Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2011
8.2.2011 | 12:02
Kennarar kunna ekki íslensku lengur
Íslenskukunnáttu hrakar mjög skart og er nú svo komið að yngri kynslóðir tala nánast ekki sama tungumál og talað var á Íslandi fyrir svona fimmtíuárum. Beygingar eru ekki rétt notaðar og alls kyns ambögur vaða uppi bæí í rit- og talmáli.
Eina skýringin sem getur verið á þessu hlýtur að vera sú, að kennarar tala ekki lengur almennilegt mál og geta því ekki haft það fyrir nemendum sínum og leiðrétt þá þegar þeir tala þessa "nýju" íslensku, sem ömurlegt er að hlusta á og ekki síður lesa.
Viðbótarskýring, ekki síðri, er að foreldrar unglinganna sem nú eru í skóla hafi ekki lært almennilega íslensku og íslenska málfræði þegar þeir voru í skóla og geti því ekki, frekar en kennararnir, leiðrétt börn sín og verið þeim fyrirmynd varðandi málnotkun.
Hildur Ýr Ísberg rannsakaði málvenju unglinga og segir í fréttinni m.a: ""Viðtengingarháttur er mjög flókinn og svo virðist sem málkerfið sé að reyna að einfalda sig. Sagnbeygingar, sérstaklega óreglulegra sagna, eru erfiðar viðfangs og þá virðast yngri málnotendur vera að einfalda beygingarnar, segir Hildur og nefnir þágufallssýki sem annað dæmi um þessa tilhneigingu tungumálsins."
Uppgjöfin gegn þessari hnignun tungumálsins kemur vel fram í þessari setningu fréttarinnar: "Hildur segir erfitt að berjast við svona þróun en mjög spennandi að fylgjast með henni." Ekki er von til þess að íslenskan haldi sérkennum sínum og blæbrigðum til lengdar, ef þetta er ríkjandi viðhorf þeirra sem helst ættu að berjast gegn þeirri hröðu hnignun tungunnar sem sífellt ágerist.
![]() |
Viðtengingarháttur á miklu undanhaldi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (21)
8.2.2011 | 07:46
Skattar vegna Icesave
Nú stefnir allt í að Icesave III verði samþykkt á Alþingi fljótlega og ekki liggur fyrir hvort skattgreiðendur fái að eiga síðasta orðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, um sína eigin sölu í skattaþrældóm fyrir Breta og Hollendinga til næstu áratuga.
Áður en þriðja og síðasta umræða um málið fer fram á Alþingi, en samkvæmt þingsköpum fer lítil umræða fram þá, heldur er aðallega um lokaatkvæðagreiðslu að ræða, þar sem umræðum um mál lýkur að mestu eða öllu leyti við umræðu númer tvö í þinginu, verður að upplýsa hvaða skattar verða hækkaðir eða fundnir upp til að hægt verði að borga fyrir þennan glæpsamlega rekstur Landsbankans.
Þrælar eru ekki réttháir allajafna, en í þessu tilfelli hljóta þeir að geta krafist þess að fá að sjá einhverja áætlun um hvaða skatta verða hækkaðir til að greiða fjárkúgunarkröfuna og hvort fyrir liggi áætlanir um nýja skatta, sem óhjákvæmilegt verður að leggja á til viðbótar til fjáröflunar fyrir erlendu kúgarana.
Varla getur verið að Alþingismenn ætli að samþykkja tuga eða hundraða milljarða skattaáþján á þjóðina í þágu erlendra ribbalda, án þess að fyrir liggi nákvæm áætlun um þær þrælabyrðar sem því munu fylgja.
![]() |
Allt að 2 milljónir á heimili |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.2.2011 | 22:35
Ógæfuleg verkfallsboðun
Í því atvinnuástandi sem ríkir í landinu, þar sem hátt í 15.000 manns ganga atvinnulausir, fyrir utan allt það fólk sem flutt hefur úr landi til að finna sér lifibrauð, er ótrúlegt að sjá að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja séu búnir að boða til verkfalls til þess að knýja á um tuga prósenta kauphækkun.
Það sem er áríðandi núna er að hækka laun hóflega, en vinna þess í stað að því að skapa störf fyrir þá sem enga vinnu hafa og þurfa að draga fram lífið á atvinnuleysisbótum, sem allir vita að eru ekki hærri en svo að þær rétt halda fólki yfir hungurmörkum og margir ná því ekki einu sinni.
Verkalýðshreyfingin virðist halda að það sé sniðug hernaðartækni að senda fámennan hóp í verkfall, vegna þess að hann geti valdið svo miklu tjóni í miðri loðnuvertíð, en það verður að teljast furðulegt, ef forystumenn verkalýðsfélaganna trúa því í alvöru sjálfir að samið verði við þennan hóp um miklar launahækkanir, sem hafi svo fordæmisgildi út um allt samfélagið.
Ekki er útlit fyrir annað en að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja verði í verkfalli allan þann tíma sem tekur að ganga frá kjarasamningum við allan vinnumarkaðinn og ekki munu þeir fá atvinnuleysisbætur í verkfallinu.
Verkalýðshreyfingin mun þurfa að halda þeim uppi á launum með verkfallssjóðum sínum og ekki er hægt að segja að það sé vel úthugsuð fjárfesting.
![]() |
Vinnustöðvun samþykkt í Eyjum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.2.2011 | 08:24
Brandarinn um aukið lýðræði
Steingrímur J. Sigfússon, VG, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, Samfylkingunni, segjast ekki styðja þjóðaratkvæði um Icesave III og Bjarni Benediktsson, Sjálfstæðisflokki, hefur ekki tekið endanlega afstöðu til slíks og ekki er vitað um afstöðu Sigmundar Davíðs, Framsóknarflokki, en Hreyfingin mun líklega vera hlynnt þjóðaratkvæði í þessu tilfelli.
Stjórnmálamenn hafa predikað undanfarin misseri að auka þurfi áhrif almennings á niðurstöðu einstakra mála og það verði best gert með því að vísa þeim til beinnar afgreiðslu kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslum. Þegar kemur síðan að stórmálum, sem full ástæða væri til að láta kjósendur ákveða sjálfa, þá heykjast stjórnmálamennirnir alltaf á þessu aukna lýðræði og telja að "sum mál" séu þess eðlis að ekki sé hægt að vísa þeim til þjóðarinnar til ákvörðunar.
Stjórnmálamenn vilja sem sagt ekki aukið lýðræði, nema í ræðum á hátíðar- og tyllidögum. Fólk skyldi ekki klappa fyrir slíkum yfirlýsingum framar, hleldur hlæja dátt og innilega, enda eru slíkir frasar hugsaðir áheyrendum til skemmtunar en ekki til að taka alvarlega.
Brandarinn er hins vegar strax orðinn svolítið þreyttur og hressist ekkert eftir því sem hann er sagður oftar.
![]() |
Forystufólk í stjórnarflokkunum vill ekki þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
5.2.2011 | 08:26
Icesaveskattar
Nýlega ræddi Ögmundur Jónasson, Innanríkisráðherra, þær hugmyndir sínar að setja á fót atvinnubótavinnu við vegagerð, þ.e. að setja aukalega sex milljarða króna til flýtiframkvæmda við ýmsa vegi, t.d. Suðurlandsveg og Vesturlandsveg að Hvalfjarðargöngum. Sá böggull átti þó að fylgja skammrifi að ríkissjóður átti alls enga peninga til að leggja í þessar framkvæmdir og því tilkynnti Ögmundur að leggja þyrfti nýja skatta á bifreiðaeigendur til að standa undir framkvæmdunum.
Eftir að 45 þúsund manns hafði skrifað undir mótmæli við þessari nýju og auknu skattheimtu á aðeins einni viku, tilkynnti Ögmundur með þjósti að ef almenningur væri ekki tilbúinn til að taka á sig þessa nýju skatta, þá yrði ekkert úr þessum viðbótarframkvæmdum, enda ríkissjóður algerlega peningalaus og gæti ekki séð af einni krónu í verkefnið og hvað þá sex milljörðum.
Nú virðist Alþingi ætla að samþykkja að geiða nýjar ólögvarðar skuldbindingar að upphæð 55-60 milljarða króna a.m.k., ásamt ábyrgð á nokkur hundruð milljörðum til viðbótar sem gætu fallið á íslenska skattgreiðendur ef allt fer á verst veg. Miðað við það frumvarp sem stendur til að samþykkja verður viðbótarskattlagning á Íslendinga þó aldrei lægri en sem nemur þessum 50-60 milljörðum króna, sem borga skal á næstu sex árum.
Enginn Alþingismaður og hvað þá ráðherra hefur útskýrt fyrir greiðendunum, þ.e. skattgreiðendum, hvaða skatta á að leggja á í þessu skyni eða hverjir af eldri sköttunum verða hækkaðir til að standa undir þessum gríðarlegu viðbótarútgjöldum á næstu sex árum.
Engin útgjöld má samþykkja úr ríkissjóði nema gera grein fyrir tekjunum sem afla þarf til að standa undir þeim. Ríkisstjórnin og þeir stjórnmálamenn sem ætla að samþykkja skattaþrældóminn vegna Icesave skulda þeim sem ætlast er til að þræli fyrir þessu, upplýsingar um þær skattahækkanir sem framundan eru vegna Icesave.
Steingrímur sagði um daginn í framíkalli í þinginu að lægra þrep virðisaukaskattsins (matarskattsins) væri eini skatturinn sem ekki hefði verið hækkaður í tíð núverandi ríkisstjórnar, en margir nýjir hafa einnig bæst við. Sennilega dygði ekki að tvöfalda matarskattinn til að standa undir greiðslu fjákúgurnarkröfunnar frá Bretum, Hollendingum og ESB.
Munu Íslendingar þurfa hugsa um Breta, Hollendinga, ESB og íslenska Alþingismenn með hryllingi í hvert sinn sem þeir stinga upp í sig matarbita í framtíðinni.
![]() |
Vilja þjóðaratkvæði |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2011 | 13:47
Icesave og samviskan
Rísisstjórnin hefur klúðrað því í tvígang að koma í gildi samningi við Breta og Hollendinga um að gera Íslendinga að skattaþrælum þessara þjóða til næstu áratuga og nú skal reynt í þriðja sinn. Sjálfstæðismenn á Alþingi hafa fram að þessu staðið í lappirnar gegn þessum áformum, enda með afdráttarlausa samþykkt Landsfundar flokksins í farteskinu gegn slíkri þrælasölu.
Við aðra umræðu um Icesave III greiddu níu þingmenn Sjálfstæðisflokksins atkvæði með samþykkt þrælalanganna og hafa með því valdið gífurlegri úlfúð meðal flokksmanna, sem reiknuðu með því að farið yrði að eindreginni samþykkt Landsfundarins, sem endurspeglar sterkar skoðanir flestra Sjálfstæðismanna í málinu.
Þingmennirnir eru harðlega gagnrýndir í leiðara Morgunblaðsins í dag, en þar segir m.a: "Á almanna vitorði er að þingflokkur sjálfstæðismanna er enn án sjálfstrausts og ekki til stórræðanna. Það er þó óþarfi. Þeir eru í stjórnarandstöðu gagnvart einni verstu stjórn sem í landinu hefur setið. Stjórn sem klúðrar öllu. Eftir hvert klúður gerir forsætisráðherrann hróp að Sjálfstæðisflokknum, hrakyrðir hann og uppnefnir. Þegar ofsinn rjátlast af þá kallar sami ráðherra á forystumenn Sjálfstæðisflokksins í sín hús til að láta þá gera fyrir sig viðvik. Og alltaf mæta þeir trítlandi. Hvers vegna? Hvað er eiginlega að?"
Þarna er tekið nokkuð djúpt í árinni, en þó er ekki að undra að svo sé gert því mikill hiti er í flokksmönnum vegna þessarar fjárkúgunarkröfu, sem enga stoð á í lögum eða reglugerðum, hvorki íslenskum eða evrópskum. Þingmenn bera jafnan fyrir sig að þeim beri skylda til að láta samvisku sína ráða við atkvæðagreiðslur í þinginu og er ekkert nema gott um það að segja að þeir geri það.
Gangi það sem samviskan segir þeim hinsvegar algerlega gegn samþykktum æðsta stjórnvalds flokks þeirra og þvert gegn samvisku mikils meirihluta þeirra kjósenda sem veitt hafa þeim brautargengi, verða þeir einfaldlega að sitja hjá við atkvæðagreiðslu frekar en að veita slíku máli framgang. Málið snýst í sjálfu sér heldur ekki um samvisku þingmanna, heldur tilraun til að þvinga íslendinga til að samþykkja ólögvarðar kröfur útlendinga og þingmönnum þjóðarinnar ber skylda til að verjast öllum árásum á landið og hagsmuni þess, lagalega sem og fjárhagslega.
Samviska einstakra þingmanna er varla svo miklu merkilegri en samviska meirihluta kjósenda þeirra.
![]() |
Sjálfstæðisflokkurinn gagnrýndur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
3.2.2011 | 20:53
Tvímælalaust leiðinlegasti sjónvarpsþátturinn
Stöð 2 sýndi í kvöld þriðja þáttinn af "Tvímælalaust", samtalsþætti Tvíhöfðafélaganna Sigurjóns Kjartanssonar og Jóns Gnarr og ekki upplýstist nú, fekar en í fyrri skiptin tvö, hver tilgangur þáttarins er eða fyrir hverja hann er hugsaður.
Í augnablikinu kemur ekki neinn sjónvarpsþáttur upp í hugann sem slær þessum út í leiðindum, enda virðist öll áhersla vera á að reyna að sýna hve fyndinn og sniðugur Jón Gnarr er, en þar sem ekki er stuðst við nákvæmlega fyrirfram skrifað handrit, tekst honum afar illa upp, en segja má að Sigurjón sé þó skömminni skárri, ef einhver mismunur er.
Mörgum þótti þátturinn "Hringekjan" sem sýndur var á RÚV fyrir áramót vera lélegur, en í samanburði við "Tvímælalaust" ber "Hringekjan" þó af eins og gull af eiri.
Vonandi verður ekki langt framhald á sýningum þessa ömurlega þáttar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
3.2.2011 | 18:08
Frábær andstaða við innlimun Íslands í ESB
Þau frábæru tíðindi berast nú frá Bretlandi að Tom Greatrex, þingmaður breska Verkamannaflokksins hafi nú tekið upp baráttu gegn viðræðum ESB við Íslendinga um innlimun þeirra í væntanlegt stórríki Evrópu.
Þetta er afar vel þeginn stuðningur í baráttunni gegn því að gera Ísland að áhrifalausum afdalahreppi í stórríkinu væntanlega og kemur þessi nýjasti bandamaður Íslendinga úr nokkuð óvæntri átt, þar sem hann er búsettur í einu af áfrifalénum hins væntanlega alríkis Evrópu.
Í fréttinni kemur m.a. þetta fram um þennan frábæra stuðning við baráttu sannra Íslendinga gegn hugsanlegri innlimun: ""ESB verður að setja þetta mál í forgang, sagði Greatrex og taldi að eina leiðin til að fá Íslendinga til að taka mark á mótmælum við makrílveiðum sé að ESB stöðvi aðildarviðræðurnar. Hann sagði að það yrði beinlínis rangt að veita Íslandi aðgang að ESB á sama tíma og það hafi vísvitandi hunsað reglugerðir sambandsins um makrílkvóta og skaðað hagsmuni núverandi aðildarríkja."
Allur stuðningur erlendra áhrifamanna og annarra í baráttunni gegn innlimun landsins í þetta væntanlega stórríki er afar vel þegin og vonandi bætast sem flestir í þann hóp.
![]() |
Krefst frestunar aðildarviðræðna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
3.2.2011 | 14:00
Þingmenn, samviskan og kjósendur
Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, segir í grein á vefsíðu Evrópuvaktarinnar að það séu stórkostleg pólitísk mistök af hálfu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Fjárlaganefnd Alþingis að hafa samþykkt stuðning við Icesave III, með fulltingi formanns og varaformanns flokksins og vafalaust meirihluta þingflokksins. Styrmir er þar með orðinn einn geysimargra Sjálfstæðismanna sem mótmælt hafa þessari afgreiðslu þingmannanna.
Styrmir segir m.a: "Þeir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem vilja styðja hið nýja Icesave-samkomulag eru að sjálfsögðu frjálsir af því. Þeir geta fylgt sannfæringu sinni eftir með því að berjast fyrir því í þjóðaratkvæðagreiðslu að það verði samþykkt. Svo eiga þeir það við flokkssystkini sín og stuðningsmenn, hvort þeir fá áframhaldandi traust til þess að sitja á Alþingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins en það er annað mál."
Hægt er að taka undir hvert orð í þessari málsgrein og þá skoðun að málinu hafi verið vísað til þjóðarinnar til afgreiðslu og það eigi að vera hún, sem segi um það síðasta orðið. Verði samningurinn samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu er auðvitað ekkert hægt að agnúast út í það, heldur takast á við skattaþrældóminn sem því myndi fylgja, en hafni þjóðin samningnum aftur í slíkri atkvæðagreiðslu, verður að vera hægt að ætlast til að það verði lokaafgreiðsla og ekki verði reynt að þröngva neinum samningi í þessa veru upp á skattgreiðendur í fjórða sinn.
Úrsögn úr Sjálfstæðisflokknum er ekki rétta svarið að sinni til að mótmæla gerðum þingmanna flokksins, heldur bíða og sjá til hver endanleg niðurstaða málsins verður. Eins og Styrmir bendir á þá verða þeir þingmenn, sem greiða atkvæði með tillögunni að sjá til hvort þeir fá áframhaldandi traust til þess að sitja á Alþingi fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.
Styrmir bendir líka á, að þingmennirnir gætu hugsanlega bjargað þingsætum sínum með því að leggja sjálfir fram tillögu um að vísa málinu í þjóðaratkvæagreiðslu.
Það væri betra fyrir þá og kjósendur þeirra, en að treysta á þann umdeilda forseta, Ólaf Ragnar Grímsson.
![]() |
Meiriháttar pólitísk mistök |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2011 | 23:28
Sigmundur Ernir rýrir álit manna á sjálfum sér
Sigmundur Ernir, þigmaður Samfylkingarinnar, leyfir sér að ráðast með offorsi og svívirðingum á einn helsta útgerðarmann þjóðarinnar vegna kvótamálanna, en væri nær að ræða á viturlegum nótum um fiskveiðistjórnunarkerfið, en frá honum hefur ekki sést margt í þeim dúr fram að þessu.
Hann ætti t.d. að útskýra fyrir almenningi hvernig svokölluð fyrningarleið Samfylkingarinnar á að virka, en einn helsti talsmaður flokksins í þessum málum, Ólína Þorvarðardóttir, sagði í útvarpsviðtali að sú leið þýddi alls ekki að taka ætti neitt af neinum, heldur ætti bara að taka 5% af kvótanum af hverju skipi árlega og úthluta honum svo aftur til sama skips, þannig að enginn myndi tapa neinum aflaheimildum vegna þessa. Það sem myndi hins vegar græðast væri að ríkið gæti látið útgerðina borga miklu hærra auðlindagjald við endurúthlutunina.
Að efna til stórstyrjaldar við helsta atvinnuveg þjóðarinnar og í raun þann mikilvægasta, með svona dellutillögur að vopni er gjörsamlega óskiljanlegt og ekki stjórnmálaflokki sem vill láta taka sig alvarlega sæmandi.
Sigmundur Ernir eykur ekki álit sitt meðal manna, með svona framkomu.
![]() |
Gagnrýnir þingmann |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)