Höfðað til þjóðhollustu skuldara "gengislánanna"

Seðlabankinn og Fjármálaeftirlitið haf gefið út "leiðbeinandi" reglur til fjármálafyrirtækjanna um endurreikning á "gengistryggðu" lánunum og skuli þau þeirra sem falla undir dóm Hæstaréttar verða endurreiknuð eins og óverðtryggð lán, með lægstu vöxtum Seðlabankans, sem um slík lán gilda, nú 8,25%.

Enginn þarf að láta sér dyljast, að þessi niðurstaða er samkvæmt fyrirskipunum AGS, en sendinefnd sjóðsins hefur verið hér á landi undanfarnar vikur, til að yfirfara efnahagsáætlun sína og gefa út nýjar tilskipanir vegna fjárlaga fyrir næsta ár og fleira sem að fjármálum þjóðarinnar snýr, þar með talin viðbrögð við dómi Hæstaréttar vegna gengistryggingar lána með höfuðstól í íslenskum krónum.

Ríkisstjórnin hefur hins vegar hvorki döngun, trúverðugleika né traust til að gefa út "tilmæli" um eitt eða neitt og því eru Seðlabankinn og FME notuð til þess, enda látið líta út fyrir að fjármálafyrirtækin geti illa gengið gegn "tilmælum" þessara stofnana, sem eiga að annast eftirlit með fjármálalifinu.

Til þess að milda þessi "tilmæli" er höfðað til ábyrgðarkenndar skuldara og þeir minntir á, að samstaða allra þjóðfélagsþegna til þess að vinna bug á kreppunni og verði ekki farið að "tilmælunum" muni allt fara í kaldakol á ný.

Þetta sést t.d. á þessari setningu úr yfirlýsingunni:  "Framkvæmd samkvæmt lögum um vexti og verðtryggingu gerir því hvort tveggja, tryggir lántakendum hagstæðari niðurstöðu en samkvæmt upphaflegum lánasamningum, og ver um leið almannahagsmuni og þar með t.d. hagsmuni allra skuldara og skattgreiðenda, sem myndu þurfa að bera kostnaðinn ef farið yrði eftir ýtrustu kröfum sumra kröfuhópa. Aðalatriðið er þó það, að þetta er sú nálgun sem lögin kveða á um að mati eftirlitsstofnananna og hún er nauðsynleg til þess að varðveita fjármálastöðugleika."

Nú á bara eftir að reyna á hvort skuldarar "gengistryggðra" lána séu þjóðhollt fólk, eða setji hér allt á annan endann í fjármálakerfinu, að mati Seðlabankans og FME.


mbl.is Í þágu almannahagsmuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Arnórsson

Er eitthvað annað tungumál í gangi á Íslandi sem maður hefur ekki frétt af? Um hvað sníst þetta mál eiginlega? Er til eitthvað sem heitir þjóðhollusta við bankstera? 

Óskar Arnórsson, 30.6.2010 kl. 11:25

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Óskar, málið snýst náttúrlega um hagsmuni og velferð banka- og fjármálafyrirtækja.  Til þess að gulltryggja það, verður bara gengið á hagsmuni og velferð skuldaranna.  Það er sanngjörn og þjóðholl afstaða. 

Hver vill láta kalla sig þjóðnýðing og fjármálalífsskemmdarvarg?

Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 11:34

3 identicon

Mikið til í þessu hjá þér Axel, en hér er verið að brjóta lög, eins og hefur skýrt komið fram. Ég og þú megum ekki sniðganga lögin, hví eiga menn í fjarmálabransanum að fá að gera það.

Auðveldasta leiðin væri að endurreikna höfuðstólin miðað við lánaðar íslensklar krónur og vextir haldast eins og samið var um. Þetta eru mistök lánafyrirtækjanna, ekki lánþeganna. Því þurfa þeir að gjalda þeirra, ekki lánþegarnir. Svik og prettir mundu sumir kalla þetta. Fangelsisvist og lágmarkslaun við almenna þjónustu myndi hjálpa þessum mönnum.

Sjálfur er ég hlutlaus í þessu máli, og fór í enga svona vitleysu þó tækifæri gáfust. Verð að þakka skólagöngu minni fyrir það.

En ég er sammála Axel í þessu, við verðum að finna lausn sem skilar mestu hagsæmd til ALLRA þegna. Greiðsluverkfall og afskriftir munu skila engu nema auknum vandræðum fyrir þessa lánþega, og einnig okkur sem tengjumst ekki málaferlinu. Sýnum nú þjóðarstolt. Ríkisstjórn, Alþingi, fjármálamenn, allir Íslendingar, gerum Ísland að stórþjóð aftur, hættum að hugsa um okkar eigin vasa.

Aron Ívars. (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 11:54

4 Smámynd: Óskar Arnórsson

þegar Steingrímur skrifaði innstæðulausa Ríkisvíxla til að fjármagna bankana sem urðu gjaldþrota, var vitað að "alvörupeningar" var eingöngu að fá með ákveöinni tölu gjaldþrota almennings og eignaupptöku. (Pétur Blöndal aðferðin) Þegar Hæstiréttur dæmir eftir lögum, á að nota svona móraltrix. Mér er alveg sama ef ég er kallaður þjóðníðingur af þjóðníðingum, eða fjármálaskemmdarvargur af þeim sem sannarlega eru það sjálfir. Ég á illdeilum nú þegar við einn af þessari manngerð. Og það góða við þann mann er hann lýgur bara þegar hann talar. Hann er sama sort og þetta pakk hjá Seðlabanka og FME. Þetta eru svona karakterar sem myndu skjóta ömmu sína og veðja um í hvoruga áttina hún dytti...

Óskar Arnórsson, 30.6.2010 kl. 11:54

5 identicon

Dómurinn hafði mjög takmarkað svið, hann fjallaði bara um eitt ákvæði. Ljóst er að raunverulegar forsendur samninganna upphaflegu bresta með ákvæðinu. Þessvegna munu yfirvöld breyta vöxtunum á þessum lánum til þess að a.m.k. raunvirði höfuðstóls verði greitt til baka. Síðan verður eflaust látið reyna á þá aðgerð fyrir Héraðsdómi og Hæstarétti og þá kemur í ljós hvort sú ráðstöfun verður dæmd lögleg eða ólögleg.

Staða þeirra sem skulda gengislán verður eftir sem áður miklu betri heldur en þegar menn töldu að gengistryggingin væri lögleg og miðað var við hana.

En ef þessi hópur fólks fær gefins lán á neikvæðum raunvöxtum, væri það þá ekki skattskyldur gjafagerningur? Þeir sem tóku lánin hljóta að hafa tekið þátt í ólöglegu athæfi fyrst tiltekið ákvæði samninganna var dæmt ólöglegt. Enginn var neyddur til þess að skrifa undir.

Þorgeir Ragnarsson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 11:56

6 Smámynd: Sigurður Ingi Kjartansson

Þetta er gert fyrir þjóðina, þið eruð ekki þjóðin, bankinn er þjóðin.

Ef fólk áttar sig á þessu þá er þetta ekkert svo flókið að skilja.

Sigurður Ingi Kjartansson, 30.6.2010 kl. 12:15

7 identicon

Þorgeir, það var enginn neyddur í að taka lán, en fólk gerir það, og ætlast til þess að þjónustan sem fyrirtækin bjóða upp á gera grein á öllum liðum og sjá til að öll ákvæði fara eftir lögum. Það er ekki allir með lögin á hreinu, sérstaklega utanbókar, og því er þetta fólk að treysta þjónustunni fyrir því. Þetta traust var svikið. Lög voru brotinn.

Það sem þessi fyrirtæki gerðu: "Lægri vextir, græðir mest á því, hugsaðu þér? Aðeins 3%!"

Hljómar vel er það ekki?

Aron Ívars. (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 12:39

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Aron, það sem virðist vera of gott til að vera satt, er venjulega of gott til að vera satt.  Það á líka við um 3% óverðtryggða vexti.  Það hljómar allt of vel til að geta staðist. 

Þú þakkar skólagöngu þinni fyrir að hafa forðast "gengistryggðu" lánin, en langskólanám forðaði langt í frá öllum frá þessum lánum.  Eins og þú, er ég hlutlaus í þessum efnum, þar sem ég tók engin svona lán og þakka það bara því, sem skóli lífsins hefur kennt.

Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 12:51

9 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Hvað sem líður skynsemi og sanngirni, þá eru þessi tilmæli FME og SÍ í besta falli fáranleg.  Sjái menn einhverja réttaróvissu í dómi Hæstaréttar, þá þurfa þessir sömu menn, að endurskoða lesskilning sinn.

 Stutt útgáfa á dómi Hæstaréttar, á mannamáli, er sú að "pensla" eigi yfir með "tipp-exi" allt í þessum samningum, sem lýtur að gengistryggingu höfuðstóls lánana, allt annað, eins og vextir, lánstími og tíðni afborgana stendur.  Þangað til Hæstiréttur kveður upp annan úrskurð, en þennan, þá stendur dómur Hæstaréttar.

 Hæstiréttur hefur síðasta orðið í þessu máli, sem og öðrum dómsmálum

Kristinn Karl Brynjarsson, 30.6.2010 kl. 14:05

10 identicon

Hugsið ykkur að ef við göngum í ESB þá lækka vextir á öllum lánum til heimilanna og fyrirtækja um 228 miljarða á ári, já 228 miljarða á hverju ári. Þetta eru peningar sem ég og þú eigum og verðum að vinna hörðum höndum fyrir og láta síðan af hendi við fjármagnseigendur. Að ganga í ESB yrði þess vegna mesta kjarabót sem íslenskum almenningi mun nokkurn tíman standa til boða. Hugsið ykkur einnig allar vinnustundirnar sem almenningur þarf að leggja á sig til að borga þessa 228 miljarða á ári. Þetta er fórnarkostnaðurinn sem við borgum fyrir að vera ekki í nánara samstarfi við aðrar þjóðir, og husið ykkur einnig hve við gætum búið börnunum okkar betra líf ef ekki kæmi til þetta rán á hverju ári. Einnig má velta því fyrir sér allan þann frítíma sem fólk hefði ef það þyrfti ekki að vinna myrkran á milli til að borga þessa okurvexti. Áfram ESB!!!!

Svona lán munu bjóðast Íslendingum ef þeir ganga í ESB. Þeir gætu valið á milli

   1. Lán með 4 prósenta föstum vöxtum til 30 ára.

   2. Lán með breytilegum vöxtum til 30 ára. Vextirnir á því láni eru nú 1,9 prósent og geta aldrei farið upp fyrir 5 prósent.

  

Sumir Íslendingar vilja borga sín lán með verðtryggingu og vöxtum 17 falt til baka, þ.e. þeir sem eru á móti því að ganga í ESB. Þessi kjör hér að ofan standa dönskum almenningi - og öllum Evrópubúum ef út í það er farið - til boða. Og þau eru öll óverðtryggð enda slíkt fyrirbæri óþarft í heilbrigðum hagkerfum. Þau sem sagt lækka í hvert skipti sem borgað er af þeim. Ef við tökum lán til 40 ára hér á landi og miðum við 5% vexti og 5% verðbólgu, sem sagt allt í fína lagi, þá þurfum við að borga hátt í 200 miljónir til baka á þessum 40 árum. Ef við tökum lán á evrusvæðinu 20 miljónir til 40 ára, þá þurfum við að borga 24 miljónir til baka. Hvort vilt þú?

Gott fólk, út af hverju takið þið ekki afstöðu til ESB út frá því hvort það komi ykkur persónulega vel eða ekki? Kvótagreifinn tekur afstöðu til ESB út frá því sem er best fyrir hann, óðalsbóndinn tekur afstöðu út frá því sem er best fyrir hann. Hvað með þig, langar þig að borga húsnæðislánið þitt 10 falt til baka, eða rúmlega einu sinni til baka? Hættum þessu bulli að láta einhverja sérhagsmunasambönd teyma okkur út í stuðning við örfáa aðila, tökum bara afstöðu til ESB út frá því sem kemur okkur sjálfum og fjölskyldum okkar best. Hvort viltu borga til baka af 20 miljóna króna íbúðarláni, 200 miljónir eða 24? Ertu flón eða maður sem stendur með sjálfum þér?
Lestu eftirfarandi og spurðu sjálfan þig hvort það sé þess virði að styðja við bakið á kvótagreifum og óðalsbændum? Hversu miklu ertu tilbúinn að fórna svo sérhagsmunaaðilar sofi rólega á meðan þú borgar af láninu þínu?



Samkvæmt útreikinginum á kostnað við fasteignalán til fjörutíu ára í Þýskalandi á fasteignavefnum Immobilienscout:=> Fjárhæðin skiptir ekki máli fyrir útreikningana, hún vex í sama hlutfalli hversu há sem hún er, en við miðuðum við 100.000 evrur og þá 4% vexti sem gefnir eru upp til viðmiðunar. Vaxtarkostnaður við slíkt lán væri 19.475 evrur. Það er, heildarfjárhæðin sem lántaki greiðir til baka á 40 árum er 119.475 evrur. Vaxtakostnaðurinn er tæp 20% af lánsfjárhæðinni.
Kostnaðurinn við þýskt húsnæðislán til 40 ára er því undir 20% af lánsfjárhæðinni. Kostnaðurinn við íslenskt húsnæðislán til sama tíma, miðað við 6% vexti og 5% verðbólgu, er yfir 800% af lánsfjárhæðinni. Munurinn á 20% (0,2x) og 800% (8x) er fertugfaldur.

Valsól (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 14:06

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Valsól birtir hér aftur óbreytta færslu, sem hann setti hér inn sem athugasemd fyrir nokkrum dögum.  Þá var þessi röksemd hans fyrir inngöngu í ESB hrakin, því þetta eru alger falsrök, þar sem vextir eru ekki allsstaðar þeir sömu innan ESB og þeir eru í Þýskalandi, t.d. eru miklu hærri vextir í Grikklandi og víðar.

Tollamálin eru algerlega í höndum ríkisstjórnarinnar og hún getur lækkað þá, eða fellt niður, hvenær sem henni sýnist og þarf ekkert ESB til þess.  Ástæðan fyrir því að það er ekki gert, er sú, að ríkissjóður getur ekki verið án tollateknanna og verði gengið í ESB og þar með tollar afnumdir af ýmsum matvörum, þá mun einfaldlega verða sett vörugjöld í staðinn, því ríkissjóður mun þurfa sínar tekjur árfram.

Að öðru leyti skal ekki verið að elta ólar við þessi falsrök frekar.

Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 14:59

12 Smámynd: Óskar Arnórsson

þetta er sorglegt að fólk eyði tíma að búa til draumkenndar gerfistaðreyndir um ESB. Sérstaklega á tímum þegar fólk er komið í þrot með allt sitt. Skömm að svona málflutningi Valsól...

Óskar Arnórsson, 30.6.2010 kl. 17:05

13 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

II. kafli. Almennir vextir.
3. gr. Almenna vexti skal því aðeins greiða af peningakröfu að það leiði af samningi, venju eða lögum. Vexti skal greiða frá og með stofndegi peningakröfu og fram að gjalddaga.
4. gr. Þegar greiða ber vexti skv. 3. gr., en hundraðshluti þeirra eða vaxtaviðmiðun er að öðru leyti ekki tiltekin, skulu vextir vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr. Í þeim tilvikum sem um verðtryggða kröfu er að ræða skulu vextir vera jafnháir vöxtum sem Seðlabankinn ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum verðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir skv. 10. gr.

Geta Seðlabanki og FME notað þetta sér til framdráttar?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 30.6.2010 kl. 17:47

14 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Benedikt, voru þeir ekki einmitt að vitna í þessa lagagrein í rökstuðningi sínum fyrir því, að reiknaðir skulu lægstu vextir Seðlabankans á óveðtryggðar skuldir.

Það er svosem rökrétt, þar sem aðalforsenda lágu vaxtanna er brostin og aldrei hefur hvarflað að nokkrum manni í þessu þjóðfélagi, að til boða stæðu óverðtryggð lán með 3-5% vöxtum.

Þetta er eina "eðlilega" niðurstaðan í vaxtamálunum vegna þessara lána.

Axel Jóhann Axelsson, 30.6.2010 kl. 18:55

15 Smámynd: Eggert Guðmundsson

Var ekki Ríkið að lána vaxtalausar upphæðir til ákveðinna fjármálastofnanna í kjöfari hrunsins. Var Ríkisstjórnin að brjóta lögin?

Eggert Guðmundsson, 30.6.2010 kl. 21:23

16 identicon

Alltaf skal byggð svaka skjaldborg um bankana enn almenningur má éta það sem úti frýs(Enn fyrst skal borga skatta áður enn það er étið)Og bullið í Valsól og annara Evrópusambambandssinna er eins og rispuð plata.ESB bjargar ölli.Spilling hverfur.Matur verður næstum ókeypis,Sól skín 365 daga ársins,umferðarteppur hverfa og allt það kjaftæði(Kannski örlítið sett í stílinn en þið vitið hvað ég á við)

Sigurbjörn Kjartansson (IP-tala skráð) 30.6.2010 kl. 21:56

17 Smámynd: Guðmundur Karlsson

Allt rétt hjá Valsól. Sammála hverju einasta orði. Þetta hefur hvergi verið hrakið. Okkar vextir verða væntanlega svipaðir og á öðrum norðurlöndum. Þó þeir yrðu verri en það sem Valsól lýsir þá er allt betra en íslensk verðtrygging og endalaust gengis og verðbólguflökt.

Guðmundur Karlsson, 30.6.2010 kl. 23:31

18 Smámynd: Óskar Arnórsson

Vextir á íbúðaláni er frá 3.74% vextir til 4.34& og ENGIN ólögleg verðtrygging. Enn marmarahallir, bónusar og laun er svo mikill kostnaður að á Íslandi verða menn að ræna sig áfram í lífinu. Valsól talar tóma vitleysu...

Óskar Arnórsson, 1.7.2010 kl. 00:08

19 Smámynd: Óskar Arnórsson

...í Svíþjóð átti þetta að vera...

Óskar Arnórsson, 1.7.2010 kl. 00:09

20 Smámynd: Inga Sæland Ástvaldsdóttir

 

„Verði vextirnir í gengistryggðu lánasamningunum hækkaðir frá því sem umsamið var, yrði það „neytanda í óhag“. Þess vegna er vaxtahækkun óheimil,“ segir Magnús Thoroddsen, lögmaður og fyrrum hæstaréttardómari í grein í morgunblaðinu í dag, 8. júlí

 Einnig segir hann ..........

Þegar lagaákvæði eru jafn skýr og ótvíræð, eins og ákvæði 36. gr. samningalaganna eru, sem og sjálfur tilgangur laganna, verða dómendur að dæma samkvæmt því. þá getur dómari hvorki dæmt samkvæmt „eðli máls“ né „efnahagshagsrökum hagfræðinnar“. Gerði hann það, væri hann að brjóta gegn stjórnarskránni.

‘

Þar hafið þið það.  Kvet ykkur til að lesa þessa grein Magnúsar hún er tær snilld. Heiðskír og yfirveguð. Segir allt sem segja þarf .

010.

Inga Sæland Ástvaldsdóttir, 8.7.2010 kl. 17:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband