Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2011

Djöfull í mannsmynd

Anders Behring Breivik er sannkallaður djöfull í mannsmynd, samviskulaus og siðblind skepna, sem virðist hafa gengið með hugmyndina að hryðjuverki sínu í maganum í mörg ár og verið að undirbúa verknaðinn markvisst unanfarna nokkra mánuði.

Hann gefur sig út fyrir að vera nasisti og var búinn að skrifa fimmtánhundruð síðna bók um hvernig hann vildi sjá Evrópu í framtíðinni, að því er virðist sína eigin útgáfu af "Mein Kampf" Hitlers, átrúnaðargoðs síns.

Breivik mun hafa viðurkennt að hafa staðið fyrir ódæðunum í Osló og Utöya, en þau hafi verið nauðsynleg til að vekja athygli á málstað hans um allan heim. Maður sem lítur með þeim hætti á fjöldamorð sín og sprengitilræði hlýtur að vera gjörsamlega ómennskur og eiga ekkert skylt við mannkynið, annað en útlitið eitt.

Gerðir svona ómenna eru óútskýranlegar í huga alls venjulegs fólks og þó þetta hljóti að vera skýrt dæmi um andlega brenglun af verstu tegund, þá hefur verið á það bent á blogginu, t.d. af Jóni Vali Jenssyni, að líklegast verði þessi skepna talin sakhæf og muni því fá fangelsisdóm og verða kominn aftur út í samfélagið, jafnvel áður en hann nær sextugsaldri.

Anders Behring Breivik er sannkallaður djöfull í mannsmynd.


mbl.is Vandlega undirbúin hryðjuverk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryðjuverk geðsjúks öfgamanns

Hryðjuverkin í Noregi, þar sem yfir nítíu manns voru myrt í sprengjuárásinni í Osló og hinni viðbjóðslegu skotárás á ungmennin á eynni Utöya sýna hve ótrúlegum harmi einn maður getur valdið, en oftast standa skipulögð öfgasamtök fyrir hörmungaratburðum af slíkri stærðargráðu.

Fólk er algerlega berskjaldað fyrir svona brjálæðingum, eins og sýnir sig í þessu tilfelli, en ekki nokkur maður í umhverfi hans, eða sem til hans þekkti, virðist hafa haft hinn minnsta grun um hann væri að undirbúa einhvern mesta glæp sem framinn hefur verið á Norðulöndum.

Sjálfur virðist hann ekki hafa gefið neitt upp um fyrirætlanir sínar á þeim netsíðum sem hann var virkur á, en slíkt mun þó vera nokkuð algengt, t.d. hjá þeim ungmennum sem hafa staðið fyrir skotárásum á skóla og aðra fjölmenna staði. Þegar svona vitstola menn eiga í hlut skiptir ekki máli hvort þeir eru vinstri- eða hægriöfgamenn, því í raun er hugur þeirra jafn sjúkur hverjar sem skoðanir þeirra eru á mönnum og málefnum. Geðsjúklingar af þessari gerð geta sjálfsagt alltaf fundið afsakanir í huga sér til að réttlæta gerðir sínar.

Norðmenn eru nánasta vina- og frændþjóð okkar Íslendinga og því snertir þessi hræðilegi atburður okkur djúpt og hugur okkar og samúð er með norsku þjóðinni.


mbl.is Sagður vera hægriöfgamaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óhugnanlegir atburðir í Osló

Sprengjutilræðið í Osló er óhugnanlegt og sýnir svart á hvítu að enginn getur verið óhultur fyrir slíkum óhæfuverkum, hvort sem þar eiga hryðjuverkasamtök aðild að málum eða einstakir brjálæðingar.

Þó slíkir atburðir sem þessir séu alltaf hörmulegir og sláandi, kemur það ennþá meira við Íslendinga þegar svona lagað gerist í nágrannalöndunum og ekki síst núna, þegar hörmungarnar eru í garði nábúa okkar og frænda í Noregi.

Hugur Íslendinga og samúð eru með Norðmönnum núna og auðvitað mest hjá ættingjum þeirra sem létu lífið í þessari viðbjóðslegu og hugleysislegu sprengingu.

Vonandi er hér um einangraðan atburð að ræða og sá eða þeir glæpamenn sem hann frömdu finnist fljótt og fái viðeigandi dóma fyrir óhæfuverkið.


mbl.is Sjö létust í miðborg Ósló
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil eftirsjá að Eden

Eden í Hveragerði, sem brann til kaldra kola í nótt, hefur verið vinsæll áningastaður ferðamanna í hálfa öld og erfitt orðið að hugsa sér Hveragerði án Edens.

Staðurinn var sérstakur að því leyti að þar var fléttað saman á skemmtilegan hátt gróðurhúsi, minja- og gjafavöruverslun og veitingasölu. Bæði innlendir og erlendir ferðamenn sóttu í að koma við í Eden, enda ákveðinn andi í húsinu og þjónusta starfsmanna til fyrirmyndar.

Eden hafði sett svolítið niður á seinni árum, sérstaklega eftir að reynt var, af þeim sem tóku við rekstrinum af frumkvöðlinum, að "nútímavæða" staðinn og gera hann "nútímalegri", en þær breytingar skiluðu sér aðeins í fækkun viðskiptavina.

Undanfarið ár hefur verið unnið að því að koma Eden nær sínu upprunalega formi og var virkilega ánægjulegt að sjá í heimsókn þangað nýlega, að "gamla góða" Eden var að endurlífgast og núverandi eigendur virtust hafa mikinn metnað til þess að skipa Eden aftur á þann sess sem staðurinn hefur haft í hugum ferðamanna lengst af þau fimmtíu ár sem hann hefur verið eitt helsta kennileitið á ferðalögum um Suðurland.

Edens verður sárt saknað og vonandi mun annar staður rísa og veða rekinn jafnmyndarlega á þeim grunni sem Eden var byggt á.


mbl.is Slökkvistarfi er lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verða íslenskir fjölmiðlar rannsakaðir?

Rannsóknir bresku lögreglunnar á fjölmiðlum, vegna öflunar frétta og upplýsinga með ólöglegum hætti, vefur sífellt utan á sig og nær orðið til fleiri dagblaða og lengra aftur í tímann en upphaflega var reiknað með.

Nokkur dæmi eru um að íslenskir fjölmiðlar hafi birt upplýsingar, sem ekki geta hafa komist í þeirra hendur nema með ólöglegum hætti og nægir í því sambandi að nefna tölvupósta Jónínu Ben. sem dæmi þar um. Oft hafa einnig birst fréttir í DV, sem vekja grun um að upplýsinga hafi verið aflað með vafasömum hætti.

Ætli íslensk lögregluyfirvöld fari ekki fljótlega af stað með svipaðar rannsóknir og nú fara fram í Bretlandi?


mbl.is Rannsókn vindur upp á sig
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Getur stofnun eða fyrirtæki tekið á sig ábyrgð á glæpum starfsmanna?

Enn kemst áratuga gamalt kynferðisbrotamál Ólafs Skúlasonar, fyrrverandi biskups og þáverandi sóknarprests, í fréttir og nú vegna samkomulags sem virðist hafa náðst um peningagreiðslur til fórnarlambanna.

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir, eitt fórnarlambanna, sagði í útvarpsviðtali m.a: "Þetta er 33 ára barátta og það verður aldrei hægt að bæta það upp í peningum. Það er alveg á hreinu. Það er mikið frekar það sem snýr að kirkjunni, að hún taki ábyrgð og taki ábyrgðina af mínum herðum, sem skiptir máli. Þannig að upphæðin eða bæturnar eru alls ekki aðalmálið. Langt í frá."

Þarna kemur fram nokkuð sérstakt álit á ábyrgð kynferðisofbeldis.  Í fyrsta lagi er slíkt ofbeldi aldrei á ábyrgð fórnarlambsins og því getur slík ábyrgða aldrei hvílt á herðum þess og í öðru lagi er það áleitin spurning hvort stofnun eða fyrirtæki, sem kynferðisofbeldismaður eða ofbeldismaður annarrar gerðar, starfar hjá getur tekið á sig slíka ábyrgð.

Ábyrgðin hlýtur alltaf að vera ofbeldismannsins sjálfs og enginn annar á eða getur borið hana.  Að því leyti verður yfirlýsing Sigrúnar Pálínu að teljast nokkuð einkennileg, því hvorki hún sjálf eða kirkjan sem stofnun getur nokkurn tíma talist ábyrg fyrir glæpum Ólafs Skúlasonar.

Upphæð bótanna eru ekkert mál í þessu samhengi, segir Sigrún, og því ætti að vera hægt að ljúka þessum málum í eitt skipti fyrir öll, svo allir aðilar málsins geti farið að hugsa um önnur mál, enda glæpamaðurinn látinn og því miður ekki hægt að refsa honum með öðru en að gera málið heyrinkunnugt og að nafn hans tengist kynferðisofbeldi um ókomna tíð. 


mbl.is Ekki hægt að bæta tilfinningalegt tjón með fé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað segja ESBgrúppíur við þessu?

Því hefur oft verið haldið fram af ýmsum málsmetandi mönnum að evran stæðist ekki sem gjaldmiðill, nema með algerum miðstýrðum fjárhagslegum yfirráðum frá Brussel og aðildarríkin afsöluðu sér fjárlagavaldinu endanlega til kommisaranna. Oft og iðulega hefur verið um þetta fjallað opinberlega og í bloggheimum, t.d. á þessu bloggi og alltaf hafa ESBgrúppíur tekið sig til og mótmælt slíkum málflutningi harðlega.

Nú bregður hins vegar svo við að í Mogganum í dag birtist grein eftir Emmu Bonino, fyrrverandi sjávarútvegsstjóra ESB og Marco Ee Andreis, fyrrverandi kommisar í ESB, þar sem þau staðfesta rækilega þá ætlun ESBkommisaranna að sölsa öll fjárhagsleg völd Evrópu undir sig og Brusselvaldið. Þar sem eitthvað mun vera um það, að fólk kaupi ekki Moggann, er rétt að birta nokkrar klausur orðréttar úr þessari grein skötuhjúanna, enda ekki tekið fram að bannað sé að vitna til hennar.

Þau segja þar m.a: "Við megum ekki missa af tækifærinu sem gefst í skuldakrísunni sem skollið hefur á evrusvæðinu og Evrópusambandinu. Nota þarf tækifærið til að færa Evrópu í átt að frekari samruna, til að Evrópusambandið fari ekki í hina áttina."

"Þar sem samstarf fullvalda ríkja hefur augljóslega brugðist eru nú aðeins tveir möguleikar eftir. Annar kosturinn er að ríki evrusvæðisins verði áfram fullvalda og endurheimti völd sín á sviði peningamála, sem felur ekki aðeins í sér dauða evrunnar, heldur myndi það stefna innri markaðnum og jafnvel tilvist Evrópusambandsins í hættu. Hinn kosturinn er að ríkin gangi lengra í því að afsala sér fullveldisrétti til Evrópusambandsins og það felur ekki aðeins í sér að evran haldi velli heldur getur það einnig af sér pólitíska sameiningu Evrópu, sem er ef til vill mikilvægara atriði. Þetta val er að verða öllum ljóst. Jean Claude Trichet, bankastjóri Seðlabanka Evrópu, og Jacques Attali, fyrsti bankastjóri Endurreisnar- og þróunarbanka Evrópu, hafa nú báðir hvatt opinberlega til þess að stofnað verði evrópskt fjármálaráðuneyti."

"Einn evrópskur fastaher í stað margra og að mestu vanmáttugra og gagnslítilla herja, með tekjur sem næmu um 1% af heildarframleiðslu ESB-ríkjanna – um 130 milljörðum evra – yrði strax næststærsti her heimsins á eftir Bandaríkjunum hvað fjárhagslegt bolmagn áhrærir og vonandi hernaðarlega burði einnig."

"Fyrir utan varnar- og öryggismálin væri skynsamlegt að færa önnur valdsvið yfir til ríkjasambandsins. Málaflokkarnir sem koma helst til greina eru utanríkisþjónusta og utanríkismál (meðal annars þróunar- og mannúðaraðstoð), innflytjendamál, landamæraeftirlit, nokkur uppbyggingarverkefni sem hefðu áhrif á innviði allra aðildarríkjanna, viðamikil rannsókna- og þró- unarverkefni og svæðisbundin tilfærsla á fjármagni. Þessi opinbera starfsemi og mikil fjárhagsleg umsvif myndu auðvitað krefjast embættis fjármálaráðherra eða jafngildis þess."

"Í þessu ljósi gæti hætta á skuldakrísu á Ítalíu reynst gagnleg með því að treysta einingu ESB-landanna. Orðin e pluribus unum (latína: úr mörgum, eitt)ættu að vera á öllum evruseðlum til að vekja athygli á því að meginhugsjónin sem þeir byggjast á – pólitísk sameining Evrópu – er nauðsynleg til að tryggja að evran haldi velli."

Hér að framan hefur verið stiklað á stóru í greininni og eru allir hvattir til að lesa hana í heild sinni í blaðinu, enda um söguleg skrif að ræða að því leyti, að þarna eru eindregnir ESBsinnar og fyrrverandi kommisarar að skrifa, en ekki andstæðingar væntanlegs stórríkis Evrópu, sem þetta fólk og fleiri dreymir um að koma á í anda Sovétríkjanna sálugu.

Fróðlegt verður að fylgjast með skrifum ESBgrúppía í tilefni þessa greinaskrifs þeirra Emmu Bonino og Marco De Andreis. 


mbl.is Björgun evru háð afsali fullveldis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur J. tekur þátt í leynimakki með vogunarsjóðum

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar eru fögur fyrirheit um opna og gagnsæja stjórnsýslu, þar sem allir hlutir skuli vera "uppi á borðum" og þar með almenningi aðgengilegir.

Nú bregður hins vegar svo við, að Steingrímur J. selur hlut almennings í Byr til erlendra vogunarsjóað, sem eru aðaleigendur Íslandsbanka, og neitar að gefa upp söluverð á þessum eignarhluta almennings.

Það verður að teljast fáheyrt að eigendur skuli ekki fá neinar upplýsingar um ráðstöfun eigna sinna og það verð sem fyrir þær fæst við sölu.

Steingrímur J. ber því víð að aðrir aðilar viðskiptanna hafi viljað halda verðinu leyndu og þess vegna megi hann ekker um það segja.

Í öllum viðskiptum þarf tvo til og í þessu tilfelli hefur Steingrímur samþykkt leynimakkið í stað þess að krefjast þess að viðskiptin væru "opin og gegnsæ" og allt varðandi þau væri "uppi á borðum", þannig að hinir raunverulegu eigendur, þ.e. almenningur fengi allar upplýsingar um hvernig þessi viðskipti gengu fyrir sig.

Engin ríkisstjórn hefur unnið eins þveröfugt við göfug stefnumál sín eins og sú sem nú situr við völd í landinu, illu heilli.


mbl.is „Ríkið ræður ekki ferðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Að vita ekki milljarða sinna tal, eða þannig

Ýmsar voru þær skrautlegar fjármálafléttur útrásargengjanna á árunum fyrir hrun og nægir þar að nefna sölur þeirra á flugfélaginu Sterling sín á milli, hvað eftir annað, og tilkynningar þeirra um ofsagróða af þeim í hvert sinn.

Annað dæmi er þriggja milljarða "lánveiting" Pálma í Fons til Pace Associates í Panama, en lánið var síðan afskrifað umsvifalaust í bókhaldi Fons og hefur ekkert spurst til þessara peninga síðan.

Í meðfylgjandi frétt kemur fram m.a: "Pálmi Haraldsson sagði við fréttastofu að Hannes Smárason og Landsbankinn í Lúxemborg hefðu kynnt verkefnið fyrir sér á sínum tíma. Pálmi gat ekki svarað því um hvaða fasteignaverkefni hefði verið að ræða og hvar á Indlandi félagið hefði fjárfest."

Það verður að teljast furðulegt, svo ekki sé meira sagt, að nokkrum skuli detta í hug að lána þrjá milljarða króna til aðila sem hann veit ekkert um og í verkefni sem hann hefur enn minni þekkingu á, eða hvar verkefninu skuli hrint í framkvæmd.

Skyldi Pálmi í Fons trúa þessari skýringu sinni sjálfur? 


mbl.is Skúffufyrirtæki Landsbankans
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Timí kominn til að íslenska stjórnin vakni

Í viðtali við gríska dagblaðið Kathimerini sagði George Papandreou, forsætisráðherra Grikklands, m.a: "Það er tími til kominn að Evrópa vakni".  Þessi orð voru sögð í umræðu um skuldavanda evruríkjanna og þeirrar erfiðu viku sem framundan er við björgunartilraunir, a.m.k. til skamms tíma, því ekki hverfa skuldirnar þó ESB og AGS takist að öngla saman því stjarnfræðilega mikla fé sem þarf til að framlengja lánin um nokkur ár.

Nú þegar er skuldavandinn nánast óviðráðanlegur í Grikklandi, Írlandi og Portúgal og öruggt er talið að í þeim hópi eigi einnig heima Spánn og Ítalía og jafnvel Belgía og Austurríki.  Á þessum lista sést hve geysilega alvarleg þessi skuldakreppa í Evrópu er, því fleiri ríki eiga í miklum fjárhagsvanda án þess þó að vera komin algerlega í gjörgæslu.

Frammámenn í ESB og flestir hagfræðingar eru sammála um að framtíð ESB og sérstaklega evrusvæðisins sé í mikilli óvissu og að annaðhvort hrynji evran sem gjaldmiðill, eða ríkin sameinins undir eina miðlæga fjármálastjórn og lytu skilyrðislaust fjárlögum frá Brussel.  Þar með myndi fullveldi og sjálfstæði ríkjanna endanlega líða undir lok.

Tími er kominn fyrir íslenska ráðamenn og aðrar ESBgrúppíur að vakna og a.m.k. fresta öllum frekari tilraunum til að innlima Ísland sem útnárahrepp í væntanlegt stórríki Evrópu, sem þó verður á brauðfótum efnahagslega. 


mbl.is Erfið vika framundan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband