Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
5.7.2011 | 14:43
Varnarlausir læknar
Læknum hefur verið legið á hálsi fyrir að gefa of mikið út af lyfjum sem geta verið ávanabindandi og fíklar hafa sótt mikið í, bæði til eigin nota og til endursölu með gríðarlegum hagnaði.
Landlæknisembættið virðist loksins núna vera farið að kanna þessi mál nánar og samkeyra upplýsingar úr lyfjaskrám til þess að finna út hvaða læknar skrifa mest út af þessum lyfjum og ekki síður til að sjá hvaða "sjúklingar" sækja mest í þau.
Í þeirri könnun kemur fram að einstakir aðilar virðast nánast vera í fullu starfi við að heimsækja hina ýmsu lækna til þess að láta skrifa upp á þessi lyf og munu vera dæmi um að sami aðili hafi leitað til allt að 70 lækna á fárra mánaða tímabili til þess að rekja fyrir þeim upplogna sjúkrasögu og fá lyfseðla fyrir sterkum lyfjum, sem vafalaust hafa verið ætluð til sölu á dópmarkaðinum.
Þetta sýnir að læknar hafa í raun verið varnarlausir gagnvart þeim sem staðráðnir eru í því að misnota heilbrigðiskerfið til vímuefnaútvegunar, annað hvort vegna eigin neyslu eða til að nýta sér fíkn annarra í ábataskyni.
Slíka "sjúklinga" verður að setja á "svartan lista", þannig að þeir geti ekki gengið á milli lækna í þeim tilgangi að misnota traust þeirra og vilja til að aðstoða raunverulega sjúkt fólk.
Allir sem þurfa á lyfjum að halda eiga að fá þau, en hinir eru að vinna hrein skemmdarverk á því og koma óorði á lækna sem berskjaldaðir eru fyrir þessum "atvinnulygurum" sem ganga á milli þeirra með upplognar raunasögur.
Læknar fá bréf frá landlækni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.7.2011 | 21:59
Öfgar eyða ekki tóbaksnotkuninni
Fáránlegt frumvarp Sivjar Friðleifsdóttur og fleiri furðufugla á Alþingi um að sala á tóbaki verði einungis leyfð í apótekum og þá eingöngu gegn framvísun "lyfseðils" frá lækni, hefur að vonum vakið athygli erlendis og er ekki að efa að lesendur Guardian hafi legið í hláturkrampa í dag, eftir að hafa lesið umfjöllun blaðsins um þennan brandara.
Furðulegt má þó heita að blaðið skuli fjalla um málið núna, enda var það hlegið út af borðinu hér á landi strax og það var lagt fram, en að vísu segir margur brandarakallinn ennþá frá frumvarpinu, þegar hann vill vera verulega fyndinn.
Öfgar og vitleysa, eins og kemur fram í þessu svokallaða frumvarpi, leysa aldrei nokkurn vanda, en skapa hins vegar fjölda vandamála í stað þeirra sem þeim er ætlað að lækna, fyrir utan að upphaflega vandamálið helst yfirleitt óleyst.
Fram kemur í umfjöllun Guardian að fyrir tuttugu árum hafi 30% Íslendinga reykt daglega, en nú noti aðeins 15% landsmanna tóbak dags daglega. Þessi minnkun sýnir að fræðsla og áróður, á jákvæðum nótum, skilar sér í stórminnkaðri notkun tóbaks og því gjörsamlega glórulaust að láta sér detta aðra eins vitleysu í hug og Siv Friðleifsdóttir og ruglfélagar hennar létu sér sæma að bera fram á Alþingi og gera það með þeim formerkjum að mark yrði tekið á.
Alþingi ætti að sjá sóma sinn í að sinna nauðsynjamálunum almennilega og láta allan fíflagang lönd og leið.
Guardian fjallar um tóbaksfrumvarp | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
3.7.2011 | 15:17
Er Össur algerlega að tapa sér í ESBörvæntingunni?
Alla tíð hefur verið talið að erfiðustu málin í viðræðunum um innlimun Íslands, sem útkjálkahrepps í væntanlegt stórríki ESB yrðu landbúnaðar - og sjávarútvegsmál, enda voru fyrirvarar í samþykki Alþingis um að yfirráðarétturinn yfir tvöhundruðmílna fiskveiðilögsögunni yrði alfarið í höndum Íslendinga og allar ákvaranir um veiðar innan hennar teknar af íslenskum ráðamönnum.
Í viðtali við Euronews leyfir Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, sér að gefa út þá yfirlýsingu að Íslendingar þurfi nánast ekkert að ræða fiskveiðistjórnun við ESB, enda séu slík smámál bara hluti af sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og því úrelt. Það er nokkuð rétt hjá ráðherranum að baráttan um yfirráð fiskveiðiauðlindarinnar var lokaáfanginn í baráttunni fyrir fullu sjálfstæði þjóðarinnar og það má Össur vita, og kommisarafélagar hans innan ESB, að þjóðin er hreint ekki tilbúin til að gefa nokkuð eftir af sjálfstæði sínu og fullveldi, til að uppfylla drauma Össurar og fleiri slíkra um kommisaraembætti í Brussel.
Á meðan innlimunarviðræðum verður ekki hætt, er algerlega forkastanlegt að æðsti maður utanríkismála á Íslandi skuli gefa viðmælendum sínum önnur eins vopn í hendur og Össur gerir í þessu viðtali. Annar eins afleikur hefur varla sést í nokkrum "samningaviðræðum" í háa herrans tíð og á sér líklega ekki samsvörun í neinu öðru en fyrri ummælum Össurar sjálfs um þessi mál.
Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, gerir þessum ótrúlega afleik Össurar góð skil í pisli í dag og er ástæða til að benda öllum á að lesa hann. Pistil Björns má sjá Hérna
Þurfum ekki sérstaka undanþágu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.7.2011 | 13:22
Erlendar skuldir óreiðumanna
Ríkisstjórn Geirs H. Haarde bjargaði því sem bjargað varð í íslensku efnahagslífi við bankahrunið og með því að láta gömlu bankana fara sína leið, voru óábyrgar erlendar fjármálastofnanir látnar taka á sig yfir sjöþúsundmilljarða króna tap, í stað þess að velta þeirri upphæð yfir á skattgreiðendur, eins og Írar gerðu og ESB er nú að neyða Grikki til að gera.
Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert þrjár tilraunir til þess að koma erlendum skuldum óreiðumanna í gamla Landsbankanum yfir á íslenskan almenning, sem í tvígang harðneitaði í þjóðaratkvæðagreiðslum að taka á sig slíkar óreiðuskuldir fjárglæframanna. Steingrímur J. hefur þó lýst því yfir að hann sé ekki ennþá búinn að gefast upp í því máli og hefur einsett sér að koma a.m.k. einhverjum milljarðatugum yfir á herðar kjósendanna, sem hann hefur hugsað þegjandi þörfina frá því þeir niðurlægðu hann á þennan hátt í tvígang.
Í hefndaræði sínu gagnvart pólitískum andstæðingum, beittu Vinstri grænir sér fyrir því að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm vegna bankahrunsins, en reyndar eru tvær grímur farnar að renna á þá ólánsþingmenn sem greiddu atkvæði með þeim ótrúlega gjörningi. Meira að segja Steingrímur J. virðist vera kominn með einhvern vott af samviskubiti, því nú lætur hann hafa það eftir sér á AFP fréttaveitunni að enginn haldi því fram að Geir hafi getað komið í veg fyrir bankahrunið. Hins vegar hafi hann getað brugðist betur við til að draga úr áhrifum þess. Aldrei hefur Steingrímur þó bent á hvernig hefði átt að bregðast við á annan hátt en gert var.
Í viðtali við fréttaveitu AFP er t.d. eftirfarandi haft eftir Geir H. Haarde: "Bankahrun varð víða um allan heim. En af hverju var enginn annar stjórnmálaleiðtogi dreginn fyrir dóm?" "Svarið er að engum hefur svo mikið sem dottið slíkt í hug því bankahrunið var ekki verk einstakra pólitískra leiðtoga."
Á þetta sama hefur verið bent margoft undanfarin ár á þessu bloggi. Alls staðar annarsstaðar en á Íslandi er viðurkennt að bankahrunið í heiminum hafi verið á ábyrgð fjárglæframanna og hér á landi varð hrunið meira en sums staðar annarsstaðar vegna þess að fjárglæframennirnir íslensku voru stórtækari í gerðum sínum en flestir aðrir og rökuðu nánast öllu eingin fé þeirra fyrirtækja, sem þeir komust yfir, í eigin vasa.
Á þetta benti Rannsóknarnefnd Alþingis og væntanlega mun það staðfestast enn frekar, þegar rannsóknum Sérstaks saksóknara lýkur.
Þetta er pólitískur farsi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.7.2011 | 15:08
Ráðherrar á ágætum launum
Íslenskir ráðherrar eru á svo góðum launum að núverandi ríkisstjórn hefur gefið það út, að enginn í landinu megi hafa hærri laun en forsætisráðherrann, enda sé Jóhanna Sigurðardóttir tákngerfingur alls þess besta, kraftmesta og menntaðasta, sem í þjóðinni búi.
Þessir ráherrar ná sínum háu launum án krafna um sérstaka menntun, reynslu eða annarra sýnilegra hæfileika, en t.d. sérfræðilæknar þurfa ára- og áratugalangt nám og störf til að komast í "ráðherralaunin", en samt sem áður hljóta allir að sjá að forsætisráðherra sem t.d. hefur sótt flugfreyjunámskeið, á að sjálfsögðu að vera launahæsti einstaklingur þjóðar sinnar.
Þessi launastefna ríkisstjórnarinnar hefur reyndar valdið því að nú er þriðji hver íslenskur læknir við störf erlendis, þar sem engum dettur í hug að miða laun þeirra við launagreiðslur til misviturra stjórnmálamanna og allt bendir til að landflótti lækna muni frekar færast í aukana á næstunni.
Reyndar hefur fólksflótti úr landinu verið mikill á síðustu tveim árum og fer vaxandi, þannig að reikna má með að flestir sjúklingar íslenskra lækna verði fluttir úr landi innan fárra ára, þannig að skortur á læknum verði enginn hérlendis í framtíðinni.
Íslenskir sjúklingar munu þá auðveldlega geta hitt lækna sína í sínu næsta nágrenni í erlendum borgum.
Læknar á ágætum launum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
1.7.2011 | 23:40
Guðmundur aflétti leyndinni sjálfur
Í fréttum RÚV í kvöld var því haldið fram að Landsbankinn væri búinn að afskrifa um tuttugu milljarða króna af skuldum Guðmundar Kristjánssonar, útgerðarmanns í Brimi, og fyrirtækjum sem honum tengjast.
Landsbankinn hefur sent frá sér athugasemd vegna fréttarinnar og segir hana ranga og villandi og þar að auki sé óskildum hlutum ruglað saman, en hins vegar geti bankinn ekkert upplýst um raunveruleika málsins vegna bankaleyndar.
Guðmundur sjálfur er ekki bundinn af neinni slíkri leyndarkröfu og ætti því í anda opinnar umræðu, þar sem allt er uppi á borðum og almenningi aðgengilegt, að upplýsa málið og skýra allar fjármálatilfærslur sem fram hafa farið frá hruni vegna hans sjálfs og allra fyrirtækja sem honum tengjast.
Það á engin "bankaleynd" að hvíla yfir því hvernig "skuldaaðlögun" fer fram hjá þeim sem mest mjólkuðu af lánum út úr bankakerfinu á árunum fyrir bankahrunið, sem einmitt varð vegna slíkra "viðskipta".
Þó Landsbankinn geti ekki leiðrétt frétt RÚV getur Guðmundur sjálfur gert það mjög auðveldlega.
Alvarlegar athugasemdir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
1.7.2011 | 19:19
Innlimunarferlið að ESB er á ábyrgð Ögmundar
Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, fór mikinn í ræðu á 50 ára afmælisráðstefnu embættis ríkissaksóknara í dag og gagnrýndi afskipti ESA af ýmsum málum hérlendis harðlega.
Ástæða gagnrýninnar var ekki síst afskipti og fyrirspurn ESA af lánveitingu Reykjavíkurborgar til OR og sagði Ögmundur m.a. um þau afskipti: "Lýðræðið vilji almennings er þannig dreginn í efa. Ég spyr: Hvert erum við eiginlega að halda?"
Ögmundur veit auðvitað svarið við eigin spurningu, um hvert við séum eiginlega að halda. Hann þykist vera að vara við inngögnu í ESB, enda sé vilji almennings fótum troðinn af því bákni.
Ögmundur samþykkti sjálfur stjórnarsáttmála við Samfylkinguna, sem innihélt sameiginlegan vilja beggja stjórnarflokkanna til innlimunar Íslands, sem afdalahrepps, í væntanlegt stórríki ESB.
Það sem Ögmundur þykist vera að gagnrýna er á hans eigin ábyrgð og undan því getur hann ekki vikist.
Lýðræðið dregið í efa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.7.2011 | 14:11
Til hvers að byggja nýjan spítala?
Í undirbúningi er að byggja nýtt sjúkrahús upp á tugimilljarða króna, sem ríkisstjóður getur ekki fjármagnað, en ætlar að láta lífeyrissjóðina reisa og leigja það síðan af þeim aftur. Að sjálfsögðu munu árlegar leigugreiðslur nema hundruðum milljóna króna, sem ríkissjóður mun eiga í erfiðleikum með að greiða.
Ekki er hægt að reka núverandi sjúkrahús eða heilbrigðiskerfi skammlaust, enda niðurskurður viðvarandi á öllum sviðum, endurnýjun tækja engin nema fyrir gjafafé og ekki hægt að greiða læknum og hjúkrunarfólki samkeppnishæf laun.
Í viðtali við Moggann segir Birna Jónsdóttir, formaður læknafélagsins, m.a: "Íslenskir læknar gera þá kröfu að ríkisstjórn og velferðarráðherra komi fram með skýra áætlun um hvernig þessari þróun skal snúið við, það er á ábyrgð framkvæmdavaldsins að sjá til þess að gera samninga og ráða í vinnu lækna til að sinna sjúkratryggðum Íslendingum."
Á meðan ekki er einu sinni hægt að útvega fólki heimilslækni, þrátt fyir sex ára bið, ekki hægt að reka heilbrigðiskerfið í núverandi mynd og sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir fá ekki eðlilegt viðhald, hvorki á húsnæði eða tækjum, er fáránlegt að láta sér detta í hug að ráðast í byggingarframkvæmdir við nýtt risahúsnæði.
Þó húsið rísi innan fárra ára munu líða áratugir áður en búið verður að búa það þeim tækjum sem til þarf og þá mun það líklega verða orðið úrelt og líklegast að ráðast þurfi í meiriháttar breytingar til þess að taka það í notkun.
Þriðji hver læknir erlendis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)