3.2.2011 | 20:53
Tvímælalaust leiðinlegasti sjónvarpsþátturinn
Stöð 2 sýndi í kvöld þriðja þáttinn af "Tvímælalaust", samtalsþætti Tvíhöfðafélaganna Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr og ekki upplýstist nú, fekar en í fyrri skiptin tvö, hver tilgangur þáttarins er eða fyrir hverja hann er hugsaður.
Í augnablikinu kemur ekki neinn sjónvarpsþáttur upp í hugann sem slær þessum út í leiðindum, enda virðist öll áhersla vera á að reyna að sýna hve fyndinn og sniðugur Jón Gnarr er, en þar sem ekki er stuðst við nákvæmlega fyrirfram skrifað handrit, tekst honum afar illa upp, en segja má að Sigurjón sé þó skömminni skárri, ef einhver mismunur er.
Mörgum þótti þátturinn "Hringekjan" sem sýndur var á RÚV fyrir áramót vera lélegur, en í samanburði við "Tvímælalaust" ber "Hringekjan" þó af eins og gull af eiri.
Vonandi verður ekki langt framhald á sýningum þessa ömurlega þáttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.2.2011 | 18:08
Frábær andstaða við innlimun Íslands í ESB
Þau frábæru tíðindi berast nú frá Bretlandi að Tom Greatrex, þingmaður breska Verkamannaflokksins hafi nú tekið upp baráttu gegn viðræðum ESB við Íslendinga um innlimun þeirra í væntanlegt stórríki Evrópu.
Þetta er afar vel þeginn stuðningur í baráttunni gegn því að gera Ísland að áhrifalausum afdalahreppi í stórríkinu væntanlega og kemur þessi nýjasti bandamaður Íslendinga úr nokkuð óvæntri átt, þar sem hann er búsettur í einu af áfrifalénum hins væntanlega alríkis Evrópu.
Í fréttinni kemur m.a. þetta fram um þennan frábæra stuðning við baráttu sannra Íslendinga gegn hugsanlegri innlimun: ""ESB verður að setja þetta mál í forgang, sagði Greatrex og taldi að eina leiðin til að fá Íslendinga til að taka mark á mótmælum við makrílveiðum sé að ESB stöðvi aðildarviðræðurnar. Hann sagði að það yrði beinlínis rangt að veita Íslandi aðgang að ESB á sama tíma og það hafi vísvitandi hunsað reglugerðir sambandsins um makrílkvóta og skaðað hagsmuni núverandi aðildarríkja."
Allur stuðningur erlendra áhrifamanna og annarra í baráttunni gegn innlimun landsins í þetta væntanlega stórríki er afar vel þegin og vonandi bætast sem flestir í þann hóp.
![]() |
Krefst frestunar aðildarviðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2011 | 14:00
Þingmenn, samviskan og kjósendur
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í grein á vefsíðu Evrópuvaktarinnar að það séu stórkostleg pólitísk mistök af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Fjárlaganefnd Alþingis að hafa samþykkt stuðning við Icesave III, með fulltingi formanns og varaformanns flokksins og vafalaust meirihluta þingflokksins. Styrmir er þar með orðinn einn geysimargra Sjálfstæðismanna sem mótmælt hafa þessari afgreiðslu þingmannanna.
Styrmir segir m.a: "Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem vilja styðja hið nýja Icesave-samkomulag eru að sjálfsögðu frjálsir af því. Þeir geta fylgt sannfæringu sinni eftir með því að berjast fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að það verði samþykkt. Svo eiga þeir það við flokkssystkini sín og stuðningsmenn, hvort þeir fá áframhaldandi traust til þess að sitja á Alþingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en það er annað mál."
Hægt er að taka undir hvert orð í þessari málsgrein og þá skoðun að málinu hafi verið vísað til þjóðarinnar til afgreiðslu og það eigi að vera hún, sem segi um það síðasta orðið. Verði samningurinn samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað ekkert hægt að agnúast út í það, heldur takast á við skattaþrældóminn sem því myndi fylgja, en hafni þjóðin samningnum aftur í slíkri atkvæðagreiðslu, verður að vera hægt að ætlast til að það verði lokaafgreiðsla og ekki verði reynt að þröngva neinum samningi í þessa veru upp á skattgreiðendur í fjórða sinn.
Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum er ekki rétta svarið að sinni til að mótmæla gerðum þingmanna flokksins, heldur bíða og sjá til hver endanleg niðurstaða málsins verður. Eins og Styrmir bendir á þá verða þeir þingmenn, sem greiða atkvæði með tillögunni að sjá til hvort þeir fá áframhaldandi traust til þess að sitja á Alþingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir bendir líka á, að þingmennirnir gætu hugsanlega bjargað þingsætum sínum með því að leggja sjálfir fram tillögu um að vísa málinu í þjóðaratkvæagreiðslu.
Það væri betra fyrir þá og kjósendur þeirra, en að treysta á þann umdeilda forseta, Ólaf Ragnar Grímsson.
![]() |
Meiriháttar pólitísk mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 23:28
Sigmundur Ernir rýrir álit manna á sjálfum sér
Sigmundur Ernir, þigmaður Samfylkingarinnar, leyfir sér að ráðast með offorsi og svívirðingum á einn helsta útgerðarmann þjóðarinnar vegna kvótamálanna, en væri nær að ræða á viturlegum nótum um fiskveiðistjórnunarkerfið, en frá honum hefur ekki sést margt í þeim dúr fram að þessu.
Hann ætti t.d. að útskýra fyrir almenningi hvernig svokölluð fyrningarleið Samfylkingarinnar á að virka, en einn helsti talsmaður flokksins í þessum málum, Ólína Þorvarðardóttir, sagði í útvarpsviðtali að sú leið þýddi alls ekki að taka ætti neitt af neinum, heldur ætti bara að taka 5% af kvótanum af hverju skipi árlega og úthluta honum svo aftur til sama skips, þannig að enginn myndi tapa neinum aflaheimildum vegna þessa. Það sem myndi hins vegar græðast væri að ríkið gæti látið útgerðina borga miklu hærra auðlindagjald við endurúthlutunina.
Að efna til stórstyrjaldar við helsta atvinnuveg þjóðarinnar og í raun þann mikilvægasta, með svona dellutillögur að vopni er gjörsamlega óskiljanlegt og ekki stjórnmálaflokki sem vill láta taka sig alvarlega sæmandi.
Sigmundur Ernir eykur ekki álit sitt meðal manna, með svona framkomu.
![]() |
Gagnrýnir þingmann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2011 | 15:20
Svo bregðast krosstré sem önnur tré
Með nefndaráliti fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Fjárlaganefnd Alþingis virðist í flest skjól fokið varðandi kúgun Breta, Hollendinga og ESB vegna skuldar einkabankans Landsbanka við reikningshafa á Icesave, sem aldrei var ríkisábyrgð á og mátti reyndar alls ekki vera fyrir hendi, samkvæmt tilskipun ESB, þó nú taki stórríkið væntanlega fullan þátt í fjárkúguninni gegn Íslendingum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru nánast tvísaga í áliti sínu þegar þeir segja: "Það er ljóst að báðar leiðirnar, samningaleið eða dómstólaleið, fela í sér áhættu. Það er mat fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, að þó að áhættan á því að við töpum dómsmálum sé til staðar, sé hún ekki veruleg. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að skuldbindingar okkar gætu margfaldast, tapaðist málið, þegar borið er saman við fyrirliggjandi samninga."
Áhættan er ekki veruleg að þeirra mati, en samt þora þeir ekki að leggja til að sú áhættulitla leið verði farin til að leysa málið endanlega. Það verða mikil vonbrigði ef það verður raunin að Sjálfstæðisflokkurinn láti verða af því að taka þátt í að selja íslenska skattgreiðendur í ánauð fyrir elenda fjárkúgara næstu áratugina.
Þar sem ekki var gert ráð fyrir Icesave í nýsamþykktum fjárlögum fyrir árið 2011, fylgir með frumvarpinu um skattaþrældóminn að skattaþrælarnir skuli greiða rúma 26 milljarða króna til fjárkúgaranna strax á þessu ári og síðan tugmilljarða árlega eftir það næsta áratuginn a.m.k. Það er nánast sama upphæð og var skorin niður og spöruð með miklum harmkvælum í ríkisrekstrinum á þessu ári.
Með þessari samþykkt fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Fjárlaganefnd verður ekki sagt annað en: Svo bregðast krosstré, sem önnur tré.
![]() |
Þjónar hagsmunum að ljúka Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 13:15
Seðlabankinn hjálpi ríkisstjórninni að skilja grundvallaratriðin
Kreppan hér á landi mun verða mun lengri, dýpri og hafa mun meiri langvarandi áhrif en annars hefði orðið, hefði ríkisstjórnin minnsta skilning á því að það eina sem mun koma þjóðinni út úr kreppunni og til bættra lífskjara er atvinna fyrir allar vinnufúsar hendur.
Því miður hefur ríkisstjórnin barist með kjafti og klóm síðustu tvö árin gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og alveg sérstaklega allri erlendri fjármögnun, stóriðju og sjávarútvegi, en það eru þær greinar sem skapa verðmætin í þjóðfélaginu, ásamt ferðaiðnaði, sem allt efnahagslífið byggist á. Verðmætasköpunin í þjóðfélaginu verður ekki til í tuskubúðunum í Kringlunni, Smáralind eða á laugaveginum, né heldur hér á blogginu.
Því fyrr sem tekst að leysa úr deilum um sjávarútveginn og fjölga öðrum gjaldeyrisskapandi og -sparandi framleiðslufyrirtækjum, því fyrr mun þjóðin rísa upp úr efnahagsþrengingunum og raunar mun hún ekki rísa upp úr þeim öðruvísi.
Viðhangandi frétt um hagspá Seðlabankans lýkur svona: "Fram kemur í Peningamálum, að viðskiptakjarabatinn varð nokkru meiri á síðasta ári en spáð var í nóvember. Gerir Seðlabankinn ráð fyrir áframhaldandi bata á þessu ári, drifnum af frekari hækkun verðs á áli og sjávarafurðum, sem vegi þyngra en hækkun verðs á innfluttri hrávöru og olíu. Horfur til næstu tveggja ára séu svipaðar og í nóvember."
Seðlabankinn skilur hvað til þarf og þyrfti bráðnauðsynlega að koma ríkisstjórninni í skilning um það líka.
![]() |
Ekki gert ráð fyrir breyttu gengi krónu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2011 | 21:03
Besti flokkurinn er einungis bestu vinir Gnarr
Á borgarstjórnarfundi í dag upplýsti Jón Gnarr að Besti flokkurinn væri í raun ekki flokkur annarra en nokkura vina sinna, þannig að miðað við það ætti "flokkurinn" líklega frekar að heita "Bestu vinir aðal" og alls ekki að kenna nafnið við flokk, fyrst þetta er alls ekki flokkur.
Jón Gnarr sagði, samkvæmt fréttinni "að Besti flokkurinn hefði enga stefnu og væri ekki flokkur, hefði enga starfsemi, engar nefndir og engin ráð full af fólki til að móta einhverja stefnu." Þessu hefur oft verið haldið fram hér á þessu bloggi og alltaf verið uppskornar athugasemdir um að verið væri að níða niður Besta flokkinn og stefnu hans, að ekki sé talað um Jón Gnarr, sem jafnoft hefur verið haldi fram að væri gjörsamlega óhæfur til að gegna borgarstjórastarfi.
Nú þarf ekki fekari vitnanna við þar sem Jón Gnarr staðfestir þetta allt saman sjálfur og það verður að virða honum til tekna, að játa það svona hreinskilninslega á opnum borgarstjórnarfundi hverskonar plat "Besti flokkurinn" væri og að hann hefði verið að draga kjósendur sína á asnaeyrunum allan tímann.
Sennilega er Jón Gnarr byrjaður að undirbúa brottför sína úr borgarstjórastólnum, því hann hefur nú þegar ráðið sig til að stjórna sjónvarpsþætti á Stöð 2, sem þó mun örugglega ekki verða langlífur, ef mið má taka af fyrstu tveim þáttunum.
Jón Gnarr er góður leikari og mun vafalaust ekki skorta verkefni á þeim vígstöðvum og með brotthvarfi "Besta flokksins" úr borgarstjórn mun skapast grundvöllur fyrir vitræna stjórnun á þeim vígstöðvum.
![]() |
Sagði Besta flokkinn líkjast lítilli strákaklíku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.2.2011 | 14:55
Mörður átelur "belging" Íslendinga gegn Bretum
Laga- og mannréttindanefnd Evrópuráðsþingsins hefur ákveðið að fella niður rannsókn sína og hætta þar með við skýrslugerð um lagalegan grunn þess að Bretar beittu hryðjuverkalögum til að frysta eignir íslenska ríkisins og íslenskra fyrirtækja í Bretlandi í bankahruninu í október 2008.
Frá þessu skýrði Lilja Mósesdóttir, formaður Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins, en Íslandsdeildin fór fram á það í janúar 2009 að Evrópuráðið skoðaði hugsanleg álitamál í tengslum við beitingu hryðjuverkalaga gegn íslenskum hagsmunum í Bretlandi. Þessum athugunum hefur sem sagt verið hætt, með þeim skýringum að Evrópuráðið vildi ekki birta álit, sem hugsanlega yrði hægt að nota í réttarhöldum síðar.
Í kjölfar þessara upplýsinga gerðist fáheyrður atburður á Alþingi, en í fréttinni segir þetta um ótrúleg ummæli þingmanns Samfylkingarinnar: "Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að Evrópuráðið, sem væri þekkt fyrir mannréttindabaráttu, teldi ekki að grundvöllur væri til að halda þessari rannsókn áfram. Þetta benti til þess, að Íslendingar hefðu reynt að grípa það hálmstrá í vandræðum sínum, að veifa frekar röngu tré en aungu. Við ættum að setjast niður og skoða og vinna í okkar eigin málum frekar en að þenja okkur með belging sem ekki gerir neinum gagn."
Þetta er gjörsamlega óhugnanleg afstaða íslensks þingmanns, sem kjörinn er til þess að setja landi sínu lög og sinna hagsmunamálum þess innanlands og ekki síður gagnvart öðrum þjóðum, að ekki sé talað um þegar þær sýna landinu og þjóðinni yfirgang og beita hana kúgun.
Vonandi er Mörður algerlega einangraður í þessari óþjóðlegu afstöðu sinni, þó ekki sé ólíklegt að fleiri Samfylkingarþingmenn gætu verið á sama róli og hann gegn hagsmunum Íslendinga í samskiptum við aðrar þjóðir.
![]() |
Rannsókn Evrópuþings á beitingu hryðjuverkalaga hætt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
31.1.2011 | 19:01
Ögmundur styður kvennakúgun
Þó ótrúlegu og stórkostlegu tíðindi hafa gerst, að Ögmundur Jónasson vill ekki samþykkja bann, en eins og allir vita eru Vinstri grænir ekki eins hrifnir af neinu og bönnum allskonar.
Það ótrúlega við þessa frétt er að með afstöðu sinni er Ögmundur að gefa kost á og styðja kúgun kvenna af erlendum (og reyndar innlendum) uppruna, sem væru svo óheppnar að vera giftar körlum sem, með hugarfari Ögmundar, myndu vilja þvinga þær til að klæðast búrkum, sem engu betri eru en strigapokar með gati til að gæjast út um, en þó með neti fyrir.
Sem betur fer á ekki að ríkja ráðherraræði hér á landi, heldur þingræði og því verður að reikna með að þingið samþykki svo sjálfsagðan hlut, eins og að banna svona kvennakúgun eins og hverja aðra. Kúgun og ofbeldi á ekki að líðast, hvorki gangvart komum eða körlum.
Ætli Ögmundur myndi ekki skipta um skoðun, ef hann yrði kúgaður til að ganga sjálfur í búrku í nokkra daga, að ekki sé talað um í nokkur ár.
![]() |
Vill ekki banna búrkur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (87)
31.1.2011 | 13:34
Ráðherrum er alveg sama um hag skuldara
Í tilefni þess að Creditinfo Lánstraust hefur óskað eftir því að fá að halda skrá yfir þá sem þurfa að ganga í gegnum greiðsluaðlögun vegna óbærilegra skulda sinna, hefur persónuvernd margítrekað farið fram á umsögn Ögmundar Jónassonar, Innanríkisráðherra, og Árna Páls Árnasonar, félags- og tryggingamálaráðherra, um málið og viðhorf þeirra til slíkrar opinberrar upplýsingaöflunar um þetta ógæfusama fólk.
Í fréttinni segir eftirfarandi um þær tilraunir Persónuverndar: "Við afgreiðslu málsins óskaði Persónuvernd ítrekað umsagnar félags- og tryggingamálaráðherra og síðar dómsmála- og mannréttindaráðherra og innanríkisráðherra um hvort það samrýmist markmiðum lagaákvæða um greiðsluaðlögun einstaklinga að upplýsingar um þessa einstaklinga verði unnar hjá Creditinfo Lánstrausti hf. Engin svör hafa borist."
Þessir tveir ráðherrar geta ekki sýnt fólki í fjárhagsvandræðum meiri fyrirlitningu og áhugaleysi um framtíðarhag þess. Hins vegar sýnir Persónuvernd að hún stendur undir nafni, þrátt fyrir ræfildóm ráðherranna, með því að banna þessa upplýsingasöfnun um fólk sem orðið hefur verst úti vegna skuldamála sinna, því nógu erfitt verður fyrir fólkið að ná sér aftur á strik fjárhagslega, þó ekki þurfi líka að glíma við afleiðingar þess að vera á skrá Creditinfo.
Ráðherrarnir Árni Páll og Ögmundur ættu að skammast sín fyrir áhugaleysi sitt á örlögum og afkomu þessa hluta þjóðarinnar. Reyndar hefur svo sem ekkert bólað á áhuga á afkomu annarra þjófélagsþegna heldur frá þessum ráðherrum eða ríkisstjórninni, enda ætti hún að vera farin frá fyrir löngu.
![]() |
Fær ekki að safna upplýsingum um greiðsluaðlögun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)