Rústaði Hæstiréttur hagkerfinu?

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, dregur upp dökka mynd af framtíð íslenska hagkerfisins verði farið bókstaflega eftir dómi Hæstaréttar um gengislánin, þ.e. ef þau stæðu eftir dóminn sem óverðtryggð lán á þeim vöxtum sem um var samið, umfram gengistrygginguna.

Már sagði m.a. þetta um fjármálakerfið og bankana, á fundi með fréttamönnum í morgun:  "Það muni ekki vera í stakk búið til að byggja áfram upp, hagvöxtur hverfi og hætt við að Íslendingar sætu uppi með japanskt bankakerfi líkt og það var  eftir bankakreppuna þar í landi. Hann segir mikilvægara að vera með öflugt hagkerfi heldur en lága vexti. Hagkerfi Íslands komist ekki í gang nema landið fái lánsfé, hvort heldur sem um innlent eða erlent lánsfé sé að ræða."

Það sem Már reiknar ekki með, er að hver einstakur lántakandi hugsar um sinn hag, en ekki heildarinnar, þegar hann metur áhrif dóms Hæstaréttar og hvað hann muni sjálfur "græða" á niðurfellingu gengistryggingarinnar og því mun engin sátt nást um breytingar á lánskjörunum, ekki einu sinni með dómi frá Hæstarétti þar um, því verði slíkur dómur kveðinn upp, mun ánægjan sem nú ríkir með Hæstarétt gufa upp, eins og dögg fyrir sólu.  Dómurinn gekk hins vegar ekki út á neitt annað en það, að gengistrygging væri ólögleg verðtrygging, enda voru ekki hafðar uppi kröfur um annarskonar verðtryggingu fyrir dómi og því var engin afstaða tekin til þess.

Mjög líklegt er því, að þessum málum sé langt frá því lokið og margir mánuðir, eða jafnvel heilt ár, eða meira, muni líða áður en endanlegur botn náist um þetta deiluefni.  Um það sagði Már:  "Þar til þessari óvissu verður létt er ansi hætt við því að sú sigling sem við höfum verið á að undanförnu við að koma okkur úr eftirleik fjármálakreppunnar verði töluvert hægari en nú er."

Þessi spá Más, seðlabankastjóra, virðist vera algerlega öndverð við skoðun Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra, a.m.k. þá skoðun sem hann hafði daginn sem dómurinn var kveðinn upp, en þá sagði hann að þetta væru ákaflega jákvæðar fréttir fyrir hagkerfið, því nú gæti fólk farið að eyða peningum í aðra hluti en afborganir lánanna.  Gylfi, er reyndar búinn að skipta um skoðun síðan og telur nú, að óverðtryggðir vextir Seðlabankans ættu að gilda um "gengislánin".

Það er alla vega ekki óhætt fyrir fólk að byrja að eyða um of af þeim "gróða", sem verið er að telja því trú um, að myndist við Hæstaréttardóminn. 

Fleiri dómar eru væntanlegir og þeir gætu breytt mikilli gleði í mikil vonbrigði.


mbl.is Hefðu lækkað vexti meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef hagkerfi Íslands byggist á því að ræna og rupla almúgann eins og bankarnir hafa gert óáreittir að undanförnu þá erum við illa á vegi stödd. Hæstiréttur dæmdi gengistrygginguna ólöglega og verða fjármálastofnanir að hlíta þeim dómi. Það má vel vera að hagnaður þeirra verði ekki eins gífurlegur og við mátti búast en það verður bara svo að vera. Það er varla hægt endalaust að ráðast í buddu náungans til að hagnast.

Edda Karlsdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 12:53

2 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Þetta er það sem við þurftum hrista upp í kerfinu!

Sigurður Haraldsson, 23.6.2010 kl. 12:58

3 Smámynd: Aðalsteinn Agnarsson

Hann lagði sitt af mörkum í nýtt Ísland.

Aðalsteinn Agnarsson, 23.6.2010 kl. 13:05

4 identicon

Már var aðalhagfræðingur Seðlbanka Íslands þegar Alþingi samþykkti lög nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

Umsögn hans um úrskurð Hæstaréttar verður að skoðast í því ljósi. 

Gunnar Tómasson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 14:55

5 identicon

Ef síðar kemur í ljós að gengistryggð húsnæðislán verða einnig ólögleg (Óvíst?) þá er ljóst að það er of stór biti fyrir fjármálakerfið. Líklegt er skuldabréfavextir verði settir á þessi lán í staðinn og þau gildi sem óverðtryggð lán á þeim forsendum. Ég hef heyrt því fleygt að það sé líklegri lausn en að þau verði gerð að verðtryggðum lánum afturvirkt, sem líklega væri ólöglegt (?).

Það er allavega ljóst að nútíma hagkerfi þarf nútíma lánastarfsemi og greiðslumiðlun. Ef fjármálakerfið hér hrynur aftur þá er það enn meira kyrkingartak fyrir atvinnulífið, því engin erlend lán fást hingað af skiljanlegum ástæðum. Ef það gerist mundu margir af þeim sem hagnast á myntkörfulánunum (niðurfellingu gengistryggingar) ekki vera hótinu betur settir þar sem þeir myndu missa vinnuna.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 15:50

6 identicon

þegar Gengistryggðu lánin héldu innreið sína, þá var það allmennt talið svo að þau væru hin mesta búbót og það bæri að þakka fyrir að það væri kominn annar kostur við vísitölulánin.

Menn reiknuðu fram og aftur, báru saman útkomurnar við vístölulánin, aftur og aftur.

Semsagt menn vissu algjörlega upp á hár hvað væri á ferðinni!

SEM VAR.. Verðtrygging í formi Gengistryggingar, í staðin fyrir Vísitölu.

Ummræðan um þessi lán var opin og ekkert var dregið undan hvað hér væri á ferðinni.

Áhættan sem er tekin,, Er gengi íslensku krónunnar!

þetta getur enginn dregið í efa, þetta sanna óteljandi blaðagreinar og umræður í fjölmiðlum frá þessum tíma.

Nú hefur Hæstiréttur dæmt um það að EKKI finnist lög um að hægt sé að notast við GENGISTRYGGINGU.

En það breytir engu um það að lántakendur skrifuðuð upp á, og voru sáttir við GENGISTRYGGINGU í staðin fyrir VÍSITÖLU.

En nú hafa lánþegar fundið smugu til þess að komast hjá upprunanlegu skuldbindingum SÍNUM, það er kostnaður/áhætta af gengi krónunar.

Sá kostnaður gufar ekki upp við dóm hæstaréttar. þetta er mismunurinn á verðmæti Útrásar-Krónunar og Kreppu-Krónunar, og það finnst ekkert réttlæti annað en að sá sem stofnaði til skuldarinnar og hafði afnot af því sem var keypt fyrir lánið borgi þennan kostnað.

Allar upphrópanir um óréttlæti, blóðmjólkun, villimennsku og öll orð sem týnd hafa verið til af lýðskrumurum til að láta líta út sem lántakendur séu fórnarlömb lánastofnana, eru upphrópanir örvæntingafullra manna sem hafa steypt sér í skuldafenið SJÁLFIR.

Ragnar Thorisson (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 16:21

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ragnar Þórisson, þú settir þessa sömu athugasemd hjá mér og ég spurði þig hvað varð um skuldir Sjóvá-Milestone, FL Group, Haga, Pennans-Eymundssonar, Straums-Burðaráss, peningamarkaðssjóðina tómu og margt margt fleira?

Gufuðu þessar skuldir ekki upp? Ef ekki, gufuðu þær niður?

Síðan eru lántakendur ekki að biðja um að skuldir þeirra verði strikaðar út, aðeins að vaxtaokrið sé minnkað, rænt minna af þeim en gert hefur verið.

Theódór Norðkvist, 23.6.2010 kl. 16:34

8 Smámynd: A.L.F

Ragnar! engin sem ég þekki er að biðja um að lánið hans gufi upp. Allir ætla sér að borga þá upphæð sem þeir tóku á láni með vöxtum, en engin vil borga þá upphæð 1000 fallt til baka.

Ef ég lána þér 100kr átt þú ekki að borga 1000kr til baka

A.L.F, 23.6.2010 kl. 16:43

9 identicon

Mikið er gott að hér sé einhver með viti . Styð þig ragnar.

en málið er 

ef þú færð lánað 100 evrur. áttu þá að borga til baka 30 evrur?

Fannar (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 17:24

10 identicon

Ef fjármálakerfið þolir ekki að lánin séu greidd til baka á þeim vöxtum sem samið var um, af hverju voru lánin þá veitt á þeim kjörum?

Gerðu fjármálastofnanir ráð fyrir því að krónan mundi hrynja? Var ekki gengisáhætta eins og sagt var þegar lánin voru tekin? Eða vissi bankinn að hann mundi hagnast af gengistryggingunni?

Ef svo er þá hljóta gengistryggðu lánasamningarnir að vera ólögmætir í heild vegna svika bankanna við samningsgerðina. Er það ekki?

Aðalsteinn (IP-tala skráð) 23.6.2010 kl. 18:10

11 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Eftir stendur að hrist hefur verið upp í kerfinu og við erum með nokkuð góða stöðu til að fylgja því eftir án afskipta lögreglu látum á það reyna að ná fram okkar leiðréttingu!

Sigurður Haraldsson, 23.6.2010 kl. 18:57

12 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Aðalsteinn, lánastofnanirnar tóku nákvæmlega sömu áhættu á gengisfellingu eins og lántakendurnir.  Þær tóku lán erlendis, að sjálfsögðu í erlendum gjaldeyri, og endurlánuðu peningana til bílakaupenda og fleiri aðila.  Fái lánveitandinn einungis sömu krónutöluna til baka, en þarf sjálfur að kaupa gjaldeyri á tvöföldu verði, miðað við það sem var við upphaflegu viðskiptin, þá myndast auðvitað gríðarlegt gengistap hjá lánastofnuninni.

Bankarnir græða því ekkert á gengistyggingu lána, sem þeir taka erlendis og endurlána svo innanlands.  Það breytir hins vegar ekki því, að frágangur lánasamninganna var ekki samkvæmt lögum, sem um erlend útlán gilda og af því skapast þessi upplausn, eftir Hæstaréttardóminn.

Ég tek undir þessi orð með Ragnari:  "Upphrópanir um óréttlæti, blóðmjólkun, villimennsku og öll orð sem týnd hafa verið til af lýðskrumurum til að láta líta út sem lántakendur séu fórnarlömb lánastofnana, eru upphrópanir örvæntingafullra manna sem hafa steypt sér í skuldafenið SJÁLFIR." 

Fólk ætti ekki að láta það út úr sér, að tugir þúsunda Íslendinga séu ekki sjálfráðir gerða sinna í fjármálum og viti ekkert hvað þeir eru að gera, þegar þeir taka fé að láni og láti sér detta í hug að enginn tapi, ef þeir greiði bara 30 evrur til baka fyrir hverjar 100, sem þeir fá lánaðar. 

Axel Jóhann Axelsson, 23.6.2010 kl. 19:20

13 Smámynd: A.L.F

Fannar!

Ég er þegar búin að borga þessar 100 evrur og gott betur, lánið er samt helmingi hærri en lánið sem ég tók upphaflega. Ég er alveg tilbúin til að borga meira en 100 evrurnar sem ég fékk lánaðar, en ég er ekki tilbúin að borga 1000 evrur fyrir þessar 100.

A.L.F, 24.6.2010 kl. 00:14

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

A.L.F., það stenst engan veginn að þú sért búinn að borga meira en þessar 100 evrur, sem þú fékkst lánaðar.  Þú hefur hins vegar þurft fleiri íslenskar krónur til að kaupa evrurnar 100, sem þú greiddir til baka.  Það er allt annað mál og kemur evrufjöldanum ekkert við.  Þú greiðir nákvæmlega jafn margar evrur til baka og þú fékks lánaðar plús vexti.

Axel Jóhann Axelsson, 24.6.2010 kl. 09:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband