"Velferðarstjórnin" fær falleinkunn frá verkalýðshreyfingunni

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar hefur frá upphafi kennt sig velferð og umhyggju fyrir heimilum landsins og ekki síst sagst vera alveg sérstaklega í þjónustu við launafólk í landinu.

Stjórnarandstaðan á Alþingi hefur ekki verið sammála framgöngu stjórnarinnar í þessum málaflokkum og reyndar varla í nokkrum málaflokki, enda hafa stjórninni verið svo mislagðar hendur í öllum sínum athöfnum, að allt hefur misfarist í höndum hennar og ástanið í þjóðfélaginu farið síversnandi, enda aðgerðir stjórnarinnar fremur verið til þess að dýpka og lengja kreppuna, fyrir utan að auka atvinnuleysið frá því, sem það annars hefði þurft að verða.

Formannafundur ASÍ sendir ríkisstjórninni kaldar kveðjur eftir harðar umræður í dag, en þar kemur þetta m.a. fram:

„Það voru einkum þrjú stef sem einkenndu umræðuna um efnahags- og atvinnumál.  Ríkisstjórnin fékk falleinkunn fyrir aðgerðaleysi í baráttunni gegn atvinnuleysi og seinagang við að koma verkefnum í gang sem lífeyrissjóðirnir eru tilbúnir að fjármagna. Þá bar nokkuð á ótta um að ríkisstjórnin myndi ráðast á millitekjuhópinn þegar hún talar hátekjuskatt. Skýrt kom fram í máli verkalýðsforingjanna að svik ríkisstjórnarinnar um hækkun persónuafsláttar nú í vetur eru geymd en ekki gleymd."

Um öll þessi atriði hefur oft verið skrifað á þessa bloggsíðu við lítinn fögnuð stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar.  Vonandi verður þessi kalda kveðja verkalýðsforingjanna til að hrista almennilega upp í stjórninni og þeim, sem ennþá styðja hana.

Ekki þarf harða stjórnarandstöðu á Alþingi, þegar svona ályktanir koma úr herbúðum verkalýðshreyfingarinnar í landinu.


mbl.is Þungt hljóð í formönnum aðildarfélaga ASÍ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mun skattahækkanabrjálæðið halda áfram?

Ríkisstjórnin segir að skattar munu "hækka eitthvað" á næsta ári, en hækkanabrjálæðið verði ekkert í líkingu við það, sem það var á þessu ári.  Skattahækkanabrjálæðið sem skall á landsmönnum á árunum 2009 og 2010 skiluðu auknum sköttum að upphæð u.þ,b. 70 milljörðum króna á þessu ári og munu skila öðru eins á næsta ári, vegna þess að allar skattahækkunarprósentur munu haldast óbreyttar.

Nú er sagt að skattar muni "hækka eitthvað" en það verði á afmörkuðum hópi skattgreiðenda, svo sem fyrirtækjum og þá sérstaklega í orku- og stóriðjugreinum.  Skattahækkanir á fyrirtæki, í hvaða formi sem eru, enda alltaf að lokum úti í verðlaginu og munu greiðast af neytendum, sem fyrir eru skattpíndir í drep og hafa enga burði til að taka meiri hækkanir á sínar herðar í gegnum verðlag.

Stjórnin segir því aðeins hálfa söguna af skattahækkanabrjálæði sínu, en við undirritun stöðugleikasáttmálans í fyrra skrifaði ríkisstjórnin undir samkomulag um að árlegur tekjuauki ríkissjóðs vegna skattahækkana yrði ekki meiri en fimmtiumilljarðar.  Það samkomulag var svikið umsvifalaust og hækkanirnar urðu að sjötíumilljörðum um leið og blekið þornaði á samkomulaginu.

Þessu hækkanabrjálæði verður að linna og ríkisreksturinn lagaður að þeim tekjum sem fást í kassann með hóflegri skattlagningu.  Hún er þegar komin langt fram úr öllu hófi.


mbl.is Skattar munu hækka eitthvað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki "nema" þrír milljarðar týndir?

Þann 15. ágúst 2008, aðeins einum og hálfum mánuði fyrir bankahrunið, birtust fréttir af viðskiptum á milli Pálma í Iceland Express og Jóns Ásgeirs í Bónusi, sem skiluðu Fons 80 milljörðum króna í hreinan hagnað.  Jafnframf fylgdi fréttinni, að þar með væri Fons orðið eitt sterkasta fjárfestingafélag landsins.  Frétt um þetta má t.d. sjá hérna

Átta mánuðum síðar var þetta eitt sterkasta fjárfestingafélag Íslands orðið gjaldþrota og verður að teljast með ólíkindum, að félagið skyldi geta tapað þessum 80 milljörðum, ásamt því fé sem það átti fyrir á svo stuttum tíma, en svo heppilega vildi þó til að Pálma tókst að koma öllum helstu eignum undan gjaldþroti Fons og rekur nú t.d. flugfélagið Asterus og ferðaskrifstofuna Iceland Express, eins og ekkert hafi í skorist.

Ekki munu hafa fundist miklar eignir í þrotabúi Fons og t.d. virðist ekki vera hægt að finna neina skýringu í bókhaldi félagsins á þriggja milljarða millifærslu til skúffufyrirtækis í Panama og voru peningarnir afskrifaðir í bókhaldi Fons stuttu fyrir gjaldþrotið.  Eingöngu það, að ekki skuli finnast eðlilegar viðskiptalegar skýringar á þessari millifærslu, hlýtur að vera brot á bókhaldslögum og þar með saknæmt athæfi, hvort sem peningarnir finnast nokkurn tíma aftur, eða ekki.

Ef þessir peningar hafa á endanum runnið í vasa Jóns Ásgeirs og annarra viðskiptafélaga Pálma, þá er það auðvitað stórkostlegt auðgunarbrot og vonandi finnst skýring á þessu öllu og sé um enn eina svikafléttu þeirra félagana að ræða, til viðbótar við önnur meint svik þeirra, þá verða þeir auðvitað að svara til saka fyrir þessar gjörðir allar.

Þetta vekur líka upp þá spurningu, hvort ekki þurfi að rekja öll viðskipti milli þessara kumpána í gegnum tíðina og finna út, hvað varð um 80 milljarða hagnaðinn, sem reyndar hefur að öllum líkindum aðeins verið bókhaldsbrella til að búa til veð, þannig að rán Glitnis innanfrá liti vel út í bókhaldi bankans.

Pálmi og Jón Ásgeir hafa alltaf haldið því fram, að þeir væru snillingar.  Eftir á að koma í ljós, í hverju mesta snillin var fólgin.


mbl.is RÚV: Þriggja milljarða leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf kjark til að neita klofningi innan VG

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, harðneitar að nokkur ágreiningur sé innbyrðis á milli þingmanna flokksins, þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir, samþingmaður hans í VG, hafi sagt sig úr fjárlagahópi ríkisstjórnarinnar, einmitt vegna ágreinings við ríkisstjórnina vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í ríkisfjármálum og skattahækkana.

Allir vita einnig um ágreininginn milli foringjanna í flokknum, þeirra Steingríms J. og Ögmundar og skiptingu flokksins í fylkingar að baki þeirra.  Nánast allir reikna með að fyrr eða síðar muni VG klofna í tvo flokka og jafnvel spurning hvað Lilja gerir, en hún hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við tillögur Sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarsparnaðar við inngreiðslu í stað útgreiðslu, eins og nú er gert.

Til að hnykkja á samstöðunni í flokknum, sendir Björn Valur samþingmanni sínum, Lilju, tóninn með þessari setningu:  "Nú þarf bara að fara að taka ákvarðanir, þótt það muni reynast einhverjum erfitt.“

Samstaðan og einingin innan VG leynir sér auðvitað ekki í þessum orðum.


mbl.is Þarf kjark til að stoppa í gatið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silvía Nótt og stjórnleysissúrrealistiskur Gnarrismi

Í gær setti upplýsingafulltrúi "Besta" brandarans fram ákveðna tengingu framboðsins við Silvíu Nótt, sem auðvelt var að skilja þannig, að hugmyndafræði framboðsins væri frá þeirri góðu konu komin, en í grein á DV.is kom þetta fram frá Gauki Úlfarssyni vegna gagnrýni á brandaraframboðið frá þeim óvandaða "álitsgjafa" Hallgrímí Helgasyni, rithöfundi og klappstýru útrásarvíkinganna: 

"Hallgrímur gagnrýndi frambjóðendur Besta flokksins fyrir að hafa ekkert gert á árunum fyrir hrun, og ekki hafi þau verið sýnileg í búsáhaldabyltingunni. Gaukur segist einungis geta tekið dæmi af sjálfum sér en hann hafi tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni og svo megi ekki gleyma því að Silvía Nótt hafi verið hrein ádeila á hvernig íslenskt samfélag hafi verið fyrir hrun. „Silvía nótt sýndi þjóðina, gráðuga, andlausa og lausa við öll gildi sem að gott fólk þarf að hafa, þetta var ekkert annað en gangrýni á góðærið,“ segir Gaukur."

Frambjóðandi brandarans hefur mótmælt því að þessi tenging við Silvíu Nótt sé réttmæt, en í annars nokkuð kjánalegu viðtali við tímaritið Grapevine, lýsir Jón Gnarr stefnu sinni og framboðsins þannig (tekið úr lauslegri þýðingu Illuga Jökulssonar): 

"Ég hef sagt að Besti flokkurinn sé stjórnleysingja- og súrrealistaflokkur, og sameini það besta úr anarkismanum og súrrealismanum. Og þetta hefur alltaf verið mín pólitíska sannfæring, stjórnleysissúrrealismi. En ef ég færi nú og segði það á Stöð 2, að við værum anarkistaflokkur, þá myndi fólk líta öðruvísi á okkur. "Þetta er ekki Jón Gnarr, þetta er einhver brjálaður anarkistaflokkur," myndi fólk segja. Kannski stendur flokkurinn bara fyrir Gnarrisma?"

Þetta er semsagt sú stjórnmálastefna, sem ótrúlega margir virðast ætla að kjósa í komandi kosningum.

Í sjálfu sér er ekkert meira um það að segja, foringinn hefur sagt það sem segja þarf. 


Lilja Mósesdóttir styður tillögur Sjálfstæðismanna

Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, hefur nú sagt sig úr nefnd stjórnarþingmanna, sem hefur það hlutverk að móta tillögur um sparnað og niðurskurð í ríkisfjármálunum.  Þetta virðist hún gera af tveim ástæðum, þ.e. vegna andstöðu við fyrirhugaðan niðurskurð og ekki síður vegna þess að harðlínukomminn Björn Valur Gíslason, samþingmaður hennar í VG, tók sig til og boðaði miklar skattahækkanir, sem enginn hafði þó gefið honum umboð til.

Í stað niðurskurðar og sparnaðar í ríkisfjármálunum styður Lilja tillögu Sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarsparnaðar við inngreiðslu, í stað útgreiðslu, en slík aðgerð gæfi ríkissjóði og sveitarsjóðum um 120 milljarða króna í upphafi og síðan 8 - 10 milljarða árlega eftir það.

Ágreiningur vex stöðugt innan VG og verður sífellt ljósari, enda a. m.k. tvær eða þrjár fylkingar sem takast á og berjast um yfirráðin í flokknum.  Mest hefur borið á ágreiningi á milli Steingríms J. og Ögmundar Jónassonar og án nokkurs vafa mun VG klofna í tvo flokka fyrr eða síðar og munu nýju flokkarnir verða undir forystu þessara tveggja fyrrverandi samherja í stjórnmálunum.

Fróðlegt verður að sjá hvorri fylkingunni Lilja mun fylgja, eða hvort hún mun hreinlega ganga í Sjálfstæðisflokkinn.


mbl.is Segir sig úr ríkisfjármálahópi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður Reykjavík að athlægi um víða veröld?

Ekki er hægt að segja að mikil lukka hafi fylgt mannlífinu hér á landi undanfarin ár og heimsbyggðin fylgdist með í forundran hvernig bankar, fyrirtæki og almenningur spiluðu Matador með lánsfé, sem fáir virtust hafa nokkrar áhyggjur af, hvernig skyldi endurgreiða. 

Inn í landið var ausið þúsundum milljara lánum frá útlöndum til að spila með í kaupum á öllu sem falt var, hvort sem þar var um að ræða íslensk eða erlend fyrirtæki og almenningur birgði sig upp af fasteignum, bílum, sumarhúsum og ýmsum fullorðinsleikföngum.

Erlendir aðilar, sem fylgdust agndofa með þessum dansi í kringum gullkálfinn, reyndu að vara við þessari hegðan, en voru hrópaðir niður af banka- og útrárargörkunum undir kórsöng almennings, sem dýrkaði þessi goð sín og dáði og allir vildu líkjast.  Þeir sem fylgdust með þessari hegðun utanfrá voru orðnir algerlega sannfærðir um að Íslendingar væru endanelga gengnir af göflunum og hristu höðuðið yfir þessari undarlegu þjóð.

Samkvæmt nýjustu skoðanakönnun um úrslit borgarstjórnarkosninganna virðast a.m.k. Reykvíkingar ætla að staðfesta endanlega, að þeir séu a.m.k. ekki alveg með sjálfum sér og hvort viðbrögðin erlendis verða undrunar- eða meðaumkunarhlátur, skal ósagt látið.

En hávær hlátur verður það að minnsta kosti.


mbl.is Besti flokkurinn með 8 fulltrúa?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umsóknin verði dregin til baka þann 17. júní

Það var heldur meiri mannsbragur að Stefáni Jóhanni Stefánssyni, fulltrúa Samfylkingarinnar í Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur, heldur en hins Samfylkingarfulltrúans, Oddnýjar Sturludóttur, en Stefán Jóhann bar fram tillögu í ráðinu, þar sem skorað var á ríkisstjórnina að koma í veg fyrir þá móðgun og niðurlægingu gagnvart íslenskri þjóð, sem fælist í því að ESB tæki umsóknarbeiðni Samfylkingarinnar um aðild hennar að ESB til afgreiðslu á þjóðhátíðardaginn 17. júní n.k. 

Oddný greiddi ein sjö fulltrúa ráðsins atkvæði gegn tillögunni og bókaði að sér og ráðinu kæmi ekkert við hvenær ESB héldi sína fundi og fulltrúarnir, sem sjá um og skipuleggja dagskrá hátíðarhaldanna, eigi ekki að skipta sér af því, þó stórhætta sé á að mikil mótmæi brjótist út, láti ESB verða af þessari hótun sinni.

Samkvæmt öllum skoðanakönnunum undanfarna mánuði, eru milli 70-80% þjóðarinnar algerlega andvíg aðild að ESB og vilja að umsóknin verði dregin til baka og hinu margmilljarða króna bjölluati í Brussel verði hætt.

Til þess að engin hætta verði á að ESB misbjóði þjóðarvitund Íslendinga gjörsamlega á grófan og svívirðilegan hátt, verður að gera þá kröfu til ríkisstjórnarinnar að hún afturkalli allar viðræður við ESB og því verði lýst yfir í hátíðarræðu forsætisráðherra 17. júni, að umsóknin verði afturkölluð.

Geri Jóhanna það ekki, má alveg eins reikna með að hún verði hrópuð niður í miðri ræðunni.


mbl.is Varpi ekki skugga á 17. júní
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimilin komin í kreppu fyrir kreppu?

Áhrif bankahrunsins og kreppunnar gætir því meir, sem lengra líður frá og fleiri og fleiri missa atvinnuna, verða að sætta sig við atvinnuminnkun og aðarar kjaraskerðingar.  Samkvæmt nýlegum tölum frá Vinnumálastofnun hafa tapast 38 þúsund heilsdagsstörf í landinu frá því í október 2008, þrátt fyrir að "aðeins" 17.000 séu á atvinnuleysisskrá, sem skýrist af samdrætti í vinnu hjá miklum fjölda og brottflutningi fólks frá landinu.

Nú birtast tölur frá Hagstofunni, sem sýna að 39% heimila áttu erfitt með að ná saman endum í heimilisbókhaldinu á árinu 2009 og í upphafi þess árs voru höfðu 7,1% heimila lent í vanskilum með húsnæðislán/leigu á undanförnum 12 mánuðum og 10,3% heimila höfðu lent í vanskilum með önnur lán á sama tímabili.  Þetta sýnir að talsvert stór hópur fólks hefur verið kominn í vandræði með fjármál sín fyrir hrun og ekki hefur ástandið lagast hjá heimilunum eftir því sem lengra líður á kreppuna.

Vandamál hinna skuldugu vefur sífellt upp á sig og sífellt fleiri gefast upp fyrir óviðráðanlegum skuldum sínum, enda komst "skjaldborg heimilanna" aldrei úr hugmyndabankanum, frekar en flestar aðrar boðaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og fjölskyldumálum.

Mesta vandamál þjóðarinnar nú um stundir er ríkisstjórn Samfylkingar og VG, sem sífellt lofar úrbótum, en berst í raun með kjafti og klóm gegn allri atvinnuuppbyggingu og þar með vonum fólks um bætt kjör og uppbyggingu í landinu.

Fróðlegt, en jafnframt ógnvænlegt verður að sjá niðurstöðu lífskjararannsóknar Hagstofunnar fyrir árin 2010, 2011 og 2012.

Með óbreyttri ríkisstjórn verða þær tölur hreint skelfilegar.


mbl.is Erfið staða hjá 40% heimila
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar ESB að lítilvirða þjóðina á 17. júní?

Stefán Haukur Jóhannesson, formaður samninganefndar Íslands í viðræðum um inngöngu landsins í ESB, vonast til að leiðtogaráð sambandsins samþykki formlega þann 17. júní að hefja formlegar viðræður um uppgjafaskilmála Íslendinga vegna yfirtöku ESB á Íslandi sem hrepps í stórríki Evrópu.

Með yfirtöku ESB á öllum helstu málefnum landsins, yfirráðum yfir auðlindum og lagasetningarvaldi verður Íslendingar á sviðuðu róli með sjálfstæði sitt og þegar þeir lutu erlendu konungsvaldi og munu eftir það verða jafnvel ósjálfstæðari en þeir voru í hernámi stríðsáranna.

Að velja þjóðhátíðardag landsins til að samþykkja viðræður um hreppaflutninginn er hrein móðgun við þjóðina, sögu hennar og baráttu fyrir sjálfstæði.  ESB hefur sýnt þjóðinni hreinan yfirgang og lítilsvirðingu vegna Icesave og nú á að snúa hnífnum í sárinu á þessum helga degi í sögu þóðarinnar.

Þó illa sé komið fyrir Íslendingum efnahagslega um þessar mundir, geta þeir ekki látið þessa svívirðu yfir sig ganga baráttulaust. 

Aðför Samfylkingarinnar gegn eigin þjóð verður að stöðva tafarlaust, svo Íslendingar geti horfst í augu með stolti á þjóðhátíðardögum framtíðarinnar með íslenskan fána í hávegum, en ekki flagg stórríkis ESB.


mbl.is Grænt ljós gefið 17. júní?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband