Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Ætli Jóhanna og Össur hafi frétt þetta?

Hlutabréfavísitölur í Evrópu eru í frjálsu falli og sífellt er að koma betur og betur í ljós að skuldakreppan sé dýpri víða í álfunni, en áður hefur verið viðurkennt opinberlega. Áður hefur verið vitað um erfiðleikana í Gríkklandi, Írlandi, Portúgal, Belgíu og Spáni og núna er Ítalía að bætast í hóp þeirra evruríkja, sem reiknað er með að geti ekki bjargast út úr skuldavandræðunum án neyðarhjálpar ESB og AGS.

Skuldatryggingarálag Spánar og Ítalíu hefur hækkað mikið undanfarið og hefur ekki verið hærra í tólf ár.  Þessi lönd og reyndar fleiri evruríki þurfa nú að búa við hærra skuldatryggingarálag en Ísland og hafa þó bæði Jóhanna og Össur, ásamt nytsömum sakleysingjum sem trúa þeim, haldið því fram að það eina sem kæmi Íslandi aftur á réttan kjöl, væri að taka upp evruna.  Aðrir eru reyndar á þeirri skoðun að evran sé deyjandi gjaldmiðill og útför hennar verði auglýst fljótlega.

Frétt mbl.is endar á þessu:  "Ræða nú fjármálaráðherrar evru-ríkjanna nýjan björgunarpakka fyrir Grikkland en svo virðist sem það sem helst valdi fjárfestum áhyggjum er ástand mála á Ítalíu og Spáni. Segir fjármálaráðherra Belgíu, Didier Reynders, í samtali við BBC að spenna ríki á evru-svæðinu og það verði að finna lausn."

Getur það virkilega verið að Jóhanna, Össur og aðrir ESBelskendur séu eina fólkið í Evrópu, sem hefur ekki frétt af erfiðleikum ESBríkjanna og þá alveg sérstaklega þeirra sem nota evru sem gjaldmiðil? 


mbl.is Skuldakreppan bítur á mörkuðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gríðarleg sóun fjármuna á útihátíðum

Lengi hefur það verið "siður" á útihátíðum að henda öllu rusli þar sem fólk stendur, þegar það þarf að losa sig við umbúðir, flöskur eða matarafganga. "Besta útihátiðin" á Gaddstaðaflötum við Hellu sker sig ekkert úr öðrum útihátíðum að þessu leyti eða öðru, sem lengi hefur viðgengist á slíkum mannamótum.

Í fréttinni af þessari helgarskemmtun segir m.a: "Útihátíðin er kölluð Besta útihátíðin, en umgegni á gesta á hátíðinni var ekki eins og best er á kosið. Rusl er um allt og margir hafa ekki hirt um að taka tjöld eða annan viðlegubúnað með sér heim."

Fyrir bankahrun, þegar allir höguðu sér eins og auðkýfingar, varð mjög áberandi að unglingarnir hirtu ekki um að taka útilegubúnaðinn með sér heim aftur af svona útisamkomum og kveiktu jafnvel í tjöldum sínum með öllum viðlegubúnaði, þegar svæðið var yfirgefið.  Sá búnaður sem þannig er skilinn eftir, eða brenndur, er oft tugþúsunda króna viðri og heildarverðmæti þess sem eyðilagt er, eða skilið eftir, hleypur á hundruðum þúsunda króna, eða jafnvel milljónum.

Margt af þessu unga fólki leikur þennan sama leik ár eftir ár og kastar þannig frá sér stórum upphæðum, ár hvert og kaupir sér svo einfaldlega nýjan búnað næsta ár og endurtekur þá sama leikinn.  

Þetta verður að teljast alveg ótrúlegt sóun og vanvirðing verðmæta og algerlega með ólíkindum. Svona bruðl vekur líka upp spurningar um hvers konar fyrirmyndir þetta unga fólk fær á heimilum sínum, þegar verðmætasóun af þessu tagi virðist þykja bæði eðlileg og talsvert almenn.

Svona háttarlag er eitt af því, sem ætla hefði mátt að hyrfi algerlega eftir efnahagshrunið.  Kreppan virðist a.m.k. ekki bíta illa þau heimili, sem þessir unglingar koma frá. 


mbl.is Ekki góð umgengni á hátíðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ÞjóðlagaSTÓRhátíð á Siglufirði

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hefur fest sig í sessi sem ein merkasta bæjarhátíð landsins, vegna fjölbreyttrar og góðrar dagskrár. Mikill fjöldi listamanna kemur fram á hátíðinni, bæði tónlistarfólk og dansarar og einnig eru haldin námskeið á ýmsum sviðum þjóðlegra fræða.

Ósanngjarnt væri að tilgreina einstök atriði, enda ekki á nokkurs manns færi að sjá og heyra allt sem fram fer á hátíðinni, svo miklu er úr að velja, en svo mikið er víst, að ekki eitt einasta atriði var bara miðlungs, þau voru öll stórkostleg, hvert á sínu sviði.

Aðstandendur og starfsfólk hátíðarinnar á mikinn heiður skilinn fyrir afbragðs góða hátíð, með glæsilegum dagskrárliðum sem fram fóru í skemmtilegu umhverfi Bátahússins, kirkjunnar og annarra gamalla og nýrra samkomustaða bæjarins.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði er orðin að sannkallaðri STÓRHÁTÍÐ, þar sem fyrir gesti eru bornir sannkallaðir veisluréttir af glæsilegu hlaðborði.


Sparnaður hér, aukin útgjöld þar

Björn Zoega, forstjóri Landspítalans, bendir á þá augljósu staðreynd, í pistli á vefsíðu spítalans, að gríðarlegur niðurskurður víða í heilbrigðiskerfinu bitnar á Landspítalanum að því leyti að innlögnum fjölgar þar og erfiðara er að koma sjúklingum út af sjúkrahúsinu aftur, t.d. til vistunar á hjúkrunarheimilum annað hvort til skamms eða langs tíma.

Björn bendir á, að vegna sumarlokana einstakra deilda á Landspítalanum sé ástandið enn erfiðara en ella og álag á starfsfólk meira en góðu hófi gegnir og þar að auki komi fyrir að nauðsynlegt sé að láta sjúklinga liggja á göngunum, fyrir og eftir aðgerðir.

Á vefnum segir Björn m.a: "Vonandi stendur þetta allt til bóta þegar líður á sumarið en úrlausnir eru ekki margar því að Landspítali er sá staður sem hefur alltaf opið og tekur við öllum hvenær sem er þegar aðrir hafa minnkað sína starfsemi eða lokað."

Þetta sýnir að niðurskurður í heilbrigðiskerfinu er kominn yfir sársaukamörk og lengra verður ekki gengið í þeim efnum.  Um leið og efnahagslegar forsendur leyfa verður reyndar að auka framlög til heilbrigismála aftur og létta það aukna vinnuálag, sem starfsfólk Landspítala hefur þurft að taka á sig undanfarin misseri.

Ennfremur sannast enn og aftur á þessu, að niðurskurður og sparnaður á einum stað í ríkiskerfinu veldur einfaldlega auknum kostnaði og álagi annars staðar.  Oft á tíðum bitnar bæði kostnaðurinn og álagið harðast á sjúklingunum sjálfum, sem auðvitað eru í lakastri stöðu til að taka slíkt á sig. 


mbl.is Samdráttur leiðir til aukins álags
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Össur aðstoðarutanríkisráðherra Palestínu?

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra Íslands, er á ferðalagi í Palestínu í þeim tilgangi að leysa ágreiningsmál Ísraela og Palestínumanna, en eins og fólki er kunnugt, hefur ekki ríkt sátt og samlyndi um alla hluti milli þeirra undanfarið, þ.e.a.s. aldrei.

Skemmst er að minnast heimsóknar Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi utanríkisráðherra, til Ísrael á árinu 2007 en eftir þá heimsókn lýsti hún því yfir að sjálf myndi hún beita sér fyrir friðarsamkomulagi milli stríðandi fylkinga á svæðinu. Það gekk ekki alveg eftir og nú tekur Össur upp þráðinn að nýju, en að vísu flytur hann sinn friðarboðskap handan annarra landamæra en Ingibjörg Sólrún gerði og telur það sjálfsagt vænlegra til árangurs.

Össur og Al Maliki, utanríkisráðherra í heimastjórn Palestínu, eru búnir að undirrita samkomulag um samráð sín í milli og þó það komi ekki nógu skýrt fram í fréttinni, hlýtur það samkomulag að fjalla um saráð Al-Malikis við Össur um vandamál Palestínu, því ekki er heimilt að fela útlendingum stjórn utanríkismála Íslands.

Samkvæmt því verður ekki annað séð en að Össur sé orðinn aðstoðarutanríkisráðherra í heimastjórn Palestínu og verður þess þá sennilega ekki langt að bíða að lögð verði fram innlimunarbeiðni frá Palestínu í væntanlegt stórríki Evrópu.

Finnist einhverjum slíkt vera fráleitt getur Össur bent á það fordæmi að Ísrael hafi lengi verið þáttakandi í Eurovision.


mbl.is Samráð Íslendinga og Palestínumanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nær að berjast gegn verðbólgu og vaxtaokri

Hagsmunasamtök heimilanna hafa enn á ný blásið til sóknar gegn verðtryggingunni, en virðist láta vaxtaokrið sem viðgengist hefur í þjóðfélaginu í áratugi sig litlu skipta.

Nær væri að beina kröftunum að baráttunni gegn verðbólgunni, sem er auðvitað ber alla sök á hækkun vísitalna, því ef verðbólga er lítil sem engin er verðtryggingin sem slík ekkert vandamál.

Vextir hafa hins vegar alltaf verið í hæstu hæðum hér á landi og miklu hærri en í nágrannalöndunum. Í flestum löndum þykja 1-2% raunvextir vera ásættanlegir vextir fyrir lánveitendur og ættu vextir af verðtryggðum lánum ekki að vera hærri en það.

Þó verðtrygging verði afnumin í núverandi mynd, þarf enginn að láta sér detta í hug að lán yrðu veitt framvegis með neikvæðri ávöxtun, þannig að vaxtastigið yrði alltaf nokkrum prósentum hærra en verðbólgan hverju sinni, alveg eins og verið hefur með óverðtryggð lán hingað til.

Ef ásættanleg lánakjör eiga að fást hér á landi, verður áherslan framvegis að vera á fastatökum efnahagsmálanna, lágri verðbólgu og eðlilegum vöxtum.


mbl.is Vilja afnám verðtryggingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atgerfisflótti í boði ríkisstórnarinnar

Mikill atgerfisflótti á sér stað um þessar mundir frá landinu og flýja t.d. iðanaðarmenn sem misst hafa vinnu sína til norðurlandanna og þá sérstaklega til Noregs, þar sem uppgangur er mikill um þessar mundir.

Það sem hins vegar er verst af öllu er, að heilbrigðisstarfsmenn flykkjast nú úr landi og ráða sig til starfa viða um lönd, þó líklega sé mest um þann menntaútflutning til nágrannalanda. Þessi flótti stafar ekki af atvinnuleysi heilbrigðisstarfsmanna hér á landi, heldur vegna launastefnu ríkisstjórnarinnar, sem einkennist af þeirri ótrúlegu skammsýni að enginn í landinu megi hafa hærri laun en Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.

Nú er svo komið að þriðji hver íslenskur læknir starfar erlendis og hjúkrunarfólk farið að streyma úr landi vegna aukins vinnuálags á sjúkrahúsunum og launastefnu ríkisstjórnarinnar. Margir sérfræðilæknar, sem ennþá eiga að heita að vera með starfsemi hérlendis, vinna orðið að hluta til erlendis, allt að því aðra hverja viku. Samgöngur milli landa eru orðnar svo fíðar, að þrátt fyrir kostnað af ferðunum, kjósa læknar slíkt vinnufyrirkomulag vegna aðstöðunnar og launanna sem þeim er boðið uppá af ríkisstjórn Jóhönnu, launaviðmiðs.

Á meðan ekki er hægt að halda núverandi heilbrigðiskerfi og sjúkrahúsum gangandi er a.m.k. alger della að ætla sér að hefja byggingu nýs Landsspítala.


mbl.is Flykkjast til Noregs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Styðjum Pálma í Fons

Pálmi í Fons var og er einn þeirra snillinga sem tóku að sér að "endurskapa" íslenskt efnahagslíf á fyrsta áratug þessarar aldar ásamt Bónusgenginu og fleiri "athafnamönnum" og bankastjórnendum, en bankarnir voru í eigu nokkurra gengja, sem einnig "áttu" nánast öll helstu fyrirtæki landsins, sem þeir "keyptu" fyrir lán frá bönkunum sínum.

Nánast hvert einasta af þessum fyrirtækjum er nú gjaldþrota, en á þeim fáu árum sem gegnin áttu þau var yfirleitt öllu eigin fé þeirra ráðstafað til greiðslu arðs til "eigendanna" og ekki hefur spurst til þeirra peninga síðan. Hugmyndaflug þessara fjármálaspekinga var nánast óþjrjótandi varðandi það, að koma peningum úr landi og inn á reikninga í ýmsum "bankaparadísum" og skattaskjólum.

'I viðhangandi frétt er t.d. sagt frá einni aðferðinni: "Hinn 24. apríl 2007 voru millifærðir þrír milljarðar króna af reikningi Fons á Íslandi á reikning félagsins Pace Associates Corp. hjá Landsbankanum í Lúxemborg, en Pace er skráð í Panama. Sex dögum síðar, hinn 30. apríl var gerður lánasamningur milli Pace og Fons þar sem lánið er fært til bókar og það afskrifað samdægurs í bókhaldi Fons."

Pálmi og félagar hafa litlar skýringar gefið á því, hvernig þrír milljarðar króna gátu tapast og gjörsamlega horfið á sex dögum, en ýmis önnur dæmi af þessum toga munu vera til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara.

Banka- og útrásargengin voru elskuð og dáð af okkur Íslendingum fyrir bankahrunið og sumir hverjir ennþá, enda blómstra þau örfáu fyrirtæki, sem þeim tókst að ná undan gjaldrotum móðurfélganna, sem aldrei fyrr og er t.d. Iceland Express gott dæmi um það, sem og Stöð2 og aðrir fjölmiðlar 365 hf.

Fari svo ólíklega að Pálmi í Fons verði dæmdur til að greiða skaðabætur vegna þessa horna fjár, ríður á að íslenskir ferðalangar haldi áfram að versla við Iceland Express og önnur fyrirtæki Pálma, til að auðvelda honum baráttuna við hinn grimma bústjóra, sem vinnur að uppgjöri á þrotabúi Forns hf. 


mbl.is Stjórnarmenn Fons krafðir um milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allar virkjanir í "biðflokk"?

Á næstunni mun "Verkefnastjórn rammaáætlunar um verndun og nýtingu vatnsafls og jarðvarma" skila af sér skýrslu sinni um virkjanakosti á landinu með mati á verðmæti hvers valkosts fyrir sig út frá kostnaði og verndunarsjónarmiðum.

Fréttin endar á þessari klausu: "Eftir að búið er að vega og meta þær umsagnir sem berast, munu iðnaðar- og umhverfisráðherrar leggja fram þingsályktunartillögu fyrir Alþingi þar sem fram kemur hvernig þeim virkjunarhugmyndum, sem komu til mats, verður raðað inn í nýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk."

Líklega munu ráðherrar VG ekki geta krafist þess að hver einasti virkjunarmöguleiki verði settur í "verndunarflokk", þrátt fyrir einbeittan vilja sinn og baráttu gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og þar með "verndun" núverandi atvinnuleysisstigs, en hvort tveggja hefur verið staðfastasta baráttumál flokksins allan tímann sem hann hefur setið í ríkisstjórn.

Hins vegar mun ráðherrum VG vafalaust takast að setja allar virkjunarhugmyndir, sem nefndar verða í skýrslu nefndarinnar í "Biðflokk" og þar munu þær sitja fram að næstu stjórnarskiptum.

Vonandi þarf ekki að bíða í heil tvö ár eftir nýjum kosningum. 


mbl.is Ýmsir þættir hafa áhrif á virkjanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Almannahagsmunir að láta manninn ganga lausan?

Undanfarið hafa verið háværar raddir í þjóðfélaginu um að sýslumaðurinn á Selfossi sé ekki starfi sínu vaxinn vegna þess að hann skyldi ekki krefjast gæsluvarðhalds yfir barnaníðingi á grundvelli almannahagsmuna, þ.e. til þess að vernda almenna borgara fyrir þeirri hættu sem gæti stafað af manninum.

Nú bregður svo við að maður er handtekinn fyrir að skjóta af byssu við heimili sitt og við húsleit fundust 90 skotvopn af ýmsu tagi í fórum hans, sem upptæk voru gerð. Við handtökuna hafði maðurinn í hótunum við lögreglumennina sem handtóku hann og fluttu í fangageymslu á Selfossi.

Í þessu tilfelli hlýtur að mega reikna með því að maður sem hefur heilt vopnabúr undir höndum, hleypir af skotum út í loftið við heimili sitt og hótar laganna vörðum öllu illu, geti verið hættulegur umhverfi sínu og því fyllilega réttmætt að halda honum í gæsluvarðhaldi á meðan að á meðferð máls hans fyrir dómstólum fer fram, bæði í þágu rannsóknarhagsmuna og ekki síður almannahagsmuna.

Héraðsdómur Suðurlands hafnaði gæsluvarðhaldskröfunni og vekur það upp spurningur um hvort skotglaðir vopnabúrseigendur séu ekki jafn hættulegir umhverfi sínu og barnaníðingar.

Flestir myndu sjálfsagt telja að hvorugur væri mjög "umhverfisvænn".


mbl.is Funda um niðurstöðu héraðsdóms
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband