Kjósendur hafa ekki vit á "svona máli"

Úrslit í atkvæðagreiðslu Alþingis um Icesave III er lokið og það sama er að segja um breytingartillögur sem gerðu ráð fyrir að lögin tækju ekki gildi nema þau yrðu staðfest í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögin um ríkisábyrgð á skuldum einkabanka, sem rekinn var á glæpsamlegan hátt, var samþykkt með talsverðum meirihluta, en tillögurnar um að vísa endanlegri ákvörðun í málinu til þjóðarinnar var samþykkt með litlum mun, eða 33 atkvæðum gegn 30.  Helstu rök þingmanna fyrir því að hafna beinum afskiptum þjóðarinnar voru þau, að "svona mál" hentaði ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu og að þingmenn væru til þess kjörnir að afgreiða "svona mál" sjálfir.

Þessi afstaða er mikil móðgun við kjósendur, sem þessir þingmenn telja nógu góða og gáfaða til að kjósa þá sjálfa á þing, en hafi hins vegar ekkert vit á "svona málum" og geti því ekki tekið skynsamlega afstöðu til þeirra.  Með því að vísa málinu til þjóðarinnar hefðu talsmenn þeirra sem vildu samþykkja og hinna, sem vildu hafna frumvarpinu, haft gott tækifæri í aðdraganda kosninganna til þess að leggja öll spil á borðið og útskýra sína afstöðu og á hverju hún væri byggð.

Kjósendur eru ekki algjör fífl og hefðu vel getað meðtekið skýringar beggja fylkinga og lagt síðan sitt mat á það hvað rétt væri að gera í stöðunni.  Að halda því fram að kjósendur hefðu ekki forsendur til að meta "svona mál" eru algerlega fáránlegar og eingöngu til þess fallnar að lítilsvirða þá sem eiga að búa við þessi lög og greiða allan kostnað þeirra vegna, sem fljótlega mun koma fram í skattahækkunum, sem fylgja "svona máli".

Kjósendur munu ekki verða búnir að gleyma þessari framkomu í sinn garð í næstu Alþingiskosningum.


mbl.is Icesave-samningur samþykktur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Réttarríkið vann, ofstopalýðurinn tapaði

Með dómi Héraðsdóms yfir "níumenningunum" staðfestist endanlega að hérlendis er ennþá réttarríki og dómstólunum algerlega treystandi til að kveða upp rétta dóma samkvæmt lögum landsins og að sama skapi opinberaðist endanlega fáránleikinn í framkomu "níumenninganna" og "stuðningsmanna" þeirra á meðan að á málarekstrinum stóð.

Samkvæmt fréttinni var niðurstaða réttarins sú, að "Andri Leó var ákærður fyrir að bíta tvo lögreglumenn og hrinda þingverði á ofn. Þór var m.a. ákærður fyrir að halda hurðinni opinni fyrir hópnum, sem fór inn í Alþingishúsið 8. desember 2008. Tvær konur, Sólveig Anna Jónsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir, voru dæmdar í 100 þúsund króna sekt en aðrir voru sýknaðir."

Með þessu virðist Héraðsdómur einungis dæma þá sem allra harðast gegnu fram í ofstopanum og sýknar alla hina, en stór hópur "stuðningsmanna" hefur látið öllum illum látum á meðan á réttarhaldinu stóð og m.a. margsinnis truflað störf réttarins með skrílslátum, upphrópunum og blaðaskrifum.

Vonandi verður þetta til þess að dómstólar landsins fái starfsfrið í framtíðinni til að fást við þau glæpa- og ofbeldismál sem til þeirra verður stefnt.  Dómstólarnir hafa sýnt það í hverju málinu á eftir öðru á undanförnum mánuðum, að þeim er algerlega treystandi til að kveða upp réttláta og sanngjarna dóma byggða á landslögum og öðru ekki.

Ofstopalýðurinn tapaði hins vegar stórt í dag og sýnir vonandi af sér meiri mannsbrag í framtíðinni. 


mbl.is 2 í skilorðsbundið fangelsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagkvæmt til skamms tíma

Í meistaraprófsverkefni frá RES-orkuskólanum, sem reyndar er kominn á hausinn, er komist að þeirri niðurstöðu að það marg borgi sig fyrir leigubílstjóra á höfuðborgarsvæðinu að breyta bílum sínum úr því að nota bensín yfir í að nota metan sem eldsneyti.

Breyting bílanna ætti að borga sig upp á einu ári eða svo, vegna þess mikla munar sem er á verði metans miðað við bensín. Af verði hvers bensínlítra tekur ríkissjóður til sín um það bil 110 krónur á lítrann í alls kyns skatta og gjöld, þar með talda vegaskatta.

Engir vegaskattar eru lagðir á metanið núna, en að sjálfsögðu mun ríkissjóður ekki bíða lengi með að jafna þann mun og fara að leggja vegaskatta á metanbílana, enda spurning hvort eitthvert réttlæti sé í því að metanbílar aki um vegi landsins, án þess að leggja nokkuð til kostnaðarins við að leggja þá, eins og eigendur þeirra bíla þurfa að gera, sem nota annað eldsneyti til þess að knýja bíla sína á milli landshluta.

Hafi meistaraprófsverkefnið ekki tekið tillit til þessarar væntanlegu skattheimtu er niðurstaðan algerlega ómarktæk.


mbl.is Metanið margborgar sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitlausasta verkfallsboðun sögunnar

Verkfalli sem hefjast átti í kvöld í fiskimjölsverksmiðjum hefur nú verið aflýst með þeim skýringum að vinnuveitendur hafi greinilega ekki ætlað að gefa eftir með að semja um fáránlegar launakröfur starfsmanna þessara fyrirtækja. 

Verkalýðshreyfingin ætlaði að nota þennan fámenna starfshóp, sem þó hefði getað valdið milljarða tjóni fyrir þjóðarbúið, sem tilraunadýr vegna þeirra viðræðna sem nú standa yfir um nýja kjarasamninga og áttu samningar við bræðslustarfsmennina að verða fyrirmynd annarra samninga, sem ætlunin var að knýja fram, með hótunum um að verkfallinu yrði ekki aflýst fyrr en kominn væri á heildarkjarasamningur.

Þetta verður að teljast vitlausasta og verst undirbyggða verkfallsboðun sem um getur, enda atvinnuástandið þannig í landinu að atvinnulausum fjölgar stöðugt og þá ekki síst þeim sem hafa verið atvinnulausir í ár, eða lengur.  Einnig hafa þúsundir manna flúið land í atvinnuleit þannig að skráning atvinnuleysisins segir ekki nema hálfa söguna um ástandið.

Það sem nú þarf að leggja áherslu á, eru hóflegar kauphækkanir en því meiri kraft þarf að setja í að greiða fyrir fjölgun starfa, ekki síst í orkufrekum iðnaði og þeirri þjónustu sem honum fylgir.  Þjóðarbúið bráðvantar fleiri verðmætaskapandi fyrirtæki, ekki síst útflutningsfyrirtæki því gjaldeyri mun skorta á næstu áratugum til greiðslu allra erlendu skulda þjóðarbúsins, þrátt fyrir að erlendir lánadrottnar hafi þurft að afskrifa mörg þúsund milljarða vegna bankahrunsins.

Brýnasta hagsmunamál allra landsmanna er að ríkisstjórnin og þá sérstaklega VG hætti að berjast gegn atvinnusköpun í landinu, því grunnurinn að bættum kjörum þjóðarinnar byggist á verðmætasköpun og öðru ekki.

Þegar Steingrímur J. og félagar fara að skilja þetta, þá mun kvikna von fyrir þjóðina.  Það mun ekki gerast með verkföllum og því tjóni fyrir þjóðarbúið sem þeim fylgir.


mbl.is Búið er að aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eina rétta leiðin

Rök þeirra stjórnmálamanna sem ætla að greiða Icesave III atkvæði sitt á Alþingi hafa helst verið þau, að samþykkt þrælasamningsins myndi liðka til fyrir endurreisn atvinnulífsins í landinu og að mikil áhætta fælist í því að fara með málið fyrir dómstóla.

Allir eru hinsvegar sammála um að fjárkúgunarkrafa Breta og Hollendinga sé ólögvarin og ekkert í tilskipunum eða regluverki ESB skyldi ríkissjóði til að ábyrgjast tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta í Evrópulöndum, heldur þvert á móti banni í raun slíkar ábyrgðir vegna samkeppnissjónarmiða.  Þetta hafa ráðamenn innan ESB staðfest og það fleiri en einn ásamt því að allir lögspekingar, sem um málið hafa fjallað eru á sama máli.

Af þeim sökum er vandséð í hverju sú áhætta á að vera fólgin að fara með málið fyrir dómstóla, enda hefur enginn stjórnmálamaður reynt að útskýra hvar sú áhætta liggur.  Ekki hefur heldur verið útskýrt með viðhlýtandi hætti hvernig það myndi stuðla að endurreisn atvinnulífsins og liðka til fyrir með erlendar lántökur að ríkissjóður tæki á sig tuga eða hundraða milljarða skuldbindingar vegna gjaldþrota einkabanka.

Allt þetta gæfist tóm til að ræða og útskýra fyrir þjóðinni í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslu, ásamt því að leggja fram og ræða þær skattahækkanir og þá nýju skatta sem leggja þyrfti á íslenska skattgreiðendur til að standa undir greiðslu þessara auknu útgjalda ríkissjóðs. 

Með málefnalegri umræðu og útskýringum gætu kjósendur gert upp hug sinn hvort þeir væru tilbúnir til að leggja fram það fé sem til þarf til greiðslu þrælaskattsins og engir eru bærari til að ákveða um það, aðrir en þeir sem sjálfir þurfa að þola svipuhöggin frá þrælahöfðingjunum.

Á hátiðar- og tyllidögum er vinsælt hjá stjórnmálamönnum að tala um lýðræðið og aukna þátttöku almennings í afgreiðslu stórra mála með beinni aðkomu í þjóðaratkvæðagreiðslum.  Nú hafa þeir tækifæri til að standa við fögru orðin með því að samþykkja á morgun að vísa Icesave III til kjósenda til endanlegrar afgreiðslu.

Til þess að sýna samhug með slíkri afgreiðslu málsins er nauðsynlegt fyrir almenning að skrá sig á undirskriftalista kjosum.is strax í dag, því á morgun getur það verið orðið of seint.  Fljótlegt er að skrifa nafnið sitt á þennan áskorendalista, sem finna má HÉRNA

 


mbl.is Styður ekki þjóðaratkvæði um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lokaatlaga Alþingis að þjóðinni hafin

Í eitt og hálft ár hefur Steingrímur J. reynt ítrekað að hafa milligöngu um  að selja íslenska skattgreiðendur í áratugaþrældóm í þágu erlendra fjárkúgara, en í tvígang hefur tekist að hrinda slíkum atlögum, þ.e. Icesave I og Icesave II.

Á morgun á að keyra í gegnum Alþingi svokallaðan Icesavesamning III, sem auðvitað er ekki samningur um annað en þrælasölu íslenskra skattgreiðenda til Breta og Hollendinga, eins og hinir fyrri tveir, en nú á að ljúga Icesave III inn á þjóðina með því að þessi þrælasamningur sé svo miklu betri en hinir tveir og því muni ekki svíða eins sárlega á þrælabökunum undan svipuhöggunum.

Undirskriftasöfnunin á kjosum.is er í fullum gangi, enda málinu flýtt á Alþingi til þess að ekki náist að safna nægum fjölda undirskrifta í tíma og því verður að benda fólki að hafa hraðar hendur við að skrá sig á listann og sýna þannig í verki að þjóðin láti ekki selja sig í þrælavist baráttulaust.

Ekki tekur nema eina mínútu að skrá sig og það er gert HÉRNA 


mbl.is Icesave á hraðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjósum á kjosum.is

Mikil örvænting hefur gripið um sig á Alþingi vegna undirskriftasöfnunarinnar á netinu með áskorun á forsetann að neita þrælalögunum um Icesave III staðfestingar og það svo, að reiknað er með að fundað verði fram á kvöld á morgun, en það er ekki algengt að svo sé gert fyrr en nær dregur þingslitum.

Þór Saari mun hafa lagt fram tillögu í Fjárlaganefnd um að málinu yrði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en enginn studdi þá tillögu í nefndinni nema Höskuldur Þórhallson. Þór segist ætla að flytja tillöguna aftur á þingfundi á morgun við þriðju og síðustu umræðu um þrælasölufrumvarpið.

Ekki verður öðru trúað en að meirihluti þingmanna muni samþykkja þjóðaratkvæðagreiðslu og setja þannig í hendur þjóðarinnar sjálfrar hvort hún samþykki að setja sjálfa sig í skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara til næstu áratuga.

Þingmönnum og forseta til hvatningar er vissara fyrir kjósendur að snúa bökum saman strax og skrifa sig á áskorunarlistann, því varla getur nokkur verið á móti því að efla lýðræðið í landinu með þjóðaratkvæðagreiðslum, enda spara þingmenn ekki lofsyrðin um opnari stjórnsýslu með meiri og beinni aðkomu kjósenda í stórum málum sem smáum.

Nú þegar hafa tæplega fimmtánþúsund manns tekið þátt í undirskriftasöfnuninni. Tíminn er naumur og því ástæða til að hvetja fólk til að taka þátt í baráttunni fyrir auknu lýðræði, áður en það verður of seint.


mbl.is Icesave afgreitt af fjárlaganefnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm?

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni Gísla Tryggvasonar um endurupptöku úrskurðarins um kosningu til stjórnlagaþings, en rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að framkvæmd kosninganna hefði verið svo illilega ábótavant og ekki staðist lög og lágmarkskröfur um kosningar og því væri ekki annað hægt en að vísa öllu saman út í hafsauga.

Þar sem úrskurður Hæstaréttar í þessu tilfelli skoðast sem stjórnvaldsaðgerð en ekki dómur og lögin gölluðu um stjórnlagaþingskosningarnar gerðu ekki ráð fyrir áfrýjun til æðra dómstigs, en Hæstiréttur er auðvitað æðsta dómstig réttarríkisins, fer málið að vandast fyrir þá sem ekki eru ánægðir með niðurstöðu Hæstaréttar í þessu stórgallaða máli.

Eina leiðin til að fá úr þessu skorið er að stefna Hæstarétti fyrir Héraðsdóm og krefjast þess að Hæstaréttarúrskurðurinn verði ógiltur.  Niðurstöðu Héraðsdóms, hver sem hún verður, verður svo auðvitað áfrýjað til Hæstaréttar til endanlegrar afgreiðslu.

Þar með yrði vitleysisgangurinn vegna þessarar óvönduðu lagasetningar og lélegrar framkvæmdar hennar kominn á endastöð.

 

 


mbl.is Endurupptöku synjað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hagvöxtur í boði lífeyrisþega

Fyrir allmörgum árum var almenningi gert kleift að leggja í séreignarlífeyrissjóði til elliáranna og átti sú viðbót að koma sjóðfélögunum til góða í ellinni sem viðbót við þær greiðslur sem fólkið fengi frá Trygggingastofnun og sameignarlífeyrissjóðunum. 

Munurinn á lífeyrissjóðakerfunum tveim er aðallega sá, að í sameignarsjóðunum eru félagarnir í raun að greiða iðgjald, líkt og hjá tryggingafélögunum, og fá ákveðin réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur sínar, en í séreigarlífeyrissjóðunum safnast upp séreign sjóðfélagans, eins og nafn sjóðanna segir til um, og inneignin erfist beint, sem ekki er raunin með samtryggingarsjóðina.

Til þess að létta ríkissjóði róðurinn í kreppunni og ekki síst til að halda uppi einhverri eftirspurn og eyðslu í þjóðfélaginu, fékk ríkisstjórnin þá snilldarhugmynd að láta væntanlega eftirlaunaþega standa undir hvoru tveggja, með því að eyða strax þeim sparnaði sem fólk hafði ætlað til að létta sér lífið í ellinni.

Allar ríkisstjórnir á vesturlöndum hafa látið í algeran forgang að efla atvinnulíf og minnka atvinnuleysi í löndum sínum og engum dottið í hug að láta þegnana snúa hagkerfinu með væntanlegum ellilaunum sínum og er íslenska ríkisstjórnin algerlega sér á báti varðandi ræfildóm í atvinnumálum og örugglega sú eina sem beinlínis berst með öllum ráðum gegn hvers konar aukningu og nýmælum í þeim efnum, en stuðlar þess í stað að fólksflótta úr landinu og auknu atvinnuleysi.

Steingrímur J. getur þakkað verkalýðshreifingunni og ríkisstjórn Davíðs Oddsonar fyrir að hafa komið séreignarlífeyriskerfinu á, því vandséð er hverning Steingrímur J. hefði bjargað sér fyrir horn núna, hefði hann ekki getað opnað fyrir eyðslu þessara sjóða.

 


mbl.is 52.000 taka út séreignasparnað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Marðarmútur

Mörður Árnason, Samfylkingarþigmaður, er frægur að endemum vegna ýmissa ummæla sem hann hefur látið falla um menn og málefni í gegnum tíðina. Flest hefur það auðvitað verið tóm vileysa, enda Mörður ekki hátt skrifaður í huga fólks sem þingmaður, heldur endalaus uppspretta spaugs og gamanmála.

Í þætti Egils Helgasonar í dag, mun Mörður hafa sagt að þátttaka Landsvirkjunar í greiðslu kostnaðar vegna aðalskipulags Flóahrepps væri ekkert annað en mútur og til að leggja sérstaka áherslu á þá skoðun sína sagði hann kokhraustur, eftir spurningu frá Agli um hvort hann væri virkilega að gefa í skyn að um mútugreiðslu væri að ræða:  "En úr því að þú spyrð þá segi ég mútur og skrifa mútur".

Það er alvarlegt lögbrot að bera mútur á menn og ekki síður að þiggja þær.  Nú verður Mörður að standa fyrir máli sínu og sanna ásakanirnar, því ekki verður við það unað að þingmaður á Alþingi ásaki fólk um glæpi í þeirri vissu að ekki sé hægt að kæra hann fyrir ummælin í skjóli þinghelgis hans.  Þjóðin á ekki skilið að sitja uppi með huglausa ómerkinga sem fulltúa sína á Alþingi og svona framkoma eins og Mörður sýndi þarna er algerlega óásættanleg.

Hvað segir Mörður um fjögurra milljarða króna greiðslu frá ESB til ríkisstjórnarinnar og ýmissa stofnana til nota í jákvæðan áróður fyrir ESBinnlimun þjóðarinnar?

Mörður verður að upplýsa þjóðina um það, hvort hann kalli þá greiðslu mútur og þar með sjálfan sig, ríkisstjórnina og fleiri sem þessar greiðslur þiggja, mútuþega. 


mbl.is Segi mútur og skrifa mútur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband