10.2.2011 | 08:31
Íslensk þrælaþjóð
Mest allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er tekinn að láni hjá AGS og norðurlöndunum og samkvæmt frétt mbl.is mun ganga verulega á þann forða á næstu árum, þ.e. hann mun að miklu leyti fara í uppgjör á erlendum skuldum bankakerfisins og vaxtagreiðslur til Breskra og Hollenskra fjárkúgara vegna Icesave.
Í fréttinni segir m.a: "Að öllu óbreyttu mun ganga verulega á gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands á næstu árum. Segja má að gjaldeyrisútflæði vegna vaxtagreiðslna Icesave-samningsins muni gera erfiða stöðu illviðráðanlega." Stjórnmálamenn hafa ekki ennþá útskýrt hvernig þeir telji að samþykkt á Icesave III geti orðið til þess að bæta stöðu þjóðarbúsins og liðka til fyrir nýjum erlendum lánum, því varla mun nokkur óbrjáluð lánastofnun auka lán sín til þjóðar, sem viljandi leikur sér að því að gera erfiða stöðu sína illviðráðanlega.
Eina útgönguleiðin út úr þessu skuldafeni er að hafna algerlega Icesave III og ganga af krafti í að fjölga stóriðjuverum og annarri gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi, því þjóðin mun að sjálfsögðu ekki losna af skuldaklafanum nema með aukinni vinnu og fyrst og fremst meiri gjaldeyrisöflun.
Með óbreyttri stjórnarstefnu verða Íslendingar skattaþrælar útlendinga næstu áratugina.
![]() |
Gengur verulega á gjaldeyrisforðann á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2011 | 13:53
Pólitískur rétttrúnaður á háu stigi
Í Þýskalandi liggur forstjóri Deutsche Bank undir harðri gagnrýni fyrir að láta þau almæltu sannindi út úr sér að fjölgun kvenna í stjórn bankans myndi auka fegurð og litadýrð í hópi stjórnendanna. Þetta liggur svo í augum uppi að í raun ætti að vera óþarfi að nefna það, en kvenfólkið er auðvitað fallegra kyn mannskepnunnar og klæðist að auki mun smekklegri og litaglaðari fötum en karlkynið.
Samkvæmt pólitískum rétttrúnaði má alls ekki benda á svona einfaldar staðreyndir, heldur á alltaf að láta eins og enginn mismunur sé á kynjunum og allra síst má tala um að konur séu fallegar, eingöngu má segja að þær séu gáfaðar, snjallar og standi körlunum snúning á öllum sviðum mannlegrar tilveru. Hins vegar má alls ekki segja um nokkra konu að hún sé ljót eða heimst, því þá er verið að gera lítið úr kvenkyni veraldarinnar í heild á svívirðilegan hátt, en þó kona segi eitthvað álíka um karlmann, þá er það bæði saklaust og einfaldlega verið að benda á staðreyndir.
Í annarri frétt kemur fram að skoskir vísindamenn hafi komist að því eftir ýtarlegar rannsóknir að konur séu blíðari en karlar og þó þetta hafi verið almælt tíðindi frá örófi alda, þá þykir virtum vísindamönnum samt ástæða til að leggja tíma, fé og fyrirhöfn í að rannsaka þetta til hlítar.
Í anda pólitísks rétttrúnaðar hljóta konur að rísa upp og mótmæla því að þær séu blíðari í sér en karlar. Viðurkenning á slíku jafngildir því að segja að kynin hugsi ekki nákvæmlega eins og að jafnvel gæti verið mismunur á hegðun þeirra og viðbrögðum við utanaðkomandi áreiti.
Gagnrýni á við þá sem forstjóri Deutsche Bank sætir nú, er auðvitað ekkert annað en hlægileg, en verst er að ekki hafa allir húmor til að sjá bjálfaganginn sem að baki býr.
![]() |
Fegurð ykist með konum í stjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2011 | 09:02
Níðingsskapur í velferðarkerfinu
Svartasti bletturinn á velferðarkerfinu er níðingsskapurinn gagnvart þeim ellilífeyrisþegum sem þurfa að dveljast á hjúkrunarheimilum vegna lélegrar heilsu á ævikvöldinu, en þar er fólk látið greiða allt að 279.000 krónum á mánuði fyrir vistina.
Grundvöllur velferðarkerfisins er sagður vera sá, að allir eigi að vera jafnir gagnvart því og fjársterkir aðilar eigi ekki að geta keypt sér þjónustu umfram þá tekjulægri. Í tilfelli hjúkrunarheimilanna er þessu snúið á hvolf og jöfnuðurinn látinn koma fram í því að allir hafi jafn lága vasapeninga alveg sama hve duglegir þeir hafi verið að spara til elliáranna, til þess að geta leyft sér a.m.k. þann munað að hafa efni á því að gefa börnunum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum svolitlar jólagjafir, ásamt því að geta veitt sjálfum sér örlítinn óþarfa í ellinni.
Kristín H. Tryggvadóttir, 74 ára, sem unnið hefur alla sína starfsævi við þokkalegar tekjur, greitt allan tímann í lífeyrissjóð og jafnvel getað lagt einhverja aura til hliðar, til að njóta í ellinni þarf að búa við eftirfarandi afarkjör á hjúkrunarheimili, vegna rúmlega 400 þúsund króna eftirlauna sinna: "Kristín greiðir 120 þúsund krónur á mánuði í skatta, um 240 þúsund í dvalarkostnað til Hrafnistu og á síðan 65 þúsund krónur afgangs sem þurfa að duga fyrir öllum óþarfa eins og hún orðar það, t.d. síma, sjónvarpi, blöðum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, skóm og fatnaði, sælgæti og gjöfum, svo ekki sé minnst á gleraugu, heyrnartæki og tannlæknakostnað."
Eftir að hafa greitt háa skatta í áratugi og talið sig vera að búa sig vel undir ellina, þarf slíkt fólk að sæta hreinu ráni af hendi hins opinbera, loksins þegar koma á að því að njóta afraksturs erfiðisins.
Þá er ekki einu sinni hægt að leyfa fólki að njóta ánægjunnar af því að geta glatt afkomendur sína. Sá eini sem gleðst yfir þessari ráðdeild er fjármálaráðherra hvers tíma.
![]() |
Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2011 | 17:59
Lélegir ökumenn
Ekki er hægt að segja að það komi á óvart, að við talningu lögreglunnar hafi komið í ljós að minnihluti ökumanna noti stefnuljós, því allir sem ekið hafa á Íslandi vita að í umferðinni þar ber sáralítið á nokkurri kunnáttu í einföldustu umferðarreglum.
Sárafáir virðast vita til hvers stefnuljósin eru og enn færri að í landinu sé hægri umferð, en í því felst að keyrt er að jafnaði á hægri akrein, þar sem fleiri akreinar eru en ein, og að þær sem til vinstri eru, séu til þess að taka fram úr þeim bílum sem hægar er ekið.
Hvergi erlendis þekkist að tekið sé fram úr öðrum bíl á hægri akrein, heldur eru flautur þeyttar ef einhver tréhestur er á ferðinni á vinstri akrein og fer hægar en umferðin á þeirri hægri. Í nágrannalöndum er það einnig undantekningarlítil regla að sé gefið stefnuljós og með því gefið í skyn að áhugi sé á að skipta um akrein, þá hægir önnur umferð á sér umsvifalaust og sá sem þarf að beygja getur gert það hindrunarlaust og án erfiðleika.
Hér á landi ríkir sama agaleysis í umferðinni og viðgengst á flestum öðrum sviðum, enda erum við Íslendingar kóngar allir sem einn og teljum að öðrum komi ekki mikið við hvað við gerum eða hvert við förum.
![]() |
Minnihluti notar stefnuljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2011 | 12:02
Kennarar kunna ekki íslensku lengur
Íslenskukunnáttu hrakar mjög skart og er nú svo komið að yngri kynslóðir tala nánast ekki sama tungumál og talað var á Íslandi fyrir svona fimmtíuárum. Beygingar eru ekki rétt notaðar og alls kyns ambögur vaða uppi bæí í rit- og talmáli.
Eina skýringin sem getur verið á þessu hlýtur að vera sú, að kennarar tala ekki lengur almennilegt mál og geta því ekki haft það fyrir nemendum sínum og leiðrétt þá þegar þeir tala þessa "nýju" íslensku, sem ömurlegt er að hlusta á og ekki síður lesa.
Viðbótarskýring, ekki síðri, er að foreldrar unglinganna sem nú eru í skóla hafi ekki lært almennilega íslensku og íslenska málfræði þegar þeir voru í skóla og geti því ekki, frekar en kennararnir, leiðrétt börn sín og verið þeim fyrirmynd varðandi málnotkun.
Hildur Ýr Ísberg rannsakaði málvenju unglinga og segir í fréttinni m.a: ""Viðtengingarháttur er mjög flókinn og svo virðist sem málkerfið sé að reyna að einfalda sig. Sagnbeygingar, sérstaklega óreglulegra sagna, eru erfiðar viðfangs og þá virðast yngri málnotendur vera að einfalda beygingarnar, segir Hildur og nefnir þágufallssýki sem annað dæmi um þessa tilhneigingu tungumálsins."
Uppgjöfin gegn þessari hnignun tungumálsins kemur vel fram í þessari setningu fréttarinnar: "Hildur segir erfitt að berjast við svona þróun en mjög spennandi að fylgjast með henni." Ekki er von til þess að íslenskan haldi sérkennum sínum og blæbrigðum til lengdar, ef þetta er ríkjandi viðhorf þeirra sem helst ættu að berjast gegn þeirri hröðu hnignun tungunnar sem sífellt ágerist.
![]() |
Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.2.2011 | 07:46
Skattar vegna Icesave
Nú stefnir allt í að Icesave III verði samþykkt á Alþingi fljótlega og ekki liggur fyrir hvort skattgreiðendur fái að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, um sína eigin sölu í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.
Áður en þriðja og síðasta umræða um málið fer fram á Alþingi, en samkvæmt þingsköpum fer lítil umræða fram þá, heldur er aðallega um lokaatkvæðagreiðslu að ræða, þar sem umræðum um mál lýkur að mestu eða öllu leyti við umræðu númer tvö í þinginu, verður að upplýsa hvaða skattar verða hækkaðir eða fundnir upp til að hægt verði að borga fyrir þennan glæpsamlega rekstur Landsbankans.
Þrælar eru ekki réttháir allajafna, en í þessu tilfelli hljóta þeir að geta krafist þess að fá að sjá einhverja áætlun um hvaða skatta verða hækkaðir til að greiða fjárkúgunarkröfuna og hvort fyrir liggi áætlanir um nýja skatta, sem óhjákvæmilegt verður að leggja á til viðbótar til fjáröflunar fyrir erlendu kúgarana.
Varla getur verið að Alþingismenn ætli að samþykkja tuga eða hundraða milljarða skattaáþján á þjóðina í þágu erlendra ribbalda, án þess að fyrir liggi nákvæm áætlun um þær þrælabyrðar sem því munu fylgja.
![]() |
Allt að 2 milljónir á heimili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2011 | 22:35
Ógæfuleg verkfallsboðun
Í því atvinnuástandi sem ríkir í landinu, þar sem hátt í 15.000 manns ganga atvinnulausir, fyrir utan allt það fólk sem flutt hefur úr landi til að finna sér lifibrauð, er ótrúlegt að sjá að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja séu búnir að boða til verkfalls til þess að knýja á um tuga prósenta kauphækkun.
Það sem er áríðandi núna er að hækka laun hóflega, en vinna þess í stað að því að skapa störf fyrir þá sem enga vinnu hafa og þurfa að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum, sem allir vita að eru ekki hærri en svo að þær rétt halda fólki yfir hungurmörkum og margir ná því ekki einu sinni.
Verkalýðshreyfingin virðist halda að það sé sniðug hernaðartækni að senda fámennan hóp í verkfall, vegna þess að hann geti valdið svo miklu tjóni í miðri loðnuvertíð, en það verður að teljast furðulegt, ef forystumenn verkalýðsfélaganna trúa því í alvöru sjálfir að samið verði við þennan hóp um miklar launahækkanir, sem hafi svo fordæmisgildi út um allt samfélagið.
Ekki er útlit fyrir annað en að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja verði í verkfalli allan þann tíma sem tekur að ganga frá kjarasamningum við allan vinnumarkaðinn og ekki munu þeir fá atvinnuleysisbætur í verkfallinu.
Verkalýðshreyfingin mun þurfa að halda þeim uppi á launum með verkfallssjóðum sínum og ekki er hægt að segja að það sé vel úthugsuð fjárfesting.
![]() |
Vinnustöðvun samþykkt í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2011 | 08:24
Brandarinn um aukið lýðræði
Steingrímur J. Sigfússon, VG, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, segjast ekki styðja þjóðaratkvæði um Icesave III og Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, hefur ekki tekið endanlega afstöðu til slíks og ekki er vitað um afstöðu Sigmundar Davíðs, Framsóknarflokki, en Hreyfingin mun líklega vera hlynnt þjóðaratkvæði í þessu tilfelli.
Stjórnmálamenn hafa predikað undanfarin misseri að auka þurfi áhrif almennings á niðurstöðu einstakra mála og það verði best gert með því að vísa þeim til beinnar afgreiðslu kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þegar kemur síðan að stórmálum, sem full ástæða væri til að láta kjósendur ákveða sjálfa, þá heykjast stjórnmálamennirnir alltaf á þessu aukna lýðræði og telja að "sum mál" séu þess eðlis að ekki sé hægt að vísa þeim til þjóðarinnar til ákvörðunar.
Stjórnmálamenn vilja sem sagt ekki aukið lýðræði, nema í ræðum á hátíðar- og tyllidögum. Fólk skyldi ekki klappa fyrir slíkum yfirlýsingum framar, hleldur hlæja dátt og innilega, enda eru slíkir frasar hugsaðir áheyrendum til skemmtunar en ekki til að taka alvarlega.
Brandarinn er hins vegar strax orðinn svolítið þreyttur og hressist ekkert eftir því sem hann er sagður oftar.
![]() |
Forystufólk í stjórnarflokkunum vill ekki þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2011 | 08:26
Icesaveskattar
Nýlega ræddi Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, þær hugmyndir sínar að setja á fót atvinnubótavinnu við vegagerð, þ.e. að setja aukalega sex milljarða króna til flýtiframkvæmda við ýmsa vegi, t.d. Suðurlandsveg og Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum. Sá böggull átti þó að fylgja skammrifi að ríkissjóður átti alls enga peninga til að leggja í þessar framkvæmdir og því tilkynnti Ögmundur að leggja þyrfti nýja skatta á bifreiðaeigendur til að standa undir framkvæmdunum.
Eftir að 45 þúsund manns hafði skrifað undir mótmæli við þessari nýju og auknu skattheimtu á aðeins einni viku, tilkynnti Ögmundur með þjósti að ef almenningur væri ekki tilbúinn til að taka á sig þessa nýju skatta, þá yrði ekkert úr þessum viðbótarframkvæmdum, enda ríkissjóður algerlega peningalaus og gæti ekki séð af einni krónu í verkefnið og hvað þá sex milljörðum.
Nú virðist Alþingi ætla að samþykkja að geiða nýjar ólögvarðar skuldbindingar að upphæð 55-60 milljarða króna a.m.k., ásamt ábyrgð á nokkur hundruð milljörðum til viðbótar sem gætu fallið á íslenska skattgreiðendur ef allt fer á verst veg. Miðað við það frumvarp sem stendur til að samþykkja verður viðbótarskattlagning á Íslendinga þó aldrei lægri en sem nemur þessum 50-60 milljörðum króna, sem borga skal á næstu sex árum.
Enginn Alþingismaður og hvað þá ráðherra hefur útskýrt fyrir greiðendunum, þ.e. skattgreiðendum, hvaða skatta á að leggja á í þessu skyni eða hverjir af eldri sköttunum verða hækkaðir til að standa undir þessum gríðarlegu viðbótarútgjöldum á næstu sex árum.
Engin útgjöld má samþykkja úr ríkissjóði nema gera grein fyrir tekjunum sem afla þarf til að standa undir þeim. Ríkisstjórnin og þeir stjórnmálamenn sem ætla að samþykkja skattaþrældóminn vegna Icesave skulda þeim sem ætlast er til að þræli fyrir þessu, upplýsingar um þær skattahækkanir sem framundan eru vegna Icesave.
Steingrímur sagði um daginn í framíkalli í þinginu að lægra þrep virðisaukaskattsins (matarskattsins) væri eini skatturinn sem ekki hefði verið hækkaður í tíð núverandi ríkisstjórnar, en margir nýjir hafa einnig bæst við. Sennilega dygði ekki að tvöfalda matarskattinn til að standa undir greiðslu fjákúgurnarkröfunnar frá Bretum, Hollendingum og ESB.
Munu Íslendingar þurfa hugsa um Breta, Hollendinga, ESB og íslenska Alþingismenn með hryllingi í hvert sinn sem þeir stinga upp í sig matarbita í framtíðinni.
![]() |
Vilja þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2011 | 13:47
Icesave og samviskan
Rísisstjórnin hefur klúðrað því í tvígang að koma í gildi samningi við Breta og Hollendinga um að gera Íslendinga að skattaþrælum þessara þjóða til næstu áratuga og nú skal reynt í þriðja sinn. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa fram að þessu staðið í lappirnar gegn þessum áformum, enda með afdráttarlausa samþykkt Landsfundar flokksins í farteskinu gegn slíkri þrælasölu.
Við aðra umræðu um Icesave III greiddu níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði með samþykkt þrælalanganna og hafa með því valdið gífurlegri úlfúð meðal flokksmanna, sem reiknuðu með því að farið yrði að eindreginni samþykkt Landsfundarins, sem endurspeglar sterkar skoðanir flestra Sjálfstæðismanna í málinu.
Þingmennirnir eru harðlega gagnrýndir í leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir m.a: "Á almanna vitorði er að þingflokkur sjálfstæðismanna er enn án sjálfstrausts og ekki til stórræðanna. Það er þó óþarfi. Þeir eru í stjórnarandstöðu gagnvart einni verstu stjórn sem í landinu hefur setið. Stjórn sem klúðrar öllu. Eftir hvert klúður gerir forsætisráðherrann hróp að Sjálfstæðisflokknum, hrakyrðir hann og uppnefnir. Þegar ofsinn rjátlast af þá kallar sami ráðherra á forystumenn Sjálfstæðisflokksins í sín hús til að láta þá gera fyrir sig viðvik. Og alltaf mæta þeir trítlandi. Hvers vegna? Hvað er eiginlega að?"
Þarna er tekið nokkuð djúpt í árinni, en þó er ekki að undra að svo sé gert því mikill hiti er í flokksmönnum vegna þessarar fjárkúgunarkröfu, sem enga stoð á í lögum eða reglugerðum, hvorki íslenskum eða evrópskum. Þingmenn bera jafnan fyrir sig að þeim beri skylda til að láta samvisku sína ráða við atkvæðagreiðslur í þinginu og er ekkert nema gott um það að segja að þeir geri það.
Gangi það sem samviskan segir þeim hinsvegar algerlega gegn samþykktum æðsta stjórnvalds flokks þeirra og þvert gegn samvisku mikils meirihluta þeirra kjósenda sem veitt hafa þeim brautargengi, verða þeir einfaldlega að sitja hjá við atkvæðagreiðslu frekar en að veita slíku máli framgang. Málið snýst í sjálfu sér heldur ekki um samvisku þingmanna, heldur tilraun til að þvinga íslendinga til að samþykkja ólögvarðar kröfur útlendinga og þingmönnum þjóðarinnar ber skylda til að verjast öllum árásum á landið og hagsmuni þess, lagalega sem og fjárhagslega.
Samviska einstakra þingmanna er varla svo miklu merkilegri en samviska meirihluta kjósenda þeirra.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)