Færsluflokkur: Bloggar
30.3.2011 | 12:54
Eitt réttarhneyksli ofan á annað?
Afgreiðsla Alþingis á tillögum um að stefna nokkrum ráðherrum síðustu ríkisstjórnar fyrir Landsdóm endaði með pólitískri valdníðslu gegn einum manni, þ.e. Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra, og er þeim þingmönnum sem að því stóðu til ævarandi skammar og þá ekki síst þeim þingmönnum Samfylkingarinnar sem greiddu atkvæði gegn því að stefna ráðherrum síns flokks fyrir dóminn, en með því að Geir yrði einn ákærður.
Nú hamast Sigríður Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, í því að fá lögum um Landsdóm breitt til að auðvelda saksóknina gegn Geir H. Haarde og nýtur til þess aðstoðar Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, sem var einn þeirra sem samþykkti að ákæra og saman ætla þau að knýja lagabreytingar, sem eru sakborningi í óhag, í gegn um Alþingi.
Andri Árnason hrl., verjandi Geirs mótmælir þessari ótrúlegu málsmeðferð og í fréttinni kemur fram m.a: "Andri segir að sé grafalvarlegt mál hvernig þetta beri að. Landsdómur sjálfur, eða forseti hans, sem fer með dómsvaldið í málinu, leggi til breytingarnar, geri tillögu í samráði að því er virðist við ráðherra, sem var einn af þeim sem samþykktu málshöfðunarályktunina, og fái síðan Alþingi, sem ákærir, til að breyta lögunum."
Slíkar breytingar á lögunum um Landsdóm, eftir að búið er að stefna sakborningi fyrir dóminn, væri hreint réttarhneyksli, sem bættist ofan á upphaflega réttarfarsskandalinn.
Miðað við annað, þarf svo sem enginn að verða undrandi á svona vinnubrögðum, nema þá Steingrímur J., sem alltaf er hissa á öllu.
![]() |
Saksóknari á ekki að reka á eftir lagabreytingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.3.2011 | 09:59
Ríkisstjórnin verði með NÚNA eða fari frá ella
Í marga mánuði hefur verið reynt að draga upplýsingar upp úr ríkisstjórninni um hvaða aðgerðum hún hyggist beita til að koma einhverri hreyfingu á fjárfestingar í landinu og nýrri sókn í atvinnumálin, en skapa þarf a.m.k. 20.000 störf á næstu misserum í stað þeirra sem tapast hafa í kreppunni.
Á morgun er síðasti dagur sem hægt er að leggja fram ný frumvörp á Alþingi, ef þau eiga að fást afgreidd fyrir vorið og af biturri fyrri reynslu er engum loforðum ríkisstjórnarinnar treystandi, nema þau séu komin í frumvarpsform og reyndar varla fyrr en þau hafa verið samþykkt á þinginu, því ríkisstjórnin hefur ekki fyrirfram tryggan þingmeirihluta fyrir einu einasta máli og því eins líklegt að þau dagi uppi í þinginu.
Ríkissjórnin hefur daginn í dag og morgundaginn til að sýna hvort hún sé yfirleitt fær um að fást við þau vandamál sem við er að eiga í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar, en launþegar í landinu geta ekki tekið á sig meiri byrðar án þess að fá einhverjar raunhæfar vonir um að betri tíð sé framundan.
Eru menn eða mýs í ríkisstjórninni? Nú er að duga eða drepast. Aðeins tæpir tveir sólarhringar til stefnu, ef stjórnin ætlar ekki að eyðileggja kjarasamningana.
![]() |
Funda með stjórnvöldum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2011 | 21:35
Arfur R-listans
Borgarstjórnarmeirihlutinn boðar róttækar aðgerðir til björgunar Orkuveitu Reykjavíkur, sem felast m.a. í eignasölu, risaláni frá eigendum, fækkun starfsmanna og að hætt verði við arðbærusta rekstur fyrirtækisins, þ.e. sölu á rafmagni til stóriðju. Afleit staða fyrirtækisins sést líklega best af því að enginn lánastofnun skuli treysta sér til að lána því til fjárfestinga vegna orkuöflunar til þess hluta rekstrarins, sem mestum arði skilar.
Þegar fyrirtæki eins og OR lendir í þvílíkum fjárhagsvanda og hér um ræðir, er líklega best að skera sjúklinginn upp strax og reyna að fjarlægja meinið í heilu lagi, þó það kosti lagnvarandi lasleika í langan tíma á eftir, en sé þó líklegt til að bjarga lífi hins sjúka. Svona aðgerðir eru líka þungbærar fyrir aðstandendur, sem í þessu tilfelli eru að stærstum hluta Reykvíkingar, en öðrum stendur ekki nær að sinna og kosta endurhæfinguna.
Ofan á annað í kreppunni mun þessi kostnaðarsama björgun OR koma illa niður á viðskiptavinum fyrirtækisins og þá að stærstum hluta Reykvíkingum, en hjá þeim er kreppan greinilega fyrst núna að bíta svo undan muni svíða og næstu ár munu verða mörgum erfið.
Jafnframt hefur verið samþykkt að setja á fót rannsóknarnefnd til að kanna rekstur OR nokkur ár aftur í tímann og ýmsar ákvarðanir um fjárfestingar, sem teknar voru í tíð R-listans og hafa leitt fyrirtækið í þær ógöngur sem það nú er í.
Loksins mun verða upplýst um þann tíma sem Alfeð Þorsteinsson stjórnaði OR eins og kóngur í ríki sínu og vegna oddaaðstöðu sinnar í borgarstjórn, hélt R-listanum í gíslingu vegna ýmissa mála sem hann vildi fá samþykkt í meirihlutanum.
Valdatími Ingibjargar Sólrúnar og Alfreðs Þorsteinssonar verður vonandi krufinn í eitt skipti fyrir öll og stjórnarhættir þeirra settir fram í dagsljósið.
![]() |
Starfsmönnum fækkað um 90 |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.3.2011 | 15:00
Hver er hissa á því að Steingrímur J. sé hissa?
Steingrímur J. er algerlega steinhissa á því að aðilar vinnumarkaðarins hafi reiknað með að eitthvað væri að marka yfirlýsingar sem frá ríkisstjórninni hafa komið á undanförnum mánuðum um aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum, til þess að hægt væri að ganga endanlega frá þeim, með vissu um þann grundvöll sem stjórnin ætlast til að atvinnulífið búi við á næstu árum.
Frá því í janúar s.l. hafa aðilar vinnumarkaðarins verið í viðræðum við Steingrím J. og félaga í ríkisstjórn um þær aðgerðir sem þarf að grípa til, til þess að koma einhverri hreyfingu á atvinnulífið, en allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar á valdatíma hennar hafa snúist um að tefja og þvælast fyrir allri uppbyggingu í atvinnumálum og í raun haldið þeim málaflokki í gíslingu með alls kyns yfirlýsingum um þjóðnýtingu, uppsögn eða breytingu samninga sem í gildi hafa verið við erlenda fjárfesta, að ekki sé talað um hvernig sjávarútveginum hefur verið haldið í helgreipum síðustu tvö ár.
Steingrímur J. var mjög hissa á því að þjóðin skyldi ekki nánast springa af fagnaðarlátum þega hinn "glæsilegi" samningur Icesave I var dreginn með töngum út úr honum, jafn undrandi varð hann þegar þjóðin kolfelldi Icesave II í þjóðaratkvæðagreiðslu og ekki minnkaði undrunin þegar ýmsir létu í ljós óánægju með Icesave III.
Steingrímur J. er steinhissa á því að hans eigin ríkisstjórn skuli hafa samþykkt árásir á Líbíu og enn meira undrandi á því að ríkisstjórnin skuli hafa veitt NATO umboð til að stjórna árásunum.
Sennilega er enginn maður jafn undrandi í landinu og Steingrímur J. Nema ef vera skyldu þeir sem eru steinhlessa á því, hvað Steingrímur J. er alltaf hissa á öllu.
![]() |
Hissa á Samtökum atvinnulífsins |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
29.3.2011 | 09:41
Ríkisstjórnin að eyðilegga kjarasamningana
Undanfarna mánuði hefur verið reynt að draga út úr ríkisstjórninni fyrirheit um ákveðnar aðgerðir af hennar hálfu til að hægt verði að ljúka gerð kjarasamninga í landinu, en áratugahefð er fyrir aðkomu ríkisins að allri kjarasamningagerð. Ríkið hefur þannig lagt sitt af mörkum til að stuðla að friði á vinnumarkaði, aðallega með aðgerðum í skattamálum og fyrirgreiðslu til uppbyggingar nýrra atvinnufyrirtækja.
Nú kemur hins vegar fram frá Vilmundi Jósefssyni, formanni SA, að samtökin séu búin að gefast upp á samræðum við ríkisstjórnina, enda hafi ekkert út úr þeim komið og ekki sé hægt að bíða lengur eftir einhverju úr þeirri átt, eða eins og eftir honum er haft í fréttinni: "Staðan er hins vegar sú að það er svo margt sem stendur út af, gagnvart ríkisstjórninni, svo mörg stór mál, að við sjáum okkur alls ekki fært að gera það."
Áður hefur ASÍ lýst svipuðum skoðunum og báðir aðilar vinnumarkaðarins benda á, að gagnvart þessari ríkisstjórn sé engu treystandi og eigi að taka mark á því sem frá stjórninni komi, verði það að vera komið í frumvarpsform fyrir Alþingi, áður en aðilar vinnumarkaðarins lokið samningsgerðinni svo öruggt verði að ríkisstjórnin standi við sitt.
Sem víti til varnaðar er bent á undirrituð loforð ríkisstjórnarinnar í Stöðugleikasáttmálanum frá árinu 2009, en ríkisstjórnin stóð ekki við eitt einasta loforð, sem hún undirritaði þá um aðgerðir til að koma atvinnumálunum á rekspöl, heldur þvert á móti hefur hún unnið dyggilega gegn sínum eigin orðum í því loforðaplaggi.
Þær eru ekki margar þjóðirnar á vestulöndum a.m.k. sem sitja uppi með ríkisstjórn, sem kyndir undir atvinnuleysi og örbirgð í landi sínu. Við slíkt verða þó Íslendingar að búa.
![]() |
SA gefast upp á ráðaleysi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.3.2011 | 22:36
Ný rannsóknarnefnd um stríðsþátttöku VG og Samfylkingar?
Í fyrravetur fluttu allmargir þingmenn, aðallega úr VG og Samfylkingu, þingsályktunartillögu á Alþingi um að þingið setti á fót sérstaka rannsóknarnefnd til að rannsaka aðdraganda samþykktarinnar um stuðning Íslands við innrásina í Írak fyrir átta árum. Þessa þingsályktunartillögu má sjá HÉRNA
Ef rétt er munað dagaði tillöguna uppi á þinginu í fyrra og hefur ekki verið endurflutt, en í ljósi síðustu stríðssamþykkta ráðherra VG og Samfylkingarinnar, vaknar sú spurning hvort ekki sé tímabært að endurflytja tillöguna með þeim endurbótum að bætt verði við rannsókn á aðdraganda samþykktarinnar um stuðning við árásina á Líbíu, því nánast hvert einasta tilmæli um rannsókn, sem nefndinni var ætlað að vinna að, eiga nákvæmlega eins við um aðdraganda stríðssamþykktanna núna.
Samkvæmt því sem sumir VG þingmenn halda fram, þá var ekkert samráð haft við þingflokka, ekki við einstaka þingmenn og alls ekkert við Utanríkismálanefnd Alþingis, en slíka vöntun á samráði töldu flutningsmenn tillögunnar í fyrra einmitt vera einna veigamestu ástæðuna til rannsóknar.
Til að alls samræmis sé gætt í störfum Alþingis, verður ekki hjá því komist að skipa nýja rannsóknarnefnd um stríðssamþykktir Íslendinga í gegn um tíðina, sérstaklega þar sem hægt er að endurnýta tillöguna frá fyrra ári í sparnaðarskyni.
Varla verður það látið viðgangast að sambærileg stríðssamþykkt árið 2011 og samþykkt var 2004 verði látin falla í gleymskunnar dá, algerlega rannsóknarnefndarlaus.
![]() |
Styrkja bandalag gegn Gaddafi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.3.2011 | 15:34
Matarskattur hækkaður til að borga Icesave?
Matarskatturinn svokallaði, þ.e. 7% þrepið í virðisaukaskattinum, er eini skatturinn sem fyrirfannst í kerfinu þegar núverandi ríkisstjórn komst til valda og ekki hefur verið hækkaður verulega. Þetta virðisaukaskattsþrep nær yfir nokkra aðra vöruflokka en matvöru, þrátt fyrir gælunafnið "Matarskattur", svo sem bækur, hljómdiska o.fl.
Hér á landi munu vera staddir fjórir fulltrúar frá AGS í þeim erindagjörðum að fara yfir hvaða skatta muni verða hægt að hækka á næstunni, enda þarf að gera ráð fyrir miklum skattahækkunum, til viðbótar við það skattahækkanabrjálæði sem þegar hefur verið bitnað á þjóðinni, til að standa undir væntanlegum útgjöldum vegna Icesave, verði þrælalögin samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni þann 9. apríl n.k., eins og ríkisstjórnin vonast til.
Ríkisstjórnin og aðrir áhugaaðilar um samþykkt þrælasamningsins um Icesave hafa þagað þunnu hljóði um það, hvernig og með hvaða skattahækkunum eigi að borga Bretum og Hollendingum, fari svo að skattgreiðendur samþykki að selja sig sjálfviljugir í slíka ánauð til næstu ára eða áratuga.
Það er jafnvíst og að dagur kemur á eftir nótt, að engan veginn verður hægt að standa undir Icesaveklafanum nema með gríðarlegum skattahækkunum, en mikill blekkingarleikur er stundaður til að fela þá staðreynd og reynt að telja fólki trú um að aukinn hagvöxtur einn saman muni greiða þetta, en að sjálfsögðu verður þá ríkissjóður að skattleggja þann hagvöxt til að afla tekna, enda eru engin útgjöld greidd úr ríkissjóði, nema aflað sé tekna fyrir þeim með skattheimtu.
Steingrímur J. heldur því fram að ekki sé von á "stórfelldum" skattabreytingum á næstunni, en ýmsar "lagfæringar" þurfi að gera.
Reynslan kennir að því minna sem Steingrímur J. gerir úr væntanlegu skattahækkanabrjálæði, því ofsafengnari verður framkvæmdin.
![]() |
Ekki von á stórfelldum skattabreytingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.3.2011 | 08:45
Orð Jóns Gnarr að verða borgarbúum dýrkeypt?
Fáir stjórnmálamenn, ef nokkrir, slá Jón Gnarr, borgarstjóra, hafa látið frá sér fara annað eins samansafn af fáránlegum ummælum um þau málefni sem þeir eru að fást við og enginn kemst með tærnar þar sem Jón hefur hælana í þessum efnum, ef miðað er við starfstíma í embætti.
Ef einhver nennti að safna öllu bullinu saman dygði efnið í heila bók, sem hægt væri að skemmta sér og hlæja yfir vel og lengi, ef ekki væri fyrir þá staðreynd að hér er um grafalvarlegt mál að ræða, sem sífellt tekur á sig alvarlegri og alvarlegri mynd.
Nýjustu fréttir af Jóni herma að lánadrottnar fyrirtækisins hafi dregið að sér hendur og neiti nú að endurnýja lánasamninga við OR vegna ummæla borgarstjórans óorðheppna um að fyrirtækið sé í raun á hausnum og slíkar yfirlýsingar eru hreint ekki til þess fallnar að laða að sér samstarfsaðila. DV.is birtir frétt um þetta mál og má lesa hana HÉRNA
Til að bregðast við þessum afturkipp lánadrottnanna munu vera komnar fram hugmyndir um að hækka gjaldskrá OR um allt að 40% á næstunni til viðbótar við nýlega 20-25% hækkun.
Miðað við þann skaða sem borgarstjórinn hefur valdið fram að þessu, er fyrirkvíðanlegt hvernig framhaldið af kjörtímabilinu verður.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.3.2011 | 10:31
Walker eykur áhættuna vegna Icesave
Malcolm Walker, stjórnarformaður verslunarkeðjunnar Iceland, virðist hafa sterk tök á skilanefnd Landsbankans varðandi sölu á keðjunni, enda með forkaupsrétt að henni með ákvæði í samningi sínum frá 2005 um heimild til að ganga inn í hvert það tilboð, sem kann að verða gert í fyrirtækið.
Í fréttinni kemur þetta fram, m.a: "Walker er sagður hafa klásúlu í samningi sem hann gerði við félagið árið 2005, en samkvæmt henni býðst honum að jafna hvert það boð sem gert er áður en því er tekið. Hann geti því andað rólega þó hann hverfi úr hringiðunni í tvo mánuði."
Þessi samningur hlýtur að flækjast verulega fyrir sölumöguleikum Landsbankans á keðjunni, þar sem hugsanlegir kaupendur hljóta að hika við að leggja inn tilboð, sem vitað er að Walker geti gengið inn í, sýnist honum svo. Einnig getur þetta leitt til þess að enginn leggi í að gera kauptilboð, nema í samvinnu við Walker, sem þá getur nokkurn veginn ráðið tilboðsupphæðinni og söluverðið verði því mun lægra en annars hefði getað orðið, án þessa samnings.
Skilanefnd Landsbankans er í greinilegri klemmu vegna Iceland og söluverð keðjunnar mun ráða úrslitum um getu Landsbankans til að greiða forgangskröfu tryggingasjóðsins, Breta og Hollendinga vegna Icesave.
Um leið er þetta samningsákvæði Walker's stór áhættuþáttur fyrir íslenska skattgreiðendur, fari svo að þrælalögin verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslunni 9. apríl n.k.
![]() |
Walker bíður átekta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.3.2011 | 08:01
Spurningar til þeirra sem ætla að segja JÁ við Icesave
Samkvæmt skoðanakönnunum undanfarið er tiltölulega mjótt á mununum milli þess fjölda kjósenda sem ætla að segja JÁ og þeirra sem ætla að segja NEI í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave, sem fram fer þann 9. apríl n.k., en JÁin eru þó í meirihluta þessara kannana.
Í tilefni þessara kannana vil ég óska eftir svörum frá þeim sem ætla að samþykkja lögin við eftirfarandi spurningum:
Hvaða skatta á að hækka og hvaða nýju skatta vilt þú láta leggja á skattgreiðendur til þess að standa undir þeim útgjöldum sem fylja munu samþykktinni, hvort sem verið er að tala um 60 milljaða eða 240 milljarða?
Er það bara eðlilegt að láta íslenska skattgreiðendur greiða erlendar kröfur, sem aldrei var gert ráð fyrir að á þeim myndu lenda, hvorki í samþykktum eða tilskipunum ESB, eða í íslenskum lögum?
Fulltrúar atvinnulífsins halda því fram að með samþykktinni opnist leiðir að ódýrari lánum frá erlendum lánastofnunum. Finnst fólki eðlilegt að skattgreiðendur niðurgreiði vaxtakjör fyrirtækja með sköttum sínum?
Er ásættanlegt að allar launahækkanir sem til geta komið á næstu árum fari til að greiða "erlendar skuldir óreiðumanna", þannig að kaupmáttur aukist ekki neitt á greiðslutímanum?
Ef niðurskurður útgjalda hins opinbera á að koma í stað skattahækkana, hvað á þá að skera niður til viðbótar við það sem þegar hefur verið ákveðið vegna fjárvöntunar ríkissjóðs?
Svör við miklu fleiri spurningum vantar, en gott væri að fá svör við þessum til að byrja með. Öllum þessum atriðum og miklu fleiri hljóta allir að hafa velt fyrir sér við ákvarðanatöku sína og hljóta því að hafa svör við þeim á reiðum höndum.
Tilfinningar, leiðindi og uppgjöf vegna langdreginnar umræðu getur ekki ráðið afstöðu til málsins og því er vinsamlega óskað svara við þessum spurningum.
![]() |
42,6% styðja Icesave en tæpur fjórðungur er óákveðinn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (40)