Ríkisstjórnarnefnan boðar stríð gegn sjómönnum

Á sama tíma og kröfur eru settar fram um að auka þorskafla um 40 - 100 þúsund tonn, til að bjarga efnahag þjóðarinnar og afla dýrmæts gjaldeyris, til að mögulegt verði að grynnka á erlendum skuldum þjóðarbúsins, að ekki sé talað um Icesaveklafann, þá boðar ríkisstjórnarnefnan til stríðs gegn þeim aðilum, sem ætlast er til að afli þessa tekjuauka.

Sjómannaafslátturinn er meira en hálfrar aldar gömul viðurkenning þjóðarinnar á mikilvægi sjómannsstarfsins og er í raun lítilvægur þakklætisvottur til þeirra, sem í gegnum tíðina, hafa borið uppi velmegun annarra í þjóðfélaginu.

Tillögur um afnám sjómannaafsláttarins hafa reglulega verið bornar upp á lansfundum Sjálfstæðisflokksins, en undantekningarlaust fengið litlar undirtektir og verið felldar með afgerandi meirihluta atkvæða.

Sjálfstæðismenn hafa allltaf haft skilning á mikilvægi sjómannsstarfsins. sem og framlag annarra stétta til þjóðarbúsins.

Það er ekki hægt að segja það sama um vinstri flokkana.


mbl.is Sjómenn vara stjórnvöld við
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfileg tilhugsun

Búast má við því, að á næstunni selli á holskefla málsókna á hendur íslenska ríkinu, vegna neyðarlaganna og mun þýski bankinn DekaBank væntanlega verða fyrsti jakinn í því jökulflóði.

Í frétt mbl.is kemur m.a. þetta fram:  "Lögfræðingur, sem er að undirbúa málssókn fyrir hönd bankans, sagði í samtali við Reuters að það væri „skelfileg tilhugsun“ að fara í mál við ríki þar sem það gæti opnað flóð nýrra krafna á Ísland sem væru miklu hærri en þeir 5 milljarðar punda sem landið skuldaði Bretum og Hollendingum."

Það er skelfileg tilhugsun að íslenska ríkisstjórnarnefnan skuli ætla að veita ríkisábyrgð á skuldum einkabanka og velta þeim yfir á íslenska skattgreiðendur framtíðarinnar.

Jafn skelfileg tilhugsun er, að ríkisstjórnarnefnan skuli ekki a.m.k. fresta afgreiðslu málsins, þar til dómstólar hafa komist að niðurstöðu um, hvort ríkisábyrgðin standist stjórnarskrána.

Þó ólíklegt sé, að íslenskir dómstólar felli neyðarlögin úr gildi, er það skelfileg tilhugsun að íslenska ríkisstjórnin skuli ganga erinda Breta og Hollendina í Icesavemálinu, en ekki sinnar eigin þjóðar.

Íslenska ríkisstjórnarnefnan er "skelfileg tilhugsun".


mbl.is Undirbýr mál gegn Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórn í bakkgír

Það er einkenni sitjandi ríkisstjórnanefnu, að boða alls kyns óhugsaðar aðgerðir og draga þær svo til baka nokkrum dögum síðar.  Oft gefst betur að hugsa fyrst og framkvæma svo, en þessi svokallaða ríkisstjórn boðar ýmsar aðgerðir, en hugsar aldrei.

Nýbúið er að tilkynna skerðingar á fæðingarorlofi og í dag eru þær dregnar til baka, en boðað að stytta fæðingarorlog næsta árs um einn mánuð, sem heimilt verður að nýta síðar, væntanlega þegar barnið verðu fermt.

Það er alveg með ólíkindum hversu ráðvillt og þar með villuráfandi þessi volaða ríkisstjórnarnefna er.

Hún veit ekkert í hvaða átt hún er að fara, en heldur að hægt sé að áfangastað verði náð í bakkgírnum.


mbl.is Foreldrar fresta einum mánuði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Batnandi kjör eru eitur í beinum VG

Hækkun á tekjuskatti, fjármagnstekjuskatti, bensín- áfengis- og tóbaksgjaldi, virðisaukaskatti, sykurskatti, nýr eignarskattur, stóriðjuskattur, kolefnisskattur, rafmagnsskattur, heitavatnsskattur, hækkun þjónustugjalda hjá því opinbera og allir aðrir skattar og gjöld, sem vinstri menn geta látið sér detta í hug að hækka, eða finna upp, er allt sagt vera gert í nafni jöfnuðar og réttlætis. 

Með því að tönglast á jöfnuði og réttlæti, er reynt að afla fylgis við skattabrjálæðið, því auðvelt er að fá fólk til að samþykkja að láta "breiðu bökin" borga meiri skatta, svo framarlega sem menn halda að þeir sleppi sjálfir.

Nánast allir þeir skattar og gjöld, sem skattabrjálæðisstjórnin fyrirhugar að hækka, lenda alls ekki á "breiðu bökunum" heldur öllum almenningi, sem alls ekki er í stakk búinn til þess að taka þessar hækkanir á sig, eins og ástandið er í þjóðfélaginu.

Nú réttlætir fjármálajarðfræðingurinn niðurfellingu sjómannaafstáttarins með því að kjör sjómanna hafi batnað og því sé nú lag til að afnema þessa 55 ára viðurkenningu á því, að fjarvistir frá heimilum og takmörkuð afnot af þeim gæðum, sem landkrabbar njóta, ásamt framlagi sjómanna til þjóðarbúsins, sé einhvers metin.

Batnandi kjör eru eitur í beinum vinstri manna og allur bati skal hátt skattlagður í anda jafnréttis og jöfnuðar. 


mbl.is Sjómenn búa við betri kjör
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afturhvarf til fortíðar

Á árum áður voru hjón samsköttuð og í mörg ár var helsta baráttumál feminista og annarra baráttusamtaka fyrir kvenréttindum, að hver einstaklingur skyldi skattlagður sérstaklega og konur vildu fá skattálagningu miðað við sínar eigin tekjur, án þess að þeim væri blandað saman við tekjur makans.

Þetta náðist fram að lokum og skattkerfið allt var einfaldað með upptöku staðgreiðslukerfisins, sem var réttlátt, sanngjarnt, gegnsætt og auðskilið kerfi, sem leiddi til þess að fólk nánast hætti að fá bakreikninga vegna skatta, eins og algengt var áður en staðgreiðslukerfið var tekið upp.

Nú boðar sú skattaóða ríkisstjórn, sem nú er við völd, eyðileggingu á staðgreiðslukerfinu, með upptöku þrepaskipts skatts, sem er nógu flókinn út af fyrir sig og verður illskiljanlegur öllum venjulegum skattgreiðendum, sem munu eiga mun verr með að gera sér fyrirfram grein fyrir þeim sköttum, sem á þá verða lagðir.

Ekki bætir úr, að nú á að fara að taka aftur upp samsköttun hjóna og þá með svo flóknum reglum, að skattkerfið verður alger ófreskja, sem jafnvel mun flækjast fyrir skattasérfræðingum að skilja.

Gott dæmi um þetta er þessi klausa úr skattafrumvarpinu:  "Sé tekjuskattsstofn annars samskattaðs aðila hærri en 7.800.000 kr. skal það sem umfram er skattlagt með 27% skatthlutfalli allt að helmingi þeirrar fjárhæðar sem tekjuskattsstofn þess tekjulægri er undir 7.800.000 kr., þó reiknast 27% skatthlutfall aldrei af hærri fjárhæð en 2.700.000 kr. við þessar aðstæður."

Þó kerfið verði strax illskiljanlegt, skal því spáð hér og nú, að innan örfárra ára verði skattkerfið orðið svo flókið, að það verði orðið baráttumál allra skattgreiðenda, að einfalt staðgreiðslukerfi verði tekið upp aftur. 

Enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur.


mbl.is Tekið tillit til tekna maka í hátekjuskatti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattleggjum súrefnið, það er stöðugur tekjustofn

Skattabrjálaða ríkisstjórnin hefur nú boðað, að sjómannaafsláttur skuli felldur niður í áföngum og réttlætir það með því, að ekki sé sanngjarnt að ein stétt njóti meiri skattfríðinda, en önnur, enda sé sjómannaafslátturinn í raun ekkert annað en launauppbót til sjómanna frá ríkinu.

Sjómannaafslátturinn hefur verið við lýði í um það bil fimmtíu og fimm ár og var ekki fyrst og fremst hugsaður sem launauppbót, heldur var ríkið að koma til móts við sjómenn vegna langrar og erfiðrar fjarveru frá fjölskyldum sínum og þeirri þjónustu sem ríkið veitir landkröbbunum, en sjómenn fara á mis við ýmsa þjónustu, sem er niðurgreidd af ríkinu, en hinir njóta til fulls.

En þar sem þetta er réttlætt með því, að ein stétt skuli ekki njóta fríðinda umfram aðrar, ættu þingmenn að líta sér nær og skattleggja þær sextíu þúsund krónur, sem þeir fá greiddar skattfrjálsar í hverjum mánuði og eru sagðar eiga að koma á móti ýmsum útlögðum kostnaði þeirra.  Sanngjarnt og eðlilegt hlýtur að vera, að þeir greiði fullan skatt af þessari upphæð, a.m.k. þeim hluta, sem þeir geta ekki framvísað kostnaðarreikningum fyrir.

Í fréttinni kemur einnig fram, að nú skal skattleggja rafmagnið og heita vatnið, sem almenningur notar til að lýsa upp heimili sín og halda þeim heitum yfir kaldasta árstímann.

Þá er nánast búið að skattleggja allar lífsnauðsynjar, aðrar en súrefnið sem fólk andar að sér algerlega ókeypis.  Það er hlýtur að vera óþolandi fyrir skattaóða ríkisstjórn, að vita af slíkum tekjustofni óskattlögðum.

Það er einfalt að reikna út meðalársnotkun súrefnis á mann og skattleggja samkvæmt því.

 


mbl.is Boðar afnám sjómannaafsláttar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Falskir Svíar

Svíar tóku einarða afstöðu með Bretum og Hollendingum í efnahagsstyrjöld þeirra gegn Íslendingum.  Reyndar gerðu þeir meira en að taka afstöðu, því þeir tóku fullan þátt í þrælastríðinu, bæði á vettvangi norðurlandanna og ESB.

Nú ætla þeir að leika einhverja friðarpostula með því að miðla málum milli Grikkja og Makedóniu vegna deilunnar um nafnið á síðarnefnda landinu.  Gefi Makedónía ekki eftir, er hótuninni um að landið fái ekki inngöngu í stórríki ESB auðvitað beitt miskunnarlaust. 

Svíar hafa alltaf leikið tveim skjöldum.  Þeir þykjast vera hlutlausir, þegar það hentar þeim, en beita afli þegar þeir geta og þegar það hentar þeim.

Helgislepjan og falsið hafa alltaf verið þeirra einkenni.


mbl.is Svíar miðla málum í nafnadeilu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kratarósin orðin að frostrós

Jóhanna Sigurðardóttir, hrokagikkur, hefur lýst því yfir að hún taki ekki til máls á Alþingi fyrr en hennar tími komi.  Í dag taldi hún sinn tíma kominn, til að tjá sig um samning ríkisstjórnar sinnar við Breta og Hollendinga um sölu íslensku þjóðarinnar í þrælaánauð fyrir þá, til næstu áratuga.

Eins og áður, þegar hrokagikkurinn og þrælasalinn hefur tjáð sig um þetta mál, heldur hún málstað Breta og Hollendinga á lofti og hótar þjóðinni hinum hörmulegustu örlögum, verði ekki af þrælasölunni.  Ekki dettur henni í hug að nefna einu orði, hvernig eigi að afla erlends gjaldeyris til að greiða þrælatollinn, en á vef Seðlabankans, sem nálgast má hérna er yfirlit yfir viðskipti við útlönd á fyrstu þrem ársfjórðungum þessa árs og þar kemur m.a. þetta fram:  "Þáttatekjujöfnuður án áhrifa innlánsstofnana í slitameðferð var því neikvæður um 46,5 ma.kr. og viðskiptajöfnuður neikvæður um 9,5 ma.kr."

Þrátt fyrir að innflutningur sé í algeru lágmarki og útflutningur hafi verið nokkuð mikill, þá er viðskiptahalli upp á 9,5 milljarða króna og er þá ekki tekið neitt tillit til skulda og vaxtagreiðslna gömlu gjaldþrota bankanna.  Síðasti ársfjórðungurinn kemur venjulega ekki vel út, þar sem þá eykst innflutningur mikið vegna jólanna.

Hvort sem Jóhönnu, hrokagikk, líkar betur eða verr, þá geta Íslendingar ekki borgað þennan þrælatoll Breta og Hollendinga, enda hefur jafnvel hún sagt, að íslenskum skattgreiðendum beri ekki að greiða skuldir einkabanka.

ESB sendi í dag frá sér loforð um að Ísland fengi ekki inngöngu í stórríkið, ef Alþingi samþykkti ekki ánauðarskilmálana.

Það loforð til Íslendinga er án vafa það besta sem frá ESB hefur komið.


mbl.is Frostavetur falli Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsbankinn hirðir Toyotaumboðið

Landsbankinn hefur nú hirt Toyotaumboðið af Magnúsi Kristinssyni, útgerðar- og fjármálarugludalli, sem "keypti" fyrirtækið í árslok 2005 og eins og aðrir fjármálaruglarar fékk hann kaupverðið lánað hjá Landsbankanum og eins og kollegar hans, getur hann ekki staðið undir lántökunum.

Magnús komst þó aldrei hærra í mannvirðingarstiganum, en að fljúga á milli lands og eyja á þyrlu, á meðan þeir, sem litu á sjálfa sig sem alvöru peningakalla, flugu landa á milli á einkaþotum, sem bankarnir voru svo almennilegir að lána þeim fyrir.

Það, sem er hins vegar athyglisvert í tilkynningu Landsbankans um málið, er þetta:  "Þar kemur fram að fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans muni sjá um söluna og er unnið að undirbúningi hennar. Áhersla verði lögð á jafnræði fjárfesta."

Hvernig skyldi standa á því, að Kaupþing/Arion skuli ekki beita sömu vinnubrögðum við söluna á Högum?

Sannast ef til vill enn á ný, að það er ekki sama Jón og Jón Ásgeir?


mbl.is Toyota á Íslandi sett í sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnarliðar yrðu ekki vel liðnir til sjós

Stærsta og alvarlegasta mál, sem hefur komið til kasta Alþingis frá lýðveldisstofnun, er nú til meðferðar í þinginu, þ.e. umræða og afgreiðsla á ríkisábyrgð á skuldum Landsbankans.

Ömurlegt er að fylgjast með því, að hvorki ráðherrar né aðrir þingmenn stjórnarliðsins, skuli nenna að sitja þingfundi og taka þátt í umræðum um þetta örlagaríka mál.  Hafi þessir ráðherrar og þingmenn enga skoðun á málinu, ættu þeir að minnsta kosti að sjá sóma sinn í því, að hlýða á málflutning þeirra þingmanna, sem nenna bæði að setja sig inn í málið og fjalla um það í þingsalnum.

Þingmönnum ber skylda til að sitja alla þingfundi, nema brýnar ástæður séu fyrir fjarveru þeirra, svo sem veikindi, eða ferðlög og fundir á vegum þingsins.  Þeir eru því að brjóta vinnuskyldur sínar með þessu skrópi frá þingfundum og ættu að fá áminningu þingforseta fyrir vanræksluna.

Fróðlegt verður að fylgjast með því, hvaða stjórnarliðar, sem samþykkja næturfund, muni verða í þingsalnum í kvöld og nótt.

Steingrímur J. segist ekki myndu vilja vera með þeim þingmönnum til sjós, eða við sauðburð, sem ekki treysti sér til að vinna fram á nótt.

Ekkert er ver liðið til sjós, en leti og ómennska og þeir sjómenn, sem lægju í koju og létu aðra standa vaktirnar, yrðu reknir í land, strax í næstu inniveru. 


mbl.is Icesave-málið rætt fram á nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband