Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
27.6.2010 | 10:37
Margir munu verða fyrir vonbrigðum vegna "gengislána"
Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, virðist vera orðinn margsaga um gengistryggðu lánin, því stundum telur hann þau mikla búbót fyrir skuldara, annan daginn segir hann lánastofnanirnar muni fara á hausinn, þann þriðja að við millifærslu lánanna til nýju bankanna hafi verið gert ráð fyrir að þau yrðu dæmd ólögleg, en áður hafði hann sagt að þau hefðu verið færð á milli á fullu verði, enda gengistryggingin þá verið talin fullkomlega lögleg.
Á Alþingi fyrir nokkrum dögum datt það upp úr honum, að reiknað hefði verið með að gengistryggingin yrði dæmd ólögleg, en í stað samningsvaxtanna kæmu vextir seðlabankans. Umfjöllun um þetta má sjá hérna
Annað mál er svo það, að nánast allir sem tóku bílalán, sem tengdust erlendum gjaldmiðlum, telja að þeir muni fá sín lán færð í íslenskar krónur og þau verði uppreiknuð frá útgáfudegi með samningsvöxtunum, en það á þó alls ekki við um öll þessi "gengislán", því orðalag þeirra er mismunandi og hver og einn verður að skoða og rýna vel í orðalag og frágang upphaflega lánaskjalsins.
Sum þeirra, þ.e. þau sem dómur Hæstaréttar nær til, eru þannig frágengin, að höfuðstóll skuldarinnar er tilgreindur í íslenskum krónum, en tekið fram að hann sé verðtryggður með hliðsjón af gengi ákveðinna erlendra gjaldmiðla eða myntkörfu. Slík gengistrygging var dæmd ólögleg, en sá dómur á ekki við um aðrar útgáfur þessara lána.
Nokkrar útgáfur eru af þessum lánum og í sumum þeirra er höfuðstóllinn skýrt fram settur í erlendum gjaldmiðlum, eða myntkörfu og slík lán virðast standast lög og þau munu því ekkert lækka við dóm Hæstaréttar og því munu margir, sem nú telja sig í góðum málum vegna lána sinna, verða fyrir miklum vonbrigðum, þegar hið sanna kemur í ljós.
Vegna þessa þurfa allir skuldarar að finna til upphaflegt skuldabréf og láta lögfróða menn skera úr um túlkun á lögmæti höfuðstóls þess og tengingar hans við erlenda gjaldmiðla.
Afsláttur af eignum dugar ekki til | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
26.6.2010 | 21:53
Engin sundrung á landsfundi vegna ESB
Tillagan um að afturkalla umsóknina um innlimunina í ESB og að staða Íslands í framtíðinni skyldi vera utan stórríkis Evrópu, skapaði enga sundrung á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, eins og Baugsmiðlarnir Stöð2 og Fréttablaðið hafa verið að reyna að kynda undir síðustu daga, ásamt nokkrum leigupennum Baugsmanna á bloggsíðum.
Þvert á móti þjappaði hún flokksmönnum saman um þessa eindregnu afstöðu og þó 30-40 landsfundarfulltrúa hafi greitt atkvæði gegn tillögunni, þá er það ekki stórt hlutfall á 1000 manna fundi. Jafnvel þó reynt sé að gera mikið úr því að einhverjir þeirra hafi gengið af fundi eftir samþykktina, þá eru þetta svo fáir aðilar, að ekki er ástæða til að kippa sér upp við það.
Fari svo að einhverjir einstaklingar segi sig úr flokknum vegna þessa, er öruggt að margfalt fleiri munu ganga til liðs við hann, eftir að svo afgerandi hefur verið skerpt á stefnu hans í utanríkismálunum.
Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram standa undir nafni, sem traustasta vígi lýðræðislegrar umræðu og sjálfstæðis lands og þjóðar.
Óþarfi að sundra flokksmönnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
26.6.2010 | 19:32
Afgerandi forysta í utanríkismálum
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins var enn á ný áréttuð sú eindregna afstaða Sjálfstæðismanna, að Ísland skuli áfram vera utan ESB og hnykkt á því alveg sérstaklega, með því að samþykkja að umsókn Samfylkingarinnar um innlimun landsins í stórríkið verði tafarlaust dregin til baka.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur allan lýðveldistímann haft forystu um mótun utanríkisstefnu þjóðarinnar og samskipti hennar við aðrar þjóðir, þjóðasamtök og alþjóðastofnanir og með þessari afgerandi samþykkt landsfundarins, er þeirri forystu um mótun framtíðarsamskipta við aðrar þjóðir haldið og þeirri stefnu Samfylkingarinnar, að einangra landið innan ESB og þar með takmarka samskiptin við þjóðir utan þess algerlega hafnað.
Íslendingar vilja og þurfa að eiga samskipti og viðskipti við þjóðir í austri og vestri og þjóðinni hagstæðast að ráða sjálf samskiptum sínum og samningum við þjóðir heimsins, án afskipta og stjórnunar frá Brussel. Ekki síður er hagsmunum þjóðarinnar best borgið með skýlausum og takmarkalausum yfirráðum hennar sjálfrar á auðlindum sínum og eigin stjórn á aðgangi að norðuslóðum.
Samfylkingin reynir að koma því inn hjá þjóðinni, að það sé einangrunarstefna að vilja standa utan ESB, en það eru alger öfugmæli, því með innlimum í stórríkið einangrast þjóðin frá beinum samskiptum við þjóðir utan þess, þar sem öllum milliríkjaviðskiptum yrði stjórnað frá Brussel.
Samþykkt landsfundarins styrkir hina endalausu baráttu fyrir algeru sjálfstæði og fullveldi landsins.
Vilja draga umsókn til baka | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (15)
26.6.2010 | 12:49
Stuðningsmenn Jóns (G)narr horfnir?
Frá því að "Besti" flokkurinn komst til valda í borgarstjórn með sex borgarfulltrúa úr eigin röðum og fjóra að láni frá Samfylkingunni, hefur varla heyrst frá kjósendum flokksins og lítur einna helst út fyrir að þeir séu strax farnir að sjá eftir þátttöku sinni í gríninu.
Fyrir kosningar mátti ekki láta eitt einasta gagnrýnisorð falla um Jón (G)narr eða stjórnleysingjaflokk hans, án þess að tugir athugasemda kæmu frá "stuðningsmönnum" framboðsins og ekki síður svívirðingar og skítkast um þann sem dirfðist að gagnrýna þetta leikhús fáránleikans, sem bauð fram eftir fyrirframskrifuðu handriti, enda gat t.d. Jón sjálfur aldrei svarað einni einustu spurningu um borgarmál, sem til hans var beint óundirbúnum.
Eftir að hann varð borgarstjóri hefur enn betur komið í ljós hversu gjörsamlega hann er laus við minnsta skilningi á þeim málefnum sem borgarstjórnarmálin snúast um, að ekki sé talað um það sem að fyrirtækjum og stofnunum borgarinnar snýr.
Steininn tók þó úr þegar stjórnandi vörslusviptinga og eignasölu hjá einu alræmdasta lánafyrirtæki landsins, Lýsingu, var ráðinn í fullt starf, með milljón á mánuði, í stöðu stjórnarformanns OR. Hvernig gríðarleg harka við innheimtu ólöglegra gengislána mun nýtast í starfi stjórnarformanns OR er hulin ráðgáta, enda hefur ekki verið reynt að útskýra það mál fyrir Reykvíkingum.
Nú bregður svo við, að þegar bloggað er um þetta ótrúlega, spillingarlyktandi útspil Jóns (G)narrs, þá virðast kjósendur hans vera gufaðir upp og enginn þeirra gerir minnstu tilraun til að réttlæta meistara sinn og átrúnaðargoð.
Þetta sanna t.d. þær bloggfærslur, sem má sjá hérna
Ekkert nýtt stjórnmálaafl, sem fram hefur komið á Íslandi, hefur tekist að rýja sjálft sig öllu trausti á jafn skömmum tíma og "Besti" flokkurinn.
The New York Times skrifar um Jón Gnarr | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
26.6.2010 | 11:40
Gagslaust Fjármálaeftirlit
Upplýst hefur verið að Fjármálaeftirlitið kannaði aldrei útlán fjármálastofnana vegna gengistryggðra lána, frá því að lögin sem bannaði gengistrygginguna voru sett og þangað til dómur Hæstaréttar féll, níu árum eftir setningu laganna. Skýringin á þessu eftirlitsleysi er orðuð svo í tengdri frétt:
"Ónógar fjárveitingar, viðhorf þess tíma til afskipta stjórnvalda af viðskiptalífinu og skortur á forgangsröðun og áræði urðu til þess að eftirlitið náði ekki markmiði sínu. Óskýr mörk milli verksviða eftirlitsstofnana bættu heldur ekki úr skák.
Í raun treysti Fjármálaeftirlitið lögfræðingum bankanna, á sínum tíma, til þess að meta lögmæti gengistryggingarinnar án nokkurrar sjálfstæðrar skoðunar."
Getur það verið skýringin á öllu því rugli og lögbrotum, sem viðgengust í bankakerfinu árum saman, að Fjármálaeftirlitið treysti lögfræðingum bankanna, án sokkurrar sjálfstæðrar skoðunar á verkum þeirra og annarra bankamanna? Ef skortur á áræði Fjármálaeftirlitsins varð til þess, að eftirlitsskyldu var ekki sinnt, er þá nema von að lögbrotin hafi gengið eins lengi og raun varð á?
Það er stórmerkilegt að lesa þá skýringu á aðgerðarleysi eftirlitsstofnana, að þær hafi skort áræði og traustið á þeim, sem hafa átti eftirlit með, hafi verið svo mikið, að ástæðulaust hafi verið talið að líta á verk þeirra.
Skyldu vera fleiri eftirlitsstofnanir sem skortir áræði til að sinna skyldum sínum? Vonandi hrjáir það ekki löggæsluyfirvöld landsins og glæparannsóknardeildir. Dómstólarnir hafa sannað að þá skortir ekki áræði til að dæma eftir lögum landsins, þó það komi illa við eftirlitslausu fjármálastofnanirnar.
Hins vegar sjá allir afleiðingarnar af skorti núverandi ríkisstjórnar á áræði við stjórnun landsins.
FME skoðaði aldrei gengislánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2010 | 22:11
Ekkert hefur tekist ennþá
Á flokksráðsfundi VG í kvöld, sagði Steingrímur J. fundarmönnum frá framtíðardraumum sínum, enda hafði hann ekki frá öðru að segja en því, sem hann vonast til að afreka einhvern tíma seinna.
Helsti boðskapur hans til fundarins var eftirfarandi: "Steingrímur kvaðst þá eiga þá draumsýn að geta í framtíðinni hugsað til baka og sagt Já það tókst og það vorum við sem gerðum það."
Áður en þessi spaklegu orð féllu hafði hann þó gortað sig af því að atvinnuleysi hefði minnkað, en gleymdi að geta þess að tíu þúsund manns hafi flúið atvinnuleysið og flutt erlendis. Það er árangur út af fyrir sig, sérstaklega hjá flokki, sem berst gegn hverju einasta atvinnutækifæri sem möguleiki væri á.
Vinir Steingríms í Englandi myndu hvetja hann áfram með því að segja: "Keep dreaming, pal."
Já það tókst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2010 | 17:30
Bjarni tekur réttan pól í hæðina
Bjarni Benediktsson tók algerlega réttan pól í hæðina í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins, þegar hann sagði að réttast væri að draga ESBumsóknina til baka og síðan mætti endurmeta stöðuna að nokkrum árum liðnum. Líklegasta niðurstaðan verður þá, eins og nú, að hagsmunum Íslands verði best borgið utan við stórríkið.
Eftirfarandi orð Bjarna eru afar skynsamleg, en þau lét hann falla vegna þess áróðurs, að flokkurinn væri að fylgja einangrunarstefnu í alþjóðmálum: "Forysta felst miklu fremur í staðfastri afstöðu sem stenst dóm tímans og baráttu fyrir því að Ísland skipi sér á hverri tíð þar í sess meðal þjóða sem skapar landsmönnum mesta farsæld.
Afstaða Sjálfstæðisflokksins á því ekkert skylt við einangrunarhyggju eða þjóðrembu. Hún byggir á raunsæu mati á því hvað þjónar hagsmunum Íslendinga best til langs tíma."
Vonandi mun fundurinn samþykkja harðorða yfirlýsingu um að aðildarumsóknin verði dregin til baka og að Ísland verði utan ESB um ókomna tíð.
Líki ekki einhverjum ESBsinnum slík ályktun, verða þeir að finna sér annan vettvang til að vinna skoðunum sínum framgang.
Þær eiga ekki heima innan Sjálfstæðisflokksins.
Leggja aðildarumsókn til hliðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.6.2010 | 16:08
Ráherrarnir vissu um lögleysu lánastofnananna
Í gær missti Gylfi Magnússon það út úr sér, að þegar gengistryggðu lánin hefðu verið flutt úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, hefði verið reiknað með að gengistryggingin yrði dæmd ólögleg, en hins vegar hefði alltaf verið reiknað með að vextir Seðlabankans kæmu þá í staðinn fyrir samningsvextina. Á þessu bloggi var því velt upp, að þessi yfirlýsing hans væri stórfrétt, sem fréttamenn hlytu að kafa nánar ofan í og krefjast nánari skýringa á ummælunum. Það blogg má sjá hérna
Í dag tók Gylfi enn sterkar til orða í viðtali við fréttamenn, en ekki höfðu þeir samt rænu á að krefja hann um nánari skýringu á þessu máli, né hvers vegna harkan í innheimtu þessara ólöglegu lána var slík alveg fram að dómi Hæstaréttar. Hvers vegna hafa ráðherrarnir aftekið allan þennan tíma, að hægt væri að leiðrétta höfuðstól þessara lána, fyrst þeir vissu að gengistryggingin væri ólögleg? Fréttamenn, sem vilja vera starfi sínu vaxnir verða að ganga hart eftir skýringum á þessu.
Gylfi bætti um betur í dag og sagði algerlega fráleitt, að samningsvextir yrðu látnir gilda á þessum lánum, heldur ætti að miða við vexti Seðlabankans af óverðtryggðum lánum, enda hefði alltaf verið reiknað með að þeir kæmu í stað samningsvaxtanna. Undir þetta hefur Steingrímur J. tekið, þannig að gera verður ráð fyrir að þetta sé orðin einhverskonar ákvörðun ríkisstjórnarinnar.
Líklega verður gefin út tilkynning um helgina, eða a.m.k. fyrir mánaðamót, að lánin verði endurreiknuð með vöxtum Seðlabankans og ef menn sætti sig ekki við það, þá verði þeir að stefna upp á nýtt.
Verði þetta niðurstaðan, án nýs dóms Hæstaréttar, verður mikið fjör í þjóðfélaginu í kjölfarið.
Engin bráðahætta á ferðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.6.2010 | 11:51
Er Byr að reyna að blekkja vegna húsnæðislána?
Byr hefur sent skuldurum húsnæðislána óbreytta greiðsluseðla fyrir næstu áramót, með þeirri skýringu, að bankinn hafi aðeins lánað erlend húsnæðislán og því sé einhver óvissa ríkjandi um hvernig eigi að meðhöndla lán bankans.
Ein setning í yfirlýsingu Byrs vegna málsins vekur sérstaka athygli, en hún er svona: Meginskýringin er sú að við höfum aldrei boðið upp á bílalán í erlendri mynt, ef við hefðum verið að veita slík lán þá hefðum við auðvitað brugðist við eins og önnur fyrirtæki."
Dómur Hæstaréttar snerist alls ekki um bílalán í erlendri mynt, heldur lán í íslenskum krónum, með gengistryggingu miðaða við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Það er algerlega ósambærilegt, að hafa veitt lán í íslenskum krónum, með gengistryggingu, eða hafa veitt lán með höfuðstól í erlendri mynt, eða myntum. Íslensku lánin með gengistryggingunni voru af Hæstarétti úrskurðuð sem lán í íslenskri mynt og skyldi meðhöndla þau sem slík, enda gengistryggingin ólögmæt.
Fram að þessu hefur hins vegar verið talið fullkomlega löglegt að veita lán í erlendum gjaldmiðlum, en þá þarf líka höfuðstólinn og afborganirnar að vera tilgreindar í erlenda gjaldmiðlinum og því getur Byr á engan hátt borðið þessar lánategundir saman, eða sett þær undir sama hatt.
Hafi íbúðalán Byrs verið tilgreind í íslenskum krónum, með gengisviðmiðun, þá eru þau ólögleg og þau ber að uppreikna í samræmi við dóma Hæstaréttar og undan því getur bankinn ekki vikist. Með því að nota það orðalag, sem Byr gerði í yfirlýsingu sinni er ekkert annað en tilraun til blekkinga, sem ekki er nokkurri lánastofnun sæmandi.
Úrskurður Hæstaréttar var skýr og hreint ekki flókið að fara eftir honum. Það ber að gera strax, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
Byr sendir óbreytta greiðsluseðla | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
25.6.2010 | 08:55
Landsfundur hafni ESB og kveðji aðildarsinna endanlega
Allt útlit er fyrir að hart verði tekist á um ESBmál á landsfundi Sjálfstæðisflokksins nú um helgina, en mikill minnihluti flokksmanna styður aðild að sambandinu. Sá minnihluti hefur verið að gera sig gildandi undanfarið með stórkarlalegum yfirlýsingum um hættu á klofningi flokksins, ef harðorð ályktun verði samþykkt gegn því að Ísland láti innlima sig sem hrepp í væntanlegt stórríki Evrópu.
Einungis Samfylkingin hefur fullveldisframsal til Brussel á stefnuskrá sinni, en Framsóknarflokkurinn samþykkti á sínum tíma, að hann gæti fellt sig við innlimunina, að svo ströngum skilyrðum uppfylltum að það jafngilti höfnun, en VG hefur alfarið ályktað gegn ESB, þó ekki hafi verið farið eftir þeirri stefnumörkun undanfarið.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur talið að hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB, án þess þó að geirnegla þá afstöðu í landsfundarsamþykktir, þannig að aðildarsinnar hafa haft nokkuð frítt spil innan flokksins til að ástunda áróður fyrir hugsjónir Samfylkingarmanna innan félaga og stofnana flokksins.
Nú verður Sjálfstæðisflokkurinn að negla niður kýrskýra afstöðu gegn öllum tilburðum til innlimunar Íslands i stórríkið og þeir, sem fram að þessu hafa talið sig til flokksmanna, en geta ekki fellt sig við þá stefnu, gangi þá til liðs við þann flokk, sem myndi taka fagnandi öllum þeim, sem tilbúnir eru til að framselja hluta af fullveldi landsins til erlendra aðila.
Sjálfstæðisflokkurinn má ekki og getur ekki komist hjá því að láta sverfa til stáls í þessu stóra og afdrifaríka máli og ekki láta hótanir um klofning koma í veg fyrir afdráttarlausa sjálfstæðisyfirlýsingu á landsfundinum. Sá fámenni, en háværi hópur, sem ekki sættir sig við það, fer þá bara sína leið, þangað sem hann á betur heima.
Meirihluti þjóðarinnar er alfarið á móti aðildarumsókninni að ESB og hana ber að draga til baka strax og ekki eyða meiri tíma og peningum í "bjölluatið í Brussel", eins og það hefur verið kallað. Fari einhverjir úr Sjálfstæðisflokknum við afgerandi afstöðu landsfundar gegn ESB, þá munu margfalt fleiri koma til liðs við flokkinn, taki hann skýra og afdráttarlausa forystu gegn fullveldisafsalinu.
Nú er kominn tími til að láta sverfa til stáls ef á þarf að halda. Það væri þá bara liður í að skýra línur í íslenskri pólitík og koma Sjálfstæðisflokknum aftur í það forystuhlutverk um mótun íslenskrar framtíðar, sem hann hafði svo afgerandi áður fyrr.
Þessi helgi veður að vera algert uppgjör á milli stefnu Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar.
Búist við átökum um ESB á landsfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)