13.2.2011 | 14:04
Fésbókarbyltingar breiðast út
Barátta almennings í Túnis, sem endaði með því að ríkisstjórnin var hrakin frá völdum, hefur sumstaðar a.m.k. verið kölluð Fésbókarbyltingin, enda hófst hún og var skipulögð með boðum manna á milli á þeirri vefsíðu og reyndar fleirum, ásamt auðvitað með smáskilaboðum í gegnum farsíma.
Margar arabaþjóðir, sem og aðrar múslimaþjóðir, hafa búið við einræði og harðstjórn í áratugi og tekist hefur að halda almenningi niðri með aðstoð hers, lögreglu og annarra skipulagðra sveita sem haldið hefur verið við efnið með góðum launum og ýmsum fríðindum, sem hinn almenni borgari hefur ekki einu sinni getað látið sig dreyma um.
Lítið sem ekkert hefur verið gert í þessum ríkjum til að mennta þjóðinar, heldur hefur þeim verið haldið niðri með menntunarskorti, fáfræði og einhliða áróðri í fjölmiðlum reknum af yfirvöldum, eða a.m.k. þeim þóknanlegum. Þetta gat gengið þangað til vasasímarinir komu til sögunnar og síðan Internetið með öllum sínum samskiptasíðum, ekki síst Fésbók, þar sem almenningi opnaðist skyndilega farvegur til að kynnast skoðunum annarra og koma sínum eigin á framfæri.
Þrátt fyrir almenna fátækt viða í veröldinni er aðgangur að Internetinu ótrúlega útbreiddur og þó tölvur séu ekki inni á hverju heimili, er víðast aðgangur að þeim á netkaffihúsum og vasasímaeign er orðin ótrúlega almenn, jafnvel í fátækustu þjóðfélögum. Við þetta allt saman bætast sjónvarpsstöðvar sem senda fréttir um allan heim og einstök stjórnvöld hafa litla möguleika til að hindra greiðan aðgang að þeim.
Múslimalöndin eru eins ólík og þau eru mörg og því ekkert hægt að alhæfa um þau, en a.m.k. í Norður-Afríku og arabalöndunum mörgum er komin í gang almenn krafa um frelsi og lýðræði, sem ekki verður kveðin niður héðan af, nema þá í stuttan tíma í hverju því landi þar sem slíkt verður reynt.
Fésbókarbyltingin er rétt að byrja.
![]() |
Jemenar kalla eftir byltingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.2.2011 | 13:28
Lygar Bónusgengisins afhjúpaðar
Undanfarin ár hefur Bónusgegnið brugðist ókvæða við öllum fréttum um að afskrifa þurfi tugi eða hunduði milljarða króna vegna glæpsamlegs fyrirtækjareksturs gengisins á árunum fyrir bankahrun, sem þetta sama gegni átti stóran hlut í að valda, með öllum þeim skaða sem þjóðin hefur orðið fyrir í kjölfarið.
Jóhannes, andlit Bónusgengisins, brást illur við fréttum af hugsanlegum afskriftum og sagði allar slíkar fréttir lygar og áróður og t.d. sagði hann í viðtali þann 04/11 2009 að ekki yrði afskrifuð ein einasta króna vegna Haga hf. eða 1988 ehf., sem var eignarhaldsfélag Bónusgengisins. Það viðtal má sjá Hérna
Stuttu síðar, eða 13. nóvember 2009, tók Finnur Árnason, forstjóri Haga, undir lygar húsbænda sinna, en í frétt í Morgunblaðinu sagði hann m.a: "Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir, að engar skuldir félagsins hafi verið afskrifaðar og ekki standi til að afskrifa neinar skuldir á Haga. Hagar séu þvert á móti eina fyrirtæki landsins sem hafi á s.l. 18 mánuðum greitt upp að fullu með vöxtum skráðan skuldabréfaflokk, sem var meginhluti skulda félagsins. Hagar séu nú vel fjármagnað félag til langs tíma.
Nú sé unnið að lausn á skuldum eignarhaldsfélagsins 1998, eiganda Haga. Þar sé meginmarkmiðið að ekki komi til neinna afskrifta skulda, m.a. með því að erlendir fjárfestar leggi fram verulega fjármuni til félagsins í formi nýs hlutafjár. Umfjöllun eða fullyrðingar um annað séu einfaldlega rangar."
Fullyrðingunni um erlendu fjárfestana var haldið að fólki mánuðum og árum saman til blekkinga um raunveruleikann og alltaf var neitað að gefa upp hverjir þessir væntanlegu erlendu fjárfestar væru og hvað þeir ætluðu að leggja marga milljarðatugi í svikamylluna. Hins vegar var erfitt að draga þessa fullyrðingu í efa, enda byggðist öll framkoma Baugsgengisins á hroka og yfirlæti gagnvart öllum sem dirfðust að fjalla eitthvað um málefni sem tengdust genginu og svikamyllunni sem það rak.
Nú er komið endanlega í ljós að allar fullyrðingar Baugsgengisins undanfarin ár um fjárhagsstöðu Haga hf. og 1988 ehf. voru hreinar lygar og að afskirfa þurfi tuga milljarða króna vegna þessarar kjölfestustarfsemi klíkunnar.
Við bætast svo tugir og hudruð milljarðar, sem þarf að afskrifa vegna annarrar starfsemi þessarar stærsu svikamyllu Íslandssögunnar, bæði innanlands og utan.
![]() |
35-40 milljarða afskriftir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.2.2011 | 00:38
Glæpir og túlkun laga
Svandís Svavarsdóttir, Umhverfisráðherra, forherðist dag frá degi í afneitun sinni á því að hún sé ekkert annað en ótíndur lögbrjótur og eigi að axla ábyrgð á staðföstum og einbeittum brotavilja sínum með afsögn úr ráðherraembætti.
Morgunblaðið hefur þetta eftir henni m.a: "Í samtali við Morgunblaðið segist Svandís ekki ekki hafa brotið lög heldur sé um túlkunarágreining að ræða milli ráðuneytisins og Flóahrepps. Ákvörðunin hafi verið tekin að vel ígrunduðu máli og hún hafi sömuleiðis verið borin undir helstu starfsmenn ráðuneytisins." Mesti ræfildómur nokkurs ráðherra er að reyna að komast hjá ábyrgð á lögbrotum sínum með því að reyna að kenna undirmönnum um þau, eins og Svandís gerir með þessum orðum sínum. Ekki bætir hún málstað sinn með svona aumingjahætti.
Enn verra er að hún reynir að gera lítið úr lögbrotum sínum með því að kalla þau "túlkunarágreining", en hvaða glæpamaður sem er getur að sjálfsögðu afsakað glæpi sína með því að hann hafi í sjálfu sér ekki verið að fremja glæp, helur hafi málið snúist um "túlkunarágreining" milli sín annarsvegar og laganna varða og dómstólanna hinsvegar.
Sjálfsögð krafa er að þessi ráðherranefna láti af starfi sínu umsvifalaust og reyni að fá sér vinnu við "eitthvað annað", eins og einhver komst svo vel að orði hérna á blogginu, enda hefur hún barist fyrir því í mörg ár að koma í veg fyrir orkufrekan iðnað, en jafnframt prédikað að efla þyrfti atvinnu við "eitthvað annað".
Nú ætti Svandís að sýna gott fordæmi og ráða sig til starfa við "eitthvað annað".
![]() |
Svandís segir ekki af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
11.2.2011 | 19:16
Lögbrot eru mín vinna, segir Svandís
Svandís Svavarsdóttir var í viðtali í fréttum sjónvarps RÚV í kvöld og sagði þar að lögbrot væru sín vinna og að hún ætlaði að halda þeim störfum áfram ótrauð.
Hún sagði að öll sín störf í ráðuneytinu byggðust á pólitík (og þá væntanlega ekki á lögum), en hún sæi samt ekki nokkra einustu ástæðu til þess að hún axlaði pólitíska ábyrgð á gerðum sínum.
Hortugri ráðherra hefur ekki sést í embætti hér á landi í manna minnum og á sér tæplega jöfnuð innan ríkisstjórnarinnar, nema ef vera skyldi að Jóhanna Sigurðardótir næði að standast henni jöfnuð í þessum efnum.
Jóhanna telur heldur enga ástæðu til að ráðherrar í hennar ríkisstjórn axli ábyrgð á gerðum sínum, jafnvel ekki ráðherrar sem greiddu því atkvæði að stefna fyrrverandi ráðherrum fyrir Landsdóm fyrir að "vinna vinnuna sína", eins og hún segist sjálf vera að gera.
Ómekilegheit ráðherra geta varla orðið meiri en þetta.
![]() |
Telur ekki þörf á afsögn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
11.2.2011 | 16:05
Svandís reyndi kúganir til viðbótar öðrum lögbrotum
Enn eru að koma fram upplýsingar um staðfastan brotavilja Svandísar Svavarsdóttir, Umhverfisráðherra, gegn íbúum Flóahrepps vegna aðalskipulags hreppsins, sem Svandís neitaði ítrekað að samþykkja, þrátt fyrir algerlega skýra skyldu til þess samkvæmt skipulagslögum.
Nú hefur ráðuneytið sent frá sér tilkynningu vegna málsins, þar sem staðfest er að Svandís hafi reynt að beita sveitarstjórn Flóahrepps kúgunum, en í yfirlýsingu ráðuneytisins segir m.a: "Í ákvörðun umhverfisráðherra frá janúar 2010 um aðalskipulag Flóahrepps kom fram að synja bæri um staðfestingu á þeim hluta aðalskipulagsins sem varðaði Urriðafossvirkjun og kom fram í ákvörðun ráðherra að ráðuneytið myndi staðfesta aðra hluta skipulagsins þegar sveitarstjórn hefði sent skipulagsuppdrætti í samræmi við ákvörðun ráðherra."
Þessi játning lýsir algerlega ótrúlegum hroka ráðherrans og valdnýðslu, því fram kemur að Svandís hafi krafist nýrra skipulagsuppdrátta eftir SÍNUM vilja, en ekki vilja skipulagsyfirvalda hreppsins. Þessi yfirgangur Svandísar einn og sér ætti að duga til afsagnar hennar úr ráðherraembætti og segi hún ekki af sér þegar í stað, getur Jóhanna Sigurðardóttir ekki annað en vikið henni úr starfi.
Ráðherra sem með einbeittum brotavilja níðist á og reynir að kúga fámennar sveitarstjórnir með ósvífnum lögbrotum til að lúta geðþóttavilja sínum, getur ekki setið áfram í embætti.
Ekkert ríki á skilið að sitja uppi með slíka lögbrjóta í ráðherraembætti.
![]() |
Var tilbúin til að staðfesta skipulag án virkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 10:02
Svandís dýrkeyptari en Icesave
Forstjóri Landsvirkjunar hefur staðfest í fjölmiðlum að viðræðum við marga stóra erlenda fjárfesta hafi þurft að slá á frest, eða aflýsa alfarið, vegna þeirra tafa á virkjun í neðri Þjórsá sem staðfastur lögbrotavilji Svandísar Svavarsdóttur hefur haft.
Svandísi verður að víkja úr ríkisstjórn tafarlaust og byrja strax að undirbúa að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka vegna ítrekaðra lögbrota við að afgreiða skipulagstillögur Flóahrepps í andstöðu við ráðleggingar henni viturri manna og löghlýðnari.
Ríkisstjórnin hefur lengi reynt að ljúga því að þjóðinni að tafir á frágangi Icesave I, II og III hafi staðið í vegi fyrir erlendum fjárfestingum hér á landi og einnig orðið til þess að erlendar lánastofnanir haldi algerlega að sér höndum gagnvart íslenskum fyrirtækjum.
Marel, Össur og Landsvirkjun hafa reyndar þegar afsannað kenninguna um erlenda lánsfjármagnið og nú hefur forstjóri Landsvirkjunar einnig upplýst um áhuga erlendra fjárfesta, sem hefur þurft að hafna vegna lögbrota Svandísar.
Nú er sem sagt endanlega komið í ljós að Svandís Svavarsdóttir og félagar í VG eru dragbítarnir á atvinnuuppbyggingu í landinu, en alls ekki Icesave. Því þarf þjóðin að losa sig við hvort tveggja nú þegar, þ.e. VG og Icesave.
![]() |
Landsvirkjun í biðstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2011 | 05:44
Upp komast svik um síðir
Í tilraun til að blekkja þjóðina í sambandi við þrælasöluna til Breta og Hollendinga lét Steingrímur J. nýja Landsbankann (NBI hf.) gefa út skuldabréf í erlendum gjaldeyri til gamla Landsbankans, að upphæð 280 milljarða króna. Með þessum blekkingum á að telja fólki trú um að innheimtur gamla bankans verði betri, sem þessu nemur, og þar með þurfi íslenskir skattgreiðendur að þræla í mun skemmri tíma fyrir fjárkúgunarþjóðirnar, en ella hefði orðið.
Þar sem þessi upphæð var ekki í neinum takti við raunveruleikann er nú að koma í ljós, að nýji bankinn mun ekki geta greitt af þessu skuldabréfi á réttum tíma og alls ekki í erlendum gjaldeyri, eins og gert var ráð fyrir við útgáfu blekkingabréfsins.
Þannig eru þessi blekkingarviðskipti nú að koma í bakið á Steingrími J. og endar líklegast með því að hann verði að viðurkenna að raunverulegar endurheimtur í bú gamla Landsbankans verði miklu mun minni en hann hefur verið að reyna að blekkja þjóðina með undanfarið ár og að skattaþrælar Breta og Hollendinga verði að vera í ánauð þeirra a.m.k. einum áratug lengur en hann hefur sagt fram að þessu að þurfi.
Í þessu efni eins og öðru gildir gamla góða spakmælið: "Upp komast svik um síðir". Það ætti Steingrímur J. að hafa í huga í tilraunum sínum til blekkinga um upphæðina sem hann ætlast til að íslenskir skattaþrælar borgi.
Því miður trúa hinir ólíklegustu þingmenn vaðlinum úr Steingrími í þessu efni.
![]() |
Fær ekki nægan gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 19:54
Svandís svífst einskis í hroka sínum
Svandís Svavarsdóttir, sem í dag fékk á sig dóm frá Hæstarétti um lögbrot og að hafa valdið Flóahreppi og Landsvirkjun milljarða tjóni, lætur sér ekki einu sinni detta í hug að segja af sér embætti, en heldur uppteknum hætti og reynir að ljúga sig út úr málinu með því að segja að lög hafi verið óljós og séu það jafnvel ennþá, þrátt fyrir endurskoðun þeirra síðastliðið haust.
Svandís reynir að halda því fram að úr því að í gömlu lögunum hafi ekki staðið skýrt og skorinort að aðrir en hreppurinn mættu greiða fyrir skipulagsvinnu, þá hljóti það að hafa verið bannað og með lagabreytingunni í haust ætlaði hún að lögfesta slíkt bann skilyrðislaust. Alþingi sá þó við því lymskubragði hennar og breytti frumvarpinu þannig að tekinn var sérstaklega skýrt fram, að öðrum en sveitarfélagi væri fullkomlega heimilt að koma að skipulagsvinnu vegna framkvæmda í viðkomandi sveitarfélagi.
Nú til dags er vinsælt að tala um nýtt Ísland með breyttum siðferðisviðhorfum, nýjum vinnubrögðum og opnara og réttlátara stjórnkerfi. Væri einhver alvara á bak við slíkar yfirlýsingar myndi Svandís segja af sér strax í kvöld og biðjast afsökunar á því tjóni sem hún hefur valdið þjóðfélaginu með lögbrotum sínum.
Það mun hún hins vegar ekki gera, heldur sitja sem fastast og ekkert minnka hrokann og yfirganginn gagnvart öllum sem til ráðuneytisins þurfa að leita.
![]() |
Mun staðfesta skipulagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2011 | 16:50
Leikhús fáránleikans
Til málamynda var haldinn "samningafundur" í dag vegna verkfallsboðunar starfsmanna fiskimjölsverksmiðja í Karphúsinu og væntanlega hafa deiluaðilar fengið kaffibolla hjá sáttasemjaranum og jafnel pönnuköku eða vöfflu. Aldrei stóð til að gera eitt eða neitt annað en að þiggja þeggar veitingar, enda alls ekki í bígerð að semja við þessa verkfallsboðendur um nokkurn hlut.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls á Austurlandi, sagði m.a. við mbl.is: "Verkfallið á að hefjast á þriðjudagskvöld og eins og staðan er í dag sé ekki hvað ætti að stoppa það. Yfirlýsingar talsamanna Samtaka atvinnulífsins gera þessa fundi alveg tilgangslausa. Það dynja á okkur yfirlýsingar hægri vinstri um að það eigi ekki að semja við okkur."
Það verður að teljast óskiljanlegt að þessari tilgangslausu vitleysu skuli haldið áfram, því allir vita að aldrei hefur staðið til að hækka laun þessara verkfallsmanna umfram aðra launþega og kauphækkanir munu ekki verða miklar, eins og atvinnuástandið í landinu er um þessar mundir, að ekki sé minnst á stöðu allra fyrirtækja landsins, annarra en útflutningsgreinanna, en þau eru að basla við að halda sér frá gjaldþroti og því ekki í stakk búin til að taka á sig nokkrar launahækkanir, sem heitið geta.
Leikritið um kjarasamningana verður þó sýnt eitthvað áfram og nú hafa flugumferðarstjórar bæst í hóp með bræðslumönnum og eru byrjaðir að undirbúa sitt verkfall, en í dag var tilkynnt að þeir myndu byrja með yfirvinnubann, afleysingabann og þjálfunarbann. Næst munu flugstjórar væntanlega blanda sér í baráttuna og svo læknar og aðrar stéttir, sem eru á viðunandi launum en eru hins vegar í aðstöðu til að skaða efnahagslífið stórkostlega.
Leikritið um kjarasamningana er löngu komið í flokk með öðrum sígildum leikverkum sem flokkuð hafa verið undir leikhús fáránleikans.
![]() |
Samningafundur í 15 mínútur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2011 | 11:14
Leikritið um kjarasamninga í nýrri uppfærslu
Enn á ný er leikritið um kjarasamninga komið á fjalirirnar í Karphúsinu og þar leika fulltrúar verkalýðsins góðu gæjana með sanngjörnu kröfurnar, en fulltrúar atvinnurekenda eru í hlutverki vondu gæjanna, sem ekkert vilja fyrir starfsmenn sína gera og allra síst að hækka við þá launin.
Verkalýðsfélögin hafa nú gripið til þess ráðs að láta fámennan hóp bræðslumanna boða verkfall í miðri loðnuvertíð, rétt áður en hrognavinnsla kemst á fullan skrið, til þess að valda þjóðarbúinu sem mestum skaða á sem skemmstum tíma og á að heita að þetta sé gert til að knýja fram tuga prósenta hækkun kjarasamninga þessa hóps, þó allir viti að verið sé að gera tilraun til að setja viðmið fyrir aðra samninga, sem fylgja munu í kjölfarið.
Sum verkalýðsfélög vilja semja um miklu meiri kauphækkanir frá útflutningsatvinnuvegunum en öðrum, með tilvísun til þess að þessar greinar standi betur nú um stundir vegna gengishrunsins og er þetta nýtt útspil í kjaraviðræðum, þar sem hingað til hefur verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að aðalkjarasamningar næðu til allra launamanna, en ekki einungis þeirra sem ynnu hjá "bestu" fyrirtækjunum. Í sjálfu sér má segja að ekki sé alsendis órökrétt að fyrirtæki borgi laun eftir getu hvers og eins þeirra, en verði slíkt ofaná í þessum kjaraviðræðum er það alger bylting í launastefnu verkalýðsfélagnanna frá því sem verið hefur frá því fyrir daga Guðmundar Jaka og hans félaga.
Í viðhangandi frétt kemur fram algerlega nýtt hugtak, sem aldrei hefur heyrst áður, en það kemur frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, en það hljóðar svo: "Það eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga um að gera kjarasamninga. Það er ekki hægt að neita því að gera kjarasamning á grundvelli pólitískra krafna. Þetta má ekki skv. stjórnarskrá vinnumarkaðarins."
Um þetta er það að segja, að verkalýðsfélögin hafa oft og iðulega beitt sér og styrk sínum í pólitískum tilgangi og jafnvel reynt að koma ríkisstjórnum frá völdum og nægir að nefna atlöguna að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar í því sambandi. Lokasetning Gylfa um "stjórnarskrá vinnumarkaðarins" vekur upp spurningar um hvort allt annað sem hann lét frá sér fara um kjarasamningana sé líka grín og glens sem látið er falla í tilefni frumsýningar leikritsins um samningana.
Að hæfilegum tíma liðnum mun svo ríkisstjórnin setja lög um kjarasamninga og banna verkföll næstu þrjú ár.
Tjaldið fellur, leiksýningunni lýkur og lífið heldur áfram.
![]() |
Rætt um kjaramál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)