Ósamstíga í aðgerðum vegna hrunsins

Heimildarmaður Moggans, sem sat fundi starfshóðs Forsætisráðuneytisins, sem vann að aðgerðum vegna bankahrunsins, lætur hafa eftir sér að lítil, sem engin samvinna hafi verið milli ráðuneytisins og seðlabankans, vegna tillagna um aðgerðir, eða eins og segir í fréttinni:  " „Starfshópi forsætisráðuneytisins var sagt að vinna sjálfstætt og hafa engin samskipti við Seðlabankann,“ segir heimildarmaður Morgunblaðsins, sem sat fundi hópsins."

Vitað er að Ingibjörg Sólrún hataði seðlabankastjórann eins og pestina, en fyrr hefur ekki komið fram, að trúnaðarbrestur hefði orðið milli forsætisráðherrans og seðlabankastjórnarinnar.  Eins er vitað, að seðlabankinn hafði margvarað ríkisstjórnina við því, sem yfirvofandi var og jafnvel hafði Davíð Oddson ámálgað á fundi með ríkisstjórninni, að ef einhvern tíma hefði verið tími til að mynda þjóðstjórn, þá væri það á þessum tíma.  Sú uppástunga féll, vægast sagt, í grýttan jarðveg meðal ráðherranna og ef til vill hefur það orðið til þess að togsteita hafi komið upp á milli aðila.

Vonandi fæst skýrari mynd af þessu, frá báðum hliðum, þegar skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis verður birt eftir mánuð.  Ekki ber að efa, að þar mun margt nýtt koma fram, sem skýrir þessi mál öll betur og setur hlutina í það samhengi, sem almenningur hefur ekki haft aðgang að, fram að þessu.

Einnig ber að vona að stjórnarslit og kosningaáróður muni ekki kæfa umræður um skýrsluna, þegar hún verður birt.


mbl.is Engin samskipti við Seðlabanka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna hnykkir á hótunum

Frumvarp um persónukjör til sveitarstjórna er nú til umfjöllunar hjá allherjarnefnd Alþingis og til að undirstrika hroka sinn í garð samstarfsflokksins í ríkisstjórn, lætur Jóhanna, meintur forsætisráðherra, hafa þetta eftir sér:  „Ég legg áherslu á að þetta verði forgangsmál í þinginu.“  Einnig lætur hún þetta fylgja með:  "Jóhanna segir að mikil vinna hafi verið lögð í frumvarpið síðsumars og væntir þess að niðurstaða fáist í málið tiltölulega fljótt, helst á fyrstu vikum þingsins."

Í gær sagði Atli Gíslason, þingmaður VG, að allt of stuttur tími væri til sveitarstjórnarkosninga, til þess að persónukjör gæti komið til greina við þær, enda teldi hann að ekki væri meirihluti í þinginu fyrir þessari breytingu á kosningalöggjöfinni.

Í hveju málinu af öðru kemur ágreiningur stjórnarflokkanna í ljós og nú er Jóhanna búin að gera sér fulla grein fyrir því, að nú séu síðustu dagar ríkisstjórnarinnar að renna upp.  Af sama meiði er sennilega viðsnúningur Árna Páls, félagsmálaráðherra varðandi skuldaniðurfellingu til heimilanna, því fram að þessu hefur hann verið algerlega andsnúinn slíku.  Þegar hann sér fram á að stjórnin sé líklega að falla, er gott að fara inn í nýja kosningar með þann áróður í farteskinu, að hann hafi verið um það bil að leysa allra vanda, en þá hafi VG hlaupið frá öllu saman. 

Auðvitað verður Ögmundi kennt um stjórnarslitin, því hann hafi spengt ríkisstjórnina á Icesave málinu og þar með valdið ómældum skaða í þjóðfélaginu og eyðilagt inngöngu Íslands í ESB.

Nú rær stjórnin lífróður, en á sama tíma reynir hver fyrir sig að styrkja sínar vígstöðvar, komi til kosninga fljótlega.

 


mbl.is Persónukjör forgangsmál á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott að fella stjórnina á Icesave

Ríkisstjórnin getur ekki komið sér saman um nokkurt einast mál sem einhverju skiptir, t.d. er allt í loft upp vegna orku- og stóriðjumála, Icesave og ekki síst um ríkisfjármálin og niðurskurð ríkisútgjalda.

Ástandið er orðið svo slæmt, að stjórnarsamstarfið hangir á bláþræði og óvildin og illskan á milli stjórnarflokkanna leynir sér ekki, og er nú endanlega komin upp á yfirborðið með hótun Jóhönnu, meints forsætisráðherra, um stjórnarslit, ef Ögmundur Jónasson og félagar hans í VG samþykki ekki algeran undirlægjuhátt gagnvart þrælahöfðingjunum bresku og hollensku.

Hitinn á milli stjórnarflokkanna er kominn á það stig, að nú er að byrja að sjóða uppúr pottinum og nú þegar styttist í, að ágreiningurinn um orku- og stóriðjumálin og fjárlögin sprengi stjórnina, beinir Jóhanna athyglinni að því, sem hún heldur að sé best fyrir sig að sprengja stjórnina á.

Að baki þessu öllu liggur hræðsla Samfylkingarinnar við að innganga Íslands í ESB gæti tafist, vegna tregðu VG, og ESB draumurinn er á bak við allar gerðir Jóhönnu, enda er hún algerlega óhæf til að leiða ríkisstjórn, því komið er í ljós fyrir löngu, að hún hefur enga forystuhæfileika.

Forystuhæfileikana skortir, en þrjóskuna og hrokann ekki.  Þess vegna er gamalkunnu ráði beitt, að setja samstarfsflokknum úrslitaskilyrði.  Skilyrði sem ekki eru umsemjanleg.


mbl.is Fellur ef ekki næst sátt um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ær og kýr Samfylkingarinnar

Enn hótar Samfylkingin stjórnarslitum, fái hún ekki ESB vilja sínum framgengt.  Þessi ESB þjónkun er enda ær og kýr Samfylkingarinnar.  Fyrir ári síðan hótaði hún að slíta stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, ef hann samþykkti ekki inngöngu í ESB og nú, eftir að hafa beygt VG í því efni, er nú hótað að slíta stjórnarsamstarfinu við VG, ef þeir samþykki að borga aðgöngumiðann fullu verði og það strax fyrir helgi.

Hér verður vísað í orð Jóhönnu, meints forsætisráðherra og hrokagikks, sem fram koma í fréttinni:  "Nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir treysti sér til þess að fara með málið fyrir Alþingi í þeim búningi sem þau séu sátt við með fyrirvara um samþykki þingsins."  Svo bætti hún um betur, með því að segja:  "Ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir þurfi í þessari viku að ná niðurstöðu um það hvort meirihluti sé fyrir málinu með þessum athugasemdum. Verði gerð breyting á fyrri samþykkt Alþingis verði að fara með málið inn á Alþingi. Ekki sé hægt að fara með málið inn í þing nema vera örugg með meirihluta því ekki sé hægt að treysta á stjórnarandstöðuna.

Svo VG velkist ekki í nokkrum vafa um meininguna, segir hrokagikkurinn:  "Myndi stjórnarflokkarnir ekki meirihluta fyrir málinu þurfi að skoða breytta stöðu."  Ekki getur hótunin um stjórnarslitin verið skýrari.

Annað, sem tengist þessu og uppljóstrar um óheilindi ríkisstjórnarinnar, er að nú segir meintur forsætisráðherra að þrælahaldararnir í Bretlandi og Hollandi sætti sig ekki við þrjá af fyrirvörum Alþingis, en fram að þessu hefur verið haldið fram, að einungis sólarlagsákvæði ábyrgðarinnar stæði í hinum erlendu kúgunarþjóðum.

Það yrði mikil tilbreyting ef ríkisstjórnin færi að segja þjóðinni satt og ekki væri verra, að hún færi að tala fyrir málstað Íslands í erlendum fjölmiðlum, en hrokagikkurinn varð sér til háðungar, með því að lofa herraþjóðunum lagabreytingu vegna fyrirvaranna, í heimasmíðuðu "viðtali" við Bloomberg fréttamiðilinn.

Ef Alþingi samþykkir einhverjar breytingar á fyrirvörunum, mun enginn taka mark á þeirri stofnun framar, hvorki innanlands eða utan.

 


mbl.is Þarf niðurstöðu fyrir helgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt gert til að tefja fyrir

Eins og við var að búast, gera Vinstri grænir allt sem í þeirra valdi stendur, til að tefja alla þá atvinnuuppbyggingu sem í augsýn eru og reyna að dýpka og lengja efnahagskreppuna eins og þeir mögulega geta.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, hefur nú fellt úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmda vegna Suðvesturlínu og öðrum tengdum framkvæmdum.  Ráðherrann gerir þetta með skírskotun til þess, að ekki sé búið að ákveða hve mikið verði virkjað á svæðinu í einhverri fjarlægri framtíð.  Framkvæmdaaðilar segja að Suðurlína þurfi að rísa, burtséð frá því, hverjar virkjunarframkvæmdir verði þar í framtíðinni.

Því er fáráðlegt, að ætla að láta meta umhverfisáhrif Suðurlínu í sameiginlegu mati með einhverju, sem rís hugsanlega í framtíðinni.  Það eru tvö alls óskild mál og því verður þessi snúningur ráðherrans eingöngu til að lengja undirbúningstímann og auka kostnað við umhverfismatið.  Á meðan hægist á öllum framkvæmdum í Helguvík og víst er að VG leiðist það ekki.

Með því að lengja og dýpka kreppuna, eykur VG örvæntinguna og óánægjuna í þjóðfélaginu og á því nærist flokkurinn og veit að fylgi flokksins í kosningum miðast við óánægustuðulinn í þjóðfélaginu.


mbl.is Ákvörðun Skipulagsstofnunar felld úr gildi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hægri og vinstri vasinn

Hugmyndaflug fjárglæframannanna íslensku er ótrúlegt, sérstaklega þegar þeir kaupa af sjálfum sér, en eiga engan pening og þurfa því að fá lánað fyrir kaupverðinu hjá sjálfum sér og semja við sjálfa sig um að endurgreiða sjálfum sér, um leið og þeir geti fengið nýtt lán hjá sjálfum sér.

Karl og Steingrímur Wernerssynir fengu lán hjá fyrirtæki sínu, Moderna Finance AB, til að kaupa Lyf og heilsu af Milestone, sem þeir áttu sjálfir og hljóðaði samningurinn uppá greiðslu við fyrstu hentugleika.  Það var reyndar félag í þeirra eigu sem keypti, en það félag heitir Aurláki, sem verður að teljast nafn með rentu, því það hlýtur að þýða það sama og Drulluláki, sem lýsir starfsemi af þessu tagi býsna vel.

Talsmaður bræðranna segir að níuhundruðmilljóna króna lánið hafi verið greitt til baka, stuttu eftir að það var tekið, þannig að fyrstu hentugleikar brustu á með undraskjótum hætti.

Það skyldi þó aldrei vera, að Aurláki hafi getað fengið lán frá Lyfjum og heilsu, til þess að greiða kaupverð Aurláka á Lyfjum og heilsu, til þess að Aurlákinn hafi getað endurgreitt lánið sem Aurláki fékk frá Moderna Finance AB.

Finnist einhverjum að þessi viðskipti séu flókin, á sá hinn sami að halda sig frá fjárglæfrum.


mbl.is Bræðurnir seldu sjálfum sér Lyf og heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þolinmæði Íslendinga á þrotum

Jóhanna Sigurðardóttir, meintur forsætisráðherra, skaust út úr greni sínu augnablik og veitti íslenskum fréttamanni örstutt viðtal, sem síðan birtist á Bloomberg fréttavefnum.  Það sem Jóhanna sagði í viðtalinu eru engar nýjar fréttir, en hitt er fréttnæmt, að fréttamaðurinn skyldi ná að eiga við hana nokkur orð, þegar hún skaust úr felum og upp á yfirborðið stutta stund.

Jóhanna, sem væntanlega er sjálf afar þolinmóð kona, segir í viðtalinu að Íslendingar séu orðnir óþolinmóðir, eftir endurskoðun lánsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem átti að fara fram í febrúar s.l. og verður það að teljast til stórtíðinda, að hún sé búin að átta sig á þolinmæðisstuðli þjóðarinnar.  Þá fer hún væntanlega að átta sig á því fljótlega, að íslenska þjóðin er algerlega að missa þolinmæðina gagnvart henni sjálfri og ríkisstjórninni í heild.

Fulltrúar þjóðarinnari innan ASí og SA hafa upp á síðkastið lýst þessari óþolinmæði vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar í efnahags- og atvinnumálum, almenningur hefur sjálfur lýst óþolinmæði vegna hringlandaháttar varðandi skuldamál heimilanna og ekki síður hafa skattgreiðendur lýst óþolinmæði sinni vegna skilningsleysis stjórnarinnar á greiðsluþoli fólksins.

Þolinmæði Jóhönnu sjálfrar lýsir sér vel í þessari setningu, sem eftir henni er höfð:  "Hún væntir formlegs svars frá Hollendingum og Bretum við nýju skilyrðunum innan skamms svo hægt sé að þoka málinu áfram."

Henni liggur ekkert á að ljúka málinu, eingöngu að þoka því áfram.


mbl.is Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stokkhólmsheilkennið

Það er þekkt, að fórnarlömb, t.d. mannráns, fara að samsama sig kvalara sínum og taka hans málsstað í einu og öllu og er það kallað að fórnarlambið sé haldið Stokkhólmsheilkenni.  Þekkt dæmi um þetta er þegar Patty Hearst, fjölmiðlakóngsdótur, var rænt og haldið fanginni í langan tíma, fór að stunda bankarán með mannræningjanum og varð ástfangin af honum, áður en verðir laganna handtóku þau.

Nú er komið í ljós, að Steingrímur J. og reyndar öll ríkisstjórnin er þjökuð af Stokkhólmheilkenninu, því hún er farin að vinna gegn þjóð sinni, en vinnur í þágu kvalara þjóðarinnar og berjast fyrir málstað þeirra með kjafti og klóm.

Þetta sannast nú síðast á því, að í stað þess að Steingrímur J. segi í erlendum fjölmiðlum, að Icesafe málið sé endanlega afgreitt, með lögum frá Alþingi um fyrirvarana við Icesafe þrælasamninginn, þá gefur hann þrælahöldurunum undir fótinn, opinberlega, með að ef þeim líki ekki við lögin, þá verði þeim bara breytt.  Slíkur undirlægjuháttur af hálfu ráðherra er þjóðarskömm.  Auðvitað á hann ekki að hvika frá afgreiðslu Alþingis og á að berjast fyrir landið og þjóðina, en ekki þá sem hafa hveppt hana í ánauð.

Ríkisstjórn Íslands mun lenda sem efni í sálfræðikennslu háskóla heimsins, með Patty Hearst og öðrum frægum fórnarlömbum Stokkhólmsheilkennisins.


mbl.is Vonast eftir Icesave niðurstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfkák í sparnaði

Ríkisstjórnin hefur kynnt tillögur til sparnaðar og hagræðingar í verkefnum ráðuneyta og stofnana.  Ein breytingin felur í sér að mögulegt verður að reka Jón Bjarnason úr ráðherrastóli, enda maðurinn Samfylkingunni óþægur í ESB málum.  Aðrar tillögur eru magrar aðeins til að sýnast og munu ekki skila miklum raunsparnaði.

Tillögur eru settar fram til endurskipulagningar verkefna og stofnana á sviði vinnu og velferðar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og virðast þær helst snúast um að koma verkefnum, t.d. málefnum fatlaðra, yfir á sveitarfélögin.  Þó það þýði "lækkun" á kostnaði Félags- og tryggingamálaráðuneytinu, eykst kostnaðurinn að sama skapi hjá blönkum sveitarfélögum.  Ekki felst neinn raunsparnaður í opinberri þjónustu með því að færa verkefni á milli ráðuneyta eða frá ráðuneytum til sveitarfélaga.

Um 70-75% rekstrarkostnaðar hins opinbera er launakostnaður, en ekki á að fækka opinberum starfsmönnum við þessar breytingar, eða eins og segir í tilkynningunni:  "Þetta mun hafa í för með sér breytingar á núverandi vinnuaðferðum og fjölda og samsetningu starfsfólks á ákveðnum sviðum ríkisrekstrar. Því er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að allir þeir sem nú vinna hjá ríkinu sinni sömu eða sams konar störfum eftir að endurskipulagning hefur farið fram.“

Í hverju skyldi hinn mikli sparnaður vera fólginn, við allar þessar tilfæringar?


mbl.is Viðamiklar breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskiljanleg rök seðlabankans fyrir stýrivöxtum

Seðlabankinn kynnti í síðustu viku, þá ákvörðun sína, að stýrivextir yrðu óbreyttir, 12%, og verðbólga væri 11% og því væri ekki um að ræða nema 1% raunstýrivexti.  Þetta er áreiðanlega í fyrsta skipti, sem hugtakið raunstýrivextir er notað og ótrúlegt að útreikningurinn sé kominn frá seðlabankanum, sem hefur innan sinna vébanda ótal hagfræðinga og nýjan maxista í bankastjórastól, sem er með álíka margar háskólagráður og Georg Bjarnfreðarson.

Það er rétt hjá seðlabankanum, að verðbólga mæld tólf mánuði aftur í tímann var tæp 11%, en núveandi verðbólguhraði er allt annar, eða eins og fram kemur í fréttinni:  "Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 1,5% sem jafngildir 6,1% verðbólgu á ári (8,7% fyrir vísitöluna án húsnæðis)."

Háir stýrivextir í fortíðinni voru réttlættir með því, að þeir ættu að draga úr þenslu í framtíðinni, enda tæki nokkra mánuði að ná fram áhrifum stýrivaxtabreytinga.  Nú þegar verðbólguhraðinn er 6,1% á ári og engin þensla í þjóðfélaginu, er hrein aðför að atvinnulífinu, að halda stýrivöxtum í 12%.

Bankarnir voru uppfullir af alls kyns fræðingum fyrir hrunið, svo sem viðskipta- hag og lögfræðingum ásamt þjóðhagfræðingum, viðskiptaverkfræðingum og endurskoðendum, en ekki var nú samt meiri skilningur á efnahagsmálum þar innanborðs en svo, að fræðingunum tókst í samvinnu við útrásarmógúlana, sem einnig höfðu sambærilega sérfræðinga á sínum snærum, að rústa efnahafskerfi landsins á undra skömmum tíma.

Skilningsleysi menntamannanna í seðlabankanum er á góðri leið með að keyra íslenskt efnahagslíf í aðra kollsteypu og ríkisstjórnin stendur aðgerða- og ráðalaus hjá og lýsir bara vonbrigðum með að ástandið lagist ekki.

Hvað er með svona seðlabanka og ríkisstjórn að gera?


mbl.is Verðbólgan nú 10,8%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband