Nánast eina framkvæmdin

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið við Reykjavíkurhöfner nánast eina byggingarframkvæmdin á vegum opinberra aðila, sem í gangi er á landinu, um þessar mundir.  Væri ekki fyrir hana yrði násast ekkert framkvæmt af opinberum aðilum á næstu árum, þar sem annað sem fyrirhugað er, svo sem nýtt sjúkrahús, kæmist ekki á framkvæmdastig fyrr en í fyrsta lagi eftir tvö ár.

Í júnímánuði s.l., í tengslum við undirritun stöðugleikasáttmálans, var tilkynnt að á haustdögum yrðu hafnar framkvæmdir við samgöngumiðstöð í Vatnsmýrinni, en eins og með annað sem þessi ríkisstjórn á að annast, þá er nú kominn upp "nýr flötur" á málinu og það hefur allt saman verið tekið til endurskoðunar og ekkert verður framkvæmt þar í vetur og janvel ekki á næstu árum.

Eins og allir vita, berst ríkisstjórnarnefnan gegn allri atvinnuuppbygginu á almennum vinnumarkaði og berst eins og grenjandi ljón fyrir því að auka atvinnuleysi og lengja og dýpka kreppuna um eins mörg ár og hún mögulega getur á þeim skamma tíma, sem hún veit að hún hefur til skemmdarverka sinna.

Ríkisstjórnarnefnan er föst í verksamningum vegna Tónlistar- og ráðstefnuhússins, þannig að dýrara yrði að hætta við byggingu þess, en að halda henni áfram.

Því miður er því ekki fyrir að fara um aðrar framkvæmdir, enda hefur allt slíkt verið slegið út af borðinu, þjóðinni og efnahagslífinu til mikillar óþurftar.


mbl.is Tónlistarhúsið kostar 26,5 milljarða króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattahækkanabrjálæðið á sínum stað

Þrátt fyrir fögur orð Helga Hjörvar, formanns skattahækkunarnefndar, um að skattabrjálæðið væri byrjað að renna af ríkisstjórninni og því yrðu skattahækkanir eitthvað minni en áður hafði verið fyrirhugað.

Hafi fyrirætlanirnar verið meiri, en fréttir herma nú, þá hefur skattabrjálæðið verið á svo háu stigi, að um hreint óráð hefur verið að ræða.  Nú herma fréttir, að skattaþrepin verði þrjú og hátekjubreiðbökin hafi fundist við 500 þúsund tekna markið og að þvílíkt hátekjufólk verði skattlagt með rúmlega 47% tekjuskatti.  Það verða að teljast stórtíðindi, að þarna skuli búið að finna þann hóp, sem hefur efni á því að greiða tæpan helming tekna sinna í tekjuskatt og verður að teljast glögglega athugað, að þarna sé um ræða burgeisa sem eiga ekkert betra skilið, en að láta blóðmjólkast í þágu ríkisstjórnarinnar.

Þessir okurskattar og fyrirhugaðar hækkanir á virðisaukaskatti eru eingöngu í þágu getulausrar og örmagna ríkisstjórnar, en ekki í þágu þjóðarinnar, því þetta mun drepa niður það litla sem eftir er af sjálfsbjargarviðleitni í þjóðfélaginu og hvetja til skattundanskota og svartrar vinnu.

Það mun svo aftur leiða til þess, að ráða þarf miklu fleiri opinbera starfsmenn til þess að fylgjast með svörtu vinnunni og skattstofurnar munu fyllast af skattaeftirlitsmönnum og það mun að sjálfsögðu gleðja aumar sálir ráðherranefnanna, að geta ekki skorið niður og sparað hjá opinberum stofnunum.

Þessar efnahagsráðstafanir, ef nota má það orð yfir þetta brjálæði, eru einhverjar þær verstu, sem hægt er að grípa til, enda hvergi gengið svona fram annarsstaðar á vesturlöndum.  Þvert á móti, er stefna annarsstaðar, að lækka skatta og auka framkvæmdir á vegum ríkjanna.

Íslenska ríkisstjórnarnefnan telur sig greinilega hafa meira vit á efnahagsmálum, en aðrar ríkisstjórnir. 


mbl.is 47% skattur á launatekjur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ástin afvegaleiðir stundum

Það verður að segjast alveg eins og er, að ekki var skynsamlegt af Lindu Björk Magnúsdóttur að smygla sér inn í Bandaríkin, til að hitta kærastann sinn.  Það er ekkert grín, að komast upp á kant við innflytjendayfirvöld þar um slóðir og líklegast að hún lendi jafnvel í ævilöngu endurkomubanni og þar með hverfa allir möguleikar á að heimsækja ástina sína á heimaslóðir í framtíðinni.

Óskiljanlegt er, að kærastinn skuli ekki heldur hafa skroppið yfir landamærin til Kanada, til að hitta unnustu sína, en auðvelt er að gagnrýna þessa gjörð hennar og aðgerðarleysi hans, án þess að hafa nokkrar upplýsingar um málsástæður. 

Hverjar sem ástæðurnar voru, verða afleiðingarnar örugglega ekki hagstæðar fyrir Lindu og kærasta hennar og að þurfa að sitja í fangelsi, jafnvel í nokkra mánuði fyrir þessa yfirsjón, fyrir utan að verða "persona non grata" í Bandaríkjunum, er ömurlegt hlutskipti.

Vegir ástarinnar eru órannsakanlegir, eins og sumir aðrir vegir.


mbl.is Linda enn í haldi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki má anda á banka- og útrásargarka

Það er alkunna hvernig almannatengslafyrirtækjum var beitt miskunnarlaust gegn hverjum þeim, sem leyfði sér að gagnrýna Baugsveldið á tímum Baugsmálsins fyrsta, og nægir þar að nefna Jónínu Benediktsdóttur og Sullenberger.  Sá áróður var svo gengdarlaus og skipulagður, að almenningsálitið snerist algerlega með sakborningunum, en á móti ákærendum.

Nú er sami leikur hafinn vegna bankamógúlanna, en nú er hirðáróðursmeistari Ólafs Ragnars Grímssonar, tekinn til starfa fyrir bankamógúlana úr Gamla Kaupþingi og ræðst harkalega á Moggann fyrir að skýra frá gengdarlausri lántöku þeirra til jarðarkaupa á Mýrunum.

Jafnvel þó hlutafé Hvítsstaða ehf. sé orðið 91 milljón, er það ekki há upphæð miðað við milljarðs skuld félagsins vegna þessara jarðarkaupa.

Allir, sem munu gagnrýna, eða andmæla þessum furstum, munu þurfa að reikna með hörðum persónulegum árásum lögfræði- og almannatengslaþjóna þessara stórmenna, sem skuldsettu þjóðfélagið, nánast til örbirgðar.


mbl.is Hvítsstaðamenn mótmæla frétt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hugulsöm ríkisstjórn

Það er ekki að spyrja að hugulseminni í þeirri stórkostlegu ríkisstjórn, sem Íslendingar búa við nú um stundir.  Eftir að hafa boðað algert skattahækkanabrjálæði, er nú boðað að aðeins verði um skattahækkanaæði að ræða á næsta ári.

Til að sýna mannkærleik sinn og almenna gæsku, segir Helgi Hjörvar, formaður Efnahags- og skattahækkananefndar, að nú sé útlit fyrir minni skattahækkanir, en áður voru boðaðar, en þó verði þær umtalsverðar.

Þetta er elsta áróðursbragðið í bókinni, þ.e. að boða fyrst algert kvalræði, en miskunna sig síðan yfir fórnarlambið og láta húðstrýkingu duga og þá verður hinn kvaldi ævarandi þakklátur fyrir miskunnsemi kvalarans.

Að breyta frá skattahækkanabrjálæði yfir í skattahækkanaæði er afar fallega gert, af þessari elskulegu ríkisstjórn.

Þeir skattpíndu munu verða ákaflega þakklátir og auðmjúkir í sálinni vegna þessarar velgjörðar.


mbl.is Skattahækkanir hugsanlega ögn minni en ráðgert var
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Traustsins verður

Jón Ágsgeir Jóhannesson hefur margsýnt, að hann er alls trausts maklegur. 

Það má treyta því, að ef hann kemst yfir peningalán einhversstaðar, þá tapar hann peningunum á undra skömmum tíma og helst engum smáupphæðum.

Honum tókst að tapa mörghundruð milljörðum á FL Group, nokkur hundruð milljörðum á Baugi Group og nú þarf að rifta samningum, sem hann gerði við sjálfan sig um afslátt af 365 miðlum.

Bankastjórar geta treyst því, að treysti þeir Jóni Ásgeiri, þá endurgeldur hann traustið með því að tapa öllu því, sem hægt er að tapa.


mbl.is Svarar engu um traust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Foreldrarnir borgi barnalánin

Foreldrar tíu barna tóku lán hjá Glitni í nafni barna sinna, til að kaupa stofnfjárbréf í Byr, sparisjóði, á árinu 2007.  Foreldrarnir sóttu um lánin og komu fram í þeirra nafni í öllu lánaferlinu, þó stofnfjárbréfin hafi síðan verið skráð á nöfn barnann, enda höfðu þau forkaupsrétt að bréfunum, en að sjálfsögðu var ásetningur foreldranna að strórgræða á öllu saman.

Nú þegar verðmæti stofnfjárbréfa Byrs hefur hrunið ætla foreldrarnir að kæra bankann fyrir að lána blessuðum óvitunum peninga í brask og þykjast væntanlega hvergi hafa nærri komið.  Öll framganga foreldranna í málinu er gjörsamlega óskiljanleg, bæði að taka lánin í nafni barnanna og ekki síður, að ætla svo að kæra bankann fyrir að veita þau.  Reyndar er líka óskiljanlegt, að bankanum skuli hafa dottið í hug, að veita lánin út á nöfn krakkanna.

Foreldrunum til bjargar í þessu máli, er að bankinn gætti þess ekki, að til að börnin hefðu mátt taka lánin, hefði þurft uppáskrift sýslumanns, en það hafði bankanum yfirsést og treystir sér því ekki til að innheimta skuldirnar.

Ábyrgð foreldranna er ekki minni, þar sem verknaðurinn var framinn í gróðaskyni.

Sleppi foreldrarnir við að greiða fyrir græðgi sína, ætti að minnsta kosti að sekta þá fyrir misnotkun á börnum sínum.


mbl.is Hyggst ekki innheimta lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bragð er að þá barnið finnur

Framundan er kjör forseta ráðherraráðs ESB, þegar öll ríkin hafa samþykkt Lissabonsáttmálann og hefur Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, helst verið talinn líklegur í embættið.

Nú eru hins vegar að kom upp raddir, sem vilja annan í embættið og er þá helst rætt um forsætisráðherra Lúxemborgar, Jean-Claude Juncker.  Sérstaka athygli vekur, að hann er helst tilnefndur, vegna þess að hann er frá smáríki innan ESB.

Merkilegast er að formaður þingflokks Frjálsra demókrata í Þýskalandi, segir að þingmenn flokksins vilji frekar að stjórnmálamaður frá litlu landi verði fyrir valinu þar sem stóru ríkin séu of valdamikil innan Evrópusambandsins.

Þegar stjórnmálamaður í forysturíki ESB gerir sér grein fyrir valdaójafnvæginu innan sambandsins, mætti ætla, að aðrir sæju það líka.

Svo er þó ekki um Samfylkinguna. 

Hún heldur að hún muni koma til með að stjórna öllu, sem henni sýnist innan ESB, eftir að hún verður búin að véla þjóðina inn í ESB.


mbl.is Vilja frekar mann frá smáríki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

AGS segir eitt í dag, annað á morgun

Eftir bankahrunið síðast liðið haust sagði Mark Flanagan, Íslandsstjóri AGS, að ef skuldir íslenska þjóðarbúsins færu yfir 240% af landsframleiðslu, þá kæmist landið í greiðsluþrot.

Nú er komið annað hljóð í strokkinn, en nú eru 240% af landsframleiðslu bara smáskuldir, eða eins og eftir honum er haft:  "Engu að síður telur Mark Flanagan, yfirmaður Íslandsmála hjá sjóðnum, að þær séu vel viðráðanlegar. Þær eru nú 310% af landsframleiðslu, en áður hafði hann sagt að 240% af landsframleiðslu væru óviðráðanlegar erlendar skuldir."

Hverjar skyldu skýringarnar á þessum viðsnúningi í afstöðu AGS vera?  Svarið er reyndar illskiljanlegt, en er svona:  "Því til viðbótar sagði hann að fyrri yfirlýsingar hafi byggst á umhverfi og stefnu þess tíma í ríkisfjármálum.  Skuldirnar hafi því verið óviðráðanlegar að óbreyttu á sínum tíma, en nú horfi öðruvísi við."

Einnig bætir hann við, að mörg lönd séu með skuldastöðu yfir 200% af landsframleiðslu.  Það er að vísu langur vegur frá 240 upp í 310, sérstaklega þegar um skuldir þjóðarbúa er að ræða.

AGS hefur ekki sýnt sig vera verður mikils trausts hérlendis.

Svona hringl með alvarleg mál, eykur ekki álit á sjóðnum og starfsmönnum hans.

 


mbl.is Skuldirnar ekki óviðráðanlegar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bati framundan, þrátt fyrir ríkisstjórnina

AGS spáir að efnahagsbati byrji hérlendis um mitt næsta ár, þó skuldir þjóðarbúsins séu miklu meiri, en upphaflegar spár sjóðsins gerðu ráð fyrir.  Eftir að aðilar vinnumarkaðarins píndu ríkisstjórnina til að standa við loforð um að standa ekki í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, eykst trú á að eitthvað geti farið að rofa til í efnahagsmálunum, en því miður er líklegt að batinn verði hægur og taki mörg ár, þar til sjúklingurinn kemst til sæmilegrar heilsu aftur.

Atvinnuleysi er mikið, eða tæp 8%, og spáð er að það fari í 10% í vetur og muni ekki fara að minnka að ráði fyrr en á árunum 2011 og 2012.  Þetta mikla atvinnuleysi, skattabrjálæði og almennt getuleysi ríkisstjórnarinnar mun valda því, að almenningur í landinu mun ekki fara að finna fyrir þessum bata í sinni buddu, fyrr en í fyrsta lagi á árunum 2013 - 2014.

Vonandi verður fjárhagur almennings farinn að batna það mikið á árinu 2015, að hann geti þá tekið á sig þær skattahækkanir, sem nauðsynlegar verða til að greiða Icesave skuldaklafann, sem þá mun skella á þjóðinni af fullum þunga.

Vonandi gengur þessi spá AGS eftir, þrátt fyrir þá ríkisstjórn sem er ennþá við völd í landinu.


mbl.is Bati í augsýn um mitt ár 2010
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband