Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
11.2.2011 | 16:05
Svandís reyndi kúganir til viðbótar öðrum lögbrotum
Enn eru að koma fram upplýsingar um staðfastan brotavilja Svandísar Svavarsdóttir, Umhverfisráðherra, gegn íbúum Flóahrepps vegna aðalskipulags hreppsins, sem Svandís neitaði ítrekað að samþykkja, þrátt fyrir algerlega skýra skyldu til þess samkvæmt skipulagslögum.
Nú hefur ráðuneytið sent frá sér tilkynningu vegna málsins, þar sem staðfest er að Svandís hafi reynt að beita sveitarstjórn Flóahrepps kúgunum, en í yfirlýsingu ráðuneytisins segir m.a: "Í ákvörðun umhverfisráðherra frá janúar 2010 um aðalskipulag Flóahrepps kom fram að synja bæri um staðfestingu á þeim hluta aðalskipulagsins sem varðaði Urriðafossvirkjun og kom fram í ákvörðun ráðherra að ráðuneytið myndi staðfesta aðra hluta skipulagsins þegar sveitarstjórn hefði sent skipulagsuppdrætti í samræmi við ákvörðun ráðherra."
Þessi játning lýsir algerlega ótrúlegum hroka ráðherrans og valdnýðslu, því fram kemur að Svandís hafi krafist nýrra skipulagsuppdrátta eftir SÍNUM vilja, en ekki vilja skipulagsyfirvalda hreppsins. Þessi yfirgangur Svandísar einn og sér ætti að duga til afsagnar hennar úr ráðherraembætti og segi hún ekki af sér þegar í stað, getur Jóhanna Sigurðardóttir ekki annað en vikið henni úr starfi.
Ráðherra sem með einbeittum brotavilja níðist á og reynir að kúga fámennar sveitarstjórnir með ósvífnum lögbrotum til að lúta geðþóttavilja sínum, getur ekki setið áfram í embætti.
Ekkert ríki á skilið að sitja uppi með slíka lögbrjóta í ráðherraembætti.
![]() |
Var tilbúin til að staðfesta skipulag án virkjunar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.2.2011 | 10:02
Svandís dýrkeyptari en Icesave
Forstjóri Landsvirkjunar hefur staðfest í fjölmiðlum að viðræðum við marga stóra erlenda fjárfesta hafi þurft að slá á frest, eða aflýsa alfarið, vegna þeirra tafa á virkjun í neðri Þjórsá sem staðfastur lögbrotavilji Svandísar Svavarsdóttur hefur haft.
Svandísi verður að víkja úr ríkisstjórn tafarlaust og byrja strax að undirbúa að stefna henni fyrir Landsdóm til að svara til saka vegna ítrekaðra lögbrota við að afgreiða skipulagstillögur Flóahrepps í andstöðu við ráðleggingar henni viturri manna og löghlýðnari.
Ríkisstjórnin hefur lengi reynt að ljúga því að þjóðinni að tafir á frágangi Icesave I, II og III hafi staðið í vegi fyrir erlendum fjárfestingum hér á landi og einnig orðið til þess að erlendar lánastofnanir haldi algerlega að sér höndum gagnvart íslenskum fyrirtækjum.
Marel, Össur og Landsvirkjun hafa reyndar þegar afsannað kenninguna um erlenda lánsfjármagnið og nú hefur forstjóri Landsvirkjunar einnig upplýst um áhuga erlendra fjárfesta, sem hefur þurft að hafna vegna lögbrota Svandísar.
Nú er sem sagt endanlega komið í ljós að Svandís Svavarsdóttir og félagar í VG eru dragbítarnir á atvinnuuppbyggingu í landinu, en alls ekki Icesave. Því þarf þjóðin að losa sig við hvort tveggja nú þegar, þ.e. VG og Icesave.
![]() |
Landsvirkjun í biðstöðu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.2.2011 | 05:44
Upp komast svik um síðir
Í tilraun til að blekkja þjóðina í sambandi við þrælasöluna til Breta og Hollendinga lét Steingrímur J. nýja Landsbankann (NBI hf.) gefa út skuldabréf í erlendum gjaldeyri til gamla Landsbankans, að upphæð 280 milljarða króna. Með þessum blekkingum á að telja fólki trú um að innheimtur gamla bankans verði betri, sem þessu nemur, og þar með þurfi íslenskir skattgreiðendur að þræla í mun skemmri tíma fyrir fjárkúgunarþjóðirnar, en ella hefði orðið.
Þar sem þessi upphæð var ekki í neinum takti við raunveruleikann er nú að koma í ljós, að nýji bankinn mun ekki geta greitt af þessu skuldabréfi á réttum tíma og alls ekki í erlendum gjaldeyri, eins og gert var ráð fyrir við útgáfu blekkingabréfsins.
Þannig eru þessi blekkingarviðskipti nú að koma í bakið á Steingrími J. og endar líklegast með því að hann verði að viðurkenna að raunverulegar endurheimtur í bú gamla Landsbankans verði miklu mun minni en hann hefur verið að reyna að blekkja þjóðina með undanfarið ár og að skattaþrælar Breta og Hollendinga verði að vera í ánauð þeirra a.m.k. einum áratug lengur en hann hefur sagt fram að þessu að þurfi.
Í þessu efni eins og öðru gildir gamla góða spakmælið: "Upp komast svik um síðir". Það ætti Steingrímur J. að hafa í huga í tilraunum sínum til blekkinga um upphæðina sem hann ætlast til að íslenskir skattaþrælar borgi.
Því miður trúa hinir ólíklegustu þingmenn vaðlinum úr Steingrími í þessu efni.
![]() |
Fær ekki nægan gjaldeyri |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2011 | 19:54
Svandís svífst einskis í hroka sínum
Svandís Svavarsdóttir, sem í dag fékk á sig dóm frá Hæstarétti um lögbrot og að hafa valdið Flóahreppi og Landsvirkjun milljarða tjóni, lætur sér ekki einu sinni detta í hug að segja af sér embætti, en heldur uppteknum hætti og reynir að ljúga sig út úr málinu með því að segja að lög hafi verið óljós og séu það jafnvel ennþá, þrátt fyrir endurskoðun þeirra síðastliðið haust.
Svandís reynir að halda því fram að úr því að í gömlu lögunum hafi ekki staðið skýrt og skorinort að aðrir en hreppurinn mættu greiða fyrir skipulagsvinnu, þá hljóti það að hafa verið bannað og með lagabreytingunni í haust ætlaði hún að lögfesta slíkt bann skilyrðislaust. Alþingi sá þó við því lymskubragði hennar og breytti frumvarpinu þannig að tekinn var sérstaklega skýrt fram, að öðrum en sveitarfélagi væri fullkomlega heimilt að koma að skipulagsvinnu vegna framkvæmda í viðkomandi sveitarfélagi.
Nú til dags er vinsælt að tala um nýtt Ísland með breyttum siðferðisviðhorfum, nýjum vinnubrögðum og opnara og réttlátara stjórnkerfi. Væri einhver alvara á bak við slíkar yfirlýsingar myndi Svandís segja af sér strax í kvöld og biðjast afsökunar á því tjóni sem hún hefur valdið þjóðfélaginu með lögbrotum sínum.
Það mun hún hins vegar ekki gera, heldur sitja sem fastast og ekkert minnka hrokann og yfirganginn gagnvart öllum sem til ráðuneytisins þurfa að leita.
![]() |
Mun staðfesta skipulagið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2011 | 16:50
Leikhús fáránleikans
Til málamynda var haldinn "samningafundur" í dag vegna verkfallsboðunar starfsmanna fiskimjölsverksmiðja í Karphúsinu og væntanlega hafa deiluaðilar fengið kaffibolla hjá sáttasemjaranum og jafnel pönnuköku eða vöfflu. Aldrei stóð til að gera eitt eða neitt annað en að þiggja þeggar veitingar, enda alls ekki í bígerð að semja við þessa verkfallsboðendur um nokkurn hlut.
Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri Afls á Austurlandi, sagði m.a. við mbl.is: "Verkfallið á að hefjast á þriðjudagskvöld og eins og staðan er í dag sé ekki hvað ætti að stoppa það. Yfirlýsingar talsamanna Samtaka atvinnulífsins gera þessa fundi alveg tilgangslausa. Það dynja á okkur yfirlýsingar hægri vinstri um að það eigi ekki að semja við okkur."
Það verður að teljast óskiljanlegt að þessari tilgangslausu vitleysu skuli haldið áfram, því allir vita að aldrei hefur staðið til að hækka laun þessara verkfallsmanna umfram aðra launþega og kauphækkanir munu ekki verða miklar, eins og atvinnuástandið í landinu er um þessar mundir, að ekki sé minnst á stöðu allra fyrirtækja landsins, annarra en útflutningsgreinanna, en þau eru að basla við að halda sér frá gjaldþroti og því ekki í stakk búin til að taka á sig nokkrar launahækkanir, sem heitið geta.
Leikritið um kjarasamningana verður þó sýnt eitthvað áfram og nú hafa flugumferðarstjórar bæst í hóp með bræðslumönnum og eru byrjaðir að undirbúa sitt verkfall, en í dag var tilkynnt að þeir myndu byrja með yfirvinnubann, afleysingabann og þjálfunarbann. Næst munu flugstjórar væntanlega blanda sér í baráttuna og svo læknar og aðrar stéttir, sem eru á viðunandi launum en eru hins vegar í aðstöðu til að skaða efnahagslífið stórkostlega.
Leikritið um kjarasamningana er löngu komið í flokk með öðrum sígildum leikverkum sem flokkuð hafa verið undir leikhús fáránleikans.
![]() |
Samningafundur í 15 mínútur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.2.2011 | 11:14
Leikritið um kjarasamninga í nýrri uppfærslu
Enn á ný er leikritið um kjarasamninga komið á fjalirirnar í Karphúsinu og þar leika fulltrúar verkalýðsins góðu gæjana með sanngjörnu kröfurnar, en fulltrúar atvinnurekenda eru í hlutverki vondu gæjanna, sem ekkert vilja fyrir starfsmenn sína gera og allra síst að hækka við þá launin.
Verkalýðsfélögin hafa nú gripið til þess ráðs að láta fámennan hóp bræðslumanna boða verkfall í miðri loðnuvertíð, rétt áður en hrognavinnsla kemst á fullan skrið, til þess að valda þjóðarbúinu sem mestum skaða á sem skemmstum tíma og á að heita að þetta sé gert til að knýja fram tuga prósenta hækkun kjarasamninga þessa hóps, þó allir viti að verið sé að gera tilraun til að setja viðmið fyrir aðra samninga, sem fylgja munu í kjölfarið.
Sum verkalýðsfélög vilja semja um miklu meiri kauphækkanir frá útflutningsatvinnuvegunum en öðrum, með tilvísun til þess að þessar greinar standi betur nú um stundir vegna gengishrunsins og er þetta nýtt útspil í kjaraviðræðum, þar sem hingað til hefur verið litið á það sem sjálfsagðan hlut að aðalkjarasamningar næðu til allra launamanna, en ekki einungis þeirra sem ynnu hjá "bestu" fyrirtækjunum. Í sjálfu sér má segja að ekki sé alsendis órökrétt að fyrirtæki borgi laun eftir getu hvers og eins þeirra, en verði slíkt ofaná í þessum kjaraviðræðum er það alger bylting í launastefnu verkalýðsfélagnanna frá því sem verið hefur frá því fyrir daga Guðmundar Jaka og hans félaga.
Í viðhangandi frétt kemur fram algerlega nýtt hugtak, sem aldrei hefur heyrst áður, en það kemur frá Gylfa Arnbjörnssyni, forseta ASÍ, en það hljóðar svo: "Það eru lagðar ákveðnar skyldur á herðar atvinnurekenda og stéttarfélaga um að gera kjarasamninga. Það er ekki hægt að neita því að gera kjarasamning á grundvelli pólitískra krafna. Þetta má ekki skv. stjórnarskrá vinnumarkaðarins."
Um þetta er það að segja, að verkalýðsfélögin hafa oft og iðulega beitt sér og styrk sínum í pólitískum tilgangi og jafnvel reynt að koma ríkisstjórnum frá völdum og nægir að nefna atlöguna að ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar í því sambandi. Lokasetning Gylfa um "stjórnarskrá vinnumarkaðarins" vekur upp spurningar um hvort allt annað sem hann lét frá sér fara um kjarasamningana sé líka grín og glens sem látið er falla í tilefni frumsýningar leikritsins um samningana.
Að hæfilegum tíma liðnum mun svo ríkisstjórnin setja lög um kjarasamninga og banna verkföll næstu þrjú ár.
Tjaldið fellur, leiksýningunni lýkur og lífið heldur áfram.
![]() |
Rætt um kjaramál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.2.2011 | 08:31
Íslensk þrælaþjóð
Mest allur gjaldeyrisforði þjóðarinnar er tekinn að láni hjá AGS og norðurlöndunum og samkvæmt frétt mbl.is mun ganga verulega á þann forða á næstu árum, þ.e. hann mun að miklu leyti fara í uppgjör á erlendum skuldum bankakerfisins og vaxtagreiðslur til Breskra og Hollenskra fjárkúgara vegna Icesave.
Í fréttinni segir m.a: "Að öllu óbreyttu mun ganga verulega á gjaldeyrisforða Seðlabanka Íslands á næstu árum. Segja má að gjaldeyrisútflæði vegna vaxtagreiðslna Icesave-samningsins muni gera erfiða stöðu illviðráðanlega." Stjórnmálamenn hafa ekki ennþá útskýrt hvernig þeir telji að samþykkt á Icesave III geti orðið til þess að bæta stöðu þjóðarbúsins og liðka til fyrir nýjum erlendum lánum, því varla mun nokkur óbrjáluð lánastofnun auka lán sín til þjóðar, sem viljandi leikur sér að því að gera erfiða stöðu sína illviðráðanlega.
Eina útgönguleiðin út úr þessu skuldafeni er að hafna algerlega Icesave III og ganga af krafti í að fjölga stóriðjuverum og annarri gjaldeyrisskapandi atvinnustarfsemi, því þjóðin mun að sjálfsögðu ekki losna af skuldaklafanum nema með aukinni vinnu og fyrst og fremst meiri gjaldeyrisöflun.
Með óbreyttri stjórnarstefnu verða Íslendingar skattaþrælar útlendinga næstu áratugina.
![]() |
Gengur verulega á gjaldeyrisforðann á árinu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.2.2011 | 13:53
Pólitískur rétttrúnaður á háu stigi
Í Þýskalandi liggur forstjóri Deutsche Bank undir harðri gagnrýni fyrir að láta þau almæltu sannindi út úr sér að fjölgun kvenna í stjórn bankans myndi auka fegurð og litadýrð í hópi stjórnendanna. Þetta liggur svo í augum uppi að í raun ætti að vera óþarfi að nefna það, en kvenfólkið er auðvitað fallegra kyn mannskepnunnar og klæðist að auki mun smekklegri og litaglaðari fötum en karlkynið.
Samkvæmt pólitískum rétttrúnaði má alls ekki benda á svona einfaldar staðreyndir, heldur á alltaf að láta eins og enginn mismunur sé á kynjunum og allra síst má tala um að konur séu fallegar, eingöngu má segja að þær séu gáfaðar, snjallar og standi körlunum snúning á öllum sviðum mannlegrar tilveru. Hins vegar má alls ekki segja um nokkra konu að hún sé ljót eða heimst, því þá er verið að gera lítið úr kvenkyni veraldarinnar í heild á svívirðilegan hátt, en þó kona segi eitthvað álíka um karlmann, þá er það bæði saklaust og einfaldlega verið að benda á staðreyndir.
Í annarri frétt kemur fram að skoskir vísindamenn hafi komist að því eftir ýtarlegar rannsóknir að konur séu blíðari en karlar og þó þetta hafi verið almælt tíðindi frá örófi alda, þá þykir virtum vísindamönnum samt ástæða til að leggja tíma, fé og fyrirhöfn í að rannsaka þetta til hlítar.
Í anda pólitísks rétttrúnaðar hljóta konur að rísa upp og mótmæla því að þær séu blíðari í sér en karlar. Viðurkenning á slíku jafngildir því að segja að kynin hugsi ekki nákvæmlega eins og að jafnvel gæti verið mismunur á hegðun þeirra og viðbrögðum við utanaðkomandi áreiti.
Gagnrýni á við þá sem forstjóri Deutsche Bank sætir nú, er auðvitað ekkert annað en hlægileg, en verst er að ekki hafa allir húmor til að sjá bjálfaganginn sem að baki býr.
![]() |
Fegurð ykist með konum í stjórn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.2.2011 | 09:02
Níðingsskapur í velferðarkerfinu
Svartasti bletturinn á velferðarkerfinu er níðingsskapurinn gagnvart þeim ellilífeyrisþegum sem þurfa að dveljast á hjúkrunarheimilum vegna lélegrar heilsu á ævikvöldinu, en þar er fólk látið greiða allt að 279.000 krónum á mánuði fyrir vistina.
Grundvöllur velferðarkerfisins er sagður vera sá, að allir eigi að vera jafnir gagnvart því og fjársterkir aðilar eigi ekki að geta keypt sér þjónustu umfram þá tekjulægri. Í tilfelli hjúkrunarheimilanna er þessu snúið á hvolf og jöfnuðurinn látinn koma fram í því að allir hafi jafn lága vasapeninga alveg sama hve duglegir þeir hafi verið að spara til elliáranna, til þess að geta leyft sér a.m.k. þann munað að hafa efni á því að gefa börnunum sínum, barnabörnum og barnabarnabörnum svolitlar jólagjafir, ásamt því að geta veitt sjálfum sér örlítinn óþarfa í ellinni.
Kristín H. Tryggvadóttir, 74 ára, sem unnið hefur alla sína starfsævi við þokkalegar tekjur, greitt allan tímann í lífeyrissjóð og jafnvel getað lagt einhverja aura til hliðar, til að njóta í ellinni þarf að búa við eftirfarandi afarkjör á hjúkrunarheimili, vegna rúmlega 400 þúsund króna eftirlauna sinna: "Kristín greiðir 120 þúsund krónur á mánuði í skatta, um 240 þúsund í dvalarkostnað til Hrafnistu og á síðan 65 þúsund krónur afgangs sem þurfa að duga fyrir öllum óþarfa eins og hún orðar það, t.d. síma, sjónvarpi, blöðum, hársnyrtingu, fótsnyrtingu, skóm og fatnaði, sælgæti og gjöfum, svo ekki sé minnst á gleraugu, heyrnartæki og tannlæknakostnað."
Eftir að hafa greitt háa skatta í áratugi og talið sig vera að búa sig vel undir ellina, þarf slíkt fólk að sæta hreinu ráni af hendi hins opinbera, loksins þegar koma á að því að njóta afraksturs erfiðisins.
Þá er ekki einu sinni hægt að leyfa fólki að njóta ánægjunnar af því að geta glatt afkomendur sína. Sá eini sem gleðst yfir þessari ráðdeild er fjármálaráðherra hvers tíma.
![]() |
Heldur eftir 65.000 krónum af lífeyrinum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
8.2.2011 | 17:59
Lélegir ökumenn
Ekki er hægt að segja að það komi á óvart, að við talningu lögreglunnar hafi komið í ljós að minnihluti ökumanna noti stefnuljós, því allir sem ekið hafa á Íslandi vita að í umferðinni þar ber sáralítið á nokkurri kunnáttu í einföldustu umferðarreglum.
Sárafáir virðast vita til hvers stefnuljósin eru og enn færri að í landinu sé hægri umferð, en í því felst að keyrt er að jafnaði á hægri akrein, þar sem fleiri akreinar eru en ein, og að þær sem til vinstri eru, séu til þess að taka fram úr þeim bílum sem hægar er ekið.
Hvergi erlendis þekkist að tekið sé fram úr öðrum bíl á hægri akrein, heldur eru flautur þeyttar ef einhver tréhestur er á ferðinni á vinstri akrein og fer hægar en umferðin á þeirri hægri. Í nágrannalöndum er það einnig undantekningarlítil regla að sé gefið stefnuljós og með því gefið í skyn að áhugi sé á að skipta um akrein, þá hægir önnur umferð á sér umsvifalaust og sá sem þarf að beygja getur gert það hindrunarlaust og án erfiðleika.
Hér á landi ríkir sama agaleysis í umferðinni og viðgengst á flestum öðrum sviðum, enda erum við Íslendingar kóngar allir sem einn og teljum að öðrum komi ekki mikið við hvað við gerum eða hvert við förum.
![]() |
Minnihluti notar stefnuljós |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)