Bloggfærslur mánaðarins, júní 2011

Ekki meira, ekki meira, Sigrún

Nokkrar konur, með Sigrúnu Pálínu Ingvarsdóttur í fararbroddi, sem ásökuðu Ólaf Skúlason, fyrrverandi biskup, um kynferðislegt áreiti fyrir allt að þrjátíu árum og fengu þær ekki viðurkenndar sem sannar fyrr en fyrir nokkrum árum síðan, hafa nú fengið enn eina viðurkenningu á málstað sínum með niðurstöðu sérstakrar rannsóknarnefndar sem þjóðkirkjan skipaði til að fara yfir alla meðhöndlun kirkunnar manna á erindum kvennanna.

Flestir myndu nú telja að með þessari niðurstöðu væru málin komin á endastöð, enda hafa konurnar í raun fengið allar sínar kröfur uppfylltar varðandi viðurkenningu á réttmæti ásakana sinna, Ólafur látinn fyrir nokkrum árum og í raun ekkert fleira sem hægt er að gera í málunum.

Ein kvennanna, þ.e. Sigrún Pálína, virðist hins vegar vera komin í einhverskonar stríð við þjóðkirkjuna sem stofnun og henni duga engar viðurkenningar eða rannsóknarniðurstöður. Næst á dagskrá hjá henni er að krefja biskupinn og sóknarprestinn í dómkirkjunni um tugmilljóna skaðabætur fyrir að viðurkenna ekki hvað var sagt og ekki sagt á fundir þeirra og Sigrúnar fyrir mörgum árum síðan.

Líklegt er að stuðningur almennings við málstað þessara kvenna fjari út, ef halda á áfram ásökunum á nýja og nýja presta, fyrir nýjar og nýjar sakir, ásamt tugmilljóna peningakröfum.

Nú er mál að linni.


mbl.is Biskup segi af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða Íslendinga er ESA að tala um?

ESA segir í áliti sínu um Icesaveskuldina, að "Íslendingar" hafi þrjá mánuði til að greiða Bretum og Hollendingum innistæðutrygginguna og geri "þeir" það ekki verði "þeim" stefnt fyrir Eftadómstólinn.

Samkvæmt tilskipunum ESB var engin ríkisábyrgð á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta og því ekki annað að sjá en embættismenn ESA séu stirðlæsari og hafi jafnvel minni lesskilning en flestir aðrir úr því að þeir virðast blanda ríkissjóði inn í málið.

Ekki kemur fram í áliti embættismannanna hvað Íslendinga þeir eiga nákvæmlega við, sem þeir ætlast til að greiði innistæðutrygginguna, t.d. hvort þeir meina mína kennitölu eða kennitölu gamla Landsbankans, sem stofnaði til þessara innlánsreikninga, sem málið snýst um, en ég persónulega kom ekki nálægt.

Þetta álit embættismanna ESA er auðvitað að engu hafandi og fari svo að þeir álpist til að stefna málinu fyrir EFTAdómstólinn, þá er enginn vafi að mín kennitala og annarra Íslendinga mun verða sýknuð af allri kröfugerð, en afar líklegt er að dómur falli gamla Landsbankanum í óhag.

Þegar að því kemur mun slitastjórn bankans væntanlega taka upp samninga við Breta og Hollendinga um hvernig og á hve löngum tíma dóminum verður fullnægt.


mbl.is Þriggja mánaða Icesave-frestur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn ein Steingrímslygin afhjúpuð

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesaveþrælalögin hélt ríkisstjórnin, með Steingrím J. í broddi fylkingar, gífurlegum ógnar- og hræðsluáróðri að þjóðinni um þær hörmungar sem yfir hana myndu dynja, ef hún samþykkti ekki að gangast undir skattalegan þrældóm í þágu Breta og Hollendinga til næstu ára, eða áratuga.

Í dag hælist þessi sami Steingrímur J. af því að tekist hafi að selja íslensk skuldabréf á erlendum markaði, en fyrir kosningarnar sagði hann að slíkt yrði gjörsamlega ómögulegt í nánustu framtíð og að sama skapi myndu innlend fyrirtæki alls ekki hafa nokkra möguleika til að taka erlend lán og engir erlendir fjárfestar myndu heldur líta við nokkrum fjárfestingakostum hér á landi um ófyrirséða framtíð.

Steingrími J. finnst það mikil tíðindi, að Ísland skuli vera orðið fullgildur aðili á erlendum skuldabréfamarkaði "aðeins tveim og hálfu ári eftir hrun", þó ýmsum öðrum en honum þyki það ekki sérlega stuttur tími og að endurreisn efnahagslífsins hafi tekið allt of langan tíma og sé í raun ekkert komin í gang að ráði ennþá.

Steingrími hefði verið nær að taka aðra tímaviðmiðun í þessu efni, en hann hefði átt að láta það koma fram að lántökudaginn í dag ber nákvæmlega upp á tveggja mánaða afmæli þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave, þar sem þjóðin sýndi svart á hvítu að hún tryði ekki einu einasta orði af því sem Steingrímur og ríkisstjórnin reyndu að ljúga um afleiðingar þess að neita að selja sjálfa sig í þrældóm í þágu inngöngu í ESB.

Undanfarnar vikur hefur hver lygaþvæla Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar verið afsönnuð og skuldabréfasalan í dag er enn ein fjöður í hatt þeirra sem lýstu lygasögur ríkisstjórnarinnar ósannar, jafnóðum og þær voru bornar fram.

Ríkisstjórnin stendur eftir með skömmina, en reyndar hefur komið í ljós fyrir löngu að ráðherrar hennar kunna ekki að skammast sín.


mbl.is Ríkið lauk við skuldabréfaútboð erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jóhanna vill leita sátta!!!!!!

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætis- og jafnréttisráðherra, braut jafnréttislög þegar hún réð skrifstofustjóra í forsætisráðuneytið og sniðgekk með því konu, sem taldist a.m.k. jafnhæf, ef ekki hæfari, til að gegna starfinu og karlinn sem ráðinn var.

Jóhanna er þekkt fyrir þrjósku sína og óbilgirni og hefur fram til þessa náð sínu fram með bægslagangi og hótunum, en öllum til mikillar furðu lýsir hún því yfir núna, að ekkert nema blíðan og sáttfýsin stjórni gerðum hennar í þessu máli, en konan sem lög voru brotin á hefur lýst því yfir að hún muni krefjast skaðabóta vegna lögbrotanna og fá Jóhönnu dæmda til þess fyrir dómstólum.

"Ég ætla ekki að fara með þetta mál fyrir dómstólana. Ég vil leita sátta í þessu máli og að því hefur verið unnið," sagði Jóhanna á þingi í dag, aðspurð um það hvort hún ætlaði virkilega ekki að láta sér segjast og semja um málið án þess að fá á sig dóm ofan á aðra skömm vegna þessa.

Að Jóhanna boði sættir í nokkru máli yfirleitt eru mikil tíðindi og vekur upp þá spurningu hvort slík hugarfarsbreyting leiði til breyttra vinnubragða og framkomu í öðrum málum á næstunni. 

 


mbl.is „Ég vil leita sátta“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Steingrímur fyrir og eftir Icesave

Það var aldeilis annar tónn í Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, í ræðu hans við Eldhúsdagsumræðurnar á Alþingi í kvöld en var fyrir nokkrum vikum, þ.e. fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um hvort ríkisstjórninni yrði veitt heimild til að selja íslenskan almenning í skattalegan þrældóm í þágu útlendra ofstopaþjóða.

Fyrir atkvæðagreiðsluna sagði Steingrímur þjóðinni að samþykkti hún ekki þrælasamninginn færi allt á vonarvöl í landinu, lánshæfismat myndi lækka, AGS myndi ekki staðfesta fimmtu endurskoðun samstarfsáætlunarinnar um efnahagsmálin og þar með myndu sjóðurinn og norðurlöndin ekki afgreiða frekari lán til landsins, engar erlendar fjármálastofnanir myndu líta við íslendingum framar og fjárfestar myndu ekki svo mikið sem millilenda á Keflavíkurflugvelli og hvað þá fást til að fjárfesta svo mikið sem einn dollar í atvinnuuppbyggingu hérlendis.

Ekkert af þessum bölbænum Steingríms J. og ríkisstjórnarinnar rættust, enda virðist þessir falsspámenn halda að þjóðin sé búin að gleyma svartagallsrausinu, því nú hefur blaðinu algerlega verið snúið við og í ræðu sinni í kvöld reyndi Steingrímur J. að sannfæra þjóðina um að erfiðleikar hennar við að framfleyta sér og greiða nauðsynlega reikninga, séu bara alls ekki fyrir hendi, heldur drjúpi nú smjör af hverju strái og gull og grænir skógar bíði þess að fólkið teygji út hendurnar til að meðtaka gnægtirnar.

Steingrímur J. er góður ræðumaður og munar ekkert um að skipta um málstað og afstöðu til málefna. Hann er jafn mælskur, hvaða boðskap sem honum dettur í hug að bjóða áheyrendum upp á hverju sinni.

Þjóðin veit hinsvegar nú orðið að ekkert er að marka það sem hann segir, hvorki þegar hann fer með bölbænirnar eða aðra og fallegri sálma.


mbl.is Fordæmir niðurrifsöfl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Samdráttur í hagvexti?

Landsframleiðslan jókst um 2% á milli síðasta ársfjórðungs síðasta árs og þess fyrsta á þessu ári, sem skýrist alfarið með meiri sjávarafla. Þrátt fyrir það er helsta áhugamál ríkisstjórnarinnar að draga úr hagkvæmni sjárvarútvegarins og fjölga veiðiskipum og sjómönnum sem ætlað er að sækja í takmarkaða veiðistofna, því engar áætlanir eru uppi um að auka veiðar umfram ráðleggingar Hafró.

Aðrar tölur voru einnig birtar, ekki síður athyglisverðar, en í fréttinni segir t.d: "Samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofunni dróst einkaneysla saman um 1,6% á fyrsta ársfjórðungi samanborið við síðasta fjórðung ársins 2010 og fjárfesting um 6,8%. Samneysla jókst hins vegar um 0,1%. Útflutningur dróst saman um 8,2% og innflutningur um 4,1% á sama tímabili."

Þrátt fyrir fagurgala ríkisstjórnarinnar um kreppulok og efnahagsbata, þá er samdráttur á öllum sviðum neyslu og fjárfestingar, NEMA Í SAMNEYSLUNNI, þ.e. útgjöldum hins opinbera, en þar er aukning um 0,1% á meðan t.d. einkaneysla dregst saman um 1,6%.

Það er sama hvar borið er niður, ríkisstjórnin fær falleinkun á öllum sviðum.


mbl.is 2% hagvöxtur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þrekvirki unnið með neyðarlögunum

Fréttin um að litlu hefði munað að kortafyrirtækin hefðu þurft að loka fyrir alla kortanotkun við bankahrunið haustið 2008, sýnir enn og sannar hvílíkt þrekvirki var unnið í hruninu af þáverandi ríkisstjórn, ráðuneytum, seðlabanka og ýmsum öðrum stofnunum, sem að björgunarstörfum unnu.

Eins og áður eru laun heimsins vanþækklæti, því í stað þess að þakka það sem vel var gert á þessum tíma keppast Vinstri grænir, Samfylkingin (sem þó var í ríkisstjórn) og annað óvandað fólk við að níða niður þá sem best stóðu sig í aðdraganda hrunsins og björguðu því sem bjargað varð, við þær ótrúlega erfiðu aðstæður sem uppi voru.

Hámarki náði niðurlæging smámenna á Alþingi með samþykktinni um að stefna Geir H. Haarde fyrir Landsdóm.


mbl.is Íhugað var alvarlega að loka fyrir kortanotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heiðarleg Samfylkingarkona

Á fundi stuðningsmanna Geirs H. Haarde í Hörpu síðdegis í dag flutti Kristrún Heimisdóttir, fyrrverandi aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og nuverandi aðstoðarmaður Árna Páls Árnasonar, stórmerkilega ræðu, þar sem hún fór yfir og útskýrði stöðu dómsvaldsins frá upphafi landnáms gagnvart hinu pólitíska valdi og taldi að aldrei í sögunni hefði pólitíska valdið lagst eins lágt í samskiptum sínum við dómstóla landsins.

Í viðhangandi frétt segir m.a:  "Hún sagði réttarkerfið ævinlega hafa komið fyrst og staðið æðst. En sagðist leyfa sér að fullyrða að engin siðmenntuð mannseskja með einhverja lögfræðimenntun gæti horft á þetta mál án þess að blygðast sín„Ég er viss um að dómarararnir lesa hættumerkin í málinu,“ sagði Kristrún."

Atlanefndin, sem lagði fram tillöguna um ákærurnar á ráðherrana rannsakaði málið alls ekkert, heldur byggði á áliti nefndarmanna í nefnd, sem ekki rannsakaði málin sem sakamál, heldur vísaði til nánari rannsóknar þar til bærra aðila þeim atriðum sem hún taldi að gætu farið í bága við landslög. Ekkert slíkt var lagt til af hálfu Rannsóknarnefndar Alþingis varðandi ráðherra.  Um skýrslu Rannsóknarnefndarinnar sagði Kristrún m.a: 

„Af óskiljanlegum ástæðum var margvíslegur áburður og uppspuni tekinn gildur af höfundum rannsóknarskýrslu Alþingi,“ sagði Kristrún og benti á að ýmsir aðrir hafi fengið þann rétt að fá rannsókn á sínum málum. En fyrrverandi forsætisráðherra hefði ekki fengið þann rétt.„Reifun málsins er í skötulíki og alþingismenn sáu það ekki sem sitt hlutverk að skilja málið, þeir tóku sér hlutverk ákæranda,“ sagði Kristrún. „Þetta er mesti heigilsháttur sem ég hef orðið vitni að.“

Undir þessi síðustu tilvitnuðu orð Kristrúnar er ekki hægt annað en taka heilshugar.  Þeir þingmenn sem tóku þátt í þessu ákæruhneyksli á Alþingi hljóta að skammast sín óskaplega núna og geri þeir það ekki, þá eru þeir samviskulausari smámenni en orð fá lýst.

Miðað við rökstuðning Kristrúnar í ræðu sinni á fundinum getur Landsdómur varla annað en vísað málinu frá dómi.  Verði það ekki gert er enginn vafi á að Geir H. Haarde verði sýknaður af öllum ákæruatriðum.

Fari svo, sem nánast er öruggt, þá hljóta smáþingmennin að segja af sér þingmennsku umsvifalaust. 


mbl.is „Geir á sanngirni skilda“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísvitandi skemmdarverk á sjávarútvegi?

Gjörsamlega er óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli leggja fram svo illa undirbúin og vanhugsuð frumvörp um undirstöðuatvinnuveg þjóðarinnar, að nánast undantekningarlaust allir, sem umsögnum hafa skilað um þau til Alþingis, skuli vera sammála um að þau séu verri en engin og raunar til þess fallin að eyðileggja áratuga uppbyggingu atvinnugreinarinnar og hagkvæmni hennar.

Einnig er ótrúlegt að frumvörpin skuli ekki vera vitrænni, eftir margra missera vinnu við þau í Sjávarútvegsráðuneytinu, en það skýrist væntanlega af þeim illindum sem innan stjórnarflokkanna ríkir um málið og ekki síður á milli flokkanna.

Ekki síður er forkastanlegt að henda frumvörpum, ekki síst svona illa unnum, inn í þingið á síðustu dögum fyrir þingslit og ætlst til að þau séu afgreidd og leidd í lög án almennilegrar umræðu og vinnu við úrbætur og breytingar á þeim.

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknar, gagnrýndi þessi vinnubrögð harðlega á þinginu og sagði m.a "Allir sem hefðu veitt álit á frumvarpinu hefðu verið neikvæðir, talið frumvarpið vanbúið, muni engum árangri skila og kunni jafnvel að brjóta gegn stjórnarskrá. Þá sé óljóst fyrir hvern verið sé að setja þessi lög."

Þessi vinnubrögð eru því undarlegri, þar sem Össur Skarphéðinsson lýsti því yfir á Alþingi í gær, að sjávarútvegsstefna Framsóknarflokksins væri miklu betri en stefna ríkisstjórnarinnar og því ætti að vera hægt að ná samkomulagi á þinginu um málið.

Það hlýtur að vera einsdæmi, að ráðherra skuli lýsa stefnu stjórnar sinnar í svo stóru máli sem handónýtri og reynandi væri að ná samkomulagi um mál á grundvelli stefnu stjórnarandstöðuflokks. 


mbl.is „Þetta er ekki hægt"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki réttarfarsleg mistök?

Sigríður J. Friðjónsdóttir, saksóknari Alþingis, segist meta það svo að engin réttarfarsleg mistök hafi verið gerð í málsmeðferðinni gegn Geir H. Haarde.

Í fréttinni er eftir henni haft: "Það er ekkert hægt að lesa landsdómslögin öðruvísi en að maðurinn teljist ákærður eftir að búið er að ákveða að höfða málið með þingsályktuninni. En það var verið að bera þetta saman við sakamálalögin, en þar ertu ekki sakborningur fyrr en það er búið að bera þig formlega sökum. En það er líklega ekki hægt að bera mann sökum með meira afgerandi hætti en að þingið álykti um að það eigi að höfða mál á hendur honum."

Sjálfsagt er það rétt hjá saksóknaranum, að ákæran hafi verið í samræmi við lögin um Landsdóm, þannig að engin mistök hafi verið gerð að því leiti.  Hins vegar hefur komið fram, að þingnefnd Atla Gíslasonar, sem lagði fram tillöguna um að stefna fjórum ráðherrun fyrir dóminn, rannsakaði málið ekkert sjálf, eða aðilar á hennar vegum, heldur var alfarið byggt á umsögn Rannsóknarnefndar Alþingis, sem sjálf lét þess getið við útgáfu skýrslu sinnar að hún væri ekki dómur, heldur skoðun nefndarmannna og þess sem hún hefði orðið áskynja í rannsókn sinni og þótt vera líklegt til að teljast vera lögbrot, hefði verið vísað til nánari rannsóknar þar til bærra aðila.

Því hljóta það að teljast réttarfarsleg mistök Alþingis að samþykkja að stefna einum af þeim fjórum ráðherrum, sem Atlanefndin lagði til að stefnt yrði, fyrir Landsdóm á grunni ákæru sem alfarið er byggð á skoðunum nefndarmanna Rannsóknarnefndar Alþingis, sem þeir töldu reyndar sjálfir að væru ekki brot á neinum lögum, en flokkuðu þó undir mistök í starfi þessara ráðherra.

Viðbrögð og gerðir manna í störfum sínum eru oft umdeilanleg og því meira en hæpið að ákæra þá fyrir slíkt, ef liggur að baki nákvæm sakamálarannsókn sem leiða myndi í ljós augljós lögbrot og í hverju þau væru fólgin og í slíkum tilfellum dygði ekki að vera annarrar pólitískrar skoðunar en sakborningurinn eða telja eftirá að hægt hefði verið að bregðast öðruvísi við, en gert var.

Í huga ólöglærðra snýst þetta mál ekki um lög og rétt, heldur pólitískar hefndaraðgerðir sem eru öllum sem að þeim standa til háborinnar skammar og þeirra hinna sömu mun verða minnst um ókonin ár fyrir ræfildóm og ómerkilegheit.


mbl.is Engin réttarfarsleg mistök
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband