Níðingsskapur í velferðarkerfinu

Svartasti bletturinn á velferðarkerfinu er níðingsskapurinn gagnvart þeim ellilífeyrisþegum sem þurfa að dveljast á hjúkrunarheimilum vegna lélegrar heilsu á ævikvöldinu, en þar er fólk látið greiða allt að 279.000 krónum á mánuði fyrir vistina.

Grundvöllur velferðarkerfisins er sagður vera sá, að allir eigi að vera jafnir gagnvart því og fjársterkir aðilar eigi ekki að geta keypt sér þjónustu umfram þá tekjulægri. Í tilfelli hjúkrunarheimilanna er þessu snúið á hvolf og jöfnuðurinn látinn koma fram í því að allir hafi jafn lága vasapeninga alveg sama hve duglegir þeir hafi verið að spara til elliáranna, til þess að geta leyft sér a.m.k. þann munað að hafa efni á því að gefa börnunum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum svolitlar jólagjafir, ásamt því að geta veitt sjálfum sér örlítinn óþarfa í ellinni.

Kristín H. Tryggvadóttir, 74 ára, sem unnið hefur alla sína starfsævi við þokkalegar tekjur, greitt allan tímann í lífeyrissjóð og jafnvel getað lagt einhverja aura til hliðar, til að njóta í ellinni þarf að búa við eftirfarandi afarkjör á hjúkrunarheimili, vegna rúmlega 400 þúsund króna eftirlauna sinna: "Kristín greiðir 120 þúsund krónur á mánuði í skatta, um 240 þúsund í dvalarkostnað til Hrafnistu og á síðan 65 þúsund krónur afgangs sem þurfa að duga fyrir „öllum óþarfa“ eins og hún orðar það, t.d. síma, sjónvarpi, blöðum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, skóm og fatnaði, sælgæti og gjöfum, svo ekki sé minnst á gleraugu, heyrnartæki og tannlæknakostnað."

Eftir að hafa greitt háa skatta í áratugi og talið sig vera að búa sig vel undir ellina, þarf slíkt fólk að sæta hreinu ráni af hendi hins opinbera, loksins þegar koma á að því að njóta afraksturs erfiðisins.

Þá er ekki einu sinni hægt að leyfa fólki að njóta ánægjunnar af því að geta glatt afkomendur sína. Sá eini sem gleðst yfir þessari ráðdeild er fjármálaráðherra hvers tíma. 


mbl.is Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar B  Bragason

Dómgreindarleysi Jóhönnu Sigurðardóttur í uppáhalds málaflokki hennar ríður ekki við einteiming, enda ljóst að hún plattaði lífeyrisþega til að kjósa sig, og nú vita allir er vita vilja að herrann er ekki við eina fjölina feld og ekkert að marka frúna!

Einar B Bragason , 9.2.2011 kl. 10:06

2 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Ég átta mig nú ekki alveg á þessarri umræðu og þeirri heilögu hneykslan sem ríður hér yfir bloggheima í tilefni þessarrar fréttar.

Fyrir ekki all löngu olli önnur frétt mikilli hneykslan. Það komst sem sé upp að móðir með tvö börn á framfæri sínu, og þar af annað langveikt, hefði 388 þúsund eftir skatta á mánuði. Hneykslunaralda reið yfir þjóðfélagið og átti nefnd kona nánast líf sitt að verja. Talað var um ráðherralaun, lúxuslíf og svívirðilega misnotkun á bótakerfinu og náði vandlætingin meira að segja inná hið háa alþingi þar sem krafist var breytinga til þess að hindra slíka og aðra eins hneisu..

Nú kemur frétt um barnlausan einstakling sem hefur "aðeins" 305 þúsund á mánuði eftir skatta. Engar ógnar tekjur en benda má á að samkvæmt Starfsgreinasambandinu þá hafa 75% íslenskra launþega minna 267 þúsund á mánuði eftir skatta.

En nú er annað hljóð í strokknum. Fólk fyllist heilagri reiði yfir því hvernig farið sé með þessa konu. Talað er um svartan blett á velferðarkerfinu, hrun velferðarkerfisin, níðingsskap og eignaupptöku svo ekki sé minnst á þær svívirðingar sem látnar eru dynja á Jóhönnu Sig og Steingrími. Vil þó taka fram að ég er enginn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.

Hvernig er eiginlega hægt að taka umræðu alvarlega þegar 388 þúsund fyrir tveggja barna móðir er alveg fáránlega of mikið en 305 þúsund fyrir einstakling svívirðilega lágt?

Jón Bragi Sigurðsson, 9.2.2011 kl. 17:05

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ekkert hef ég hneykslast á þessari umræddu einstæðu móður, en varðandi níðingsskapinn gagnvart ellilífeyrisþegum, sem þurfa að fara á hjúkrunarheimili, hef ég áður hneykslast og geri enn.

Vinnandi fólk greiðir skatta og gjöld allan sinn starfsaldur og þar með til heilbrigðiskerfisins og enginn þarf að borga eina krónu, sem lagður er inn á sjúkrahús, hvort sem hann þarf að gangast undir rándýrar aðgerir eða einhverja minni umönnun og læknisþjónustu.

Sem sagt, það greiðir enginn fyrir sjúkrahúsvist fyrr en hann er kominn á ellilífeyrisaldur og heilsulaus. Þá finnst þér, Jón Bragi, í lagi að hafa allan ævisparnað og uppsafnaðan lífeyrisrétt af fólki og skammta því dagpeninga. Þetta er líka eini hluti heilbrigðiskerfisins þar sem fólk situr ekki við sama borð, því þeir sem hafa lítinn lifeyrisrétt borga ekkert fyrir vistina á hjúkrunarheimilinu og svo eykst greiðslan eftir því sem viðkomandi gamlingi hefur verið forsjálli í fjármálum sínum um ævina.

Þetta kalla ég níðingsskap gagnvart öldruðum og þó eitthvað sé bogið við kerfið annarsstaðar, þá er það engin réttlæting á svona meðferð á þeim sem stritað hafa til að búa sér "áhyggjulaust" ævikvöld.

Ekki hef ég heldur verið að hnýta í átrúnaðargoð þín, Jóhönnu og Steingrím, vegna þessa, enda nær þetta fyrirkomulag langt aftur fyrir þeirra valdatíð, en ekki hafa þau þó séð sóma sinn í að laga þennan smánarblett á velferðarkerfinu.

Axel Jóhann Axelsson, 9.2.2011 kl. 18:29

4 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Jú ég get alveg fallist á óréttlætið í því að taka svona stórar greiðslur fyrir vistun á hjúkrunarheimili en að öðru leyti eru tekjur þessarrar konu síður en svo lágar.

Og að ég sé aðdáandi Steingríms og Jóhönnu veit ég ekki hvaðan þú hefur. Ég hef aldrei kosið þau og mun ekki heldur gera og tók það skýrt fram að ég er ekki stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar.

Jón Bragi Sigurðsson, 9.2.2011 kl. 20:15

5 Smámynd: Sigurður Haraldsson

42 millur á tíu árum í vistina og skatta en ekki nema 7.8 í vasann er það ekki dálítið undarlegt?

Sigurður Haraldsson, 9.2.2011 kl. 21:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband