Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011
16.7.2011 | 19:11
Nafnið "Iceland Express" er algert öfugmæli
Flugmiða- og ferðasalinn Iceland Express, gefur sig út fyrir að vera flugfélag, enda eru áætlunarferðirnar auglýstar í nafni félagsins, þó breska flugfélagið Astereus sjái um allt flugið, en það flugfélag er reyndar í eigu Pálma í Fons, eins og Iceland Express og Ferðaskrifstofa Íslands (Úrval-Útsýn, Sumarferðir og Plúsferðir). Iceland Express er nánast orðið heimsfrægt fyrir seinkanir á áætlunarflugi á þess vegum og mun vera með verstu flugfélögum heimsins hvað viðkemur vanhæfni í tímastjórnun flugferða.
Nýlega birti félagið heilsíðuauglýsingu í dagblöðunum þar sem beðist var afsökunar á lélegum tímaáætlunum og lofað bót og betrun í þeim efnum. Met í seinkunum hlýtur þó að hafa verið sett í Parísarflugi félagsins, en vél sem átti að fara í loftið í gær klukkan 14:40 er ekki komin af stað ennþá og reiknað með að seinkunin muni a.m.k. verða 30 klukkustundir. Tvennar sögur fara af því hvað veldur þessari seinkun, því félagið segir að um bilun í vélinni hafi verið að ræða, en franskir fjölmiðlar segja hana hafa verið kyrrsetta þar sem hún uppfylli ekki evrópska öryggisstaðla. Algerlega er óútskýrt hvers vegna ekki var útveguð varaflugvél til þess að koma farþegunum heim.
Anna Rakel Ólafsdóttir, einn óheppinna farþeganna sem þurft hafa að hanga í biðstöðu í París, lýsir þjónustu féagsins m.a. á eftirfarandi hátt í fréttinni "Hún segir að fólk reyni að líta á björtu hliðarnar en sárast þyki því upplýsingaleysið. Það fór auðvitað í taugarnar á okkur að vera troðið saman í herbergi eins og í fangaklefa. En það er þetta að fá ekki að vita neitt sem er sárast. Og það er undarlegt að Iceland Express segi við fjölmiðla að þeir hafi sent tölvupósta og skilaboð - það er einfaldlega alrangt og flestir farþegar hér hafa birt fréttina á mbl.is á Facebook og sagt að það sé ekkert hæft í þessari tilkynningu."
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem "flugfélagið" er gagnrýnt fyrir seinkanir og ekki síður sambands- og upplýsingaleysi við farþega, sem svo óforsjálir eru að kaupa farmiða með félaginu.
Ef til vill mun Iceland Express birta opnuauglýsingu næst, til að afsaka tafirnar sem sífellt virðast vera að lengjast, þrátt fyrir heilsíðuauglýsinguna í síðustu viku.
Eins og í fangaklefa | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (29)
16.7.2011 | 12:40
Stórtjóni var EKKI afstýrt
Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjóustunnar og einstakir ferðaþjóustusalar fóru mikinn um síðustu helgi og fram eftir vikunni í heimtufrekju vegna nýrrar brúar yfir Múlakvísl og kröfðust þess að nótt yrði lögð við dag, til þess að koma umferð á aftur.
Söngtexti grátkórsins gekk aðallega út á það, að tap ferðaþjónustusalanna myndi nema tugum milljóna hvern dag sem hringvegurinn opnaðist ekki og það er ekki fyrr en í dag að kór þessi þagnar, þ.e. þegar búið er að opna umferð yfir brjáðabirgðabrú, sem byggð var á ótrúlega skömmum tíma.
Nú lætur Erna m.a. hafa þetta eftir sér: "Hún segir að þó að stórtjóni hafi verið afstýrt, þá sé ljóst að ferðaþjónustan hafi beðið nokkuð tjón, en of snemmt sé að segja til um umfang þess. Þetta var aðallega fyrstu fjóra dagana eftir að brúin fór. Það urðu bæði talsverðar afbókanir og svo komst fólk heldur ekki á áfangastað."
Stórtjóni var alls ekki afstýrt, enda ollu vaxtavextirnir í Múlakvísl hundraða milljóna króna tjóni á brúar- og vegamannvirkjum og það tjón munu skattgreiðendur þurfa að bera. Eina athyglisverða staðreynd hafa fulltrúar ferðaþjónustunnar þó afhjúpað undanfarna daga og það er hvílík gullkista ferðamannaiðnaðurinn er orðinn og hagnaður hans gríðarlegur, a.m.k. ef miðað er við það tap sem sagt var að hann yrði fyrir daglega, opnaðist umferð yfir Múlakvísl ekki umsvifalaust.
Vonandi skilar þessi hagnaður sér allur inn á skattskýrslur og í þjóðhagsreikninga. Það munar um minna í því árferði sem nú ríkir.
Stórtjóni var afstýrt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2011 | 17:52
Óheillaþróunin heldur áfram
Brottflutningi af landinu linnir ekki, því ennþá flytjast mun fleiri frá landinu en til þess. Hagstofan hefur nú birt tölur fyrir annan ársfjórðung þessa árs og sýna þær áframhaldandi óheillaþróun í þessum efnum.
Í tölum Hagstofunnar kemur m.a. þetta fram, samkvæmt frétt mbl.is: "Á sama tíma fluttust 530 einstaklingar frá landinu umfram aðflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 360 umfram aðflutta, en brottfluttir erlendir ríkisborgarar voru 180 fleiri en þeir sem fluttust til landsins. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu."
Atvinnuleysistölur hér á landi segja ekki nema hálfa söguna, því stór hluti atvinnuleysisins hefur verið fluttur úr landi og þá aðallega til Noregs. Mörg þúsund vinnufærra manna hafa flust búferlum frá hruni í leit að möguleikum til að framfleyta sér og sínum, því slíkt er ekki hægt með atvinnuleysisbótunum einum saman, allra síst ef fjölskyldan er stór og skuldir miklar.
Til viðbótar þeim sem skrá búferlaflutninga til annarra landa bætist mikill fjöldi manna sem stunda vinnu erlendis, en fjölskyldan býr áfram á Íslandi af ýmsum ástæðum, t.d. vegna skólagöngu barna eða atvinnu makans. Í þeim tilfellum er viðkomandi skráður áfram til heimilis á Íslandi, þó hann stundi vinnu erlendis og komi aðeins heim til sín á nokkurra vikna, eða mánaða, fresti.
Á meðan ekki verður breyting á stefnu núverandi ríkisstjórnar í atvinnumálum, mun þessi óheillaþróun sjálfsagt halda áfram, þangað til allt besta fólk þjóðarinnar hefur hrakist úr landi.
Flestir fara til Noregs | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.7.2011 | 12:56
Frábært hjá Vegagerðinni. Annað mál með ferðaþjónustuna
Fyrir tæpri viku hvarf brúin yfir Múlakvísl í gríðarlegu hlaupi sem varð í ánni og var þá talið að taka myndi tvær til þrjár vikur að koma á bráðabirgðatengingu, þannig að umferð gæti gengið eðlilega fyrir sig á ný.
Umsvifalaust upphófst mikill söngur grátkórs ferðaþjónustusala og forsvarsmanna þeirra um hundruð milljóna króna tap, sem algerlega myndi ríða ferðaþjónustunni á suðurlandi að fullu. Alla þessa viku hefur söngurinn um tugmilljóna króna daglegt tap verið kyrjaður og leiðir þetta hugann að því hvort allar þessar gríðarlegu tekjur skili sér inn á skattskýrslur og í þjóðhagsreikninga.
Vegagerðin hefur unnið algert þrekvirki við smíði bráðabirgðabrúar yfir ána og með selflutningi bíla og farþega á vaði yfir vatnsfallið, en lítið hefur grátkórinn þó lækkað sig í tóntegund, þrátt fyrir það.
Nú er áætlað að hleypa umferð á bráðabirgðabrúna strax um helgina, en líklega þarf að stoppa selflutningana yfir ána í nokkra klukkutíma á meðan ánni verður veitt í nýjan farveg.
Hvað skyldu ferðaþjónustusalarnir segjast tapa mörgum tugum milljóna á þeim klukkutímum?
Múlakvísl veitt undir brúna í dag | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
15.7.2011 | 09:15
Danskir pólitíkusar skilja, en íslenskir ekki
Jóhanna, Össur og aðrar ESBgrúppíur á Íslandi berja höfðinu við steininn og reyna að blekkja almenning í landinu með því að evran sé eini hugsanlegi bjargvættur íslensks efnahagslífs. Þessu er haldið að fólki, þrátt fyrir að allir aðrir en þessar grúppíur sjái þá erfiðleika sem steðja að ESB um þessar mundir og þá alveg sérstaklega evrusvæðinu.
Danir hafa hafnað upptöku evru í tvígang, en samkvæmt venju ESB er fólk látið kjósa aftur og aftur, þangað til "ásættanleg" niðurstaða fæst og í þeim anda hefur staðið til að láta Dani kjósa enn einu sinni um evruna. Þær fyrirætlanir eru nú komnar á frest, eða eins og segir í fréttinni: "Dönsk stjórnvöld hafa stefnt að því að halda þjóðaratkvæði um upptöku evrunnar um nokkurt skeið en ekki lagt í það enn vegna erfiðleika evrusvæðisins og vaxandi andstöðu almennings heima fyrir samkvæmt skoðanakönnunum."
Annað, sem danskir stjórnmálamenn virðast hafa fram yfir þá íslensku er, að þeir virðast taka mark á skoðunum almennings, en eins og allir vita eru um 70% Íslendinga andvígir því að Ísland verði gert að útnárahreppi í væntanlegu stórríki Evrópu.
Íslenskir ráðamenn taka yfirleitt ekkert tillit til skoðana almennings og allra síst í þessu efni.
Þjóðaratkvæði um evruna frestað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
14.7.2011 | 16:20
Gott að vera á ESBjötunni
Það eru ekki eingöngu kýrnar í Evrópu sem eru frekar á fóðrið í jötunni, heldur eru eigendur þeirra ekki síður þurftafrekir. Það góða við ESB er, að engum virðist þykja nokkuð athugavert við það að æðsti maður landbúnaðarmála í væntanlegu stórríki skuli sjálfur vera stór þiggjandi styrkja, sem hann hefur sjálfur umsjón með að úthluta.
Enn betra er, að þessi æðsti maður landbúnaðar í ESB er einnig landbúnaðarráðherra Danmerkur og nú hefur verið birt uppgjör styrkja til hans, eða eins og segir í fréttinni: "Samkvæmt uppgjöri hans þáði hann samtals 5,7 milljónir danskra króna (127,2 milljónir ÍKR) í landbúnaðarstyrki á árunum 2001-2011 á verðlagi 2011. Í fyrra fékk Høegh styrk upp á 413.140 DKR (rúmlega 9,2 milljónir ÍKR). Uppgjörið kom eftir að ráðherrann tilkynnti í gær að skuldir dansk landbúnaðar hafi vaxið um 80% frá árinu 2002. Þá voru skuldir dansks landbúnaðar 165 milljarðar DKR (3.682 milljarðar ÍKR) en voru orðnar 298 milljarðar DKR (6.651 milljarður ÍKR) árið 2009."
Það verður að teljast stórmerkilegt að þrátt fyrir gífurlega landbúnaðarstyrki innan ESB, skuli skuldir greinarinnar hækka svona stórkostlega í Danmörku og engin ástæða til að ætla að ekki hafi það sama gerst í öðrum fylkjum hins væntanlega stórríkis Evrópu.
Þetta er aðeins sýnishorn af "sælunni" sem Jóhanna, Össur og nokkrir aðrir hávaðasamir áróðurseggir, ætla með öllum ráðum að neyða upp á Íslendinga.
Kannski er það frekar vonin um að komast í sömu aðstöðu og Henrik Höegh, sem rekur þetta lið áfram í áróðrinum fyrir "sæluríkinu".
Fremstur í styrkjaröðinni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2011 | 10:03
Aðgát skal höfð í nærveru sálar (Jóns Ásgeirs)
Jón Ásgeir, forustusauður Baugsgengisins, er afar viðkvæmur fyrir umræðum um sjálfan sig, fyrrverandi fyrirtæki sín (sem öll eru gjaldþrota eða hafa verið tekin upp í skuldir) og athafnir hans í aðdraganda banka- og efnahagshrunsins, sem hann sjálfur, Baugsgegnið og önnur slík ollu og leikið hafa almenning grátt.
Jón Ásgeir hélt lengi vel úti her manna sem vaktaði allt sem um hann og félagana var skrifað og sagt og lét þessa leigupenna ráðast harkalega gegn öllum slíkum umfjöllunum og ekki síður persónum þeirra, sem dirfðust að láta vanþóknun sína í ljós á gerðum þessara gengja fyrir hrun. Nokkrir slíkir "verndarenglar" eru enn á sveimi á bloggsíðum og í fjölmiðlum og má þar til nefna helsta þá Bubba Mortens og Ólaf Arnarson.
Baugsgengið hefur iðulega hótað málssóknum gegn þeim sem fjalla með einhverju mótu um gerðir þess á hátt, sem því líkar ekki og nægir að benda á hótun Jóns Ásgeirs um kæru á hendur Birni Bjarnasyni fyrir að hafa missagt í bók sinni að Jón Ásgeir hefði verið dæmdur fyrir að draga sér fé, þegar hið rétta var að hann var dæmdur fyrir stórfellt bókhaldsbrot, en var sýknaður af öðrum brotum tengdum Baugsmálinu fyrsta, öllum til mikillar undrunar.
Sá lærdómur sem Jón Ásgeir ætlast til að fólk dragi af hótunum hans er auðvitað sá, að enginn skuli dirfast að fjalla um gerðir hans og annarra álíka "viðskiptasnillinga" á árunum fyrir hrunið.
Sem betur fer láta flestir svona hótanir sér í léttu rúmi liggja og halda áfram að fjalla um staðreyndir málanna.
Hefur ekki fengið kæru frá Jóni Ásgeiri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2011 | 20:41
Ómetanlegar björgunarsveitir
Björgunarsveitirnar hafa enn og aftur sannað gildi sitt og hvílík gæfa það er fyrir land og þjóð að eiga svo fórnfúsa sjáfboðaliða, sem alltaf eru til taks þegar erfiðleikar og hætta steðja að, hvort heldur er í borgum, bæjum, á sjó eða uppi á öræfum.
Síðustu daga hefur fjöldi félaga úr björgunarsveitunum verið til aðstoðar vegna hamfaranna í Múlakvísl og bæði verið ferðamönnum til halds og trausts við fljótið sjálft og á hálendisvegunum sem notaðir hafa verið sem hjáleiðir, sérstaklega á Fjallabaksleið nyrðri.
Í dag hafa síðan sjötíu manns leitað að erlendum göngumanni í nágrenni við Eyjafjallajökul og á jöklinum sjálfum og til allrar lukku fannst hann að lokum á lífi, en þrekaður og slæptur eins og gefur að skilja eftir slíka svaðilför.
Almenningur verður að halda áfram að styðja vel við bakið á björgunarsveitunum, því fórnfýsi þeirra er ótrúleg, því allt þeirra starf er unnið í sjálfboðavinnu, en kostnaður við tækjakaup og rekstur þeirra er mikill.
Maðurinn er fundinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
13.7.2011 | 15:22
Hannes bótalaus
Hannes Smárason, sem í félagi við Baugsgengið og Pálma í Fons, rúði hvert fyrirtækið af öðru af öllu eigin fé og stundaði álíka "viðskipti" víða um heim, hefur ekki ennþá fengið neinar bætur frá skattgreiðendum fyrir frammistöðu sína og "viðskiptafélaga".
Líklega eru viðskiptin með flugfélagið Sterling þekktasta "viðskiptaflétta" þeirra félaganna, en það gjáldþrota flugfélag seldu þeir í nokkra hringi á milli sín og tilkynntu í fjölmiðlum að um tugmilljarða króna hagnað hafi verið að ræða af hverjum snúningi.
Í flestum tilfellum áttu þessi sömu gengi banka og um þá var gengið eins og um einkasparibauka væri að ræða, og eins og börnum verður oft á, þá eyðilögðu gegnin sína "sparibauka" við að ná peningunum út úr þeim.
Að verið sé að rannsaka þessi "viðskipti" og gengin sjálf, hefur lengi farið óskaplega í viðkvæmar taugar gengjafélaganna og beita þeir óspart hótunum um málssóknir og skaðabótakröfur á hendur þeim sem um málin fjalla og ekki síður á hendur skattgreiðendum, fyrir að líða réttarkerfinu að vinna sín störf óáreitt.
Hannes Smárason og félagar eru a.m.k. ennþá bótalausir vegna slíkra mála og verða vonandi áfram. Einu bæturnar sem hægt væri að réttlæta þeim til handa væru atvinnuleysisbætur.
Það væri þó háð því skilyrði að greitt hefði verið af launum þeirra í Atvinnileysistryggingasjóð, en það hefur þó alveg örugglega ekki verið gert vegna alls útborgaða arðsins á árunum fyrir hrun.
Hannes fær ekki bætur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.7.2011 | 18:58
Allur er varinn góður
Hávaði ferðaþjónustuaðila á suðurlandi, að ekki sé sagt barnaleg frekja, og kröfur um að bílaumferð yfir Múlakvísl stöðvist ekki þrátt fyrir að brúin yfir ána hafi sópast í burtu og stórvarasamt sé að fara yfir ána á vaði, hefur orðið til þess að pressa hefur myndast á að koma fólki og bílum yfir fljótið með öllum ráðum, þó slíkt hafi sýnt sig að vera stórvarasamt.
Þessi hætta varð hreinlega áþreifanleg þegar rútu, fullri af farþegum, hlekktist á í ferð yfir ána, þrátt fyrir að jarðýtur færu reglulega yfir vaðið og ryddu leiðina, vegna stöðugs framburðar sands og grjóts niður eftir fljótinu.
Bráðskemmtilegt, eða hitt þó heldur, hefur verið að fylgjast með öllum þeim "brúarhönnuðum" sem sprottið hafa upp síðan hlaupið varð og brúin sópaðist í burtu á augnabliki. Hugmyndirnar hafa verið margar og misvitlausar, en þeir einu sem virðast hafa haldið haus vegna málsins eru starfsmenn Vegagerðar ríkisins, sem unnið hafa fumlaust og af fyllsta öryggi, nánast frá því að hamfarirnar dundu yfir.
Þrátt fyrir hávær frekjulæti ferðjaþjónustunnar ber fyrst og fremst að hafa öryggi vegfarenda í fyrirrúmi og banna frekar umferð yfir ána, heldur en að stofna mannslífum í hættu.
Peningalegt tap ferðaþjónustusala væri léttvægt í samanburði við tap mannslífa.
Ferjuflutningar hefjast aftur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)