin.
Úrslitanna í þjóðaratkvæðagreiðslunni er beðið af almenningi víða í Evrópu, því almenningur landanna stendur ekki að baki efnahagsstríðinu, heldur þvert á móti lítur á atkvæðagreiðsluna sem fordæmi fyrir aðra til að rísa upp gegn því að vera látinn taka á sig þungar byrðar vegna skulda óreiðumanna.
NEI eru einu rökréttu skilaboðin sem íslenskir kjósendur geta sent frá sér.
![]() |
Aðgerðir vegna makríldeilu væntanlegar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
23.3.2011 | 07:11
Jafnréttisráðherra brýtur jafnréttislög
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, gengdi lengi embætti félagsmálaráðherra og hafði þá jafnréttismálin á sinni könnu og við uppstokkun ráðuneyta lét hún flytja þann málaflokk yfir til sín í Forsætisráðuneytið, vegna þess að hún þóttist manna hæfust til að sinna honum svo vel færi.
Ekki hefur þó tekist betur upp hjá henni en svo, að Kærunefnd jafnréttismála hefur úrskurðað að ráðning hennar á skrifstofustjóra hjá Skrifstofu stjórnsýslu- og samfélagsþróunar í Forsætisráðuneytingu, hafi verið lögbrot þar sem kona hafi verið hæfari til starfsins, vegna meiri menntunar og reynslu.
Þetta er að sjálfsögðu gífurlegur áfellisdómur yfir Jóhönnu Sigurðardóttur, en segja má að ekki sjái á svörtu, því þessum arma Forsætisráðherra virðist algerlega fyrirmunað að gera nokkurn hlut rétt í starfi sínu.
"Minn tími mun koma" sagði Jóhanna um árið og þjóðin býður óþreyjufull eftir því að sá tími líði hjá, svo hægt verði að hefja nýtt og betra tímabil í íslenskum stjórnmálum.
![]() |
Jafnréttislög brotin við ráðningu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2011 | 20:10
Stjórnarliðar ásaka ríkisstjórnina um Hæstaréttarsniðgöngu
Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, styður ekki þingsályktunartillögu stjórnarmeirihlutans um stjórnlagaráð, sem byggt verði á kosningunni til stjórnlagaþings, sem Hæstiréttur úrskurðaði ólöglega.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur áður lýst sömu afstöðu og nú bætist annar Samfylkingarþingmaður í hópinn, þ.e. Skúli Helgason, sem gert hefur grein fyrir afstöðu sinni, m.a. með eftirfarandi rökum: "Skúli sagði, að það væri grundvallarafstaða sín að virða skuli niðurstöður Hæstaréttar."
Með þessum orðum er Skúli að beina geysiharðri gagnrýni að flokksformanni sínum, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem er potturinn og pannan á bak við Hæstaréttarsniðgönguna og vill og ætlar, af alkunnri þrjósku sinni og einstrengingshætti, að berja stjórnlagaráðið í gegn um þingið, hvað sem það kostar.
Æ fleiri stjórnarþingmenn eru þó farnir að sjá hvílíkt hneyksli hér er á ferðinni og eftir því sem fleiri þeirra þora að koma fram í dagsljósið með þær skoðanir sínar, því minni líkur eru á því að tillagan um stjórnlagaráðið verði samþykkt á Alþingi.
Fari hins vegar svo að stjórnlagaráði verði komið á fót með sniðgöngu á úrskurði Hæstaréttar, mun stjórnlagaráðið alls ekki hafa stuðning almennings í landinu og tillögur þess munu því verða algerlega ómarktækar og að engu hafandi.
![]() |
Styður ekki tillögu um stjórnlagaráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2011 | 11:35
Önnur fjármálakreppa framundan?
Deutsche Bank hefur tapað máli sem höfðað var á hendur bankanum vegna vaxtaskiptasamnings sem viðskiptavinur bankans tapaði 100 milljónum króna á, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði haft þá skyldu að sinna eingöngu hagsmunum viðskiptavinarins, en hafi ekki gert það með því að leyna hann áhættunni sem samningnum fylgdi og þess gróða sem bankinn myndi njóta, ef illa færi fyrir viðskiptavininum.
Samkvæmt fréttinni vofir yfir þessum banka og öðrum, röð málaferla vegna sambærilegra mála og gæti slíkt haft afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, eða eins og segir í fréttinni: "Financial Times segir að fjöldi sambærilegra málaferla vofi yfir Deutsche Bank í kjölfar úrskurðarins. Blaðið hefur eftir lögfræðingi bankans að úrskurðurinn kunni að hafa meiriháttar afleiðingar fyrir fjármálakerfið þar sem hann felur í sér að bankar þurfi að færa til bókar hagnað af slíkum samningum og það gæti leitt til málaferla þar sem að milljarðar evra væru undir. Að mati lögfræðingsins gæti slíkt leitt til annarrar fjármálakreppu."
Ýmis teikn hafa verið á lofti undanfarið um að ný fjármálakreppa sé um það bil að skella á, a.m.k. á vesturlöndum og er þessi dómur enn eitt hættumerkið um það sem framundan gæti verið í efnahagslífinu. Íslendingar myndu ekki fara varhluta af slíkri fjármálakreppu, fremur en aðar þjóðir og jafnvel ennþá verr, vegna þess að hér varð bankakreppan enn verri en víðast annarsstaðar á árinu 2008.
Varla dettur nokkrum manni í hug að setja íslenskan fjárhag í enn meiri tvísínu með því að samþykkja að taka á sig skuldir fjárglæframanna vegna Icesave, sem almenningur á ekki að bera nokkra ábyrgð á.
![]() |
Úrskurður hristir upp í þýska bankakerfinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
22.3.2011 | 09:02
Hefur Össur umboð til stríðsaðgerða
Í tilefni af því að kynnt hefur verið bresk könnun um afstöðu almennings þar í landi til þátttöku Breta í hernaðaraðgerðum í Líbíu vaknar sú spurning hvort ekki væri ástæða til að kanna afstöðu Íslendinga til hvatningar og stuðnings íslensku ríkisstjórnarinnar við hernaðinn.
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, var einn harðasti stuðningsmaður hernaðar á hendur Gaddafi, Líbíuleiðtoga, og var afar óánægður með seinagang og takmarkaðan áhuga annarra verstrænna þjóða á því að blanda sér í átökin. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði í útvarpsviðtali að þetta væru algerlega bráðnauðsynlegar hernaðaraðgerðir og því miður væri mannfall óbreyttra borgara óhjákvæmilegur fórnarkostnaður til þess að koma Gaddafi frá völdum.
Í átta ár hafa ýmsir, þá ekki síst þingmenn núverandi stjórnarflokka, býsnast mikið yfir stuðningi þáverandi ríkisstjórnar við innrásina í Írak, sem hafði það að meginmarkmiði að koma Saddam Hussein frá völdum og einnig hefur þeirri gagnrýni verið haldið mjög á lofti, að þá hafi Utanríkismálanefnd Alþingis ekki verið með í ráðum, áður en ákvörðun var tekin.
Hverjir komu að ákvörðun um hvatningu og stuðning við árásirnar á Líbíu? Var ríkisstjórnarsamþykkt á bak við athafnir og orð Össurar vegna málsins? Var Utanríkismálanefnd Alþingis með í ráðum, eða var gerð formleg samþykkt um málið á Alþingi?
Þessu öllu hljóta Össur, ríkisstjórnin og Alþingismenn að svara.
![]() |
Bretar styðja ekki aðgerðir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
21.3.2011 | 11:19
Nýr kommúnistaflokkur í fæðingu?
Lilja Mósesdóttir og Atli Gíslason hafa sagt sig úr þingflokki VG og hljóta því að vera á leið út úr flokknum sjálfum og þá hlýtur að liggja beinast við að álykta, að þau séu að undirbúa stofnun nýs stjórnmálaflokks lengst til vinstri á væng stjórnmálanna, eins og slíkt er oft orðað á hátíðlegan hátt.
Lilja Mósesdóttir hefur undanfarið boðað sótsvartasta kommúnisma sem á sér enga hliðstæðu, nema ef vera skyldi í Norður-Kóreu, þó spurning sé hvort stjórnarfarið þar eigi í raun nokkuð skylt við kommúnisma, en sé ekki bara heimatilbúin mannhaturs- og ofríkisráðstjórn.
Atli Gíslason hefur ekki látið frá sér fara eins öfgafullar og mannfjandlegar hugmyndir og Lilja hefur gert, þannig að spurnig vaknar hvort þau tvö séu algerlega sammála um þá vægast sagt skelfilegu stjórnarhætti sem Lilju dreymir um að koma á hérlendis.
Atli og Lilja hafa tilheyrt hinni svokölluðu órólegu deild innan VG, ásamt Jóni Bjarnasyni, Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og Ögmundi Jónassyni, en ekki er víst að þau eigi öll samleið inn í nýjan öfgaflokk til vinstri við VG, þar sem áherslur þeirra í pólitík eru nokkuð mismunandi, þó andstaðan gegn Steingrími J. og hans félögum innan VG hafi verið sameiginleg.
Dagar VG, í þeirri mynd sem sá flokkur hefur verið í, eru taldir og spurning um hvort þetta sé einnig upphaf endaloka ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Segja sig úr þingflokki VG |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)