28.4.2011 | 16:17
Verður Björn Valur dæmdur æruníðingur?
Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, sagði á bloggi sínu fyrir skömmu að Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðiflokksins, væri mútuþegi vegna þeirra styrkja sem hann fékk frá einstaklingum og fyrirtækjum til að fjármagna prófkjörsbaráttu sína fyrir síðustu Alþingiskosningar.
Það er gríðarlega alvarlegt að saka þingmann um mútuþægni, liggi ekki haldgóðar sannanir að baki, en að því er virðist hefur Björn Valur ekkert undir höndum, sem rennt gæti stoðum undir fullyrðingar sínar. Ekki síst er hér um grafalvarlegt mál að ræða, þar sem ásökunin kemur frá Alþingismanni, sem líklega ætlast til að mark sé á sér tekið.
Guðlaugur Þór hefur krafist afsökunarbeiðnar frá Birni Vali og verði hann ekki við þeirri kröfu fyrir mánaðamót hyggst Guðlaugur kæra hann fyrir ærumeiðingar, en fyrstu viðbrögð benda ekki til að Björn Valur ætli að verða við þeirri kröfu, heldur forherðist einungis og heimtar að Guðlaugur Þór afsanni ásakanirnar, þvert á landslög sem gera ráð fyrir að þeir sem ráðast á æru annarra með dólgshætti sanni mál sitt mál og leggi fram gögn til stuðnings ásökununum.
Björn Valur er vanur að svara með hortugheitum og líklegt er að hann dragi orð sín ekki til baka nema eftir að dómstólar dæma hann til þess.
Dæmdur æruþjófur getur tæplega setið á Alþingi, falli dómar Birni Vali í óhag.
![]() |
Fékk frest til mánaðamóta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (33)
28.4.2011 | 13:41
Lokatilraun, sem líklega mistekst
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, segir að fulltrúar samtakanna hafi verið í óformlegum viðræðum við ríkisstjórnina undanfarna daga og að í dag verði gerð lokatilraun til að fá stjórnina til að leggja sitt af mörkum til að mögulegt verði að gera kjarasamninga til þriggja ára.
Bæði fulltrúar SA og ASÍ hafa marg lýst yfir vonbrigðum sínum með tregðu ríkisstjórnarinnar og ráða- og viljaleysi í sambandi við kjaraviðræðurnar, sem staðið hafa yfir allt frá áramótum og allan þann tíma hafa ráðherrarnir lítinn vilja sýnt til að leggjast á eitt með aðilum vinnumarkaðarins í þeim tilgangi að finna lausn á málinu, sem allir gætu sætt sig við.
Þrjóska forsætisráðherrans, Jóhönnu, er alkunn og nánast engar líkur á því að hún bakki með nokkurn skapaðan hlut sem hún hefur bitið í sig, en hún hefur verið stóryrt í garð SA og sagt að ekki verði hlustað á nokkuð sem sambandið hafi fram að færa og Steingrímur J. hefur einnig sagt að það sé ekki í verkahring ríkisstjórnarinnar að skapa störf í landinu og því komi þessi mál stjórninni lítið við. Sjávarútvegsráðherrann gefur hinum lítið eftir í þrjóskunni og honum hefur ekki ennþá tekist að böggla saman tillögum um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarinnar, þrátt fyrir að "sáttanefndin" hafi skilað af sér tillögum fyrir átta mánuðum síðan.
Allt bendir því til þess að ríkisstjórnin þrjóskist við áfram, neiti að koma með raunhæfar aðgerðir af sinni hálfu til að liðka fyrir samningum og því muni lokatilraunin sem gerð verður í dag mistakast.
Fari fram sem horfir, munu verkföll skella á seinni hluta maímánaðar, í boði ríkisstjórnarinnar.
![]() |
Lokatilraun í dag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2011 | 10:07
Verðbólga í boði Steingríms J.
Verðbólga er gríðarleg í landinu þrátt fyrir dýpkandi kreppu og gjaldeyrishöftin, en seðlabankinn á að geta stjórnað gegni krónunnar algerlega vegna haftanna, en þrátt fyrir það hefur gegnið lækkað um 5% frá áramótum og innfluttar vörur því hækkað sem því nemur a.m.k.
Þrátt fyrir hvatningu um að lækka álögur á bensín og olíur, hefur Steingrímur J. sagt að ekkert mundi muna um slíkar lækkanir, en bensínlíterinn kostar nú hátt í 240 krónur og rennur helmingur þeirrar upphæðar beint í ríkiskassann. Samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar hækkaði verð á bensíni og olíum í síðasta mánuði um 3,2%, sem hækkaði vísitöluna um 0,19% og myndi flesta muna verulega um að slegið yrði á þessi áhrif.
Athyglisverðustu tíðindin, sem koma fram í viðhangandi frétt er þessi: "Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,9% sem jafngildir 12,3% verðbólgu á ári."
Þessi gríðarlega verðbólga verður að skrifast á vanmátt ríkisstjórnarinnar í stjórn efnahagsmála, enda er kaupgeta almennings algerlega að þurkast út og þeir sem minnst hafa milli handanna eiga ekki orðið fyrir mat og öðrum nauðsynjum, nema í nokkra daga eftir hver mánaðamót.
Ríkisstjórnin hefur algerlega brugðist í þessum málum, sem öðrum, og ætti að leggja gæluverkefnin til hliðar, en snúa sér að því sem máli skiptir, en það er í 1. lagi atvinnuuppbygging, í 2. lagi atvinnuuppbygging og í 3. lagi atvinnuuppbygging.
Kjör almennings munu ekki batna og atvinnuleysi minnka, nema stjórnin fari að sinna þessum málum og það með algerum forgangi.
![]() |
Verðbólgan nú 2,8% |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.4.2011 | 08:27
Hvað vill haukurinn Össur gera í Sýrlandsmálum?
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur ekki getað komist að niðurstöðu um hvort og þá hvað skuli gera vegna grimmdarverka Assads Sýrlandsforseta gegn eigin þegnum, sem nú krefjast aukinna mann- og lýðréttinda með fjöldamótmælum vítt og breytt í borgum landsins.
Rússar og Kínverjar berjast hart gegn hvers kyns afskiptum af mannréttindabaráttu Sýrlendinga, enda hræddir við fordæmið sem slík barátta getur haft í þeirra eigin ríkjum, en Frakkar, Þjóðverjar og Bandaríkjamenn leggja áherslu á og krefjast þess að grimmdarverkunum gegn almenningi í Sýrlandi verði hætt og réttindi íbúanna aukin.
Össur Skarphéðinsson barðist hart fyrir að vestrænar þjóðir skiptu sér af innanlandsátökunum í Líbíu og þótti ekki nóg að gert með loftárásum á hersveitir Gaddafis, heldur vildi að innrás yrði gerð í landið án tafar og harðstjóranum yrði velt úr valdastóli umsvifalaust, með öllum tiltækum ráðum. Með framgöngu sinni skipaði Össur sér í fremstu röð vestrænna stríðshauka og fór svo að lokum að ekki var farið að hans ráðum, en loftárásir þó hafnar sem ekki hafa þó skilað tilætluðum árangri ennþá.
Svo mikið lá Össuri á í hernaðarbröltinu gegn Líbíu að hann gaf sér ekki einu sinni tíma til að afla sér formlegs umboðs ríkisstjórnarinnar eða Utanríkismálanefndar Alþingis fyrir stríðsyfirlýsingunni, en fékk aðeins óformlegt samþykki Ögmundar, Steingríms J. og annarra VGliða áður en hann lagði upp í herförina, sem að vísu var ekki framkvæmd af þeim krafti sem hann sjálfur óskaði eftir.
Í fréttum frá Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna kemur ekkert fram um hvað íslenski stríðsmaðurinn í ríkisstjórn Íslands vill gera í málefnum Sýrlands.
Frétta af vilja Össurar er beðið með eftirvæntingu á vesturlöndum, en með skelfingu í herbúðum Assads.
![]() |
Öryggisráðið klofnar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2011 | 22:36
Endalaus ósannindi um ESBaðlögunina
Fulltrúum ríkisstjórnarinnar virðist algerlega fyrirmunað að segja satt orð um aðlögun Íslands að ESB, sem reyndar er algerlega andstætt samþykkt Alþingir um viðræður við sambandið um hugsanlega aðild.
Össur Skarphéðinsson er orðinn að athlægi vegna stöðugra ósanninda sinna um þennan gang mála og nú gerir Árni Þór Sigurðsson sig beran að ósannsögli af stærri gerðinni, þegar hann reynir að láta líta út fyrir að sátt og samlyndi hafi ríkt á fundi þingmannanefndarinnar sem hefur með aðlögunina að gera og fundar reglulega um málið.
Gert var ráð fyrir að nefndin sendi frá sér yfirlýsingu um aðlögun landsins að ESB eftir þennan fund, eins og eftir fyrsta fund nefndarinnar, en gífurlegt ósamkomulag var um innihald og texta þeirrar tillögu að ályktun, sem lögð var fyrir fundinn og samin var í Brussel og send fundinum til afgreiðslu.
Árni Þór reynir með venjulegum ósannindavaðli stjórnarliða að gera lítið úr því báli, sem tillagan olli á fundinum og segir m.a. í viðtali við mbl.is: "Það var ekki alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna um þær. Síðan var það þannig hjá okkur að það voru mismunandi skoðanir á því hvort menn ættu að vera að álykta og hversu mikið þannig að það varð niðurstaða okkar formannanna, mín og Gallagher, að leggja það ekki til."
Árni segir aðeins að ekki hafi verið "alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna", en þegir yfir því að ýmsir íslenskir þingmenn hafi verið algerlega öskureiðir yfir þeirri tillögu að ályktun sem lögð var fyrir þá til samþykktar. Vegna þessarar óánægju Íslendinganna drógu formennirnir tillöguna til baka og þorðu ekki að láta reyna á atkvæðagreiðslu um hana.
Það verður að teljast með ólíkindum, ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar halda að þeir geti prettað þjóðina inn í Evrópusambandið með hálfsannleik, hreinum lygum og svikum.
Þjóðin er löngu búin að sjá í gegnum blekkingarvefinn.
![]() |
Ákveðið að hætta við að álykta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.4.2011 | 15:30
Neyðarlögin björguðu þjóðfélaginu frá algeru hruni
Héraðsdómur kvað í dag upp þann úrskurð að neyðarlögin frá árinu 2008 stæðust íslensku stjórnarskrána, samninginn um evrópska efnahagssvæðið og mannréttindaákvæði Evrópusambandsins. Þetta er gríðarlega góður og merkilegur dómur, sem vonandi og nánast örugglega verður staðfestur af Hæstarétti.
Í dóminum segir m.a: "...Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að aðgerðir þessar hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara."
Dómurinn er staðfesting á því, hve gott verk ríkisstjórn Geirs H. Haarde vann á síðustu dögunum fyrir hrun við gríðarlega erfiðar aðstæður.
Það þjóðþrifaverk hafa núverandi stjórnarflokkar þakkað með því að stefna Geir, einum ráðherra síðustu ríkisstjórnar, fyrir Landsdóm.
Þjóðin er reyndar hneyksluð á þeirri svínslegu aðgerð, enda í mikilli þakkarskuld við þá sem björguðu þjóðfélaginu frá algeru efnahagslegu hruni á haustdögum 2008.
![]() |
Lögmætt markmið neyðarlaga |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
27.4.2011 | 13:00
Suðurnesin í kuldanum - en ennþá von á herminjasafni
Í vetur var haldinn ríkisstjórnarfundur á Suðurnesjum með mikilli viðhöfn og þar lagðar fram göfugar áætlanir um atvinnuuppbyggingu á svæðinu, þar á meðal flutning Landhelgisgæslunnar og stofnun herminjasafns á Keflavíkurflugvelli.
Eins og við var að búast af þessari ríkisstjórn hefur ekkert orðið úr neinum framkvæmdum þar suður frá og atvinnuleysi á svæðinu aukist frá því að "atvinnuuppbyggingaráætlunin" var kynnt.
Nú hefur ríkisstjórnin endanlega slegið af allar hugmyndir um flutning gæslunnar á Suðurnes vegna kostnaðar, en undarlegt er að kostnaðaráætlunin skuli ekki hafa verið gerð áður en ríkisstjórnin hélt í grobbferð sína, sem greinilega var farin í þeim eina tilgangi að blekkja Suðurnesjamenn, en atvinnuleysi þar er það mesta á landinu, eða um 15%.
Miklar vonir hljóta að vera við það bundnar suður með sjó, að ríkisstjórnin standi við loforðið um stofnun herminjasafnsins, enda mun það a.m.k. skapa eitt til tvö störf og þar með mun ríkisstjórnin sjálfsagt telja sig hafa gert stórvirki í atvinnusköpun, ekki bara á Suðurnesjum heldur á landsvísu.
Takist að koma á herminjasafni verður það mesta átak í atvinnumálum, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á öllum sínum ferli og mun hún þá vafalaust telja sig hafa unnið þrekvirki á því sviði.
![]() |
Landhelgisgæslan ekki flutt í bráð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.4.2011 | 18:56
Vinstri grænir og Villtir grænir
Óhætt er að segja að allt sé upp í loft í villta vinstrinu og ekki útséð um hvernig mál þróast á stjórnarheimilinu á næstu vikum og hvað þá hvað gerist innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.
Nú er svo komið að undanvillingarnir úr VG treysta sér ekki til að stofna formlegan þingflokk, vegna þess að "staðan í íslenskum stjórnmálum er óráðin" og trúi hver sem vill þeirri skýringu. Líklegt er að viðræður standi ennþá á milli Villtra grænna og Hreyfingarinnar um samstarf eða samruna og óvíst hvað úr þeim þreifingum verður á endanum.
Hnúturnar ganga á milli flokksbrota VG og ásakar hvor hópurinn hinn um að svíkja "hugsjónir" og stefnu flokksins og ekki einu sinni samkomulag um hvort hópurinn sé raunverulega Vinstri grænir og hvor Villtir grænir.
Það eina sem við blasir er að félagar beggja fylkinga eru algerlega grænir í öllum málum sem gætu orðið þjóðinni til hagsbótar.
Eigin hagur og pólitísk framtíð er hins vegar í algerum forgangi í villta vinstrinu og er þá átt við báða "hreinu og tæru" vinstri flokkana, eins og stjórnarflokkarnir nefna sig svo skemmtilega á hátíðar- og tyllidögum.
![]() |
Ekki tímabært að stofna þingflokk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2011 | 16:04
Það verða engin verkföll boðuð
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er farinn að tala digurbarkalega vegna stöðunnar í kjaraviðræðunum við SA og gefur í skin að boðun verkfalla sé á næsta leiti.
Samtök atvinnulífsins hanga hins vegar fast á kröfu sinni á hendur ríkisstjórninni um að lausn fáist á framtíðarstjórnun fiskveiða, þannig að sjávarútvegsfyrirtækin viti í hvernig umhverfi þeim verði ætlað að starfa í framtíðinni og verður ekki annað sagt, en að það sé réttmæt krafa enda ríkisstjórnin búin að vera að vandræðast með málið í tvö ár og meira en hálft ár síðan "sáttanefndin" skilaði niðurstöðu, sem engin sátt er um innan stjórnarflokkanna.
SA eru svona stíf á kröfu sinni vegna þess að forsvarsmenn samtakanna vita sem er, að félög innan ASÍ munu ekki boða til neinna verkfalla á næstunni, enda býður atvinnuástandið ekki upp á slíkar aðgerðir því þær myndu ganga af vel flestum fyrirtækjum dauðum, þ.e. öllum þeim sem einhverja möguleika eiga til framhaldslífs, væru aðstæður eðlilegar í efnahagskerfinu.
Líklega mun þrjóska Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóns Bjarnasonar leiða til þess að kjaraviðræður verði í lausu lofti í einhverjar vikur ennþá.
![]() |
Vísi deilu til sáttasemjara |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
26.4.2011 | 13:56
Neytendur svartsýnir, en eiga að bera uppi hagvöxtinn
Samkvæmt Gallup eykst svartsýni neytenda á að ástand efnahagsmálanna batni nokkuð á næstunni, reyndar hefur trú á slíka þróun verið á stöðuguri niðurleið undanfarna mánuði.
Nánast allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækkuðu og í fréttinni segir m.a: "Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat landans á atvinnuástandinu en hún lækkaði um heil 13,3 stig milli mánaða og mælist nú aðeins 48,7 stig."
Samkvæmt hagspám ríkisstjórnarinnar, seðlabankans og ASÍ er gert ráð fyrir 2,3-2,8% hagvexti á árinu 2011 og á sá vöxtur að vera borinn uppi af aukinni einkaneyslu. Á meðan fólk öðlast enga trú á því að atvinnuástandið batni og atvinnuleysi minnki, eru litlar líkur á því að neytendur auki eyðslu sína að nokkru ráði og reyndar líklegra að þeir dragi úr henni, enda hefur kaupmáttur farið stöðugt minnkandi og ríkisstjórn og seðlabanka mistekist að halda verðbólgunni innan takmarks seðlabankans, sem er að ársverðbólga verði ekki umfram 2,5%.
Stöðug lækkun Væntingavísitölunnar er í raun vantraust neytenda á ríkisstjórninni og til að breyting verði á, þarf ríkisstjórnin annað hvort að segja af sér eða hætta hatrammri baráttu sinni gegn hvers kyns uppbyggingu atvinnufyrirtækja, leysa sjárvarútveginn úr gíslingu og stuðla þannig að minnkun atvinnuleysis.
Þolinmæði almennings gagnvart ríkisstjórninni er þrotin, enda kjör hans orðin slík að ekki verður við unað lengur.
![]() |
Svartsýni neytenda eykst |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)