Embættismenn semja um lagabreytingar á Íslandi

Bretum og Hollendingum hefur tekist að niðurlægja íslensku ríkisstjórnina og sjálfstæði Íslands endanlega, með því að embættismenn þjóðanna hafa kúgað íslenska embættismannanefnd til að samþykkja að Alþingi breyti lögum, sem þar voru samþykkt í Ágústmánuði s.l.

Þá er niðurlæging íslensku ríkisstjórnarinnar alger, að gefast svona upp fyrir erlendri kúgun.  Að láta bjóða sér aðra eins meðferð og kalla það samninga, er svo alger og niðurlægjandi uppgjöf, að skömm Íslendinga mun í minnum höfð, meðan land byggist.

Þegar lagalegur réttur verður endanlega viðurkenndur í þessu máli, ætla kúgararnir ekki einu sinni að gefa eftir, heldur samþykkja íslensku samningamennirnir, að þá skuli samið að nýju.  Það eina rétta hefði auðvitað verið að kúgararnir hefðu þá lofað að endurgreiða, það sem Íslendingar hefðu verið búnir að láta kúga sig til að greiða, og biðjast svo auðmjúklega afsökunar á háttsemi sinni, gagnvart smáþjóð. 

Þessi niðurstaða er hrikalegt fordæmi um kúgun smáþjóðar og ekki er víst að síðasta svipuhöggið sé fallið.


mbl.is Óviðunandi niðurstaða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaða í dag, á morgun eða í næstu viku

Enn er Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, með beran bakhlutann og lætur húsbændur sína í Bretlandi og Hollandi, hýða sig með gaddasvipunum og virðist bara vera farinn að láta sér svipuhöggin vel lika.  Líklega orðinn háður þeim, eftir allar barsmíðarnar.

Í margar vikur hefur almenningur mátt hlusta á, að endanleg niðurstaða rassskellinganna komi í ljós seinna í dag, á morgun eða í síðasta lagi fyrir næstu helgi.  Enn eru sömu tímasetningarnar settar fram, enda á að vinna yfirvinnu í Fjármálaráðuneytinu alla helgina, svo ekkert hinna Bresku og Hollensku svipuhögga missi marks.

Sennilega endar með því, að Steingrímur J., segir eins og vinur hans og lærifaðir, Svavar Gestsson, sagði í vor:  "Ég nenni bara ekki að hafa þetta mál hangandi yfir mér lengur".

Betra hefði náttúrlega verið að ólatari samninganefnd hefði verið sett í málið í upphafi.


mbl.is Viðbrögð á báða vegu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styttist í gæsluvarðhaldið?

Nú hefur Fjármálaeftirlitið sent mál er varðar allsherjarmarkaðsmisnotkun Kaupþings til Sérstaks saksóknara til frekari rannsóknar og ákvörðunar um ákæru á hendur stjórnendum bankans.

Mörg smærri mál, sem tengjast þessari allsherjarmarkaðmisnotkun hafa áður verið send til embættis Sérstaks saksóknara og hafa verið þar til skoðunar um tíma.

Misnotkun er nógu slæm, en allsherjarmarkaðsmisnotkum er auðvitað miklu verra og alvarlegra mál og þegar mörg mál eru komin saman í einn pakka, hlýtur að vera komin fram staðfestur grunur um alvarleg lögbrot og "staðfastan brotavilja".

Í smærri málum en þessu, væru hinir grunuðu komnir í gæsluvarðhald, á meðan rannsókn stæði yfir, enda væri ástæða til að ætla, að dómur yrði þyngri en tveggja ára fangelsi.  Það hlýtur að eiga við í svona alvarlegu máli, að dómar yrðu þyngri en tvö ár og því hlýtur að fara að skapast ástæða til að fara að beita gæsluvarðhaldsúrskurðum í þessu máli og fleirum, sem tengjast banka- og útrásarglæpamálum.

Alveg er öruggt, að vel er reynt að standa að þessum rannsóknum, en almenningur er orðinn verulega óþolinmóður eftir því, að fara að sjá áþreifanlegan árangur.

 


mbl.is Meint allsherjarmisnotkun Kaupþings til saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirt atvinnugrein sem ekki ætti að reyna að banna

Vændi er elsta atvinnugrein í heimi og er stunduð í öllum löndum, öllum þjóðfélögum og öllum stigum þjóðfélaganna, en nú á tímum er þetta lítilsvirt atvinnugrein, sérstaklega í tvískinnugslöndunum sem kenna sig við "norrænt velferðarkerfi".

Þeir, sem kenna sig við baráttu fyrir jafnrétti kynjanna og kvenfrelsi, prédika stíft að hver manneskja ráði sjálf yfir sínum eigin líkama og megi gera við hann það sem hún vill, svo lengi sem það skaði ekki aðra.   Undir þessa frelsisbaráttu fellur krafan um frjálsar fóstureyðingar, en þegar kemur að því að vilja nota líkamann í vændisstarfssemi, þá er allt annað hljóð í strokknum og þá eru það karlmennirnir sem eru versti óvinurinn og í raun kvenníðingar, vilji þeir kaupa þessa þjónustu.

Það felst mikill tvískinnungur í þessari baráttu og er í raun eingöngu til þess fallin, að niðurlægja þær konur, sem velja að vinna fyrir sér með öðrum líkamspörtum en höndunum, fótunum eða höfðinu.  

Að sjálfsögðu á að berjast með hörku gegn glæpamönnum, sem hneppa konur í þrældóm og neyða þær til að stunda þessa atvinnu, og alveg eins á ekki að líða glæpamönnum, eða öðrum, að hneppa fólk í þrældóm yfirleitt og skiptir þá engu máli um hvaða störf er þar að ræða.

Konur sem stunda vændi af einhverri neyð, t.d. vegna áfengis- eða dópfíknar, eiga að fá hjálp til þess að losna undan fíkninni og þar með ástæðunni fyrir atvinnuvalinu, og á það að vera verkefni félagsmálayfirvalda, að leysa þau mál, en ekki lögreglunnar.

Þær konur, sem kjósa að vinna við vændi, af fúsum og frjálsum vilja, eiga að hafa fullt leyfi til þess, alveg eins og "kvenfrelsisbaráttufólkið" hefur frelsi til að velja sér störf, eftir sínum hentugleika.

Vændi verður ekki upprætt með valdboði, eða lögreglurassíum.  Það ættu menn að vera farnir að skilja, eftir allar þessar þúsundir ára, sem vændi hefur verið stundað.


mbl.is Götuvændi stundað í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrælapískararnir hræddir við dómstóla

Bretar og Hollendingar ætla að hneppa íslensku þjóðina í fjárhagslega ánauð til áratuga, vegna ævintýramennsku einkabanka, sem alls ekki var í ríkisábyrgð og raunar bannar tilskipun ESB alla ríkisábyrgð á innistæðutryggingasjóðum banka í ESB löndum, af samkeppnisástæðum.  Án sérstaks leyfis, má til að visa á ÞETTA blogg Lofts Altice Þorsteinssonar og athugasemdirnar við það, en það er afar fróðleg og nánast tæmandi umræða um þetta efni.

Nú segir Jóhanna, forsætisráðherralíki, og Steingrímur J., fjármálajarðfræðingur, að það sem út af standi í viðræðum við þrælapískarana "sé annars vegar hvort Íslendingar geti leitað réttar síns komi í ljós að þeir þurfi ekki að borga, og hins vegar hvað gerist eftir 2024 þegar ríkisábyrgð fellur af lánunum, samkvæmt ákvörðun Alþingis."

Skyldu þessar ráðherranefnur ekki spyrja, a.m.k. sjálfar sig, hvers vegna þrælahaldararnir séu svona hræddir við að málið fari fyrir dómstóla?  Svarið liggur auðvitað í augum uppi.  Þeir vita sem er, að þeir myndu tapa málinu fyrir hvaða dómi sem er í veröldinni.

Það furðulega er, að íslensku ráðherranefnurnar skuli ennþá vera í viðræðum við þessa þrælahöfðingja, en láta ekki frestinn, sem er til 23. október, renna út, innistæðutryggingasjóðinn lýsa sig gjaldþrota og láta síðan þessa svipusveiflandi kvalara sína stefna málinu fyrir dóm.

Þá, og einungis þá, mun réttlætinu verða fullnægt og allt ESB klanið verða að athlægi.


mbl.is Enn deilt um dómstólaleið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um Fréttablaðið?

Nú er Skjár einn að gefast upp á að senda út ókeypis dagskrá sína, vegna mikils samdráttar auglýsingatekna.  Mánaðaráskrift er boðuð að verði 2.200 krónur á mánuði og verður fróðlegt að sjá hvernig Skjá einum mun takast upp í samkeppninni við Stöð 2, en þar er mánaðaráskrift nú 6.990 krónur á mánuði.

Skjá einum hefur tekist að verða aðaláhorfsstöð margra, sérstaklega unga fólksins, þannig að afar erfitt er að spá um, hvernig stöðinni mun ganga að fá þessa tryggu áhorfendur sína til þess að fara að borga áskriftargjald.  Unga fólkið hefur margt alist upp við að þurfa ekki mikið fyrir lífinu að hafa, hafa getað treyst á foreldrana um peninga og horft ókeypis á Skjá einn og lesið Fréttablaðið, sem dreyft hefur verið "ókeypis" í hús fram að þessu. 

Reyndar er Fréttablaðinu ekki dreyft lengur í hús, nema á höfuðborgarsvæðinu og nokkrum stærstu kaupstöðunum, annars staðar verður fólk að hafa fyrir því að sækja blaðið á bensínstöðvar eða í götukassa.

Nú hafa auglýsingatekjur Fréttablaðsins hrunið, eins og annarra fjölmiðla, þannig að nú hlýtur að fara að styttast í því, að blaðið verði gert að áskriftarblaði.  Aðalauglýsingatekjur blaðsins koma nú frá fyrirtækjum eigenda þess, þ.e. Baugsveldinu, og líklega dugar sá stuðningur einn ekki til lengdar.

Þegar Fréttablaðið verður orðið áskriftarblað, verður það eingöngu smekkur almennings fyrir efni fjölmiðlanna, sem mun ráða lífi þeirra og dauða.

 


mbl.is SkjárEinn verður áskriftarstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikilvægt að halda samninga

Rio Tinto Alcan hefur lagt til hliðar áætlanir áætlanir um byggingu risaálvers í Suður-Afríku, vegna þess að yfirvöld þar og raforkufyrirtækið Eskom vilja ekki standa við upphaflegan orkusölusamning til Rio Tinto.  Á svipuðum tíma upplýsti íslenski fjármálajarðfræðingurinn að ekki yrði staðið við langtímasamninga við íslensk stóriðjufyrirtæki, heldur yrði lögð á þau nýjir orkuskattar upp á milljarða króna, hvert um sig.

Viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa, því samningur við Norðurál um álver í Helguvík er kominn í uppnám og Alcan hefur slegið á frest stækkunaráformum sínum í Straumsvík.  Garðyrkjubændur hafa lýst því yfir, að með þessum nýju sköttum, neyðist þeir líklega til að hætta gróðurhúsaræk yfir vetrarmánuðina og svona mætti áfram telja.  Örfá prósent í hækkun rekstrarkosnaðar,  geta skipt þessi fyrirtæki öllu máli, hjá þeim gilda ekki happa- og glappaaðferðir, eins og hjá ríkisstjórnum.

Í þeirri kreppu sem nú ríkir hérlendis, ríður mest á að efla atvinnulífið og auka þar með atvinnu, sem aftur eykur skatttekjur ríkissjóðs, en minnkar atvinnuleysisbætur, sem ekki veitir af, enda atvinnuleysistryggingasjóður tómur.

Því miður þurfa Íslendingar að lifa við ríkisstjórn, sem ekki skilur einföldustu undirstöðuatriðin, sem máli skipta, til að koma landinu út úr kreppunni.


mbl.is Rio Tinto Alcan hættir við í S-Afríku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin með allt á síðustu stundu

Skrifað var undir stöðugleikasáttmála Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambansins og ríkisstjórnarinnar fyrir tæpum fjórum mánuðum síðan og frá þeim tíma hefur ríkisstjórnin ekki staðið við eitt einasta atriði, sem að henni sneri í sáttmálanum.

Ríkisstjórnin lofaði að niðurskurður ríkisútgjalda skyldi nema 60% af fjárþörf næsta árs, en skattahækkanir skyldu ekki verða meiri en 40%.  Með fjárlagafrumvarpinu var þessu algerlega snúið við og þar var boðuð aukning skattpíningar að upphæð 62 milljarðar króna á móti niðurskurði að upphæð 38 milljörðum króna.

Ríkisstjórnin ætlaði að gera sitt til að stýrivextir yrðu komnir niður fyrir 10%, fyrir 1. nóvember, en þeir hafa ekkert lækkað ennþá.  Stjórnin lofaði að flækjast ekki fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, þar á meðal að greiða fyrir öllum framkvæmdum við orkuöflun og byggingu álvers í Helguvík og á Bakka við Húsavík, en það hefur allt verið svikið og flækjufóturinn settur fyrir allar tilraunir til að koma framkvæmdum í gang.  Svona mætti áfram telja, lengi.

Nú eru öll mál varðandi stöðugleikasáttmálann komin í tímaþröng og aðeins vika til stefnu þar til ársfundur ASÍ verður haldinn og segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, af því tilefni:  "Síðustu daga hefur verið unnið á grundvelli minnisblaðs sem SA og ASÍ lögðu fram um gang þeirra mála sem fjallað er um í stöðuleikasáttmálanum. Segir Vilhjálmur að þar komi fram að æði mikið sé útistandandi af því sem rætt var um að gera.  Á þessari stundu sé langt í land að viðunandi niðurstaða fáist og því þurfi allir að búa sig undir þá hörmulegu stöðu að kjarasamningar verði ekki framlengdir."

Ætli ríkisstjórnin fari að vakna af Þyrnirósarsvefninum, eða ætlar hún að sofa í hundrað ár?

 


mbl.is Nýja áætlun um afnám haftanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankamenn með bakþanka

Flestir yfirmenn föllnu bankanna eru fluttir úr landi og nota nú reynslu sína til "ráðgjafastarfa" erlendis, enda hafa þeir af nógu að miðla, um hvernig á ekki að reka banka, eða stunda aðra fjármálastarfsemi.  Hins vegar er ekkert vitað, hvort mikil eftirspurn sé eftir þessum "ráðgjöfum".

Sumir bankasnillinganna eru þó komnir með einhverja bakþanka um frammistöðu sína og glöggskyggni á liðnum árum, því haft er eftir Ármanni Þorvaldssyni, fyrrverandi forstjóri Kaupthing Singer & Friedlander, að:  "Þegar ríkið hafi þjóðnýtt Glitni þá var ástandið orðið vonlaust. Það sé eitthvað sem hann sjái nú en gerði sér ekki grein fyrir á þeim tíma. Á þeim tíma gagnrýndu bankamennirnir ríkisstjórnina fyrir að hafa ekki stutt bankana."

Á síðasta ári kvörtuðu bankasnilligarnir mikið yfir því, að seðlabankinn veitti þeim ekki nógu mikinn fjárhagslegan stuðning og gerðu mikið úr því að gjaldeyrisvarasjóðurinn væri ekki nógu stór, til að banki bankanna gæti ausið gjaldeyrislánum til bankanna, en nú segir Ármann:  „Þegar ég lít til baka. Þá set ég spurningarmerki við hvort það hefði verið réttlætanlegt að setja svo mikið fé inn í fjármálakerfið."

Banka- og útrásarmafian fór mikinn á þessum tíma og sagði öllum til syndanna, sem dirfðust að efast um snilli þeirra og framsýni og voru slíkar raddir umsvifalaust kæfðar og gagnrýnendur sagðir skilningslausir og öfundsjúkir úr í "íslenska módelið".

Nú eru snillingarnir sjálfir flúnir land og búnir að viðurkenna að "íslenska módelið" var bara rugl og glæpamennska. 

Það sem er verra, er að almenningur á Íslandi þarf að taka afleiðingunum.


mbl.is Flestir lykilmennirnir farnir frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berjast á "gagnlegum fundum"

Alþingi samþykkti ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans með fyrirvörum á sumarþingi, eftir þriggja mánaða umfjöllun, sem endaði með því að ríkisstjórnin missti yfirráð sín á málinu, en nýr þingmeirihluti skapaðist um niðurstöðuna.

Eitt af skilyrðunum fyrir því að ríkisábyrgðin tæki gildi, var að Bretar og Hollendingar myndu samþykkja þá skriflega.  Ríkisstjórninni var falið að annast það mál, en síðan hefur hvorki gengið eða rekið, enda sömu menn að ræða við þrælahaldarana og gerðu upphaflega samninginn, sem allir eru sammála um að hafi verið versti samningum Íslandssögunnar.

Hvernig á sama samninganefndin að geta horft framan í viðsemjendurna og útskýrt fyrir þeim, að nefndin sé heima fyrir álitin háðuglegasta og lélegasta samninganefnd sögunnar og sé komin til baka til að kynna þær endurbætur á samningsbullinu, sem Alþingi hafi komist að niðurstöðu um?

Að sjálfsögðu taka þrælapískararnir ekkert mark á þessari samninganefnd lengur, frekar en Íslendingar gera og því óskiljanlegt að ekki skuli skipuð ný nefnd til þessarar kynningar á fyrirvörunum.

Ráðherrar ríkisstjórnarinnar hafa setið tugi "gagnlegra funda" með Bretum, Hollendingum, ESB og AGS, en enginn virðist taka hið minnsta mark á þeim, eða vilja slaka á sínum kröfum að neinu leyti.

En allar hafa þessar viðræður verið "afar gagnlegar" og vonandi kemur niðurstaða seinnipartinn í dag, á morgun, fyrir helgi eða mánaðamót.

Þetta hafa Íslendingar þurft að hlusta á í tvo mánuði og svo verður sjálfsagt eitthvað lengur.

 


mbl.is Berjast til að ná Icesave-sátt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband