Bloggfærslur mánaðarins, júní 2010
30.6.2010 | 11:07
Höfðað til þjóðhollustu skuldara "gengislánanna"
Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið haf gefið út "leiðbeinandi" reglur til fjármálafyrirtækjanna um endurreikning á "gengistryggðu" lánunum og skuli þau þeirra sem falla undir dóm Hæstaréttar verða endurreiknuð eins og óverðtryggð lán, með lægstu vöxtum Seðlabankans, sem um slík lán gilda, nú 8,25%.
Enginn þarf að láta sér dyljast, að þessi niðurstaða er samkvæmt fyrirskipunum AGS, en sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi undanfarnar vikur, til að yfirfara efnahagsáætlun sína og gefa út nýjar tilskipanir vegna fjárlaga fyrir næsta ár og fleira sem að fjármálum þjóðarinnar snýr, þar með talin viðbrögð við dómi Hæstaréttar vegna gengistryggingar lána með höfuðstól í íslenskum krónum.
Ríkisstjórnin hefur hins vegar hvorki döngun, trúverðugleika né traust til að gefa út "tilmæli" um eitt eða neitt og því eru Seðlabankinn og FME notuð til þess, enda látið líta út fyrir að fjármálafyrirtækin geti illa gengið gegn "tilmælum" þessara stofnana, sem eiga að annast eftirlit með fjármálalifinu.
Til þess að milda þessi "tilmæli" er höfðað til ábyrgðarkenndar skuldara og þeir minntir á, að samstaða allra þjóðfélagsþegna til þess að vinna bug á kreppunni og verði ekki farið að "tilmælunum" muni allt fara í kaldakol á ný.
Þetta sést t.d. á þessari setningu úr yfirlýsingunni: "Framkvæmd samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu gerir því hvort tveggja, tryggir lántakendum hagstæðari niðurstöðu en samkvæmt upphaflegum lánasamningum, og ver um leið almannahagsmuni og þar með t.d. hagsmuni allra skuldara og skattgreiðenda, sem myndu þurfa að bera kostnaðinn ef farið yrði eftir ýtrustu kröfum sumra kröfuhópa. Aðalatriðið er þó það, að þetta er sú nálgun sem lögin kveða á um að mati eftirlitsstofnananna og hún er nauðsynleg til þess að varðveita fjármálastöðugleika."
Nú á bara eftir að reyna á hvort skuldarar "gengistryggðra" lána séu þjóðhollt fólk, eða setji hér allt á annan endann í fjármálakerfinu, að mati Seðlabankans og FME.
Í þágu almannahagsmuna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (20)
30.6.2010 | 08:24
Milljarðaköttur "bankaræningjanna"
Fjallað er um "viðskiptaveldi" Jóns Ásgeirs í Bónus, Pálma Haraldssonar í Iceland Express og félaga þeirra, í helgarblaði norska viðskiptablaðsins Dagens Næringsliv og farið ófögrum orðum um þá félaga, viðskiptahætti þeirra og það ljúfa líf, sem þeir stunduðu á annarra manna kostnað.
Sérstaklega er fjallað um sölu Sterling flugfélagsins fram og aftur milli þeirra Jóns Ásgeirs og Pálma, en gríðarlegur "hagnaður" myndaðist í þeim viðskiptum og eigið fé þeirra félaga óx og óx við hverja sölu, enda hækkaði flugfélagið um marga milljarða á nokkurra mánaða fresti, þangað til varð gjaldþrota, en það hafði það nú raunar verið allan tímann, sem braskið með það átti sér stað.
Dagens Næringsliv vitnar í ummæli breskra kaupsýslumanna um þessa viðskiptahætti og er það einhver besta lýsing, sem sést hefur, á "íslensku leiðinni" í viðskiptum, sem fundin var upp af Jóni Ásgeiri og ástunduð allt fram að hruni, þó allt væri í raun komið í óefni með "viðskiptaleiðina" a.m.k. tveim árum fyrr, þó svikamyllunni væri haldið gangandi fram í rauðan dauðann.
Breska lýsingin á þessum viðskiptaháttum er svona: Þú átt hund og ég á kött. Við verðleggjum dýrin á milljarð dollara hvort um sig. Ég kaupi hundinn af þér og þú köttinn af mér og nú erum við ekki lengur gæludýraeigendur. Nú erum við fjármálamenn með milljarð dala í eigið fé.
Í raun er ekki hægt að orða þetta betur og engu við þetta að bæta öðru en því, að Jón Ásgeir og Pálmi seldu hundinn og köttinn margoft á milli sín og bjuggu þannig til ennþá meira "eigið fé".
Íslenska gæludýraleiðin var með stærri svikamyllum sem sögur fara af í viðskiptalífi veraldarinnar og nú er verið að gera það dæmi upp hjá Sérstökum saksóknara.
„Bankaræningjarnir“ | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
29.6.2010 | 20:49
Eru yfirvöld ólæs á lagatexta?
Eins og öllum er kunnugt dæmdi Hæstiréttur þann 16. júní s.l. að gengistrygging lána væri ólögleg, en slíkt hafði tíðkast í níu ár, eftir lagabreytingu sem bannaði slíkt. Ekki einn einasti lögmaður í landinu, ekki Lagadeild Háskólans, ekki lögmenn bankanna, ekki sýslumenn og yfirleitt bara enginn, las lögin á þessum níu árum, a.m.k. ekki til skilnings.
Viðskiptaráðherrann sem hafði forgöngu um lagasetninguna, sagðist að vísu hafa vitað allan tímann að þetta væri ólöglegt og allir í ráðuneytinu hefðu vitað það einnig, en hvorki ráðherranum né ráðuneytisfólki datt í hug að segja frá þeirri vitneskju sinni, fyrr en eftir Hæstaréttardóminn.
Nýlega óskaði Tollstjórinn í Reykjavík eftir kyrrsetnigu á eignum nokkurra útrásargarka og sýslumaður veitti hana umsvifalaust. Garkarnir stefndu málinu umsvifalaust fyrir Héraðsdóm og dómarinn þar þurfti ekki nema fletta upp í lögunum til að sjá, að engar heimildir voru í nýsettum lögum um kyrrsetningarheimildir vegna virðisaukaskatts.
Alþingi hafði, að því er virðist, gleymt að gera ráð fyrir öðrum opinberum gjöldum en tekjusköttum, þegar lögin voru sett. Tollstjóri og Ríkisskattstjóri fögnuðu lagasetningunni ákaflega á sínum tíma, greinilega án þess að hafa látið svo lítið að glugga í frumvarpið fyrir samþykkt þess.
Allur þessi skrípaleikur er Alþingi, Ráðherrum, sýslumönnum og öðrum stjórnvöldum til svo mikillar skammar, að réttast væri að setja allt heila liðið á námskeið í lestri og skilningi á lagatæknilegum atriðum.
Ekki síður þyrfti að orða lög þannig að þau skiljist og eins þyrfti Hæstiréttur að ganga þannig frá dómum sínum, að ekki þurfi að deila um það í marga mánuði, hvað úrskurðirnir þýða.
Kyrrsetning felld úr gildi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
29.6.2010 | 11:01
Er íslensk hagfræði skárri en lögfræðin?
Jón Steinsson, lektor í hagfræði vð Columbia hásólann í New York, efast mikið um íslenska lögfræði, vegna þeirrar skoðunar flestra lögfræðinga, að önnur ákvæði "gengislánanna" en gengistryggingin, standi óhögguð í þeim lánasamningum, sem Hæstiréttur úrskurðaði um fyrir stuttu. Að flestu leyti má taka undir þessa skoðun Jóns, þar sem vaxtaforsendur samninganna voru háðar gengistryggingunni og hefðu auðvitað aldrei komið til, hefði átt að vera um óverðtryggt lán að ræða.
Enginn löglærður maður, né nokkur annar benti á að þessi tegund lána væri ólögleg í heil níu ár, þangað til Hæstiréttur kvað upp sinn dóm, en eftir að dómurinn var kveðinn upp, hafa ýmsir komið fram í dagsljósið og segjast hafa vitað um það allan tímann, en þögðu bara um það. Einhvern tíma hefði slíkt verið kallað yfirhylming og samsekt um lögbrot. Fyrir nokkrum dögum var fjallað um þetta á þessu bloggi og má sjá það hérna
Hitt er svo annað mál, að Jón Steinsson er einn þeirra hagfræðinga, sem hafa farið mikinn í dómum sínum um hvað betur hefði mátt fara hér á landi, árin fyrir hrun, en aldrei hafði hann hugmyndaflug, þrátt fyrir hagfræðimenntunina, til að benda á það sem betur mátti fara, fyrr en eftir hrun. Sama má segja um nánast alla íslenska hagfræðinga, þeir virtust vera algerlega sammála því fyrir hrun, að íslenska hagkerfið væri í fínum málum og útrásargarkar og bankamógúlar væru á góðri leið með að gera Ísland að fjálmálalegu stórveldi á heimsvísu.
Eftir hrun, hefur allt háskólasamfélagið, hvort sem eru hagfræðingar eða aðrir, haldið lærðar ráðstefnur og flutt marga og langa pistla og ræður um ástæður hrunsins, sem allir sáu fyrir, en sögðu bara ekki neitt, vegna þess að það hefði ekki fallið í góðan jarðveg í því andrúmslofti, sem ríkti í þjóðfélaginu, eins og það hefur stundum verið orðað.
Líklega er rétt hjá Jóni Steinssyni, að lögfræðingar þyrftu að skoða sín fræði betur en þeir hafa gert hingað til.
Það á ekki síður við um hagfræðingana.
Efast um íslenska lögfræði | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
28.6.2010 | 20:54
Kvörn réttvísinnar malar hægt, en örugglega
Fyrsta ákæra frá embætti Sérstaks saksóknara hefur nú litið dagsins ljós, en það er ákæra á hendur þrem mönnum fyrir umboðssvik í sambandi við viðskipti með stofnfjárbréf í Byr og er þar um að ræða þrjá af aðalstjórnendum Byrs og MP banka.
Þetta mál þykir með þeim smærri í sambandi við flest þau mál, sem á góma hefur borið í sambandi við svindlstarfsemi innan fjármálageirans, árin fyrir hrun, en þó það þyki ekki stórt á þeim mælikvarða, snýst það samt um nokkur þúsund milljónir króna, en slíkar upphæðir töldu þeir stóru í bankageiranum nánast fyrir neðan sína virðingu að fjalla um, enda varla mikið hærri en sæmilegur ársbónus fyrir þá gríðarlegu ábyrgð, sem topparnir sögðust bera. Þessir karlar töldu sjálfa sig þyngdar sinnar virði í gulli og aðgang að snilligáfu sinni seldu þeir ekki fyrir neina smáaura.
Smátt og smátt munu málin sem frá Sérstökum saksóknara fara í ákærur, stækka og veða viðameiri, en stóru málin eru flókin í rannsókn og teygja arma sína víða um veröld.
Það er ánægjuefni að kvörn réttvísinnar sé farin að mala, hægt en örugglega.
Þrír ákærðir í Exeter-málinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.6.2010 | 17:29
Það þarf að kyngreina hagrænu áfrifin
Allir í heiminum vita, að hagrænar greinar hafa mikil áhrif á efnahagslífið, en hinsvegar er verra að ekki nokkur maður veit hvaða, né hve mikil, áhrif skapandi greinarnar hafa og því hefur nú verið ráðist í það stórvirki, að "greina og meta hagræn áhrif skapandi greina á Íslandi á heildstæðan hátt". Sem betur fer, verður rannsóknin heildstæð, en ekki neitt hálfkák, eins og aðrar rannsóknir hljóta að vera, samkvæmt þessu.
Katrín Jakobsdóttir, ráðherra mennta-og menningarmála, sagði af þessu merka tilefni, vart mælandi af hrifningu: Sú þekking sem þetta verkefni elur af sér verður ómetanleg þegar kemur að því að taka mikilvægar og stefnumarkandi ákvarðanir um hvernig staðið verður að endurmótun og uppbyggingu íslensks samfélags, m.a. varðandi áherslur í atvinnuuppbyggingu.
Það eru engir venjulegir Jónar, sem þessa rannsókn munu framkvæma, en hún verður undir stjórn Colin Mercer, sem er brautryðjandi í rannsóknum og skrifum á kortlagningu hagrænna áhrifa skapandi greina, og honum til liðssinnis verður Tómas Young, sem nýlega lauk MS ritgerð sinni í markaðsfræðum og alþjóðaviðskiptum frá Háskóla Íslands og Margrét Sigrún Sigurðardóttir lektor við Háskóla Íslands veitir faglega ráðgjöf.
Þegar allar forsendur fyrir frekari atvinnuuppbyggingu í landinu liggja ljósar fyrir, hlýtur ríkisstjórnin að ráða kynjafræðing, til að kyngreina rannsóknina og niðurstöður hennar, því annars mun þjóðin aldrei komast að hagrænum áhrifum skapandi greina á Íslandi, skipt eftir kyni, aldri og búsetu.
Verði þetta ekki kyngreint, veður niðurstaðan aldrei heildræn.
Hagræn áhrif skapandi greina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.6.2010 | 14:50
Landsstjórinn ruglar fréttamenn og kemst upp með það
Mark Flanagan, landsstjóri AGS yfir Íslandi, og Franek Rozwadowski, lénsherra hans hér á landi rugluðu í fréttamönnum á fundi í dag og allavega samkvæmt fyrstu fréttum, hafa þeir ekki setið undir ströngum yfirheyrslum, eða djúphugsuðum.
Meðal annars sögðu þeir að kreppan væri "tæknilega lokið", þó enginn fyndi fyrir því og minnir þetta orðalag óþægilega á umræðuna um að 70% fyrirtækja á landinu séu "tæknilega gjaldþrota", en aðeins sé eftir að veita þeim náðarhöggið. Á meðan svo er ástatt um meirihluta fyrirtækjanna og spár hljóða ennþá upp á aukningu atvinnuleysis í haust og fram til ársins 2012, er kreppunni langt frá því að vera "tæknilega lokið".
Einnig töldu landshöfðingjarnir að dómur Hæstaréttar væri hinn óljósasti og fleiri dóma þyrfti til að útkljá málið, en bankakerfinu myndi samt lítið muna um að taka á sig tapið af þessum lánum, en það er þvert ofan í það sem ríkisstjórnin hefur verið að telja almenningi trú um s.l. átján mánuði. Ráðherrarnir hafa alltaf sagt, að ekki væri hægt að veita krónu afslátt af neinu láni, því það myndi ekki bara setja bankana á hausinn, heldur ríkissjóð í leiðinni.
Við aðra endurskoðun efnahagsáætlunar AGS fyrir landið gáfu ráherrarnir og seðlabankastjórinn AGS skriflegt loforð um að ekkert yrði meira gert í málefnum skuldugra heimila og uppboðum fasteigna yrði ekki frestað lengur en fram í Októbermánuð n.k. Á fréttamannafundinum létu yfirmenn ríkisstjórnarinnar þau orð hins vegar falla, að það litla sem þó væri búið að samþykkja af aðgerðum til aðstoðar heimilunum, væri svo sem ágætt, en miklu meira þyrfti þó að gera.
Ekki verður séð að fréttamenn hafi spurt út í þessar mismunandi yfirlýsingar frá æðstavaldinu og skósveina þeirra í ríkisstjórninni. Við því var svo sem ekki að búast, því féttamenn virðast ótrúlega oft vera blindir á fréttapunktana og fréttanef þeirra löngu komið með hrossasóttina.
AGS og skósveinarnir í ríkisstjórninni tala greinilega tungum tveim og hvor með sinni, án nokkurrar samræmingar. Ef til vill er sameiginlegur skilningur á málinu enginn.
Kreppunni lokið segir AGS | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.6.2010 | 10:32
Tækifæri til að taka landsstjórann á beinið
Mark Flanagan, Landsstjóri AGS yfir Íslandi og Franek Rozwadowski, lénsherra hans, hafa boðað til blaðamannafundar í dag og ætla þar að kynna stöðu mála vegna þriðju endurskoðunar efnahagsáætlunar sjóðsins fyri Ísland, en ef fer sem horfir, gefur sjóðurinn út tilskipun um hvað ríkisstjórninni ber að framkvæma og lofa að gera og gera ekki á næstunni.
Fréttamenn fá þarna kjörið tækifæri til að spyrja þá félaga almennilega út í loforð ríkisstjórnarinnar til sjóðsins um að ekkert skuli gert frekar fyrir skuldug heimili í landinu og að um frekari frestanir á fasteignauppboðum verð ekki að ræða, eftir Októbermánuð n.k. Það loforð var sjóðnum gefið skriflega og undirritað af Jóhönnu, Steingrími J, Gylfa og Má í tengslum við endurskoðun áætlunar sjóðsins númer tvö.
Einnig verða fréttamenn að spyrja út í fyrirskipanir landsstjórans vegna nýgengis dóms Hæstaréttar um gengislánin, en miðað við hvernig Gylfi Magnússon talar um vaxtaákvæði þeirra lána, hlýtur hann að vera búinn að fá einhverjar fyrirskipanir um hvernig sjóðurinn vill láta meðhöndla vaxtakjörin.
Þá er bráðnauðsynlegt að fá svör við því, hvernig stjórnendur ríkisstjórnarinnar líta á skemmdarverk hennar gegn atvinnuuppbyggingu í landinu og baráttu hennar fyrir flutningi þúsunda manna úr landi, til þess að geta falsað atvinnuleysistölurnar og látið þær líta betur út en ella.
Fréttamenn hafa oft sýnt að þeir hafa afar lítið fréttanef og koma oft ekki auga á fréttnæmustu punkta hverrar fréttar.
Nú er tækifæri til að reka af sér slyðruorðið og knýja fram skýr svör og undanbragðalaus.
AGS boðar blaðamenn á fund | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
27.6.2010 | 19:36
Til hamingju Jóhanna og Jónína
Í dag ganga í gildi ein hjúskaparlög, sem gilda fyrir alla Íslendinga og enginn greinarmunur gerður á því, hvort það er gagnkynhneigt eða samkynhneigt par sem gengur í hjónaband.
Það hefur verið áratugabarátta samkynhneigðra, að öðlast allan sama rétt og gagnkynhneigðir á þessu sviði, því hjónaband skiptir öllu máli í sambandi við erfðarétt o.fl., sem fólk í óvígðri sambúð nýtur ekki.
Þjóðinni er hér með óskað til hamingju með þessa réttarbót, sem kemur Íslandi í fremstu röð í heiminum, hvað réttindi samkynhneigðra varðar.
Þeim sem gegnu í hjónaband í dag eru einnig færðar hamingjuóskir, ekki síst Jóhönnu Sigurðardóttur og eiginkonu hennar Jónínu Leósdóttur, sem fengu staðfestri sambúð sinni breytt í lögformlegt hjónaband í dag.
RÚV: Jóhanna í hjónaband | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
27.6.2010 | 14:54
Dómarinn stal marki af Englendingum
Nú er leikhlé í gríðarspennandi leik Þjóðverja og Englendinga í 16 liða úrslitum HM. Leikurinn hefur verið vel spilaður af báðum liðum og mikil spenna um hvernig leikurinn fer, en nú er staðan 2-1 fyrir Þjóðverja.
Það sögulegasta sem gerðist í fyrri hálfleik var að dómarinn skyldi dæma fullkomlega löglegt mark af Englendingum, en allir nema dómarnir sáu að boltinn fór úr slá og langt innfyrir marklínu.
Fari svo, að Þjóðverjar vinni leikinn með eins marks mun, mun allt verða vitlaust, a.m.k. hjá enskum fótboltabullum og þá gæti dregið til stórtíðinda í Suður-Afríku.
Hvernig sem fer, verður þetta leikur sem lengi verður munað eftir og um hann verður talað næstu árin.
Þjóðverjar skelltu Englendingum 4:1 | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)