Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

"Kjáninn" á Bessastöðum vekur furðu

Uffe Elleman-Jensen og Mogens Lykketoft, fyrrverandi ráðherrar í Danaveldi, furða sig á Ólafi Ragnari Grímssyni fyrir að hann skyldi ekki staðfesta lögin um Icesave III og þannig með kjánaskap sínum taka völdin af Alþingi og grafa þar með undan lýðræðinu í landinu.

Það sem þeir félagar flaska á, er að ÓRG hafði ekkert frumkvæði að því að vísa lögunum til þjóðarinnar, hvorki lögunum um Icesave II né um Icesave III. Það voru kjósendur sjálfir sem kröfðust þess með undirskriftasöfnunum, þar sem meira en fimmti hver kjósandi skráði nafn sitt á áskorun til forsetans að hann sæi til þess að þjóðin sjálf fengi að ráða örlögum málsins.

Í fréttinni er þetta haft eftir þeim félögum: "Lykketoft sagði, að íslenska ríkið vær í mun betri stöðu en til dæmis það gríska eða portúgalska. En hætta væri á að kjáninn í forsetastólnum hefði skemmt fyrir löndum sínum með því að staðfesta ekki lögin.  Elleman-Jensen sagði, að nú spyrðu menn sig út í heimi hvort hægt væri að gera samninga við Íslendinga. Sagði hann, að Ólafur Ragnar hefði í raun tekið lýðræðislega kjörið þing Íslendinga úr sambandi og þannig grafið undan lýðræðinu í Íslandi."

Að vísu hefur "kjáninn í forsetastólnum" haldið því mjög á lofti sjálfur, að lögin hafi farið í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir hans frumkvæði og gumað sig af því víða um lönd, að með því hafi hann verið að efla lýðræðið í landinu, en eins og áður sagði hefur ÓRG aldrei gert nokkurn skapaðan hlut til að efla lýðræðið, en hins vegar hafa allar hans athafnir snúist um að upphefja sjálfan sig, enda hugsar hann fyrst og fremst og nánast eingöngu um eigin hag og vinsældir.

ÓRG var óþreytandi stuðningsmaður útrásarvíkinganna á meðan þeir voru átrúnaðargoð þjóðarinnar og uppskar það að verða óvinsælasti maður þjóðarinnar, þegar ofan af gengjunum var flett og rannsóknir á glæpaverkum þeirra hófust.  Með því að fara að áskorunum hins stóra hluta kjósenda um þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave II tókst honum af sinni alkunnu flærð að afla sér vinsælda á ný og bætti þar um betur með því að fara enn að vilja kjósenda varðandi Icesave III.

Kjánarnir dönsku misskilja greinilega hvers vegna þjóðaratkvæðagreiðslurnar fóru yfirleitt fram.  Það var ekki fyrir frumkvæði "kjánans í forsetastólnum", heldur okkar kjánanna sem sameinuðumst um að safna svo mörgum undirskriftum, að ekki var fram hjá þeirri kröfu gengið.

Seint verður hægt að taka undir að ÓRG sé kjáni, en aðdáun hans á eigin egói og frama er hins vegar fölskvalaus. 


mbl.is Undrandi á forseta Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fidel lætur af völdum - loksins

Fidel Kastró hefur tilkynnt afsögn sína sem aðalritari kommúnistaflokks Kúbu og við embættinu tekur bróðir hans Raul, sem hefur gegnt afleysingastörfum fyrir "stóra bróður" undanfarin ár vegna veikinda hans, en Fidel er orðinn 84 ára, en Raul er 80 ára þannig að varla mun hann gegna æðstu embættum í mörg ár til viðbótar.

Kastró, ásamt Che Guevara og öðrum byltingarfélögum sínum komst til valda á Kúbu í ársbyrjun 1959, eftir að hafa steypt spilltri stjórn Baptista frá völdum, en stjórnarfar á Kúbu hefur alla tíð einkennst af spillingu og harðstjórn, sem ekkert minnkaði í  tíð Kastrós því stjórn hans byggðist á mikilli harðneskju og miskunnarleysi gagnvart öllum sem hugsanlega voru andstæðir honum og valdaklíku hans.

Nú, þegar Fidel lætur af embætti og "litli" bróðir tekur við, a.m.k. að nafninu til, fer senn að sjá fyrir endann á Kastrótímanum á Kúbu og von verður til þess að nýjir tímar, með nýjum stjórnendum og stjórnarháttum taki við á Kúbu með von um bætta og betri tíð fyrir þjóðina.

Merkilegum kafla er að ljúka í sögu Kúbu og bjartari tímar framundan.

 


mbl.is Kastró segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegagjöld í stað olíu- og bensínskatta

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er enn farinn að ámálga vegagjöld sem viðbótarskattheimtu af bíleigendum til að fjármagna vegaframkvæmdir, þó nú þegar séu innheimt vegagjöld í olíu- og benslínverði, ásamt ýmsum öðrum sköttum og gjöldum.

Fyrir skömmu voru Ögmundi afhentar undirskriftir rúmlega fjörutíuþúsund manns, sem mótmæltu öllum hugmyndum ráðherrans um auknar skattaálögur á bifreiðaeigendur, en eins og við var að búast af ráherra í núverandi ríkisstjórn, þá ætlar Ögmundur greinilega ekki að taka mark á vilja almennings í landinu, heldur þjösnast áfram með hverja viðbótarskattheimtuna á fætur annarri.

Einu rökin sem réttlæta veggjöld, er sú að með því móti væri hægt að láta alla bifreiðaeigendur greiða sama gjald fyrir notkun veganna, burtséð frá því hvaða orka knýr bifreiðina áfram á ferðum hennar um vegina, hvort sem það er olía, bensín, metan, rafmagn eða hvaða annar orkugjafi sem er.

Þannig gætu veggjöld stuðlað að jafræði milli bifreiðaeigenda og hver þeirra tæki þátt í kosnaði vegna þjóðveganna í samræmi við notkun sína af þeim, en algert skilyrði fyrir slíkri breytingu á veggjöldum yrði að vera, að vegaskattar yrðu þá felldir út úr olíu- og bensínverði og útsöluverð þess lækkaði til samræmis.

Þannig kæmu þessir nýju skattar í stað annarra sem féllu niður, en ekki sem viðbót við annað skattahækkanabrjálæði sem á þjóðinni hefur dunið undanfarin tvö ár.


mbl.is 200 króna veggjald
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reykás-ríkisstjórn

Ragnar Reykás er ein allra best heppnaða persóna Spaugstofunnar og er persónugerfingur tvískinnungs og skoðanasveiflna í þjóðfélaginu, enda með og á móti hverju málefni sem undir hann er borið.

Ríkisstjórnin hefur öll Reykáseinkennin, enda tala ráðherrar hennar með og á móti hverju máli sem til kasta ríkisstjórnarinnar kemur, annan daginn talar einhver ráðherrann fyrir málinu og næsta dag kemur annar og lýsir algerlega öndverðum skoðunum, enda komast engin bitastæð mál stjórnarinnar af umræðustigi yfir á framkvæmdastig.

Fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave lýstu ráðherrarnir í ræðu og riti hvílíkt hörmungarástand myndi skapast í landinu yrðu lögin felld, vegna þess að enginn erlendur fjárfestir eða lánastofnun myndi vilja koma inn fyrir tvöhundruð mílna landhelgina og skuldatryggingarálag landsins færi upp úr öllu valdi og lánshæfismat að sama skapi á sorphaugana.

Eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna kverður við algerlega annan tón hjá ráðherrum ríkisstjórnarinnar, sem nú hafa lagst í ferðalög til að útskýra fyrir heiminum hve ótrúlega vel gangi á öllum sviðum í landinu, ekki síst sé árangur í efnahagsmálum stórkostlegur og NEIið í þjóðaratkvæðagreiðslunni skipti ekki nokkru máli fyrir þann mikla uppgang sem þegar er orðinn hér um sveitir, sem þó sé aðeins sýnishorn af þeirri velmegun sem hér muni ríkja á næastu mánuðum.

Árni Páll, sem var manna svartsýnastur fyrir kosningar, er nú rífandi bjartsýnn, eins og þessi ummæli hans í útlöndum sýna, þegar hann ræddi um ótta fjármagnsráðenda veraldarinnar við öll samskipti við Ísland, eins og hann hafði þó sjálfur spáð: "Nú síðustu viku höfum við ekki séð nein slík viðbrögð. Það er ekki að sjá að nei-ið hafi haft teljandi áhrif á mat á greiðsluhæfi Íslands í viðskiptum með skuldatryggingaálag Íslands og það er ekki heldur að sjá að þetta hafi áhrif á erlenda fjárfestingu. Þvert á móti kom bein erlend fjárfesting í íslenskan banka á mánudaginn var."

Ríkisstjórnin er Ragnari Reykás sannarlega til sóma þessa dagana. 


mbl.is Engin áhrif á samstarf við AGS
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin að eyðileggja kjarasamninga

Nú er að koma í ljós það sem margir óttuðust, að ríkisstjórninni er að takast að eyðileggja möguleikana á að hægt verði að ganga frá kjarasamningum til þriggja ára og viðhalda þannig óvissu um nýja atvinnuuppbyggingu og minnkun atvinnuleysis.

Ríkisstjórnin hefur barist með ótrúlegu þolgæði gegn öllum þeim atvinnutækifærum sem mögulegt hefði verið að koma af stað við eðlilegar aðstæður og nægir þar að nefna byggingu nýrra fyrirtækja á Suðurnesjum og við Húsavík, ásamt þeim virkjanaframkvæmdum sem þeim framkvæmdum hefði fylgt.

Sjávarútvegurinn hefur verið í algerri óvissu vegna innbyrðis ósamkomulags innan og milli stjórnarflokkanna og í þeirri grein hefur ríkt alger stöðunum og öllum framkvæmdum verið slegið á frest, enda hefur enginn hugmynd um hvaða rekstrarskilyrði atvinnugreininni verður boðið að starfa við á næstunni.

Við þær aðstæður sem ríkja í stjórnarfari landsins dettur engum í hug að hægt sé að ganga frá kjarasamningum til langs tíma og er það með ólíkindum að ríkisstjórn nokkurs lands skuli berjast gegn kjarasamningagerð með þvílíku offorsi sem íslenska ríkisstjórnin gerir nú.

Vonandi verður ríkisstjórnin fallin og ný tekin við, þegar þráðurinn verður tekinn upp á ný við gerð samninga, svo launþegar fái langþráðar kjarabætur og nýtt hagsældartímabil geti hafist.


mbl.is Reyna að ná skammtímasamningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórhættuleg afskipti þingmanna

Bryndís Hlöðversdóttir, stjórnarformaður Landsvirkjunar, Samfylkingarkona og einkavinur Jóhönnu, varar eindregið við því að ríkisstjórnin og alþingismenn fari að skipta sér af rekstri Landsvirkjunar og taki í sínar hendur að ákveða hvar og hvenær verði virkjað og enn frekar að ætla sér að ákveða í hvaða landshlutum iðnfyrirtæki verði starfrækt. 

Slíkar hugmyndir stjórnmálamanna telur hún stórhættulegar rekstri fyrirtækisins, trúverðugleiki þess og lánshæfi hverfi eins og dögg fyrir sólu, enda vita allar fjármála- og lánastofnanir heimsins að slík "byggðastefna" gengur hvergi upp og skapar aldrei störf til langs tíma, enda hugsa stjórnmálamenn eingöngu um eigið endurkjör á fjögurra ára fresti, en ekki langtímahagsmuni lands og þjóðar.

"Byggðastefna" sem hefur byggst á því að ríkið hafi ætlað sér að hafa forgöngu um atvinnuuppbyggingu á ákveðnum svæðum hér á landi hafa aldrei gengið upp og nægir að benda á hörmungarsögu Byggðastofnunar í því sambandi.  Núverandi ríkisstjórn lofaði í Stöðugleikasáttmálanum að liðka til fyrir uppbyggingu stóriðju á Reykjanesi og sveik það loforð jafnharðan.  Stjórnin hélt ríkisstjórnarfund á Suðurnesjum og lofaði þar mikilli atvinnuuppbyggingu, sem helst átti að byggjast á stofnun herminjasafns, en ekkert hefur frést af þeim áformum síðan.

Nýlega fundaði stjórnin á vestfjörðum og lofaði þar gulli og grænum skógum til handa heimamönnum og munu þeir ekki vera búnir að jafna sig ennþá á því áfalli, enda vandamálin sem við er að glíma í landsfjórðungnum næg, þó ekki bætist svikalisti ríkisstjórnarinnar þar við.

Farsælast er að láta atvinnulífið og fyrirtækin sjálf komast að niðurstöðu um það hvar hagkvæmast er að byggja upp atvinnustarfseminga og þar ráði eingöngu hagkvæmni og arðsemi förinni.

Það mun verða þjóðfélaginu farsælast og þá ekki síst launþegum sem með því geta reiknað með stöðugri og varanlegri atvinnu.


mbl.is Ríkið haldi sig frá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægja með skattahækkanabrjálæðið

Helgi Hjörvar, formaður efnahags- og skattanefndar Alþingis, lýsti yfir ánægju sinni á fundi nefndarinnar með það, að Ríkisendurskoðun hefði staðfest að skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar hefið skilað þeim tekjum sem stefnt var að á síðasta ári.

Þetta eru auðvitað mikil gleðitíðindi fyrir þá skattaóðu ríkisstjórn sem situr í landinu, enda auðveldasta leið ráðalausra þingmanna út úr vandamálunum, að velta þeim einfaldlega yfir á skattgreiðendur sem sí og æ verða að skera niður heimilútgjöld sín, þar með talin matarinnkaup, til þess að standa undir skattpíningunni.

Launþegar landsins munu ekki gleðjast eins innilega og Helgi Hjörvar yfir skattageggjunninni, sem er að sliga heimili landsins og er þá ekki eingöngu verið að tala um tekjuskattana.


mbl.is Áætlun um tekjuauka gekk eftir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dapurleg frétt sem minnir á ríkisstjórnina

Þetta er afar sorgleg frétt sem hér birtist á mbl.is af áströlskum brúðguma, sem vegna andlegra veikinda sinna réðs á brúði sína á leið til brúðkaupsveislu þeirra og misþyrmdi henni illilega. Þrátt fyrir sín andlegu veikindi var maðurinn dæmdur til fimmtán mánaða fangelsisvistar og þannig látinn gjalda verknaðar síns.

Þrátt fyrir að ljótt sé að hafa slíkar fréttir í flimtingum, þá skaust ásandið á ríkisstjórnarheimilinu íslenska óneitanlega strax upp í hugann við lestur fréttarinnar, enda verknaðarlýsingin svipuð því, að verið væri að lýsa ástandinu hjá ríkisstjórninni, sem slegist hefur og rifist frá fyrsta degi, með þeim afleiðingum að báðir stjórnarflokkarnir eru í flakandi sárum og þó VG öllu verr kominn, enda nánast í andarslitrunum.

Ástralsku brúðhjónin munu strax hafa skilið í kjölfar þessa hörmulega atburðar.

Íslenska ríkisstjórnin ætlar hins vegar að þrauka sitt stormasama samband, allt þar til dauða.


mbl.is Brúðgumi réðst á brúði sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jón Gnarr óvirðir vinaþjóð

Trúðurinn í borgarstjórastónum í Reykjavík telur sig þess umkominn að óvirða opinbera sendinefnd náinnar vinaþjóðar með því að neita að taka á móti henni og þykist gera það í nafni friðar og óbeitar á hermennsku.

Nánast allar þjóðir veraldar halda úti herjum og á friðartímum eru flotar þessara ríkja sendir í vináttuheimsóknir til annarra landa og engum heilvita stjórnmálamanni dettur í hug að neita að tala við slíkar sendinefndir og sýna þeim kurteisi og virðingu, burtséð frá áliti viðkomandi stjórnmálamanna á leiðtogum þeirra ríkja sem þessir sendiboðar koma frá, eða innanríkismálum viðkomandi landa, nema um sé að ræða harðsvíraða einræðisherra og glæpamenn.

Ætli Jón Gnarr sér að gegna embætti borgarstjóra í Reykjavík, er varla til of mikils ætlast af honum þó hann sýni almenna kurteisi í samskiptum við borgarbúa og ekki síður sendimenn erlendra þjóða, sem hingað koma í venjubundnar kurteisisheimsóknir.

Treysti hann sér ekki til að sinna starfinu, eins og til er ætlast, á hann auðvitað að segja því lausu og snúa sér að öðru, sem fellur betur að hans eigin hugarheimi og áhugamálum.


mbl.is Á móti hernaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er Ögmundur sérstakur yfirsaksóknari?

Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, flutti þjóðinni þau furðulegu skilaboð úr ræðustóli Alþingis, að hann væri sjálfur verkstjóri þeirra sakamálarannsókna sem nú fara fram hjá embætti Sérstaks saksóknara.

Fram að þessu hefur verið talið að ríkisvaldið væri þrískipt, þ.e. í löggjafarvald, framkvæmdavald og dómsvald og hvert þessara valdsviða hefði ekki stjórn eða yfirráð yfir hinum, heldur störfuðu algerlega sjálfstætt.Í einræðisríkjum skipa stjórnvöld dómstólunum hins vegar oft fyrir verkum, en slíkt hefur ekki tíðkast í lýðræðisríkjum, fyrr en þá núna að ný skipan þessara mála er tekin upp á Íslandi.

Lokasetning fréttarinnar er einnig afar athyglisverð, en hún hljóðar svona: "Ögmundur sagði, að ýmsar brotalamir væru á rannsókninni, sem menn vildu laga. „En við lögum þær ekki með aðkomu Sjálfstæðisflokksins. Við höfum fengið nóg af slíku."

Þetta er grafalvarleg yfirlýsing frá Innanríkisráðherra á tvennan hátt, sem Ögmundur kemst ekki hjá að skýra betur og hljóta fjölmiðlamenn að ganga eftir þeim skýringum strax á morgun.  Í fyrsta lagi verður hann að útskýra í hverju brotalamir rannsóknanna eru fólgnar og í öðru lagi að hvaða leiti ráðuneyti hans kemur að þessum rannsóknum, eða stjórnar þeim, eins og hann gefur í skin.

Það verður að upplýsa strax hvort Ögmundur Jónasson sé virkilega orðinn Sérstakur yfirsaksóknari. 


mbl.is Stendur vörð um rannsóknina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband