Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2011

Endalaus ósannindi um ESBaðlögunina

Fulltrúum ríkisstjórnarinnar virðist algerlega fyrirmunað að segja satt orð um aðlögun Íslands að ESB, sem reyndar er algerlega andstætt samþykkt Alþingir um viðræður við sambandið um hugsanlega aðild.

Össur Skarphéðinsson er orðinn að athlægi vegna stöðugra ósanninda sinna um þennan gang mála og nú gerir Árni Þór Sigurðsson sig beran að ósannsögli af stærri gerðinni, þegar hann reynir að láta líta út fyrir að sátt og samlyndi hafi ríkt á fundi þingmannanefndarinnar sem hefur með aðlögunina að gera og fundar reglulega um málið. 

Gert var ráð fyrir að nefndin sendi frá sér yfirlýsingu um aðlögun landsins að ESB eftir þennan fund, eins og eftir fyrsta fund nefndarinnar, en gífurlegt ósamkomulag var um innihald og texta þeirrar tillögu að ályktun, sem lögð var fyrir fundinn og samin var í Brussel og send fundinum til afgreiðslu.

Árni Þór reynir með venjulegum ósannindavaðli stjórnarliða að gera lítið úr því báli, sem tillagan olli á fundinum og segir m.a. í viðtali við mbl.is:  "Það var ekki alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna um þær. Síðan var það þannig hjá okkur að það voru mismunandi skoðanir á því hvort menn ættu að vera að álykta og hversu mikið þannig að það varð niðurstaða okkar formannanna, mín og Gallagher, að leggja það ekki til." 

Árni segir aðeins að ekki hafi verið "alveg einhugur í hópi Evrópuþingmannanna", en þegir yfir því að ýmsir íslenskir þingmenn hafi verið algerlega öskureiðir yfir þeirri tillögu að ályktun sem lögð var fyrir þá til samþykktar.  Vegna þessarar óánægju Íslendinganna drógu formennirnir tillöguna til baka og þorðu ekki að láta reyna á atkvæðagreiðslu um hana.

Það verður að teljast með ólíkindum, ef fulltrúar ríkisstjórnarinnar halda að þeir geti prettað þjóðina inn í Evrópusambandið með hálfsannleik, hreinum lygum og svikum.

Þjóðin er löngu búin að sjá í gegnum blekkingarvefinn.


mbl.is Ákveðið að hætta við að álykta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlögin björguðu þjóðfélaginu frá algeru hruni

Héraðsdómur kvað í dag upp þann úrskurð að neyðarlögin frá árinu 2008 stæðust íslensku stjórnarskrána, samninginn um evrópska efnahagssvæðið og mannréttindaákvæði Evrópusambandsins. Þetta er gríðarlega góður og merkilegur dómur, sem vonandi og nánast örugglega verður staðfestur af Hæstarétti.

Í dóminum segir m.a: "...Þá verður og að telja, með hliðsjón af þeim aðstæðum sem uppi voru við umrædda lagasetningu, að sóknaraðilar hafi ekki sýnt fram á að aðgerðir þessar hafi gengið lengra en brýna nauðsyn bar til í því skyni að ná því markmiði að forða þjóðinni frá efnahagslegu hruni og tryggja þar með hag hins almenna borgara."

Dómurinn er staðfesting á því, hve gott verk ríkisstjórn Geirs H. Haarde vann á síðustu dögunum fyrir hrun við gríðarlega erfiðar aðstæður.

Það þjóðþrifaverk hafa núverandi stjórnarflokkar þakkað með því að stefna Geir, einum ráðherra síðustu ríkisstjórnar, fyrir Landsdóm.

Þjóðin er reyndar hneyksluð á þeirri svínslegu aðgerð, enda í mikilli þakkarskuld við þá sem björguðu þjóðfélaginu frá algeru efnahagslegu hruni á haustdögum 2008. 


mbl.is Lögmætt markmið neyðarlaga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Suðurnesin í kuldanum - en ennþá von á herminjasafni

Í vetur var haldinn ríkisstjórnarfundur á Suðurnesjum með mikilli viðhöfn og þar lagðar fram göfugar áætlanir um atvinnuuppbyggingu á svæðinu, þar á meðal flutning Landhelgisgæslunnar og stofnun herminjasafns á Keflavíkurflugvelli.

Eins og við var að búast af þessari ríkisstjórn hefur ekkert orðið úr neinum framkvæmdum þar suður frá og atvinnuleysi á svæðinu aukist frá því að "atvinnuuppbyggingaráætlunin" var kynnt.

Nú hefur ríkisstjórnin endanlega slegið af allar hugmyndir um flutning gæslunnar á Suðurnes vegna kostnaðar, en undarlegt er að kostnaðaráætlunin skuli ekki hafa verið gerð áður en ríkisstjórnin hélt í grobbferð sína, sem greinilega var farin í þeim eina tilgangi að blekkja Suðurnesjamenn, en atvinnuleysi þar er það mesta á landinu, eða um 15%.

Miklar vonir hljóta að vera við það bundnar suður með sjó, að ríkisstjórnin standi við loforðið um stofnun herminjasafnsins, enda mun það a.m.k. skapa eitt til tvö störf og þar með mun ríkisstjórnin sjálfsagt telja sig hafa gert stórvirki í atvinnusköpun, ekki bara á Suðurnesjum heldur á landsvísu.

Takist að koma á herminjasafni verður það mesta átak í atvinnumálum, sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á öllum sínum ferli og mun hún þá vafalaust telja sig hafa unnið þrekvirki á því sviði.


mbl.is Landhelgisgæslan ekki flutt í bráð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri grænir og Villtir grænir

Óhætt er að segja að allt sé upp í loft í villta vinstrinu og ekki útséð um hvernig mál þróast á stjórnarheimilinu á næstu vikum og hvað þá hvað gerist innan stjórnarflokkanna og á milli þeirra.

Nú er svo komið að undanvillingarnir úr VG treysta sér ekki til að stofna formlegan þingflokk, vegna þess að "staðan í íslenskum stjórnmálum er óráðin" og trúi hver sem vill þeirri skýringu.  Líklegt er að viðræður standi ennþá á milli Villtra grænna og Hreyfingarinnar um samstarf eða samruna og óvíst hvað úr þeim þreifingum verður á endanum.

Hnúturnar ganga á milli flokksbrota VG og ásakar hvor hópurinn hinn um að svíkja "hugsjónir" og stefnu flokksins og ekki einu sinni samkomulag um hvort hópurinn sé raunverulega Vinstri grænir og hvor Villtir grænir.

Það eina sem við blasir er að félagar beggja fylkinga eru algerlega grænir í öllum málum sem gætu orðið þjóðinni til hagsbótar.  

Eigin hagur og pólitísk framtíð er hins vegar í algerum forgangi í villta vinstrinu og er þá átt við báða "hreinu og tæru" vinstri flokkana, eins og stjórnarflokkarnir nefna sig svo skemmtilega á hátíðar- og tyllidögum. 


mbl.is Ekki tímabært að stofna þingflokk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verða engin verkföll boðuð

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, er farinn að tala digurbarkalega vegna stöðunnar í kjaraviðræðunum við SA og gefur í skin að boðun verkfalla sé á næsta leiti. 

Samtök atvinnulífsins hanga hins vegar fast á kröfu sinni á hendur ríkisstjórninni um að lausn fáist á framtíðarstjórnun fiskveiða, þannig að sjávarútvegsfyrirtækin viti í hvernig umhverfi þeim verði ætlað að starfa í framtíðinni og verður ekki annað sagt, en að það sé réttmæt krafa enda ríkisstjórnin búin að vera að vandræðast með málið í tvö ár og meira en hálft ár síðan "sáttanefndin" skilaði niðurstöðu, sem engin sátt er um innan stjórnarflokkanna.

SA eru svona stíf á kröfu sinni vegna þess að forsvarsmenn samtakanna vita sem er, að félög innan ASÍ munu ekki boða til neinna verkfalla á næstunni, enda býður atvinnuástandið ekki upp á slíkar aðgerðir því þær myndu ganga af vel flestum fyrirtækjum dauðum, þ.e. öllum þeim sem einhverja möguleika eiga til framhaldslífs, væru aðstæður eðlilegar í efnahagskerfinu.

Líklega mun þrjóska Jóhönnu Sigurðardóttur og Jóns Bjarnasonar leiða til þess að kjaraviðræður verði í lausu lofti í einhverjar vikur ennþá. 


mbl.is Vísi deilu til sáttasemjara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neytendur svartsýnir, en eiga að bera uppi hagvöxtinn

Samkvæmt Gallup eykst svartsýni neytenda á að ástand efnahagsmálanna batni nokkuð á næstunni, reyndar hefur trú á slíka þróun verið á stöðuguri niðurleið undanfarna mánuði.

Nánast allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar lækkuðu og í fréttinni segir m.a:  "Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat landans á atvinnuástandinu en hún lækkaði um heil 13,3 stig milli mánaða og mælist nú aðeins 48,7 stig."

Samkvæmt hagspám ríkisstjórnarinnar, seðlabankans og ASÍ er gert ráð fyrir 2,3-2,8% hagvexti á árinu 2011 og á sá vöxtur að vera borinn uppi af aukinni einkaneyslu.  Á meðan fólk öðlast enga trú á því að atvinnuástandið batni og atvinnuleysi minnki, eru litlar líkur á því að neytendur auki eyðslu sína að nokkru ráði og reyndar líklegra að þeir dragi úr henni, enda hefur kaupmáttur farið stöðugt minnkandi og ríkisstjórn og seðlabanka mistekist að halda verðbólgunni innan takmarks seðlabankans, sem er að ársverðbólga verði ekki umfram 2,5%.

Stöðug lækkun Væntingavísitölunnar er í raun vantraust neytenda á ríkisstjórninni og til að breyting verði á, þarf ríkisstjórnin annað hvort að segja af sér eða hætta hatrammri baráttu sinni gegn hvers kyns uppbyggingu atvinnufyrirtækja, leysa sjárvarútveginn úr gíslingu og stuðla þannig að minnkun atvinnuleysis.

Þolinmæði almennings gagnvart ríkisstjórninni er þrotin, enda kjör hans orðin slík að ekki verður við unað lengur.

 


mbl.is Svartsýni neytenda eykst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkisstjórnin skapar ekki störf - heldur þvert á móti

Það er alveg hárrétt hjá Steingrími J., að hvorki hann né ríkisstjórnin hafa skapað nokkurt einasta starf í þjóðfélaginu, enda ekki í verkahring yfirvaldsins að skapa þau.

Það er hinsvegar hlutverk ríkisstjórnar á hverjum tíma að skapa atvinnulífinu lífvænlegan starfsgrundvöll, sem m.a. byggist á því að regluverkið sé ekki andsnúið atvinnuuppbyggingu og að skattabrjálæðinu sé haldið í skefjum, þannig að það verði ekki til þess að drepa niður alla nýja vaxtasprota, ásamt því að drepa niður þau fyrirtæki sem fyrir eru.

Steingrímur J. og ríkisstjórnin hafa barist með kjafti og klóm gegn öllum áformum um virkjanaframkvæmdir, sem eru alger grundvallarforsenda þess að hægt verði að byggja upp frekari stóriðju í landinu og beitt öllum brögðum til þess að eyðileggja uppbyggingaráform álvers í Helguvík, þar sem þó er búið að eyða milljörðum króna í undirbúningsframkvæmdir.

Einnig hefur ríkisstjórnin komið í veg fyrir alla fjárfestingu í sjávarútvegi og fiskvinnslu með gíslatöku sinni á þeim atvinnugreinum undanfarin rúm tvö ár, en engum dettur í hug að leggja út í endurnýjun atvinnutækja eða aðra uppbyggingu á meðan enginn veit hvað ríkisstjórnin ætlar sér með nýskipan fiskveiðistjórnunarinnar.

Ríkisstjórnin hefur ekki skapað neitt nýtt, hvorki á sviði atvinnumála eða á öðrum sviðum, sem til framfara gætu orðið.

Það er alveg rétt hjá Steingrími J., að stjórninni hefur hins vegar gengið vel að framlengja kreppuna langt umfram það sem annars hefði orðið og stuðlað að miklu meira atvinnuleysi en þolanlegt er.

Vonandi fellur ríkisstjórnin fljótlega, svo ný stjórn fái umboð til að taka á þeim málum sem núverandi stjórn ræður ekki við.

Sem reyndar eru nánast öll mál sem undir ríkisstjórn heyra.


mbl.is Ekki hlutverk ríkisins að skapa störf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fáránleg réttarhöld

Jórdanskur dómstóll hefur tekið fyrir kæru þarlendra blaðamanna og "aðgerðarsinna" gegn danska skopmyndateiknaranum Westergaard, sem teiknaði mynd af spámanninum Múhameð með sprengju í túrbaninum og birtist myndin í Jyllandsposten þann 30. september 2005.

Strax í kjölfar myndbirtingarinnar kváðu ögfafullir islamistar, með Komeni erkiklerk í Íran í broddi fyrirmynda, upp dauðadóm yfir Westergaard og hefur honum nokkrum sinnum verið sýnd banatiræði síðan.

Allir heilvita og hugsandi menn, þar á meðal hófsamir islamstrúarmenn, hafa fordæmt þessar ofsóknir á hendur teiknurunum sem teiknuðu þessar svokölluðu "Múhameðsteikningar", en höfundar þeirra hafa ekki getað um frjálst höfuð strokið í þetta fimm og hálfa ár sem liðið er síðan myndirnar birtust og einnig hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til að sprengja höfuðstöðvar Jyllandsposten í loft upp.

Það er algerlega fáránlegt að opinber dómstóll í nokkru heiðvirðu ríki skuli ætla sér að taka fyrir kæru á hendur Westergaard og blöðunum sem myndirnar birtu og minnir svona réttarfar á það sem tíðkaðist á vesturlöndum á miðöldum og gefur ekki fagra mynd af réttarfari þess ríkis, þar sem svona kærur fást teknar til dómsmeðferðar.

Ef Jórdanía er alvöru ríki, verður þessum kærum umsvifalaust vísað frá dómi. 


mbl.is Réttað yfir skopmyndateiknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti flokkurinn í leikstjórn Gauks Úlfarssonar

Í tilefni þess að verið er að frumsýna myndina um Jón Gnarr og Besta flokkinn vestanhafs, er ekki úr vegi að rifja upp kafla úr viðtali við handritshöfund, leikstjóra og framleiðanda Besta flokksins og myndarinnar, sem birt var í Mogganum þann 12. nóvember s.l., þegar myndin var frumsýnd hér á landi:

"Kvikmyndagerðarmaðurinn Gaukur Úlfarsson er höfundur heimildarmyndarinnar og hann var önnum kafinn í gær þegar blaðamaður ræddi við hann, enda stutt í forsýningu á myndinni í Sambíóinu nýja í Egilshöll. Gaukur segist hafa kynnst Jóni fyrir um hálfu öðru ári, þeir hafi verið að velta því fyrir sér að skrifa saman sjónvarpsþætti.

„Hann var alltaf með þessa Besta flokks pælingu í rassvasanum og mér fannst hún ekkert sérstaklega góð, var ekki alveg að tengja en svo eina nóttina, þegar ég gat ekki sofnað, kviknaði á einhverri peru í hausnum á mér og ég uppgötvaði að þetta gæti verið algjör snilld,“ segir Gaukur. Hann hafi byrjað að mynda Jón í byrjun desember í fyrra, þegar Jón var að reyna að finna sinn pólitíska karakter, eins og Gaukur orðar það, og hætt tökum eftir kosningasigurinn.

..........

– Nú áttir þú þátt í því að búa til persónuna Silvíu Nótt á sínum tíma. Er Jón Gnarr að einhverju leyti að leika persónu í þessari mynd eftir þínu höfði, ef svo mætti að orði komast?  Er hann að leika hlutverk?

Já, já, hann er að leika fullt af hlutverkum og ég var beggja vegna borðsins, ég var fjölmiðlafulltrúi flokksins og inni í skrípladeildinni líka, eins og við kölluðum það. Að því leytinu var ég með fullt af athugasemdum og hugmyndum sem við ræddum fram og til baka og oft áður en hann fór í stór viðtöl ræddum við afturábak og áfram hvernig við vildum gera það. En á endanum fór hann yfirleitt algjörlega eftir sínu innsæi.“

Talið berst að stefnu Besta flokksins.  Gaukur segir flokksmenn hafa sagt það margoft að þeir væru anarkistar og tekur því undir að stefna flokksins sé stjórnleysisstefna.

– Nú hlýtur að hafa verið rædd önnur og alvarlegri stefna á bakvið tjöldin, eða hvað? Það er varla hægt að stýra borg með anarkisma?

„Það er alveg merkilegt, það eru búnar að koma fréttir alls staðar, um allan heim, í stórum blöðum, stórfréttir um að anarkistar hafi unnið stórsigur í Reykjavík en það hefur aldrei verið rætt um það hérna. Það eru náttúrlega anarkistar við völd í Reykjavík.“

– Er nýju ljósi varpað á stefnu flokksins í þessari mynd?

„Já, já, fólk sem er kannski eitthvað ringlað yfir því hvað það kaus yfir sig eða hverjir eru að stjórna hérna, það mun alveg fá öllum þeim spurningum svarað."

Um þetta þarf ekki að hafa nein fleiri orð.  Af þessu viðtali sést að handritið að gríninu var skrifað af Jóni Gnarr og Gauki Úlfarssyni í sameiningu, leiksýningunni stjórnað af Gauki og kjósendur blekktir til að kjósa anarkista í felubúningum yfir sig.

Helmingur kjósenda flokksins hefur nú þegar séð villur síns vegar og samkvæmt síðustu skoðanakönnunum fengi Jón Gnarr og Besti flokkurinn aðeins 18% atkvæða, væri kosið nú.  

Þau 18% verða væntanlega horfin frá flokknum í næstu borgarstjórnarkosningum, sem þó verða því miður ekki fyrr en eftir þrjú ár. 


mbl.is Gnarr vekur mikla athygli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vík burt, Gnarr

Jón Gnarr, svonefndur borgarstjóri, grét og skældi á borgarstjórnarfundi í gær yfir því hvað allir væru vondir við sig og misskildu allt sem hann segði og gerði og hefðu þar að auki engan húmor fyrir bröndurunum sínum.

Í huga Gnarrins eru allir sem gagnrýna hann fyrir getuleysið í borgarstjórnastólnum eintóm húmorslaus illmenni, sem meira að segja skilja ekki brandara um að setja feitan kött i Húsdýragarðinn og misskilja svo annað sem frá þessum brandarakarli kemur.

Júlíus Vífill Ingvarsson sagði á fundinum að Jón Gnarr væri ekki starfi borgarstjóra vaxinn og því bæri honum að víkja úr embættinu. Langstærstur hluti Reykvíkinga deilir þessari skoðun með Júlíusi Vífli, meira að segja stór hluti þeirra sem kusu Besta flokkinn í kosningunum í fyrra, en hafa nú viðurkennt mistök sín og dauðsjá eftir atkvæði sínu í þetta misheppnaða grínframboð.

Sjái Jón Gnarr ekki sjálfur að hann hafi hreint ekki getu til að gegna borgarstjórastarfinu, er hann jafnvel dómgreindarlausari en ætla mætti og er þó ekki með miklu reiknað, miðað við frammistöðuna það sem af er stjórnmálaferlinum.


mbl.is Vill að borgarstjóri víki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband