Er íslensk hagfræði skárri en lögfræðin?

Jón Steinsson, lektor í hagfræði vð Columbia hásólann í New York, efast mikið um íslenska lögfræði, vegna þeirrar skoðunar flestra lögfræðinga, að önnur ákvæði "gengislánanna" en gengistryggingin, standi óhögguð í þeim lánasamningum, sem Hæstiréttur úrskurðaði um fyrir stuttu.  Að flestu leyti má taka undir þessa skoðun Jóns, þar sem vaxtaforsendur samninganna voru háðar gengistryggingunni og hefðu auðvitað aldrei komið til, hefði átt að vera um óverðtryggt lán að ræða.

Enginn löglærður maður, né nokkur annar benti á að þessi tegund lána væri ólögleg í heil níu ár, þangað til Hæstiréttur kvað upp sinn dóm, en eftir að dómurinn var kveðinn upp, hafa ýmsir komið fram í dagsljósið og segjast hafa vitað um það allan tímann, en þögðu bara um það.  Einhvern tíma hefði slíkt verið kallað yfirhylming og samsekt um lögbrot.  Fyrir nokkrum dögum var fjallað um þetta á þessu bloggi og má sjá það hérna

Hitt er svo annað mál, að Jón Steinsson er einn þeirra hagfræðinga, sem hafa farið mikinn í dómum sínum um hvað betur hefði mátt fara hér á landi, árin fyrir hrun, en aldrei hafði hann hugmyndaflug, þrátt fyrir hagfræðimenntunina, til að benda á það sem betur mátti fara, fyrr en eftir hrun.  Sama má segja um nánast alla íslenska hagfræðinga, þeir virtust vera algerlega sammála því fyrir hrun, að íslenska hagkerfið væri í fínum málum og útrásargarkar og bankamógúlar væru á góðri leið með að gera Ísland að fjálmálalegu stórveldi á heimsvísu. 

Eftir hrun, hefur allt háskólasamfélagið, hvort sem eru hagfræðingar eða aðrir, haldið lærðar ráðstefnur og flutt marga og langa pistla og ræður um ástæður hrunsins, sem allir sáu fyrir, en sögðu bara ekki neitt, vegna þess að það hefði ekki fallið í góðan jarðveg í því andrúmslofti, sem ríkti í þjóðfélaginu, eins og það hefur stundum verið orðað.

Líklega er rétt hjá Jóni Steinssyni, að lögfræðingar þyrftu að skoða sín fræði betur en þeir hafa gert hingað til.

Það á ekki síður við um hagfræðingana.


mbl.is Efast um íslenska lögfræði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987, sbr. lög nr. 13/1995, náði „verðtrygging“ einnig til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Núgildandi vaxtalögum var ekki ætlað að þrengja það hugtak og auka heimildir til tengingar við erlenda gjaldmiðla. Lögunum var þvert á móti ætlað að útiloka að skuldbindingar í íslenskum krónum væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna. Grundvöllur verðtryggingar samkvæmt samningi aðila, þ.e. ákvæði 4. og 7. gr. samningsins um gengistryggingu, er því í andstöðu við VI. kafla laga 38/2001 og því ógild.

Sæll. Getur þú sagt mér hvað þetta þýðir?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 29.6.2010 kl. 11:45

2 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ekki treysti ég mér til þess að geta í þetta hjá honum Benedikti.  En ég er hins vegar að sjá það betur og betur að Löggjafinn féll á prófinu, síðasta starfsdag þingsins, fyrir sumarfrí.  Var það fall í boði núverandi stjórnarmeiri hluta.

 Prófið sem lagt var fyrir þingið þann dag, var að taka til efnislegrar umræðu og afgreiðslu, frumvarp Sjálfstæðisflokksins um flýti meðferð Hæstaréttar á þeim vafaatriðum, sem að dómur Hæstaréttar 16.júní, virðist hafa haft í för með sér.

 Það var mál manna, þegar þessi aukadagur þingsins var ákveðinn, að þessi aukadagur væri nauðsynlegur til þess að ræða og grípa til aðgerða, vegna nýfallins dóms Hæstaréttar, ef að þess væri þörf.  Á þeim degi sem að þingið kom saman, höfðu svo sannarlega birst nógu mörg vafaatriði, sem í raun settu mál þúsunda einstaklinga í ákveðið uppnám vegna réttaróvissu.  

 Það var hins vegar "mat" stjórnvalda, að betra væri að þessi "réttaróvissa" biði haustsins.  Hvort sem að ástæðan sé að stjórnvöld hyggist vinna að setningu bráðbirgðalaga, eða reglugerða, eða einhver önnur. 

Kristinn Karl Brynjarsson, 29.6.2010 kl. 12:29

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Benedikt, ekki er maður lögfróður, en þessi setning virðist segja, að líta verði á gegnistrygginguna eins og hverja aðra verðtryggingu:  "Tenging skuldbindinga við gengi erlendra gjaldmiðla telst því verðtrygging í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001."  Hvort á svo að túlka þetta þannig, að lögmæt verðtrygging eigi þá að koma í staðinn fyrir óleyfilegu verðtrygginguna, virðist vera svo óljóst, að mati lögmanna, að trúlega þarf annan Hæstaréttardóm til að skera úr um það.

Hvergi er minnst á vextina í dóminum, svo líklega þarf líka nýjan Hæstaréttardóm til að skera úr því deilumáli.  En það sem er sérstaklega athyglisvert við úrskurðinn eru þessar setningar:  "Enda þótt lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlenda gjaldmiðla þá þykir samkvæmt framanrituðu sýnt að með þeim hafi verið felld úr gildi heimild til að tengja skuldbindingar í íslenskum krónum við erlenda gjaldmiðla. Óhjákvæmilegt er að líta til vilja löggjafans við túlkun laganna."

Fram að þessu hefur maður haldið að vilji löggjafans ætti að koma skýrt fram í þeim lagatextum sem samþykktir eru á Alþingi, en ekki í ritgerðum, sem lagðar eru fram af flutningsmönnum frumvarpanna.  Að því er manni skilst er það afar óvenjulegt, að Hæstiréttur skuli ekki dæma bókstaflega eftir texta laga, heldur vitna í og taka tillit til "vilja löggjafans", sem kemur samt ekki fram í lögunum sjálfum.

Dómurinn og túlkanir hans eru vægast sagt hið merkilegasta mál og langt frá því að vera endanlega lokið.

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2010 kl. 13:18

4 identicon

14. gr. Heimilt er að verðtryggja sparifé og lánsfé skv. 13. gr. sé grundvöllur verðtryggingarinnar vísitala neysluverðs sem Hagstofa Íslands reiknar samkvæmt lögum sem um vísitöluna gilda og birtir mánaðarlega í Lögbirtingablaði. [Vísitala sem reiknuð er og birt í tilteknum mánuði gildir um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár frá fyrsta degi þar næsta mánaðar.]1)
Í lánssamningi er þó heimilt að miða við hlutabréfavísitölu, innlenda eða erlenda, eða safn slíkra vísitalna sem ekki mæla breytingar á almennu verðlagi.

Í þessari grein er tæmandi talið hvernig má verðtryggja lán í íslenskum krónum. Gagnályktun leiðir til að önnur tegund af verðtryggingu er bönnuð. Það er því ekki rétt að gengistrygging sé hvergi bönnuð.

Múhameð (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 13:22

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Múhameð, þess vegna vitnar Hæstiréttur til "vilja löggjafans" þó "lögin kveði ekki beinlínis á um bann við því að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiða...."

Það sem margir eru hins vegar að velta fyrir sér er, að fyrst Hæstiréttur leggur þann skilning í málið, að gegnistryggingin hafi verið hugsuð sem verðtrygging, hvort meining hans hafi þá verið að lögleg verðtrygging skyldi koma í stað ólöglegrar.

Er lögfræðingum, sem ekki botnuðu upp eða niður í lögunum fyrir Hæstaréttardóminn, betur treystandi til að túlka niðurstöðuna núna?

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2010 kl. 13:30

6 Smámynd: Hafþór Baldvinsson

Það er eitt sem vefst ekki fyrir mér en virðist vefjast fyrir sumum þ.á.m. lánafyrirtækjunum en það er að það sé ákvörðun lánafyrirtækjanna að ákveða hvort lántakendum séu sendir greiðsluseðlar. Lántakendur geta með réttu hætt að greiða af lánum sínum án þess að verða krafðir um dráttarvexti eða að gert verði fjárnám í eigum þeirra.

Í 7. gr. sömu laga og Hæstiréttur dæmdi eftir segir:

"Ef atvik sem varða kröfuhafa og skuldara verður ekki um kennt valda því að greiðsla fer ekki fram skal ekki reikna dráttarvexti þann tíma sem greiðsludráttur verður af þessum sökum. Sama á við ef greiðsla fer ekki fram vegna þess að skuldari neytir vanefndaúrræða gagnvart kröfuhafa eða heldur af öðrum lögmætum ástæðum eftir greiðslu eða hluta hennar."

Á meðan Hæstiréttur hefur ekki tekið afstöðu til hvernig skuli fara með þessi lán þá getur skuldari/lántakandi hætt greiðslu á þeirri forsendu að atvik (óljóst um útreikning/forsendubrestur) séu ekki skuldara né lánveitanda um kennt. Þess vegna tel ég að lántakendur eigi þann rétt að fella niður greiðslur þar til Hæstiréttur hefur fellt dóm um hvernig skuli fara með þessi myntkörfulán.

Hafþór Baldvinsson, 29.6.2010 kl. 13:31

7 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þakka þér fyrir þetta, Axel. Og að lokum. Getur verið að allt sé í raun bannað sem ekki er leyft samkvæmt lögum?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 29.6.2010 kl. 14:02

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Ben.Ax., hingað til hefur maður staðið í þeirri trú, að á meðan ekki sé verið að skaða aðra, þá sé í raun allt leyfilegt, nema það sé sérstaklega bannað samkvæmt lögum.

Kannski er komin upp alveg nýr hugsunarháttur að þessu leiti á "nýja Íslandi".

Axel Jóhann Axelsson, 29.6.2010 kl. 14:06

9 identicon

Dómur hæstaréttar hristir verulega upp í íslensku þjóðfélagi eins og þessi pistill sýnir. Ben Ax og Hafþór hér að ofan eru með fína púnkta sem koma heilafrumunum í gang.

Íslenska lagakerfið byggist á rómverksum rétti og gömlum germönskum hefðum. ("Hitt kerfið," sem notað er í vestrænum löndum, er enska Common Law kerfið sem í prinsippinu skilgreinir hvað eru lög og hvað ekki á allt annan hátt frá því rómverska.) Í íslenska kerfinu eru það lög sem skráð eru á bók. Dæmt er út frá lagabálki, þ.e.a.s. því sem í skruddunum stendur.

Ég sé tvær aðferðir við að skrifa lög; skilgreina það sem lögin leyfa ('leyfilög") eða skilgreina hvað lögin banna ("bannlög"). Nóta bene, ég er ekki lögfræðingur.  Það sem EKKI er skráð í lagabálkinn, þ.e.a.s. komplimentið í mengjafræðinni, er þá annaðhvort leyfilegt eða óleyfilegt m.t.t. þess hvort lögin eru bannlög eða leyfilög. Þetta hlýtur að vera frumatriðið í íslenskri réttarfræði.

Þar af leiðandi sýnist mér að lögin um verðtryggingu, sem Múhameð að ofan vitnar í, eru leyfilög og þau skilgreini bara þá verðtryggingu sem leyfileg er. Öll önnur verðtrygging er þá óleyfileg. Þeir sem setja í gang lánveitingar sem byggja á óleyfilegum lögum, brjóta lög og gera sig skaðabótaskylda. Ég held það geti ekki verið neinum blöðum um þetta að fletta. 

En gagnvart hverjum veit ég ekki. Þeim sem lánin taka? Kannski. Þetta rennir stoðum undir Hafþór þar sem hann segir að lántakar geta haldið aftur sínum greiðslum, ef ekki er skýrt kveðið á um hvernig innheimtan er reiknuð út af lánveitanda.

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 29.6.2010 kl. 19:20

10 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Eins og Axel, þá hef ég haft efasemdir um þessa dóma Hæstaréttar. Þar til annað verður sannað fyrir mér, tel ég að þeir séu rangir.

Ég velti fyrir mér því sem Kristján segir um Rómarrétt og Bretskan. Hægt er að lesa víða um þennan mismun, en getur verið að við séum orðin svo ofurseld Bretsku valdi, að Hæstiréttur hafi tekið upp þeirra siði ?

Ekkert í lögum 38/2010 segir að gengistrygging sé bönnuð. Þess vegna leitar rétturinn til athugasemda, sem fylgdu frumvarpinu. Athugasemdir geta ekki talist lögskýringargögn, nema því aðeins að þær séu samhljóða lögunum. Í slíku tilviki geta athugasemdirnar útskýrt minniháttar atriði.

Hæstiréttur rangtúlkar 2. grein og raunar snýr henni á hvolf, til að koma bannreglu inn í lög sem eru greinilega heimildarlög. Þetta er alvarleg hegðun og vítaverð.

Síðan er það dómgreindarleysið sem Jón Steinsson fjallar um. Allan skilning skortir á eðli verðtryggingar og vaxta. Allan skilning skortir á að gengistrygging og gjaldmiðillinn sjálfur eru jafngild form verðtryggingar. Hæstiréttur má ekki komast upp með svona flausturs vinnubrögð, sem hugsanlega stafa af löngun dómara til að komast í sumarfrí.

Loftur Altice Þorsteinsson, 30.6.2010 kl. 04:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband