Á Ögmundur lífeyrissjóðinn?

Lífeyrissjóðir landsmanna, aðrir en séreignarsjóðirnir, eru ekki "eign" þeirra sem greiða í þá, heldur eru þeir í raun risastór tryggingafélög, þar sem fólk kaupir sér tryggingu fyrir elli- og örorkulífeyri, en falli menn frá fyrir aldur fram og eigi ekki fjölskyldu, þá fara iðgjöldin í sameiginglega pottinn og nýtast einhverjum öðrum.

Þetta er nánast nákvæmlega sama kerfið og að kaupa brunatryggingu á húsið sitt, maður greiðir tryggingariðgjaldið alla ævi, en brenni húsið ekki, þá fær tryggingatakinn ekkert frá tryggingafélaginu, en iðgjöldin hans nýtast til að greiða tjón annarra. 

Þeir sem fara t.d. á örorkulífeyri frá lífeyrissjóði ungir að árum, fá greitt út úr lífeyrissjóðnum miklu hærri upphæð, en þeir greiddu nokkurn tíma til hans og sama má segja um þá sem lifa mjög lengi og fá þá meira greitt úr sjóðnum, en þeir höfðu greitt til hans.

Þetta á formaður í verkalýðsfélagi að vita og því er alveg ótrúlegt að heyra frá Ögmundi Jónassyni, að hann vilji að lífeyrissjóðirnir fari að lána peninga til reksturs ríkisins og hvað þá svona orðalag:  „Þetta er mín krafa um mína peninga." 

Ögmundur er stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar og verður því að axla þá ábyrgð sem því fylgir.

Eigi ríkissjóður ekki fyrir rekstrarútgjöldum, verður hann að draga úr þeim og spara í rekstrinum, þannig að skatttekjurnar dugi.

Það er mín krafa um mína peninga.  Það er að segja mína skattpeninga.


mbl.is Lífeyrissjóðir láni í velferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ýkjur um vanskil

Mikið hefur verið gert úr greiðsluvanda heimilanna og ávallt gefið í skyn að stór hluti þeirra sé í gífurlegum vanskilum og að þau úrræði, sem í boði eru til að létta greiðslubyrðina, séu til lítils nýt, því þau hjálpi í raun ekkert til að bjarga fólki frá gjaldþroti.

Um miðjan október voru tæplega 20 þúsund einstaklingar, 18 ára og eldri, á vanskilaskrá, eða um 6,7% allra fjárráða einstaklinga á landinu.  Þetta er há tala og auðvitað hefði maður haldið að kreppan ætti hér stóran hluta að máli, en því fer víðsfjarri, eins og sést í fréttinni, en þar segir:  "Greining Íslandsbanka segir, að þrátt fyrir þær miklu efnahagslegu breytingar sem hér hafi orðið á undanförnum misserum hafi fjölgun á vanskilaskrá verið merkilega lítil. Á síðustu 5 árum hafi hlutfall fjárráða einstaklinga á vanskilaskrá ekki farið niður fyrir 5% þrátt fyrir það góðæri sem þá ríkti."

Þetta sýnir, svo ekki verður um villst, að Íslendingar hafa aldrei kunnað með peninga að fara og sannar þá kenningu, að á meðan margar aðrar þjóðir kaupa það sem þær geta sparað fyrir, þá kaupa Íslendingar allt, sem þeir geta fengið lánað fyrir.  Afborganir og vextir hafa hingað til ekki haldið vöku fyrir Íslendingnum, því mottóið hefur alltaf verið:  "Þetta reddast einhvernveginn".

Nú er hinsvegar komið að skuldadögunum og hlutirnir reddast ekki einhvernveginn lengur.  Lánaæðið er liðið, sérstaklega erlenda lánaæðið og allur vöruskiptajöfnuður þjóðarinnar og raunar meira til, mun fara í erlendar afborganir og vexti næstu áratugina.

Það mun kalla á gjörbreyttan hugsunarhátt hjá okkur vesælum mörlöndum.


mbl.is Fjölgar á vanskilaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin framlengir kreppuna

Oft hefur verið um það fjallað hvernig ríkisstjórnin berst fyrir því með oddi og egg, að framlengja kreppuna og dýpka hana.  Nú er aðeins rúm vika þangað til að flest allar aðgerðir sem ríkisstjórnin lofaði að framkvæma, samkvæmt stöðugleikasáttmálanum, rennur upp, en ekkert er farið að gerast ennþá.  Fyir viku var fjallað um þetta á þessu bloggi, sjá hérna og síðan hefur ekkert gerst.

Nú stendur yfir fundur SA og þar sagði Vilmundur Jósefsson, formaður SA, m.a:  ,,Þessi stöðugleikasáttmáli hangir eingöngu á óskhyggjunni.”   Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði einnig:  „Það er mjög auðvelt að sjá fram á það, að ef fjárfestingarnar gangi ekki fram á næsta ári, þá munum við ekki horfa á 2% samdrátt heldur 6% samdrátt eða meira. Við erum að tala um kreppu - töku tvö."

Orð þessara manna eru gífurlegur áfellisdómur yfir ríkisstjórninni og jafn stórar og alvarlegar yfirlýsingar hafa komið fram af hálfu forystumanna verkalýðshreyfingarinnar.  Ábyrgð ráðherranna er mikil og er grunurinn um að þeir séu viljandi að lengja og dýpka kreppuna, ekki lengur grunur heldur fullvissa.

Lokaorð fréttarinnar segja allt sem segja þarf um þessa ríkisstjórn:  "„Stöðugleikasáttmálinn frá því í júní er ónýtur. Ríkisstjórnin er búin að svíkja hann og hún er búin að rífa hann. Allra síst megum við, sem samtök, fara að ljúga að sjálfum okkur,” sagði Víglundur Þorsteinsson, stjórnarformaður BM Vallár, á fundinum, eftir framsögur þeirra Vilmundar og Vilhjálms."


mbl.is „Kreppa - taka tvö“ framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulag lögreglu og glæpahópa

Nú er til rannsóknar stór skipulagður glæpahringur, sem virðist hafa stundað mansal hérlendis, ásamt mörgum öðrum óskilgreindum glæpum, þar á meðal þjófnuðum og fjársvikum og sitja um tíu manns í gæsluvarðhaldi vegna þessa.

Í meðfylgjandi frétt segir m.a:  "Lögreglan á Suðurnesjum telur að þetta sé skipulagður hópur sem sé í skipulegri brotastarfsemi og hefur rökstuddan grun um að starfsemin sé ekki nýtilkomin hérlendis." 

Það verður að teljast merkilegt, að í svo fámennu landi, sem Íslandi, skuli skipulögð glæpastarfsemi geta þrifist í langan tíma, án þess að lögreglan geti rönd við reist og kæft slíka starfsemi í fæðingu.  Upphaf þessa umrædda máls virðist mega rekja til þess, að fórnarlamb mansals nánast datt upp í fangið á lögreglunni, eða eins og segir í fréttinni:  "Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins er rökstuddur grunur um að ferð stúlkunnar frá Litháen, sem kom til landsins 9. október, framvísaði fölsuðum skilríkjum og hvarf eftir að hafa verið í umsjá lögreglu en fannst síðan aftur nokkrum dögum síðar, tengist þessari meintu, skipulögðu glæpastarfsemi."

Þetta leiðir hugann að skipulagi lögreglunnar, sem reyndar hefur stundum haft uppi á glæpastarfsemi að eigin frumkvæði, en þegar svona skipulagðir hópar ná að stunda starfsemi sína í langan tíma án þess að upp komist, vekur það spurningar um skipulag rannsókna hjá lögreglunni.

Skyldu margir slíkir hópar vera starfandi hérlendis um þessar mundir?


mbl.is Mansal, þjófnaður og fjársvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg léttúð í umræðu um hundruð milljarða

Það hefur margoft komið fram frá stjórnarliðum, sérstaklega Samfylkingunni og stuðnigsmönnum hennar hér á blogginu, svo og annarsstaðar, að það verði ekkert mál fyrir Íslendinga, að borga Icesave skuldir Landsbankans, ekki síst þar sem búið er að blekkja almenning með því að 90% fáist upp í kröfurnar úr þrotabúi Landsbankans.  Það var reiknað út eftir að nýji Landsbankinn var látinn leggja 300 milljarða skuldabréf til gamla bankans, til þess að dæmið liti betur út í áróðrinum.

Jafnvel þó 90% fengjust upp í Icesaveskuldina án blekkinga, þá standa alltaf útaf nokkur hundruð milljarðar vegna vaxta og að láta eins og nokkur hundruð milljarðar séu bara smámál, er algert ábyrgðarleysi og að ekkert mál verði að borga það, er helber lygi.

Nóg er að vitna til Guðlaugs Þórs, þingmanns, er hann segir:  "Með 200 milljarða áætluðum vaxtagreiðslum af Icesave hlyti stuðningur VG við samninginn að vera í uppnámi. Hér væri á ferð upphæð sem jafngilti fjórum nýjum háskólasjúkrahúsum."  Hér er vægast sagt varlega áætlað, þegar "aðeins" er talað um 200 milljarða í vexti, því líklega verður upphæðin nær 400 milljörðum.

Til að setja upphæðina í annað samhengi, má vitna til Péturs Blöndals, þingmanns, þegar hann segir:  "Ísland þyrfti að greiða vexti af Icesave-skuldinni þótt enginn hagvöxtur væri í landinu á greiðslutímabilinu, eða árlega 15 til 50 milljarða króna, samanborið við 10 milljarða árlegt framlag ríkisins til Háskóla Íslands."

Að ræða þessar upphæðir af þeim hálfkæringi, sem stjórnarsinnar gera, er algerlega út í hött og eintómt ábyrgðarleysi, ekki síst í því ljósi, að samkvæmt ESB tilskipuninni ber íslenskum skattgreiðendum ekki að borga eina einustu krónu af þessu.

Líklega fara menn að skilja þetta, þegar skattahækkanir vegna Icesave skella á, eftir fimm ár, eða fyrr.


mbl.is Gleymdu 200 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umræðan ekki á villigötum

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, mótmælir málflutningi Gunnars Tómassonar, hagfræðings, og annarra, sem telja skuldastöðu þjóðarbúsins orðna svo slæma, að í óefni stefni, jafnvel að stefni í þjóðargjaldþrot.

Gylfi segir þennan málflutning á algerum villigötum og að engin hætta sé á slíku og nefnir að álíka skuldastaða sé hjá Bandaríkjamönnum og Dönum.  Ekki er hægt að líkja ástandinu hérlendis við Bandaríkin, því dollarinn er heimsgjaldmiðill og hann hefur verið að falla upp á síðkastið og það léttir á erlendri skuldabyrði Bandaríkjanna, en Íslendingar verða að treysta á vöruskiptajöfnuð við útlönd, til þess að geta greitt niður erlendar skuldir.

Það sem skapar erlendan gjaldeyri hérlendis er aðallega sjávarútvegur, áliðnaður og ferðaiðnaður og undanfarna áratugi hefur ekki verið mikill afgangur af vöruskiptajöfnuði við útlönd, enda hafa Íslendingar stöðugt aukið við erlendar skuldir sínar og gekk það algerlega út yfir öll mörk á síðustu árum.

Íslendingar geta ekki reiknað með að taka nánast nein ný lán í útlöndum á næstu áratugum, enda þjóðarbúið svo skuldsett, að engar erlendar lánastofnanir munu þora að lána stórar upphæðir hingað til lands, nem þá helst til orku- og stóriðju.

Tími lánaniðurgreiðslu er kominn og fyrir því mun íslenska þjóðarbúið finna verulega næstu áratugina.


mbl.is Umræða um erlendar skuldir á villigötum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bókfært verð - söluverð - skuldir

Allar fréttir, sem berast frá útrásargörkum eru misvísandi, segja lítið sem ekkert og eru oftar en ekki villandi, til að reyna að fegra gjörningana, sem er verið að segja frá.

Landic Property, sem átt hefur í miklum erfiðleikum, eftir heimsútrásina, sendir nú frá sér tilkynningu um að félagið hafi selt eignir í Danmörku fyrir tæpa 50 milljarða króna, sem sé ásættanlegt verð, enda það sama og bókfært verð eignanna.  Ekki er víst, að þetta segi alla söguna, þar sem ekkert er greint frá því, hvað félagið hafði tekið stór lán til þessara kaupa á sínum tíma.  Lánin geta verið miklu hærri en þetta söluverð og því sölutapið mikið, en um það er ekkert getið í tilkynningunni.

Annað garkafélag, Hagar, tilkynnti í gær, sigri hrósandi, að það hefði verið að greiða upp sjö milljarða skuldabréfaflokk, sem skráður var í Kauphöllinni og að Hagar væru eina félagið sem hefði afrekað slíkt eftir hrun.  Í framhjáhlaupi var þess getið að Landsbankinn og Kaupþing hefðu lánað fyrir þessari greiðslu, þannig að alls ekki var um greiðslu á skuld að ræða, heldur framlengingu skuldabréfanna.

Þetta bendir til þess, að þessir garpar hafi ekki sama skilning og aðrir á greiðslu skulda, enda hafa þeir aldrei borgað nokkra einustu skuld upp, aðeins "endurfjármagnað" þær. 

Þannig þykjast þeir greiða upp skuldir, en oftast eru þeir að auka skuldir sínar,  en ekki að minnka þær.


mbl.is Landic selur starfsemi í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flensan komin á alvarlegt stig

Nú hefur verið staðfest fyrsta dauðsfallið af völdum svokallaðrar svínainflúensu og eru aðstandendum stúlkunnar sendar innilegustu samúðarkveðjur. 

Spáð hefur verið, að líklega muni þriðjungur til helmingur þjóðarinnar smitast af þessum sjúkdómi áður en yfir líkur, en ennþá hafa ekki verið staðfest, svo öruggt sé, nema 479 tilfelli.  Þar af hafa 60 manns verið lagðir inn á sjúkrahús og einn sjúklingur látist.

Smitist þriðjungur þjóðarinnar, eða um eitthudraðþúsund manns, af flensunni, má gera ráð fyrir, miðað við framangreindar tölur, að tólf til þrettánþúsund manns munu þurfa að leggjast inn á sjúkrahús áður en yfir líkur og jafnvel allt að tvö hundruð manns látast.

Allir sjá að þetta stefnir í að verða gífurlega alvarlegt ástand og full ástæða fyrir alla að vera vel á verði og fara ekki of snemma á fætur aftur, ef minnsta hætta er á að um svínaflensuna sé að ræða.

Faraldurinn er rétt að byrja og á eftir að bitna hart á þjóðlífinu í vetur.


mbl.is Fyrsta dauðsfallið hér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifa endurskoðendur upp á þetta uppgjör?

Exista birtir nú ársreikning sinn fyrir árið 2008 og kemur þar fram að eigið fé félagsins í árslok nemi 34 milljörðum króna, en þá er reiknað með gengi Evrópska seðlabankans á krónunni, en ekki gengi Seðlabanka Íslands, sem skráir opinbert gegni íslensku krónunnar, samkvæmt lögum.

Í tilkynningu Exista kemur þetta fram um stöðu eigin fjár félagsins:  "Eins og fram kemur í ársreikningi Exista hf. munar miklu hvort notast er við gengi Seðlabanka Íslands eða Seðlabanka Evrópu og er ljóst að eigið fé Exista hf. er verulega neikvætt ef uppgjör væri miðað við gengi Seðlabanka Íslands, eins og krafist hefur verið af hálfu bankanna."

Varla verður því trúað, að endurskoðendur skrifi upp á svona útreikninga á eigin fé Existu, því augljóst er að félagið er í raun gjaldþrota, ef miðað er við venjulegar og eðlilegar uppgjörsaðferðir, því ekki er vitað til þess, að nokkurt annað íslenskt félag miði við gengi Evrópska seðlabankans í sínum uppgjörum.

Félag með neikvæða eiginfjárstöðu, er samkvæmt almennum skilgreiningum gjaldþrota og samkvæmt þeim stöðlum ætti Exista að gefa sig upp til gjaldþrotaskipta strax.

Það er í raun óskiljanlegt hvernig útrásargarkarnir geta þumbast áfram og virðast komast upp með það, átölulaust.


mbl.is Exista tapaði 206 milljörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norræn velferð undir stjórn Sjálfstæðisflokks

Stanslaus áróður er rekinn að hálfu vinstri manna um að undir stjórn Sjálfstæðisflokksins hafi velferðarmálin verið svelt fjárhagslega, en nú er annað komið í ljós, eins og allir sanngjarnir menn vissu. 

Upphaf fréttarinnar um þetta efni hljóðar svo:  "Heildarútgjöld hins opinbera til almannatrygginga og velferðarmála hafa vaxið verulega síðasta aldarfjórðung eða úr tæplega 5,7% af landsframleiðslu árið 1980 í ríflega 8,9% af landsframleiðslu 2008, en það samsvarar 132 milljörðum króna á því ári.  Þetta kemur fram í nýju riti Hagstofunnar. Velferðarútgjöldin  hafa ríflega þrefaldast að magni á tímabilinu  miðað við verðvísitölu samneyslu og ríflega tvöfaldast á mann."

Í samanburðinum kemur fram, að velferðarútgjöld á Íslandi eru svipað hlutfall af landsframleiðslu og þau eru í Noregi, en örlitlu minni en á hinum Norðurlöndunum.  Aukningin samkvæmt fréttinni er:  "Árið 2008 runnu 413 þúsund krónur til þessa málaflokks á mann samanborið við 181 þúsund krónur í byrjun níunda áratugarins á verðlagi 2008."

Á þessu sést að Sjálfstæðisflokkurinn er mesti velferðarflokkur á Íslandi.


mbl.is Velferðarútgjöld hafa vaxið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband