Er Byr að reyna að blekkja vegna húsnæðislána?

Byr hefur sent skuldurum húsnæðislána óbreytta greiðsluseðla fyrir næstu áramót, með þeirri skýringu, að bankinn hafi aðeins lánað erlend húsnæðislán og því sé einhver óvissa ríkjandi um hvernig eigi að meðhöndla lán bankans.

Ein setning í yfirlýsingu Byrs vegna málsins vekur sérstaka athygli, en hún er svona:  „Meginskýringin er sú að við höfum aldrei boðið upp á bílalán í erlendri mynt, ef við hefðum verið að veita slík lán þá hefðum við auðvitað brugðist við eins og önnur fyrirtæki."

Dómur Hæstaréttar snerist alls ekki um bílalán í erlendri mynt, heldur lán í íslenskum krónum, með gengistryggingu miðaða við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.   Það er algerlega ósambærilegt, að hafa veitt lán í íslenskum krónum, með gengistryggingu, eða hafa veitt lán með höfuðstól í erlendri mynt, eða myntum.  Íslensku lánin með gengistryggingunni voru af Hæstarétti úrskurðuð sem lán í íslenskri mynt og skyldi meðhöndla þau sem slík, enda gengistryggingin ólögmæt.

Fram að þessu hefur hins vegar verið talið fullkomlega löglegt að veita lán í erlendum gjaldmiðlum, en þá þarf líka höfuðstólinn og afborganirnar að vera tilgreindar í erlenda gjaldmiðlinum og því getur Byr á engan hátt borðið þessar lánategundir saman, eða sett þær undir sama hatt.

Hafi íbúðalán Byrs verið tilgreind í íslenskum krónum, með gengisviðmiðun, þá eru þau ólögleg og þau ber að uppreikna í samræmi við dóma Hæstaréttar og undan því getur bankinn ekki vikist.  Með því að nota það orðalag, sem Byr gerði í yfirlýsingu sinni er ekkert annað en tilraun til blekkinga, sem ekki er nokkurri lánastofnun sæmandi.

Úrskurður Hæstaréttar var skýr og hreint ekki flókið að fara eftir honum.  Það ber að gera strax, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

 


mbl.is Byr sendir óbreytta greiðsluseðla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Í fréttinni er talað um erlent lán ekki gengistryggtt lán. Hæstiréttur dæmdi gengistryggðu láni ólögleg. Erlend lán eru því enn lögleg. Er Byr þá að gera ólöglegt??

Guðjon (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 11:56

2 identicon

„Meginskýringin er sú að við höfum aldrei boðið upp á bílalán í erlendri mynt, ef við hefðum verið að veita slík lán þá hefðum við auðvitað brugðist við eins og önnur fyrirtæki."

hehe, meiri vanvitarnir, lán í erlendri mynt eru ekki ólögleg.

Þórdís (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 12:54

3 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Vegna þessa orðalags vaknar sú spurning hvort Byr sé ekki að reyna að blekkja skuldara íbúðalánanna.  Ef höfuðstóll íbúðalánnanna er tilgreindur í íslenskum krónum, en endurgreiðslur miðaðar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla, þá eru þau ólögleg, alveg eins og bílalánin.

Ef lánin eru með höfuðstól og endurgreiðslur í erlendri mynt, þá er það allt annar handleggur, því þá flokkast lánið undir "erlent lán" og um þau gilda ekki sömu reglur og "gengislánin".

Að minnsta kosti er orðalagið í yfirlýsingunni afar grunsamlegt.  Bankamenn hljóta að þekkja muninn á þessum lánategundum, þó þeir skilji ekki lög um lánveitingar og verðtryggingar.

Axel Jóhann Axelsson, 25.6.2010 kl. 13:43

4 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

"Áhrif dómsins á efnahagslífið og horfur í ríkisbúskapnum voru ræddar á ríkisstjórnarfundi í morgun. Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segir að fjármálakerfið muni standa höggið af sér þótt fé ríkisins í bönkunum muni tapast að nokkrum hluta. Hann gerir ráð fyrir að tap ríkisins muni nema um 100 milljörðum króna. Hann segir það fráleita niðurstöðu ef myntkörfulánasamningarnir verða látnir standa óbreyttir án gengistryggingar."

 Búast þeir hjá Byr ekki bara við því að stjórnvöld setji  bráðabrigðalög, sem endurspegla þessi orð Gylfa?

Kristinn Karl Brynjarsson, 25.6.2010 kl. 13:53

5 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Lög, sem eiga að vera afturvirk níu ár aftur í tímann, standast ekki stjórnarskrá.  Það getur enginn skorið úr um heimild til að breyta vaxtakjörum á þessum lánum, nema dómstólar.  Á meðan ekki hafa verið kveðnir upp dómar um slíkt, hljóta lánastofnanir að verða að gera þessi mál upp á grundvelli Hæstaréttardómsins, hvort sem þeim og Gylfa líkar það betur eða verr.

Ekki veit ég hvort ný stefna gæti frestað uppgjörum, en ekkert hefur heyrst um að leitað hafi verið til dómstóla um hvort eitthvað megi hrófla við lánunum, hvorki hvort lögleg verðtrygging væri heimil í stað þeirrar ólöglegu, né um vaxtaákvæði.

Þó það sé nánast gjöf, að gera lánin upp samkvæmt dóminum, þá er það hann sem gildir og eftir honum verður að fara.

Axel Jóhann Axelsson, 25.6.2010 kl. 14:16

6 identicon

Gylfi getur sett öll þau lög sem hann vill, þau verða þá bara dæmd ógild enda er ekki heimilt að setja afturvirk lög um fjármálagjörninga.

Þangað til að hæstiréttur hefur komist að niðurstöðu þá hvet ég alla til að afþakka öll boð og tillögur frá bönkum og greiða ekki fyrr en málið hefur verið algjörlega útkljáð.

Arnar Geir Kárason (IP-tala skráð) 25.6.2010 kl. 14:18

7 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Stjórnvöldum fannst það óþarfi að setja lög um flýtimeðferð Hæstaréttar, vegna þessara lána. Segja það sé nóg að Hæstiréttur komi bara aftur saman í september, samkvæmt áætlun.  Það má alveg líta á þá ákvörðun stjórnvalda sem svo, að þau ætli að "græja" málið án "afskipta" Hæstaréttar, eða Alþingis sem kemur ekki saman aftur, fyrr en í september.

Kristinn Karl Brynjarsson, 25.6.2010 kl. 14:25

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Málið er í rauninni algerlega útkljáð Arnar.  Alla vega varðandi þessa tvo lánasamninga og annarra sömu gerðar, sem dómur Hæstaréttar, náði til.  

 Samkvæmt stjórnarskrá á Hæstiréttur lokaorðið.  Hæstiréttur úrskurðaði, annað viðmiðið, sem notað var til endurgreiðslu, ólögmætt, hitt ekki.  Það þýðir í stuttu máli, að lánssamningurinn er í fullu gildi, að því undanskildu að gengistryggingin, annað viðmiðið, er ólögmætt en hitt ekki.  Lánin skal því greiða til baka, samkvæmt þeim viðmiðum samningsins, sem standast lög.

Kristinn Karl Brynjarsson, 25.6.2010 kl. 14:33

9 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristinn, það verður sannarlega fróðlegt að fylgjast með þessu brölti ráðherranna næstu daga.  Ætli þeir sér að gera eitthvað, þá hlýtur það að verða fyrir mánaðamótin.  Þá verður mikið fjör og mikið gaman.

Axel Jóhann Axelsson, 25.6.2010 kl. 14:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband