Vitlausasta verkfallsboðun sögunnar

Verkfalli sem hefjast átti í kvöld í fiskimjölsverksmiðjum hefur nú verið aflýst með þeim skýringum að vinnuveitendur hafi greinilega ekki ætlað að gefa eftir með að semja um fáránlegar launakröfur starfsmanna þessara fyrirtækja. 

Verkalýðshreyfingin ætlaði að nota þennan fámenna starfshóp, sem þó hefði getað valdið milljarða tjóni fyrir þjóðarbúið, sem tilraunadýr vegna þeirra viðræðna sem nú standa yfir um nýja kjarasamninga og áttu samningar við bræðslustarfsmennina að verða fyrirmynd annarra samninga, sem ætlunin var að knýja fram, með hótunum um að verkfallinu yrði ekki aflýst fyrr en kominn væri á heildarkjarasamningur.

Þetta verður að teljast vitlausasta og verst undirbyggða verkfallsboðun sem um getur, enda atvinnuástandið þannig í landinu að atvinnulausum fjölgar stöðugt og þá ekki síst þeim sem hafa verið atvinnulausir í ár, eða lengur.  Einnig hafa þúsundir manna flúið land í atvinnuleit þannig að skráning atvinnuleysisins segir ekki nema hálfa söguna um ástandið.

Það sem nú þarf að leggja áherslu á, eru hóflegar kauphækkanir en því meiri kraft þarf að setja í að greiða fyrir fjölgun starfa, ekki síst í orkufrekum iðnaði og þeirri þjónustu sem honum fylgir.  Þjóðarbúið bráðvantar fleiri verðmætaskapandi fyrirtæki, ekki síst útflutningsfyrirtæki því gjaldeyri mun skorta á næstu áratugum til greiðslu allra erlendu skulda þjóðarbúsins, þrátt fyrir að erlendir lánadrottnar hafi þurft að afskrifa mörg þúsund milljarða vegna bankahrunsins.

Brýnasta hagsmunamál allra landsmanna er að ríkisstjórnin og þá sérstaklega VG hætti að berjast gegn atvinnusköpun í landinu, því grunnurinn að bættum kjörum þjóðarinnar byggist á verðmætasköpun og öðru ekki.

Þegar Steingrímur J. og félagar fara að skilja þetta, þá mun kvikna von fyrir þjóðina.  Það mun ekki gerast með verkföllum og því tjóni fyrir þjóðarbúið sem þeim fylgir.


mbl.is Búið er að aflýsa verkfalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: corvus corax

"Það sem nú þarf að leggja áherslu á, eru hóflegar kauphækkanir..." segir bloggari. Hverslags þvaður er þetta, það hefur alltaf þurft að leggja áherslu á hóflegar kauphækkanir handa almenningi til að atvinnurekendahyskið geti stolið sem mestu af þjóðarauðnum. Það er kominn tími til að þeir sem eiga sök á því hvernig komið er séu látnir standa undir hruninu og öllu því tjóni sem orðið hefur á Íslandi undanfarna áratugi með þjófnaði, verðbréfabraski og einkaneyslu á kostnað verðmætasköpunar almennings. Alltaf skal almenningur stilla kröfum sínum í hóf til að "hinir" geti haldið áfram sukkinu, golfferðunum, skíðaferðunum, innkaupaferðunum og öðrum skemmtiferðum til útlanda, keypt sér dýrari og flottari jeppa, hjólhýsi, sumarbústaði, fjórhjól, sexhjól, vændiskonur og allt það sem þetta glæpahyski hefur talið sig þurfa til að skemmta sér og sínum. Það hefur aldrei komið að launaþrælunum að fá sinn skerf af kökunni, alltaf skulu þeir bíða. Nú er komið nóg og ekkert framundan annað en bylting í orðsins fyllstu merkingu.

corvus corax, 15.2.2011 kl. 17:15

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Fyrst þarf að skapa hér almennilegt atvinnulíf og vinnu fyrir þá sem nú ganga atvinnulausir. Þegar því verður náð fylgir að berjast fyrir bættum kjörum fyrir ALLA. Þér er væntanlega kunnugt um það að það er nefninlega búið að stela þjóðarauðnum, flytja hann til útlanda og tapa þar því sem skúrkarnir hirtu ekki sjálfir.

Nánast hvert einasta fyrirtæki í landinu er á hausnum, að undanskyldum sjávarútvegs- og stóriðjufyrirtækjunum og lítið sem ekkert til þeirra að sækja um þessar mundir. Það þarf að skapa grundvöll fyrir fleiri útflutningsfyrirtæki og önnur, sem geta greitt mannsæmandi laun, en því miður er það bara ekki í myndinni eins og ástandið er.

Bylting í orðsins fyllstu merkingu myndi engu breyta þar um. Það þarf byltingu í atvinnuuppbyggingu. Betri lífskjör ALLRA fylgja svo í kjölfarið.

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2011 kl. 17:47

3 identicon

margir góðir punktar hjá þér. Hvernig mundir þú leysa þessa deilu eiga bræðslumenn var lúffa fyrir SA skrifa bara undir það þeir eru að bjóða þeir eru búnir að vera samniglausir síðan í Nóv. (held ég) og ekkert gegnið því SA vilja komað þeim inni í aðalkjarasamninga sem félagsdómur er búni að úrskurða að þeir seú ekki hluti af, kauphækkun samanber í örðum fiskiðnaði sem ekki er vitað hvað verður, svo vilja SA að kvótkerfið verði komið á hreint áður en samið er hvað kemur það þessu máli við ?, en kannski veit ég ekki nógu mikið um þetta mál

Jónas Þór (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 19:29

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það sem ég vil að verði gert kemur fram í upphaflega pistlinum, þ.e. hóflegar kauphækkanir, sem raunhæft er að gera ráð fyrir að fyrirtækin geti borgað í því ástandi sem ríkir í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Það er óraunhæft að reikna með að fámennir hópar, sem eru í aðstöðu til að valda mesta efnahagstjóninu, geti við þessar aðstæður knúið fram miklu meiri kjarabætur en aðrir. Hingað til hefur verið gerður heildarsamningur og síðan ótal sérkjarasamningar við starfsfólk mismunandi fyrirtækjahópa, en grunnsamningurinn hefur verið svipaður fyrir alla. Ef félögin vilja semja hvert fyrir sig og jafnvel við einstök fyrirtæki um hvaða laun séu greidd, þá er það í sjálfu sér besta mál, en kjarasamningarnir sem nú eru í gildi eru nógu flóknir, þó ekki sé þar bætt á með sérstökum aðalkjarasamningi fyrir hvert einast stéttarfélag í landinu og hvað þá sérsamningi við nánast hvert einasta fyrirtæki.

Það sem nú er brýnast af öllu er að útvega atvinnu fyrir þá sem ganga atvinnulausir og þá sem flúið hafa land, en þar er um að ræða hátt í 30.000 manns.

Sá hópur græðir ekki mikið á tuga prósenta kauphækkun í fiskimjölsverksmiðjunum.

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2011 kl. 20:07

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Reyndar er frammistaða ASÍ í þessum kjaraviðræðum og undanfara þeirra til skammar.  Lengi vel tuðaði Gylfi ASÍ-forseti um það að það vantaði neysluviðmið frá stjórnvöldum, til þess að geta útbúið skothelda kröfugerð, vegna kjarasamninga sem í vændum eru.  Svo loksins þegar þessi svokölluðu neysluviðmið koma, þá tuðar Gylfi yfir því að þetta séu neysluviðmið, en ekki viðmið um framfærsluþörf launþega.  Ég hefði nú haldið að innan raða sé nóg af fólki sem ætti að hafa næga menntun til þess að vinna svona viðmið fyrir ASÍ, en ekki ætlast til þess að ríkið standi í slíku fyrir sambandið.

Kristinn Karl Brynjarsson, 15.2.2011 kl. 22:10

6 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er alveg rétt, Kristinn, að öll frammistaða ASÍ er með ólíkindum í þessum viðræðum öllum og ekki síður framkoma einstakra verkalýðsforingja, sem rífast eins og hundar og kettir í fjölmiðlum og kenna hverir öðrum um klúðrið.

Þetta er orðinn venjubundinn farsi í kringum kjarasamninga og öllum sem að málum koma til skammar.

Axel Jóhann Axelsson, 15.2.2011 kl. 22:29

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband