Ríkisstjórnin skapar ekki störf - heldur þvert á móti

Það er alveg hárrétt hjá Steingrími J., að hvorki hann né ríkisstjórnin hafa skapað nokkurt einasta starf í þjóðfélaginu, enda ekki í verkahring yfirvaldsins að skapa þau.

Það er hinsvegar hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að skapa atvinnulífinu lífvænlegan starfsgrundvöll, sem m.a. byggist á því að regluverkið sé ekki andsnúið atvinnuuppbyggingu og að skattabrjálæðinu sé haldið í skefjum, þannig að það verði ekki til þess að drepa niður alla nýja vaxtasprota, ásamt því að drepa niður þau fyrirtæki sem fyrir eru.

Steingrímur J. og ríkisstjórnin hafa barist með kjafti og klóm gegn öllum áformum um virkjanaframkvæmdir, sem eru alger grundvallarforsenda þess að hægt verði að byggja upp frekari stóriðju í landinu og beitt öllum brögðum til þess að eyðileggja uppbyggingaráform álvers í Helguvík, þar sem þó er búið að eyða milljörðum króna í undirbúningsframkvæmdir.

Einnig hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir alla fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu með gíslatöku sinni á þeim atvinnugreinum undanfarin rúm tvö ár, en engum dettur í hug að leggja út í endurnýjun atvinnutækja eða aðra uppbyggingu á meðan enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar sér með nýskipan fiskveiðistjórnunarinnar.

Ríkisstjórnin hefur ekki skapað neitt nýtt, hvorki á sviði atvinnumála eða á öðrum sviðum, sem til framfara gætu orðið.

Það er alveg rétt hjá Steingrími J., að stjórninni hefur hins vegar gengið vel að framlengja kreppuna langt umfram það sem annars hefði orðið og stuðlað að miklu meira atvinnuleysi en þolanlegt er.

Vonandi fellur ríkisstjórnin fljótlega, svo ný stjórn fái umboð til að taka á þeim málum sem núverandi stjórn ræður ekki við.

Sem reyndar eru nánast öll mál sem undir ríkisstjórn heyra.


mbl.is Ekki hlutverk ríkisins að skapa störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg réttarhöld

Jórdanskur dómstóll hefur tekið fyrir kæru þarlendra blaðamanna og "aðgerðarsinna" gegn danska skopmyndateiknaranum Westergaard, sem teiknaði mynd af spámanninum Múhameð með sprengju í túrbaninum og birtist myndin í Jyllandsposten þann 30. september 2005.

Strax í kjölfar myndbirtingarinnar kváðu ögfafullir islamistar, með Komeni erkiklerk í Íran í broddi fyrirmynda, upp dauðadóm yfir Westergaard og hefur honum nokkrum sinnum verið sýnd banatiræði síðan.

Allir heilvita og hugsandi menn, þar á meðal hófsamir islamstrúarmenn, hafa fordæmt þessar ofsóknir á hendur teiknurunum sem teiknuðu þessar svokölluðu "Múhameðsteikningar", en höfundar þeirra hafa ekki getað um frjálst höfuð strokið í þetta fimm og hálfa ár sem liðið er síðan myndirnar birtust og einnig hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að sprengja höfuðstöðvar Jyllandsposten í loft upp.

Það er algerlega fáránlegt að opinber dómstóll í nokkru heiðvirðu ríki skuli ætla sér að taka fyrir kæru á hendur Westergaard og blöðunum sem myndirnar birtu og minnir svona réttarfar á það sem tíðkaðist á vesturlöndum á miðöldum og gefur ekki fagra mynd af réttarfari þess ríkis, þar sem svona kærur fást teknar til dómsmeðferðar.

Ef Jórdanía er alvöru ríki, verður þessum kærum umsvifalaust vísað frá dómi. 


mbl.is Réttað yfir skopmyndateiknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti flokkurinn í leikstjórn Gauks Úlfarssonar

Í tilefni þess að verið er að frumsýna myndina um Jón Gnarr og Besta flokkinn vestanhafs, er ekki úr vegi að rifja upp kafla úr viðtali við handritshöfund, leikstjóra og framleiðanda Besta flokksins og myndarinnar, sem birt var í Mogganum þann 12. nóvember s.l., þegar myndin var frumsýnd hér á landi:

"Kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson er höfundur heimildarmyndarinnar og hann var önnum kafinn í gær þegar blaðamaður ræddi við hann, enda stutt í forsýningu á myndinni í Sambíóinu nýja í Egilshöll. Gaukur segist hafa kynnst Jóni fyrir um hálfu öðru ári, þeir hafi verið að velta því fyrir sér að skrifa saman sjónvarpsþætti.

„Hann var alltaf með þessa Besta flokks pælingu í rassvasanum og mér fannst hún ekkert sérstaklega góð, var ekki alveg að tengja en svo eina nóttina, þegar ég gat ekki sofnað, kviknaði á einhverri peru í hausnum á mér og ég uppgötvaði að þetta gæti verið algjör snilld,“ segir Gaukur. Hann hafi byrjað að mynda Jón í byrjun desember í fyrra, þegar Jón var að reyna að finna sinn pólitíska karakter, eins og Gaukur orðar það, og hætt tökum eftir kosningasigurinn.

..........

– Nú áttir þú þátt í því að búa til persónuna Silvíu Nótt á sínum tíma. Er Jón Gnarr að einhverju leyti að leika persónu í þessari mynd eftir þínu höfði, ef svo mætti að orði komast?  Er hann að leika hlutverk?

Já, já, hann er að leika fullt af hlutverkum og ég var beggja vegna borðsins, ég var fjölmiðlafulltrúi flokksins og inni í skrípladeildinni líka, eins og við kölluðum það. Að því leytinu var ég með fullt af athugasemdum og hugmyndum sem við ræddum fram og til baka og oft áður en hann fór í stór viðtöl ræddum við afturábak og áfram hvernig við vildum gera það. En á endanum fór hann yfirleitt algjörlega eftir sínu innsæi.“

Talið berst að stefnu Besta flokksins.  Gaukur segir flokksmenn hafa sagt það margoft að þeir væru anarkistar og tekur því undir að stefna flokksins sé stjórnleysisstefna.

– Nú hlýtur að hafa verið rædd önnur og alvarlegri stefna á bakvið tjöldin, eða hvað? Það er varla hægt að stýra borg með anarkisma?

„Það er alveg merkilegt, það eru búnar að koma fréttir alls staðar, um allan heim, í stórum blöðum, stórfréttir um að anarkistar hafi unnið stórsigur í Reykjavík en það hefur aldrei verið rætt um það hérna. Það eru náttúrlega anarkistar við völd í Reykjavík.“

– Er nýju ljósi varpað á stefnu flokksins í þessari mynd?

„Já, já, fólk sem er kannski eitthvað ringlað yfir því hvað það kaus yfir sig eða hverjir eru að stjórna hérna, það mun alveg fá öllum þeim spurningum svarað."

Um þetta þarf ekki að hafa nein fleiri orð.  Af þessu viðtali sést að handritið að gríninu var skrifað af Jóni Gnarr og Gauki Úlfarssyni í sameiningu, leiksýningunni stjórnað af Gauki og kjósendur blekktir til að kjósa anarkista í felubúningum yfir sig.

Helmingur kjósenda flokksins hefur nú þegar séð villur síns vegar og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum fengi Jón Gnarr og Besti flokkurinn aðeins 18% atkvæða, væri kosið nú.  

Þau 18% verða væntanlega horfin frá flokknum í næstu borgarstjórnarkosningum, sem þó verða því miður ekki fyrr en eftir þrjú ár. 


mbl.is Gnarr vekur mikla athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vík burt, Gnarr

Jón Gnarr, svonefndur borgarstjóri, grét og skældi á borgarstjórnarfundi í gær yfir því hvað allir væru vondir við sig og misskildu allt sem hann segði og gerði og hefðu þar að auki engan húmor fyrir bröndurunum sínum.

Í huga Gnarrins eru allir sem gagnrýna hann fyrir getuleysið í borgarstjórnastólnum eintóm húmorslaus illmenni, sem meira að segja skilja ekki brandara um að setja feitan kött i Húsdýragarðinn og misskilja svo annað sem frá þessum brandarakarli kemur.

Júlíus Vífill Ingvarsson sagði á fundinum að Jón Gnarr væri ekki starfi borgarstjóra vaxinn og því bæri honum að víkja úr embættinu. Langstærstur hluti Reykvíkinga deilir þessari skoðun með Júlíusi Vífli, meira að segja stór hluti þeirra sem kusu Besta flokkinn í kosningunum í fyrra, en hafa nú viðurkennt mistök sín og dauðsjá eftir atkvæði sínu í þetta misheppnaða grínframboð.

Sjái Jón Gnarr ekki sjálfur að hann hafi hreint ekki getu til að gegna borgarstjórastarfinu, er hann jafnvel dómgreindarlausari en ætla mætti og er þó ekki með miklu reiknað, miðað við frammistöðuna það sem af er stjórnmálaferlinum.


mbl.is Vill að borgarstjóri víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kjáninn" á Bessastöðum vekur furðu

Uffe Elleman-Jensen og Mogens Lykketoft, fyrrverandi ráðherrar í Danaveldi, furða sig á Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að hann skyldi ekki staðfesta lögin um Icesave III og þannig með kjánaskap sínum taka völdin af Alþingi og grafa þar með undan lýðræðinu í landinu.

Það sem þeir félagar flaska á, er að ÓRG hafði ekkert frumkvæði að því að vísa lögunum til þjóðarinnar, hvorki lögunum um Icesave II né um Icesave III. Það voru kjósendur sjálfir sem kröfðust þess með undirskriftasöfnunum, þar sem meira en fimmti hver kjósandi skráði nafn sitt á áskorun til forsetans að hann sæi til þess að þjóðin sjálf fengi að ráða örlögum málsins.

Í fréttinni er þetta haft eftir þeim félögum: "Lykketoft sagði, að íslenska ríkið vær í mun betri stöðu en til dæmis það gríska eða portúgalska. En hætta væri á að kjáninn í forsetastólnum hefði skemmt fyrir löndum sínum með því að staðfesta ekki lögin.  Elleman-Jensen sagði, að nú spyrðu menn sig út í heimi hvort hægt væri að gera samninga við Íslendinga. Sagði hann, að Ólafur Ragnar hefði í raun tekið lýðræðislega kjörið þing Íslendinga úr sambandi og þannig grafið undan lýðræðinu í Íslandi."

Að vísu hefur "kjáninn í forsetastólnum" haldið því mjög á lofti sjálfur, að lögin hafi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hans frumkvæði og gumað sig af því víða um lönd, að með því hafi hann verið að efla lýðræðið í landinu, en eins og áður sagði hefur ÓRG aldrei gert nokkurn skapaðan hlut til að efla lýðræðið, en hins vegar hafa allar hans athafnir snúist um að upphefja sjálfan sig, enda hugsar hann fyrst og fremst og nánast eingöngu um eigin hag og vinsældir.

ÓRG var óþreytandi stuðningsmaður útrásarvíkinganna á meðan þeir voru átrúnaðargoð þjóðarinnar og uppskar það að verða óvinsælasti maður þjóðarinnar, þegar ofan af gengjunum var flett og rannsóknir á glæpaverkum þeirra hófust.  Með því að fara að áskorunum hins stóra hluta kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave II tókst honum af sinni alkunnu flærð að afla sér vinsælda á ný og bætti þar um betur með því að fara enn að vilja kjósenda varðandi Icesave III.

Kjánarnir dönsku misskilja greinilega hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslurnar fóru yfirleitt fram.  Það var ekki fyrir frumkvæði "kjánans í forsetastólnum", heldur okkar kjánanna sem sameinuðumst um að safna svo mörgum undirskriftum, að ekki var fram hjá þeirri kröfu gengið.

Seint verður hægt að taka undir að ÓRG sé kjáni, en aðdáun hans á eigin egói og frama er hins vegar fölskvalaus. 


mbl.is Undrandi á forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fidel lætur af völdum - loksins

Fidel Kastró hefur tilkynnt afsögn sína sem aðalritari kommúnistaflokks Kúbu og við embættinu tekur bróðir hans Raul, sem hefur gegnt afleysingastörfum fyrir "stóra bróður" undanfarin ár vegna veikinda hans, en Fidel er orðinn 84 ára, en Raul er 80 ára þannig að varla mun hann gegna æðstu embættum í mörg ár til viðbótar.

Kastró, ásamt Che Guevara og öðrum byltingarfélögum sínum komst til valda á Kúbu í ársbyrjun 1959, eftir að hafa steypt spilltri stjórn Baptista frá völdum, en stjórnarfar á Kúbu hefur alla tíð einkennst af spillingu og harðstjórn, sem ekkert minnkaði í  tíð Kastrós því stjórn hans byggðist á mikilli harðneskju og miskunnarleysi gagnvart öllum sem hugsanlega voru andstæðir honum og valdaklíku hans.

Nú, þegar Fidel lætur af embætti og "litli" bróðir tekur við, a.m.k. að nafninu til, fer senn að sjá fyrir endann á Kastrótímanum á Kúbu og von verður til þess að nýjir tímar, með nýjum stjórnendum og stjórnarháttum taki við á Kúbu með von um bætta og betri tíð fyrir þjóðina.

Merkilegum kafla er að ljúka í sögu Kúbu og bjartari tímar framundan.

 


mbl.is Kastró segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegagjöld í stað olíu- og bensínskatta

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er enn farinn að ámálga vegagjöld sem viðbótarskattheimtu af bíleigendum til að fjármagna vegaframkvæmdir, þó nú þegar séu innheimt vegagjöld í olíu- og benslínverði, ásamt ýmsum öðrum sköttum og gjöldum.

Fyrir skömmu voru Ögmundi afhentar undirskriftir rúmlega fjörutíuþúsund manns, sem mótmæltu öllum hugmyndum ráðherrans um auknar skattaálögur á bifreiðaeigendur, en eins og við var að búast af ráherra í núverandi ríkisstjórn, þá ætlar Ögmundur greinilega ekki að taka mark á vilja almennings í landinu, heldur þjösnast áfram með hverja viðbótarskattheimtuna á fætur annarri.

Einu rökin sem réttlæta veggjöld, er sú að með því móti væri hægt að láta alla bifreiðaeigendur greiða sama gjald fyrir notkun veganna, burtséð frá því hvaða orka knýr bifreiðina áfram á ferðum hennar um vegina, hvort sem það er olía, bensín, metan, rafmagn eða hvaða annar orkugjafi sem er.

Þannig gætu veggjöld stuðlað að jafræði milli bifreiðaeigenda og hver þeirra tæki þátt í kosnaði vegna þjóðveganna í samræmi við notkun sína af þeim, en algert skilyrði fyrir slíkri breytingu á veggjöldum yrði að vera, að vegaskattar yrðu þá felldir út úr olíu- og bensínverði og útsöluverð þess lækkaði til samræmis.

Þannig kæmu þessir nýju skattar í stað annarra sem féllu niður, en ekki sem viðbót við annað skattahækkanabrjálæði sem á þjóðinni hefur dunið undanfarin tvö ár.


mbl.is 200 króna veggjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykás-ríkisstjórn

Ragnar Reykás er ein allra best heppnaða persóna Spaugstofunnar og er persónugerfingur tvískinnungs og skoðanasveiflna í þjóðfélaginu, enda með og á móti hverju málefni sem undir hann er borið.

Ríkisstjórnin hefur öll Reykáseinkennin, enda tala ráðherrar hennar með og á móti hverju máli sem til kasta ríkisstjórnarinnar kemur, annan daginn talar einhver ráðherrann fyrir málinu og næsta dag kemur annar og lýsir algerlega öndverðum skoðunum, enda komast engin bitastæð mál stjórnarinnar af umræðustigi yfir á framkvæmdastig.

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave lýstu ráðherrarnir í ræðu og riti hvílíkt hörmungarástand myndi skapast í landinu yrðu lögin felld, vegna þess að enginn erlendur fjárfestir eða lánastofnun myndi vilja koma inn fyrir tvöhundruð mílna landhelgina og skuldatryggingarálag landsins færi upp úr öllu valdi og lánshæfismat að sama skapi á sorphaugana.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna kverður við algerlega annan tón hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem nú hafa lagst í ferðalög til að útskýra fyrir heiminum hve ótrúlega vel gangi á öllum sviðum í landinu, ekki síst sé árangur í efnahagsmálum stórkostlegur og NEIið í þjóðaratkvæðagreiðslunni skipti ekki nokkru máli fyrir þann mikla uppgang sem þegar er orðinn hér um sveitir, sem þó sé aðeins sýnishorn af þeirri velmegun sem hér muni ríkja á næastu mánuðum.

Árni Páll, sem var manna svartsýnastur fyrir kosningar, er nú rífandi bjartsýnn, eins og þessi ummæli hans í útlöndum sýna, þegar hann ræddi um ótta fjármagnsráðenda veraldarinnar við öll samskipti við Ísland, eins og hann hafði þó sjálfur spáð: "Nú síðustu viku höfum við ekki séð nein slík viðbrögð. Það er ekki að sjá að nei-ið hafi haft teljandi áhrif á mat á greiðsluhæfi Íslands í viðskiptum með skuldatryggingaálag Íslands og það er ekki heldur að sjá að þetta hafi áhrif á erlenda fjárfestingu. Þvert á móti kom bein erlend fjárfesting í íslenskan banka á mánudaginn var."

Ríkisstjórnin er Ragnari Reykás sannarlega til sóma þessa dagana. 


mbl.is Engin áhrif á samstarf við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin að eyðileggja kjarasamninga

Nú er að koma í ljós það sem margir óttuðust, að ríkisstjórninni er að takast að eyðileggja möguleikana á að hægt verði að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára og viðhalda þannig óvissu um nýja atvinnuuppbyggingu og minnkun atvinnuleysis.

Ríkisstjórnin hefur barist með ótrúlegu þolgæði gegn öllum þeim atvinnutækifærum sem mögulegt hefði verið að koma af stað við eðlilegar aðstæður og nægir þar að nefna byggingu nýrra fyrirtækja á Suðurnesjum og við Húsavík, ásamt þeim virkjanaframkvæmdum sem þeim framkvæmdum hefði fylgt.

Sjávarútvegurinn hefur verið í algerri óvissu vegna innbyrðis ósamkomulags innan og milli stjórnarflokkanna og í þeirri grein hefur ríkt alger stöðunum og öllum framkvæmdum verið slegið á frest, enda hefur enginn hugmynd um hvaða rekstrarskilyrði atvinnugreininni verður boðið að starfa við á næstunni.

Við þær aðstæður sem ríkja í stjórnarfari landsins dettur engum í hug að hægt sé að ganga frá kjarasamningum til langs tíma og er það með ólíkindum að ríkisstjórn nokkurs lands skuli berjast gegn kjarasamningagerð með þvílíku offorsi sem íslenska ríkisstjórnin gerir nú.

Vonandi verður ríkisstjórnin fallin og ný tekin við, þegar þráðurinn verður tekinn upp á ný við gerð samninga, svo launþegar fái langþráðar kjarabætur og nýtt hagsældartímabil geti hafist.


mbl.is Reyna að ná skammtímasamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættuleg afskipti þingmanna

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Samfylkingarkona og einkavinur Jóhönnu, varar eindregið við því að ríkisstjórnin og alþingismenn fari að skipta sér af rekstri Landsvirkjunar og taki í sínar hendur að ákveða hvar og hvenær verði virkjað og enn frekar að ætla sér að ákveða í hvaða landshlutum iðnfyrirtæki verði starfrækt. 

Slíkar hugmyndir stjórnmálamanna telur hún stórhættulegar rekstri fyrirtækisins, trúverðugleiki þess og lánshæfi hverfi eins og dögg fyrir sólu, enda vita allar fjármála- og lánastofnanir heimsins að slík "byggðastefna" gengur hvergi upp og skapar aldrei störf til langs tíma, enda hugsa stjórnmálamenn eingöngu um eigið endurkjör á fjögurra ára fresti, en ekki langtímahagsmuni lands og þjóðar.

"Byggðastefna" sem hefur byggst á því að ríkið hafi ætlað sér að hafa forgöngu um atvinnuuppbyggingu á ákveðnum svæðum hér á landi hafa aldrei gengið upp og nægir að benda á hörmungarsögu Byggðastofnunar í því sambandi.  Núverandi ríkisstjórn lofaði í Stöðugleikasáttmálanum að liðka til fyrir uppbyggingu stóriðju á Reykjanesi og sveik það loforð jafnharðan.  Stjórnin hélt ríkisstjórnarfund á Suðurnesjum og lofaði þar mikilli atvinnuuppbyggingu, sem helst átti að byggjast á stofnun herminjasafns, en ekkert hefur frést af þeim áformum síðan.

Nýlega fundaði stjórnin á vestfjörðum og lofaði þar gulli og grænum skógum til handa heimamönnum og munu þeir ekki vera búnir að jafna sig ennþá á því áfalli, enda vandamálin sem við er að glíma í landsfjórðungnum næg, þó ekki bætist svikalisti ríkisstjórnarinnar þar við.

Farsælast er að láta atvinnulífið og fyrirtækin sjálf komast að niðurstöðu um það hvar hagkvæmast er að byggja upp atvinnustarfseminga og þar ráði eingöngu hagkvæmni og arðsemi förinni.

Það mun verða þjóðfélaginu farsælast og þá ekki síst launþegum sem með því geta reiknað með stöðugri og varanlegri atvinnu.


mbl.is Ríkið haldi sig frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband