Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
24.6.2010 | 15:32
Vissi ríkisstjórnin um lögbrot lánastofnana og þagði um þau?
Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, flutti skýrslu á Alþingi í dag um áhrif dóma Hæstaréttar vegna "gengislánanna" og hafði uppi a.m.k. tvennar skoðanir á málinu, þ.e. að dómarnir væru fagnaðarefni fyrir skuldarana, en svo gífurlegt áfall fyrir lánastofnanirnar, að samningsvextirnir yrðu ekki látnir standa á þessum lánum, hvernig sem hann ætlar sér að fara að því að breyta lánsskjölunum.
Eitt stórmerkilegt og afar athyglisvert atriði datt upp úr Gylfa, sem krefst nánari skýringa af hans hálfu og fjölmiðlar hljóta að ganga eftir, strax í dag, en það var eftirfarandi, samkvæmt mbl.is:
"En fjármálakerfið var ekki undir það búið að fyrir utan að gengistryggingin sem slík væri dæmd ólögmæt, þá væru lögin túlkuð þannig að hinir erlendu vextir skyldu standa á þessum lánum.
Eðlilegir innlendir vextir, sem eins og flestir vita eru talsvert hærri, væru þau kjör sem gert hefði verið ráð fyrir í þessu samhengi, þegar nýja bankakerfið var sett á fót. Sagði hann að það væri eitthvað sem ekki væri hægt að stinga höfðinu í sandinn vegna eða horfa framhjá."
Þarna virðist Gylfi vera að viðurkenna það, að ríkisstjórnin hafi vitað það við endurreisn bankanna, að gengistryggingin yrði dæmd af lánunum og að innlendir vextir kæmu í stað samningsvaxtanna. Miðað við þessa yfirlýsingu hafa lánin verið færð úr gömlu bönkunum á nafnverði í íslenskum krónum, en miðað við vexti óverðtryggðra lána í stað "erlendu vaxtanna".
Þessar upplýsingar sem þarna detta væntanlega óvart út úr Gylfa, er algerlega ótrúleg í raun og veru, því hún sýnir að ríkisstjórnin hefur verið að fara á bak við lántakendur þessara lána í a.m.k. heilt ár og hreinlega logið að þjóðinni um þessi mál.
Sé þetta rétt, þá hafa ríkisstjórnir þurft að segja af sér af minna tilefni.
Samningsvextir haldist ekki | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.6.2010 | 13:45
Besti flokkurinn efnir kosningaloforð
Jón Gnarr lofaði því í kosningabaráttunni að kæmist hann til valda í Reykjavík, myndi hann hygla vinum sínum, ættingjum og félögum ríkulega með feitum og vel launuðum embættum og sporslum hjá borginni, enda ætlaði hann ekki að gera neitt sjálfur í borgarstjórastólnum, heldur láta embættismenn borgarinnar og starfsfólk annast alla þá vinnu, sem inna þyrfti af hendi.
Reyndar lofaði hann því líka, að svíkja öll kosningaloforð sín, en loforðið um bitlingana er byrjað að efna, þvert ofan í loforðið um að svíkja það. Alversta dæmið um þetta er ákvörðunin um að verðlauna Harald Flosa Tryggvason, fyrrverandi yfirmann vörslusviptinga og eignasölu hjá Lýsingu, sem var einna illræmdast af öllum fjármögnunarfyrirtækjum landsins vegna hörku og miskunnarleysis við innheimtu "gengislána".
Ætlun Jóns Gnarrs er að gera þennan dygga stuðningsmann sinn úr kosningabaráttunni að starfandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, með sömu laun og allra hæst launuðu embættismenn borgarinnar njóta. Hefði nokkrum öðrum en Jóni Gnarr dottið svona lagað í hug, hefði hinn sami verið sakaður um spillingu af verstu gerð, en einhver ný viðmiðun um spillingu virðist hafa skotið rótum með komu Besta flokksins í borgarstjórn.
Um þetta hefur verið fjallað áður á þessu bloggi og má sjá það hérna
Þegar það blogg birtist bar svo einkennilega við, að ekki einn einasti stuðningsmaður Besta flokksins reyndi að verja þessa gjörð og hafa þeir þó verið ákaflega viðkvæmir fyrir allri gagnrýni á Jón Gnarr og stjórnleysingjaflokk hans.
Vilja ekki starfandi stjórnarformann hjá OR | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.6.2010 | 08:49
Óábyrg Samtök lánþega
Samtök lánþega hvetja alla sparifjáreigendur landisins til að gera áhlaup á viðskiptabankana og hreinsa út úr þeim allt sparifé, sem þar er til ávöxtunar, en samkvæmt áhlaupsáskoruninni nema þessar innistæður um 2.200 milljörðum króna.
Áhlaup á banka er eitt það alvarlegasta sem fyrir getur komið í fjármálalífi nokkurrar þjóðar og því mikið ábyrgðarleysi að hvetja til slíks, en samtökin beina því til sparifjáreigendanna að taka út allar sínar innistæður og koma þeim í "öruggt skjól" t.d. í ríkistryggð skuldabréf.
Við svona áhlaup myndu bankarnir hrynja hver af öðrum og engum til að dreifa öðrum en ríkinu til þess að endurreisa þá og hefði þá ekki til þess annað fé, en það fé sem innistæðueigendur hefðu lagt til með kaupum á ríkisskuldabréfum og þar með myndi endurgreiðslugeta ríkisins á þessum skuldabréfum skerðast verulega, fyrir utan að tiltrú umheimsins á Íslendingum og íslensku fjármála- og efnahagslífi myndi algerlega gufa upp, ef eitthvað er eftir af slíkri tiltrú.
Þetta herútboð samtaka skuldara til þeirra sem hafa lagt til sparifé, sem síðan hefur aftur verið lánað út úr bönkunum er eitthvað það óábyrgasta útspil sem um getur í íslenskum og alþjóðlegum fjármálaheimi og getur ekki orðið til annars en að ýta undir umræður um að íslenskir stórskuldarar séu algerlega óábyrgir gerða sinna og orða.
Vonandi taka sparifjáreigendur ekki til sín þessar "ráðleggingar" þeirra, sem tekið hafa spariféð að láni, en ætlast til þess að þurfa ekki að borga það til baka að fullu.
Hvetja fólk til að taka út | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
23.6.2010 | 20:17
Dómurinn stendur - skattgreiðendur borga
Á meðan fjármálafyrirtækin og reyndar skuldarar líka, töldu að gengislánin væru lögleg, gengu þau hart eftir því að staðið væri í skilum með lánin og eftir tveggja mánaða vanskil var samningum oft rift og vörslusviptingum beitt af fullri hörku og skuldurunum síðan sendir háir bakreikningar vegna ýmiss kostnaðar, sem sagður var vegna skoðana og viðhalds. Á þeim tíma var óspart vitnað til samningstextans um gengistrygginguna og jafnvel á síðustu dögum, vikum og mánuðum á meðan málið var til meðferðar hjá Hæstarétti, var fullri hörku beitt við innheimtur og ekki tekið í mál, að bíða niðurstöðu Hæstaréttar.
Núna, þegar dómur Hæstaréttar er fallinn á þann veg, að gengistryggingin sé ólögleg og þar með standa lánasamningarnir eftir með sinn upphaflega höfuðstól í íslenskum krónum og 2-4% vexti, þá dettur hvorki lánafyrirtækjunum, ráðherrunum eða seðlabankastjóranum í hug, að fara skuli eftir úrskurði Hæstaréttar og innheimta lánin samkvæmt homum. Því er borið við að óvissa ríki um málið, en það er alveg kristalskýrt, að þangað til og ef annar dómur gengur vegna þessara lána, þá á að innheimta í samræmi við dóminn. Nú þýðir ekkert fyrir lánastofnanir að segja að þær ætli að bíða í marga mánuði eftir einhverjum nýjum dómum, áður en nokkuð verði gert í málinu.
Það er ekki hægt að neita stundum að bíða eftir Hæstaréttardómi og bera svo við daginn eftir að nú þurfi að bíða eftir einhverjum nýjum dómum um eitthvað, sem ekki er einu sinni búið að stefna út af ennþá, enda dómstólar komnir í réttarhlé.
Hvað sem hverjm finnst um vaxtakjör þessara lána, ber að innheimta þau í samræmi við niðurstöðu dómsins. Allt annað hlýtur hreinlega að vera níðingslegur átroðningur á rétti skuldaranna.
Tapið af dóminum lendir svo á skattgreiðendum, en hverjum er ekki sama um það.
Skuldarar þessara lána skipta sér ekkert af því hver borgar brúsann, bara ef það eru ekki þeir sjálfir, nema þá sem hluti skattgreiðenda í landinu, en allavega dreifast skuldir þeirra á fleiri herðar.
Almenningur fengi reikninginn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
23.6.2010 | 12:35
Rústaði Hæstiréttur hagkerfinu?
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, dregur upp dökka mynd af framtíð íslenska hagkerfisins verði farið bókstaflega eftir dómi Hæstaréttar um gengislánin, þ.e. ef þau stæðu eftir dóminn sem óverðtryggð lán á þeim vöxtum sem um var samið, umfram gengistrygginguna.
Már sagði m.a. þetta um fjármálakerfið og bankana, á fundi með fréttamönnum í morgun: "Það muni ekki vera í stakk búið til að byggja áfram upp, hagvöxtur hverfi og hætt við að Íslendingar sætu uppi með japanskt bankakerfi líkt og það var eftir bankakreppuna þar í landi. Hann segir mikilvægara að vera með öflugt hagkerfi heldur en lága vexti. Hagkerfi Íslands komist ekki í gang nema landið fái lánsfé, hvort heldur sem um innlent eða erlent lánsfé sé að ræða."
Það sem Már reiknar ekki með, er að hver einstakur lántakandi hugsar um sinn hag, en ekki heildarinnar, þegar hann metur áhrif dóms Hæstaréttar og hvað hann muni sjálfur "græða" á niðurfellingu gengistryggingarinnar og því mun engin sátt nást um breytingar á lánskjörunum, ekki einu sinni með dómi frá Hæstarétti þar um, því verði slíkur dómur kveðinn upp, mun ánægjan sem nú ríkir með Hæstarétt gufa upp, eins og dögg fyrir sólu. Dómurinn gekk hins vegar ekki út á neitt annað en það, að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging, enda voru ekki hafðar uppi kröfur um annarskonar verðtryggingu fyrir dómi og því var engin afstaða tekin til þess.
Mjög líklegt er því, að þessum málum sé langt frá því lokið og margir mánuðir, eða jafnvel heilt ár, eða meira, muni líða áður en endanlegur botn náist um þetta deiluefni. Um það sagði Már: "Þar til þessari óvissu verður létt er ansi hætt við því að sú sigling sem við höfum verið á að undanförnu við að koma okkur úr eftirleik fjármálakreppunnar verði töluvert hægari en nú er."
Þessi spá Más, seðlabankastjóra, virðist vera algerlega öndverð við skoðun Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, a.m.k. þá skoðun sem hann hafði daginn sem dómurinn var kveðinn upp, en þá sagði hann að þetta væru ákaflega jákvæðar fréttir fyrir hagkerfið, því nú gæti fólk farið að eyða peningum í aðra hluti en afborganir lánanna. Gylfi, er reyndar búinn að skipta um skoðun síðan og telur nú, að óverðtryggðir vextir Seðlabankans ættu að gilda um "gengislánin".
Það er alla vega ekki óhætt fyrir fólk að byrja að eyða um of af þeim "gróða", sem verið er að telja því trú um, að myndist við Hæstaréttardóminn.
Fleiri dómar eru væntanlegir og þeir gætu breytt mikilli gleði í mikil vonbrigði.
Hefðu lækkað vexti meira | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
23.6.2010 | 08:31
Við Íslendingar erum lánaglöð þjóð
Íslendingar hafa lengi verið lánaglöð þjóð og flestir tekið öll þau lán, sem mögulegt hefur verið að komast yfir, með þeirri gömlu góðu röksemd, að þetta "reddist einhvern veginn". Þessi lánagleði virðist vera orðinn hluti af þjóðarsálinni, eins og Prince Polo og vera arfur frá fyrri hluta síðustu aldar, en þá var það hverjum manni mikið lán, að komast yfir lánsfé, enda brann það fljótt upp í þeirri óðaverðbólgu, sem einnig er orðin hluti af tilverunni eins og pólska súkkulaðikexið.
Það hefur löngum verið sagt, að nágrannaþjóðir okkar kaupi sér allt það, sem þær geta sparað fyrir, en við Íslendingar kaupum allt, sem mögulegt er að fá lánað fyrir, enda íslensk heimili þau skuldugustu í heimi. Á þeim tiltölulega fáu árum, sem erlendu lánsfé var ausið takmarkalaust inn í landið, var enginn maður með mönnum, sem ekki keypti sér dýran bíl, húsvagn o.fl. "nauðsynjar" með gengistryggðum lánum og var hugsunin sú, að "græða" á lágu vöxtunum, þrátt fyrir að allir vissu að stór gengisfelling væri í farvatninu og hefði ekki þurft neitt "hrun" til þess.
Nú eru þeir allra óvarkárustu í fjármálum með pálmann í höndunum, eftir að Hæstiréttur felldi þann dóm, að ekki einn einasti lögfræðingur landsins skildi lög um fjármálagerninga, en allir lánaskilmálar eru samdir af lögfræðingum og blessaðir af öðrum lögfræðingum hjá sýslumannsembættum og Fjármálaeftirliti. Eftir dóminn þarf enginn að greiða nema hluta af verðmæti upphaflegs höfuðstóls með mjög lágum vöxtum. Annan eins happdrættisvinning hafa skuldarar þessa lands ekki fengið, síðan land byggðist og una nú allir glaðir við sitt, aðrir en þeir sem lánuðu peningana og tapa á því gríðarlegum upphæðum.
Í þessu tilviki sannast hið fornkveðna, að það er mikil blessun og mikið lán, að hafa tekið gengistryggt lán.
Bruðlurum bjargað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
22.6.2010 | 15:06
Merkilegar yfirhylmingar með glæpnum
Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, bendir á þá augljósu staðreynd, að alls ekki er hægt að setja nein ný lög um gengislánin, enda ekki hægt að setja afturvirk lög og því getur enginn skorið úr því, hvort hægt sé að setja verðtryggingu á þessi lán, eða breyta vaxtakjörum, nema dómstólar landsins, enda afar líklegt að á slíkt verði látið reyna.
Athyglisverð eru hins vegar upphafsorð fréttarinnar, sem er svona: "Þetta er alveg klárt, dómurinn stendur eins og hann er, gengistryggingin er ólögleg, er búin að vera það í níu ár síðan lögin voru sett 2001, og vextirnir standa eftir, segir Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og lögfræðingur, um dóm Hæstaréttar um gengistryggingu lána."
Valgerður Sverrisdóttir, sem var Viðskiptaráðherra þegar lögin voru sett, sagði í fjölmiðlum fyrir helgi að hún og ráðuneytið hefðu alltaf litið svo á, að gengistryggingin væri ólögleg, en hvorki henni né ráðuneytinu datt í hug að uppljóstra um þá vitneskju sína fyrr en núna og einnig kemur hver lögfræðingurinn fram á fætur öðrum og segir að þetta hafi alltaf verið algerlega augljóst og lögin algerlega skýr í þessu efni.
Á Alþingi sitja og hafa setið, fjölmargir lögfræðingar úr öllum flokkum, en ekki hefur þeim dottið í hug að benda á þessa lögleysu, sem allir þykjast vita núna að hafi viðgengist allan þennan tíma. Enginn lögfræðingur, sem sat á þingi 2001 og greiddi atkvæði um lögin, hefur nokkurn tíma komið fram síðan, til að útskýra þessa lögleysu, sem þessi skýra lagasetning átti að afstýra, enginn sem hefur setið á þingi síðan og reyndar ekki einn einasti lögspekingur í landinu, hefur svo mikið sem andað því út úr sér, að svona gegnistrygging gæti verið á móti "anda laganna".
Allir opinberir aðilar, sem handfjatlað hafa þessa pappíra, hafa einnig brugðist, t.d. sýslumenn sem þinglýst hafa þessum skjölum og síðan úrskurðað um vörslusviptingu og jafnvel gjaldþrot á grundvelli þessara ólögmætu gerninga. Fjármálaeftirlitið, sem annast eftirlit með bönkunum, hefur aldrei mótmælt þessum lánaskilmálum og ekki hefur háskólasamfélagið hámenntaða sagt stakt orð um málið.
Skuldararnir telja sig hafa verið blekkta til að skrifa undir lánasamningana af ótíndum glæpamönnum sem starfað hafi í hverri einustu lánastofnun landsins og líta nú svo á, að þeim komi þessi lán nánast ekkert við lengur, vegna þessara svika og pretta.
Það er alveg merkilegt að sjá núna, hvað margir lúrðu á vitneskju um þessa "glæpi", en hylmdu yfir þá allan þennan tíma.
Ólöglegt að setja lög um verðtryggingu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
22.6.2010 | 13:38
Birgitta, Julian Assange, WikiLeaks og RÚV
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, hefur sagt frá aðkomu sinni og aðstoð við Julian Assange, stofnanda WikiLeaks, við að koma í umferð myndbandi af árás bandarískrar herdeildar á íraka og starfsmenn RÚV munu hafa hjálpað til við vinnslu myndbandsins og sendi síðan fréttamann á staðinn til að ræða við aðstandendur þeirra sem féllu í árásinni.
Ekki skal þessi grimmdarlega árás varin á nokkurn hátt, en daglega berast fregnir frá Írak, þar sem innfæddir eru að sprengja hver annan í loft upp á viðbjóðslegan hátt hvar sem hópar fólks safnast saman í sakleysi sínu, t.d. á útimörkuðum, í verslunum og biðröðum við opinberar stofnanir. Þessar morðárásir tengjast Bandaríkjamönnum ekki á nokkurn hátt, því þeir eru yfirleitt ekki á þeim stöðum, þar sem þessar sprengingar eiga sér stað, heldur eingöngu íraskur almenningur, sem ekkert hefur til saka unnið, annað en að tilheyra röngum trúarsöfnuði innan Islam, að því er virðist.
Aldrei hafa Birgitta og Julian "lekið" neinum myndböndum af þessum manndrápum á WikiLeaks og hvað þá að sjónvarpinu hafi þótt ástæða til að senda sína fréttamenn til Íraks, til þess að kanna bakgrunn sprenginganna og sprengjuvarganna, né tekið viðtöl við fórnarlömbin og ættingja þeirra þúsunda, sem látið hafa lífið í þessum voðaverkum.
Rétt er og skylt að benda á glæpsamlega framgöngu vesturlandabúa og þau voðaverk sem þeir fremja, en ekki er síður ástæða til að fordæma hryðjuverk, sem framin eru af öðrum af hreinni mannvonsku einni saman.
RÚV, sem hlutlaus, ríkisrekin sjónvarpsstöð á að minnsta kosti ekki að láta flækja sig í einhliða áróðursstríð.
Stofnandi WikiLeaks kemur úr felum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
22.6.2010 | 10:37
Er Valgerður Sverrisdóttir ábyrg fyrir klúðrinu
Eftir að dómur féll í Hæstarétti um ólögmæti gengistryggðra lána kom Valgerður Sverrisdóttir, fyrrv. viðskiptaráðherra, fram í fjölmiðlum og sagði að það hefði alltaf verið skilningur Viðskiptaráðuneytisins að gegnistrygging lána væri ólögleg, enda hefði hún sjálf verið viðskiptaráðherra þegar lögunum var breytt og hefði því allan tímann vitað að slíkar lánveitingar væru andstæðar lögunum.
Einnig sagði hún, að Fjármálaeftirlitið hefði átt að fylgjast með málinu og sjá til þess að svona lánveitingar myndu ekki viðgangast og bætti við, að hún skildi bara ekkert í því, að þessar lánveitingar skyldu geta gengið allan þennan tíma.
Þessi yfirlýsing fyrrverandi viðskiptaráðherra virðist hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá fjölmiðlum, því þetta er stórkostlegasta játning um vanrækslu í starfi, sem komið hefur fram frá nokkrum ráðherra frá lýðveldisstofnun. Hafi hún og ráðuneytið vitað allan tímann að þessi lán tíðkuðust og væru ólögleg, er hún jafnframt að játa á sig algera vanrækslu í starfi og ekki síður vanhæfni allra þeirra starfsmanna viðskiptaráðuneytisins, sem áttu að fylgjast með lagaframkvæmdinni s.l. áratug a.m.k.
Rannsóknarnefnd Alþingis komst að þeirri niðurstöðu, að tveir eða þrír ráðherrar hafi sýnt vanrækslu í starfi vegna nokkurra atriða í aðdraganda bankahrunsins og nú er nefnd undir forsæti Atla Gíslasonar að skoða hvort ástæða sé til að stefna þeim fyrir Landsdóm vegna þeirra mála.
Þar sem játning Valgerðar Sverrisdóttur um stórkostlega vanrækslu sína og ráðuneytisstarfsmanna Viðskiptaráðuneytisins liggur fyrir opinberlega, hlýtur henni að verða stefnt fyrir Landsdóm til að svara fyrir embættisafglöp sín og eins hljóta starfsmenn ráðuneytisins að fá alvarlega áminningu fyrir sín brot, ef ekki hreinlega brottrekstur úr starfi.
Valgerður sýndi ekki bara vanrækslu við upphaf þessara lánveitinga, heldur þagði hún um þessa vitneskju allan tímann sem hún sat á þingi og raunar eftir það, þangað til hún bar játningu sína fram í fjölmiðlum í síðustu viku.
Kannski þagði hún nógu lengi, til að láta fyrningarfrest afglapa sinna renna út, svo ekki yrði hægt að lögsækja hana.
Vill verðtryggingu á lánin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
22.6.2010 | 09:19
Lánafyrirtækin bíða nýrra dóma vegna bílalána
Lánafyrirtækin virðast hafa verið svo örugg með sig og lagalegan rétt sinn vegna "gengislánanna", að þau settu ekki fram neinar varakröfur fyrir dómstólum um aðra tegund verðtryggingar og hvað þá um önnur vaxtakjör, ef "gengistryggingin" reyndist ólöglegt form verðtryggingar.
Dómar Hæstaréttar voru alveg skýrir um þau álitaefni, sem fyrir hann voru lögð, gengistryggingin dæmdist ólögleg og engin afstaða tekin til annarra skilmála lánasamninganna. Þar með standa lánin með upphaflegum vaxtasamningi og óverðtryggðum höfuðstól. Lánafyrirtækin sætta sig illa við þá niðurstöðu og kemba nú allar hugsanlegar lagagreinar, til þess að klóra sig út úr málinu, án þess að fara eftir dómsniðurstöðunni.
Fleiri mál af svipuðum toga virðast vera rekin fyrir dómstólum og virðast þar vera gerðar einhverjar varakröfur, eða eins og segir í fréttinni: "Þrátt fyrir þetta hafa fjármögnunarfyrirtæki borið fyrir sig mikla réttaróvissu og hafa mörg þeirra ákveðið að senda ekki út greiðsluseðla að svo stöddu. Heimildir Morgunblaðsins herma að Alþingi muni ekki láta til sín taka og bíða fyrirtækin því niðurstöðu dómstóla um mál varðandi breytingar á samningsskilmálum. Gæti hún leitt til hagfelldari niðurstöðu fyrir lánardrottna."
Framundan er réttarhlé fram í September og því ekki að vænta nýrra dóma á næstu mánuðum og verði þeim síðan áfrýjað til Hæstaréttar, er ekki að vænta endanlegrar niðurstöðu Hæstaréttar fyrr en seinni hluta næsta vetrar.
Skuldarar, sem nú hrósa sigri yfir lánafyrirtækjunum, munu varla hafa þolinmæði til að bíða nýrra dóma fram á næsta ár.
Fyrirtæki bera fyrir sig óvissu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)